Hæstiréttur íslands
Mál nr. 249/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Valdmörk
- Dómstóll
- Vanreifun
- Gjafsókn
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 6. júní 2002. |
|
Nr. 249/2002. |
Linda María Bellere(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn Tryggingastofnun ríkisins (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Valdmörk. Dómstólar. Vanreifun. Gjafsókn. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Tryggingaráð kvað upp úrskurð um að örorka L væri 65%. L höfðaði mál á hendur Tryggingastofnun ríkisins (T) þar sem hún krafðist nánar tiltekinnar greiðslu, svo og að viðurkenndur yrði réttur hennar til örorkulífeyris samkvæmt 12. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar og tekjutryggingar samkvæmt 17. gr. sömu laga á grundvelli 75% örorku frá þingfestingu málsins þar til dómur gengi í því. Í dómi Hæstaréttar segir að í ljósi dómkrafna L verði að líta svo á að málsókn hennar hvíli á þeim grunni að mat T á örorku hennar sé rangt. Eigi örorkan að réttu lagi að teljast 75%, en ekki 65% eins og T hafi metið hana. Í málinu krefjist L ekki ógildingar á úrskurði Tryggingaráðs. Þeirri málsástæðu hafi heldur ekki verið hreyft af hennar hendi að annmarkar séu á úrskurðinum, sem leiða eigi til ógildingar hans. Þess í stað krefji L T um greiðslu, sem taki mið af því að örorka hennar sé metin 75%. Verði að ætla að með þessu gangi L út frá því að það geti verið á valdi dómstóla að taka sjálfstæða ákvörðun um örorkustig hennar og það að auki án þess að til úrlausnar komi í málinu gildi lögboðinnar stjórnvaldsákvörðunar um það efni. Þótt L hafi lagt fram við þingfestingu málsins í héraði beiðni um dómkvaðningu manna til að meta örorku sína, þá hafi slíks mats ekki enn verið aflað. Af þessum sökum sé ekki í málinu nein viðhlítandi stoð fyrir því að örorka L eigi fremur að teljast 75% en 65%, svo sem T hafi slegið föstu fyrir sitt leyti. Vegna þessara annmarka á málatilbúnaði L var málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt í héraði 10. desember 1999.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Samkvæmt gögnum málsins ritaði heimilislæknir sóknaraðila umsókn í hennar þágu 13. júlí 1990 til varnaraðila um örorkustyrk. Kom þar fram að sóknaraðili, sem er fædd 1963, hafi um tveggja ára skeið verið með mjög skerta vinnugetu vegna þrálátrar vöðvagigtar í baki og herðum, en hún hafi notið sjúkradagpeninga í að minnsta kosti 15 mánuði á því tímabili. Var þess einnig getið að sóknaraðili væri einstæð móðir tveggja barna, annars 7 ára gamals og hins tæplega eins árs. Hinn 24. júlí 1990 mun hafa legið fyrir mat varnaraðila á örorku sóknaraðila, sem var talin 65%, en jafnframt ákveðið að örorkan skyldi metin á ný 1. október sama árs. Í framhaldi af þessu mun örorka sóknaraðila aftur hafa verið metin óbreytt 18. september 1990 með gildistíma til 1. desember sama árs og 19. febrúar 1991 með gildistíma frá 1. janúar til 1. apríl á því ári. Enn mun örorka sóknaraðila hafa verið metin óbreytt 4. september 1991 með gildistíma frá 1. maí þess árs til 1. september 1993, 30. október 1993 með gildistíma frá 1. þess mánaðar til 1. október 1996 og 8. nóvember 1996 með gildistíma til 31. október 1999. Óumdeilt virðist vera í málinu að allt frá júlí 1990 hafi sóknaraðili notið örorkustyrks frá varnaraðila, þótt óveruleg hlé hafi orðið milli gildistíma framangreindra matsgerða á örorku hennar, svo og að hún njóti enn þess styrks, allt miðað við 65% örorku.
Í greinargerð læknis í þjónustu varnaraðila 5. október 1992 til tryggingaráðs var þess getið að sóknaraðili hafi „þráfaldlega leitað eftir endurskoðun“ á framangreindu mati á örorku sinni og átt í tengslum við það viðtöl við nafngreinda lækna tryggingastofnunar allt frá því í ágúst 1991. Þeirri málaleitan sóknaraðila mun hafa verið hafnað, sem leiddi til þess að 29. september 1992 bar hún fram svokallaða kvörtun til tryggingaráðs, án þess að þar væri þó getið um tilefni kvörtunarinnar eða hvers sóknaraðili leitaði. Vegna þessa erindis sóknaraðila ákvað tryggingaráð 30. október 1992 að beina því til Læknafélags Íslands að það tilnefndi tvo sérfræðinga til ráðuneytis við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 67/1971 um almannatryggingar með áorðnum breytingum. Varð félagið við þessari ósk 7. desember 1992. Skiluðu sérfræðingarnir, sem það kvaddi til, skriflegri álitsgerð til varnaraðila 20. júlí 1993. Í niðurstöðum álitsgerðarinnar sagði meðal annars að hlutlægu mati á heilsufari sóknaraðila yrði ekki komið við nema að nokkru marki, eins og oft vilji vera hjá sjúklingum með langvinna bakverki. Álitsgerðin væri því að verulegu leyti byggð á sjúkrasögu sóknaraðila og líkamsskoðun. Sagði að skerta vinnugetu virtist bæði mega rekja til bakverkja og félagslegra aðstæðna sóknaraðila. Væri álit sérfræðinganna að sóknaraðili væri ekki fær um að vinna sér inn fjórðung þess, sem heilbrigðir gætu, og örorka hennar því 75% eða meiri. Tryggingaráð kvað upp 12. nóvember 1993 úrskurð, þar sem fram kom að málið ætti rætur að rekja til kvörtunar sóknaraðila yfir mati læknadeildar tryggingastofnunar um 65% örorku hennar, en hún færi fram á að örorkan yrði metin 75%. Komst tryggingaráð að þeirri niðurstöðu að örorka sóknaraðila skyldi teljast 65%.
Sóknaraðili höfðaði mál 5. september 1996 á hendur varnaraðila, þar sem hún krafðist þess að framangreindur úrskurður tryggingaráðs frá 12. nóvember 1993 yrði felldur úr gildi, að viðurkennt yrði með dómi réttmæti álitsgerðar tilnefndu sérfræðinganna frá 20. júlí 1993 um 75% örorku sóknaraðila og að réttur hennar yrði viðurkenndur til örorkulífeyris úr hendi varnaraðila frá 29. júní 1992 að telja. Með dómi Hæstaréttar 3. desember 1998, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 3975, var úrskurður tryggingaráðs felldur úr gildi, en öðrum kröfum sóknaraðila, sem hér var getið, vísað frá héraðsdómi. Að gengnum þessum dómi leitaði sóknaraðili eftir því við tryggingaráð með bréfi 21. desember 1998 að úrskurður yrði á nýjan leik felldur á kæru hennar frá 29. september 1992, svo og að öll síðari örorkumöt frá varnaraðila yrðu tekin til endurskoðunar. Tryggingaráð kvað upp nýjan úrskurð af þessu tilefni 23. apríl 1999, þar sem staðfest var „65% örorkumat frá 4. september 1991“ vegna sóknaraðila.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 23. apríl 2001. Í héraðsdómsstefnu krafðist hún þess að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða sér 3.227.498 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. júlí 1992 til greiðsludags, svo og að viðurkenndur yrði réttur hennar til örorkulífeyris samkvæmt 12. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar og til tekjutryggingar samkvæmt 17. gr. sömu laga á grundvelli 75% örorku frá þingfestingu málsins þar til dómur gengi í því. Samkvæmt sundurliðun í héraðsdómsstefnu á fyrstnefndri dómkröfu sóknaraðila er þar um ræða samanlagða fjárhæð örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir einstaka mánuði allt frá júní 1992 til og með apríl 2001, að frádregnum örorkustyrk, sem hún hafi fengið frá varnaraðila á sama tímabili. Sóknaraðili höfðaði síðan framhaldssök í málinu með stefnu 30. ágúst 2001, þar sem hún krafðist greiðslu úr hendi varnaraðila á 331.825 krónum til viðbótar áðurgreindri kröfu, ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 1. júlí 1992 til greiðsludags. Samkvæmt sundurliðun kröfunnar í framhaldsstefnu er hún um mismun á örorkulífeyri og tekjutryggingu annars vegar og örorkustyrk hins vegar á tímabilinu frá maí 1991 til og með maí 1992. Krafa sóknaraðila um greiðslu varð þannig alls að fjárhæð 3.559.323 krónur.
Við þingfestingu frumsakar í málinu 3. maí 2001 lagði sóknaraðili meðal annars fram beiðni um dómkvaðningu tveggja manna til að leggja mat á hver örorka hennar „til langframa“ skyldi talin frá 4. september 1991 til 30. apríl 2001, en svo virðist sem þá hafi lokið gildistíma þess mats varnaraðila á örorku hennar, sem síðast var gert. Verður ekki séð að matsmenn hafi verið dómkvaddir samkvæmt þessari beiðni.
Í greinargerð varnaraðila í héraði, sem fyrst var lögð fram 22. nóvember 2001, var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi. Með hinum kærða úrskurði var fallist á þá kröfu.
II.
Í ljósi þeirra dómkrafna, sem sóknaraðili gerir í málinu og getið er hér að framan, verður að líta svo á að málsókn hennar hvíli á þeim grunni að mat varnaraðila á örorku hennar sé rangt. Eigi örorkan að réttu lagi að teljast 75%, en ekki 65% eins og varnaraðili hefur metið hana. Svo sem áður greinir var þetta mat varnaraðila á örorku sóknaraðila staðfest með úrskurði tryggingaráðs 23. apríl 1999. Í málinu krefst sóknaraðili ekki ógildingar á þeim úrskurði. Þeirri málsástæðu hefur heldur ekki verið hreyft af hennar hendi að annmarkar séu á úrskurðinum, sem leiða eigi til ógildingar hans. Þess í stað krefur sóknaraðili varnaraðila um greiðslu, sem tekur mið af því að örorka hennar sé 75%. Verður að ætla að með þessu gangi sóknaraðili út frá því að það geti verið á valdi dómstóla að taka sjálfstæða ákvörðun um örorkustig hennar og það að auki án þess að til úrlausnar komi í málinu gildi lögboðinnar stjórnvaldsákvörðunar um það efni. Þótt sóknaraðili hafi sem áður segir lagt fram við þingfestingu málsins í héraði beiðni um dómkvaðningu manna til að meta örorku sína, þá hefur slíks mats enn ekki verið aflað. Af þessum sökum er ekki í málinu nein viðhlítandi stoð fyrir því að örorka sóknaraðila eigi fremur að teljast 75% en 65%, svo sem varnaraðili hefur slegið föstu fyrir sitt leyti með áðurgreindum ákvörðunum. Vegna þessara annmarka á málatilbúnaði sóknaraðila verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu. Sóknaraðila verður ekki dæmdur gjafsóknarkostnaður fyrir Hæstarétti, enda var gjafsókn hennar samkvæmt bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 10. desember 1999 bundin við rekstur málsins fyrir héraðsdómi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2002.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 11. apríl sl., vegna frávísunarkröfu stefnda, var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 23. apríl 2001.
Stefnandi er Linda María Bellere, kt. 061163-3449, Ægisíðu 109, Reykjavík.
Stefndi er Tryggingastofnun ríkisins, kt. 660269-2669, Laugavegi 114, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda:
Að stefndi greiði stefnanda 3.559.323 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af 384.629 kr. frá 1. júlí 1992 til 1. ágúst 1992 en síðan mánaðarlega af nýrri og hærri fjárhæð til 1. apríl 2001 en af 3.559.323 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Krafist er að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til greiðslu áframhaldandi örorkulífeyris skv. 12. gr. laga nr. 117/1993 og tekjutryggingar skv. 17. gr. sömu laga úr hendi stefnda á grundvelli 75% varanlegrar örorku frá þingfestingu máls þessa til dómsuppsögudags.
Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins, þ.m.t. kostnaður stefnanda af 24,5% virðisaukaskatti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við málskostnaðinn á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 15 dögum eftir dómsuppsögudag.
Stefnandi fékk gjafsókn í málinu með leyfi dómsmálaráðherra, dags. 10. des. 1999.
Dómkröfur stefnda:
Aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá héraðsdómi.
Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.
Verði fallist á aðal- eða varakröfu stefnda er þess krafist að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.
Verði fallist á þrautavarakröfu stefnda er þess krafist að málskostnaður falli niður.
Málavextir
Stefnandi sem um árabil hefur þjáðst af bakverkjum hefur verið metin til 65% varanlegrar örorku af læknum stefnda. Fyrst á árinu 1990 og síðan í endurmötum, síðast á árinu 1993.
Þann 20. september 1992 kvartaði stefnandi til tryggingaráðs yfir 65% örorkumati læknadeildar stefnda frá 28. febrúar sama ár. Á fundi tryggingaráðs, sem haldinn var hinn 30. október 1992, var ákveðið að óska eftir tilnefningu Læknafélags Íslands á tveimur sérfræðingum vegna máls stefnanda. Læknafélag Íslands tilnefndi þá Halldór Jónsson, yfirlækni bæklunardeildar Landspítalans, og Kára Sigurbergsson, gigtarlækni á Reykjalundi, til aðstoðar við afgreiðslu málsins. Niðurstaða þessa tveggja lækna var að stefnandi væri ekki fær um að vinna sér inn 1/4 þess sem heilbrigðir geta og örorka stefnanda því 75% eða meiri.
Eftir þessa niðurstöðu læknanna tveggja fól tryggingaráð læknum stefnda að endurmeta örorku stefnanda. Niðurstaða læknadeildar stefnda á örorku stefnanda var óbreytt, þ.e.a.s. 65% varanleg örorka og var sú niðurstaða lögð til grundvallar úrskurði tryggingaráðs 12. nóvember 1993.
Stefnandi undi ekki niðurstöðu þessari og krafðist þess að tryggingaráð endurskoðaði afstöðu sína og færi eftir fyrirliggjandi mati sérfræðinganna, Halldórs Jónssonar og Kára Sigurbergssonar, í stað þess að leita að nýju álits þeirra lækna sem voru höfundar þess mats sem upphaflega hafði verið kært. Með bréfi, dags. 28. des. 1994, var endurupptöku hafnað.
Hinn 5. sept. 1997 höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda þar sem þess var krafist að úrskurður tryggingaráðs frá 12. nóvember 1993 yrði ógiltur. Til vara var þess krafist að úrskurði tryggingaráðs frá 12. nóvember 1993 um 65% örorkumat stefnanda yrði hnekkt með dómi og að viðurkennt yrði með dómi réttmæti greinargerðar sérfræðilæknanna, Halldórs Jónssonar og Kára Sigurbergssonar, dags. 20. júlí 1993, um 75% örorku stefnda. Þá var þess krafist að viðurkenndur yrði með dómi réttur stefnanda til örorkulífeyris úr hendi stefnda frá 29. júní 1992 og lagt yrði til grundvallar lífeyrisgreiðslunum álit framangreindra lækna um örorku stefnanda. Með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 3. desember 1998, í máli nr. 108/1998 var úrskurður tryggingaráðs frá 12. nóvember 1993 um örorku stefnanda felldur úr gildi. Öðrum kröfum stefnanda var vísað frá dómi.
Eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar kærði stefnandi að nýju ágreining sinn við stefnda vegna 65% örorkumats til tryggingaráðs til endurskoðunar. Þann 23. apríl 1999 staðfesti tryggingaráð mat stefnda á 65% varanlegri örorku stefnanda.
Í stefnu segir að málið sé höfðað til þess að fá örorkumati stefnda hnekkt og til viðurkenningar á kröfum stefnanda í samræmi við 75% varanlega örorku. Það kveðst stefnandi gera með því að reka samhliða dómsmáli þessu matsmál þar sem dómkvöddum óvilhöllum matsmönnum verði falið að meta að nýju varanlega örorku stefnanda á grundvelli laga nr. 67/1971 og laga nr. 117/1993 um almannatryggingar með síðari breytingum.
Rökstuðningur stefnda fyrir frávísunarkröfunni
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að í kröfu stefnanda felist krafa um það að dómstóllinn leggi sjálfstætt mat á læknisfræðilegt álitamál sem hvorki stefndi né aðilar sem kæra má til vegna ákvarðana stefnda hafi tekið afstöðu til.
Málatilbúnaður stefnanda sé með þeim hætti að þess sé krafist að stefndi greiði stefnanda annars vegar mismun örorkulífeyris og örorkubóta með tekjutryggingu frá 1. maí 1991 til 30. apríl 2001. Þessi krafa virðist byggjast á örorkumati sem afla á við meðferð málsins í sérstöku matsmáli. Hins vegar sé þess krafist að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til greiðslu örorkulífeyris frá 1. maí 2001 til dómsuppsögu. Krafa þessi virðist einnig byggjast á örorkumati sem afla á við meðferð málsins í sérstöku matsmáli. Í báðum tilvikum sé gengið út frá því, fyrir fram, að niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna verði sú að örorka stefnanda hafi verið 75% frá 1. maí 1991 og sé það enn.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 108/1998 komi fram að viðurkenningarkrafa stefnanda í því máli hafi falið í sér að Hæstiréttur legði sjálfstætt mat á læknisfræðilegt álitamál sem tryggingaráð hefði ekki tekið afstöðu til. Hæstiréttur hafi sagt slíkt ekki vera á valdsviði dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 og vísað viðurkenningarkröfunni frá héraðsdómi.
Ekki verði annað séð en að kröfur stefnanda í þessu máli um viðurkenningu á 75% örorku hennar eigi að byggja á mati tveggja óvilhallra lækna, sem dómkveðja eigi sérstaklega við meðferð málsins. Stefndi eða sá kæruaðili sem skjóta megi niðurstöðum stefnda til muni ekki fjalla um mat þessara lækna með þeim hætti sem Hæstiréttur segi að nauðsyn beri til svo dómstólar geti fjallað um málið. Þegar af þessari ástæðu beri að vísa frá héraðsdómi öllum kröfum stefnanda.
Mótmæli stefnanda við frávísunarkröfu stefnda
Af hálfu stefnda var því haldið fram að í þessu máli séu önnur atvik en í Hæstaréttarmáli nr. 108/1998. Eftir dóm í því máli hafi verið bætt úr úrskurði tryggingaráðs en niðurstaða ráðsins hafi verið sú sama.
Með málssókn þessari sé stefnandi að gera fjárkröfu en ekki viðurkenningarkröfu.
Ágreiningur sé um niðurstöðu tryggingaráðs og stefnandi hafi rétt til að bera ákvarðanir stefnda undir dómstóla.
Í greinargerð læknanna, Kára Sigurbergssonar og Halldórs Jónssonar, hafi læknarnir komist að þeirri niðurstöðu að örorka stefnanda væri 75%.
Það sé eðlileg málsmeðferð að fá dómkvadda matsmenn og svo fari fram almenn sönnunarfærsla.
Niðurstaða
Í lögum um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum, svo og reglugerð nr. 379/1999, eru talin skilyrði þess að hljóta rétt til örorkulífeyris. Í 12. gr. laganna segir að það sé tryggingayfirlæknir sem metur örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt staðli sem læknadeild Tryggingastofnunar ríkisins semur á grundvelli afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Staðall þessi er birtur í reglugerð nr. 379/1999.
Samkvæmt 7. gr. laga nr. 117/1999 leggur sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga (áður tryggingaráð), úrskurð á ágreining um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögunum.
Fyrir liggur í málinu úrskurður tryggingaráðs frá 23. apríl 1999 þar sem örorka stefnanda var úrskurðuð 65%. Ekki er krafist ógildingar á þessum úrskurði.
Í stefnu segir að málið sé höfðað til þess að fá örorkumati stefnda hnekkt og til viðurkenningar á kröfum stefnanda í samræmi við 75% varanlega örorku. Það kveðst stefnandi gera með því að reka samhliða dómsmáli þessu matsmál þar sem dómkvöddum óvilhöllum matsmönnum verði falið að meta að nýju varanlega örorku stefnanda á grundvelli laga nr. 67/1971 og laga nr. 117/1993 um almannatryggingar með síðari breytingum.
Þegar litið er til fyrirmæla 7. og 12. gr. laga nr. 117/1999 þá er sú aðferð sem stefnandi hyggst viðhafa ekki tæk og skiptir í því sambandi ekki máli hver niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna kynni að verða. Ágreiningur varðandi örorku, úrskurðaða af tryggingayfirlækni, á undir úrskurðarnefnd almannatrygginga en ekki dómstóla.
Ber því með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að taka frávísunarkröfu stefnda til greina.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningslaun lögmanns stefnanda, 250.000 kr., greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningslauna hefur verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.
Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda þar með talin málflutningslaun lögmanns stefnanda, Jóhannesar A. Sævarssonar hrl., 250.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.