Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-260
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Refsiheimild
- Friðhelgi einkalífs
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 28. október 2020 leitar Kristín Valgerður Gallagher eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 23. sama mánaðar í málinu nr. 367/2019: Ákæruvaldið gegn Kristínu Valgerði Gallagher, á grundvelli 1. mgr. 216. gr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelld fyrir brot í opinberu starfi, samkvæmt 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa í starfi sínu sem landamæravörður ítrekað flett upp tveimur nafngreindum einstaklingum í lögreglukerfinu LÖKE og skoðað þar upplýsingar um þá og lögreglumál þeim tengd, án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hennar. Leyfisbeiðanda var gert að greiða 100.000 króna sekt í ríkissjóð. Í dómi Landsréttar kom fram að með því að leyfisbeiðandi aflaði sér upplýsinga um fyrrgreinda einstaklinga án þess að það tengdist starfi hennar hafi hún hallað réttindum þeirra til friðhelgi einkalífs án þess að lögmætar ástæður stæðu til þess. Ekki skipti máli í því sambandi hvort fyrir lægi að hún hefði ekki miðlað upplýsingunum til annarra eða nýtt sér þær á annan hátt.
Leyfisbeiðandi telur að uppflettingar hennar í lögreglukerfinu falli ekki undir verknaðarlýsingu 139. gr. almennra hegningarlaga þar sem þær hafi ekki verið henni eða öðrum til ávinnings né hallað réttindum annarra. Byggir hún á því að málið hafi fordæmisgildi.
Ákæruvaldið leggst ekki gegn beiðninni en telur dóm Landsréttar fela í sér skýra og vel rökstudda niðurstöðu um álitaefnið.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrlausn um beitingu 139. gr. almennra hegningarlaga í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnin er því samþykkt.