Hæstiréttur íslands
Mál nr. 263/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Dánargjöf
|
|
Miðvikudaginn 30. ágúst 2000. |
|
Nr. 263/2000. |
Hallfríður Vigfúsdóttir(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn dánarbúi Hildar Halldórsdóttur (Jóhann H. Níelsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Dánargjöf.
Dánarbú H krafði HV um endurgreiðslu á uppgreiðsluverði tveggja lána sem H hafði tekið og afhent síðan HV. Ekki lágu fyrir skjalfestar upplýsingar um hvort að um hefði verið að ræða lán, lífsgjöf eða dánargjöf, en HV kvaðst hafa skuldbundið sig til að aðstoða H við greiðslu afborgana af eldra skuldabréfinu. Talið var að með því að HV hefði verið skuldbundin á þennan hátt að minnsta kosti svo lengi sem H lifði gæti gjöfin, sem kynni að hafa falist í gerðum hennar, ekki komið til framkvæmdar fyrr en að henni látinni og var talið að það sama gilti um yngra skuldabréfið. Þar sem erfðaskrá hefði ekki verið gerð um ráðstöfun umræddra fjármuna að gjöf, sbr. 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962, bæri HV að endurgreiða dánarbúi H sem svaraði uppgreiðsluverði lánanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2000, þar sem sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila 2.719.893 krónur með nánar tilteknum dráttarvöxtum. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst sýknu af kröfu varnaraðila auk málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
I.
Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði lést Hildur Halldórsdóttir, sem síðast var til heimilis að Sléttuvegi 15 í Reykjavík, hinn 24. febrúar 1999. Dánarbú hennar var tekið til opinberra skipta 8. október 1999, en áður höfðu erfingjar eftir hana, sem nánar er getið hér á eftir, fengið leyfi til einkaskipta 8. mars sama árs.
Hildur var fædd 1. janúar 1915 og ekkja eftir Sigurð S. Kristjánsson, sem lést á árinu 1993. Þau hjón voru barnlaus og tók Hildur allan arf eftir Sigurð við skipti á dánarbúi hans, sem mun hafa lokið 21. apríl 1993. Hildur átti hins vegar tvö börn, Agnar Breiðfjörð Kristjánsson og Maríu Kristjánsdóttur, sem fædd voru fyrir hjúskap hennar og Sigurðar og ólust upp hjá fósturforeldrum. Eru þau einu lögerfingjar Hildar.
Hildur gerði erfðaskrá 5. ágúst 1994, þar sem hún mælti svo fyrir að sóknaraðili, sem var systurdóttir hennar, fengi að arfi þriðjung allra eigna hennar eða hærra hlutfall ef lagareglum um arfleiðsluheimild yrði breytt. Var tekið fram að þessi ráðstöfun væri gerð vegna aðstoðar og stuðnings, sem sóknaraðili hefði veitt Hildi eftir fráfall eiginmanns hennar. Að öðru leyti var í erfðaskránni kveðið á um ráðstöfun nánar tiltekinna innbúsmuna, sem varða ekki ágreiningsefni þessa máls. Erfðaskráin var gerð fyrir arfleiðsluvottum og er hún í engu vefengd í málinu.
Hinn 2. september 1994 gaf Hildur út skuldabréf til Búnaðarbanka Íslands að fjárhæð 2.000.000 krónur, sem tryggt var með veði í íbúð hennar að Sléttuvegi 15. Átti skuldin að endurgreiðast á fimm árum með níu jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 31. ágúst 1995. Lánsféð, sem að frádregnum kostnaði nam 1.957.570 krónum, var lagt inn á reikning Hildar við bankann 6. september 1994. Aftur gaf Hildur út skuldabréf sömu fjárhæðar til Búnaðarbanka Íslands hf. 24. ágúst 1998. Skuldin var tryggð með veði í fyrrnefndri íbúð Hildar og átti að greiðast með sex jöfnum árlegum afborgunum, í fyrsta sinn 24. ágúst 1999. Andvirði skuldabréfsins, 1.913.607,30 krónur, var lagt á bankareikning Hildar 2. september 1998.
Óumdeilt er að sóknaraðili fékk andvirði beggja umræddra skuldabréfa í hendur. Í málinu er á hinn bóginn deilt um hvort Hildur hafi látið sóknaraðila fá þetta fé að láni, afhent henni það að lífsgjöf eða ætlað henni það sem dánargjöf, en um þessar ráðstafanir var ekkert skjalfest. Við andlát Hildar höfðu verið greiddar sjö af níu afborgunum af eldra skuldabréfinu og kveðst sóknaraðili sjálf hafa greitt þrjár, en tekið fé af bankareikningum Hildar samkvæmt fyrirmælum hennar til að greiða hinar fjórar. Varnaraðili greiddi eftirstöðvar skuldabréfsins 8. júlí 1999 með 522.860,80 krónum. Fyrsta afborgun af yngra skuldabréfinu var ekki komin í gjalddaga við lát Hildar og greiddi varnaraðili skuldina upp samtímis eldra skuldabréfinu með 2.197.032,20 krónum. Í málinu krefur varnaraðili sóknaraðila um endurgreiðslu samtölu þessara fjárhæða eða á 2.719.893 krónum með dráttarvöxtum frá 8. ágúst 1999.
II.
Í skattframtölum Hildar Halldórsdóttur, sem liggja fyrir í málinu, var getið um áðurnefndar skuldir hennar við Búnaðarbanka Íslands og síðar samnefnt hlutafélag. Hvorki var þar greint frá skuld sóknaraðila við Hildi né að sóknaraðili hefði fengið fyrrgreindar fjárhæðir að gjöf frá henni. Gegnir sama máli um fyrirliggjandi skattframtöl sóknaraðila.
Í bréfi, sem lögmaður sóknaraðila ritaði 9. júlí 1999 til lögmanns lögerfingja Hildar, sagði meðal annars eftirfarandi varðandi áðurnefnt skuldabréf frá 2. september 1994: „Andvirði þess var lagt inn á bankabók á nafni Hildar. Hildur afhenti síðan Hallfríði andvirðið til ráðstöfunar, eins og áður hefur komið fram, þó þannig að á meðan Hildur væri á lífi greiddi Hallfríður afborganir lánsins af andvirðinu.“ Sóknaraðili hefur síðar í málatilbúnaði sínum dregið úr þessari staðhæfingu og lýst því að hún hafi sjálf sett það skilyrði fyrir viðtöku fjárins að hún fengi að aðstoða Hildi við að greiða afborganir af skuldabréfinu þannig að þær kæmu aldrei illa við hana. Hvort sem sóknaraðili skuldbatt sig við Hildi til að greiða afborganir af skuldabréfinu með öllu eða aðeins ef nauðsyn bæri til, veldur það því að ekki er unnt að líta svo á að Hildur hafi afhent sóknaraðila andvirði eldra skuldabréfsins að gjöf þegar á árinu 1994. Með því að sóknaraðili var skuldbundin á þennan hátt að minnsta kosti svo lengi sem Hildur lifði gat gjöf, sem kann að hafa falist í gerðum hennar, ekki komið til framkvæmdar fyrr en að henni látinni. Þar sem ekkert hefur komið fram, sem bendir til annars, verður að líta svo á að sams konar skuldbinding hafi einnig tekið til andvirðis skuldabréfsins frá 24. ágúst 1998. Erfðaskrá var ekki gerð um ráðstöfun umræddra fjármuna að gjöf, svo sem nauðsyn hefði borið til samkvæmt 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Verður því að taka til greina kröfu varnaraðila um endurgreiðslu úr hendi sóknaraðila.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 14. júní 2000.
Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 9. júní sl.
Stefnandi er dánarbú Hildar Halldórsdóttur, kt. 010115-3029, Lágmúla 5, Reykjavík.
Stefnda er Hallfríður Vigfúsdóttir, kt. 310160-2109, Smiðjuvegi 21, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Að stefndu, Hallfríði Vigfúsdóttur, verði gert að endurgreiða dánarbúi Hildar Halldórsdóttur uppgreiðsluverð tveggja lána, sem Hildur tók í Búnaðarbanka Íslands hf. aðalbanka og gengu óskert til stefndu Hallfríðar, lán nr. 15425, tekið 2. september 1994, að eftirstöðvum 8. júlí 1999 kr. 522.860,80 og lán nr. 20289, tekið 24. ágúst 1998, að eftirstöðvum 8. júlí 1999 kr. 2.197.032,20, eða samtals kr. 2.719.893,00
2. Að stefndu verði gert að greiða dráttarvexti af tildæmdri fjárhæð skv. 1. lið frá 8. ágúst 1999 til greiðsludags, skv ákvæðum III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, jafnframt er þess krafist að dæmt verði að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn 8. ágúst 2000 í samræmi við 12. gr. sömu laga.
3. Að stefndu verði gert að greiða dánarbúinu málskostnað að mati dómsins og beri málskostnaðarfjárhæðin dráttarvexti skv. III. kafla laga. nr. 25/1987 frá 15. degi eftir dómsuppsögu til greiðsludags.
Greiðslan sem krafist er endurgreiðslu á sundurliðast þannig:
|
Afborgun af láni nr. 15425 pr. 8. júlí 1999 |
Kr. 272.490,30 |
|
Uppgreiðsluverð láns nr. 15425 pr. 8. júlí 1999 |
Kr. 250.370,50 |
|
Afborgun af láni nr. 20289 pr. 8. júlí 1999 |
Kr. 82.476,40 |
|
Uppgreiðsluverð láns nr. 20289 pr. 8. júlí 1999 |
Kr. 2.114.555,80 |
|
Samtals |
Kr. 2.719.893,00 |
Stefnda gerir þær dómkröfur að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda og að honum verði gert að greiða sér málskostnað að mati dómsins.
I
Málsatvik
Málavextir eru þeir að hinn 24. febrúar 1999 andaðist í Reykjavík frú Hildur Halldórsdóttir, f. 1915. Hildur sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, Sigurð S. Kristjánsson, f. 1929. Sigurður andaðist á árinu 1993. Hann átti enga niðja en Hildur átti tvö börn, Agnar Breiðfjörð Kristjánsson kt. 070839-4909 og Maríu Kristjánsdóttur kt. 220942-28790.
Hildur og Sigurður gerðu erfðaskrá 9. ágúst 1991 þar sem fram kom að það væri sameiginleg ósk þeirra og vilji að það þeirra sem lengur lifði skyldi hafa heimild til að sitja í óskiptu búi, sbr. 3. málsgr. 8. gr. erfðalaga, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 48/1989.
Fyrir liggur erfðaskrá Hildar dags. 5. ágúst 1994 þar sem hún mælir svo fyrir að systurdóttir hennar, Hallfríður Vigfúsdóttir, stefnda í máli þessu, skuli erfa 1/3 hluta allra eigna sem hún láti eftir sig, eða meira ef lagareglur breytist. Fram kemur í erfðaskránni að ráðstöfun þessa gerir hún vegna aðstoðar og stuðnings er hún hafi notið frá stefndu eftir fráfall eiginmannsins.
Dánarbú Hildar Halldórsdóttur var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 8. október 1999 og var Jóhann H. Níelsson hrl. skipaður til að gegna starfi skiptastjóra sama dag.
Á skiptafundi í dánarbúinu, sem haldinn var 26. október 1999, kom fram að við tilraunir til einkaskipta hafi komið upp ágreiningur milli erfingjanna, annars vegar lögerfingjanna, Agnars B. K. Jacobsen og Maríu Kristjánsdóttur, barna hinnar látnu, og hins vegar bréferfingjans Hallfríðar Vigfúsdóttur, vegna áhvílandi lána hjá Búnaðarbanka Íslands, aðalbanka, á íbúð hinnar látnu að Sléttuvegi 15 Reykjavík.
Lán þessi eru þannig tilkomin, að 2. september 1994 tók Hildur heitin Halldórsdóttir lán nr. 15425 í Búnaðarbanka Íslands, aðalbanka, að fjárhæð kr. 2.000.000. Lánið tryggði hún með veði í íbúð sinni Sléttuvegi 15, Reykjavík, og var það áhvílandi á 2. veðrétti eignarinnar við andlát hennar. Andvirði lánsins rann óskipt til stefndu Hallfríðar Vigfúsdóttur, sem greiddi sjálf að hluta afborganir þess fram að andláti Hildar. Þegar íbúðin var seld eftir andlát Hildar voru eftirstöðvar lánsins greiddar að fullu af fjármunum dánarbúsins samtals kr. 520.860,80, sbr. framangreinda sundurliðun kröfufjárhæðar.
Hinn 24. ágúst 1998 tók Hildur heitin annað lán í Búnaðarbanka Íslands, aðalbanka, að fjárhæð kr. 2.000.000. Lánið tryggði hún einnig með veði í íbúð sinni og var það áhvílandi á 3. veðrétti eignarinnar við andlát hennar. Andvirði láns þessa rann einnig óskipt til stefndu Hallfríðar Vigfúsdóttur, og hafði ekkert verið greitt af láninu er Hildur féll frá. Þegar íbúðin var seld eftir andlát Hildar voru eftirstöðvar þessa láns einnig greiddar að fullu af fjármunum dánarbúsins samtals kr. 2.197.032,20, sbr framangreinda sundurliðun kröfufjárhæðar.
Af hálfu Hallfríðar hefur því verið haldið fram að Hildur hafi afhent henni andvirði lánanna að gjöf, sem umbun til hennar fyrir aðstoð fyrr og síðar og telur hún að um algjöran örlætisgerning hafi verið að ræða og geti hún ekki fallist á að endurgreiða lánið.
Af hálfu lögerfingjanna hefur framangreindri skýringu Hallfríðar verið andmælt og á því byggt að ekkert liggi fyrir um það að Hildur heitin hafi gefið Hallfríði þessa fjármuni og á Hallfríði hvíli sönnunarbyrði fyrir því að um gjöf hafi verið að ræða. Tilraunir skiptastjóra til að jafna ágreining aðila báru ekki árangur.
Á skiptafundi 9. nóvember 1999 lýsti skiptastjóri þeirri afstöðu sinni til deilu lögerfingjanna og Hallfríðar, að líta beri á andvirði beggja lánanna, sem runnu óskipt til Hallfríðar, sem lán Hildar til Hallfríðar og henni beri að endurgreiða uppgreiðsluvirði lánanna til dánarbúsins.
Þessi afstaða skiptastjóra var samþykkt af hálfu lögerfingjanna, en mótmælt af hálfu stefndu Hallfríðar Vigfúsdóttur.
Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur dags 7. desember 1999, sendi skiptastjóri öll málsgögn með ósk um að dómurinn tæki ágreiningsefnið til úrlausnar samkvæmt 1. mgr 124. gr. laga nr. 20/1991. Stefna var útgefinn 9. desember 1999 og málið þingfest 7. janúar sl.
II
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar um endurgreiðslu á eftirtöldum málsástæðum og lagarökum:
1. Að stefnda hafi fengið andvirði beggja lánanna afhent sem lán frá Hildi heitinni og hafi henni borið að endurgreiða lánin. Þetta telji skiptastjóri m.a. ljóst af því að Hallfríður hafi alltaf greitt afborganir, vexti og verðbætur af láninu á gjalddögum af eigin fé eins og lánið væri hennar. Kveðst stefnandi vísa til meginreglna íslensks samninga- og kröfuréttar til stuðnings endurkröfu sinni.
2. Að stefnda hafi ekki fært fram, þrátt fyrir áskorun samerfingja hennar, nein gögn því til sönnunar að eftirstöðvar lánanna ættu að falla til hennar, án endurgjalds og sé á því byggt, að á stefndu hvíli sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið.
Stefnandi kveðst vísa til þeirrar staðreyndar, að stefnda hafi haft á hendi, all umfangsmikla fjármálaumsýslu fyrir Hildi Halldórsdóttur. Hafi stefnda m.a. haft aðgang að bankareikningi Hildar og hafi hún tekið reglulega út af honum og sinnt flestum hennar bankaviðskiptum, sem ekki hafi verið afgreidd af bankaþjónustu bankans sjálfs. Meðal úttekta stefndu af bankareikningi Hildar hafi verið úttekt hinn 03.09.1998 á andvirði seinna lánsins frá Búnaðabankanum, sem greitt hafði verið inn á reikninginn daginn áður. Stefnda hafi því verið í þeirri stöðu gagnvart Hildi heitinni, að það hafi staðið henni næst að ganga þannig frá málum að ekki léki á því vafi til hvers hafi verið ætlast af Hildi með þessa fjármuni. Hafi stefndu verið í lófa lagið að ganga þannig frá málum, ef það í raun hafi verið ætlun Hildar að gefa þetta fé, og þar sem um meintan gjafagerning sé að ræða verði að gera strangar kröfur um sönnun. Hallan af sönnunarskorti í þessum efnum verði því stefnda að bera, enda hvíli á henni sönnunarbyrðin um að um gjöf hafi verið að ræða samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttar.
3. Að jafnvel þó sannað væri, að eftirstöðvar lánanna hafi átt að falla án endurgjalds til stefndu, þá sé ljóst að slík gjöf yrði metin dánargjöf sem lyti skv. 54. gr. erfðalaga reglum VI. kafla erfðalaga um form, þ.e.a.s. reglur um erfðaskrár skuli einnig gilda um þau gjafaloforð, sem ekki sé ætlast til, að komi til framkvæmda, fyrr en að gefandanum látnum. Sé í því sambandi m.a. vísað til þess, er staðfest hafi verið af hálfu stefndu sjálfrar, að hún hafi tekið við þessu fé með þeim skilmálum, að á meðan Hildur væri á lífi þá greiddi hún, stefnda, af lánunum.
Bendir stefnandi á, að Hildur heitin hafi ekki haft fjárhagslega getu til að standa undir greiðslubyrði lánanna og hefði sú byrði gengið of nærri gjaldþoli hennar og skert um of framfærslumöguleika hennar. Af hálfu stefnanda sé í þessu sambandi einnig vísað til þess megintilgangs reglu 54. gr. erfðalaga, í fyrsta lagi að koma í veg fyrir málamyndagerninga, þ.e.a.s. löggerninga sem ætlað sé að líta út sem lífsgjafir en sem í raun séu dánargjafir, og í annan stað að vernda skylduerfðarétt maka og barna hins látna. Stefnandi vísar jafnframt til þess, að eins og á standi í þessu máli hafi ekki verið um það að ræða, að Hildur heitin Halldórsdóttir tæki af eignum sínum og afhenti stefndu Hallfríði, heldur hafi verið tekið lán í nafni Hildar, sem hún hafi aldrei greitt af og ekki staðið til að hún greiddi af. Meint gjöf hafi þannig í raun aldrei skert efni gefandans, enda hafi það aldrei staðið til. Samkvæmt því hafi tilgangurinn verið sá að skerða eignir dánarbús Hildar. Sú ráðstöfun hafi ekki verið heimil nema að uppfylltum framangreindum ákvæðum erfðalaga þar að lútandi, sem ekki hafi verið gert.
4. Að jafnvel þó að sannað þætti að um gilda dánargjöf hafi verið að ræða sé byggt á því að með erfðaskrá sinni dagsettri 5. ágúst 1994 hafi Hildur heitin Halldórsdóttir nýtt að fullu arfleiðsluheimild sína skv. 35. gr erfðalaga, til hagsbóta fyrir stefndu, en þar sem niðjar hennar taki arf eftir hana hafi henni verið óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá.
Krafan um dráttarvexti er byggð á ákvæðum III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Krafan um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. sbr. 129. gr. laga nr. 19/1991.
III
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir sýknukröfu sína aðallega á því að í eignarrétti felist heimild til að ráðstafa eignum sínum, þ.á m. með gjafagerningi. Hildur hafi verið fjárráða til dauðadags. Hún hafi sjálf stjórnað sínum fjármálum, þó stefnda hafi einkum hin allra síðustu ár liðsinnt henni með bankaferðir vegna greiðslu reikninga. Almennt séu ekki reistar skorður við því að fjárráða einstaklingur geti afhent eignir sínar með lífsgjafargerningi, sem yfirleitt séu formlausir gerningar. Þannig feli skylduerfðareglur ekki í sér haft á arfleifanda um ráðstafanir eigna með lífsgerningi, þ.á m. með gjafagerningi. Erfðareglur mæli eingöngu almennt fyrir um hvernig hlutdeild erfingja skuli vera í þeim eignum sem arfleifandi lætur eftir sig, en þær tryggi ekki að nokkuð verði til skipta.
Hildur hafi viljað takmarka þær eignir sem kæmu til skipta eftir hana og helst hefði hún viljað að ekkert kæmi til skipta eftir hana til skylduerfingja hennar. Hefði hún fengið að ráða hefði hún ráðstafað öllum eignum sínum til stefndu í lifanda lífi. Um það beri erfðaskráin vott og þessa ósk sína hafi hún rætt sérstaklega við lögmann. Henni mun hafa verið ráðlagt frá því að gera sig eignalausa. En Hildur hafi viljað hafa áhrif á það með gjörðum sínum í lifanda lífi hversu mikið kæmi til skipta eftir hana, annars vegar til stefndu og hins vegar til skylduerfingja. Það hafi og verið í samræmi við vilja eiginmanns hennar því hann hafði látið í ljósi að hann vildi ekki að niðjar Hildar fengju nokkuð af hans eignum.
Erfðaskrá sú sem Hildur og Sigurður hafi gert 1991 sýni að þau hafi haft áhyggjur af því að niðjar Hildar myndu ekki samþykkja að Sigurður gæti setið í óskiptu búi, yrði Hildur skammlífari. Miðað við að Hildur hafi verið 14 árum eldri en Sigurður hafi þau allt eins mátt gera ráð fyrir að svo gæti orðið, þó reyndin yrði sú að Sigurður andaðist á undan. Með erfðaskránni hafi þau verið að notfæra sér nýja heimild í erfðalögum sem gerði niðjum skammlífari maka ókleift að krefjast skipta, hefði erfðaskrá verið gerð, sbr. 3. mgr. 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962 eins og ákvæðinu var breytt með 3. gr. laga nr. 48/1989. Vegna þess vilja Hildar að hafa áhrif á það í lifanda lífi hversu mikið kæmi til skipta eftir hana hafi hún tekið þá ákvörðun að taka tvisvar lán með þeim hætti sem lýst hafi verið. Hún hafi ráðstafað andvirði beggja lánanna í lifanda lífi til stefndu með formlausum gjafagerningum. Ráðstöfun Hildar á andvirði lánsins til stefndu hafi verið skuldbindandi fyrir Hildi og hún hafi ekki getað tekið ráðstöfunina tilbaka. Þó sú ráðstöfun hafi verið með ákveðnum skilmálum milli Hildar og stefndu þá hafi Hildur enga tryggingu haft fyrir því að stefnda virti þá skilmála. Með gjöfinni hafi Hildur afsalað sér ráðstöfunarrétti yfir andvirði lánanna í hendur stefndu. Hún hafi verið bundin af þessu láni og hafi sjálf litið svo á, því fyrir liggi að hún hafi greitt af eigin ráðstöfunarfé nokkrar afborganir þess, eins og nánar verði vikið að hér á eftir. Eign hennar hafi staðið til tryggingar skilvísri greiðslu lánsins. Samkvæmt almennum reglum fjármunaréttar hafi Hildi verið heimilt að gera þessa ráðstöfun. Samkvæmt almennri túlkun á 54. gr. erfðalaga teljist þessi ráðstöfun Hildar á andvirði lánsins til stefndu lífsgjöf en ekki dánargjöf. Gjöfina hafi Hildur efnt í lifanda lífi því hún hafi afsalað sér ráðstöfunarrétti yfir andvirði lánanna til stefndu. Jafnframt hafi hún sett veð í íbúð sinni til tryggingar skilvísri greiðslu þeirra. Hefði stefnda ekki virt skilmála þá sem Hildur hafði sett fyrir gjöfinni stóð íbúð Hildar sem trygging. Hildur hafi sjálf greitt nokkrar afborganir, eftir því sem fjárhagsstaða hennar hafi leyft. Með gjafaráðstöfun sinni og veðinu sem hún hafi sett til tryggingar skuldinni hafi Hildur fellt verulegt haft á sig sem gefanda. Miðað við almenna og viðurkennda túlkun á 54. gr. erfðalaga teljist þessi ráðstöfun vera lífsgjöf, en ekki dánargjöf.
Yfirlit um viðskipti stefndu við verðbréfasjóð sýni að hún hafi keypt bréf í sjóðnum fyrir fjárhæðina sem Hildur hafi gefið henni, í bæði skiptin. Eftir kaupin í fyrra skiptið hafi inneignin legið óhreyfð til 13. nóvember 1996, enda hafi Hildur greitt sjálf afborganir af láninu sem hafi verið í ágúst 1995 og febrúar og ágúst 1996 og febrúar 1997. Hreyfingar á yfirlitinu sýni síðan frjálsa ráðstöfun stefndu yfir innistæðunni. Þær sýni jafnframt að af innistæðunni hafi stefnda greitt afborganir lánsins í september 1997 og febrúar og september 1998.
Sú fullyrðing stefnanda að stefnda hafi fengið andvirði beggja lánanna sem Hildur hafi tekið sem lán, standist ekki. Ráðstöfun stefndu á fénu sýni að hún hafi ekki þurft lán á þessum tíma. Hefði stefnda þurft á láni að halda 1994 og 1998 hefði hún sjálf getað fengið lán hjá banka og sett að veði eigin eignir. Slíkt hefði og verið mun hagkvæmara fyrir hana því þá hefði hún notið skattahagræðis af skuldinni í samræmi við skattareglur. Milliganga Hildar við slíka lántöku hafi verið óþörf og tilefnislaus og staðfesti fullyrðingar stefndu um að um gjöf hafi verið að ræða.
Stefnandi hljóti að bera sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu að um lán hafi verið að ræða þegar stefnda geti sýnt fram á að Hildur hafi bæði greitt u.þ.b. helming þeirra afborgana sem fallið hafi á meðan hún var á lífi og að stefnda hafi enga þörf haft fyrir lán. Það hafi stefnandi ekki gert.
Hefði Hildur litið svo á að stefnda skuldaði sér þessa peninga hefði hún átt að gera grein fyrir þeirri skuld stefndu við sig á skattframtali hennar með sama hætti og hún hafi gefið upp á skattframtali að hún skuldaði Búnaðarbanka Íslands andvirði lánanna. Í ljósi þeirra þungu skuldbindinga sem Hildur hafi tekið á sig með lánunum, þ.e. veitt fyrir þeim veð í íbúð sinni, hafi verið þeim mun mikilvægara að Hildur gengi tryggilega frá því með skuldbindandi hætti gagnvart stefndu að um lán hefði verið að ræða, hefði svo átt að vera. Þetta hafi Hildur ekki gert, enda hafi hún gefið stefndu þessa peninga.
Til vara styður stefnda sýknukröfu sína því að hafi verið um lán að ræða þá hafi Hildur veitt stefndu það lán með þeim skilmálum að eftirstöðvar skuldarinnar yrðu gefnar eftir frá andláti Hildar. Sú eftirgjöf sé lífsgjöf en ekki dánargjöf þar sem stefnda hafi tekið þátt í greiðslu lánanna með Hildi fram að andláti hennar.
Kröfu sína um málskostnað byggir stefnda á ákvæðum 1. mgr. 130 gr., sbr. 129. gr. eml. nr. 19/1991.
IV
Niðurstaða
Fyrir liggur að andvirði þeirra veðlána, sem Hildur Halldórsdóttir tók hjá Búnaðarbanka Íslands runnu óskipt til stefndu Hallfríðar Vigfúsdóttur. Af gögnum máls verður ráðið að um gjafagerninga hafi verið að ræða, en ekki lánafyrirgreiðslu vegna stefndu. Hildur Halldórsdóttir var skuldari beggja lánanna og fasteign hennar var til fullnustu greiðslu þeirra. Hún stóð straum af greiðslu afborgana annars lánsins í lifanda lífi að hluta til, en eftirstöðvar lánanna voru greiddar af eignum dánarbúsins eftir andlát hennar, eins og rakið hefur verið.
Samkvæmt 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962 skulu reglur laganna um erfðaskrár einnig gilda um þau gjafaloforð, sem ekki er ætlast til að komi til framkvæmdar fyrr en að gefandanum látnum. Að því leyti sem greindar skuldbindingar Hildar Halldórsdóttur í þágu stefndu voru greiddar af eignum dánarbús hennar verður litið svo á að um dánargjöf hafi verið að ræða í skilningi 54. gr. erfðalaga. Þar sem ekki var gætt ákvæða erfðalaga um erfðaskrár varðandi þá gjafagerninga verður fallist á kröfu búsins um endurgreiðslu á uppgreiðsluverði beggja lánanna samtals að fjárhæð kr. 2.719.893,00 og með þeim dráttvöxtum sem krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Stefnda, Hallfríður Vigfúsdóttur, endurgreiði stefnanda, dánarbúi Hildar Halldórsdóttur, uppgreiðsluverð tveggja lána samtals að fjárhæð kr. 2.719.893,00 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. ágúst 1999 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.