Hæstiréttur íslands

Mál nr. 387/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Fasteign
  • Líkamstjón


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. febrúar 2006.

Nr. 387/2005.

Ólafía Sveinbjörg Grímsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Skaðabætur. Fasteign. Líkamstjón.

Ó, starfsmaður S, varð fyrir líkamstjóni þegar hún féll á ísingu á skábraut á leið sinni til vinnu. Ekki var fallist á að S bæri hlutlæga ábyrgð á slysinu eða að það yrði rakið til gleymsku eða yfirsjónar starfsmanna S við meðferð snjóbræðslukerfis í skábrautinni. Talið var að Ó hefði mátt vera ljóst að búast mætti við hálkublettum og að slysið yrði ekki rakið til annars en óhappatilviljunar eða gáleysis hennar. Var S því sýknað af kröfu Ó.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2005. Hún krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hún eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda vegna líkamsáverka sem hún varð fyrir þegar hún féll á ísingu á leið til vinnu að morgni 15. nóvember 2000. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt í héraði.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að bótaábyrgð verði aðeins dæmd að hluta og málskostnaður látinn falla niður.

Stefndi mótmælir ekki þeirri fullyrðingu áfrýjanda að hún hafi fallið á skábraut er hún var á leið til vinnu umrætt sinn og orðið fyrir líkamstjóni. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

                                                                                                                 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. júní 2005.

             Mál þetta sem dómtekið var 9. júní síðastliðinn, höfðaði Ólafía Sveinbjörg Grímsdóttir, Berjahlíð 3, Hafnarfirði þann 8. febrúar 2005 á hendur Sunnuhllíð hjúkrunarheimi, Kópavogsbraut 1c, Kópavogi til viðurkenningar á bótarétti stefnanda á hendur stefnda.

             Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi skaðabótarétt á hendur Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili vegna þeirra líkamsáverka er hún varð fyrir er hún féll á ísingu á leið sinni til vinnu í hjúkrunarheimilið, að morgni 15. nóvember 2000 á bílarampi sem liggur inn í það húsnæði sem hýsir hjúkrunar­heimilið.

             Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, samkvæmt framlögðu máls­kostnaðaryfirliti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

             Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.

             Til vara er krafist að bótaábyrgð verði einungis dæmd að hluta og málskostnaður verði látinn niður falla.

I.

Málsatvik samkvæmt lýsingu stefnanda.

             Mál þetta á rót sína að rekja til þess er stefnandi var á leið til vinnu sinnar um klukkan 8:00 að morgni 15. nóvember 2000. Stefnandi hóf störf hjá stefnda sem sjúkraliði í október 2000. Stefnandi bar fyrir dómi að sonur sinn hefði ekið sér til vinnu og kvaðst hún muna að hálka hafi verið á götum þennan morgun. Hann hafi stöðvað bifreiðina við skábrautina sem er aðkomuleið fyrir vörumóttöku í kjallara hússins. Hún kvaðst hafa gengið niður skábrautina eða “ramp” niður í kjallara hússins en í kjallaranum sé bæði stimpilklukka starfsfólks svo og búningsklefar. Stefnandi bar fyrir dómi að hún hafi haldið um handrið sem sé á veggnum meðfram skábrautinni. Í skriflegri aðilaskýrslu sem lögð hefur verið fram lýsir stefnandi atburðinum með eftirfarandi hætti: “Ég lenti í vinnuslysi fyrir utan vinnustað minn, Sunnuhlíð í Kópavogi. Var að fara niður brekku sem er áföst Sunnuhlíð og liggur niður á neðri hæð hússins, þar sem stimpilklukka og aðstaða starfsfólks er. Þessi brekka er steinsteypt og átti að vera búið að setja hita á, til að bræða ís og hálku fyrir vaktaskipti, sem eru klukkan 8:00 um morguninn, en það hafði gleymst – 4 konur duttu og slösuðust, mismikið, þarna um morguninn, vegna hálku og klakamyndunar í brekkunni. Þegar ég kom niður í sirka miðja brekkuna lenti á  hálkubletti sem verður til þess að ég þeyttist einhvern veginn upp í loft og skelltist harkalega niður á hægri hlið, þar sem rass endar og bak tekur við – og við þennan hryllilega skell hélt ég í fyrstu að ég hefði hreinlega hryggbrotnað.

             Við þennan skell meiddist ég á mjöðm og hægri fótur skelltist einhvern veginn til vinstri og tognaði ég illa, þar sem rist endar og fótur tekur við – vinstri fótur skall þannig að skóhæll skall á rist hægri fótar. Þegar ég hugsa til baka, finnst mér eins og ég hafi lent í hryllingsmynd, svo mikið meiddi ég mig og þvílíkur var sársaukinn vegna þessa - þannig upplifi ég þennan slysamorgun! Ég varð svo óskaplega reið sjálfri mér fyrir að detta svona og það á leið til vinnu og notaði ég alla þessa reiði til að hafa mig upp aftur með miklum sársauka og erfiðleikum og með stuðningi við vegg og rör sem liggur niður með veggnum – fór skelfingu lostin inn og stimplaði mig inn og reyndi hvað ég gat til að enginn sæi hve mikið sársaukinn nísti og skar.

             Með því að beita reiði minni á sjálfa mig tókst mér að komast í vinnufötin mín og fór ég því næst upp á fyrstu hæð þar sem ég svo vann þennan dag til klukkan 15:30. Sonur minn náði í mig eftir vaktina, en þegar henni var lokið var ég orðin svo slæm að ég varð að setjast á hlið inn í bílinn og nota svo hendur til að lyfta hægri fæti inn á eftir vegna sársauka.”

             Síðar í nefndri aðilaskýrslu kemur fram að stefnandi kvaðst hafa farið til læknis daginn eftir og hafi hann tjáð henni að hún væri tognuð á fæti, en hvergi brotin.

             Af hálfu stefnda tilkynnti hjúkrunarforstjórinn, Áslaug Björnsdóttir, vinnuslys og er tilkynningin dagsett 10. júní 2003. Kemur þar fram að slysið varð er stefnandi var á leið til vinnu og hafi hún dottið í hálku. Fall hafi verið á jafnsléttu vegna ísingar. Í lið 7 á eyðublaðinu er hægt að merkja þá líkamshluta sem urðu fyrir áverkum og þar er merkt við liðinn “annað”. Það sama á við um lýsingu á áverkum. Þá kemur fram að stefnandi hafi hafið störf innan 7 daga.  Um tildrög að slysinu segir að stefnandi hafi verið að koma til vinnu og farið niður “rampinn” sem sennilega var ísing á. Hún hafi unnið vaktina.

             Í örorkumati Atla Þórs Ólafsonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum segir um örorku stefnanda: “Við mat á varanlegri örorku er miðað við mar við afltaug til hægri ganglims með óþægindum í mjóbaki og tognun í hægri ökkla. Varanleg örorka er metin 25%.”

II.

Málsatvik samkvæmt lýsingu stefnda.

             Af hálfu stefnda er á það bent að um atburð þennan sem mál þetta snýst um séu engin gögn. Atvikum sé einungis lýst í stefnu og virðist sú lýsing byggja alfarið á frásögn stefnanda sjálfrar.

             Skábraut sú, er stefnandi féll í, liggur að dyrum á neðri hæð (kjallara) hússins sem eru ætlaðar til móttöku á vörum m.a. í eldhús stefnda sem þar er staðsett. Af þeim sökum sé skábrautin aðallega ætluð bifreiðum. Þótt mögulegt sé fyrir gangandi vegfarendur að fara hana, þ.á.m. starfsfólk stefnda, er engu að síður ætlast til að starfsfólkið noti aðalinngang hússins, sem sé staðsettur austan megin við skábrautina nánast við hlið hennar. Frá aðalinnganginum sé greið leið niður á neðri hæðina, annað hvort um stiga eða með lyftu. Þar sé komið að búningsaðstöðu starfsfólks og stimpilklukku. Er það svo að flestir starfsmenn noti aðalinnganginn, en einstaka starfsmenn fari um skábrautina. Er því mótmælt staðhæfingum stefnanda að dyr fyrir vörumóttöku við neðri enda skábrautarinnar hafi verið inngöngudyr starfsmanna stefnda.

             Snjóbræðslukerfi er í skábrautinni og sé affall af heitu vatni hússins notað til snjóbræðslunnar. Heitt vatn renni um kerfið allan ársins hring og hiti þannig upp yfirborð skábrautarinnar. Yfir vetrarmánuðina sé einnig bætt við heitu vatni beint úr heitavatnskerfi hússins til að tryggja frekar að hálka myndist ekki í brautinni. Að öllum líkindum höfðu þær ráðstafanir þegar verið gerðar, er slysið átti að hafa gerst um miðjan nóvember 2000.

             Í málsatvikalýsingu í stefnu er því haldið fram að stefnandi hafi haldið sér í handrið sem sé fest í vegg húsmegin við skábrautina. Þessu er mótmælt sem ósönnuðu. Stefnandi víki ekki að þessu í greinargerð sinni (skriflegri aðilaskýrslu) sem að hluta sé tekin upp í stefnu. Eins og stefnandi hafi lýst fallinu – “þeyttist einhvern veginn upp í loft og skelltist harkalega niður á hægri hlið”- þá sé afar ósennilegt að hún hafi haldið sér í handriðið um það leyti sem hún féll á leið sinni niður skábrautina.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

             Stefnandi byggir á því að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni sem stefndi beri bótaábyrgð á. Bótaábyrgð stefnda byggist á þeirri málsástæðu að kvöldið fyrir slysið hafi verið skrúfað fyrir affallsvatnið í snjóbræðslukerfi hússins og gleymst hafi að hleypa vatni á kerfið næsta morgun. Af þeim sökum hafi myndast hálkublettir í skábrautinni. Þetta hafi komið stefnanda að óvörum. Jörð hafi verið alauð og því hafi hún ekki búist við hálku á þessum stað. Því er haldið fram að slysið verði rakið til gleymsku og yfirsjónar starfsmanna stefnda.

             Þá er bótaábyrgð stefnda á því byggð að þessi aðkomuleið inn í húsið sé ekki nægilega örugg fyrir starfsfólk stefnanda. Af þeim sökum beri stefndi sem vinnu­veitandi stefnanda ábyrgð á slysi því sem stefnandi varð fyrir. Á því er byggt að hefði aðkomuleiðin verið lögleg samkvæmt byggingarreglugerð, það er að segja að þarna hefðu verið tröppur, þá hefði stefnandi ekki orðið fyrir þessu slysi.

             Því er haldið fram að á þessari aðkomuleið festist allskyns óhreinindi eins og laufblöð og þess háttar og hafi oft dregist að hreinsa það burt. Verði oft sleipt og hættulegt að fara þar um. Starfsmenn stefnda sýni ekki nægilega aðgæslu og fyrirhyggju sem gera verði kröfu til á fjölmennum vinnustað.

             Ennfremur er því haldið fram að snjór sitji á skábrautinni og geti þá orðið hált.

             Ennfremur er á því byggt að skábrautin fullnægi ekki ákvæðum 10. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um hættulausa aðkomuleið að vinnustað. Vísað er sérstaklega til 199. og  202 gr. reglugerðarinnar. Ennfremur brjóti þessi aðkomuleið við ákvæði 42. gr. og c lið 43. gr. laga nr. 46/1980 og 9., 1. mgr. 41. og d lið 43.  gr. reglugerðar nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða.

             Þá er á því byggt að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni í vinnu hjá vinnuveitanda sínum, stefnda. Vinnuveitandi á að geta keypt vátryggingarvernd og dreift kostnaðinum niður á útselda þjónustu. Byggir stefnandi á að þetta sé einn af kostnaðarþáttum sem sé eðlilegt að vinnuveitandi beri. Á þessi sjónarmið verði að horfa varðandi dómkröfur stefnanda. Um sé að ræða alvarlegt líkamstjón sem hefur í för með sér mikla skerðingu á tekjuöflunarmöguleikum stefnanda. Í þessu sambandi byggir stefnandi á að tilhögun aðkomuleiðar stefnanda til vinnu sinnar hafi verið undir húsbóndavaldi vinnuveitanda, þ.e. eftirlitsvaldi, leiðbeiningarvaldi og ákvörðunar­valdi stefnda. Þar sem kenna megi tilhögun aðkomuleiðar stefnanda til vinnu sinnar um tjónið, beri vinnuveitandinn, stefndi,  höfuðsök á tjóni stefnanda.

             Bótaskyldu stefnda er ennfremur reist á þeirri málsástæðu að slysið hafi ekki verið rannsakað á nokkurn hátt og því beri stefndi alla sönnunarbyrði í máli þessu. Byggir stefnandi á því að það hafi sannanlega skipt máli að slysið hafi verið rannsakað í samræmi við 80. gr. laga um aðbúnað á vinnustöðum nr. 46/1980.

             Því er haldið fram að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu að aðkomuleiðin um skábrautina inn í húsið hafi verið fullnægjandi aðkomuleið að vinnustað. Ennfremur beri stefndi sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu að heitt vatn hafi verið í leiðslum snjóbræðslukerfisins þann 15. nóvember 2000.

             Dómkröfum sínum til stuðnings skírskotar stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum til 13., 20.- 23., sbr. 86. gr. þeirra laga.

             Þá vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttarins um vinnuveitandaábyrgð og einnig til reglunnar um ábyrgð fasteignareiganda á slysahættu fasteignar, það er að segja hlutlægrar ábyrgðar.

             Að lokum er vísað til 25. gr. laga um meðferð einkamála.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda eru eftirfarandi í aðalkröfu.

             Á því er byggt að stefnandi krefst viðurkenningar á því að hún eigi skaðabótarétt á hendur stefnda vegna líkamstjóns er hún varð fyrir við fallið í skábrautinni. Bótaábyrgð stefnda verði að grundvallast á sök. Stefnandi beri að sanna að sakarskilyrðum sé fullnægt þannig að skaðabótaábyrgð geti stofnast gagnvart stefnda.

             Stefnandi hafi verið frá vinnu 17. til 19. nóvember 2000 vegna veikinda. Stefnandi skilaði hvorki veikindavottorði né lét hún vita að hún hefði orðið fyrir slysi. Stefnandi lét yfirmenn sína ekki vita um atvikið fyrr en mörgum mánuðum eftir að það hafði átt sér stað. Af þessum sökum var ógerlegt af hálfu stefnda að láta rannsaka hvort yfir höfuð hafi gerst einhver tjónsatburður og ennfremur með hvaða hætti hann hafi þá gerst. Ekki sé vitað til að nein vitni hafi orðið af þeim atburði þegar stefnandi kveðst hafa slasast. Hún sé því ein til frásagnar um málsatvik. Þá er á því byggt að það sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir slysi þann 15. nóvember 2000.

             Stefnandi byggir dómkröfu sína aðallega á því að kvöldið áður en slysið átti að hafa gerst hafi verið skrúfað fyrir heitt vatn, sem leitt sé í snjóbræðslukerfið, og síðan gleymst að skrúfa frá og setja hita á að nýju um morguninn. Öllum staðhæfingum stefnanda í þessum efnum er harðlega mótmælt sem beinlínis röngum og ósönnuðum. Eins og áður sé getið var samfellt streymi affallsvatns allt árið í gegnum snjóbræðslu­lögnina, auk þess sem bætt var við heitu vatni yfir vetrarmánuðina og slíkt hafði að öllum líkindum verið gert um miðjan nóvember er stefnandi mun hafa slasast. Því er alfarið hafnað að slysið verði rakið til gleymsku eða yfirsjónar í tengslum við meðferð stefnda á snjóbræðslukerfi í skábrautinni.

             Þá byggir stefndi á þeirri málsástæðu að óhætt hafi verið að ganga á eðlilegum hraða niður brautina þar sem enginn snjór hafi verið í skábrautinni í umrætt sinn. Stefndi áréttar að stefnandi byggir jafnframt á því að jörð hafi verið alauð þennan morgun. Ytri aðstæður hafi því ekki verið slíkar að húsvörður eða aðrir starfsmenn stefnda hafi séð eða mátt sjá að hálka væri í brautinni sem kallaði á einhverjar varúðarráðstafanir umræddan morgun.

             Ennfremur byggir stefndi á þeirri málsástæðu að téð skábraut sé eins örugg fyrir gangandi vegfarendur eins og kostur er að gera tilkall til vegna skábrauta utanhúss. Halli í brautinni sé ekki mikill, yfirborð hennar sé tiltölulega gróft til að varna hálkumyndun og í henni sé snjóbræðslukerfi. Skábrautin sé byggð samkvæmt samþykktum teikningum og í fullu samræmi við gildandi reglur um byggingu slíkra skábrauta. Þrátt fyrir það sé ekki ætlast til að starfsfólk fari um skábrautina á leið í og úr vinnu. Rétt og eðlileg gönguleið starfsfólks sé um aðalinngang hússins og þar um stiga eða lyftu niður á neðri hæð að stimpilklukku og búningsaðstöðu.

             Stefnandi staðhæfir að alls kyns drulla safnist fyrir á gönguleiðinni, svo sem laufblöð o.fl. Hafi þetta oft ekki verið hreinsað nægilega fljótt og geti orðið sleipt undir fæti og hættulegt. Ekki sé nákvæmlega vitað hvað stefnandi eigi við með þessum staðhæfingum. Hvað sem því líði þá sé þeim eindregið mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Vafalaust kunni það að gerast að laufblöð og annað lauslegt fjúki niður í skábrautina eins og gerist hvarvetna í kringum hús og önnur mannvirki. Hins vegar sé rusl, eins og laufblöð o.þ.h., sem fjúki og setjist til í skábrautinni eða neðst við enda hennar, hreinsað eins oft og þess gerist þörf. Sama gildi ef snjór safnist fyrir í brautinni þannig að snjóbræðslukerfið hafi ekki undan. Þá sé hann fjarlægður eins fljótt og unnt sé með sérstökum snjóblásara. Þá er ennfremur á það bent að umrætt slys mun ekki verða rakið til þess  að drulla eða snjór hafi safnast fyrir í skábrautinni og valdið hálku.

             Húseign stefnda að Kópavogsbraut 1c, Kópavogi, var reist á árunum 1980 til 1982 og var tekin í notkun á síðarnefnda árinu. Um byggingu hennar gilti því ekki byggingarreglugerð nr. 441/1998 sem tók gildi 23. júlí 1998. Ekkert bendi þó til þess að bygging skábrautarinnar hafi brotið gegn ákvæðum þessarar byggingarreglugerðar, þ.á.m. 199. og 202. gr., eða þeirrar reglugerðar sem gilti um byggingu hússins á sínum tíma, byggingarreglugerð nr. 292/1979. Skábrautin var ekki aðkomuleið fyrir starfs­fólk stefnda auk þess sem það sé öldungis fráleitt að hún hafi með einhverjum hætti brotið í bága við ákvæði 42. og 43. gr. laga nr. 48/1980 um aðbúnað, hollustu­hætti og öryggi á vinnustöðvum eða öðrum ákvæðum þeirra laga. Þá sé af og frá að ákvæði reglna nr. 581/1996 um húsnæði vinnustaða geti átt við í máli þessu.

             Þá mótmælir stefndi alfarið vangaveltum stefnanda að samkvæmt reglum um vinnuveitendaábyrgð geti stefnda keypt sér vátryggingarvernd og dreift kostnaðinum niður á útselda þjónustu. Sem vinnuveitanda stefnanda var stefnda einungis skylt að slysatryggja hana samkvæmt ákvæðum í kjarasamningi. Frekari skyldur hvíldu ekki á stefnda til að kaupa  vátryggingu vegna slysaatvika eins og deilt sé um í máli þessu. Hvernig sem vátryggingum stefnda kunni að vera háttað þá geti þær á engan hátt haft áhrif á bótarétt stefnanda á hendur stefnda samkvæmt reglum skaðabótaréttar. Skiptir í því sambandi engu máli hversu alvarlegt líkamstjón kann að vera eða hversu mikil tekjuskerðing tjónþola sé af völdum slyss. Þau sjónarmið sem stefnandi ýjar hér að við mat á skaðabótaskyldu eigi sér enga stoð í íslenskum skaðabótarétti.

             Þá byggir stefndi sýknukröfu á þeirri málsástæðu að fyrirsvarsmenn stefnda höfðu enga vitneskju um hið meinta slys eins og áður getur. Af þeim sökum áttu þeir þess ekki kost að tilkynna atvikið til Vinnueftirlits ríkisins skv. fyrirmælum 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustu á vinnustöðum eða hlutast til um að rannsókn atviksins með öðrum hætti. Því sé fráleitt að sönnunarbyrði verði snúið við eða stefndi verði látið bera hallann af því sem ekki verður upplýst í málinu.

             Ennfremur er því alfarið vísað á bug að stefndi hafi sönnunarbyrðina um að skábrautin hafi verið fullnægjandi aðgönguleið að vinnustaðnum og að heitt vatn hafi verið í snjóbræðslukerfi brautarinnar til að forða ísingu. Vitaskuld sé það stefnanda að sanna að slysið verði rakið til þess að brautin hafi verið ófullnægjandi, viðhaldi hennar hafi verið ábótavant eða önnur atvik, sem stefndi beri ábyrgð á, hafi valdið slysinu. Engar slíkar sannanir liggi fyrir í málinu.

             Hvað lagarök snerti vísar stefnandi m.a. til reglna um ábyrgð fasteignaeiganda á slysahættu fasteignar og gefur um leið í skyn að um hlutlæga ábyrgð sé að ræða. Þessu er af hálfu stefnda mótmælt, enda sé ekki um svo stranga ábyrgð eiganda fasteignar að ræða, hvorki samkvæmt lögum né dómafordæmum.

             Þá er í lokin á því byggt af hálfu stefnda að með vísan til ofangreindra málsástæðna þá sé sýnt fram á það að stefnandi hafi ekki sannað saknæma háttsemi fyrirsvarsmanna stefnda eða fébótaábyrgð stefnda með öðrum hætti, en á því byggist sýknukrafa stefnda.

             Málsástæður stefnda í varakröfu eru eftirfarandi.

             Stefndi byggir varakröfu á því sjónarmiði að stefnandi beri sjálf verulega eigin sök á því tjóni sem hún hlaut í slysinu. Ef bótaábyrgð verði að einhverju leyti felld á stefnda, þá sé engum vafa undirorpið að slysið verði fyrst og fremst rakið til gáleysis stefnanda sjálfrar þar sem hún gætti ekki nægilega að sér á leið sinni niður skábrautina. Samkvæmt þessu og með vísan til sjónarmiða, sem rakin séu varðandi aðalkröfu, geti bótaábyrgð stefnda einungis komið til álita að mjög litlum hluta.

             Málskostnaðarkröfur stefnda, bæði í aðalkröfu og varakröfu reisir hann á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggir á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi hefur ekki virðisaukaskattskylda starfsemi með höndum. Því sé nauðsyn að tekin verði tillit til virðisaukaskatts af málflutnings­þóknun við ákvörðun málskostnaðar.

V.

Skýrslur fyrir dómi.

             Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Hún lýsti málsatvikum á sama veg og greint er frá í skriflegri aðilaskýrslu hennar sem rakin hefur verið hér að framan. Stefnandi kvaðst muna að hálka hafi verið á vegum þennan umrædda morgun. Stefnandi kvaðst almennt hafa notað innganginn í kjallaranum eins og aðrir starfsmenn stefnda gerðu. Hún kannaðist ekki við að hafa fengið fyrirmæli frá yfirmönnum sínum að nota aðalinnganginn.

             Stefnandi bar fyrir dómi að hún hefði ekki tilkynnt yfirmönnum sínum með formlegum hætti að hún hefði dottið og meitt sig í skábrautinni. Hún hefði sagt starfsmönnum frá þessum atviki, meðal annars í viðurvist hjúkrunarfræðings, sem hún gat ekki nafngreint.

             Næsta dag átti stefnandi að mæta til vinnu á morgunvakt. Hún kvaðst þá ekki hafa getað stigið í fótinn og hafi sonur sinn stutt sig á sjúkrahús. Þar hafi hún verið skoðuð og kom í ljós að hún var tognuð en ekki brotin. Hún kvaðst hafa hringt á vinnustað sinn og tilkynnt forföll vegna fallsins deginum áður. Stefnandi gat aðspurð ekki nafngreint þann starfsmann sem hún talaði við þann dag.

             Stefnandi kvaðst hafa verið frá vinnu í eina viku en frídagar komu inn í þennan fjarverutíma.

             Fram kom hjá stefnanda að hún hafi ekki ein dottið í skábrautinni, vörumóttökunni, þennan umrædda morgun. Þrjár aðrar konur hafi runnið í hálkunni og fengið byltu og hafi ein þeirra, Guðrún Valdimarsdóttir, handleggsbrotnað við fallið.

             Stefnandi bar fyrir dómi að talað hafi verið um það meðal starfsmanna þennan morgun að ástæðan fyrir hálkunni í skábrautinni væri sú að skrúfað hefði verið fyrir rennsli á heitu vatni í snjóbræðslukerfinu sem liggur undir aðkomuleiðum að húsinu kvöldið áður og gleymst hefði að skrúfa frá heita vatninu á þennan morgun. Því hefði myndast ísing í skábrautinni. Hefði framkvæmdastjóri stefnda verið mjög reiður vegna þessarar vanrækslu starfsmanna.

             Tilkynning um vinnuslys var fyrst send til Vinnueftirlits ríkisins þann 10. júní 2003 og er hún undirritað af Áslaugu Björnsdóttur, hjúkrunarforstjóra. Þar kemur fram að slysið hafi orðið er stefnandi var á leið til vinnu. Orsakavaldur hafi verið hálka og orsök áverka hafi verið ísing. Hjúkrunarforstjórinn bar fyrir dómi að hún hafi fyllt eyðublaðið út samkvæmt upplýsingum frá stefnanda að beiðni Vinnueftirlits ríkisins. Vitnið bar að hún hefði verið í leyfi þennan margumrædda dag og hafi komið til starfa tveimur til þremur vikum síðar. Hana minnti að það hafi liðið a.m.k. eitt ár frá slysdegi þar til hún heyrði um atvikið.

             Jóhann Árnason, framkvæmdastjóri, stefnda gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Hann bar fyrir dómi að hjúkrunarforstjórinn hefði upplýst hann um þetta atvik og hafi þá verið talsvert umliðið frá atvikinu. Framkvæmdastjórinn bar að skábrautin sé aðkomu­leið fyrir vörumóttöku og sé ekki ætluð starfsmönnum. Deildarstjórum sé uppálagt að segja nýráðnu starfsfólki að það eigi að nota aðalinngang hússins. Í skábrautinni sé snjóbræðslukerfi sem sé með sírennsli allt árið um kring. Vitnið kvaðst ekki muna að slys hafi orðið á starfsfólki í annan tíma í nefndri skábraut, en aðspurður kvaðst vitnið vita að Guðrún Valdimarsdóttir hafi dottið í skábrautinni og handleggsbrotnað.

             Tómas Þórhallsson, húsvörður, hjá stefnda kom fyrir dóm. Vitnið er menntað í pípulagningum og kvaðst hann hafa lagt snjóbræðslukerfið undir aðkomuleiðir að húsinu Sunnuhlíð. Hann upplýsti að lagnir fyrir snjóbræðslu liggi undir skábrautina og einnig umhverfis aðalinngang að húsinu og upp tröppur að bifreiðastæði. Snjóbræðslukerfið sé hluti af hitakerfi hússins. Keypt sé 80° heitt vatn og 40° heitt vatn sé hleypt á snjóbræðslukerfið. Á kerfinu sé Danfossinnspýtingarloki með skynjara sem kallar á heitara vatn ef þess þarf með. Þetta sé algjörlega sjálfvirkt kerfi sem sé í gangi allt árið um kring og því misskilningur að skrúfað hafi verið fyrir rennsli á heitu vatni í snjóbræðslukerfið daginn áður en stefnandi datt. Jafnframt sé misskilningur að það þurfi sérstaklega að skrúfa frá til þess að fá meira heitt vatn eins og ætla má að haft sé eftir vitninu í skriflegri greinargerð framkvæmdastjóra og hjúkrunarforstjóra, dagsettri 18. mars 2005. Fyrir dómi bar vitnið að þessi ummæli séu ekki rétt eftir honum höfð.

             Magnús Jónsson, veðurstofustjóri, bar fyrir dómi að kjöraðstæður hefðu verið þennan morgun til ísíngarmyndunar, einkum þar sem skýlt sé. Ísingin geti myndast á örskömmum tíma og því erfitt að varast hálkunni.

             Aðrir en þeir sem hér að ofan hafa verið nefndir gáfu skýrslu fyrir dómi: Ísleifur Jónsson Vestmann, sonur stefnanda, Karen Guðmundsdóttir, Jóhanna Óskarsdóttir og Jóna Sigríður Gunnarsdóttir, sjúkraliðar. Þrjú síðastnefndu vitnin voru starfsmenn stefnda í nóvember 2000. Kom fram hjá þeim öllum að skábrautin hafi verið mikið notuð af starfsmönnum stefnda, og ekki minntust þær þess að hafa fengið fyrirmæli frá yfirmönnum sínum að nota aðalinngang hússins. Þær báru að þeim hafi verið kunnugt um það að stefnandi hafi dottið þennan morgun auk þriggja annarra kvenna. Ennfremur báru þær að altalað hefði verið meðal starfsfólksins að ísing hefði verið í skábrautinni vegna þess að gleymst hefði að skrúfa frá heitu vatni á snjóbræðslukerfið þennan morgun.

V.

Niðurstöður.

             Umdeilt slys varð að morgni 15. nóvember 2000, skömmu áður en stefnandi hóf vinnu hjá stefnda, um klukkan 8:00. Lögregla var ekki kölluð á vettvang og Vinnueftirliti ríkisins var fyrst tilkynnt um slysið 10. júní 2003, rúmlega 30 mánuðum eftir að atvikið átti sér stað.

Engin vitni urðu að óhappi stefnanda og hún gerði forsvarsmönnum stefnda ekki viðvart um að það hafi orðið. Stefnandi kvaðst hafa farið á sjúkrahús daginn eftir, sem var laugardagur. Hvorki hefur sjúkrahúsið verið tilgreint né læknirinn verið nafngreindur sem skoðaði hana. Þá hefur stefnandi heldur ekki lagt fram vottorð um skoðun hans. Það liggur því ekki í málinu samtímamat fyrir á meiðslum stefnanda. Í málinu greinir aðila á um hvort stefnandi hafi orðið fyrir slysi á leið til vinnu sinnar þennan umrædda morgun. Stefnandi er ein til frásagnar um atvik eins og áður greinir. Áslaug Björnsdóttir, hjúkrunarforstjóri stefnda, bar fyrir dómi að henni hafi ekki orðið kunnugt um slys stefnanda fyrr en löngu síðar. Jafnframt kom fram í skýrslu hjúkrunarforstjórans fyrir dómi að hún hefði fyllt út tilkynningu um vinnuslys til Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt einhliða upplýsingum stefnanda. Í greinargerð framkvæmdastjóra og hjúkrunarforstjóra stefnda, dagsettri 18. mars 2005, sem þau staðfestu sem rétta að efni til fyrir dómi kemur fram að stefnandi var skráð fjarverandi vegna veikinda dagana 17. til 19. nóvember 2000. Þessir dagar báru upp á sunnudegi til þriðjudags.

Samstarfskonur stefnanda, sjúkraliðarnir Karen Guðmundsdóttir, Jóhanna Óskarsdóttir og Jóna Sigríður Gunnarsdóttir, hafa allar borið fyrir dómi að þær hafi vitað til þess að stefnandi hafi dottið í skábrautinni þennan morgun ásamt þremur öðrum konum og þar af hafi ein handleggsbrotnað. Af vottorði veðurstofu að dæma hafði umræddan morgun hiti verið rétt yfir frostmark, rigning og vindhraði frá 4-5 m/s klukkan 6:00 og um 10 m/s klukkan 10:00. Samkvæmt framburði Magnúsar Jónssonar veðurstofustjóra hafi verið kjöraðstæður til þess að mynda ísingu á yfirborði jarðar. Slík ísing myndast mjög snöggt. Í ljósi þessara framburða telur dómurinn að stefnandi hafi fært að því verulega líkur að hún hafi fallið í skábrautinni umræddan morgun.

Tómas Þórhallsson, húsvörður hjá stefnda, lagði snjóbræðslukerfi undir aðkomuleiðum að húsi stefnda. Hann bar fyrir dómi að kerfið væri algjörlega sjálfvirkt og kæmi því ekki til álita að skrúfað væri fyrir affallsvatnið á snjóbræðslukerfið. Gegn mótmælum stefnda hefur stefnanda ekki tekist að sanna að starfsmenn stefnda hafi skrúfað fyrir rennsli á heitu affallsvatni á snjóbræðslukerfi undir aðkomuleiðum kvöldið áður og rennslið hafi ekki verið sett á næsta morgun. Stefndi heldur því fram að snjóbræðslukerfið sé algjörlega sjálfvirkt og hefur stefnandi ekki hnekkt þeirri málsástæðu. Fellst því dómurinn ekki á að bylta stefnanda verði rakið til gleymsku eða yfirsjónar starfsmanna stefnda í tengslum við meðferð stefnda á snjóbræðslukerfi í skábrautinni.

Samkvæmt upplýsingum frá stefnda var húseign stefnda Kópavogsbraut 1c, Kópavogi, reist á árunum 1980 til 1982. Um byggingu hennar gilti því ekki byggingarreglugerð nr. 441/1998 sem tók gildi 23. júlí 1998. Þá er á það fallist með stefnda að skábrautin hafi hvorki brotið gegn 42. og 43. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum né gegn ákvæðum reglna nr. 581/1996 um húsnæði vinnustaða einkum 1. mgr. 39. gr. og d lið 41. gr. Ekkert er komið fram sem bendi til þess að aðkomuleið í kjallara hússins, sem ætluð er til vörumóttöku, hafi verið ábótavant. Þá var ekki snjókoma þennan morgun sem hefði gefið húsverði sérstakt tilefni til þess að fylgjast sérstaklega með hálkumyndun á aðkomuleiðum. Þá er ekki á það fallist að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á slysi því sem mál þetta snýst um.

Þá byggir stefnandi bótaábyrgð á þeirri málsástæðu að stefndi hafi getað samkvæmt reglum um vinnuveitandaábyrgð keypt sér vátryggingarvernd. Á það verður fallist með stefnda að möguleikar stefnda til kaupa á vátryggingum geti ekki haft áhrif á bótarétt stefnanda á hendur stefnda samkvæmt reglum skaðabótaréttar.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að slysið hafi ekki verið rannsakað á nokkurn hátt og því beri stefndi sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu að heitt vatn hafi verið á snjóbræðslukerfinu undir aðkomuleið í kjallara til að forða ísingu. Þegar litið er til þess að ekkert er fram komið um að stefnandi hafi tilkynnt forsvarsmönnum stefnda, fyrr en mörgum mánuðum seinna, að hún kenndi sér meins eftir atvikið og forsvarsmenn stefnda höfðu enga ástæðu til að ætla að af því hafi hlotist annað heilsutjón en það, er olli fjarvistum í þrjá daga verður það ekki metið stefnda í óhag að umræddur atburður var hvorki tilkynntur Vinnueftirliti ríkisins né lögreglu.

Eins og áður er rakið voru samkvæmt framburði Magnúsar Jónssonar, veðurstofustjóra, kjöraðstæður til myndunar ísingar á jörðu. Stefnandi bar fyrir dómi að hálka hafi verið á götum er hún var á leið til vinnu sinnar. Samkvæmt því mátti henni vera ljóst að búast mátti við hálkublettum. Við þær aðstæður hefði verið eðlilegra að nýta aðalinngang hússins, sem ætlaður var starfsfólki jafnt sem öðrum er leið eiga inn í húsið. Dómurinn telur að slysið verði ekki rakið til annars en óhappatilviljunar eða gáleysis stefnanda. Aðstæður voru því ekki með þeim hætti að lögð verði ábyrgð á slysinu á stefnda. Verður bótaskylda vegna tjóns stefnanda því ekki lögð á vinnuveitanda stefnanda, stefnda, og ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsettu 8. mars 2005. Gjafsóknin er takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Útlagður kostnaður stefnanda samkvæmt framlögðum reikningum er 50.901 krónur er greiðist úr ríkissjóði. Þóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar, hrl., telur dómari hæfilega ákveðna 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillits til virðisaukaskatts. Þannig verður kostnaður stefnanda samtals 550.901 króna af máli þessu og greiðist hann úr ríkissjóði.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

             Stefndi, Sunnuhlíð hjúkrunarheimili, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Ólafíu Sveinbjörgu Grímsdóttur.

             Málskostnaður fellur niður.

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda 550.901 króna greiðist úr ríkissjóði.