Hæstiréttur íslands
Mál nr. 141/2004
Lykilorð
- Hæfi dómara
- Fjársvik
- Tilraun
|
|
Fimmtudaginn 7. október 2004. |
|
Nr. 141/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Benedikt Matthíassyni (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Dómarar. Hæfi. Fjársvik. Tilraun.
B var ákærður fyrir tilraun til fjársvika með því að hafa sett á svið umferðarslys í því skyni að svíkja út tryggingabætur. Taldi héraðsdómur, sem var skipaður sérfróðum meðdómendum, hafið yfir skynsamlegan vafa að B hafi gerst sekur um brot gegn 248. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hæstiréttur taldi ekki efni til að hnekkja þessu mati héraðsdóms. Þá var ekki talið að það ylli vanhæfi annars hinna sérfróðu meðdómenda að hann hafi fyrir 10-14 árum sem skólameistari í framhaldsskóla þar sem B var við nám rekið hann úr skólanum vegna áfengisneyslu. Var niðurstaða héraðsdóms um 5 mánaða fangelsisrefsingu B því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms, en til vara sýknu af kröfu ákæruvaldsins.
Af hálfu ákærða var lagt fyrir Hæstarétt bréf Vegagerðarinnar til verjanda hans 17. september 2004 um umferð um Vattarnesskriður milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Segir þar meðal annars, að sólarhringsumferð á Suðurfjarðarvegi sunnan Norðfjarðarvegar 27. ágúst 2002 hafi reynst 267 bílar. Miðað við upplýsingar sem fram komi í bréfinu megi áætla að umferð á Suðurfjarðarvegi austan við Kolfreyjustað þennan sama dag hafi verið rétt tæpir 200 bílar. Samkvæmt skráningu úr veðurstöð á Norðfjarðarvegi um Fagradal hafi umferð frá miðnætti til kl. 08.00 að morgni verið að meðaltali 5,3% af sólarhringsumferð árið 2002. Sé gert ráð fyrir að hlutfall næturumferðar á Suðurfjarðarvegi um Vattarnesskriður sé það sama verði niðurstaðan sú að umferð um Vattarnesskriður frá miðnætti til kl. 08.00 27. ágúst 2002 gæti hafa verið 10-11 bílar.
I.
Ómerkingarkrafa ákærða er á því reist, að annar sérfróðra meðdómsmanna í héraði, Helgi Ómar Bragason jarðeðlisfræðingur, hafi verið vanhæfur til að taka þátt í meðferð málsins þar sem hann hafi sem skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum rekið ákærða úr skólanum vegna áfengisneyslu er hann var þar við nám. Hafi þetta gerst fyrir 10-14 árum. Megi vænta þess að dómarinn hafi myndað sér fyrirfram skoðun á ákærða, sem sé til þess fallin að draga óhlutdrægni hans í efa, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Þótt meðdómandinn hafi í embætti sínu sem skólameistari fyrir allmörgum árum haft ofangreind afskipti af ákærða sem nemanda, þykja þau ekki þess eðlis að hann geti talist hafa verið vanhæfur til að taka sæti í dómi vegna máls þessa. Verður ómerkingarkröfu ákærða því hafnað.
II.
Eins og rakið er í héraðsdómi tilkynnti ákærði lögreglu um það bil hálfri klukkustund eftir miðnætti 27. ágúst 2002 að hann hefði misst stjórn á bifreið sinni MP-309 í Vattarnesskriðum þá skömmu áður. Í frumskýrslu lögreglu, sem Óskar Þór Guðmundsson varðstjóri skrifaði, er haft eftir ákærða að hann hafi ekið á um 60-70 km hraða miðað við klukkustund þegar hann hefði lent á steini. Við það hefði bifreiðin sveigt mjög til hægri og rifið stýrið úr höndum hans. Hefði hann getað opnað hurðina og kastað sér út og runnið smá spöl í skriðunni áður en honum tókst að stöðva sig og hafi hann heyrt að bifreiðin rúllaði langt niður eftir henni.
Í skýrslu, sem tekin var af ákærða síðar sama dag á lögreglustöðinni á Egilsstöðum, skýrði hann efnislega frá á sama veg en giskaði þó á að hraðinn hefði verið um 50 km/klst þegar stýrið kipptist fyrirvaralaust úr höndum hans og bíllinn sveigði til hægri. Hann staðfesti þó síðar fyrir dómi að hann hefði fyrst nefnt 60-70 km hraða við lögreglu. Hann kvaðst ekki hafa séð grjót á veginum en þegar hann hefði farið á vettvang með lögreglunni þá um nóttina hefði fundist þar stór steinn á veginum nærri hægri vegarkanti. Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar var hér um að ræða stein, sem var 35x25 cm í þvermál og 16 cm á hæð og var ákoma á honum, sem virtist vera eftir felgu og hjólbarða. Lá hann á veginum 90 cm frá kanti hans en út frá steininum í 40° miðað við akstursstefnu lágu hjólför út af vegbrúninni. Í málinu liggur fyrir mynd af steini þessum, sem tekin var um nóttina þegar lögreglan fór á vettvang ásamt ákærða.
Í héraðsdómi er nánar greint frá frumskýrslunni svo og rannsóknarskýrslu, sem undirrituð er af Elvari Óskarssyni lögreglumanni. Þar kemur meðal annars fram að fljótlega hafi vaknað grunsemdir um að ekki væri allt sem sýndist í málinu.
III.
Óskar Þór Guðmundsson lögregluvarðstjóri skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði farið með ákærða á vettvang þegar eftir að tilkynnt hafði verið um slysið og hefðu þeir verið komnir þangað 15-20 mínútum síðar. Hann kvaðst hafa tekið ljósmynd af fyrrnefndum steini áður en við honum var hreyft. Hafi þetta verið eini lausi steinninn á veginum. Hann kvaðst ekki hafa séð nein greinileg ummerki á veginum sjálfum, sem hafi verið harður. Greinilegustu hjólförin hafi verið úti í kantinum, þar sem vegurinn var linari. Aðspurður sagðist hann oft hafa komið að vettvangi umferðarslysa. Hann kvað það hafa vakið athygli sína strax að ekki hafi verið þarna nein „skrensför“ og hafi hann aldrei komið að umferðaróhappi þar sem hafi verið keyrt út af í svo kröppu horni án þess að slík för sæjust. Það hafi verið eins og bíllinn hefði ekkert runnið til þegar hann tók þessa kröppu beygju, en það sé vanalegt að slíkt sjáist. Aðspurður taldi hann, eftir að hafa rannsakað ummerki á vettvangi, að þau styddu ekki frásögn ákærða af atvikum, einkum þegar tekið væri tillit til þess hraða, sem hann taldi sig hafa verið á. Þá fannst lögreglumanninum, sem er jafnframt menntaður sjúkraflutningamaður, að ákærði hefði sloppið ótrúlega vel miðað við það sem á hefði gengið.
Lögreglumaðurinn fór síðar um nóttina aftur til að athuga vettvang og þá ásamt öðrum lögreglumanni. Taldi hann ummerki á vettvangi þá ekki hafa breyst. Hélt hann að hann hefði ekki mætt neinum bíl enda yfirleitt ekki mikil umferð á þessum tíma. Að lokinni athugun um nóttina fannst honum svo margt sem orkaði tvímælis, að rannsaka þyrfti málið betur. Árla morguns daginn eftir hafi hann farið ásamt fleiri lögreglumönnum til að rannsaka vettvang nánar og framkvæma mælingar. Við þá rannsókn hafi komið í ljós hjólför, sem lágu samsíða veginum, örfáum metrum lengra í akstursátt bílsins heldur en þar sem hann fór útaf, og hafi þau greinilega verið af sömu breidd og með sama mynstri. Samkvæmt mælingu reyndust þessi hjólför ná 4,2 m fram fyrir þann stað, þar sem bíllinn fór út af veginum.
Elvar Óskarsson lögreglufulltrúi stjórnaði rannsókn þeirri, sem fór fram á umræddum vettvangi og hófst þegar bjart var orðið. Fyrir dómi skýrði hann svo frá að hann hefði rannsakað fjölda umferðarslysa og áður farið á vettvang, a.m.k. þrisvar eða fjórum sinnum, þar sem bílar hefðu farið út af veginum í Vattarnesskriðum. Við komu á vettvang hafi sér virst vera ósamræmi milli ummerkja og þess sem sagt hafði verið um atburðinn. Bílar sem fari fram af kanti á eðlilegum hraða „rúni“ ekki brúnir eins og hér hafi gerst. Þá sé venjulegt að ekkert rask sé á ákveðnu svæði næst vegarbrún því að um nokkurt flug sé jafnan að ræða. Í þessu tilviki hafi verið dekkjaför rétt fyrir neðan vegbrúnina. Sér hafi fundist sem bifreið ákærða gæti ekki hafa verið á mikilli ferð þegar hún fór fram af veginum, en á þessum tíma hafi hann miðað við 60-70 km/klst eins og ákærði hafði fyrst gefið upp. Þá bar hann um för, sem lágu í vegkantinum fram fyrir útafakstursstaðinn, sem voru alveg eins og för bifreiðarinnar.
IV.
Eins og fram kemur í héraðsdómi fór lögreglan á Eskifirði þess á leit við Þorstein Vilhjálmsson prófessor að hann léti í té álitsgerð vegna rannsóknar málsins á tilteknum atriðum varðandi útafakstur bifreiðarinnar MP-309 27. ágúst 2002. Við meðferð málsins fyrir Héraðsdómi Austurlands var Magnús Þór Jónsson prófessor dómkvaddur til að fjalla um niðurstöður álitsgerðar Þorsteins.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir niðurstöðum prófessoranna, en við útreikninga þeirra var gengið út frá því að útafakstur hefði átt sér stað á 40-50 km hraða. Í niðurstöðu Þorsteins kemur fram, að enginn vafi væri á því, að bíllinn færi á flug ef hann færi út af vegbrúninni með þeim hætti sem lýst var. Hann hefði færst um 18 metra í lárétta stefnu en um 21 meter mælt eftir brekkunni, en hraði hafi veruleg áhrif á þessar tölur. Að mati hans sýndu öll ummerki, gögn og útreikningar, að miklu líklegra væri að hraði bifreiðarinnar hefði verið 5-10 km/klst heldur en 40-50 km/klst.
Meginniðurstöður Magnúsar Þórs eru þær að samkvæmt athugun á yfirborði vegar sé mesti hraði bifreiðarinnar þegar hún ók frá steininum út af veginum innan við 30 km/klst. Líklegast sé, að hún hafi verið á minni hraða en 23 km/klst, en tekið er fram að forsendur fyrir þessum útreikningum sé staðhæfing lögreglu um að steinninn, sem ekið var á, hafi ekki hreyfst við höggið. Hafi steinninn kastast til við höggið eða dregist undir bílnum, geti hraðinn hafa verið umtalsvert hærri. Þá er það niðurstaða matsmannsins að samkvæmt umróti sem sést á myndum, þar sem bifreiðin fer niður skriðuna, sé ólíklegt að hún hafi verið á meiri hraða en 20 km/klst þegar hún fór fram af brúninni.
Þorsteinn Vilhjálmsson var spurður fyrir dómi hvaða afleiðingar það kynni að hafa fyrir ökumann að fara út úr bifreið við útafakstur miðað við uppgefinn hraða. Hann svaraði því til að hann teldi ekki hægt að hugsa sér að maður færi út úr bíl á svona flugi án þess að fá verulega áverka af því. Sé hraðinn minni eins og t.d. 5-10 km/klst geti ökumaður farið í rólegheitum út. Hann giskaði á að bíllinn færi að fljúga á 20-30 km hraða. Hann taldi útilokað að árekstur bifreiðarinnar á eðlilegum hraða, það er 40-50 km/klst, við umræddan stein breytti hraða hennar að nokkru ráði heldur einungis óverulega. Hann taldi rannsókn lögreglunnar hafa verið betri en hann hefði oft séð við rannsókn slíkra mála og taldi ljósmyndir hennar og mælingar góðar til að draga ályktanir af.
Magnús Þór Jónsson sagði fyrir dómi að það væri alveg ljóst af myndum af hjólförum bifreiðarinnar í vegbrúninni að hjólin hafi ekkert dregist til. Hraði upp á 40-50 km/klst komi ekki til álita, hann geti hafa verið milli 20 og 30 km/klst en það hversu skýrt hjólfarið sé bendi til að hraðinn hafi verið lægri. Þá sagði hann að ef ekið hefði verið yfir steininn og bíllinn ekki náð að draga hann hafi engin ummerki komið og hraðabreyting orðið lítil. Hefði steinninn dregist með hefðu sést ummerki á veginum. Öll hraðaminnkun þarna hefði skilið eftir sig einhver ummerki og í þessu tilviki hefðu það verið ummerki um að steinn hefði dregist eftir veginum. Þá kvað hann það ljóst að hefði bifreiðin verið á 50 km hraða þá hefðu orðið nokkuð margir metrar áður en sést hefði rót eftir hana í skriðunni en samkvæmt mælingu hans sáust för eftir bifreiðina fyrir neðan veginn, 2,7 m frá stiku, sem var innan við vegbrún. Þá tók Magnús fram að hann hefði eingöngu reiknað út hugsanlegan hámarkshraða en ekki athugað hver hefði getað verið minnsti hraði miðað við ummerki.
V.
Fyrir dómi sagði ákærði að hann hafi ekki verið að fylgjast með hraða bifreiðarinnar en hann giskaði á að hún hefði verið á um 50 km hraða áður en hún lenti á steininum en gerði sér enga grein fyrir hve hraðinn var er bifreiðin fór út af veginum. Hann kvaðst hafa verið að koma út úr nokkuð krappri beygju áður en þetta gerðist og hafi þá hægt á ferðinni. Þá sagðist hann alloft hafa keyrt þennan veg. Við það að lenda á steininum hafi dregið eitthvað úr hraðanum og hann hafi misst stjórn á bílnum og allt hafi þetta gerst með snöggum hætti. Hann kvaðst hafa komist út úr bílnum þegar hann var kominn fram af veginum og hafi hann lent í brekkunni. Hafi hann lent fyrst á öxlinni og síðan runnið niður góðan spotta.
Af hálfu ákærða er lögð áhersla á að þær upplýsingar, sem ákærði hefur gefið um ökuhraða sinn hafi verið ágiskanir af hans hálfu, en margvíslegir þættir geti hafa haft áhrif á skynjun hans og upplifun um þetta. Verði að túlka framburð hans svo að hann hafi í raun ekki gert sér grein fyrir á hvaða hraða hann var áður en bifreið hans fór út af veginum og sé engin ástæða til að draga það í efa. Mjög líklegt sé að bifreiðin hafi hægt ferðina við að fara yfir umræddan stein áður en hún lenti út af veginum og hefðu vegsummerki um slíkt hæglega getað máðst út áður en lögregla rannsakaði vettvang enda sé ljóst að nokkrir bílar hafi ekið um veginn áður en vettvangur var rannsakaður. Þá er bent á áverka á ákærða, sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi.
VI.
Í hnotskurn verður að túlka frásögn ákærða svo, að hann hafi umrætt sinn ekið á eðlilegum ökuhraða um Vattarnesskriður þegar bifreið hans lenti skyndilega á steini með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á henni og hún sveigði til hægri og lenti út af veginum. Honum hafi tekist að kasta sér út úr bifreiðinni eftir að hún lenti út af veginum og hann runnið nokkuð niður skriðuna.
Eins og fram er komið töldu lögreglumenn, sem komu á vettvang og rannsökuðu hann að ummerki þar kæmu ekki heim og saman við frásögn ákærða. Ekki hafi sést merki um skrið eða „skrens“ í veginum í framhaldi snöggrar hraðabreytingar, hjólförin í gljúpri vegbrúninni hafi verið skýr og jafnframt „rúnnuð“ þar sem bifreiðin fór út af veginum, og rask og för eftir hana hafi sést rétt fyrir neðan vegbrún. Allt benti þetta til þess að bifreiðinni hefði verið ekið hægt út af veginum. Þá vakti það athygli lögreglu að hjólför, sem virtust vera eftir bifreið ákærða, hafi legið 4,2 m fram fyrir stað þann, er bifreiðinni var ekið út af og enduðu þar. Gæfi það tilefni til að ætla að bifreiðinni hefði verið ekið þarna aftur á bak áður en henni var ekið út af veginum.
Hafa verður í huga að lögreglumenn þeir, sem hér áttu hlut að máli, voru vanir rannsókn á slysavettvangi við svipaðar aðstæður og hér var. Þá ber að líta til þess að Óskar Þór Guðmundsson lögregluvarðstjóri kom á vettvang með ákærða mjög fljótlega eftir atburðinn og gerði þar frumathuganir. Myndaði hann meðal annars umræddan stein á veginum áður en hann var hreyfður. Hann kvaðst engin merki hafa séð um skyndilega hraðabreytingu þarna á veginum. Þrátt fyrir myrkur verður að telja að unnt hafi verið að sjá vettvang í stórum dráttum og ekki er ástæða til að ætla að önnur umferð hafi á þessum tíma verið búin að spilla ummerkjum. Af rannsóknargögnum verður og að telja ljóst að för og ummerki í vegbrúninni hafi verið óbreytt er rannsókn hófst morguninn eftir.
Niðurstöður og framburður þeirra sérfróðu manna, sem kallaðir voru til vegna rannsóknar og dómsmeðferðar málsins eru á þann veg að þær styðja á flestan hátt grunsemdir lögreglumannanna. Verður að telja það eindregna niðurstöðu þeirra að bifreiðin geti ekki hafa verið nálægt tilgreindum hraða, er henni var ekið út af veginum umrætt sinn. Jafnframt hefðu átt að sjást ummerki eftir verulega hraðabreytingu á veginum sjálfum. Ekki er ástæða til að ætla annað en að ákærði sem vanur ökumaður gæti gert greinarmun á þeim hraða, sem hann gaf upp við rannsókn og meðferð málsins og þeim hraða, sem gögn benda til að hann hafi verið á, er bifreiðin fór út af veginum. Samkvæmt áliti sérfræðinganna hefði slík hraðaminnkun sem fyrr segir ekki getað átt sér stað án ummerkja.
Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, byggði niðurstöðu sína meðal annars á framangreindum gögnum og taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði gerst sekur um atferli það, sem hann er hér ákærður fyrir. Þegar litið er til þess, sem rakið hefur verið, eru ekki efni til að hnekkja því mati og verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða því staðfest.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Einnig verður staðfest málskostnaðarákvæði hans.
Dæma ber ákærða til greiðslu áfrýjunarkostnaðar eins og segir í dómsorði.
D ó m s o r ð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Geirs Þórissonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 17. mars 2004.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 12. febrúar 2003 á hendur Benedikt Matthíassyni, kennitala [...], Laufengi 3, Reykjavík “fyrir tilraun til fjársvika með því að hafa, mánudagskvöldið 26. ágúst 2002, í því skyni að svíkja út tryggingabætur fyrir bifreiðina MP-309, sett á svið umferðarslys í Vattarnesskriðum við Hestagil milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, með því að láta bifreiðina renna af þjóðveginum niður fjallshlíð svo að hún lenti niður í fjöru og stórskemmdist. Bifreiðin var vátryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu og kaskó-tryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni og tilkynnti ákærði tjónið til vátrygginga-félagsins og óskaði eftir því að fá tjónið bætt”.
Telst þetta varða við 248. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda greiðist úr ríkissjóði.
I.
Þriðjudaginn 27. ágúst 2002 kl. 00:33 tilkynnti Benedikt Matthíasson, ákærði í máli þessu, lögreglu í gegnum Neyðarlínu að hann hefði ekið á stein á veginum í Vattarnesskriðum og við það misst stjórn á bílnum og lent út af. Kvaðst hann hafa ekið með 60-70 km/klst. Honum hafi tekist að kasta sér út úr bílnum sem hefði rúllað eitthvað langt niður og væri hann nánast ómeiddur. Hann hafi náð að krafla sig upp á veginn og gengið í átt til Fáskrúðsfjarðar en aðeins verið búinn að ganga 100-200 m þegar hann fékk far með einhverjum Range Rover jeppa. Hann hafi verið að koma frá því að heimsækja vin sinn á Fáskrúðsfirði og verið á leið til baka til Hallormsstaðar þar sem hann dveldi í sumarfríi. Hann kvaðst halda að bíllinn væri kaskótryggður.
Í skýrslu lögreglu er útiliti og ástandi ákærða lýst svo að hann hafi verið “drullugur” á höndum, en mest á vinstri handlegg og öxl. Ekki hafi aðra áverka verið að sjá en örlitlar rispur á vinstri handlegg sem nánast ekkert hafi blætt úr. Ákærði hafi kvartað um verki í vinstri öxl og höfuðverk. Hann hafi verið í stutterma bómullarbol og buxum úr ullarefni. Fötin hafi verið heil og órifin. Skór hafi verið með litlu munstri á sólum og ekki hafi verið að sjá neinar rispur á þeim.
Lögregla fór með ákærða á vettvang. Hafði bíll ákærða farið út af í svokölluðu Hestagili í Vattarnesskriðum og í stórgrýttri fjörunni við sjávarmál um 130 m neðan vegar grillti á flak bílsins. Steinn var á veginum 90 cm frá glitstiku í kantinum og var ákoma á honum sem virtist vera eftir felgu og hjólbarða. Út frá steininum lágu hjólför út af kantinum.
Farið var með ákærða á heilsugæslustöðina á Fáskrúðsfirði þar sem læknir skoðaði hann. Í læknisvottorði kemur fram að ákærði hafi allur verið í mold/ryki á vinstri öxl og upphandlegg. Hann hafi verið með nokkur eymsli yfir öxlinni og upphandleggnum og honum finnist vont að “abductera” axlarliðinn gegn mótstöðu en hafi fulla hreyfigetu í liðnum. Annað sem athugað var reyndist eðlilegt.
Ákærði undirgekkst öndunarpróf og sýndi það 0,00.
Tryggingamiðstöðinni, tryggingarfélagi ákærða, var tilkynnt um slysið.
Lögregla fór aftur á vettvang og var m.a. sigið niður að bílnum. Í ljós kom að bíll ákærða, MP-309 af tegundinni Audi A8 árgerð 1995, reyndist gjörónýtur. Samkvæmt því sem fram kemur í lögregluskýrslu er viðmiðunarverð þannig bíls kr. 3.250.000.
Ákveðið var að láta vettvanginn óhreyfðan fram í birtingu og fá þá rannsóknadeild til að aðstoða við rannsókn.
Farið var á vettvang á ný kl. 08:30 um morguninn og vettvangur mældur, ljósmyndaður og teiknaður. Samkvæmt því sem fram kemur í rannsóknarskýrslu vöknuðu strax grunsemdir um að ekki væri allt sem sýndist í málinu.
Vattarnesskriðum þar sem slysið varð er lýst þannig í rannsóknarskýrslu að þar sé brött hlíð bæði ofan vegar og neðan. Halli hlíðarinnar niður að sjó sé um 40°. Vegurinn í skriðunum sé malarvegur með leirkenndu yfirborði og þar sem yfirborð vegarins hafi verið þurrt hafi það verið mjög þjappað og líkast bundnu slitlagi, en smá holur hafi verið í veginum. Kantar hafi hins vegar ekki verið þjappaðir og hafi mótað í þá ef ekið var utarlega.
Steinn sá sem ákærði kvaðst hafa ekið á var 90 cm inn á veginum mælt beint út frá glitstiku í kantinum. Reyndist hann vera 35x25 cm og 16 cm hár og um það bil 12 kg. Á steininum var ákoma (gúmmífar) líkt og ekið hefði verið utan í hann. Ekkert rask var á veginum eftir steininn.
Í vegbrúninni þar sem bíll ákærða hafði farið út af voru hjólför á tveimur stöðum sem rúnuðu brúnina um 40° út frá veginum. Milli faranna voru 2,65 m og var far það sem sunnar var í vegbrúninni 3 m frá steininum. Þá var hjólfar í vegkantinum af sömu gerð og endaði það 4,20 m norður frá vinstra hjólfarinu í brúninni. Á veginum sjálfum fundust engin hjólför. 60 cm neðan við brúnina þar sem vinstra hjólfarið lá fram af veginum var far eftir hjólbarða bifreiðarinnar.
Á leiðinni frá vegbrúninni hafði bíllinn farið um stórgrýti og fram af 4-5 m kletti ofan við fjöruborðið áður en hún stöðvaðist í stórgrýttri fjörunni um 130 m frá vegbrún.
Leið bílsins var aldrei meiri en sem nemur 3 metrum í norður frá þeim stað þar sem hún fór fram af en hún fór lengst út frá leiðinni 3 metra í norður 10 metrum neðan við vegbrúnina. Eftir það var ferill hennar niður ýmist beint neðan við þann stað sem hún fór út af eða lítið eitt norðan við hann.
Ekkert brak var úr bifreiðinni fyrr en um 30 m fyrir neðan vegbrún en þar var svunta undan henni. Neðar var alls konar brak á víð og dreif alla leið niður í fjöru.
Hlíðin neðan við veginn er skorin og með smá hryggjum ásamt því að stórgrýti er á víð og dreif. Yfirborðið er þunnt lag af sandi eða fínni möl ofan á nokkuð hörðu leirkenndu yfirborði. Í hlíðinni voru skóför og mældust þau byrja 16,5 m frá brún vegarins. Önnur ummerki eftir mann voru ekki sjáanleg.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu sem vitni daginn eftir slysið en hinn 17. október 2002 gaf hann hins vegar skýrslu sem grunaður.
Ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi í umrætt sinn verið á leið á bíl sínum MP-309, sem hafi verið í topplagi, frá Fáskrúðsfirði til Hallormsstaðar. Vegurinn, sem sé malarvegur með tilheyrandi holum, hafi verið blautur. Hann hafi verið vel upplagður og bílljósin hafi lýst veginn vel. Beygjur hafi verið á veginum og hafi hann verið nýkominn úr vinkilbeygju þegar stýrið hafi fyrirvaralaust kippst úr höndunum á honum og bíllinn sveigt til hægri og lent út af. Hann hafi misst stjórn á bílnum af því að hann hafi ekið á stein sem hann hafði ekki veitt athygli. Hann hafi ekki verið að fylgjast með hraðamæli en hann giski á að hann hafi ekið með 50 km/klst. Hann haldi að hann hafi ekið með hægra framhjól á steininn en við það hafi eitthvað dregið úr hraða bílsins. Hann kannist við að hafa sagt lögreglu á vettvangi að hann hafi ekið á 60-70 km/klst. Hann hafi orðið mjög hræddur og hans fyrst hugsun hafi náttúrulega verið að koma sér út úr bílnum sem honum hafi tekist enda hafi hann ekki verið í bílbelti. Hann hafi lent á vinstri hliðinni í hlíðinni neðan við vegbrúnina og runnið eitthvað áður en honum tókst að stöðva sig 20 til 30 m neðan við veginn. Við þetta hafi hann rispast og öxlin á honum gengið til. Það hafi tekið hann einhvern tíma að skríða upp á veginn. Hann hafi verið búinn að ganga í 15 til 20 mínútur þegar hann fékk far með hvítum jeppa en hann viti ekki af hvaða tegund. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði hins vegar hafa fengið far með jeppa þegar hann var búinn að ganga u.þ.b. 200 m en ekki vita af hvaða tegund né hvernig á litinn. Ákærði kveður það rangt sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu að hann hafi sagst hafa fengið far með Range Rover jeppa.
Ákærði kveðst hafa verið búinn að skrá bílinn á einhverjar bílasölur og hafa verið búinn að reyna lauslega að selja hann. Hann hafi keypt bílinn á 3,3 milljónir króna og hafa sett á hana í kringum 3 milljónir. SP fjármögnum hafi lánað honum til kaupa á bílnum en hann hafi ekki vitað hvað hann skuldaði í honum. Lánið hefði verið í vanskilum og hann nýbúinn að greiða 400.000 krónur til innheimtulögfræðings.
Sérstaklega aðspurður kvað ákærði afborganir af bílnum, um 70.000 krónur á mánuði, ekki hafa verið þungar miðað við tekjur hans á þessum tíma en vildi ekki upplýsa hverjar þær voru. Síðar kom fram hjá ákærða að hann hefði átt í erfiðleikum með að standa skil á greiðslu tryggingariðgjalda af bílnum og því hafi hann ekki vitað hvort hann var í kaskó. Þegar ákærða var bent á það misræmi sem fælist í því að hann segðist í öðru orðinu ekki hafa átt í erfiðleikum með greiðslu hárra afborgana af bílnum og í hinu að hann hefði átt í erfiðleikum með greiðslu tryggingariðgjalda kvað hann mega segja að hann hafi átt í erfiðleikum með greiðslu afborgana á þeim tíma sem slysið varð.
Við lögreglurannsókn málsins var tekin skýrsla af B sem ákærði kveðst hafa verið að koma frá því að heimsækja í umrætt sinn. Hann kvað ákærða ekki hafa heimsótt sig frá því í gamla daga. Síðast hefði hann hitt ákærða í bænum í júlí en ekki heyrt í honum eftir það fyrr en umrætt kvöld um kl. 22:00 þegar ákærði hafi hringt í hann og sagst vera staddur á Fáskrúðsfirði. Hann hafi þá verið nýkominn heim til Óla Heiðars Árnasonar að Skólabrekku 4 á Fáskrúðsfirði en engu að síður sagt ákærða að koma og kíkja á sig. Hann hafi farið með ákærða á rúntinn í e.t.v. 40 mínútur en síðan hafi ákærði ekið honum aftur heim til Óla Heiðars. Um miðnætti hafi hann svo heyrt í Range Rover bifreið fyrir utan húsið og síðan hafi dyrabjöllunni verið hringt. Hafi ákærði þar verið kominn aftur og hafi hann sagst hafa lent út af veginum.
Við lögreglurannsókn málsins var einnig tekin skýrsla af Óla Heiðari Árnasyni. Staðfesti hann að B hefði verið hjá honum umrætt kvöld og kvað hann þá hafa verið að drekka bjór. Þá staðfesti hann að ákærði hefði hringt í B og síðan sótt hann og þeir farið á rúntinn í u.þ.b. 20 mínútur. B hafi síðan komið til baka en ákærði farið án þess að koma inn. Tveimur eða þremur tímum seinna hafi verið bankað og hann farið til dyra. Hafi ákærði þá verið kominn aftur og spurt eftir B. Ákærði hafi komið á hvítum Range Rover sem hafi verið gamall og breyttur, e.t.v. á 33” dekkjum og ekki á upprunalegum felgum. Bíllinn hafi verið svipaður þeim sem B eigi. Hann minni að hann hafi verið með svarta brettakanta og hann haldi að skráningarnúmerin hafi verið ný.
Auglýst var eftir bíl þeim sem tók ákærða upp í og ók honum til Fáskrúðsfjarðar eftir slysið bæði í hádegisfréttum og dagblöðum en án árangurs. Hins vegar upplýstist að þegar ákærða var ekið áleiðis til Hallormsstaðar eftir slysið hefði kunningi hans, A, komið akandi á móts við hann á hvítum Range Rover jeppa. Vaknaði því grunur um að hann kynni að hafa ekið ákærða af vettvangi eftir slysið.
Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst A á umræddum tíma hafa starfað við Fosshótelið á Hallormsstað og hefði ákærði verið búinn að dvelja hjá honum í u.þ.b. viku þegar slysið varð en hann hafi ekki vitað af því fyrr en ákærði hringdi í hann um nóttina. Ákærði hafi þá sagst vera rétt ókominn til Egilsstaða og beðið hann að koma á móti sér. Hann hafi farið á móti ákærða á hvítum Range Rover jeppa foreldra sinna sem sé mjög gamall, líklega eldri en árgerð 1975, 2ja dyra með svörtu þaki á gömlum númerum. Hann hafi mætt bíl þeim sem ók ákærða skammt innan við Egilsstaði og hafi ákærði komið yfir í bílinn til hans og hann síðan ekið beinustu leið til baka á Hallormsstað. Lengra hafi hann ekki farið á bílnum umrætt kvöld.
Með bréfi dagsettu 28. ágúst 2002 fór lögreglan á Eskifirði fram á það við Þorstein Vilhjálmsson prófessor að hann legði mat á tiltekin atriði varðandi slysið. Í bréfinu segir orðrétt: Þann 27. ágúst 2002 var bifreið, eigin þyngd 1815 kg líkleg heildarþyngd 1950 kg, breidd 188 sm og lengd 503sm, ekið út af vegi, sjá mynd A. Halli á umræddum stað var mældur og er ekki minni en 40°, sjá mynd B sem tekin er af hlíðinni.
Þess er óskað að lagt verði mat á:
1. Hvort líkur séu á að bifreið sem færi út af, sjá mynd A-B, kæmi niður á hjólunum.
2. Hvort bifreið, sem hefði verið á 40-50 km/klst., færi á flug af kantinum þar sem hún fór út af.
3. Hvað líklegt væri að slík bifreið myndi fljúga langt, við gefnar forsendur, áður en hún kæmi niður, ef hún á annað borð færi á flug.
Ítarleg og rökstudd álitsgerð prófessorsins er frá því í september 2002. Í niðurstöðu álitsgerðarinnar er ofangreindu spurningum svarað þannig:
1. Ekki er útilokað að bíll með tilgreindum hraða kæmi niður á hjólunum í þeim skilningi að eitthvert hjólið næmi fyrst við jörð og síðan hin. Hitt er ólíklegt að bíllinn mundi lenda þannig í hallanum í brekkunni að öll hjólin næmu við jörð samtímis. Heildarsnúningurinn yrði hins vegar ekki nægur til þess að bíllinn lenti á þakinu en hugsanlegt er þó að hann lendi á hægri hliðinni eða þá þannig að hann velti strax yfir á hana. Hvað sem þessu líður er afar ólíklegt að bíllinn yrði lengi á hjólunum ef hann lendir á þeim á annað borð.
2. Enginn vafi er á því að bíllinn fer á flug ef hann fer út af vegbrúninni með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Massamiðja bílsins fer þá mest í um það bil 2,6 metra hæð umfram það sem hún væri ef bíllinn væri á jörðinni beint fyrir neðan. Flug bílsins tæki að öllum líkindum um 1,4 sekúndur, ef til vill eitthvað skemmri tíma ef hann snýst umtalsvert.
3. Bíllinn færist um 18 m í lárétta stefnu en um 21 m mælt eftir brekkunni. Færsla bílsins, flugtími og hámarkshæð yfir brekkunni yrðu 20% meiri eða minni ef hraði hans er 10% meiri eða minni, þannig að hraðinn hefur veruleg áhrif á þessar tölur.
Í heildarmati á atburðarásinni skiptir einnig sköpum að bíllinn hefði verulegan hraða í lendingu. Hann fengi því verulegt högg frá skriðunni og það mundi meðal annars leiða til þess að hann færi að velta eftir lendinguna hvernig sem hann hefði snúið þegar hann lenti.
Því er svo við að bæta að bíllinn hefði ekki tekist á loft svo að neinu nemi ef hraði hans hefði til dæmis verið 5-10 km/klst. Að mati skýrsluhöfundar sýna öll ummerki, gögn og útreikningar að sú tala sé miklu nær lagi um raunverulegan hraða bílsins en 40-50 km/klst.
Í þágu rannsóknar málsins óskaði lögregla eftir ýmsum upplýsingum frá Tryggingamiðstöðinni. Í svarbréfi tryggingafélagsins kemur fram að ákærði hafi verið eigandi og vátryggingartaki bifreiðarinnar MP-309 frá 18. apríl 2001 og að bifreiðin hafi frá þeim tíma verið vátryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu og kaskótryggingu. Ákærði hafi tilkynnt um tjónið til félagsins og óskað eftir að fá það bætt en þó ekki sett fram skriflega kröfu þar að lútandi. Félagið hafi hins vegar ekki bætt tjónið. Ákærði hafi áður lent í umferðaróhappi á bifreiðinni þann 26. janúar 2002 og hafi verið talin ástæða til að rannsaka það tilvik frekar. Tjón á bifreiðinni hafi verið verulegt og hafi ákærði sótt það fast að fá bifreiðina greidda út en félagið hafi kosið að láta framkvæma viðgerð á bifreiðinni sem hafi kostað samtals kr. 1.962.644.
Með beiðni skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Geirs Þórissonar hrl., dagsettri 10. apríl 2003 var þess farið á leit við dóminn að dómkvaddur yrði mats- og skoðunarmaður til að framkvæma endurskoðun á álitsgerð Þorsteins Vilhjálmssonar prófessors. Er í matsbeiðninni nánar tilgreint hvaða atriða beiðst er mats og skoðunar á. Hinn 15. apríl s.m. var Magnús Þ. Jónsson prófessor í vélaverkfræði dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat. Með símbréfi dagsettu 12. ágúst 2003 tilkynnti matsmaðurinn að hann myndi við matið svara eftirfarandi spurningum:
- Hver er mögulegur hámarks- og lágmarkshraði þegar bifreiðin MP-309 fór fram af þjóðvegi 96 í Vattarnesskriðum.
- Hver er líklegasta hreyfing bílsins áður en hann fór fram af veginum.
Í bréfinu tekur matsmaðurinn fram að í matsgerðinni muni hann tilgreina allar forsendur, óvissuþætti og áhrif þeirra á niðurstöðurnar. Jafnframt að hann muni við úrvinnslu matsgerðarinnar hafa til hliðsjónar spurningar þær sem í matsbeiðninni greini.
Matsgerð matsmannsins er dagsett 12. október 2003. Í matsgerðinni kemur fram að til að athuga betur mælingar lögreglu hafi verið ákveðið að halda framhaldsmatsfund á vettvangi. Þá hafi myndir verið athugaðar og steinninn skoðaður. Skoðun á myndunum hafi leitt í ljós að staðsetning á hjólfari neðan við vegbrúnina var ekki rétt. Því hafi verið farið aftur á vettvang og mælingar endurteknar. Við mælingu hafi komið í ljós að umrætt hjólfar hafi verið 2,7 m frá stikulínu en ekki 0,6 m frá vegbrún eins og fram komi í rannsóknargögnum lögreglu. Þá leiddu mælingar hans í ljós að hornið sem bíllinn beygir er um 32° og hallinn í skriðunni fyrir neðan veginn um 47°.
Samantekt á niðurstöðum matsmannsins er eftirfarandi:
1. Samkvæmt athugun á yfirborði vegar, er mesti hraði, sem bifreiðin MP-309 gat verið á, þegar hún ók frá steininum út af veginum, innan við 30 km/klst. Líklegast er, að hún hafi verið á minni hraða en 23 km/klst. Það skal tekið fram að forsendur fyrir þessum útreikningum er staðhæfing lögreglu á því, að steinninn sem ekið er á hafi ekki hreyfst við höggið. En samkvæmt rannsóknarskýrslu lögreglu var steinninn 0,9 m út frá stiku eins og sýnt er á mynd 2 fyrir og eftir árekstur. Á það skal bent, að ef steinninn hefur kastast til við höggið eða dregist undir bílnum, getur hraðinn hafa verið umtalsvert hærri.
Samkvæmt umróti sem sést á myndum, þar sem bifreiðin fer niður skriðuna, er ólíklegt að hún hafi verið á meiri hraða en 20 km/klst þegar hún fer fram af brúninni. Þetta sést greinilega af myndum 4 og 5.
2. Samkvæmt ljósmyndum og athugunum lögreglu á hjólförum ekur bifreiðin MP-309 á stein, sem er 0,9 m frá vegbrún við stiku. Við það sveigir bifreiðin í 32° út af vegbrúninni og fer fjærst innan við 10 m frá stiku og síðan nokkuð beint niður 47° bratta skriðu.
II.
Bíll ákærða fór út af veginum í Vattarnesskriðum að kvöldi mánudagsins 26. ágúst 2002. Í skriðunum er meðaltals halli niður til sjávar um 40°. Samkvæmt mælingu matsmannsins Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors er hallinn á skriðunni neðan við veginn meiri eða 47°. Frá vegbrún niður í fjöru þar sem bíllinn hafnaði eru um 130 m. Vegurinn á umræddum stað er bugðóttur malarvegur með leirkenndu yfirborði. Samkvæmt því sem fram kemur í lögregluskýrslu var yfirborð vegarins mjög þjappað og líkast bundnu slitlagi, en með smá holum. Kantar voru hins vegar ekki þjappaðir.
Ákærði var í umrætt sinn að koma frá Fáskrúðsfirði þar sem hann hafði hitt kunningja sinn, B, og á leið til Hallormsstaðar þar sem hann dvaldi. Kveðst ákærði hafa náð að kasta sér út úr bílnum eftir að hann fór út af rétt neðan við vegbrúnina og náð að krafla sig upp á veginn. Hann hafi síðan verið búinn að ganga í 15 til 20 mínútur þegar hann fékk far á Fáskrúðsfjörð. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði hins vegar hafa verið búinn að ganga 100-200 m þegar hann fékk far. Ákærði kveðst hafa fengið far með með hvítum jeppa en hann viti ekki af hvaða tegund. Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir ákærða að hann hafi fengið far með Range Rover jeppa og hefur Óskar Þór Guðmundsson lögregluvarðstjóri staðfest að ákærði hafi sagst hafa fengið far með hvítum Range Rover jeppa. Þykir framburður ákærða um að hann viti ekki af hvaða tegund jeppinn var ótrúverðugur. Þá er á það að líta að B skýrði frá því við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði heyrt í Range Rover áður en ákærði knúði dyra hjá honum eftir slysið og C sem B var í heimsókn hjá kvað ákærða hafa komið á gömlum breyttum hvítum Range Rover, svipuðum þeim sem B eigi. Þeir B og C gáfu ekki skýrslu fyrir dóminum.
Eftirgrennslan eftir jeppanum sem ákærði fékk far með leiddi í ljós að kunningi ákærða, A, sem ákærði dvaldi hjá á Hallormsstað hefði til umráða hvítan Range Rover jeppa. Við skýrslutöku hjá lögreglu staðfesti A að hann hefði umrædda nótt eftir slysið farið á jeppanum, sem sé mjög gamall, frá Hallormsstað til móts við ákærða og tekið hann upp rétt innan við Egilsstaði. Annað hafi hann ekki ekið bílnum umrætt kvöld og nótt. A gaf ekki skýrslu fyrir dómi.
Um útafaksturinn sjálfan er ekki við annað að styðjast en framburð ákærða og ummerki á vettvangi en vettvangsrannsókn fór fram strax morguninn eftir slysið.
Ákærði heldur því fram að hann hafi í umrætt sinn ekið með um 50 km/klst. en hann hafi ekki fylgst með hraðamæli. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi greint lögreglu frá því að ökuhraði bílsins hafi verið 60-70 km/klst. og kannast ákærði við að hafa nefnt þann hraða.
Ákærði lýsir aðdraganda slyssins þannig að skyndilega hafi stýrið verið eins og rifið út úr höndunum á honum og bíllinn beygt til hægri út af veginum en hann hafi misst stjórn á bílnum við það að aka á stein sem hann hafi ekki séð. Hann viti ekki hver hraði bílsins var þegar hann fór út af veginum þar sem hann telji að eitthvað hafi dregið úr hraðanum þegar hann ók á steininn.
Umræddur steinn var á vettvangi þegar Óskar Þór Guðmundsson varðstjóri kom þangað ásamt ákærða skömmu eftir slysið og kveður varðstjórinn ekki aðra steina hafa verið á veginum. Þá kveður hann mynd þá sem tekna var af steininum um nóttina og er meðal gagna málsins hafa verið tekna áður en steinninn var færður. Samkvæmt mælingu var steinninn 90 cm inn á veginum mælt beint út frá glitstiku í kantinum. Við mælingu reyndist steinninn vera 35x25 cm og 16 cm hár og um það bil 12 kg. Á steininum eru gúmmíför og rispur sem samrýmast því að ekið hafi verið á hann. Hins vegar var ekkert rask sjáanlegt á veginum eftir steininn.
Í vegbrúninni þar sem bifreið ákærða hafði farið út af veginum voru för eftir tvö hjól í 40° út frá veginum og rúnuðu þau brúnina. Samkvæmt mælingu Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors er hornið sem bíllinn beygði um 32°. Hægra hjólfarið í vegbrúninni var 3 m frá steininum. Milli faranna voru 2,65 m. Í kanti vegarins var hjólfar með samskonar dekkjamunstri og hjólförin í vegbrúninni. Lá hjólfarið samsíða vegbrúninni 4,20 m í norður frá vinstra hjólfarinu en þar endaði það. Engin önnur hjólför eða ummerki voru sýnileg á veginum. Hins vegar sást samkvæmt því sem fram kemur í rannsóknargögnum lögreglu far eftir hjólbarða bíls 60 cm neðan við brúnina þar sem nyrðra farið lá fram af veginum. Staðfesti Elvar Óskarsson lögreglufulltrúi þá mælingu fyrir dóminum. Samkvæmt því sem fram kemur í matsgerð Magnúsar Þórs Jónssonar og framburði hans fyrir dóminum var staðsetning hjólfarsins hins vegar ekki rétt hjá lögreglu. Niðurstaða mælingar á framhaldsmatsfundi var að umrætt hjólfar hafi verið 2,7 m frá stikulínu en ekki 60 cm frá vegbrún. Af gögnum málsins þykir mega ráða að stikur hafi verið staðsettar um 1 m innan við vegbrún. Mismunur á mælingu lögreglu og matsmannsins er því rúmlega 1 m.
Ummerki í hlíðinni sýndu að bíllinn hafði aldrei farið lengra en sem nemur 3 m í norður frá þeim stað þar sem hún fór út af en það var 10 m neðan við vegbrúnina. Eftir það var ferill hennar ýmist beint neðan við þann stað sem hún fór út af eða lítið eitt norðar. Í hlíðinni sáust skóför í 16,5 m fjarlægð frá vegbrún og lágu þau upp en ekki liggja fyrir myndir af þeim.
Samkvæmt því sem fram kemur í læknisvottorði Einis Jónssonar var ákærði allur í mold/ryki á vinstri öxl og upphandlegg þegar hann kom til læknis eftir slysið og hafði nokkur eymsli yfir öxlinni og upphandleggnum og honum fannst vont að “abductera” axlarliðinn gegn mótstöðu. Í læknisvottorði Guðmundar Inga Georgssonar kemur fram að ákærði hafi leitað til hans 2. október 2002 og kvartað um verk í vinstri öxl sem komi aðallega við “abduction”. Skoðun hafi leitt í ljós eymsli yfir “acromioclavicularlið” og bólguhnúð “acromio” megin við hann. Ákærði hafi aftur leitað til hans 20. janúar 2003. Í vottorði læknisins kemur fram að áverkinn geti samrýmst því að ákærði hafi hlotið hann með þeim hætti sem hann lýsir í lögregluskýrslu.
Í málinu liggur fyrir álitsgerð Þorsteins Vilhjálmssonar prófessors en hjá honum kom fram fyrir dóminum að hann hafi fyrst og fremst verið að prófa hvort sú fullyrðing eða tilgáta geti staðist að bíllinn hafi í umrætt sinn verið á 40-50 km/klst. Hann kvað ekki hafa verið gert ráð fyrir steini þeim sem ákærði kveðst hafa ekið á í áliti hans en að árekstur við steininn hafi ekki getað breytt hraðanum að neinu ráði heldur einungis óverulega. Í niðurstöðu álitsgerðar prófessorsins kemur fram að 5-10 km/klst. sé miklu nær lagi um raunverulegan hraða bílsins en 40-50 km/klst.
Í málinu liggur einnig fyrir matsgerð Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors. Í niðurstöðu matsgerðar hans kemur fram að forsendur fyrir útreikningum hans séu að steinninn sem ákærði kveðst hafa ekið á hafi ekki hreyfst við áreksturinn. Kemst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að samkvæmt athugun á yfirborði vegar, sé mesti hraði sem bifreiðin gat verið á, þegar hún ók frá steininum út af veginum, 30 km/klst. Kveður matsmaðurinn til grundvallar þeirri niðurstöðu liggja skoðun hans á því hvernig bíllinn hafi getað beygt án þess að renna til í mölinni en ekkert skrið hafi verið í hjólfarinu. Þá kemst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að líklegast hafi bíllinn verið á minni hraða en 23 km/klst. Miðað við umrót sem sjáist á myndum, þar sem bíllinn fer niður skriðuna, sé ólíklegt að bifreiðin hafi verið á meiri hraða en 20 km/klst. Þá niðurstöðu kveðst matsmaðurinn byggja á því að hjólfar eftir bílinn hafi verið 2,7 m neðan vegbrúnar mælt frá stikulínu.
Fyrir dóminum kom fram hjá matsmanninum að hafi bílnum verið ekið yfir steininn hefði það dregið lítið úr hraða hans. Ef steinninn hefði hins vegar lent undir bílnum og dregist með honum og hægt á ferð hans hefði það sést á veginum. Öll hraðaminnkun hefði skilið eftir sig einhver ummerki.
Með hliðsjón af álitsgerð Þorsteins Vilhjálmssonar prófessors og matsgerð Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors og framburði þeirra fyrir dóminum þykir mega við það miða að þó að ákærði hafi ekið á steininn í um rætt sinn hefði dregið óverulega úr hraða bílsins miðað við að ekkert umrót var eftir steininn á vettvangi. Samkvæmt því og niðurstöðum álitsgerðarinnar og matsgerðarinnar um hraða bílsins þykir sýnt að hraði sá sem ákærði telur sig hafa verið á fær ekki staðist. Þá er á það að líta að hefði ákærði verið á hraða í líkingu við þann sem hann heldur fram hefði hann lent á jörðinni með það miklum hraða að telja má víst að hann hefði slasast alvarlega.
Það er niðurstaða hinna sérfróðu meðdómsmanna út frá athugun á kastferli að þegar litið sé til þess að bíllinn hreyfðist mest um 3 m til norðurs frá þeim stað er hann fór út af veginum geti hraðinn þegar hann fór fram af brúninni ekki hafa verið meiri en 20 km/klst. og að öllum líkindum hafi hraðinn verið töluvert minni og er þá ekki tekin afstaða til þess hvort hjólfar eftir bílinn var 60 cm neðan við vegbrún eða 2,7 m frá stikulínu.
Það að hægra afturhjól skuli ekki hafa markað sérstakt far í vegbrúnina þykir styðja að útafaksturinn hafi ekki orðið með þeim hætti sem ákærði hefur lýst heldur benda til að bíllinn hafi verið í mjög lítilli eða engri beygju þegar hann fór fram af brúninni.
Það að samsíða vegbrúninni, 4,2 m frá vinstra hjólfari í vegbrún, skuli hafa verið samskonar hjólfar og eftir bíl ákærða þykir styðja að bíl ákærða hafi verið ekið áfram og síðan aftur á bak í vegkantinum fyrir útafaksturinn.
Þegar allt framanrakið er virt þykir loku fyrir það skotið, þrátt fyrir för á steininum, læknisvottorð og skóför í hlíðinni, að slysið hafi orðið með þeim hætti sem ákærði heldur fram. Þegar það er virt og afar ótrúverðugur framburður ákærða að öðru leyti þykir vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði, sem átti í erfiðleikum með greiðslu hárra afborgana af bílnum og hafði árangurslaust reynt að selja hann, hafi í umrætt sinn sett á svið umferðaslys eins og honum er gefið að sök í ákæru. Hefur ákærði, sem sneri sér til tryggingafélags síns til að fá greiddar tjónabætur, með því gerst brotlegur við 248. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Ákærði hefur ítrekað sætt refsingu fyrir brot gegn umferðarlögum. Þá var hann á árinu 1994 dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og á árinu 1997 í skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Brotaferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu.
Refsing ákærða þykir eftir atvikum hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Ekki þykir koma til álita að skilorðsbinda refsinguna.
Eftir niðurstöðu málsins verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Stefáns Geirs Þórissonar hæstaréttarlögmanns, 375.000 krónur.
Dóm þennan kveða upp, Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri og meðdómsmennirnir Helgi Ómar Bragason jarðeðlisfræðingur og Sigurjón Hauksson verk- og eðlisfræðingur. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómsformanns.
Dómsorð:
Ákærði, Benedikt Matthíasson, sæti fangelsi í 5 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Geirs Þórissonar hæstaréttarlögmanns, 375.000 krónur.