Hæstiréttur íslands

Mál nr. 567/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara
  • Sératkvæði


Miðvikudaginn 22

 

Miðvikudaginn 22. nóvember 2006.

Nr. 567/2006.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson fulltrúi)

gegn

A

B

C og

D

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

 

Kærumál. Dómarar. Hæfi. Sératkvæði.

Dómur héraðsdóms í máli ákæruvaldsins gegn fjórum mönnum var ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með aðalmeðferð þess vegna nánar tilgreindra annmarka á meðferð þess. Fjórmenningarnir kröfðust þess að dómarinn, sem dæmt hafði í málinu, viki sæti þegar málið var aftur tekið fyrir í héraði. Vísað var til þess að héraðsdómarinn væri ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í málinu, enda færi sönnunarfærsla þar fram að nýju. Var ekki fallist á að fyrri efnisúrlausn hans gerði hann vanhæfan í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðilar skutu máli þessu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem var móttekin í Héraðsdómi Reykjaness 30. október 2006 og barst Hæstarétti 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2006, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari viki sæti í máli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir dómarann að víkja sæti í málinu. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi Hæstaréttar 8. júní 2006 í málinu nr. 28/2006 var dómur héraðsdómarans frá 8. desember 2005 ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með aðalmeðferð þess 3. febrúar 2005 og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Var niðurstaðan reist á þeim annmarka á meðferð málsins að tíu mánuðir liðu frá skýrslutökum og málflutningi þar til dómurinn var kveðinn upp og að skýrslutökur og raunverulegur endurflutningur hefði ekki farið fram þegar málið var endurupptekið um mánuði fyrir dómsuppkvaðningu. Héraðsdómari er ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í þessu máli, enda fer sönnunarfærsla fram að nýju. Verður ekki litið svo á að fyrri efnisúrlausn dómarans geri hann vanhæfan í málinu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

                                                                                                        


Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 8. desember 2005 voru varnaraðilar fundnir sekir um brot gegn 32. gr. og 33. gr. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 og þeim gerðar refsingar samkvæmt 28. gr. laganna. Varnaraðilar áfrýjuðu dómnum og með dómi Hæstaréttar 8. júní 2006 í málinu nr. 28/2006 var héraðsdómur ómerktur og meðferð málsins frá og með aðalmeðferð þess 3. febrúar 2005. Var málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Ástæður fyrir þessari niðurstöðu voru þær að tíu mánuðir höfðu liðið frá skýrslutökum og málflutningi þegar dómur héraðsdóms var kveðinn upp og hafði málið verið endurupptekið um mánuði fyrir dómsuppsögu án þess þó að skýrslutökur og raunverulegur endurflutningur hefðu farið fram. Var talið að skýrslutökur og munnlegur málflutningur hefðu ekki komið að því gagni sem til er ætlast, sbr. 3. mgr. 129. gr. og 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Vegna þessa dráttar á meðferð málsins féllst Hæstiréttur því ekki á með héraðsdómara að hann væri þess umkominn við dómsuppsögu að leggja mat á framburði varnaraðila og vitna.

Í fyrri málslið 6. gr. laga nr. 19/1991 með síðari breytingum segir að dómari skuli víkja sæti í máli samkvæmt þeim lögum ef svo stendur á sem segir í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómum Hæstaréttar 17. desember 1998 í málinu nr. 488/1998, sem birtur er í dómasafni 1998, bls. 4512, og 9. janúar 2004 í máli nr. 491/2003, sem birtur er í dómasafni 2004, bls. 9, voru dómarar taldir vera vanhæfir til að dæma í einkamáli vegna yfirlýsinga þeirra um líklega niðurstöðu máls. Samkvæmt síðari málslið 6. gr. laga nr. 19/1991 skal dómari enn fremur víkja sæti í máli eftir útgáfu ákæru ef hann hefur úrskurðað mann, sem ákærður er í málinu, í gæsluvarðhald samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sjá einnig að sínu leyti dóm Hæstaréttar 3. júní 1996 í máli nr. 151/1996, sem birtur er í dómasafni 1996, bls. 1998. Eitt af skilyrðum þess að menn séu úrskurðaðir í gæsluvarðhald á rannsóknarstigi máls samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laganna, er að dómari telji á grundvelli framkominna gagna að „sterkur grunur“ sé um að kærður maður hafi framið það brot sem er tilefni gæsluvarðhaldskröfu. Eðli málsins samkvæmt eru þá ekki komin fram öll gögn málsins. Í því máli sem hér um ræðir hefur héraðsdómari hins vegar gert gott betur en að lýsa yfir líklegri niðurstöðu máls eða telja einungis sterkan grun vera fram komin fyrir sekt varnaraðila. Hann hefur, eftir að aðilar lýstu gagnaöflun lokið, komist að þeirri niðurstöðu að fengin sé sönnun fyrir sekt varnaraðila sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991. Hann hefur, á grundvelli fyrirmæla í því lagaákvæði, metið hvert það atriði sem varðar sekt varnaraðila og ákvörðun viðurlaga við brotum, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur varnaraðila hafi og vitnisburðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Samkvæmt öllu framanrituðu hefur héraðsdómari í máli þessu tekið slíka efnislega afstöðu til sakarefnis málsins að telja verður að fyrir hendi séu aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa þegar málið kemur til aðalmeðferðar á ný, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Verður því að fallast á kröfu varnaraðila um að héraðsdómara beri að víkja sæti í málinu.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2006.

Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 8. júní sl. var dómur Héraðsdóms Reykjaness frá 8. desember 2005 í máli þessu ómerktur ásamt meðferð málsins í héraði frá og með aðalmeðferð þess 3. febrúar 2005 að telja og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Í þinghaldi  29. fyrra mánaðar krafðist verjandi ákærðu þess að dómari málsins viki sæti. Þeirri kröfu var mótmælt af hálfu ákæruvaldsins.

Munnlegur málflutningur fór fram um kröfuna 5. þessa mánaðar.

Af hálfu ákærðu er krafan um að dómari víki sæti reist á g lið 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, 6. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, um Mannréttindasáttmála Evrópu og 70. gr. Stjórnarskrárinnar. Er á því byggt af hálfu  verjanda ákærðu, að héraðsdómara beri að víkja sæti þar sem hann hafi áður í dómi sínum tekið efnislega afstöðu til ákæruefna málsins og sakfellt ákærðu. Fyrir liggi að aðalmeðferð fari fram að nýju og að hvorki verði leidd önnur vitni en í fyrri aðalmeðferð né ný gögn lögð fram. Megi því gera ráð fyrir því að vitni muni bera á sömu lund og áður. Sé þess því eigi að vænta að ákærðu muni njóta óvilhallrar og réttlátrar málsmeðferðar fari sami dómari með málið og áður.

Af hálfu ákæruvaldsins er kröfunni um að héraðsdómari víki sæti mótmælt með þeim rökum að dómur héraðsdóms hafi verið ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju vegna annmarka á meðferð málsins í héraði sem hafi verið réttarfarslegs eðlis. Í slíkum tilvikum  fari sami dómari og áður dæmdi málið yfirleitt áfram með það. Öðru máli gegni ef mál er ómerkt og því heimvísað með tilvísun til 5. mgr. 159. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þá sé héraðsdómara talið rétt að víkja sæti. Ómerking og heimvísun þessa máls hafi á hinn bóginn ekki verið byggð á framangreindu lagaákvæði.

Að mati dómarans gerir efnisleg afstaða hans til ákæruatriðanna í dóminum frá 8. desember 2005, sem var byggð á framlögðum sakargögnum, lögreglurannsókn og dómsmeðferð málsins, hann ekki vanhæfan til að fara áfram með málið og kveða upp efnisdóm að nýju á grundvelli þeirrar dómsmeðferðar sem fram mun fara fyrir uppkvaðningu nýs dóms. Styðst þessi afstaða dómarans við dómafordæmi, m.a. dóm Hæstaréttar Íslands 11. nóvember 1996 í máli nr. 404/1996, þar sem tekið var fram að ómerking héraðsdóms hefði ekki verið reist á þeim atvikum sem í 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 greinir. Ómerking héraðsdóms í þessu máli var ekki reist á þeim atvikum er í nefndri lagagrein greinir, heldur annmörkum á meðferð málsins í héraði eins og rakið er í dómi Hæstaréttar frá 8. júní sl. Þykir því ekkert fram komið sem þykir til þess fallið að draga óhlutdrægni dómara með réttu í efa. Er kröfu ákærðu um að dómarinn víki sæti í málinu hafnað.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.

 

Úrskurðarorð

Synjað er kröfu ákærðu, að héraðsdómarinn í máli þessu, Finnbogi H. Alexandersson, víki sæti.