Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-276
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kæruheimild
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Skattalög
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 5. nóvember 2021 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar til að kæra frávísun Landsréttar á hluta sakargifta á hendur ákærða með dómi 8. október sama ár í málinu nr. 751/2020: Ákæruvaldið gegn Armando Luis Rodriguez, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 211. gr. og 3. mgr. 212. gr., sbr. 216. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði leggst gegn beiðninni og vísar til þess að þriggja sólarhringa frestur sem ríkissaksóknari hafði samkvæmt 2. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008 til að kæra frávísun til Hæstaréttar hafi verið liðinn þegar kæra barst og engar haldbærar skýringar hafi komið fram um ástæður þess.
3. Með dómi Landsréttar var ákærði sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn lögum nr. 145/1994 um bókhald á grundvelli játningar hans. Jafnframt var hann sakfelldur fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða voru einnig gefin að sök meiri háttar brot gegn lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í dómi Landsréttar kom fram varðandi þær sakargiftir að málarekstur hjá skattyfirvöldum annars vegar og héraðssaksóknara hins vegar hefði ekki verið nægilega samþættur í tíma til að fullnægt væri þeim skilyrðum sem fram hefðu komið í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um skýringu og beitingu 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Landsréttur vísaði þeim sakargiftum því frá héraðsdómi.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar varðandi frávísun sakargifta, á þeim grundvelli að brotið hafi verið gegn 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sé röng. Vísar hann til þess að um tvö aðskilin mál sé að ræða, annars vegar hjá skattyfirvöldum og hins vegar hjá héraðssaksóknara. Þá hafi málsmeðferð þessara tveggja mála ekki verið sú sama. Því telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar um að skort hafi á samþættingu á meðferð þessara tveggja mála eigi ekki við í ljósi nýlegra dóma Mannréttindadómstóls Evrópu, enda hafi álagning álags á skattstofna ákærða verið gerð í þágu áætlunar við venjubundna skattmeðferð en ekki í refsiskyni. Loks vísar hann til þess að úrlausn málsins muni hafa áhrif á meðferð fjölda annarra mála.
5. Samkvæmt 2. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008 skal ákæruvaldið lýsa yfir kæru á grundvelli a-liðar 1. mgr. 211. gr. á dómsathöfn Landsréttar um frávísun innan þriggja sólarhringa frá því það fær vitneskju um hana. Ákæruvaldið nýtti ekki þessa kæruheimild en vísar til 3. mgr. 212. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um að þegar ekki er kært innan fyrrgreinds frests geti sá sem vill kæra samt sem áður leitað eftir leyfi Hæstaréttar til þess. Um beiðnina og meðferð hennar fari þá samkvæmt 216. gr. en í 1. mgr. þeirrar greinar er fjallað um beiðni ríkissaksóknara um leyfi til áfrýjunar á landsréttardómi. Þannig eru lagafyrirmæli skýr um að þegar skilyrði eru til að kæra á grundvelli a-liðar 1. mgr. 211. gr. en það ekki gert innan þriggja sólarhringa er eftir sem áður fjögurra vikna frestur til að beina slíkri umsókn til Hæstaréttar samkvæmt 3. mgr. 217 gr. en þá verða skilyrði sem talin eru í 4. mgr. 215. gr. laganna að vera uppfyllt.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.