Hæstiréttur íslands

Mál nr. 471/2004


Lykilorð

  • Vörumerki


Miðvikudaginn 20

 

Miðvikudaginn 20. apríl 2005.

Nr. 471/2004.

PE Corporation Celera Genomics

(Skúli Th. Fjeldsted hrl.)

gegn

G.D. Searle LLC

(Ólafur Ragnarsson hrl.)

 

Vörumerki.

G hafði fengið vörumerkið CELEBRA skráð hér á landi á árinu 1998 samkvæmt 16. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki fyrir tilgreindar vörur í 5. flokki hinnar alþjóðlegu vöru- og þjónustuskrár. Í byrjun árs 2001 sótti PE um skráningu vörumerkisins CELERA fyrir vörur í nokkrum tilgreindum flokkum, þ.á m. sömu vörur í flokki 5 og fyrrgreind skráning á CELEBRA tók til og var hún samþykkt. G andmælti skráningunni varðandi vörur í flokki 5 og felldi Einkaleyfastofan í framhaldinu skráninguna úr gildi. Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar staðfesti þá ákvörðun. PE höfðaði mál á hendur G og krafðist þess aðallega að úrskurði áfrýjunarnefndar yrði hrundið og dæmt yrði að skráning vörumerkisins CELERA skyldi halda gildi sínu hvað varðaði vörur í flokki 5. Til vara krafðist hann að fyrrnefndum úrskurði yrði breytt á þá lund að skráning vörumerkisins CELERA skyldi halda gildi sínu hvað varðaði lyfseðilskyld lyf í flokki 5. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að hin umdeildu vörumerki væru það lík að villast mætti á þeim, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/1997. Tekið var fram að vörumerkin væru svo lík að það breytti ekki þessari niðurstöðu að þau auðkenndu meðal annars lyfseðilsskyld lyf. Var G því sýknað af kröfum PE.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. september 2004. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 3. nóvember sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 30. nóvember 2004 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Áfrýjandi krefst þess aðallega að úrskurður áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar í máli nr. 8/2002 verði felldur úr gildi og að staðfest verði skráning vörumerkisins CELERA (orð- og myndmerki) nr. 595/2001 á vörumerkaskrá hvað varðar flokk nr. 5. Til vara krefst hann að fyrrnefndum úrskurði nefndarinnar verði hrundið og breytt á þá lund að skráning vörumerkisins CELERA (orð- og myndmerki) nr. 595/2001 skuli halda gildi sínu hvað varðar lyfseðilskyld lyf í flokki nr. 5. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 Eins og fram kemur í héraðsdómi fékk stefndi vörumerkið CELEBRA skráð hér á landi 6. maí 1998 samkvæmt 16. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki fyrir tilgreindar vörur í 5. flokki hinnar alþjóðlegu vöru- og þjónustuskrár vegna skráningar vörumerkja samkvæmt Nice samningnum. Varðaði skráningin: „.Efnablöndu til lyfja-, dýralækninga og hreinlætisnota; næringarefni framleidd til læknisfræðilegra nota, barnamatur; plástrar, sárabindi; tannfyllingarefni, vax til tannsmíða; sótthreinsiefni; efni til að eyða meindýrum, sveppum og illgresi.“ Áfrýjandi sótti 27. febrúar 2001 um skráningu vörumerkisins CELERA (orð- og myndmerki) fyrir tilteknar vörur í flokkum 1, 5, 9, 10, 16, 35 og 42. Einkaleyfastofan samþykkti umsóknina og var vörumerkið skráð 31. maí 2001.  Tók skráningin að því er flokk 5 varðaði til sömu vörutegunda og fyrrgreind skráning stefnda á vörumerkinu CELEBRA. Stefndi andmælti skráningu vörumerkisins CELERA fyrir vörur í 5. flokki. Í héraðsdómi er rakin ákvörðun Einkaleyfastofu 11. júlí 2002 um að fella framangreinda skráningu vörumerkisins CELERA úr gildi varðandi flokk 5 og úrskurður áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar 12. mars 2003 þar sem sú ákvörðun var staðfest.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi 12. júní 2003 og krafðist þess meðal annars að framangreindum úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar yrði hrundið og dæmt yrði að skráning vörumerkisins CELERA skyldi halda gildi sínu hvað varðar vörur í flokki 5. Náði sú krafa ekki fram að ganga í héraði og er hún aðalkrafa áfrýjanda hér fyrir réttinum.

 Samkvæmt framanrituðu tekur skráning beggja vörumerkjanna meðal annars til efnablanda til lyfja. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt fram bréf Lyfjastofnunar 17. febrúar 2005 þar sem staðfest er að sérlyfið Celebra sé lyfseðilsskylt hér á landi. Áfrýjandi gerir þá varakröfu fyrir Hæstarétti að fyrrnefndum úrskurði áfrýjunarnefndarinnar verði hrundið og breytt á þá lund að skráning vörumerkisins CELERA skuli halda gildi sínu hvað varðar lyfseðilskyld lyf í flokki nr. 5. Telur hann það leiða af dómi Hæstaréttar í dómasafni 2001 bls. 4175 að minni kröfur séu gerðar til aðgreinanleika lyfseðilsskyldra lyfja en annarra vörutegunda innan 5. flokks. Ekki verður fallist á það með stefnda að varakrafa þessi komist ekki að í málinu enda gengur hún skemur en aðalkrafa áfrýjanda.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að hin umdeildu vörumerki séu það lík að villast megi á þeim, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 45/1997. Eru vörumerkin svo lík að það breytir ekki þessari niðurstöðu að þau auðkenna meðal annars lyfseðilsskyld lyf. Verður stefndi því sýknaður af aðal- og varakröfu áfrýjanda.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, G. D. Searle LLC, skal vera sýkn af kröfum áfrýjanda, PE Corporation Celera Genomics, um að felldur verði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar í máli nr. 8/2002 og dæmt verði að skráning vörumerkisins CELERA (orð- og myndmerki) skuli halda gildi sínu varðandi flokk 5.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2004.

I

Mál þetta sem dómtekið var 27. maí 2004 var höfðað 12. júní 2003.  Stefnandi er PE Corporation, Celera Genomics, 45 West Guide Drive, Rockville, Maryland, Bandaríkjunum en stefndi er G.D. Searle LLC, Bandaríkjunum.

Dómkröfur stefnanda eru að hrundið verði úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar í málinu nr. 8/2002 og dæmt að skráning vörumerkisins CELERA (orð og myndmerki) skuli halda gildi sínu hvað varðar flokk nr. 5.  Jafnframt að felld verði úr gildi með dómi skráning nr. 627/1998 í vörumerkjaskrá á vörumerkinu CELEBRA.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður.

II

Hinn 27. febrúar 2001 sótti Sigurjónsson & Thor ehf. fyrir hönd stefnanda um skráningu vörumerkisins CELERA (orð- og myndmerki) fyrir tilteknar vörur í flokkum 1,5,9,10,16,35 og 42.  Einkaleyfastofan skráði vörumerkið í vörumerkjaskrá 31. maí 2001 og er skráningarnúmer þess 595/2001. Í flokki 5 eru efnablöndur til lyfja, dýralækninga og hreinlætisnota; næringarefni framleidd til læknisfræðilegra nota, barnamatur; plástrar, sárabindi; tannfyllingarefni, vax til tannsmíða; sótthreinsiefni; efni til að eyða meindýrum, sveppum og illgresi.

Þann 16. ágúst 2001 andmælti G. H. Sigurgeirsson fyrir hönd stefnda skráningunni hvað varðar flokk 5 á grundvelli ruglingshættu merkisins við merki stefnda CELEBRA.  Var stefnanda gefinn kostur á að svara andmælum stefnda og gerði hann það með greinargerð 19. september 2001.

Andmælamálið fékk númerið 18/2002 og tók Einkaleyfastofan ákvörðun í málinu 11. júlí 2002.  Kemur fram í niðurstöðu stofunnar að vörumerkin CELERA og CELEBRA byrji bæði á orðhlutanum CELE-.  Endingar merkjanna séu –RA og –BRA.  Sérhljóðarnir í báðum merkjunum séu E-E-A.  Það sem aðskilji merkin séu að í merkinu CELEBRA sé bókstafurinn B á undan RA í enda merkisins.  Orðið í merki stefnanda, CELERA sé lítið stílfært og standi eitt sér við hlið myndhluta merkisins.  Er það mat Einkaleyfisstofunnar að um hljóðlíkingu og sjónlíkingu sé að ræða með merkjunum.  Þegar það sé virt og þegar litið sé til heildarmyndar vörumerkjanna, meðal annars til þess að myndin í merki stefnanda sé ekki áberandi hluti þess og til þess hversu lík orðin CELERA og CELEBRA séu var það mat Einkaleyfastofunnar að merkin væru það lík að ruglingi geti valdið í skilningi 6. tl. 1. mgr. 14. gr. vörumerkjalaganna.  Var því skráning vörumerkisins CELERA (orð- og myndmerki) nr. 595/2001 felld úr gildi varðandi flokk 5. 

Þessari ákvörðun skaut stefnandi til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar og hlaut málið númerið 8/2002 hjá nefndinni. Þann 12. mars 2003 kvað áfrýjunarnefndin upp úrskurð í málinu og vísaði til rökstuðnings í ákvörðun Einkaleyfastofunnar varðandi niðurstöðu sína um að ruglingshætta sé með merkinu CELERA og merki stefnda CELEBRA fyrir vörur í flokki 5.  Sé um að ræða tvö tilbúin heiti sem veki engin slík merkingartengsl í huga almennings á Íslandi eða sérfræðinga að það komi í veg fyrir ruglingshættu þeirra á milli.  Var því niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar sú að staðfesta ákvörðun Einkaleyfastofunnar frá 11. júlí 2002 um að skráning vörumerkisins CELERA (orð- og myndmerki) nr. 595/2001 skuli felld úr gildi hvað varðar flokk 5.

Vitnið Sveinbjörn Högnason gaf skýrslu fyrir dómi.

III

Stefnandi kveður ákvörðun áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar vera á því byggða að bæði merkin séu tilbúin heiti sem engin slík merkingartengsl veki að komi í veg fyrir ruglingshættu.  Þessu kveðst stefnandi vera ósammála.  Bæði merkin séu sótt til latínu,  CELEBRA í latneska orðið CELEBER og CELERA í orðið CELER.  CELEBRA standi fyrir mannfögnuð en CELER fyrir hraða.  Þessi latnesku orð séu síður en svo dauð heldur lifi þau í mörgum tungumálum og standi hvort um sig fyrir sambærilegum fyrirbærum sem í latínunni, svo sem celebrate, celebration og  celebrity í ensku annars vegar og  celerity og accelerate hins vegar.  Sömu orð og sami merkingarmunur gangi í gegn í frönsku, celebrer og önnur orð sem byrji á celeb- tákni það sem sé hátíðlegt, hvar aftur á móti celerite standi fyrir hraða.  Megi því ljóst vera að "b" ið í þessu samhengi skipti sköpum um alla merkingu orðanna, með “b” sé merkingin ávallt eitthvað hátíðlegt, án “b” sé merkingin eitthvað hraðatengt og eigi í raun ekki frekar að ruglast á þeim en til dæmis orðunum að “vinna” og “spinna”.

Með því að velja sér að vörumerki eitt af grunnorðum latínunnar, sem gangi í gegnum öll tungumál verði einkaréttur stefnda mjög takmarkaður og verði hann að sæta því að merki sem séu ekki alveg eins fáist einnig skráð.  Til viðbótar sé mynd í merki stefnanda til enn frekari aðgreiningar.

Þá bendir stefnandi á að í fjölda landa hafi vörumerkjayfirvöld ekki talið ruglingshættu með merkjunum.  Þau séu þannig bæði skráð í Sviss og Benelux löndunum og þar sé CELERA einungis í formi orðs.   Þá séu bæði merkin skráð í Noregi og Ungverjalandi.  Í Bandaríkjunum hafi stefndi fengið frest til að andmæla umsókn stefnanda um skráningu CELERA, en sá frestur sé liðinn án þess að andmælum hafi verið hreyft.

Merki stefnda, CELEBRA, sé skráð 6. maí 1998.  Samkvæmt netkönnun sé merkið notað fyrir lyf sem allmikla athygli hafi vakið, í sumum löndum sé það markaðsett undir nafninu CELEBREX, en ekki aðrar vörur.  Samkvæmt upplýsingavef Thomson, DiealogClassic Web, um markaðssetningu CELEBRA, hafi það alls ekki verið markaðssett á Íslandi.  Séu þá liðin 5 ár frá skrásetningu merkisins án þess að það hafi verið notað fyrir þær vörur sem það sé skráð fyrir og sé þannig ljóst að ógilda beri skráningu þess eins og stefnandi krefjist, en að því gerðu megi alveg ljóst vera að andmæli stefnda séu ómerk og engin fyrirstaða lengur vegna merkisins CELEBRA.

Stefnandi vísar um kröfur sínar til reglna vörumerkjalaga nr. 45/1997 og vörumerkjaréttarins yfirleitt. Um málskostnað vísar hann til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Stefndi vísar til þess að Einkaleyfastofan hafi  talið að ruglingshætta væri fyrir hendi milli merkjanna.  Sé um mikla hljóðlíkingu og sjónlíkingu að ræða með merkjunum sem leiði til þess að ruglingshætta sé með merkjunum í skilningi 6. tl. 1. mgr. 14. gr. vörumerkjalaga.  Þá sé í rökstuðningi Einkaleyfastofunnar vísað til þess að heildarmynd merkjanna sé það lík að leiði til ruglingshættu.  Þetta sé staðfest í úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar auk þess sem þar komi fram að um sé að ræða tvö tilbúin heiti sem veki engin slík merkingartengsl í huga almennings á Íslandi eða sérfræðinga að það komi í veg fyrir ruglingshættu þeirra á milli. 

Tilvísun stefnanda um skráningar beggja merkjanna í sama landi eða landsvæðum sé ekki rök fyrir eða sönnun þess að ekki sé ruglingshætta milli merkjanna í skilningi 6. tl. 1. mgr. 14. gr. vörumerkjalaga.

Varðandi dómkröfu stefnanda um að felld verði  úr gildi með dómi skráning nr. 627/1998 í vörumerkjaskrá á vörumerkinu CELEBRA vegna notkunarleysis þá sé sú krafa órökstudd og ekki vísað til lagaraka varðandi hana.  Þá sé málatilbúnaður stefnanda varðandi þessa kröfu óljós og málið illa reifað og telur stefndi að vísa beri henni frá dómi.  Kveður stefndi að merkið CELEBRA hafi verið tekið í notkun á Íslandi 1. júlí 2002.

Stefndi telur málshöfðun þessa með vísan til niðurstaðna Einkaleyfastofunnar og áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar tilefnislausa og því beri að sýkna hann af málskostnaðarkröfu.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 45/1997 einkum 13., og 6. tl. 14. gr. laganna.  Um málskostnað vísar hann til 1. mgr. 130. gr. og 1. mgr. a 131. gr. laga nr. 91/1991.

V

Krafa stefnanda er tvíþætt og lýtur önnur þeirra að því að felld verði úr gildi með dómi skráning nr. 627/1998 í vörumerkjaskrá á vörumerkinu CELEBRA.  Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda en í málatilbúnaði sínum rökstyður hann ekki hvers vegna sýkna beri hann af framangreindri kröfu um niðurfellingu á skráningu vörumerkisins CELEBRA heldur rökstyður hvers vegna eigi að vísa þeirri kröfu frá dómi vegna vanreifunar.

Í e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 segir að greina skuli í stefnu svo glöggt sem verða má á hvaða málsástæðum stefnandi byggi málsókn sína svo og önnur atvik sem þarf að greina til að samhengi málsástæðna verði ljóst, og skal þessi lýsing vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er.  Þá skal samkvæmt f-lið ákvæðisins vísa til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á.  

Stefnandi rökstyður kröfu þessa með vísan til þess að í gögnum frá upplýsingavef Thomson, DialogClassic Web komi fram að CELEBRA hafi ekki verið markaðssett á Íslandi og að fimm ár séu liðin frá skrásetningu merkisins án þess að það hafi verið notað fyrir þær vörur sem það sé skráð fyrir.  Draga má þá ályktun af málatilbúnaði stefnanda hvað snertir þessa kröfu að stefnandi byggi hana á 25. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997, en þar segir að ef eigandi að skráðu vörumerki hefur ekki innan fimm ára frá skráningardegi notað vörumerkið hér á landi fyrir þær vörur og þjónustu sem það er skráð fyrir eða hafi slík notkun ekki átt sér stað í fimm ár samfellt megi ógilda skráninguna með dómi, nema gildar ástæður séu fyrir því að notkun vörumerkisins hafi ekki átt sér stað.  Stefnandi vísar í stefnu til vörumerkjalaganna í heild sinni en tíundar ekki hvaða ákvæði þeirra eigi við um kröfur hans.

Stefnandi hefur ekki lagt fram önnur gögn en fyrrgreind gögn af netinu, en ekki verður séð að þau staðfesti þær fullyrðingar stefnanda að stefndi hafi ekki notað vörumerkið CELEBRA hér á landi í fimm ár samfellt.  Verður að fallast á það með stefnda að málatilbúnaður stefnanda varðandi þessa kröfu sé óskýr og er lýsing málsástæðna varðandi hana langt frá því að vera svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er.  Er málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti í andstöðu við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Vanreifun stefnanda að þessu leyti hindrar að viðhlítandi vörnum verði haldið uppi og dómur geti orðið réttilega á kröfuna felldur.

Enda þótt lagatilvitnun í stefnu uppfylli formkröfu f-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 þykir hún eigi að síður til þess fallin að auka á óskýrleika málatilbúnaðar hans.  Að þessu virtu er það niðurstaða málsins að vísa beri frá dómi, án kröfu, kröfu stefnanda um að felld verði úr gildi með dómi skráning nr. 627/1998  á vörumerkinu CELEBRA í vörumerkjaskrá.

Samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 14. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997 er óheimilt að skrá vörumerki ef villast má á merkinu og vörumerki sem skráð hefur verið hér á landi eða hefur verið notað hér þegar umsókn um skráningu er lögð inn og er enn notað hér.  Byggðu niðurstöður Einkaleyfastofunnar og áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar báðar á því að ruglingshætta væri fyrir hendi milli merkjanna samkvæmt framangreindu ákvæði vörumerkjalaganna og því var skráning vörumerkisins CELERA felld úr gildi varðandi vörur í flokki nr. 5.

Eins og rakið er í niðurstöðum Einkaleyfastofunnar skiptir einkum máli við mat á því hvort ruglingshætta sé með vörumerkjum, hvort vörulíking, sjónlíking og hljóðlíking sé með merkjum og hvort heildarmynd merkjanna sé svo lík að ruglingi geti valdið.

Ljóst er að bæði vörumerkin CELERA og CELEBRA eru notuð á vörur í flokki nr. 5, meðal annars á efnablöndur til lyfja svo dæmi sé tekið.  Er því augljóst að vörulíking er með merkjunum sem óneitanlega er til þess fallin að skapa hættu á ruglingi milli þeirra.

Bæði vörumerkin, orðin, eru lík í sjón að því leyti að þau byrja bæði á CELE- og enda á -RA.  Það sem skilur merkin að er aðeins að bókstafurinn B stendur á undan -RA í hinu síðarnefnda.  Þá eru sömu sérhljóðarnir, E-E-A í báðum orðunum og í sömu röð.  Er að mati dómsins sláandi sjónlíking með orðum beggja merkjanna sem er til þess fallin að skapa hættu á ruglingi milli þeirra.

Þá er ekkert sem gefur til kynna að framburður vörumerkjanna sé ólíkur og að bókstafurinn B sem skilur að merkin hafi mikil áhrif í framburði á orðinu CELEBRA eða að áherslur á sérhljóðana í orðunum sé mismunandi.  Vangaveltur stefnanda um að bæði orðin séu sótt til latínu kunna að vera réttar.  Það er hins vegar ekkert fyrirliggjandi í málinu um að heiti vörumerkjanna hafi mismunandi þýðingu.  Er því ekkert sem liggur fyrir að um sé að ræða annað en tvö tilbúin heiti sem vekja engin slík merkingartengsl í huga almennings á Íslandi eða sérfræðinga að það komi í veg fyrir ruglingshættu þeirra á milli svo sem greinir í úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda.

Þrátt fyrir að vörumerkið CELERA sé með mynd, sem vörumerkið CELEBRA hefur ekki, þykir myndin í merki stefnanda svo lítið áberandi hluti þess samanborið við orðið CELERA að það út af fyrir sig þykir ekki koma í veg fyrir ruglingshættu milli merkjanna.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða málsins að umdeild vörumerki séu það lík að auðveldlega megi villast á þeim sbr. 6. tl. 1. mgr. 14. gr. vörumerkjalaganna.  Verður stefndi því sýknaður af þeirri kröfu stefnanda að hrundið verði úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviðið iðnaðar í málinu nr. 8/2002.

Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega metinn 150.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Skúli Th. Fjeldsted hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Ólafur Ragnarsson hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Kröfu stefnanda, PE Corporation, Celera Genomics, um að felld verði úr gildi með dómi  skráning nr. 627/1998 á vörumerkinu CELEBRA í vörumerkjaskrá er vísað frá dómi án kröfu.

Stefndi, G.D. Searle LLC, skal vera sýkn af kröfu stefnanda um að hrundið verði úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, í málinu nr. 8/2002 og dæmt að skráning vörumerkisins CELERA (orð- og myndmerki) skuli halda gildi sínu varðandi flokk 5.

Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.