Hæstiréttur íslands

Mál nr. 363/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skýrslugjöf
  • Börn
  • Kynferðisbrot


                                                                                                                 

Fimmtudaginn  16. september 1999.

Nr. 363/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

Páli Þorsteinssyni héraðsdómara

(enginn)

Kærumál. Skýrslugjöf. Börn. Kynferðisbrot.

Lögreglustjórinn í R kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að tekin yrði skýrsla af X fyrir héraðsdómi samkvæmt a. lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Talið var að fyrirmæli laga væru skýr um að í kynferðisbrotamálum væri lögreglu skylt að leita atbeina dómara um skýrslutöku af brotaþola yngri en 18 ára. Fyrir lá að ætlaður brotaþoli X væri 17 ára og var lagt fyrir héraðsdómara að taka skýrslu af henni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. september 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að tekin væri skýrsla af X fyrir héraðsdómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka umbeðna skýrslu.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði fór sóknaraðili þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að tekin yrði skýrsla af X fyrir dómi samkvæmt a. lið 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Telur sóknaraðili skýrslutökuna nauðsynlega í tengslum við rannsókn opinbers máls vegna ætlaðs brots gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en X, sem er 17 ára, kærði sambúðarmann sinn, Y, fyrir líkamsárás og nauðgun 31. ágúst sl. Samkvæmt gögnum málsins hefur ekki verið tekin lögregluskýrsla af X, en lögreglumaður átti viðtal við hana í neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur að viðstöddum réttargæslumanni hennar.

Áðurgreint ákvæði 74. gr. a. laga nr. 19/1991 er svohljóðandi: „Ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn máls hefst ber lögreglu að leita atbeina dómara sem sér um að taka skýrslu af honum.” Samkvæmt þessu eru fyrirmæli laga skýr um það að í kynferðisbrotamáli sé lögreglu skylt að leita atbeina dómara um skýrslutöku af brotaþola, sem er yngri en 18 ára. Veitir lagaákvæðið dómara ekki svigrúm til að meta hvort nauðsynlegt sé að gefa skýrslu með þessum hætti. Svo sem fram er komið liggur fyrir að X er ekki orðin 18 ára. Er því fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991 til að skýrslutaka af X fari fram fyrir dómi.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka skýrslu af X.

Dómsorð:

Lagt er fyrir héraðsdómara að taka skýrslu af X.