Hæstiréttur íslands

Mál nr. 410/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Sjómaður
  • Sjóveðréttur
  • Málsástæða


Þriðjudaginn 18

 

Mánudaginn 17. október 2005.

Nr. 410/2005.

Íslandsbanki hf.

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

Héðni Mara Kjartanssyni

Erni Arngrímssyni

Hermanni Arnari Sigurðssyni

Birni Viðari Óttarssyni

Olgeiri Sigurðssyni

Kristjáni Friðriki Sigurðssyni og

Lífeyrissjóði sjómanna

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs. Sjómenn. Sjóveðréttur. Málsástæður.

Fiskiskipið GP var í eigu útgerðarfélagsins GP ehf. Var skipinu lagt 10. desember 2003 og sagði þá útgerðarfélagið upp skiprúmssamningum annarra skipverja en HMK, ÖA, HAS, OS og KFS. Þann 5. apríl 2004 var þessum skipverjum einnig sagt upp og skipið selt nauðungarsölu daginn eftir. Varð Í hæstbjóðandi í skipið en framangreindir fimm skipverjar lýstu kröfum í söluverð ásamt BVÓ, sem var einn þeirra skipverja sem sagt var upp störfum strax 10. desember 2003. Þá lýsti L einnig kröfum í söluverð vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda, meðal annars á grundvelli þeirra krafna sem framangreindir skipverjar lýstu. Allir þessir aðilar töldu sig eiga lögveðrétt fyrir kröfum sínum. Fyrrum skipverjar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 en L á grundvelli 7. gr. þágildandi  laga nr. 45/1999 um lífeyrissjóð sjómanna. Í lýsti einnig kröfu í söluverð á grundvelli skuldabréfs. Mótmælti Í við sýslumann að lögveðréttur væri fyrir kröfum skipverjanna og L en mótmæli hans voru ekki tekin til greina og skaut hann því málinu til héraðsdóms. Undir rekstri málsins var bú GP ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og byggði Í meðal annars á því við munnlegan flutning málsins í héraði að kröfur framangreindra skipverja hefðu fallið niður fyrir vanlýsingu þar sem fyrir lá að þeir höfðu ekki lýst þeim í þrotabúið. Talið var að ekki hafi verið tilefni til að byggja á fyrrnefndri málsástæðu fyrr en kröfulýsingafresti var lokið í þrotabú GP ehf. og því teldist hún ekki of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skipið sem um ræddi var selt við nauðungarsölu meira en sjö mánuðum áður en bú GP ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og töldust þeir sem kölluðu til greiðslu af söluverði skipsins því geta haldið réttindum sínum til streitu við nauðungarsöluna, enda hafi kröfu þeirra um fullnustu ekki verið beint að þrotabúinu og gætu kröfur þeirra því ekki talist hafa fallið niður fyrir vanlýsingu. Þá var talið að Í hefði ekki sýnt fram á það með haldbærum rökum að ráðningarsamningum fyrrgreindra skipverja hefði verið sagt upp fyrr en 5. apríl 2004 eða að laun sem þeir kröfðust greiðslu á væru ekki til komin vegna starfa þeirra um borð í skipinu í skilningi 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga og nytu þau því sjóveðréttar samkvæmt lagaákvæðinu. Einnig var fallist á að kröfur L nytu sjóveðréttar. Hins vegar var talið að kröfulýsing BVÓ hefði ekki verið sett réttilega  fram og var því hafnað að hann ætti rétt á úthlutun af söluverði skipsins. Þar sem Í hafði aðeins byggt á því fyrir sýslumanni að framangreindar kröfur ættu ekki að njóta sjóveðréttar en hafði ekki sett fram rökstudd mótmæli að því er varðaði kröfufjárhæðir þótti ekki unnt að taka til skoðunar varakröfu Í um lækkun. Hins vegar höfðu L og skipverjarnir HMK og KFS lækkað kröfur sínar undir rekstri málsins og voru fjárhæðir lækkaðar til samræmis. Að öðru leyti var framvarp  sýslumanns til úthlutunar látið standa óbreytt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. september sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. ágúst 2005, þar sem leyst var úr ágreiningi málsaðila um ákvörðun sýslumannsins á Húsavík 23. júní 2004 um að láta standa óbreytt frumvarp 10. maí sama ár til úthlutunar á söluverði fiskiskipsins Geira Péturs ÞH 344. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess aðallega að frumvarpi sýslumanns verði breytt á þann veg að engu verði úthlutað upp í kröfur varnaraðila, en til vara að lægri fjárhæð verði úthlutað upp í þær en þeir krefjist. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur að öðru leyti en því, að varnaraðilarnir Héðinn Mari Kjartansson og Kristján Friðrik Sigurðsson hafa fallið frá kröfum um dráttarvexti eftir 10. maí 2004, sem teknar voru til greina í hinum kærða úrskurði. Varnaraðilar krefjast jafnframt kærumálskostnaðar.

I.

Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, var fiskiskipið Geiri Péturs gert út af samnefndu einkahlutafélagi og haldið til veiða þar til skipinu var lagt 10. desember 2003. Félagið virðist þá hafa sagt upp skiprúmssamningum annarra skipverja en varnaraðilanna Héðins Mara Kjartanssonar, Arnar Arngrímssonar, Hermanns Arnars Sigurðssonar, Olgeirs Sigurðssonar og Kristjáns Friðriks Sigurðssonar, en þeim mun öllum hafa verið sagt upp störfum 5. apríl 2004. Degi síðar var skipið selt nauðungarsölu á uppboði, þar sem sóknaraðili varð hæstbjóðandi.

Við uppboðið 6. apríl 2004 lýstu allir varnaraðilar kröfu um greiðslu af söluverði skipsins. Í kröfulýsingu varnaraðilans Héðins var greint frá því að hann hafi gegnt stöðu yfirvélstjóra á skipinu á tilteknu tímabili fram til 10. desember 2003. Gerði hann kröfu um greiðslu launa fyrir tímabilið frá 11. sama mánaðar til 6. apríl 2004, en skaðabóta vegna riftunar skiprúmssamnings, sem nemi launum í þrjá mánuði frá síðastnefndum degi að telja. Í kröfulýsingunni var við útreikning launa og skaðabóta tekið mið á nánar tiltekinn hátt af meðallaunum varnaraðilans fyrir störf hjá Geira Péturs ehf. á árinu 2003. Krafa hans um laun og skaðabætur var þannig talin nema alls 2.121.467 krónum, þegar tekið hafði verið tillit til greiðslna frá útgerðinni eftir 10. desember 2003. Að viðbættum dráttarvöxtum, 7.030 krónum, og innheimtukostnaði, 223.196 krónum, var krafa þessa varnaraðila samtals um greiðslu á 2.351.693 krónum, sem hann taldi sig njóta sjóveðréttar fyrir í skipinu samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Kröfulýsing varnaraðilans Arnar, sem hafði verið bátsmaður og netamaður á skipinu, var reist á sömu forsendum og að framan greinir, að því frágengnu að þar var gerð krafa um skaðabætur samsvarandi launum í einn mánuð frá 6. apríl 2004. Krafa hans um laun og skaðabætur nam alls 1.390.620 krónum, en að viðbættum dráttarvöxtum, 6.999 krónum, og innheimtukostnaði, 177.698 krónum, krafðist hann greiðslu af söluverðinu á samtals 1.575.317 krónum.

Kröfulýsing varnaraðilans Hermanns, sem hafði verið 1. stýrimaður á skipinu og skipstjóri í afleysingum, var reist á sömu forsendum og áður var getið varðandi varnaraðilann Héðinn. Krafa um laun og skaðabætur var alls 3.487.483 krónur, en að viðbættum 27.559 krónum í dráttarvexti og 309.133 krónum í innheimtukostnað var samtals krafist greiðslu á 3.824.175 krónum af söluverðinu.

Kröfulýsing varnaraðilans Olgeirs, sem hafði verið skipstjóri á skipinu, var einnig reist á sömu forsendum og kröfulýsing varnaraðilans Héðins. Gerði hann kröfu um laun og skaðabætur, samtals 4.573.403 krónur, dráttarvexti að fjárhæð 32.407 krónur og 349.873 krónur í innheimtukostnað, eða alls 4.955.683 krónur.

Kröfulýsing varnaraðilans Kristjáns, sem hafði verið stýrimaður á skipinu, var jafnframt reist á sömu forsendum og kröfulýsing varnaraðilans Héðins. Krafa um laun og skaðabætur var samtals að fjárhæð 2.461.546 krónur, auk 19.499 króna í dráttarvexti og 245.141 krónu í innheimtukostnað, eða alls 2.726.186 krónur.

Af því, sem liggur fyrir í málinu, verður ráðið að varnaraðilinn Björn Viðar Óttarsson hafi verið meðal þeirra skipverja á fiskiskipinu Geira Péturs, sem sagt var upp störfum þegar því var lagt. Í kröfulýsingu hans var ekki skýrt hvernig höfuðstóll kröfunnar, 102.342 krónur, væri kominn til, en kröfulýsingunni fylgdu gögn, sem virðast benda til þess að hér geti verið um að ræða ógreitt orlofsfé fyrir tímabilið frá 3. september til 30. desember 2003. Við síðastnefnda fjárhæð bættist innheimtukostnaður, 63.475 krónur, og var krafa hans því samtals 165.817 krónur. Krafðist hann greiðslu á henni af söluverði skipsins í skjóli sjóveðréttar samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga.

Kröfulýsingu varnaraðilans Lífeyrissjóðs sjómanna fylgdi reikningsyfirlit, sem geymdi upplýsingar um iðgjöld samkvæmt skilagreinum og innborganir Geira Péturs ehf. á nánar tilgreindu tímabili, en samkvæmt því stóð félagið í skuld við varnaraðilann 5. apríl 2004 að fjárhæð 758.758 krónur. Þá var í kröfulýsingunni vísað til þess að aðrir varnaraðilar teldu sig eiga ógreiddar kröfur vegna launa, skaðabóta og orlofsfjár, samtals að fjárhæð 14.136.861 krónu. Bæri að standa skil á iðgjöldum til lífeyrissjóðsins, sem næmu alls 10% af þeirri fjárhæð, eða 1.413.686 krónum. Taldi því þessi varnaraðili að ógreidd iðgjöld frá félaginu væru samtals 2.172.444 krónur. Að viðbættum 225.931 krónu í innheimtukostnað nam krafa varnaraðilans alls 2.398.375 krónum. Krafðist hann greiðslu hennar af söluverði skipsins í skjóli lögveðréttar samkvæmt 7. gr. þágildandi laga nr. 45/1999 um Lífeyrissjóð sjómanna.

Sýslumaðurinn á Húsavík samþykkti 20. apríl 2004 áðurnefnt boð sóknaraðila í fiskiskipið Geira Péturs, sem var að fjárhæð 80.000.000 krónur, og gerði frumvarp 10. maí sama ár til úthlutunar á söluverðinu. Af því áttu 800.000 krónur að renna í ríkissjóð vegna sölulauna, en því næst skyldu fyrrgreindar kröfur varnaraðilanna Héðins, Arnar, Hermanns, Olgeirs, Kristjáns og Björns greiðast að fullu með samtals 15.598.871 krónu. Að baki þessu átti að greiða þrjár nánar tilteknar lögveðkröfur að fjárhæð alls 795.067 krónur, en síðan kröfu varnaraðilans Lífeyrissjóðs sjómanna með áðurgreindum 2.398.375 krónum. Eftirstöðvum söluverðsins, 60.407.687 krónum, átti loks að verja til greiðslu upp í tiltekið veðskuldabréf í eigu sóknaraðila.

Með bréfi til sýslumanns 28. maí 2004 mótmælti sóknaraðili því að varnaraðilar fengju greitt af söluverði skipsins samkvæmt framangreindu frumvarpi. Voru mótmælin reist á því að kröfur varnaraðila fullnægðu ekki skilyrðum til að njóta sjóveðréttar og var greint frá röksemdum, sem að því sneru. Einnig var tekið fram í bréfinu að áskilinn væri réttur til að mótmæla útreikningi á kröfum varnaraðila á síðari stigum, ef þess gerðist þörf. Sýslumaður tók þessi mótmæli fyrir 23. júní 2004. Samkvæmt endurriti úr gerðabók mótmælti sóknaraðili því að varnaraðilar nytu sjóveðréttar fyrir kröfum sínum af fjórum nánar tilgreindum ástæðum. Einnig tók sóknaraðili fram að hann teldi sig ekki þurfa á því stigi að fjalla efnislega um útreikning krafna varnaraðila, en áskildi sér rétt til að mótmæla honum síðar. Bókað var eftir lögmanni varnaraðila að hann mótmælti því að unnt væri að breyta málsástæðum, sem sóknaraðili hefði borið upp, eða bæta nýjum við. Við fyrirtökuna tók sýslumaður ákvörðun um að hafna mótmælum sóknaraðila gegn frumvarpinu, sem stæði þannig óbreytt. Sóknaraðili lýsti því þegar yfir að hann leitaði úrlausnar Héraðsdóms Norðurlands eystra um þessa ákvörðun. Af því tilefni var mál þetta þingfest þar fyrir dómi 9. september 2004.

Í greinargerðum varnaraðila fyrir héraðsdómi var því lýst yfir að viðurkennt væri að frá framangreindum kröfum varnaraðilans Héðins bæri að draga 50.000 krónur og varnaraðilans Kristjáns 19.106 krónur vegna innborgana frá Geira Péturs ehf., sem láðst hafi að taka tillit til við útreikning á kröfunum. Þá lækkaði einnig varnaraðilinn Lífeyrissjóður sjómanna höfuðstól kröfu sinnar í 1.956.578 krónur, þannig að heildarfjárhæð hennar að meðtöldum innheimtukostnaði breyttist í 2.182.509 krónur.

Meðan málið var rekið fyrir héraðsdómi var bú Geira Péturs ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 8. nóvember 2004. Fyrir liggur að varnaraðilar lýstu ekki kröfum í þrotabúið.

II.

Þegar málið var flutt fyrir héraðsdómi fyrra sinni 9. febrúar 2005 bar sóknaraðili meðal annars fyrir sig að kröfur varnaraðila, sem deilt er um í málinu, væru fallnar niður fyrir vanlýsingu, enda hafi þeim svo sem áður greinir ekki verið haldið uppi við gjaldþrotaskipti á búi Geira Péturs ehf. Sóknaraðili hafði ekki ástæðu til að halda fram þessari málsástæðu fyrr en eftir að kröfulýsingarfresti í þrotabúið lauk 1. febrúar 2005. Af þeim sökum og með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991, eru ekki efni til að líta svo á að þessi málsástæða hafi komið of seint fram.

Samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hefur vanlýsing kröfu við gjaldþrotaskipti að meginreglu í för með sér að hún falli niður, en þeirra áhrifa gætir þó aðeins gagnvart þrotabúinu, svo sem tekið er fram í ákvæðinu. Skipið, sem mál þetta varðar, hafði verið selt við nauðungarsölu meira en sjö mánuðum áður en bú gerðarþolans, Geira Péturs ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta. Þeir, sem kölluðu til greiðslu af söluverði skipsins, gátu því haldið réttindum sínum til streitu við nauðungarsöluna, enda var kröfu þeirra um fullnustu ekki beint að þrotabúinu. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á með sóknaraðila að varnaraðilar hafi glatað rétti til úthlutunar af söluverði skipsins sökum þess að þeir lýstu ekki kröfum sínum við gjaldþrotaskiptin.

Í málinu bera varnaraðilarnir Héðinn, Örn, Hermann, Olgeir og Kristján meðal annars fyrir sig að þeim hafi ekki verið sagt upp störfum þegar fiskiskipinu Geira Péturs var lagt 10. desember 2003, enda hafi útgerðin haft í hyggju að halda því aftur til veiða og viljað tryggja að þeir yrðu þá áfram þar við störf, auk þess sem sinna hafi þurft eftirliti og öðrum verkum á skipinu, þótt það væri bundið við bryggju. Eigi þeir því rétt til launa fyrir tímabilið fram að því að þeim var sagt upp störfum 5. apríl 2004, svo og til bóta vegna riftunar skiprúmssamninga fyrir tímabilið þar á eftir, en fyrir þessum kröfum sé sjóveðréttur samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að ráðningarsamningar þessara varnaraðila hafi í raun fallið niður fyrr en samkvæmt framlögðum tilkynningum um uppsögn, sem Geiri Péturs ehf. beindi til þeirra 5. apríl 2004. Meðan á ráðningartímanum stóð var varnaraðilunum á öllum stigum skylt að verða við kvaðningu útgerðarinnar til skips, sbr. 59. sjómannalaga nr. 35/1985, ef sú ákvörðun hefði verið tekin að halda því til veiða. Ekkert liggur fyrir um að þessir varnaraðilar hafi á tímabilinu eftir 10. desember 2003 sinnt störfum fyrir Geira Péturs ehf., sem vörðuðu ekki skipið. Samkvæmt þessu verður í samræmi við 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga að líta svo á að kröfur varnaraðilanna, sem um ræðir í málinu, séu um laun, sem þeir telji sig eiga rétt á fyrir störf um borð í skipinu. Með því að sóknaraðili hefur ekki fært fram önnur haldbær rök gegn því að þessir varnaraðilar njóti sjóveðréttar fyrir kröfum sínum verður að fallast á að sá réttur sé fyrir hendi.

Í kröfulýsingu, sem varnaraðilinn Björn gerði um greiðslu af söluverði skipsins, var þess í engu gætt að greina frá því við hvaða heimild tilkall hans til greiðslu væri stutt, sbr. 2. mgr. 49. gr. laga nr. 90/1991. Ekki er unnt að líta svo á að gögn, sem fylgdu kröfulýsingunni, geti án nokkurra skýringa komið í stað slíkrar tilgreiningar. Undir rekstri málsins hefur ekkert frekar komið fram um kröfu varnaraðilans eða hvernig hún geti notið sjóveðréttar. Verður því að fallast á með sóknaraðila að krafa þessi geti ekki komið til álita við úthlutun á söluverði skipsins.

Varnaraðilinn Lífeyrissjóður sjómanna hefur sem fyrr segir stutt rétt sinn til að krefjast greiðslu af söluverði skipsins við ákvæði 7. gr. laga nr. 45/1999, þar sem veittur var lögveðréttur fyrir ógreiddum iðgjöldum sjóðfélaga og launagreiðenda til lífeyrissjóðsins. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hluti af kröfunni, sem þessi varnaraðili leitar greiðslu á, sé studdur við skilagreinar frá Geira Péturs ehf., sem lagðar hafi verið til grundvallar í áðurnefndu reikningsyfirliti, en að öðru leyti geri varnaraðilinn tilkall til lífeyrissjóðsiðgjalda af launum, þar með talið í uppsagnarfresti, sem aðrir varnaraðilar leita greiðslu á af söluverði skipsins. Lögveðréttur samkvæmt fyrrgreindu ákvæði var ekki bundinn við kröfu um lífeyrissjóðsiðgjöld, sem studd væri við skilagreinar launagreiðanda. Verður því að hafna mótbárum sóknaraðila gegn því að þessi varnaraðili geti notið lögveðréttar fyrir kröfum sínum.

Mótmælin, sem sóknaraðili hafði uppi við sýslumann gegn því að varnaraðilar fengju greiðslu við úthlutun á söluverði fiskiskipsins Geira Péturs, voru að efni til bundin við atriði, sem vörðuðu veðréttindi fyrir kröfum varnaraðilanna. Því til samræmis tók sýslumaður með ákvörðun sinni 23. júní 2004 eingöngu afstöðu til þessara atriða og komst þar að þeirri niðurstöðu að frumvarpi til úthlutunar á söluverðinu yrði ekki breytt. Um þá ákvörðun er dómsmál þetta rekið, sbr. 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991. Þegar af þeirri ástæðu komast kröfur og málsástæður sóknaraðila, sem varða lækkun á kröfum varnaraðilanna, ekki að í málinu.

Svo sem áður var getið hafa undir rekstri málsins verið gerðar breytingar til lækkunar á kröfum nokkurra varnaraðilanna frá því, sem lagt var til grundvallar í frumvarpi sýslumanns til úthlutunar á söluverði. Verður því kveðið á um breytingar á frumvarpinu þessu til samræmis eins og nánar greinir í dómsorði, auk þess sem hafnað er samkvæmt framansögðu tilkalli varnaraðilans Björns til greiðslu af söluverðinu. Með þeim breytingum hækkar úthlutun til sóknaraðila samkvæmt frumvarpinu, en að öðru leyti skal vera óröskuð ákvörðun sýslumanns um að það standi óbreytt.

Rétt er að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður milli sóknaraðila og varnaraðilans Björns. Á hinn bóginn verður sóknaraðili dæmdur til að greiða öðrum varnaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi handa hverjum þeirra eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Ákvörðun sýslumannsins á Húsavík 23. júní 2004 er staðfest að öðru leyti en því að frumvarp 10. maí sama ár til úthlutunar á söluverði fiskiskipsins Geira Péturs ÞH 344 breytist á þann hátt að varnaraðilinn Héðinn Mari Kjartansson fái greiddar 2.301.693 krónur, varnaraðilinn Kristján Friðrik Sigurðsson 2.707.080 krónur og varnaraðilinn Lífeyrissjóður sjómanna 2.182.509 krónur, varnaraðilinn Björn Viðar Óttarsson fái ekkert greitt, en sóknaraðili, Íslandsbanki hf., fái greiddar 60.858.476 krónur.

Sóknaraðili greiði varnaraðilunum Héðni Mara Kjartanssyni, Erni Arngrímssyni, Hermanni Arnari Sigurðssyni, Olgeiri Sigurðssyni, Kristjáni Friðriki Sigurðssyni og Lífeyrissjóði sjómanna hverjum fyrir sig samtals 100.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Að öðru leyti fellur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. ágúst 2005.

 

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. febrúar s.l. og endurflutt 27. júní 2005, er til komið vegna kröfu Kristínar Fjólu Fannberg hdl. f.h. Íslandsbanka h.f., kt. 550500-3530, Lynghálsi 4, Reykjavík, sem með bréfi, dags. 5. júlí 2004 og mótteknu 7. s.m., kærir ákvörðun sýslumannsins á Húsavík í máli nr. 57/2003, sem tekin var á fundi þann 23. júní 2004 um að taka ekki til greina mótmæli Íslandsbanka h.f., sóknaraðilja í máli þessu, við frumvarpi til úthlutunar á söluverði Geira Péturs ÞH-344.  Var mál þetta þingfest 9. september 2004 og skilaði sóknaraðilji greinargerð 14. október og varnaraðiljar 28. s.m.

Fyrir hönd sóknaraðilja flytur málið Árni Pálsson hrl.

Varnaraðiljar eru Lífeyrissjóður sjómanna, kt. 460673-0119, Þverholti 14, Reykjavík, Örn Arngrímsson, kt. 261256-2079, Stórhóli 13, Húsavík, Hermann Arnar Sigurðsson, kt. 300169-5039, Hjarðarhóli 16, Húsavík, Björn Viðar Óttarsson, kt. 070757-5679, Stórhóli 11, Húsavík, og Olgeir Sigurðsson, kt. 151163-3199, Skálabrekku 7, Húsavík.  Lögmaður þessara varnaraðilja er Friðrik Ásgeir Hermannsson hdl.

Aðrir varnaraðiljar eru Héðinn Mari Kjartansson, kt. 091271-5759, Snægili 19, Akureyri, og Kristján Friðrik Sigurðsson, kt. 291081-4959, Hjarðarhóli 1, Húsavík.  Er lögmaður þeirra Jónas Haraldsson hrl.

Dómkröfur sóknaraðilja eru aðallega þær að hafnað verði að kröfur varnaraðilja njóti sjóveðréttar í b/v Geira Péturs ÞH-344, skipaskrárnúmer 2285, skv. 1. tl. 1. mgr. 197. gr. laga nr. 34, 1985, eða samkvæmt 7. gr. laga nr. 45, 1999 og að frumvarpi sýslumannsins á Húsavík til úthlutunar á söluverði b/v Geira Péturs ÞH-344 verði breytt þannig að ekkert komi af söluverði skipsins upp í kröfur varnaraðilja.

Til vara er gerð krafa um að kröfur varnaraðilja verði lækkaðar, verði þær taldar njóta sjóveðréttar í skipinu og að frumvarpi sýslumannsins á Húsavík breytt til lækkunar í samræmi við það.

Þá er gerð sú krafa að varnaraðiljum verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Varnaraðilji, Lífeyrissjóður sjómanna, krefst þess að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun til varnaraðilja á kr. 2.398.375 af nauðungarsöluandvirði b/v Geira Péturs ÞH-344, skipaskrárnúmer 2285, ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber.  Til vara er krafist úthlutunar á lægri fjárhæð að mati dómsins.  Þá er krafist að sóknaraðilja verði gert að greiða varnaraðilja málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Varnaraðilji, Örn Arngrímsson, gerir þá kröfu að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun á kr. 1.575.317 af nauðungarsöluandvirði sama skips og til vara er krafist úthlutunar af lægri fjárhæð að mati dómsins.  Svo og er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Varnaraðilji, Hermann Arnar Sigurðsson, gerir þá kröfu að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun til varnaraðilja á kr. 3.824.175 af nauðungarsöluandvirði sama skips.  Til vara er krafist úthlutunar á lægri fjárhæð að mati dómsins.  Þá er þess krafist að sóknaraðilji greiði varnaraðilja málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðilji, Björn Viðar Óttarsson, gerir þá kröfu að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun til varnaraðilja á kr. 165.817 af nauðungarsöluandvirði sama skips.  Til vara er krafist úthlutunar á lægri fjárhæð að mati dómsins.  Svo og er krafist málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðilji Olgeir Sigurðsson gerir þá kröfu að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun til varnaraðilja á kr. 4.955.683 af nauðungarsöluandvirði sama skips.  Til vara er krafist úthlutunar á lægri fjárhæð að mati dómsins.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðilja að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðilji, Héðinn Mari Kjartansson, krefst þess að staðfest verði með dómi sú ákvörðun sýslumannsins á Húsavík að úthluta honum kr. 2.351.693 af uppboðsandvirði sama skips og krafan beri dráttarvexti skv. III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 10. maí 2004 til greiðsludags.  Svo og er þess krafist að staðfestur verði sjóveðréttur varnaraðilja fyrir öllum kröfum þeirra í skipinu.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðilja og tekið verði tillit til virðisaukaskatts.

Varnaraðilji, Kristján Friðrik Sigurðsson, gerir kröfu um að staðfest verði með dómi sú ákvörðun sýslumannsins á Húsavík að úthluta honum kr. 2.726.186 svo og sömu kröfur og f.h. Héðins Mara Kjartanssonar.

II.

Málsatvik eru þau, að frystitogarinn b/v Geiri Péturs ÞH-344, skipakrárnúmer 2285, þáverandi eign Geira Péturs ehf., kt. 681094-2619, Uppsalavegi 22, Húsavík, var seldur Íslandsbanka h.f., sóknaraðilja máls þessa, á framhaldsuppboði hjá sýslumanninum á Húsavík 6. apríl 2004.  Söluandvirði skipsins nam kr. 80.000.000.  Lögðu lögmenn varnaraðilja þá fram kröfulýsingar þar sem fram kom að kröfur þeirra nytu sjóveðréttar í skipinu með vísan til 1. mgr. 197., sbr. 201. gr. laga nr. 34, 1985 og 7. gr. laga nr. 45, 1999.  Sýslumaðurinn á Húsavík féllst á að kröfur varnaraðilja nytu sjóveðréttar og tók þær til greina eins og þeim var lýst í frumvarpi til úthlutunar sem hann gerði 10. maí 2004 og eru það sömu kröfur og varnaraðiljar hafi uppi í málinu nú.  Með bréfi dags. 28. maí 2004 mótmælti sóknaraðilji þessari afstöðu sýslumanns og á fundi hjá sýslumanninum á Húsavík 23. júní 2004 var fjallað um mótmæli sóknaraðilja.  Byggði sóknaraðilji mótmæli sín á þeirri málsástæðu að kröfunum væri alfarið mótmælt þar sem ekki verði séð að þær uppfylltu skilyrði þess að njóta réttarstöðu sjóveðs.  Þá var einnig gerður fyrirvari um fjárhæð krafnanna.  Niðurstaða þess fundar var sú, að sýslumaður féllst ekki á mótmæli sóknaraðilja og stendur því óhögguð ákvörðun sýslumannsins um úthlutun söluverðsins.

 

III.

Málsástæður og lagarök sóknaraðilja lúta annars vegar að kröfum til Lífeyrissjóðs sjómanna og síðan til annarra varnaraðilja, sem voru skipverjar.

Byggi Lífeyrissjóður sjómanna kröfu sína um lögveð á 7. gr. laga nr. 45, 1999 þar sem segi að iðgjöld til sjóðsins njóti lögveðréttar í skipi.  Það sem skipti máli varðandi þessa kröfu sé að hún sé ekki skýrð með viðhlítandi hætti.  Ekki hafi verið lagðar fram skilagreinar til sjóðsins svo ekki sé unnt að átta sig á því frá hvaða tíma iðgjöldin eru.  Krafan sé ekki byggð á öðru en því að gerð sé krafa um 10% iðgjald af þeim launum sem lögmenn varnaraðilja geri kröfu um að greidd verði af söluverði skipsins.  Eins og krafan sé upphaflega sett fram sé hún vanreifuð þannig að vísa beri henni frá dómi ex officio og geti því ekki komið til álita að samþykkja hana.  Einnig er því mómælt að unnt sé að líta svo á að krafan hafi lögveð í skipinu.  Þeim kröfum sem fenginn sé réttur samkvæmt 7. gr. laga nr. 45, 1999, m.a. vegna þess að um sé að ræða iðgjöld sem ákveðin eru samkvæmt lögum, sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga.  Eins og málið liggi fyrir þá byggist kröfurnar að mestu leyti á áætlun lögmanna varnaraðilja svo útilokað sé að líta svo á að um sé að ræða iðgjöld í þeirri merkingu sem lögð sé í það hugtak samkvæmt framansögðu.  Einnig komi fram í lögum nr. 45, 1999 að gert sé ráð fyrir að atvinnurekendur haldi eftir af launum starfsmanna og geri upp við varnaraðilja.  Í lögum nr. 129, 1997 komi hins vegar fram sú almenna regla að atvinnurekendum beri að skila skilagreinum til lífeyrissjóða.  Ef það sé ekki gert þá sé heimilt að áætla iðgjöld.  Eins og kröfu varnaraðilja sé háttað verði að hafna henni því það sé skilyrði til að viðurkenna lögveð að krafan sé algjörlega óumdeild.

 

IV.

Kröfur annarra varnaraðilja séu annars vegar svokölluð meðallaun frá því að skipinu var lagt 10. desember 2003 þar til 5. apríl 2004, en þá sé því haldið fram að þeim hafi verið sagt upp.  Sé krafa þessi byggð á 2. mgr. 27. gr. laga nr. 35, 1985.  Hins vegar er gerð krafa um meðallaun á uppsagnarfresti, sem talinn er hefjast 6. apríl 2004 og er hún byggð á 25. gr. sömu laga.

Sóknaraðilji hefur þær málsástæður uppi, að í fyrsta lagi hafi varnaraðiljar ekki verið lögskráðir á b/v Geira Péturs ÞH-344 nema til áramóta 2003/2004.  Telur sóknaraðilji því ekki liggja fyrir sönnun um að þeir hafi verið ráðnir á skipið þann tíma sem krafa þeirra taki til.  Þá sé það óumdeilt að skipinu hafi ekki verið haldið úti, frá 10. desember 2003 þar til það var selt á nauðungaruppboði 6. apríl 2004.  Því hljóti varnaraðiljar að verða að sanna að þeir hafi verið ráðnir á skipið á þessum tíma, því samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 197. gr. laga nr. 34, 1985 sé það skilyrði fyrir sjóveðrétti að um sé að ræða launakröfur þeirra sem ráðnir séu á skip.  Sé vandséð hvaða tilgangi það þjóni að hafa yfirmennina og bátsmann á launum eins og varnaraðiljar máls þessa og haldið sé fram.  Sé það a.m.k. ljóst að þeir hafi ekki verið að vinna við skipið á þessum tíma.  Sóknaraðilji hafi gert forsvarsmönnum Geira Péturs ehf. það ljóst, bæði í desember 2003 svo og aftur í janúar 2004, að hugmyndir þeirra um endurskipulagningu á fjárhag félagsins gæti ekki orðið til þess að fresta fyrirhuguðu uppboði á skipinu.  Þá sé það einnig skilyrði til þess að laun njóti sjóveðréttar, skv. reglu 197. gr. laga nr. 34, 1985 að launin séu fyrir störf um borð í skipinu.  Hvað sem öðru líði þá sé ljóst að varnaraðiljar voru ekki að vinna um borð.  Skipið hafi ekki verið í rekstri og því sé þetta skilyrði laganna um að launin séu fyrir vinnu um borð í skipinu ekki uppfyllt.  Ef varnaraðiljar hafi verið í ráðningarsambandi við Geira Péturs ehf. þá hafi þeir ekki verið að vinna um borð í skipinu sem bundið hafi verið við bryggju frá því var lagt 10. desember 2003.  Þá verði að benda á að krafa varnaraðilja sé nokkuð sérstök fyrir þær sakir að sjóveðréttur stofnist á grundvelli laga eins og að framan getur, andstætt því sem á við um samningsveð.  Almenna reglan sé sú að ekki þurfi að þinglýsa þessum kröfum og því ekki unnt að ganga úr skugga um tilvist þeirra eins og þegar um önnur veðréttindi sé að ræða.  Því verði að gera ríkar kröfur til þess að ekki sé nokkur vafi á því að sú krafa sem um sé að ræða fullnægi þeim skilyrðum sem sett séu í 1. tl. 1. mgr. 197. gr. laga nr. 34, 1985.  Ekki verði fram hjá því litið að þrír varnaraðilja, þeir Hermann Arnar, Olgeir og Kristján Friðrik, séu synir stjórnarmanns og framkvæmdastjóra Geira Péturs ehf.  Hljóti það að teljast óeðlilegt í ljósi þess að skipið var bundið við bryggju að viðurkenna rétt þessara manna til sjóðveðs á kostnað þeirra sem áttu samningsveð í skipinu.  Þá hafi Olgeir auk þess verið varamaður í stjórn félagsins og hafi þessir menn því vitað mjög vel um þá greiðsluerfiðleika sem útgerðin var í.  Þetta verði að hafa í huga við mat á kröfum þessara varnaraðilja.  Einnig er á það bent að ólíklegt sé að kröfur þeirra njóti forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21, 1991 og því óeðlilegt að kröfur þeirra njóti lögveðréttar í skipinu.

Auk þess hafi þeim ekki verið lýst í þrotabú félagsins, er tekið var til gjaldþrotaskipta 8. nóvember 2004 og lauk innköllunarfresti 1. febrúar 2005.  Þegar af þessum sökum verði að hafna kröfum varnaraðilja allra.

Samkvæmt þessu telur sóknaraðilji að hafna beri því að allar kröfur varnaraðilja séu tryggðar með sjóveðrétti.

Varakrafa sóknaraðilja er sú, að ef fallist verður á að kröfur varnaraðilja njóti sjóveðréttar í skipinu þá verði þær lækkaðar.

Að því er varðar kröfu Lífeyrissjóðs sjómanna þá sé krafan annars vegar byggð á yfirliti frá varnaraðiljum og hins vegar áætlunum lögmanna þeirra.  Samkvæmt sundurliðun í kröfulýsingu þá er byggt á yfirlitinu að því er varðar kr. 758.758 af kröfunni.  Þessi háttur í kröfugerð feli það í sér að í fyrsta lagi séu í fjárhæðinni dráttarvextir.  Þessi höfuðstóll sé síðan dráttarvaxtareiknaður sem tæplega sé í samræmi við 12. gr. laga nr. 38, 2001.  Yfirlitið sé allt frá árinu 2002 svo ekki verði séð frá hvaða tíma skuldin sé.  Þá hafi ekki verið lagðar fram skilagreinar.  Sé krafan það vanreifuð að ekki sé hægt að taka afstöðu til hennar.  Þá sé krafist 10% iðgjalds þannig að ekki verði annað séð en að með þessum hætti sé verið að krefjast 4% framlags launþega verði bæði greitt til lífeyrissjóðsins og einnig til annarra varnaraðilja.

Að því er varðar kröfu Héðins Mara Kristjánssonar þá hafi hann gegnt stöðu yfirvélstjóra frá 29. október til 10. desember 2003 eftir því sem fram komi í kröfulýsingu.  Enginn skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður, þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laga nr. 35, 1985.  Krafan sé miðuð við það í fyrsta lagi að hann hafi átt að fá laun frá 11. desember 2003 til 5. apríl 2004 þar sem miðað er við svokölluð meðallaun vegna þess að hann hefði mátt vænta þess að á þessu tímabili yrði skipið gert út til fiskveiða.  Fyrir hafi legið að sóknaraðilji hafi tilkynnt forsvarsmönnum Geira Péturs ehf. í desember 2003 að uppboði yrði ekki frestað.  Sé því mjög langsótt að varnaraðilji hafi mátt vænta þess að skipinu yrði haldið úti til fiskveiða.  Þá telur sóknaraðilji að þessi krafa varnaraðilja sé ekki í samræmi við kjarasamning sem í gildi var á þessum tíma milli Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands og er þá einkum vísað til greinar 1.36.  Þar sé tekið á því ef vélstjóri þarf að vinna við togara eða hafi eftirlit með vélbúnaði hans á fyrstu sjö dögum eftir að hafnarfríi lýkur.  Í þessum tilvikum þá beri í fyrstu að greiða tímakaup, en eftir það kauptryggingu.  Telur sóknaraðilji þetta ákvæði kjarasamnings eiga við í þessu tilviki og geti því varnaraðilji ekki átt rétt á meðallaunum eins og krafist sé.  Í þessu sambandi bendir hann á að launaseðill sem beri það með sér að varnaraðilja hafi verið greidd kauptrygging fyrir 60 daga, þ.e. frá 1. janúar til 29. febrúar 2004, eins og kjarasamningurinn geri ráð fyrir.  Með vísan til þessa sé ómögulegt annað en að líta svo á að varnaraðilji hafi verið á samningi þess efnis að hann fengi greidda kauptryggingu á meðan skipið var ekki í rekstri.  Þá byggi fleiri ákvæði í kjarasamningi á sömu sjónarmiðum, t.d. þegar hlé verði á útgerð skipa á milli veiðitímabila og er vitnað til greinar 1.28 til 1.37 í áður nefndum kjarasamningi.  Á launaseðli til varnaraðilja komi líka fram að 7. mars 2004 hafi honum verið greiddar kr. 50.000, væntanlega upp í laun.  Ekki verði séð að gert sé ráð fyrir þessum greiðslum til frádráttar kröfum varnaraðilja í kröfulýsingu.  Samkvæmt því sem fram komi í kröfulýsingu þá eru launaviðmið þau laun sem varnaraðilji hafði þann stutta tíma sem hann var lögskráður á skipið, sem varla sé nokkur grunnur til að byggja á og er því mótmælt að krafan sé þannig reiknuð, fallist dómurinn á að varnaraðilja beri meðallaun.

Þá er því mótmælt að þeim útreikningsaðferðum sem beitt er þar sem þær feli það í sér að varnaraðilji vinni meira en heimilt sé samkvæmt kjarasamningi.  Ekki sé tekið tillit til þess að skipið þurfi að vera inni um jól og áramót, þá sé ekki heldur reiknað með 30 tíma stoppi sem þurfi að vera eftir hverja veiðiferð.  Vegna þessa sé krafan langt umfram það sem varnaraðilji hafi getað vænst að hafa í laun á þessu tímabili.

Þá liggi það fyrir að varnaraðilja var sagt upp starfi 5. apríl 2004 og geri hann kröfu um meðallaun á sama grundvelli og hér að framan.  Geti sóknaraðilji ekki fallist á að miða beri við þau laun sem gert er vegna þess að frá 10. desember 2003 hafi varnaraðilji verið búinn að vera að vinna við skipið í landi og fengið greidda kauptryggingu í samræmi við ákvæði kjarasamnings.  Launaviðmið geti því ekki orðið annað en kauptrygging.  Því eigi ákvæði 2. mgr. 27. gr. laga nr. 35, 1985 hér við en ekki 1. mgr. 25. gr. sömu laga þar sem varnaraðilja var sagt upp störfum en ekki vikið úr starfi.  Þá er skorað á varnaraðilja að leggja fram upplýsingar um laun sem hann kunni að hafa haft á uppsagnarfrestinum.

Að því er varðar kröfu Arnar Arngrímssonar þá er vísað til þeirra málsástæðna sem raktar hafa verið í sambandi við kröfu Héðins Mara Kristjánssonar.  Telur sóknaraðilji að varnaraðilji eigi aðeins rétt á kauptryggingu, enda komi fram á launaseðli sem fylgdi kröfulýsingu að hann hafi fengið greitt skv. kauptryggingu.  Ekki verði heldur séð að gert sé ráð fyrir að til frádráttar kröfunni komi laun sem greidd voru 15. mars 2004 og ekki heldur kr. 140.000 sem virðast hafa verið greiddar í mars 2004.  Samkvæmt kjarasamningi hafi varnaraðilji átt 14 daga uppsagnarfrest, sbr. grein 1.12 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Sjómannasambands Íslands.  Fullyrðingar um lengri uppsagnarfrest séu ósannaðar.  Þá verði að gera grein fyrir launum varnaraðilja á uppsagnarfresti.

Að því er varðar kröfu Hermanns Arnars Sigurðssonar þá hafi hann verið stýrimaður og afleysingaskipstjóri á skipinu.  Að því er varðar launaliðinn þá er vísað til fyrri málsástæðna sem raktar eru varðandi launakröfu Héðins Mara Kjartanssonar.  Hér liggi ekki fyrir launaseðill en það hljóti að verða að ganga út frá þeirri forsendu að hann hafi verið ráðinn á kauptryggingu.  Að öðru leyti er vísað til kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Farmanna- og fiskimannasambandsins grein 1.33. þar sem skýrt komi fram að vinna yfirmanna við skip sem bundið er við bryggju greiðist skv. reikningi fyrstu 7 dagana og síðan ber að greiða kauptryggingu.  Samkvæmt launaseðli sem kröfulýsingu fylgdi verði ekki betur séð en varnaraðilji hafi fengið ofgreitt kr. 114.652 sem hljóti að koma til frádráttar kröfu hans.  Þá vanti upplýsingar um laun hans á uppsagnarfresti.

Að því er varðar kröfu Björns Viðar Óttarssonar þá sé engin grein gerð fyrir kröfu hans, en með kröfunni séu skilagreinar um greiðslu á orlofslaunum til banka sem krafan sé hugsanlega byggð á.  Ef um sé að ræða ógreitt orlof, þá verði að minna á að gjalddagi á því sé þegar maður lætur af störfum, sbr. 8. gr. laga nr. 30, 1987 og verði ekki annað séð en að dráttarvextir séu ekki reiknaðir í samræmi við það.

Að því er varðar kröfu Olgeirs Sigurðssonar þá er vísað til málsástæðna sem raktar eru í sambandi við kröfur Héðins Mara Kjartanssonar og kröfu Hermanns Arnars Sigurðssonar.  Bendir sóknaraðilji á að svo virðist sem varnaraðilji hafi skuldað kr. 84.371 skv. launaseðli sem kröfulýsingunni fylgdi, sem draga beri frá kröfu hans.

Að því er varðar kröfu Kristjáns Friðriks Sigurðssonar þá er vísað til þeirra málsástæðna sem raktar eru varðandi kröfur Olgeirs Sigurðssonar og Héðins Mara Kjartanssonar.  Samkvæmt launaseðli sem fylgdi kröfulýsingu þá virðist hann hafa verið í skuld að fjárhæð kr. 19.106, sem koma eigi til frádráttar kröfu hans.

Þá er innheimtukostnaði varnaraðilja mótmælt í heild sinni.  Lögmenn varnaraðilja séu að gæta hagsmuna margra aðilja og því óeðlilegt að reikna allan innheimtukostnað á kröfur.

V.

Lögmaður Héðins Mara Kjartanssonar og Kristjáns Friðriks Sigurðssonar mótmælir ekki í sjálfu sér að sú málsástæða lögmanns sóknaraðilja komist að, að kröfum umbjóðenda hans hafi ekki verið lýst í þrotabú Geira Péturs ehf., hins vegar eigi sú málsástæða ekki við í þessu tilfelli þar sem Hæstaréttardómur í máli nr. 222, 2001 fjalli um alls ólík málsatvik.

En málsástæður og lagarök hans eru að öðru leyti þau að mótmæli sóknaraðilja séu of seint fram komin þar sem í endurriti úr gerðarbók við embætti sýslumannsins á Húsavík frá 23. júní 2004 sé samantekt sýslumannsins í fjórum liðum á málsástæðum og lagarökum sóknaraðilja vegna mótmæla hans gegn frumvarpinu að úthlutunargerð af nauðungarsöluandvirði skipsins.  Varnaraðiljar mótmæli því að önnur lagarök eða frekari útlistanir en þar komi fram hafi komist að fyrir héraðsdómi.

Byggi hann á því að til úrlausnar dómsins geti eingöngu komið ágreiningur aðilja um það hvort kröfur varnaraðilja njóti sjóveðréttar í nauðungarsöluandlaginu eða ekki, verða kröfur sóknaraðilja, svo sem varðandi fjárhæðir krafna og útreikning þeirra, ekki komið að vegna ákvæða 75. gr. nauðungarsölulaga nr. 90, 1991, sem kveði skýrlega á um það að kröfur verði ekki hafðar uppi í máli um annað en þá ákvörðun sýslumanns sem var tilefni málsins.  Einu mótmæli sóknaraðilja við úthlutunargerð sýslumannsins á Húsavík hafi lotið að því hvort kröfur varnaraðilja uppfylltu skilyrði til að njóta sjóveðréttar í nauðungarsöluandlaginu eða ekki.  Um annað hafi ekki verið deilt hjá sýslumanni og verði því að telja önnur mótmæli sóknaraðilja hér fyrir dómi of seint fram komin.

Til lagaraka vísar hann til ummæla í greinargerð með 2. mgr. 75. gr. laganna um nauðungarsölu, þar sem fram komi sú meginregla að kröfur geti almennt ekki varðað annað en þá ákvörðun sýslumanns um nauðungarsölu sem varð kveikjan að málinu.

Fyrirvari sóknaraðilja við fyrirtöku hjá sýslumanni þann 23. júní 2004 um rétt hans til að koma síðar að frekari mótmælum og málsástæðum sé algjörlega haldlaus, enda hafi varnaraðiljar mótmælt því strax að síðbúnar málsástæður fengju að komast að í málinu.  Gildi hér sömu sjónarmið og gilda í almennu réttarfari, sbr. ákvæði 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90, 1991.  Verði því ekki byggt á málsástæðum og mótmælum sóknaraðilja, sem unnt var að byggja á við meðferð málsins hjá sýslumanni, en komu þar ekki fram.

Þeirri málsástæðu sóknaraðilja er mótmælt að kröfur varnaraðilja njóti ekki sjóveðréttar.  Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34, 1985 eru laun og önnur þóknun sem skipstjóri, skipverjar og aðrir sem á skip eru ráðnir eiga rétt á fyrir störf í skipi tryggð með sjóveði.

Telji sóknaraðilji að þar sem skipverjar skipsins hafi ekki verið lögskráðir á skipið meðan það lá við bryggju eftir áramótin 2003/2004 eins og lögskráningarlög mæli fyrir um þá eigi skipverjar ekki sjóveðrétt til tryggingar launum sínum, þar sem launin hafi ekki verið greidd fyrir störf um borð.  Þetta fáist ekki staðist.

Samkvæmt skýringum fræðimanna þá taki sjóveðrétturinn til launa þótt hluti þeirra sé fyrir verk sem innt er af hendi í landi, enda tengist þau skipi því sem skipverjinn er ráðinn á.  Þannig að laun og önnur þóknun verði skýrð mjög rúmt eins og gert hafi verið eftir eldri siglingalögunum.

Varðandi þá skoðun sóknaraðilja að ríkari kröfur verði að gera til tilvistar sjóveðs en annarra veða, þar sem ekki þurfi að þinglýsa sjóveðum, þá sé þetta rangt hvað sjóveð vegna launakrafna sjómanna snertir.  Samkvæmt 1. mgr. 199. gr. siglingalaga falli sjóveðréttur í skipi niður gagnvart grandlausum viðsemjenda eiganda skips hafi dómi um launakröfur skipverja ekki verið þinglýst innan sex vikna frá því að dómur er uppkveðinn.

Varðandi þá málsástæðu sóknaraðilja að sjóveð glatist vegna ákvæða gjaldþrotaskiptalaga þar sem ólíklegt sé að kröfur þeirra njóti forgangsréttar ef til gjaldþrotaskipta komi á búi Geira Péturs ehf. þá mótmælir varnaraðilji þessum skilningi.  Gildi sjóveðs varðandi launakröfur sjómanna ráðist ekki af því hvort möguleiki sé á því að skiptastjóri í þrotabúi viðurkenni launakröfuna sem forgangskröfu eða ekki.  Þarna sé ekkert samhengi á milli.  Gildi sjóveðskröfu og réttmæti hennar ráðist alfarið af ákvæðum siglingalaga en ekki ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga.  Sjóveðkröfu verði ekki hafnað af þeim ástæðum einum að líklegt sé að skiptastjóri í þrotabúi, ef til komi, telji ólíklegt að launakröfur fyrrum skipverja verði viðurkenndar sem forgangskröfur.

Að því er varðar nánar launakröfur varnaraðilja þá hafi útgerðarmanni skipsins verið lögskylt að gera skriflegan ráðningarsamning við varnaraðilja, sbr. 6. gr. sjómannalaga, ella bera hallan af því.  Þar sem útgerðin hafi ekki sinnt þessari lagaskyldu sinni beri sóknaraðilji alfarið sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu sinni að ráðning varnaraðilja hafi verið tímabundin til áramóta 2003/2004 og ráðningunni skyldi þá lokið þegar varnaraðiljar voru afskráðir þegar skipinu var lagt þann 10. desember 2003.

Vísar varnaraðilji til dómafordæma Hæstaréttar þar sem fram kemur að það er útgerðarmaðurinn en ekki skipverjinn sem ber hallann af því geri útgerðarmaður ekki skriflegan ráðningarsamning við skipverja.  Að því er varðar skráningu úr skiprúmi þá beri að lögskrá skipverja úr skiprúmi, samkvæmt 5. gr. lögskráningarlaga nr. 43, 1987, er skip er ekki á förum lengur en um stundarsakir.  Lögskráning í skiprúm eða afskráning úr skiprúmi segja ekkert til um launarétt skipverjans, sbr. 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35, 1986 eða ráðningartíma skipverja.

Varðandi kaup á ráðningartíma, þá hafi ráðningartíma varnaraðilja verið slitið frá og með 6. apríl 2004 með bréfi útgerðarmanns 5. apríl 2004.  Eigi þeir rétt á launum í uppsagnarfresti vegna riftunar.  Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga taki skipverji kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans ljúki samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skipti þá ekki máli þótt hann hafi áður verið afskráður, en varnaraðiljum hafi ekki verið sagt upp störfum.

Í greinargerð með 27. gr. sjómannalaga komi fram að það sé útgerðar að boða skipverja til vinnu, sbr. og 59. gr. sjómannalaga, svo og dómafordæmi Hæstaréttar.  Varnaraðiljar hafi verið tilbúnir til vinnu við skipið og búnað þess á ráðningartíma sínum.  Launaréttur þeirra falli ekki niður þó útgerðarmaður nýti sér ekki starfskrafta þeirra á ráðningartímanum.

Varnaraðiljar mótmæla þeim vangaveltum sóknaraðilja sem röngum að þeir hafi með því að taka við greiðslu kauptryggingar eftir áramótin 2003/2004 samið um það við útgerðina að þiggja eingöngu laun í formi kauptryggingar, þvert á móti þá hafi varnaraðiljar ekki verið endurráðnir á skipið til þess að annast gæslu þess gegn greiðslu kauptryggingar.  Varnaraðiljar þurfi því ekki að sætta sig við greiðslu kauptryggingar eingöngu heldur eigi rétt á greiðslum meðallauna eins og fram komi í dómafordæmum Hæstaréttar.

Þá telji sóknarðilji að ýmis ákvæði kjarasamninga svo sem áður tilvitnuð gr. 1.28. – 1.37. eigi við þegar útgerðarmaður hafi lagt skipi sínu skuli greitt samkvæmt þeim en ekki meðallaun, þetta telja varnaraðiljar rangt enda hafi Hæstiréttur hafnað slíkum hugleiðingum í nokkrum dómum.

Eins og fram komi í gögnum málsins þá hafi b/v Geiri Péturs ÞH-344 haft nægan kvóta og landað reglulega á árunum 2002 til ársloka 2003, uns skipinu var lagt vegna fjárhagserfiðleika útgerðar.  Skipverjar beri ekki fjárhagslega ábyrgð á rekstrarvanda útgerðar eða hallann af, hvað launagreiðslur snertir, heldur útgerðin.  Varnaraðiljar hafi mátt vænta þess að framhald yrði á veiðum skipsins eftir áramótin 2003/2004 eftir að jóla- og áramótafríum lyki.

Varnaraðiljar beri ekki ábyrgð á því eða glata lögboðnum launarétti vegna þess að útgerðin hafi ekki getað haldið skipinu til veiða vegna fjárhagserfiðleika.

Að því er varðar útreikning meðallauna þá sé ekki ágreiningur um launagreiðslur til varnaraðilja fram að áramótum 2003/2004.  Krafa varnaraðilja er annars vegar um laun ráðningartímabilið 1. janúar til 6. apríl 2004 og hins vegar laun í uppsagnarfresti reiknað út á grundvelli meðallaunaútreiknings.  Er meðallaunaútreikningur varnaraðilja byggður á meðallaunum hvern lögskráningardag á ráðningartíma meðan skipinu var haldið úti.

Sú skoðun sóknaraðilja að miða beri við meðaltal ráðningardaga en ekki lögskráningardaga fái ekki staðist miðað við dómaframkvæmd.  Ekki heldur sú skoðun sóknaraðilja að við ákvörðun meðallauna beri að miða við tímabilið frá upphafi ráðningar til ráðningarloka og reikna með þau tímabil sem kauptrygging er greidd síðasta hluta ráðningartímans inn í meðallaunaútreikninginn.

Þetta fái ekki staðist, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 326, 2000, þar sem meðallauna viðmiðun sé reiknuð miðað við meðalaflahlut fram að þeim tíma að skipinu var lagt og útgerðarmaður fór að greiða kauptryggingu, en ekki miðað við allan ráðningartímann eins og krafa sóknaraðilja sé.

Frá meðallaunakröfu sinni draga varnaraðiljar frá greidd laun frá áramótum 2003/2004 og viðurkenna að eftir er að draga kr. 50.000 frá varnaraðilja Héðni Mara Kjartanssyni og kr. 19.106 frá Kristjáni Friðriki Sigurðssyni.

VI.

Lögmaður annarra varnaraðilja, þ.e Lífeyrissjóðs sjómanna, Arnar Arngrímssonar, Hermanns Arnar Sigurðssonar, Björns Viðars Óttarssonar og Olgeirs Sigurðssonar, mótmælir því að sú málsástæða sóknaraðilja, að kröfur umbjóðenda hans séu fallnar niður vegna vanlýsingar í þrotabú Geira Péturs ehf., fái að komast að í máli þessu.

Færir hann sömu málsástæður að breyttum breytanda fram fyrir kröfum sínum og Héðinn Mari Kjartansson og Kristján Friðrik Sigurðsson.

Byggja allir þessir varnaraðiljar á þeirri málsástæðu að kröfur þeirra samkvæmt kröfulýsingu, dagsettri 6. apríl 2004 njóti sjóveðréttar samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 197. gr. og 201. gr. siglingalaga nr. 34, 1985 að Lífeyrissjóður sjómanna undanskyldum, en hann byggir rétt sinn til sjóveðréttar fyrir kröfum sínum á þágildandi 7. gr. laga nr. 45, 1999 um Lífeyrissjóð sjómanna.

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga séu kröfur um laun og aðra þóknun sem skipstjóri, skipverjar og aðrir þeir sem á skip eru ráðnir eigi rétt á fyrir störf um borð, tryggðar með sjóveðrétti í skipi, svo lengi sem kröfurnar hafi stofnast innan eins árs frá því að krafan stofnaðist, sbr. 201. gr. laganna.

Sóknaraðilji byggi mál sitt á því að ekki hafi legið fyrir skriflegur ráðningarsamningur milli varnaraðilja og útgerðarmanns, þannig að ekki hafi verið grundvöllur til stofnunar sjóveðréttar fyrir vangoldnum launum þeirra og bóta vegna slita á ráðningarsamningi.

Samkvæmt þessum skilningi eigi varnaraðiljar að verða af sjóveðrétti fyrir launum sínum, þar sem útgerðarmaður sinnti ekki lögbundinni skyldu að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi samkvæmt 6. gr. sjómannalaga.  Þessari málsástæðu sóknaraðilja er algjörlega hafnað.  Þennan skilning sé ekki hægt að lesa út úr 197. gr. siglingarlaganna, þar segi einfaldlega að þeir skipverjar sem á skip eru ráðnir eigi sjóveðrétt fyrir kröfum sínum.  Það sé ekki varnaraðilja að sanna að þeir hafi verið ráðnir til starfa hjá útgerð skipsins þann tíma sem kaupkrafan snýst um.  Óumdeilt sé að varnaraðiljar voru í starfi hjá útgerðarmanni skipsins 10. desember 2003.

Þá sé óumdeilt að útgerðarmaður hafi rift ráðningu þeirra á skipinu skriflega 5. apríl 2004.  Hafi hann þá séð fram á að hann myndi missa skipið á nauðungarsölu, enda höfðu margra mánaða samningaumleitanir hans við fjármögnun útgerðarinnar mistekist.

Útgerðarmaður skipsins hafi sagt upp flestum skipverja sinna, þ.e.a.s. undirmönnum með skamman uppsagnarfrest þegar skipinu var lagt 10. desember 2003.  Alltaf hafi hins vegar staðið til að halda skipinu aftur til veiða um leið og samningar næðust við fjárfesta um fjármögnum.

Slíkar áætlanir hefðu farið út um þúfur ef mikilvægustu skipverjar væru lausir undan ráðningarsamningum sínum og komnir í önnur störf.  Þeir sem þekkja til útgerðar viti vel hversu mikilvægt sé að halda sama mannskap og þá sérstaklega yfirmönnum.  Þá þurfi að sjálfsögðu fagmenn til að líta eftir frystitogurum og sérstaklega þá vélbúnaði þeirra og frystikerfum.  Hefði útgerðarmaður losað sig við alla skipverjanda þann 10. desember 2003 og enginn litið eftir skipinu til 5. apríl 2005 þá megi ljóst vera að skipið hefði ekki verið í því ásigkomulagi sem það var þegar sóknaraðilji tók við því.  Ráðstafanir útgerðarmanns skipsins í þá veru að halda áfram sex skipverjum í ráðningarsambandi við útgerðina eftir 10. desember 2003 hafi því í alla staði verið eðlilegar.

Í mótælum lögmanns sóknaraðila hjá sýslumanninum á Húsavík sé sett fram sú fullyrðing að útgerðarmanni hafi verið í lófa lagið að segja upp áhöfn skipsins þegar ljóst var í hvað stefndi og takmarka þannig tjón skipverja, svo og lánardrottna félagsins og ganga þannig á rétt samningsveðhafa með ráðningu skipverja til síðasta dags fyrir uppboð í því skyni að njóta veðs í skipinu framar samningsveðum.  Þessar hugleiðingar lögmanns sóknaraðilja séu rakalausar og hið rétta sé að rekstrarerfiðleikar hafi háð útgerð skipsins árið 2003.  Skipinu hafi verið lagt við bryggju 10. desember 2003, en aldrei hafi annað staðið annað til en að skipið færi á sjó strax eftir áramótin 2003/2004.

Lengi hafi verið unnað að því að fá nýja hluthafa og hlutafé að félaginu og hafi það loks verið farið að skila árangri um jólin 2003.  Sóknaraðilji hafi þá gert kröfu til útgerðarmanns að hlutafé yrði aukið um kr. 50.000.000.  Öll vinna við öflun hins nýja hlutafjár hafi farið fram með vitund sóknaraðilja og hafi hann ávallt verið upplýstur um stöðu mála.

Á vordögum 2004 hafi afstaða fyrirsvarsmanna sóknaraðilja valdið því að ekki hafi náðst samkomulag um heildarendurfjármögnun á rekstri útgerðarinnar og stutt hafi þá verið í framhaldsuppboð skipsins og frekari samningaviðræður hafi þá farið út um þúfur, en allan þennan tíma hafi varnaraðiljar unnið við skipið.

Með vísan til þess sé fráleitt að halda því fram að ráðningu varnaraðilja hafi verið slitið þann 10. desember 2003 og ekki hefði mátt vænta þess að skipinu yrðu haldið aftur til veiða af sama útgerðarmanni.

Að því er varðar þá málsástæðu sóknaraðilja að skilyrði að laun njóti sjóveðréttar samkvæmt 197. gr. siglingalaga, að unnið sé við störf um borð, og að laun sem stafa af öðru en beinu vinnuframlagi um borð njóti ekki sjóveðréttar, þá er þessari málsástæðu sóknaraðilja mótmælt og hún eigi enga stoð í framangreindri lagagrein.  Til þess vitna fjölmargir dómar Hæstaréttar og um þetta séu helstu sjóréttarfræðingar Norðurlanda sammála.  Því til viðbótar og áréttingar þá beri að benda á það að varnaraðiljar hafi allir starfað um borð í skipinu á tímabilinu 10. desember 2003 til 5. apríl 2004, þ.e.a.s. á efndarbótatíma skipverjanna samkvæmt 27. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985, en riftunarbætur frá þeim degi að telja samkvæmt 25. gr. sjómannalaga njóti ótvírætt verndar 197. gr. siglingalaga nr. 34, 1985.

Launahugtak 197. gr. verði að skýra með hliðsjón af ákvæðum 27. gr. sjómannalaga, en þar segi í 1. mgr. að skipverji taki kaup frá og með þeim degi sem hann kemur til vinnu á skipinu og í 2. mgr. að skipverji taki kaup til þess dags og að honum meðtöldum eða ráðningu hans líkur samkvæmt ráðningar og/eða kjarasamningi og skiptir þá ekki máli þó hann hafi verið afskráður.

Lögskráning á skip hafi ekkert með launarétt skipverja að gera og öll laun skipverja séu tryggð í 1 ár frá stofnun kröfu, sbr. 201. gr. siglingalaganna.  Eigandi fiskiskips fyrri sig ekki ábyrgð samkvæmt 197. gr. siglingalaga, hann losni ekki undan sjóveðrétti sjómanna í fiskiskipi sínu með þeirri ráðstöfun sinni að ganga ekki frá skriflegum ráðningarsamningi við skipverja, leggja skipinu, halda munnlegum ráðningarsamningum í gildi í tiltekinn tíma og slíta síðan ráðningu þeirra og vísa síðan til þess að skipverjarnir hafi ekki unnið um borð eftir að skipinu var lagt við bryggju.  Eigandi skips verður hér ekki betur settur en sá útgerðarmaður sem gengur frá skriflegum ráðningarsamningi við skipverja sína og segi sjómönnum sínum upp með lög- og samningsbundnum fyrirvara áður en skipi er lagt við bryggju.

Þeir skipverjar sem forfallast frá vinnu í tiltekinn tíma vegna veikinda eða slysa séu eðli málsins samkvæmt ekki við störf um borð í skipi, meðan þeir eru heima slasaðir eða sjúkir.  Réttur þeirra til launa í veikinda- og slysaforföllum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga er engu að síður tryggður með sjóveðrétti í viðkomandi skipi.  Sé þetta ítrekað staðfest með dómum Hæstaréttar.  Orðin laun og önnur þóknun ber samkvæmt framansögðu því að skýra rúmt.  Taki þau yfir öll laun sem skipverjar eiga rétt á samkvæmt 27. gr. sjómannalaga, þá taka þau yfir laun í slysa- og veikindaforföllum samkvæmt 36. gr. og bóta vegna ólögmætrar uppsagnar samkvæmt 25. gr. sjómannalaga.

Þá er þeirri málsástæðu sóknaraðilja hafnað að fyrir hafi legið að útgerð skipsins myndi stöðvast og óréttlátt væri að samningsveðhafar þyrftu að þola það að ráðningu skipverja væri haldið allt til síðasta dags fyrir uppboð í því skyni að njóta veðs í skipinu framar samningsveðum.  Þessari málsástæðu og aðdróttun andmæla varnaraðiljar.

Rekstrarvandinn hafi verið á ábyrgð útgerðarmanns en ekki skipverjanna.  Ákvörðun útgerðarmanns að halda skipverjunum í ráðningarsamningi meðan á samningaviðræðum stóð um fjármögnun hafi verið á ábyrgð útgerðarmanns en ekki varnaraðilja.

Skipverjum hefði t.a.m. ekki verið heimilt að ganga úr skipsrúmi 10. desember 2003, með vísan til þess að skipinu yrði líklega ekki haldið aftur til veiða.  Þeim hefði ekki einu sinni verið heimilt að ganga úr skipsrúmi þótt fyrir lægi að skipinu yrði aldrei haldið aftur til veiða á vegum útgerðarmannsins, hefðu þeir gert það hefði það varðað þá hýrudrætti.

Þá byggi sóknaraðilji á þeirri málsástæðu að tveir varnaraðiljar, þeir Hermann Arnar og Olgeir Sigurðssynir, séu svo nákomnir útgerðarmanni skipsins, þ.e.a.s. synir stjórnarformanns og framkvæmdastjóra Geira Péturs ehf., auk þess sem Olgeir væri að auki varastjórnarmaður og prókúruhafi félagsins, að þeir ættu engan rétt til launa á framangreindu efnda- og meðalbótatímabili.  Um þessa aðilja giltu sérstök sjónarmið og ætti þá að líta til riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga nr. 21, 1991, þar sem mælt er fyrir um riftanleika greiðslna til þeirra sem nákomnir eru þrotamanni.  Óeðlilegt væri að kröfur sem mögulega féllu undir þær reglur njóti sjóveðréttar við uppboð, gæti það leitt til þess að veðhafar yrði verr settir en kröfuhafar í þrotabú.

Á það sé að líta að sex skipverjar hafi gert kröfu um vangreidd laun og bætur af nauðungarsöluvandvirðinu.  Af þessum sex skipverjum séu þrír synir fyrirsvarsmanna útgerðarinnar en þrír alls óskyldir, þetta bendi varla til þess að ráðstafanir fyrirsvarsmanna hafi útgerðarinnar hafi byggst á fjölskylduböndum.

Þá ber að líta til þess að Olgeir Sigurðsson hafi verið skipstjóri á skipinu og því fráleitt að ætla annað en að ráðningu hans yrði síðast slitið.  Hermann Arnar hafi verið 1. stýrimaður og afleysingaskipstjóri og því næst ráðandi um borð.  Þessi tengsl varnaraðilja eigi ekki að bitna á þeim.

Tilvísanir sóknaraðilja til gjaldþrotaskiptalaga séu út í hött, enda gildi allt aðrar reglur um úthlutun nauðungarsöluandvirðis samkvæmt lögum um nauðungarsölu nr. 90, 1991, en gilda um úthlutun úr þrotabúum samkvæmt ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga nr. 21, 1991.

Þá er öllum málsástæðum sem fram hafa komið til viðbótar þeim málsástæðum sem hér hafa verið reifaðar og settar voru fram af hálfu sóknaraðilja 28. maí 2004 í mótmælum hans gegn frumvarpi sýslumannsins á Húsavík, dagsett 10. maí 2004 sérstaklega mótmælt sem of seint fram komnum.  Á því er byggt að til úrlausnar héraðsdóms geti einvörðungu komið ágreiningur um það hvort kröfur aðilja njóti sjóveðréttar í nauðungarsöluandlaginu eða ekki.  Aðrar kröfur svo sem varðandi fjárhæðir krafna sóknaraðilja komist ekki að vegna ákvæða 75. gr. laga nr. 90, 1991 um nauðungarsölu.  Einu mótmæli sóknaraðilja við úthlutunargerð sýslumannsins á Húsavík hafi lotið að því hvort kröfur varnaraðilja uppfylltu skilyrði til þess að njóta sjóveðréttar í nauðungarsöluandlaginu eða ekki, eins og fram komi í gerðarbók sýslumannsins á Húsavík frá 23. júní 2004.

Um annað hafi ekki verið deilt hjá sýslumanni og verði því að telja önnur mótmæli sóknaraðilja hér fyrir dómi of seint fram komin, sbr. ummæli í greinargerð um 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90, 1991.  Fyrirvari sóknaraðilja við fyrirtöku hjá sýslumanni 23. júní 2004 um rétt hans til að koma síðar að frekari mótmælum og málsástæðum séu algjörlega haldlaus, enda hafi varnaraðiljar mótmælt því strax að síðbúnar málsástæður fengju að komast að í málinu.  Gilda hér sömu sjónarmið og í almennu réttarfari, sbr. það sem áður er rakið, þ.e.a.s. ákvæði 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90, 1991.

Að því er varðar mótmæli sóknaraðilja um innheimtu þóknun varnaraðilja þá er þessari málsástæðu mótmælt sem of seint fram kominni.

Til viðbótar öllu framangreindu byggja varnaraðiljar á eftirfarandi atriðum sem sérstaklega eiga við um hvern og einn fyrir sig.

Varðandi Lífeyrissjóð sjómanna í kröfulýsingu 6. apríl 2004 er samtals gerð krafa um greiðslu að fjárhæð kr. 2.398.375, sem sundurliðast þannig:  Höfuðstóll kr. 2.172.444, innheimtuþóknun með virðisaukaskatti kr. 186.902, mót á nauðungarsölu kr. 24.029, útlagður kostnaður kr. 15.000.  Að öðru leyti um rökstuðning fyrir kröfum vísast til kröfulýsingarinnar frá 6. apríl 2004.

Til vara, telji dómurinn að taka eigi til greina kröfu sóknaraðilja um að kröfur varnaraðilja séu ekki skýrðar með nægjanlegum hætti, þá hefur varnaraðilji lagt fram útreikning á dskj. 20-23, þar sem reiknað er út 10% framlag atvinnurekanda samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45, 1999 af heildarkröfum þeirra sex varnaraðilja er mál þetta varðar.  Eru útreikningar þessir sundurliðaðir á dskj.  24 og 25.

Samkvæmt þessum útreikningum varnaraðilja nema vangreidd iðgjöld kr. 1.956.678 og er þá ekki tekið tillit til dráttarvaxta.  Samkvæmt þessu nemur mismunur á höfuðstól krafna varnaraðilja samkvæmt kröfulýsingunni frá 6. apríl 2004, kr. 215.866 sóknaraðilja í hag.  Er varnaraðilji Lífeyrissjóður sjómanna, reiðubúinn að lækka kröfur sínar upp að þessu marki án viðurkenningar á kröfum sóknaraðilja að öðru leyti.

Að því er varðar varnaraðiljann, Örn Arngrímsson, þá vísast um röksemdir fyrir kröfu hans til þess sem að framan er rakið og greinir í kröfulýsingu frá 6. apríl.  Þá er byggt á þeim málsástæðum sem fram koma fyrir hönd varnaraðiljanna, Héðins Mara Kjartanssonar og Kristjáns Friðriks Sigurðssonar.  Sérstaklega er þar vísað til þeirra málsástæðna og lagaraka er varða túlkun á 25. og 27. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985.

Varðandi varnaraðiljann, Hermann Arnar Sigurðsson, þá er vísað til röksemda fyrir kröfu hans til þeirra málsástæðna sem að hér að framan hafa verið raktar og raktar eru í kröfulýsingu, dagsett 6. apríl 2004.  Þá er byggt á þeim sömu málsástæðum og lagarökum og varðandi varnaraðiljann, Örn Arngrímsson.

Að því er varðar varnaraðiljann, Björn Viðar Óttarsson, þá er vísað til þess sem að framan er rakið og kröfulýsingar frá 6. apríl 2004 og þeirra málsástæðna og lagaraka er varða varnaraðiljana, Örn Arngrímsson og Hermann Arnar Sigurðsson.

Varðandi varnaraðiljann Olgeir Sigurðsson er vísað til þess sem að framan er rakið og kröfulýsingar hans, dagsetta 6. apríl 2004, svo og varðandi það sem að framan er rakið varðandi aðra varnaraðilja.

VII.

Fyrir dómi gaf skýrslu varnaraðiljinn, Olgeir Sigurðsson, hann kvaðst hafa verið stýrimaður og skipstjóri s.l. 20 ár og þar af s.l. 10 ár sem skipstjóri.  Unnið hafi verið að því að auka hlutafé útgerðarinnar.  Hann kvaðst engar tekjur hafa haft frá desember 2003 til ágúst 2004.  Hann hafi verið varamaður í stjórn og með prókúru.  Hann hafi haft eftirlit með skipinu og unnið hafi verið flesta daga við skipið og skipið hafi alltaf verið haft klárt.

Hermann Arnar Sigurðsson, fyrrverandi stýrimaður og afleysingaskipstjóri, bar að menn hafi trúað að útgerð skipsins myndi ganga.  Ef öllum hefði verið sagt upp í desember 2003, þá hefði útgerðin verið búin að missa þann fasta kjarna sem sá um rekstur skipsins.  Þrettán hafi verið í áhöfn, en sex hafi verið eftir.

Kristján Friðrik Sigurðsson, fyrrverandi háseti og afleysingastýrimaður, kvaðst hafa verið búinn að vera á skipinu frá því hann lauk stýrimannskóla.  Honum hafi verið kunnugt um fjárhagsörðugleika útgerðarinnar, en rækjuveiði hafi verið góð vorið 2004.

VIII.

Álit dómsins:

Af því er varðar þá málsástæðu sóknaraðilja að krafa varnaraðilja sé niðurfallin vegna vanlýsingar í þrotabú Geira Péturs ehf. og lögmaður Héðins Mara Kjartanssonar og Kristjáns Friðriks Sigurðssonar mótmælir ekki að komist að í málinu, en heldur fram að skipti hér ekki máli, þá liggur það fyrir samkvæmt dskj. nr. 26 að lok kröfulýsingafrests í þrotabúið var 1. febrúar 2005 og lýsti enginn varnaraðilja kröfum sínum í búið.

Lögmaður sóknaraðilja telur að með vísan til Hæstaréttardóms í máli nr. 222/2001 sé krafa varnaraðilja niður fallin vegna vanlýsingar.  Lögmaður Héðins Mara og Kristjáns Friðriks telur að það mál sem hér sé til úrlausnar sé á annan veg farið.  Þrotabú Geira Péturs ehf. sé ekki eigandi skipsins lengur, heldur hafi Geiri Péturs ÞH-344 verið seldur nauðungarsölu, sbr. uppboðsafsal dagsett 16. júlí 2004 og uppboðskaupandi verið Íslandsbanki hf., sóknaraðilji máls þessa.  Varnaraðiljar hafi lýst kröfum sínum í uppboðsandvirði skipsins.  Þrotabú Geira Péturs ehf. hafi enga hagsmuni af niðurstöðu máls þessa.

Kröfur varnaraðilja eru þær að staðfestur verði réttur þeirra til greiðslu af uppboðsandvirði skipsins.  Verði kröfum þeirra hafnað þá komi það sóknaraðilja til góða, en leiði ekki til þess að þrotabúið hagnist um þá sömu fjárhæð.

Eins og máli þessu sé háttað þá komi þrotabú Geira Péturs ehf. á engan hátt að máli þessu.

Í tilvitnuðum Hæstaréttardómi nr. 222/2001 þá hafi munurinn verið sá að veðandlagið hafi verið eign þrotabúsins og hafi komið til skipta við gjaldþrotaskiptin.  Í þessu máli sem nú sé rekið sé veðandlagið fyrir löngu komið í eigu þriðja aðilja og fyrir liggi að sýslumaðurinn á Húsavík hafi samþykkt kröfur varnaraðilja í uppboðsandvirði skipsins.

Fellst dómurinn á þessi sjónarmið varnaraðilja Héðins Mara og Kristjáns Friðriks og kemur þessi málsástæða að öðru leyti ekki til skoðunar varðandi aðra varnaraðilja vegna mótmæla lögmanns þeirra.

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34, 1985 eru laun og önnur þóknun sem skipstjóri, skipverjar og aðrir þeir sem á skip eru ráðnir eiga rétt á fyrir störf um borð, tryggð með sjóveðrétti í skipi.  Í þágildandi lögum um Lífeyrissjóð sjómanna nr. 45, 1999 segir svo í 7. gr. að iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda skuli hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipi og ganga framar öllum öðrum veðum.

Þó svo að skipinu hafi ekki verið haldið til veiða telur dómurinn að sjóveðréttur hafi eigi að síður stofnast til handa varnaraðiljum til tryggingar kröfum þeirra, skv. tilvitnuðum lagaákvæðum þar sem störf þeirra tengjast því skipi sem þeir voru ráðnir á.

Fyrir liggur í gögnum málsins að unnið var að fjármögnun útgerðar skipsins fram að nauðungaruppboði og var það því eðlileg ráðstöfun útgerðarmanns að halda ráðningarsambandi við helstu yfirmenn skipsins þannig að útgerð þess stöðvaðist ekki þrátt fyrir rekstrarerfiðleikana.

Að því er varðar kaupkröfur varnaraðilja þá fellst dómurinn á þær málsástæður og lagarök sem varnaraðiljar hafa fært fram fyrir kaupkröfum sínum og eru þær teknar til greina að fullu, þó þannig að frá kröfu Héðins Mara Kjartanssonar dragast kr. 50.000 og frá kröfu Kristjáns Friðriks Sigurðssonar kr. 19.106.  Varðandi kröfu Lífeyrissjóðs sjómanna þá telur dómurinn rétt að miða við leiðréttan útreikning og sundurliðun lögmanns varnaraðilja og er höfuðstóll kröfunnar lækkaður um kr. 215.866.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er kröfu sóknaraðilja Íslandsbanka hf. hafnað að kröfur varnaraðilja njóti ekki sjóveðréttar í uppboðsandvirði b/v Geira Péturs ÞH-344, skipaskrárnúmer 2285 og að frumvarpi sýslumannsins á Húsavík til úthlutunar á söluverði b/v Geira Péturs ÞH-344 verði þannig breytt að ekkert komi af söluverði skipsins upp í kröfur varnaraðilja.  Svo og er hafnað málskostnaðarkröfu sóknaraðilja á hendur varnaraðilja.

Hins vegar fellst dómurinn á kröfur varnaraðilja með þeim breytingum sem að framan greinir og greiði sóknaraðilji hverjum varnaraðilja málskostnað auk virðisaukaskatts eins og hér segir:  Lífeyrissjóði sjómanna kr. 250.000, Erni Arngrímssyni kr. 200.000, Hermanni Arnari Sigurðssyni kr. 380.000, Birni Viðari Óttarssyni kr. 50.000, Olgeiri Sigurðssyni kr. 500.000, Héðni Mara Kjartanssyni kr. 250.000 og Kristjáni Friðriki Sigurðssyni einnig kr. 270.000.

 

Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari, en aðalmeðferð máls þessa fór fram 9. febrúar 2005, en eftir þann tíma átti dómari við veikindi að stríða og þurfti að dvelja á sjúkrahúsi um 2 mánaða skeið og kom aftur til starfa í júníbyrjun 2005.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun til varnaraðilja, Lífeyrissjóðs sjómanna, af nauðungarsöluandvirðis Geira Péturs ÞH-344, skipaskrárnúmer 2285, að fjárhæð kr. 2.398.375 að frádregnum kr. 215.866, þá greiði sóknaraðilji, Íslandsbanki hf., varnaraðilja kr. 250.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.

Staðfest er sú ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun á kr. 1.575.317 af nauðungarsöluandvirði sama skips til handa varnaraðilja, Erni Arngrímssyni, svo og greiði sóknaraðilji, Íslandsbanki hf., honum kr. 200.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.

Staðfest er sú ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun af nauðungarsöluandvirði sama skips til handa Hermanni Arnari Sigurðssyni að fjárhæð kr. 3.824.175 svo og greiði sóknaraðilji, Íslandsbanki hf., honum kr. 380.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.

Staðfest er sú ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun af nauðungarsöluandvirði sama skips til handa Birni Viðari Óttarssyni að fjárhæð kr. 165.817.  Þá greiði sóknaraðilji, Íslandsbanki hf., honum kr. 50.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.

Staðfest er sú ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun til varnaraðilja, Olgeirs Sigurðssonar, á kr. 4.955.683 af nauðungarsöluandvirði sama skips.  Þá greiði sóknaraðilji, Íslandsbanki hf., honum kr. 500.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.

Staðfest er sú ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um að úthluta Héðni Mara Kjartanssyni af uppboðsandvirði sama skips kr. 2.351.693 að frádregnum kr. 50.000 af uppboðsandvirði sama skips og beri krafan dráttarvexti skv. III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001, frá 10. maí 2004 til greiðsludags.  Sóknaraðilji, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðilja kr. 250.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á Húsavík frá 10. maí 2004 um úthlutun á uppboðsandvirði sama skips til handa varnaraðilja, Kristjáni Friðriki Sigurðssyni, að fjárhæð kr. 2.726.186 að frádregnum kr. 19.106 svo og dráttarvexti af þeirri fjárhæð frá 10. maí 2004 til greiðsludags skv. III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001.  Sóknaraðilji, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðilja kr. 270.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.