Hæstiréttur íslands
Mál nr. 131/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur varir og eftir atvikum meðan mál varnaraðila sætir meðferð fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 16. júní 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að aðallega framangreind krafa sín verði tekin til greina, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði „vísað frá dómi“, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar í þinghaldi 23. febrúar 2017 lýsti sóknaraðili yfir að hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, þar sem gerð yrði sú krafa að varnaraðila verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur og eftir atvikum á meðan mál varnaraðila er til meðferðar fyrir Hæstarétti. Í yfirlýsingu sóknaraðila kemur fram í hvaða skyni kært er, sbr. 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Verður kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti því hafnað.
Með úrskurði héraðsdóms 18. febrúar 2017 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi til 17. mars sama ár á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 vegna rökstudds gruns um að hann hafi gerst sekur um fjölda brota á tímabilinu frá 5. október 2016 til 18. febrúar 2017, sem fangelsisrefsing liggur við. Þá kom fram í forsendum úrskurðarins að beðið væri dóms í máli, þar sem ákæruvaldið hafi farið fram á að varnaraðili sætti fangelsi í þrjú ár. Með héraðsdómi [...]. febrúar 2017 í því máli var varnaraðili sakfelldur fyrir að hafa í tvígang sama dag gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás og dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Við uppkvaðningu dómsins lýsti varnaraðili því yfir að hann tæki sér lögboðinn frest til að taka afstöðu til áfrýjunar.
Samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í málinu, en sem fyrr segir var mál það, sem varnaraðili hlaut dóm í [...]. febrúar 2017, meðal þess sem lá til grundvallar gæsluvarðhalds yfir honum samkvæmt úrskurðinum 18. sama mánaðar eftir c. lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 97. gr. laganna getur dómari, eftir kröfu ákæranda, úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti eftir 199. gr. laganna stendur, svo og meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti. Eftir orðanna hljóðan er ekkert því til fyrirstöðu að ákærandi geti krafist þess í einu lagi að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald meðan á áfrýjunarfresti stendur og meðan mál hans er til meðferðar í Hæstarétti, komi til þess að að héraðsdómi verði áfrýjað í tæka tíð. Að öðrum kosti félli gæsluvarðhaldið sjálfkrafa niður við lok hins lögboðna áfrýjunarfrests, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. og 5. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Að þessu virtu er fallist á með sóknaraðila að uppfyllt séu skilyrði til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 á þann veg sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. júní 2017 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að dómfellda, X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, uns áfrýjunarfrestur varir og eftir atvikum meðan mál X sætir meðferð fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 16. júní 2017 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að í hafi hafi kærði hlotið dóm fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem kærði hafi hlotið fangelsisrefsingu fyrir brot á almennum hegningarlögum og vopnalögum., sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2015. Kærði hafi tekið sér frest til áfrýjunar og sé dómurinn því ekki fullnustuhæfur.
Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. febrúar sl.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi gefið út ákæru á hendur kærða þann 25. október sl. vegna fjögurra umferðarlagabrota. Málið sætir meðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Frá 4. október síðastliðnum sé kærði grunaður um eftirfarandi brot:
Mál 007-2017-[...]
Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa laugardaginn 18. febrúar sl. á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík, hótað að stúta lögreglumanninum A. Ekki hafi verið tekin skýrsla af kærða vegna þessa brots.
Mál nr. 007-2017-[...]
Brot gegn nálgunarbanni og þjófnað, með því að hafa 18. febrúar sl. komið á heimili barnsmóður sinnar [...] að [...] í [...], þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi þann 1. nóvember 2016 staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða í námunda við heimili hennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. B hafi talið að kærði hafi meðal annars tekið Ipod og USB lykil sem hún hafi átt Kærði hafi verið handtekinn í íbúð B að [...]. Við öryggisleit á honum hafi meðal annars fundist tveir samsung símar og einn Ipod. Hafi hann falið einn síma í nærbuxum sínum. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði kvaðst hafa verið í [...] umrædda nótt og hafi verið meðvitaður um að hann væri í nálgunarbanni gagnvart B.
Mál nr. 007-2017-[...]
Þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 31. janúar 2017 í verslun Bónuss, Faxafeni 14, Reykjavík, stolið matvöru, samtals að verðmæti kr. 3.875. Kærði hafi játað sök í málinu.
Mál nr. 007-2017-[...]
Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 18. janúar 2017, brotist inn í nýbyggingu við [...] í Reykjavík, og stolið þaðan miklu magni af verkfærum, að óþekktu verðmæti. Verkfæri úr innbrotinu hafi fundist við húsleit lögreglu þann 2. febrúar sl. á heimili [...] að [...] í Reykjavík. Hafi C upplýst um að hann hafi fengið þetta upp í skuld frá kærða. Við skýrslutöku hjá lögreglu í dag hafi kærði ekki kvaðst hafa brotist þarna inn, en C hafi gert það.
Mál nr. 007-2017-[...]
Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa fimmtudaginn 5. janúar 2016, komið á heimili barnsmóður sinnar B að [...] í Reykjavík, þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi þann 1. nóvember 2016 staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða í námunda við heimili hennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti.
Mál nr. 007-2017-[...]
Þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 3. janúar 2017, í Apótekaranum, Lóuhólum 2-6, Reykjavík, stolið vörum, samtals að verðmæti kr. 11.463. Kærði hafi játað sök í málinu.
Mál nr. 007-2017-[...]
Umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 1. janúar 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti suður Stöng í Reykjavík, við Breiðholtsbraut, þar sem kærði hafi ekið gegn rauðu umferðarljósi. Kærði hafi gengist við brotinu.
Mál nr. 007-2017-6081
Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 28. desember 2016, við [...] í Kópavogi. stolið farsíma, að óþekktu verðmæti. Eigandi símans hafi haft samband við lögreglu og greint frá því að myndir úr símanum hafi skyndilega byrjað að uppfærast á OneDrive, en myndirnar séu dagsettar 2. og 3. febrúar. Kærði hafi þekkst á myndunum. Við skýrslutöku hjá lögreglu í dag hafi kærði neitað að hafa stolið símanum. Hafi í fyrstu sagt að D hafi stolið símanum, en þegar honum hafi verið bent á að D hafi verið í fangelsi á þessum tíma, hafi hann sagst ekki hafa stolið símanum og ekki vita hver hafi stolið honum.
Mál nr. 007-2016-[...]
Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa föstudaginn 23. desember 2016 við Krókháls í Reykjavík, til móts við Veiðihornið, verið farþegi í bifreið barnsmóður sinnar B, þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi þann 1. nóvember 2016 staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða í námunda við heimili hennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. Lögregla hafi stöðvað aksturinn umrætt sinn.
Mál nr. 007-2016-[...]
Umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 13. desember 2016 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 115 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 1,1 ng/ml) á bifreiðastæði við Spöngina í Reykjavík, þar sem lögregla hafi haft afskipti af kærða.
Mál nr. 007-2016-[...]
Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa þriðjudaginn 18. október 2016 komið á heimili barnsmóður sinnar B að [...] í Reykjavík, þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi hefði þann 1. nóvember 2016 staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða í námunda við heimili hennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. Vitni hafi tilkynnti að kærði væri að reyna að brjótast inn í íbúð B. Tvö vitni hafi skýrt frá því að kærði hafi komið með þeim á vettvang og hafi þau séð á eftir kærða inn í [...]. Skömmu síðar hafi lögregla komið á vettvang en ekki fundið kærða. Kærði hafi neitað sök í málinu.
Mál nr. 007-2016-[...]
Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu frá 17. október til 18. október, sent barnsmóður sinni B fjölda sms skilaboða, þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi þann 1. nóvember 2016 staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða í námunda við heimili hennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað að gefa upp símanúmer sitt. Honum hafi þá verið kynnt að af lestri skilaboðanna væri ljóst að þau væru milli hans og B. Hafi hann kveðið B oft hafa sent honum skilaboð og að hann hafi oft svarað henni. Kærði hafi neitað að hafa átt frumkvæði að því að vera í sambandi við B, hann hafi einungis svarað skilaboðunum.
Mál nr. 007-2016-[...]
Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa mánudaginn 17. október 2016 komið á heimili barnsmóður sinnar B að [...] í Reykjavík, þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi hefði þann 1. nóvember 2016 staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að kærða væri bannað að koma á eða í námunda við heimili hennar, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. Lögregla hafi handtekið kærða á vettvangi. Kærði hafi neitað að tjá sig við skýrslutöku hjá lögreglu.
Mál nr. 007-2016-[...]
Líkamsárás og brot á barnaverndarlögum, með því að hafa sunnudaginn 16. október 2016, að [...] í Reykjavík, veist að barnsmóður sinni B, að viðsöddum börnum þeirra þriggja og fjögurra ára, skellt henni í gólf, togað í hönd hennar svo hún fékk roða á höndina, tekið af henni síma og gripið fyrir munn hennar. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi X verið ölvaður og í annarlegu ástandi. Í skýrslu lögreglu hafi komið fram að B hafi óttast kærða. Íbúi í blokkinni hafi tilkynnt að hann teldi karlmann vera að ganga í skrokk á kvenmanni sem þar búi og hafi heyrt öskur frá kvenmanni og börnum frá íbúðinni. Börn B og kærða hafi skýrt starfsmanni barnaverndar frá því að pabbi þeirra hafi sagt við móður þeirra að hún ætti að skera af sér hausinn og hann hafi tekið af henni símann. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði kveðið þau hafa verið að rífast um peninga. Hafi hann kvaðst ekki hafa kýlt hana eða slegið.
Mál 007-2016-[...]
Líkamsárás, húsbrot, kynferðisbrot, eignaspjöll og valdstjórnarbrot, með því að hafa miðvikudaginn 5. október 2016, brotið sér leið inn í íbúð að [...], íbúð [...], sem E hafi haft til umráða, með því að sparka upp útidyrahurðinni, með þeim afleiðingum að karmur hafi brotnað, hótað E og slegið hana hana í andlitið og tekið hana hálstaki. Hafi glerbrot verið um allt stofugólf í íbúðinni. Kærði hafi einnig ráðist á vin E, F, sem hafi orðið fyrir fólskulegri árás og meðal annar verið sparkað ítrekað í hann liggjandi, þar á meðal í höfuðið. F hafi flúið af vettvangi á bíl E. E hafi skýrt lögreglu frá því að kærði hafi farið upp í næstu hæð í íbúð barnsmóður sinnar, þar sem hann hafi verið með vinkonu sinni G. Lögregla hafi bankað á hurð þeirrar íbúðar, en hafi mátt já að búið hafi verið brjóta úr vegg við útidyrahurðina og hlutir hafi legið um allt gólf. Kærði hafi tekið á móti lögreglu í anddyri íbúðarinnar í annarlegu ástandi. Við handtöku hafi hann látið ófriðlega og hafi haft í hótunum við lögreglumenn um að beita þá ofbeldi. G hafi skýrt frá því að kærði hafi verið að fara að nauðga henni og hefði það gerst hefði lögregla ekki komið. Hún hafi kveðið hann hafa káfað á sér og reynt að kyssa sig. Hann hafi ítrekað káfað á henni innan klæða á brjóstum en utan klæða á kynfærum. G hafi kvaðst hafa verið verulega hrædd við kærða.
B barnsmóðir kærða hafi skýrt frá því að kærði hafi fyrr þennan dag slegið hana og verið mjög árásargjarn og að hún hafi verið með áverka eftir átökin. Lögreglumenn hafi staðfest að B hafi verið með sjáanlegt glóðarauga í kringum hægra auga sem hún hafi sagt að væri eftir hnefahöggið sem hún hafi fengið frá kærða. Kærði hafi neitað sök í málinu. Rannsókn málsins sé ólokið.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda séu yfirgnæfandi líkur á því að dómfelldi muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinn.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Lagarök
Sakarefni málanna séu talin varða við 106. gr., 217. gr., 2. mgr. 218. gr., 4. mgr. 220. 231. gr., 232. gr., 233. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæða barnaverndar, umferðar- og vopnalaga, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Niðurstaða
Krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu byggir á því að embættið telur að lagaskilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda séu yfirgnæfandi líkur á því að dómfelldi muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinn. Verjandi kærða telur að ekki sé nægjanlega skýr tilvísun til 3. mgr. 97. gr. í málinu til stuðnings kröfu þessari. Aðstoðarsaksóknari vísar til niðurlags í kröfuskjali og telur fullljóst á hverju sé byggt. Dómurinn fellst á það.
Eins og aðstoðarsaksóknari hefur útskýrt við meðferð málsins, telur embættið að ef dómur gengur þar sem gæsluvarðhaldsfangi er dæmdur fyrir refsiverða háttsemi, að þá falli gæsluvarðhald sjálfkrafa niður, burtséð frá því fyrir hvaða brot ákærði hefur verið dæmdur. Því sé skylt að láta gæsluvarðhaldsfanga lausan þegar slíkur dómur gengur sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008. Verjandi kærða tók undir þessa afstöðu.
Dómurinn fellst ekki á þessa lögskýringu. Fyrir liggur að laugardaginn 18. febrúar sl. úrskurðaði þessi sami dómstóll kærða í gæsluvarðhald til 17. mars nk. kl. 16:00 í málinu nr. R-[...]/2017. Sá úrskurður var byggður á nákvæmlega sömu brotum og hér hafa verið tíunduð og byggði á c-lið 1. málsgreinar 95 gr. laga nr. 88/2008 . Dómur í málinu nr. S-[...]/2015 sem kveðinn var upp [...] yfir kærða, þar sem honum er gert að sæta 18 mánaða fangelsi varðar ekki þau brot, sem grunur leikur á um að kærði hafi framið, og voru grundvöllur gæsluvarðhaldsúrskurðar í framangreindu máli nr. R-[...]/2017. Þannig er, að því best verður séð engin skörun á milli þessara brota, þ.e. þeirra sem um ræðir í málinu nr. S-[...]/2015 og í málinu nr. R-[...]/2017.
Í 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, kemur fram meginregla sem orðast svo: „Gæsluvarðhaldi lýkur þegar héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í málinu.“ Dómurinn lítur svo á að ákvæðið eigi einungis við þegar kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna þeirra brota eða þess brots sem um er fjallað í þeim dómi sem þarna er vísað til enda notast við orðið „málinu“ sem vísar ótvírætt til ákveðins máls en ekki brotaferlis viðkomandi að öðru leyti. Ef kærði hefur þannig setið í gæslu vegna óskyldra eða a.m.k. annarra brota, þá hafi slíkur dómur ekki ofangreind áhrif.
Þá stenst að mati dómsins í ljósi sömu sjónarmiða, heldur ekki krafa sóknaraðila um að gæsluvarðhaldinu verði markaður tími til 16. júní 2017, þar sem krafan er studd við c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þótt jafnframt sé vísað til 3. mgr. 97. gr. laganna. Upplýst er að kærði hefur ekki setið í gæsluvarðhaldi undanfarið vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir í málinu nr. S-[...]/2015. Því verður ekki með vísan til 1. mgr. 97. gr. laganna in fine, komist framhjá hámarki ákvæðisins um að gæsluvarðhald megi ekki ákveða lengur en í fjórar vikur í senn, þ.e. ef litið yrði svo á að hægt væri á annað borð að fallast á kröfur sóknaraðila. Slík niðurstaða færi gegn réttindum kærða miðað við málsatvik og gegn ofangreindum lagaákvæðum. Lagaskilyrði myndi enda skorta til að hneppa kærða í gæsluvarðhald ef engum öðrum brotum væri til að dreifa en þeim sem hann var dæmdur fyrir fyrr í dag.
Dómurinn telur því að hafna verði kröfu sóknaraðila eins og hún er framsett í máli þessu. Til álita kæmi að vísa málinu frá þótt slík krafa hafi ekki verið gerð. Telja verður hins vegar þá niðurstöðu að hafna kröfunni einnig tæka.
Undirstrikað er að framangreind niðurstaða felur í sér að dómurinn telur ótvírætt að sú staða er þá uppi við uppkvaðningu úrskurðarins að kærði sætir því enn gæsluvarðhaldi á grundvelli úrskurðar hliðsetts dómara í málinu nr. R-[...]/2017 og muni að óbreyttu þurfa að sæta þeirri frelsisskerðingu allt til 17. mars 2017.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu sóknaraðila lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er hafnað. Kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli úrskurðar dómsins í málinu nr. R-[...]/2017, samkvæmt úrskurðarorði hans.