Hæstiréttur íslands
Mál nr. 467/2011
Lykilorð
- Skuldamál
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn
11. október 2012. |
|
Nr. 467/2011. |
Íslandsbanki hf. (Stefán A. Svensson hrl.) gegn Margréti De
Leon Magnúsdóttur (Eyvindur Sólnes hrl.) |
Skuldamál.
Gengistrygging.
Í hf. krafði M um greiðslu skuldar á gjaldeyrisreikningi hennar hjá Í hf.
Deildu aðilar um það hvort M hefði stofnað til gildrar skuldbindingar í
erlendri mynt eða hvort um hefði verið að ræða lán í íslenskum krónum bundið
gengi erlends gjaldmiðils. Í dómi Hæstaréttar sagði að með því að hagnýta sér
heimild til yfirdráttar á gjaldeyrisreikningi hefði M stofnað til skuldar í
mynt viðkomandi reiknings. Skipti þar engu þótt útborgun af reikningnum í
þeirri mynt hefði verið ráðstafað til að greiða skuld í krónum í öðrum
viðskiptum. Væri því um að ræða gilt lán í erlendum gjaldmiðli. Þá féllst
Hæstiréttur ekki á að uppgjöri skuldarinnar skyldi haga í samræmi við X. ákvæði
til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 þar sem útborgun af reikningnum hefði verið
í hinni erlendu mynt. Var M því gert að greiða Í hf. umkrafða fjárhæð.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson,
Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi
skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2011. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði gert að greiða sér 7.819.188
krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu frá 31. desember 2009 til greiðsludags, en til vara að málinu
verði vísað frá héraðsdómi. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir
Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og
málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi eru málavextir þeir að
stefnda stofnaði gjaldeyrisreikning hjá Glitni banka hf., forvera áfrýjanda,
24. apríl 2007 í bandaríkjadölum. Heimilt var að yfirdraga reikninginn og höfðu
tvö skyldmenni stefndu gengist í skjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdrættinum með
yfirlýsingu 23. sama mánaðar. Hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar nam 3.400.000
krónum.
Tilefni þess að stefnda stofnaði gjaldeyrisreikninginn voru
kaup hennar á fasteign sem hún fékk afsal fyrir 27. apríl 2007. Þann dag var
gjaldeyrisreikningurinn skuldfærður um 53.000 bandaríkjadali, en fjárhæð
þeirrar úttektar nam 3.390.940 krónum miðað við gengið 63,98 krónur fyrir hvern
bandaríkjadal. Þeirri greiðslu mun hafa verið ráðstafað til kaupa á bankaávísun
að fjárhæð 3.421.841 króna sem gefin var út til seljanda fasteignarinnar.
Svaraði fjárhæð ávísunarinnar til lokagreiðslu á kaupverði eignarinnar.
Í árslok 2009 nam yfirdráttur á gjaldeyrisreikningnum
62.443,60 bandaríkjadölum eða jafnvirði 7.819.188 króna miðað við gengið 125,22
krónur fyrir hvern bandaríkjadal. Áfrýjandi lokaði reikningnum og krefst
greiðslu skuldarinnar úr hendi stefndu. Í aðilaskýrslu stefndu fyrir dómi kom
fram að hún hafði reiknað með að greiða skuldina með söluandvirði fasteignar
sem hún átti í Bandaríkjunum, en ekki mun hafa orðið af sölu þeirrar eignar.
II
Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að stefnda hafi
stofnað til gildrar skuldbindingar í erlendri mynt. Stefnda telur aftur á móti
að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum bundið gengi erlends
gjaldmiðils, en það fari í bága við 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Með því að hagnýta sér heimild til yfirdráttar á
gjaldeyrisreikningi stofnaði stefnda til skuldar í mynt viðkomandi reiknings.
Skiptir þá engu þótt útborgun af reikningnum í bandaríkjadölum hafi verið
ráðstafað til að greiða skuld í krónum í öðrum viðskiptum. Var því um að ræða
gilt lán í erlendum gjaldmiðli.
Stefnda heldur því fram að uppgjöri skuldarinnar eigi að
haga í samræmi við X. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001, sbr. 2. gr.
laga nr. 151/2010. Samkvæmt því ákvæði fara framtíðarskilmálar skuldbindingar
eftir 18. gr. laganna ef húsnæðislán til neytanda hefur verið greitt út í
íslenskum krónum eða umbreyting úr erlendum myntum er hluti viðkomandi
lánasamnings, en endurgreiðsla skuldarinnar miðast að einhverju leyti við gengi
erlendra gjaldmiðla. Þegar af þeirri ástæðu að útborgun af gjaldeyrisreikningi
er í mynt reikningsins getur þetta ákvæði ekki átt við um skuldbindingu
stefndu.
Samkvæmt framansögðu verður krafa áfrýjanda á hendur stefndu
tekin til greina en ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum. Jafnframt verður
stefndu gert að greiða dráttarvexti af kröfunni frá 12. september 2010, en þá
var mánuður liðinn frá því hún var krafin um greiðslu með innheimtubréfi
áfrýjanda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Eftir þessum úrslitum verður stefndu gert að greiða
áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu
lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefnda, Margrét De Leon Magnúsdóttir, greiði áfrýjanda, Íslandsbanka hf.,
7.819.188 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um
vexti og verðtryggingu frá 12. september 2010 til greiðsludags.
Stefnda greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í
málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2011.
Mál
þetta, sem dómtekið var 11. mars, var höfðað 5. og 9. október 2010.
Dómkröfur
stefnanda eru eftirfarandi: Að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda
7.819.188 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti
og verðtryggingu frá 31. desember 2009 til greiðsludags. Þá er krafist
málskostnaðar.
Við
þingfestingu málsins var málið með úrskurði að ósk stefnanda fellt niður á
hendur stefndu Karólínu Snorradóttur og Pétri Geir Magnússon, sem upphaflega
var stefnt í málinu.
Stefnda
Margrét De Leon
Magnúsdóttir krefst sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst hún málskostnaðar að
skaðlausu úr hendi stefnanda.
I.
Þann
24. apríl 2007 stofnaði stefnda Margrét de Leon Magnúsdóttir gjaldeyrisreikning USD
nr. 515-29-1188 við útibú stefnanda að Kirkjusandi 2 í Reykjavík. Samkvæmt
reikningsyfirliti vegna reiknings þessa námu innistæðulausar færslur á
reikningnum þann 31.12. 2009 USD 62.443,60, en
umreiknað í íslenskar krónur miðað við gengi USD
31.12.2009, sem var 125,22, jafnvirði í 7.819,188 íslenskum krónum. Stefnandi
kveður reikningnum hafa verið lokað að undangenginni löginnheimtu. Með
yfirlýsingu þann 23. apríl 2007 tóku Karólína Snorradóttir og Pétur Geir
Magnússon á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldar allt að 3.400.000 krónur
ásamt vöxtum og kostnaði vegna reikningsins. Stefnandi kveður skuldina ekki
hafa fengist greidda þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að
höfða mál til greiðslu hennar.
Stefnda
lýsir málavöxtum svo að umræddur gjaldeyrisreikningur hafi verið stofnaður í
tengslum við kaup hennar á fasteign að Hraunholti 15 í Garði, en Íslandsbanki,
þá Glitnir hafi veitt stefndu lán vegna kaupanna. Stefnda hafi annars vegar
tekið lán upp á 17,6 milljónir króna með veði í eigninni og hins vegar
viðbótarlán upp á 3,4 milljónir króna. Útfærsla þess láns hafi verið með þeim
hætti að áðurnefndur reikningur var stofnaður, tékkareikningur með
yfirdráttarheimild. Þessi reikningur hafi verið nýttur til að greiða í einni
greiðslu 3.400.000 krónur til seljanda eignarinnar vegna fasteignakaupanna. Til
hafi staðið að láninu yrði breytt úr því að vera yfirdráttarheimild á
tékkareikningi yfir í hefðbundið fasteignalán, enda óeðlilegt að lán sem þetta
sé í formi yfirdráttarheimildar, en ekkert hafi orðið af því.
II.
Stefnda
byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að hið umrædda lán hafi verið
gengistryggt á ólögmætan hátt. Af þeim sökum sé stefnufjárhæð málsins fengin út
með ólögmætum hætti þannig að stefnda geti ekki fallist á að greiða hana, þótt
ekki sé umdeilt í sjálfu sér að lán hafi verið veitt. Ekki sé gerð varakrafa í
málinu af hálfu stefnanda og því sé farið fram á sýknu.
Í
13. og 14 . gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, komi fram með
hvaða hætti megi verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum. Þar segi að einungis sé
heimilt að verðtryggja lánsfjárhæð út frá vísitölu neysluverðs og í
lögskýringargögnum komi fram að í þessu felist að ólögmætt sé að tengja
höfuðstól lánsfjárhæðar við gengi erlendra mynta. Með dómi Hæstaréttar í máli
nr. 92/2010 hafi því verið slegið föstu að óheimilt væri að lán í íslenskum
krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Í
því felist að ákvæði 13. og 14. gr. vaxtalaga séu ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr.
laganna, og að ekki verði samið um verðtryggingu sem ekki sé stoð fyrir í
lögunum. Í dómnum komi fram að fyrrnefnd ákvæði í hinum umdeilda samningi um
gengistryggingu væru því í andstöðu við þessi fyrirmæli laganna og ekki
skuldbindandi.
Í
dómum Hæstaréttar hafi komið fram að heiti lánsins eða form þess skipti ekki
máli, heldur efni þess og hvaða verðmæti skipti raunverulega um hendur. Í
tilfelli stefndu sé ljóst að hún fékk íslenskar krónur að láni í tengslum við
fasteignakaup hér á landi, enda hafi hún verið búsett á Íslandi, haft tekjur í
íslenskum krónum og nýtt lánið hér innanlands. Upphæðin taki mið af því, þ.e.
3.400.000 íslenskar krónur.
Engin
gjaldeyrisviðskipti hafi átt sér stað og enginn gjaldeyrir skipt um hendur,
enda liggi engar kaupnótur eða aðrar slíkar kvittanir fyrir í málinu,. Raunar
sé skjalagerð í tengslum við þessa lánveitingu knöpp og miðað við framlögð gögn
af hálfu stefnanda virðist ekki hafa verið skrifað undir nein skjöl eða
samninga um lánið, hvað þá að stefnda hafi samþykkt kaup á erlendum gjaldeyri
eða fallist á að taka á sig gengisáhættu.
Af
hálfu stefnda er vakin athygli á því að í meðförum Alþingis sé nú frumvarp
efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu,
sem sé ætlað að taka á lánum eins og því sem mál þetta snúist um. Í
bráðabirgðaákvæði X, sbr. 3. gr. a í frumvarpinu, komi fram að lán sem þetta
skuli gert upp á grundvelli 18. gr. laganna, þannig að það teljist vera
íslenskt lán og taki óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.
Samkvæmt frumvarpinu séu ákvæði þess afturvirk og myndu því eiga við þetta lán.
Um
lagarök vísar stefnda til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum
13. og 14. gr.
III.
Stefnda,
Margrét De Leon
Magnúsdóttir gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins og Kristín
viðskiptastjóri stefnanda gaf skýrslu vitnis.
Stefnda
kvað fjárhæð samkvæmt umræddum reikningi hafa verið millifærða yfir á annan
reikning vegna fasteignakaupa. Hún hefði aldrei fengið neina peninga í hendur.
Í bankanum hafi henni verið sagt að hagstæðara væri fyrir hana að hafa
yfirdráttinn í dollurum. Hún hefði óskað eftir breytingu á láninu en henni
hefði verið sagt að vaxtalega séð væri hagstæðara fyrir hana að halda þessu
óbreyttu. Yfirdrátturinn hefði verið hafður í dollurum þar sem vextir í
íslenskum krónum væru óhagstæðari. Hún hefði hins vegar átt að endurgreiða
þetta lán í venjulegum greiðslum. Hún
kvaðst hafa átt fasteign í Bandaríkjunum sem til stóð að selja. Kvað hún
yfirdráttarheimildina í dollurum hafa tengst þeirri sölu. Sá sem ætlaði að
kaupa umrædda eign hefði hins vegar hætt við kaupin og ekkert orðið af þeim.
Vitnið
Kristín, viðskiptastjóri stefnanda, kvað stefndu hafa fengið yfirdráttarheimild
í dollurum af því að hún átti fasteign í Bandaríkjunum sem hún var að selja.
Ekki hafi staðið til að breyta yfirdrættinum í annars konar lán. Hún kvað
yfirdráttinn hafa verið veittan í tengslum við kaup stefndu á fasteign hér á
landi.
IV.
Upplýst
er í máli þessu og óumdeilt að tildrög þess að stefnda stofnaði
gjaldeyrisreikning í bandaríkjadölum í útibúi stefnanda með yfirdráttarheimild
voru þau að stefnda, sem var að festa kaup á fasteign á Íslandi, átti fasteign
í Bandaríkjunum sem hún taldi sig hafa kaupanda að er til reikningsins var
stofnað. Kom fram hjá stefndu fyrir dóminum að stofnun gjaldeyrisreikningsins hafitengst sölu fasteignarinnar í Bandaríkjunum. Þá kom
fram í vætti starfsmanns stefnanda fyrir dóminum að stefndu hafi verið veitt
yfirdráttarheimild á gjaldeyrisreikningi í bandaríkjadölum af því að hún átti
fasteign í Bandaríkjunum sem hún var að selja og einnig hafi yfirdráttarheimildin
verið veitt í tengslum við kaup stefndu á fasteign á Íslandi. Eins og áður
getur varð ekkert af sölu fasteignar stefndu í Bandaríkjunum.
Eins
og að framan getur leitaði stefnda til stefnanda með lánafyrirgreiðslu vegna
kaupa hennar á fasteign í Garði. Var henni veitt hefðbundið fasteignalán að
fjárhæð 17.600.000 krónur og hins vegar yfirdráttarlán á framangreindum
gjaldeyrisreikningi, sem nam 3.400.000 íslenskum krónum og var sú fjárhæð
millifærð á reikning seljanda fasteignarinnar. Fjárhæðin var skuldfærð á
gjaldeyrisreikning stefnanda í bandaríkjadölum. Enginn erlendur gjaldeyrir var
lagður inn á þann reikning en reikningurinn var einvörðungu nýttur vegna þessa
viðbótarfasteignaláns stefndu. Ber í þessu sambandi að líta til yfirlýsingar
framangreindra sjálfskuldarábyrgðarmanna vegna umrædds gjaldeyrisreiknings.
Samkvæmt yfirlýsingunni ábyrgjast þessir aðilar að hámarki 3.400.000 íslenskar
krónur en ekki bandaríkjadali eins og reikningurinn var færður í. Þegar til
allra atvika er litið verður ekki komist hjá öðru en að líta svo á að í reynd
hafi stefndu verið lánað fé í íslenskum krónum, en að lánafyrirgreiðslan hafi
verið útfærð með þeim hætti að hún færi fram í bandaríkjadölum. Með þessu var
lánið verðtryggt miðað við gengi bandaríkjadals, en það er óheimilt sbr. 13. og
14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Er í þessu sambandi vísað til dóma Hæstaréttar
frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.
Óumdeilt
er að stefnda stendur í skuld við stefnanda vegna framangreindrar
lánafyrirgreiðslu, en á hinn bóginn hefur stefnandi ekki uppi varakröfu í
málinu um greiðslu skuldarinnar miðað við að hún sé ekki miðuð við gengi
erlends gjaldmiðils. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að sýkna stefndu
af kröfum stefnanda í málinu. Eftir þeim úrslitum ber að dæma stefnanda til að
greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur. Hefur
þá verið tekið tillit til 25,5 % virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Finnbogi
H. Alexandersson dómstjóri kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Stefnda,
Margrét De Leon
Magnúsdóttir, er sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.
Stefnandi,
Íslandsbanki hf., greiði stefndu 350.000 krónur í málskostnað.