Hæstiréttur íslands
Mál nr. 96/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Kyrrsetning
- Rannsókn
- Málshraði
|
|
Þriðjudaginn 10. febrúar 2015 |
|
Nr. 96/2015. |
Ákæruvaldið (Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál. Kyrrsetning. Rannsókn. Málshraði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði, sem tekin var í tengslum við rannsókn á ætluðu lögbroti X, um kyrrsetningu tiltekinna eigna hans. Var ekki talið að ákæruvaldið hefði veitt viðhlítandi skýringu á því af hverju rannsókn málsins hefði tekið á fimmta ár en það væri óhæfilega langur tími að virtu umfangi málsins. Þá færi dráttur á rannsókn málsins í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2015, þar sem felld var úr gildi kyrrsetning tiltekinna eigna varnaraðila sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði 19. nóvember 2010. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „fallist verði á kröfur ákæruvaldsins fyrir héraðsdómi.“ Þá krefst hann þess að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 310.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2015.
Mál þetta, sem er rekið á grundvelli 1. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, í tilefni af kröfu sóknaraðila sem barst dóminum 1. desember sl., var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 13. janúar sl.
Sóknaraðili er X, [...] í [...] og varnaraðili er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 115, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru að felld verði úr gildi kyrrsetning sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði þann 19. nóvember 2010 í máli nr. K-[...]/2010, þar sem kyrrsettar voru eftirtaldar eignir í eigu sóknaraðila: Bankareikningar í Íslandsbanka nr. [...] og [...], vörslureikningur í Íslandsbanka nr. [...], sem inniheldur bankareikningana nr. [...], [...], [...] og [...], hlutdeildarskírteini 1 B Sjóður 1B-skuldabréf útgr.sj, 5 Sjóður 5-ríkisskuldabréf, RIKI Ríkissafn-ríkisskbr. og innlán, VELTUS veltusafn-innl. ríkisbr.víxl og skuldabréfin RIKB [...] Ríkissjóður [...], RIKB [...] Ríkissjóður [...] og RIKIB [...] Ríkissjóður [...]. Þá gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
I.
Málavextir eru þeir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf rannsókn á ætluðum brotum sóknaraðila ásamt fleiri aðilum árið 2010 en í gögnum málsins kemur ekki fram hvenær nákvæmlega rannsóknin hófst. Upphaf hennar má rekja til tilkynningar frá tveimur bankastofnunum um grunsamlegar peningafærslur. Rannsóknin lýtur að ætluðu stórfelldu skattalagabroti og/eða fjársvikum gegn ríkissjóði sem og peningaþvætti, sbr. 1. mgr. 262. gr., 248. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem talið er að tollstjóri hafi með blekkingum verið fenginn til að greiða samtals 277.818.008 krónur til tveggja nafngreindra félaga sem endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna endurbóta á iðnaðarhúsnæði án þess að félögin ættu rétt til slíkrar endurgreiðslu. Greiðslurnar voru gerðar á grundvelli sérstakrar skráningar félaganna í virðisaukaskattskrá, sem varnaraðili telur að hafi verið gerð án þess að tilefni væri til slíkrar skráningar og hafi byggt á tilhæfulausum virðisaukaskattskýrslum. Meðal grunaðra í málinu eru sóknaraðili sem þá var starfsmaður [...] og afgreiddi erindi félaganna tveggja um sérstaka skráningu í virðisaukaskattskrá og samþykkti síðar innsendar virðisaukaskattskýrslur sem urðu tilefni endurgreiðslu. Fjárhæðirnar voru síðan smám saman teknar út af reikningum fyrirtækjanna, að mestu í reiðufé og er sú meðferð ávinnings af meintum brotum skoðuð sem peningaþvætti. Innlagnir og úttektir sem lögreglan rannsakar fóru fram í október 2009 fram í júní 2010.
Sóknaraðili sat í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá [...] september til [...] nóvember 2010. Þann 17. nóvember sama ár lagði varnaraðili fram beiðni hjá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði um kyrrsetningu eigna sóknaraðila til tryggingar kröfum að fjárhæð 277.330.155 krónur vegna greiðslu sakarkostnaðar, sekta og krafna ákæruvaldsins á grundvelli 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. a-lið 2. mgr. laga nr. 149/2009, um upptöku jafnvirðis ágóða af ætluðum brotum sóknaraðila gegn nánar greindum ákvæðum hegningarlaga og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Fallist var á kyrrsetningarbeiðni varnaraðila 19. s.m.
Á tímabilinu 29. september 2010 til 27. janúar 2011 var sóknaraðili yfirheyrður hjá lögreglu alls sjö sinnum. Áttunda og síðasta yfirheyrslan fór síðan fram 21. mars 2013.
II.
Sóknaraðili krefst þess að kyrrsetningunni, sem fram fór 19. nóvember 2011, verði aflétt. Um heimild til að bera ágreining um kyrrsetningu undir héraðsdóm vísar sóknaraðili til 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. og 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 3. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008 skuli ágreiningur skv. 2. mgr. 102. gr. borinn undir dómara í umdæmi þess lögreglustjóra sem stýrir rannsókn brots.
Sóknaraðili byggir á því að aðgerðir varnaraðila hafi valdið sóknaraðila og eiginkonu hans verulegu tjóni og óþægindum en sóknaraðili hafi ekki átt þess kost í rúmlega fjögur ár að nota bankareikninga sína eða nýta með öðrum hætti þær eignir er kyrrsettar hafi verið. Á bankareikningi hans hafi m.a. verið slysabætur vegna örorku sem sóknaraðili hafi fengið greiddar vegna vinnuslyss. Skaðabæturnar að fjárhæð [...] krónur hafi verið greiddar í einu lagi þann [...] 2004 inn á bankareikning sóknaraðila nr. [...] og hann hafi falið bankanum að ávaxta þær. Hafi þessi fjármunir verið meðal þeirra fjármuna sem kyrrsetningin tók til en samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 41. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. séu bæturnar undanþegnar aðför.
Sóknaraðili árétti að hann eigi enga hlutdeild í því máli sem lögreglan hafi nú haft til rannsóknar í rúmlega fjögur ár. Dráttur á rannsókn málsins hafi verið verulegur með tilheyrandi óþægindum fyrir sóknaraðila en enginn eigi að þurfa að þola það að vera sakborningur í máli svo árum skiptir. Hvað sem öðru líði sé með öllu óviðunandi að eignir sóknaraðila séu kyrrsettar í rúmlega fjögur ár án þess að nokkuð gerist í málinu. Sóknaraðili hafi verið án atvinnu allan þann tíma sem liðinn er frá upphafi rannsóknar málsins.
Kyrrsetning sé í eðli sínu bráðabirgðaráðstöfun sem eigi að standa í eins stuttan tíma og unnt sé. Samkvæmt meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þá segi í 2. mgr. að þess skuli þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Þær ráðstafanir sem lýst hefur verið brjóti í bága við þessa meginreglu sem og meginreglu 9. gr. sömu laga um málshraða. Þá beri öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Hliðstætt ákvæði er að finna í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 beri þeim sem rannsaka sakamál að hraða málsmeðferð eftir því sem kostur er. Með ákvæðinu sé þeim sem fyrir sök er hafður tryggður réttur til málsmeðferðar án óhæfilegs dráttar á öllum stigum. Sérstök þörf sé á að hraða málsmeðferð þegar sakborningur sætir þvingunaraðgerðum eða öðrum íþyngjandi aðgerðum sem takmarki frelsi hans eða forræði yfir eignum sínum. Tekið sé fram í 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 að þeir sem rannsaki sakamál skuli gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt sé eftir því sem á stendur. Stjórnarskrárvarinn rétt sóknaraðila til að njóta forræðis yfir eigum sínum leiðir til þess að aflétta beri kyrrsetningunni af ef rannsókn dregst úr hófi. Dráttur á rannsókn ætlaðra brota sóknaraðila sé með þeim hætti að í bága fari við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og laga. Beri því að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði frá 19. nóvember 2010 um að kyrrsetja fyrrgreindar eigur sóknaraðila.
III.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Byggir hann á því að það sé mat hans að ætluð brot, sem að framan er lýst, hafi ekki getað verið framin án fullrar vitneskju og atbeina sóknaraðila. Við rannsókn málsins hafi varnaraðili rannsakað og greint fjármál sóknaraðila og eiginkonu hans. Niðurstaða þeirrar greiningar bendi til aukinna umsvifa sóknaraðila með reiðufé, eftir að ætluð brot hófust. Ekki hafi með skýrum hætti verið unnt að rekja uppruna reiðufjár að fjárhæð 9.609,500 krónur sem sóknaraðili hafi notað á tímabilinu frá 21. október 2009 til vorsins 2011.
Sönnunarstaða málsins vegna ætlaðra brota sóknaraðila sé talin mjög sterk. Þá liggi fyrir að jafnvel þó dómstólar myndu taka hinn ótrúlega framburð sóknaraðila, þess efnis að hann hafi fundið svo mikla fjármuni á víðavangi og í kjölfarið slegið eign sinni á peningana, trúanlegan þá hafi hann engu að síður skapað sér refsiábyrgð samkvæmt 246. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er kveður á um ólögmæta meðferð á fundnu fé. Því sé ljóst að þeir fjármunir sem kyrrsettir hafi verið við rannsókn málsins verði með dómi gerðir upptækir. Sé í þessu sambandi vísað til upptökuákvæðis almennra hegningarlaga, sbr. 69. gr. og a-lið 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sé áréttað að fyrir hendi sé jafnvirðisupptökuheimild sem sé einkar víðtæk og taki m.a. til þeirra fjármuna sem sparast hafa hjá hinum brotlega í kjölfar hins refsiverða athæfis.
IV.
Svo sem að framan er rakið hófust rannsóknaraðgerðir lögreglu gegn sóknaraðila í september 2010. Hann sat í gæsluvarðhaldi frá [... ] september til [...] nóvember 2010 það ár og var yfirheyrður alls sjö sinnum á tímabilinu 29. september 2010 til 27. janúar 2011. Þann 17. nóvember sama ár lagði varnaraðili fram beiðni hjá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði um kyrrsetningu eigna sóknaraðila til tryggingar kröfum að fjárhæð 277.330.155 krónur og var fallist á þá beiðni 19. s.m. Áttunda og síðasta yfirheyrslan fór síðan fram 21. mars 2013.
Engar skýringar er að finna í gögnum málsins á þeim langa tíma sem liðinn er frá því framangreindar rannsóknaraðgerðir fóru fram en henni virðist að mestu lokið í janúar 2011 eða fyrir um fjórum árum. Fyrir dómi upplýsti varnaraðili að skýringanna væri að leita í miklum mannabreytingum innan lögreglunnar. Jafnframt kom fram að rannsókn málsins væri lokið og málið væri nú hjá ríkissaksóknara og biði ákvörðunar hans um framhald málsins.
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Hliðstætt ákvæði er að finna í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 ber þeim sem rannsaka sakamál að hraða meðferð máls eftir því sem kostur er. Sá sem er hafður fyrir sök er því tryggður réttur til málsmeðferðar án óhæfilegs dráttar á öllum stigum. Sérstök þörf er á að hraða málsmeðferð þegar sakborningur sætir þvingunaraðgerðum eða öðrum íþyngjandi aðgerðum sem takmarka frelsi hans eða forræði yfir eignum sínum. Er sérstaklega tekið fram í 3. mgr. sömu greinar að þeir sem rannsaki sakamál skuli gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur.
Í 3. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 eru ákvæði um það hvenær kyrrsetning samkvæmt greininni fellur niður. Enda þótt dráttur á rannsókn máls sé ekki meðal þess sem þar er talið upp leiðir af framangreindum ákvæðum stjórnarskrár og laga um að hraða beri málsmeðferð, að sakborningur geti átt réttmæta kröfu á því að aflétt sé þeim hömlum sem kyrrsetning leggur á stjórnarskrárvarinn rétt hans til að njóta forræðis yfir eigum sínum ef rannsókn dregst úr hófi. Vísast í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 684/2011. Svo sem að framan er lýst hefur varnaraðili ekki veitt neina viðhlítandi skýringu á því af hverju rannsókn máls sóknaraðila hefur tekið á fimmta ár sem er óhæfilega langur tími að virtum fyrirliggjandi gögnum um umfang málsins. Að mati dómsins geta tíðar mannabreytingar hjá varnaraðila ekki réttlætt svo miklar tafir á rannsókn máls.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja að dráttur á rannsókn ætlaðra brota sóknaraðila sé með þeim hætti að í bága fari við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og laga. Verður því felld úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði frá 19. nóvember 2010 um kyrrsetningu eigna sóknaraðila.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi kyrrsetning sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði þann 19. nóvember 2010 á tilteknum eignum sóknaraðila, X.
Varnaraðili, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.