Hæstiréttur íslands

Mál nr. 353/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samkeppni
  • Aðild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Kærufrestur
  • Flýtimeðferð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Mánudaginn 16. júní 2014.

Nr. 353/2014.

Wow air ehf.

(Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.)

gegn

Samkeppniseftirlitinu

(enginn)

Isavia ohf. og

(Hlynur Halldórsson hrl.)

Icelandair ehf.

(Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.)

Kærumál. Samkeppni. Aðild. Lögvarðir hagsmunir. Kærufrestur. Flýtimeðferð. Vanreifun Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli W ehf. á hendur S, I ohf. og I ehf. þar sem gerð var krafa um að tveir úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála yrðu felldir úr gildi. W ehf. hafði beint erindi til S og kvartað yfir fyrirkomulagi I ohf. við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli vegna flugs til Bandaríkjanna árið 2014 og lauk S málsmeðferð vegna kvörtunarinnar með ákvörðun, þar sem tilgreindum fyrirmælum var beint til I ohf. þess efnis að W ehf. yrði gert kleift að hefja flug til Bandaríkjanna í samkeppni við aðra flugrekendur. I ohf. og I ehf. skutu hvor fyrir sitt leyti þeirri ákvörðun S til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi ákvörðunina úr gildi með fyrrgreindum tveimur úrskurðum sínum. Með hinum kærða úrskurði var máli W ehf. sem fyrr greinir vísað frá dómi með skírskotun til þess að málatilbúnaður W ehf. uppfyllti ekki áskilnaði 25. gr. og e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fyrir Hæstarétti höfðu I ohf. og I ehf. meðal annars uppi kröfur um frávísun málsins frá héraðsdómi sem studdar voru margvíslegum rökum. Bar I ehf. því meðal annars við að þar sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði fellt ákvörðun S úr gildi væri S ekki réttur aðili til að beina kröfum að um ógildingu úrskurðarins, heldur bæri réttarfarslega nauðsyn til aðildar áfrýjunarnefndarinnar að málinu. Hæstiréttur hafnaði því með vísan til þess að áfrýjunarnefndin gegndi hlutverki úrskurðarnefndar á málskotsstigi innan stjórnsýslunnar og hefði ekki þá lögvörðu hagsmuni af úrlausn málsins sem leitt gætu til aðildar hennar að því. Þá byggðu I ohf. og I ehf. á því að ekki væru uppfyllt skilyrði 18. gr. laga nr. 91/1991 til að stefna þeim saman í máli til ógildingar ákvarðana áfrýjunarnefndar samkeppnismála, né heldur skilyrði 19. gr. sömu laga til að sækja þá saman í málinu, auk þess sem W ehf. hefði ekki verið aðili að málunum fyrir áfrýjunarnefndinni og gæti því ekki átt aðild að dómsmáli til ógildingar úrskurða nefndarinnar. Hæstiréttur vísaði til þess að í dómaframkvæmd réttarins hefði verið litið svo á að óhjákvæmilegt væri að beina kröfu um ógildingu úrskurðar æðra stjórnvalds að þeim sem átt hefðu aðild að máli á málskotsstigi, enda ættu þeir verulegra, einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess. Þar sem svo hagaði til um I ohf. og I ehf. yrði málinu ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að þeim væri stefnt saman til að þola dóm í málinu. Þá taldi rétturinn einnig að virtri dómaframkvæmd sinni að ekki væri fortakslaust skilyrði samkvæmt samkeppnislögum nr. 44/2005 að sá, sem höfðaði mál til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar, þyrfti að hafa átt aðild að málinu fyrir henni. Loks hélt I ohf. því fram að málatilbúnaður W ehf. væri í andstöðu við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, en Hæstiréttur hafnaði því með skírskotun til þess að þótt lýsing málsatvika í stefnu væri ekki að öllu leyti svo skýr sem skyldi væri samhengi þeirra við málsástæður W ehf. eigi að síður nægjanlega ljóst og fullnægði áskilnaði laga nr. 91/1991. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 13. maí 2014 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2014 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Isavia ohf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar „um annað en málskostnað“. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Icelandair ehf. krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Samkeppniseftirlitið hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Þar sem varnaraðilinn Isavia ohf. hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti kemur krafa hans sem lýtur að málskostnaðarákvörðun héraðsdóms ekki til álita fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði beindi sóknaraðili erindi til varnaraðilans Samkeppniseftirlitsins 14. mars 2013 þar sem kvartað var yfir fyrirkomulagi varnaraðilans Isavia ohf. við úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli vegna fyrirhugaðs áætlunarflugs sóknaraðila til Bandaríkjanna árið 2014. Varnaraðilinn Samkeppniseftirlitið lauk málsmeðferð vegna kvörtunarinnar með ákvörðun 1. nóvember 2013 í máli nr. 25/2013 þar sem tilteknum fyrirmælum, sem nánar er gerð grein fyrir í hinum kærða úrskurði, var beint til varnaraðilans Isavia ohf. Með kæru 28. nóvember 2013 skaut sá síðastnefndi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Varnaraðilinn Icelandair ehf. skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins fyrir sitt leyti til áfrýjunarnefndar með kæru 29. sama mánaðar og krafðist þess einnig að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála krafðist varnaraðilinn Samkeppniseftirlitið þess í báðum málunum að fyrrgreind ákvörðun hans yrði staðfest og synjað kröfu um frestun réttaráhrifa hennar.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála tók 22. janúar 2014 bráðabirgðaákvörðun um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá 1. nóvember 2013 á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni. Með úrskurðum áfrýjunarnefndar 27. febrúar 2014 í málum nr. 10/2013 og 11/2013 í tilefni af framangreindum kærum var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins felld úr gildi. Forsenda þeirra ákvarðana var sú að málinu yrði ekki beint að Isavia ohf., þar sem félagið brysti heimild til þess að fylgja eftir þeim fyrirmælum sem mælt væri fyrir um í hinni kærðu ákvörðun, og bæri því að fella hana úr gildi.

II

Meðal gagna málsins er frétt af vefsíðu Morgunblaðsins, mbl.is, 5. febrúar 2014, þar sem fram kom að sóknaraðili hefði „ákveðið að hætta við fyrirhugað flug til Norður-Ameríku þar sem félagið hefur ekki enn fengið úthlutaða nauðsynlega brottfarartíma í Keflavík.“ Haft var eftir forstjóra félagsins í fréttinni að það væri „grátlegt að neyðast til þess að fresta öllum stækkunaráformum okkar þar sem Isavia hefur kosið að fara ekki eftir skýrum tilmælum Samkeppniseftirlitsins sem hefur unnið ötullega að málinu í lengri tíma og komist að mjög skýrri og sanngjarnri niðurstöðu. Það er einnig með ólíkindum að áfrýjunarnefnd samkeppnismála skuli nota það sem afsökun fyrir því að fresta þeirri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að það muni koma Icelandair illa ef þeir missa brottfarartíma nú fyrir sumarið.“ Frétt sama efnis birtist í Morgunblaðinu degi síðar og kom þar fram að hún væri byggð á tilkynningu frá sóknaraðila.

 Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar segir að fái hann úthlutað hinum umdeildu tímum fyrir sumarið 2014, eða áður en því lýkur, muni hann nýta þá. Þá beri að líta til þess að samkvæmt svokallaðri hefðarreglu sem gildi um úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli haldi sóknaraðili þeim tímum sem hann fái úthlutað til frambúðar. Þannig hafi sóknaraðili lögvarða hagsmuni af þeirri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að hann eigi að fá úthlutað tilteknum afgreiðslutímum árið 2014 þar sem hann myndi með því öðlast hefðarrétt sumarið 2015. Í greinargerð varnaraðilans Icelandair ehf. til Hæstaréttar kemur fram að því hafi sérstaklega verið lýst yfir af hálfu sóknaraðila við munnlegan flutning málsins fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála að ekki yrði flogið til Bandaríkjanna sumarið 2014 óháð afdrifum þessa máls, þar sem sóknaraðili gæti ekki beðið úrlausnar málsins því hann þyrfti að kveða af eða á um flugvélasamning sem nauðsynlegur væri fyrir flugið. Hins vegar stefni sóknaraðili enn að því að hefja áætlunarflug til Bandaríkjanna sumarið 2015.   

III

Sóknaraðili höfðaði mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 20. mars 2014 á hendur varnaraðilum og krefst þess að fyrrgreindir úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 27. febrúar 2014 í málum nr. 10/2013 og 11/2013 verði felldir úr gildi. Varnaraðilinn Samkeppniseftirlitið krefst sýknu af kröfu sóknaraðila. Varnaraðilarnir Isavia ohf. og Icelandair ehf. krefjast þess hvor fyrir sitt leyti, aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara sýknu af kröfu sóknaraðila. Hinn 18. mars 2014 var ákveðið að mál þetta skyldi sæta flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991.

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði reisir varnaraðilinn Isavia ohf. kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi í fyrsta lagi á því að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, í öðru lagi að skilyrðum samaðildar samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 sé ekki fullnægt og í þriðja lagi að málatilbúnaður sóknaraðila sé svo óljós og vanreifaður að hann standist ekki kröfur 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Varnaraðilinn Icelandair ehf. reisir kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi á sömu fyrstu tveimur atriðunum og varnaraðilinn Isavia ohf. og í þriðja lagi á því að réttarfarslega nauðsyn beri til þess að áfrýjunarnefnd samkeppnismála eigi aðild að málinu þar sem nefndin hafi fellt úrskurð Samkeppniseftirlitsins úr gildi. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá héraðsdómi.

IV

Aðalkrafa varnaraðilans Icelandair ehf. um að málinu verði vísað frá Hæstarétti er studd þeim rökum að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst Héraðsdómi Reykjavíkur. Er í því sambandi vísað til þess að hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp föstudaginn 9. maí 2014 en ódagsett kæra sóknaraðila sé stimpluð um móttöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. sama mánaðar. Málið sé að kröfu sóknaraðila rekið eftir reglum XIX. kafla laga nr. 91/1991 og sé kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 124. gr. laganna því þrír sólarhringar. Þar sem sá frestur hafi verið liðinn þegar kæra barst héraðsdómi verði að vísa málinu frá Hæstarétti.

Í 4. mgr. 124. gr. laga nr. 91/1991 segir að sé úrskurður um atriði sem varðar rekstur máls kærður til æðra dóms skuli sá frestur sem um getur í 1. mgr. 149. gr. laganna vera þrír sólarhringar. Í síðastgreindu lagaákvæði segir að aðilar geti sent Hæstarétti greinargerðir sínar og ný skjöl innan viku frá því málsgögnin berast honum. Að þeim tíma liðnum getur Hæstiréttur lagt dóm á kæruefnið, en jafnan skal þó athuga skjöl sem berast síðar frá aðilum svo framarlega sem málinu er þá ekki lokið. Samkvæmt þessu er í 4. mgr. 124. gr. laga nr. 91/1991 kveðið á um skemmri tíma handa aðilum máls, sem sætir flýtimeðferð, til að koma fram athugasemdum og öðrum gögnum í kærumáli fyrir Hæstarétti en annars er kveðið á um í 1. mgr. 149. gr. laganna, eða þriggja sólarhringa frest í stað einnar viku. Ákvæði þetta mælir á hinn bóginn ekki fyrir um skemmri frest til að kæra úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar en kveðið er á um í 144. gr. laga nr. 91/1991. Aðalkrafa varnaraðilans Icelandair ehf. um frávísun málsins frá Hæstarétti á samkvæmt þessu ekki við rök að styðjast og verður henni því hafnað.

V

Varakrafa varnaraðilans Icelandair ehf. um frávísun málsins frá héraðsdómi er  eins og áður segir meðal annars á því reist að þar sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi fellt ákvörðun varnaraðilans Samkeppniseftirlitsins úr gildi beri réttarfarslega nauðsyn til aðildar nefndarinnar að málinu.

Samkeppniseftirlitið var á málskotsstigi gagnaðili Isavia ohf. og Icelandair ehf. í þeim málum sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi úrskurði á 27. febrúar 2014. Er því þörf á aðild Samkeppniseftirlitsins, Isavia ohf. og Icelandair ehf. að dómsmáli um gildi þess úrskurðar. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála gegnir á hinn bóginn hlutverki úrskurðarnefndar á málskotsstigi innan stjórnsýslunnar og hefur ekki þá lögvörðu hagsmuni af úrlausn þessa máls sem leitt geta til aðildar hennar að því. Er heldur ekki nauðsyn á að gefa nefndinni kost á að láta til sín taka dómsmál sem höfðað er til ógildingar á úrskurðum hennar, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 17. febrúar 1997 í máli nr. 63/1997 sem birtur var í dómasafni réttarins það ár á bls. 643. Er samkvæmt þessu staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að málinu verði ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að kröfum í málinu sé ekki beint að áfrýjunarnefndinni.

VI

Krafa varnaraðilanna Isavia ohf. og Icelandair ehf. um frávísun málsins frá héraðsdómi er sem fyrr segir meðal annars á því reist að ekki sé fullnægt skilyrðum 18. gr. laga nr. 91/1991 til að stefna þeim saman í máli til ógildingar þeirra ákvarðana áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem um ræði í málinu. Þá heldur varnaraðilinn Isavia ohf. því einnig fram að ekki sé fullnægt skilyrðum 19. gr. sömu laga til að sækja varnaraðila saman í málinu. Þessir varnaraðilar áttu aðild að málinu á málskotsstigi fyrir áfrýjunarnefndinni í tilefni af kvörtun sóknaraðila til Samkeppniseftirlitsins. Í dómum Hæstaréttar hefur verið litið svo á að óhjákvæmilegt sé að beina kröfu um ógildingu úrskurðar æðra stjórnvalds að þeim sem áttu aðild að málinu á málskotsstigi, enda hafi þeir átt verulegra, einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn stjórnsýslumálsins, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 12. júní 2002 í máli nr. 231/2002, sem birtur var í dómasafni réttarins það ár á bls. 2241, og 25. október 2006 í máli nr. 539/2006. Þar sem svo hagar til um þessa varnaraðila verður málinu ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að þeim er stefnt saman til að þola dóm í málinu.

VII

Varnaraðilarnir Isavia ohf. og Icelandair ehf. reisa kröfur sínar um frávísun málsins frá héraðsdómi einnig á því að þar sem sóknaraðili hafi ekki verið aðili fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála að þeim málum sem hér um ræði geti hann ekki átt aðild að dómsmáli sem höfðað sé til ógildingar á úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar.

Samkvæmt 40. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 verður ákvörðun Samkeppniseftirlitsins ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir. Í 41. gr. sömu laga kemur fram að vilji aðili, þar með talið Samkeppniseftirlitið, ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar geti hann höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum innan þeirra tímamarka sem greinir í ákvæðinu. Í dómaframkvæmd hefur 41. gr. samkeppnislaga ekki verið túlkuð svo að það sé fortakslaust skilyrði að sá sem höfðar mál til ógildingar á úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar þurfi að hafa átt aðild að máli fyrir henni, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 29. apríl 2004 í máli nr. 465/2003 og 23. febrúar 2012 í máli nr. 72/2011. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 1. nóvember 2013 í máli nr. 25/2013 var eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði tekin í framhaldi af kvörtun sóknaraðila yfir úthlutun varnaraðilans Isavia ohf. á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Er samkvæmt þessu fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að máli þessu verði ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að sóknaraðili hafi ekki verið aðili stjórnsýslumálsins fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

Kemur þá til úrlausnar hvort atvik séu með þeim hætti sem varnaraðilarnir Isavia ohf. og Icelandair ehf. halda fram að sóknaraðili hafi ekki lengur af því lögvarða hagsmuni að fá úrlausn dómstóla um kröfu sína þar sem hann hafi ítrekað lýst því yfir að hann muni ekki hefja áætlunarflug til Bandaríkjanna sumarið 2014 óháð afdrifum þessa máls. Hér að framan er rakið það sem fram kom í viðtali við forstjóra sóknaraðila á vefsíðu Morgunblaðsins í febrúar 2014, þess efnis að sóknaraðili hefði neyðst til þess að hætta við fyrirhugað áætlunarflug til Bandaríkjanna þar sem hann hefði enn ekki fengið úthlutað nauðsynlegum brottfarartíma í Keflavík. Þá hefur einnig verið getið þeirrar staðhæfingar sóknaraðila sem fram kemur í kæru hans til Hæstaréttar að úthlutaður afgreiðslutími vegna ársins 2014 myndi skapa honum svokallaðan hefðarrétt ári síðar við úthlutun á afgreiðslutíma vegna þess árs. Þegar þetta er virt er fallist á með sóknaraðila að hann hafi enn lögvarða hagsmuni af að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort ákvarðanir áfrýjunarnefndar samkeppnismála hafi verið reistar á réttum lagagrundvelli. Samkvæmt þessu standa hvorki ákvæði 25. gr. laga nr. 91/1991 né grunnreglur einkamálaréttarfars um lögvarða hagsmuni því í vegi að efnisdómur verði lagður á kröfuna sem sóknaraðili hefur uppi í málinu.

VIII

Varnaraðilinn Isavia ohf. heldur því loks fram að málatilbúnaður sóknaraðila sé andstæður ákvæðum e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og beri því að vísa málinu frá héraðsdómi. Í stefnu málsins í héraði krefst sóknaraðili þess að fyrrgreindir úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 27. febrúar 2014 í málum nr. 10/2013 og 11/2013 verði felldir úr gildi. Í stefnunni er gerð grein fyrir þeim hagsmunum sem sóknaraðili telur sig hafa af því að krafa hans um ógildingu úrskurðanna nái fram að ganga. Það er meginmálsástæða sóknaraðila að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar, um að varnaraðilann Isavia ohf. skorti heimild til þess að fylgja eftir þeim fyrirmælum sem mælt var fyrir um í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli, sé byggð á rangri lagatúlkun. Þannig standi efnislega rangir úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála í vegi fyrir því að sóknaraðili geti hafið áætlunarflug til Bandaríkjanna í samkeppni við varnaraðilann Icelandair ehf., en úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli sé á hendi varnaraðilans Isavia ohf.

Samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Þótt lýsing málsatvika í stefnu sé ekki að öllu leyti svo skýr og markviss sem skyldi er samhengi þeirra við málsástæður sóknaraðila eigi að síður nægjanlega ljóst og fullnægir málatilbúnaður sóknaraðila því áskilnaði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Eftir framangreindum úrslitum verða varnaraðilarnir Isavia ohf. og Icelandair ehf. og hvor um sig dæmdir til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðilar, Isavia ohf. og Icelandair ehf., greiði hvor um sig sóknaraðila, Wow air ehf. 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2014.

I

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 23. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 20. mars 2014.

Stefnandi er Wow air ehf.

Stefndu eru Samkeppniseftirlitið, Isavia ohf. og Icelandair ehf.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála 27. febrúar 2014 í málum nr. 10/2013, Isavia ohf. gegn Samkeppniseftirlitinu, og í máli nr. 11/2013, Icelandair ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu, verði felldir úr gildi. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.

                Stefndi Samkeppniseftirlitið krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða sér málskostnað.

Stefndi Isavia ohf. krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Stefndi Icelandair ehf. krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda auk álags á málskostnað samkvæmt c-lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi krefst þess í þessum þætti málsins að frávísunarkröfum stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. verði hafnað og að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar auk álags á málskostnað.

Stefndi Samkeppniseftirlitið hafði ekki uppi kröfu í þessum þætti málsins.

Málið er rekið sem flýtimeðferðarmál samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með úrskurði varadómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars sl. var ákveðið að allir dómarar við dómstólinn skyldu víkja sæti þar sem dómstjóri dómstólsins var skipaður ad hoc sem formaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála vegna meðferðar málsins. Var dómari málsins í kjölfarið skipaður setudómari.

II

Málavextir

Samkvæmt stefnu og framlögðum gögnum sendi stefnandi Samkeppniseftirlitinu erindi 14. mars 2013, sbr. mál eftirlitsins nr. 25/2013, þar sem kvartað var yfir fyrirkomulagi stefnda Isavia ohf. á úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Í ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins vegna málsins frá 1. nóvember 2013 kemur fram að stefnandi hafi ætlað að bjóða upp á áætlunarflug til Bandaríkjanna árið 2014 en forsenda þess hafi verið sú að stefnandi fengi úthlutað nauðsynlegum afgreiðslutímum til lendingar og brottfarar frá Keflavíkurflugvelli. Þar segir einnig að í erindi stefnanda til stefnda Samkeppniseftirlitsins komi fram að úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli sé á hendi stefnda Isavia ohf. og byggist á reglugerð nr. 1050/2008. Núna séu það einkum tveir aðilar sem keppist um að ná sem bestum afgreiðslutímum, þ.e. stefnandi og stefndi Icelandair ehf., og sé það mat stefnanda að stefndi Icelandair ehf. sé markaðsráðandi á markaði fyrir áætlunarflug til og frá Íslandi. Telji hann að úthlutun á afgreiðslutímum sé helsta aðgangshindrunin inn á íslenskan flugmarkað og sé í því sambandi vísað til skýrslna Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008 og nr. 2/2011.

Í erindinu er vísað til a-liðar 2. gr. reglugerðar nr. 1050/2008 þar sem fram kemur að afgreiðslutími sé leyfi sem samræmingarstjóri veiti í samræmi við reglugerðina til að nota fyrirliggjandi aðstöðu flugvallar til að starfrækja flugþjónustu á flugvelli með skömmtuðum afgreiðslutíma, á tilgreindum tíma og degi, til lendingar og flugtaks. Úthlutun á afgreiðslutíma fari í gegnum Keflavik Slot Coordination Committee (KSCC). Þar sitji allir rekstraraðilar á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt „Terms of reference“ fyrir KSCC séu greidd atkvæði um afgreiðslutímana í KSCC. Úthlutun fari fram tvisvar á ári á fundum í KSCC í mars/apríl og september/október. Þá segir í erindinu að úthlutun afgreiðslutíma sé þannig að stefndi Icelandair ehf. fái bestu og eftirsóttustu afgreiðslutímana. Önnur félög, þá einkum stefnandi, mæti afgangi. Stefnandi hafi ekki það atkvæðavald á fundum KSCC að félagið geti fengið betri afgreiðslutíma. Fyrirkomulag við úthlutun komi í veg fyrir að stefnandi geti á jafnréttisgrundvelli fengið afgreiðslutíma þannig að félagið sé samkeppnisfært við aðra aðila á markaði, einkum stefnda Icelandair ehf. Þetta raski verulega samkeppni í flugi til og frá Íslandi. Því sé ljóst að þó að umrætt ferli kunni að vera í samræmi við reglugerðir og/eða venjur þá framkalli það ólögmæta niðurstöðu sem hafi veruleg og neikvæð samkeppnisleg áhrif.

Stefndi Samkeppniseftirlitið lauk málsmeðferð vegna kvörtunarinnar með eftirfarandi ákvörðun, sem eins og að framan er rakið er dagsett 1. nóvember 2013:

                „Fyrirkomulag samræmingarstjóra við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli hefur skaðleg áhrif á samkeppni og fer gegn markmiði samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 1. gr. laganna. Með heimild í 16. gr. samkeppnislaga beinir Samkeppniseftirlitið eftirfarandi fyrirmælum til Isavia ohf. sem fer með framkvæmdastjórn Keflavíkurflugvallar:

                Við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir sumaráætlun 2014 skal WOW Air ehf. njóta forgangs þannig að félagið geti með samkeppnishæfum hætti hafið flug síðdegis samkvæmt áætluninni á milli Keflavíkur og Bandaríkja Norður-Ameríku og um leið tengt síðdegisflugið við morgunflug félagsins til áfangastaða í Evrópu.

                Forgangurinn skal fela í sér að WOW Air ehf. eða sá flugrekandi sem annast flug fyrir félagið fái afgreiðslutíma fyrir a.m.k. tvær brottfarir að morgni alla daga vikunnar á milli kl. 7:00 og 8:00 fyrir flug til áfangastaða í Evrópu og tvo brottfarartíma síðdegis á milli kl. 16:00 og 17:30 fyrir flug til áfangastaða í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

                Isavia ohf. skal einnig gera ráðstafanir til þess að komutímum á Keflavíkurflugvelli verði úthlutað fyrir þessi flug. Þessir afgreiðslutímar og brottfarir og komur þurfa að geta þjónað flugi til áfangastaða utan Schengen svæðisins. Afgreiðslutímarnir skulu vera til viðbótar við aðra afgreiðslutíma sem WOW Air ehf. eða flugrekandi sem annast hefur flug fyrir félagið hefur áður fengið úthlutað innan umræddra tímamarka.

                Isavia ohf. skal útbúa leiðbeiningar fyrir samræmingarstjóra Keflavíkurflugvallar þar sem fram kemur með skýrum hætti að hann skuli hafa samkeppnissjónarmið að leiðarljósi við úthlutun afgreiðslutíma. Skulu leiðbeiningarnar m.a. fela það í sér að ef tvær eða fleiri umsóknir berast um sömu afgreiðslutíma á tiltekinni áætlunarflugleið skuli umsókn þess félags þar sem hlutdeild miðað við fjölda farþega er lægri almennt njóta forgangs.

                Isavia ohf. skal innan tveggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar þessarar upplýsa Samkeppniseftirlitið um framkvæmd á þessum fyrirmælum.“

Með kæru dagsettri 28. nóvember 2013 kærði stefndi Isavia ohf. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Stefndi Icelandair ehf. kærði einnig ákvörðunina með kæru dagsettri 29. nóvember 2013. Báðir stefndu gerðu þá kröfu fyrir nefndinni að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi.

Þann 22. janúar 2014 tók áfrýjunarnefndin bráðabirgðaákvörðun um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá 1. nóvember 2013 í máli nr. 25/2013 á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni.

Í stefnu er það rakið að óskað hafi verið eftir því af hálfu stefnanda við áfrýjunarnefnd samkeppnismála að stefnandi fengi aðild að málunum, að honum yrði afhent öll gögn málsins, og hann fengi tækifæri til að koma þar að andmælum og taka fullan þátt í munnlegum málflutningi. Því var hafnað og tiltekið að stefnandi fengi aðeins takmarkaða aðkomu að málinu. Stefnandi hafi t.d. engin fylgiskjöl fengið afhent eða önnur framlögð gögn en þau sem lögð séu fram í máli þessu. Þannig hafi stefnandi ekki fengið afhent þau gögn sem niðurstaða málsins byggist á og gat því ekki mótmælt þeim eða tjáð sig um efni þeirra eða þýðingu í málinu. Hvað varðar munnlegan flutning málsins þá fékk stefnandi aðeins að ávarpa nefndina í 15 mínútur í upphafi málflutningsins en var svo gert að yfirgefa salinn.

Með úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar vegna framangreindra kæra, sbr. mál nefndarinnar nr. 10 og 11/2013, var ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins í máli nr. 25/2013 felld úr gildi. Forsendurnar voru þær að málinu yrði ekki beint að stefnda Isavia ohf. þar sem félagið brysti heimild til að fylgja eftir þeim fyrirmælum sem mælt er fyrir um í ákvörðunarorðum hinnar kæru ákvörðunar.

III

Málsástæður og lagarök stefnanda

Í stefnu er vísað til þess að aðild stefndu að málinu byggist á dómvenju Hæstaréttar í málum þar sem krafist sé ógildingar á úrskurði sjálfstæðrar kærunefndar innan stjórnsýslunnar. Samkvæmt dómvenjunni teljist áfrýjunarnefnd samkeppnismála ekki hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn dómsmálsins, þótt krafist sé ógildingar á úrskurði nefndarinnar. Er nefndinni því ekki stefnt í máli þessu heldur eingöngu þeim sem nutu aðildar að málunum hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála, þ.e. Samkeppniseftirlitinu, Isavia ohf. og Icelandair ehf.

Stefnandi byggir á því að hann hafi beina og verulega hagsmuni af því að fá úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar hnekkt. Þrátt fyrir að stefnanda hafi ekki verið veitt aðild að málinu hjá nefndinni uppfylli félagið engu að síður aðildarskilyrði einkamálaréttarfars. Ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins, sem borin var undir áfrýjunarnefndina, fjalli að verulegu leyti um stefnanda og möguleika stefnanda til þess að veita stefnda Icelandair ehf. samkeppni. Endurspeglist það kannski best í því að í ákvörðunarorðum stefnda Samkeppniseftirlitsins er þrisvar sinnum vísað til stefnanda. Endanleg niðurstaða málsins varði þannig hagsmuni stefnanda, engu síður en stefnda Icelandair ehf. Umræddir úrskurðir standi í vegi fyrir því að stefnandi geti hafið farþegaflug milli Keflavíkurflugvallar og áfangastaða í Norður-Ameríku. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar eigi allir rétt á að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur. Stefnandi eigi rétt á því að fá úrlausn um þá hagsmuni hans sem fólust í ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins en voru felldir úr gildi með fyrrnefndum úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar.

Stefnandi telur nauðsynlegt að beita samaðild, samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til þess að stefna aðilum stjórnsýslumáls. Þá séu auk þess skilyrði fyrir samlagsaðild, samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991, enda lutu bæði málin að sömu atvikum og sömu aðstöðu þar sem báðir úrskurðirnir felldu úr gildi sömu ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins nr. 25/2013 frá 1. nóvember 2013. Úrskurðirnir hafi þannig sömu rót. Má raunar segja að samaðild sé nauðsynleg þar sem rökstuðningur og úrskurðarorð áfrýjunarnefndarinnar í málum nr. 10/2013 og nr. 11/2013 sé sá sami. Ekki sé hægt að reka tvö dómsmál um sama ágreiningsefnið.

Stefnandi byggir á því að niðurstaða nefndarinnar um „sjálfstætt stjórnvald“ sé röng. Hann telur úrskurðina ólögmæta og tilgangur málsóknar þessarar sé að fá úrskurðina fellda úr gildi. Í úrskurðunum séu rakin þau laga- og reglugerðarákvæði sem áfrýjunarnefndin telur að eigi við og skýri stöðu samræmingarstjórans. Í 2. kafla úrskurðarins segir að í umfjöllun um aðild „skiptir meginmáli reglugerð um úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum nr. 1050/2008 [...]“ og að með þeirri reglugerð hafi verið innleiddar í íslenskan rétt sameiginlegar EES-reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum. Áfrýjunarnefndin reifar svo ákvæði reglugerðar nr. 1050/2008 í löngu máli og leggur mikla áherslu á að reglugerðin leggi mikið upp úr sjálfstæði samræmingarstjóra. Þá reifar áfrýjunarnefndin einnig samning milli forvera stefnda Isavia ohf. og danska fyrirtækisins Airport Coordination Denmark A/S (ACD) frá 9. nóvember 2005 þar sem fram kemur að „ACD/Frank Holton, Managing Director of ACD“ sé skipaður samræmingarstjóri Keflavíkurflugvallar. Þá segir áfrýjunarnefndin að tekið sé fram í samningnum að starf samræmingarstjóra skuli byggjast á reglugerð ráðsins nr. 95/93 og reglugerð 793/2004. Í lok niðurstöðukafla dregur áfrýjunarnefndin svo ályktanir af þeim laga-, reglugerðar- og samningsákvæðum sem rakin voru. Síðan rekur stefnandi tvo síðustu kafla úrskurðarins, sem eru eftirfarandi:

„Hvorki í loftferðalögum nr. 60/1998, lögum um starfsemi Isavia ohf. nr. 76/2008, reglugerð nr. 1050/2008, né í áðurnefndum samningum um skipun samræmingarstjóra, er kveðið skýrt á um stöðu samræmingarstjóra innan skipulags flugvallarstarfseminnar. Þannig verður ekki séð að staða hans heyri undir framkvæmdastjórn flugvallar, samræmingarnefnd eða nokkurn annan aðila. Hvergi er gert ráð fyrir því að þessir aðilar hafi boðvald yfir honum eða geti á nokkurn hátt haft afskipti af starfi hans. Ekki þarf hann heldur að standa þeim skil á verkefnum sínum. Hann ber sem áður greinir einn ábyrgð á úthlutun afgreiðslutíma, en skylt er honum að úthluta þeim í samræmi við ákvæði gildandi reglugerðar. Um bótaábyrgð vegna starfa hans samkvæmt reglugerðinni fer eftir 10. gr. hennar. Honum ber þó skylda til að senda viðeigandi aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og Eftirlitsstofnun EFTA ársskýrslu, ef þess er óskað.“

[...]

„Að dómi áfrýjunarnefndar bendir ofanritað ótvírætt til þess að samræmingarstjóri fari með sjálfstætt stjórnsýsluvald samkvæmt íslenskum lögum á því sviði sem lýst hefur verið og að Isavia ohf. bresti heimild til hvers kyns afskipta af úthlutun hans á afgreiðslutímum. Þótt 4. gr. laga nr. 76/2008 kveði á um að tilgangur Isavia ohf. sé m.a. að annast „starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og aðra starfsemi“, svo og að hlutverk framkvæmdastjórnar flugvallar sé m.a. „að samræma og stjórna starfsemi flugrekenda sem starfa á flugvellinum“, sbr. j-liður 2. gr. reglugerðar nr. 1050/2008, getur áfrýjunarnefndin af sömu ástæðu ekki fallist á að þau ákvæði verði skýrð með þeim hætti að í þeim felist að Isavia ohf. beri að einhverju leyti ábyrgð á starfi samræmingarstjóra við úthlutun afgreiðslutíma og geti í krafti þess eða stjórnunarheimilda beint fyrirmælum til hans um færslu á afgreiðslutímum milli flugrekenda. Slík niðurstaða væri í fullu ósamræmi við fyrrgreind ákvæði reglugerðar nr. 1050/2008 og þau ákvæði evrópskra reglugerða sem hér hafa verið rakin. Tilvísun Samkeppniseftirlitsins til 10. gr. reglugerðarinnar breytir engu í þessu efni, enda segir þar ekkert um að Isavia ohf. sé falið að hafa milligöngu um færslu afgreiðslutíma í kjölfar afskipta opinberra yfirvalda á grundvelli samkeppnisákvæða. Engu breytir heldur þótt Isavia ohf. sé falið það hlutverk samkvæmt fyrrnefndri reglugerð að sjá til þess að samræmingarstjóri flugvallarins verði skipaður og því félagi beri að greiða honum þóknun fyrir starf hans. Hafi ætlunin verið að fela Isavia ohf. slíkt hlutverk sem Samkeppniseftirlitið telur að félagið hafi í máli þessu, og með því heimild til beinna afskipta af úthlutun samræmingarstjóra á afgreiðslutímum, telur nefndin að löggjafanum, og ráðherra með setningu reglugerðar nr. 1050/2008, hefði borið að taka það skýrlega fram.“

Stefnandi telur að áfrýjunarnefndin byggi á því að „sjálfstætt stjórnsýsluvald“ hafi verið sett á fót með reglugerðum og hafi sérstaklega tekið fram að ekkert ákvæði laga mæli fyrir um þessa stjórnsýslulegu stöðu.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að framangreind niðurstaða nefndarinnar sé í andstöðu við meginreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Meginreglan sé sú að sjálfstæðu stjórnvaldi verði einungis komið á fót með lögum frá Alþingi. Reglugerð ráðherra eða annarra stjórnvalda sé ekki nægjanleg stoð til að koma á fót slíku stjórnvaldi. Þá sé í 14. gr. stjórnarskrárinnar mælt svo fyrir að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Þetta ákvæði sé m.a. byggt á þeirri forsendu að ráðherrar fari með yfirstjórn þeirra stjórnarmálefna er undir þá heyra. Í framkvæmd hafi þó löggjafanum verið talið heimilt að ákveða með lögum að tiltekin starfsemi, t.d. stofnun eða stjórnsýslunefnd, skuli vera sjálfstæð og þar með undanskilin yfirstjórn ráðherra sem annars mundi undir hann heyra. Þessar valdheimildir löggjafans helgist af stjórnskipunarvenju og feli í sér frávik frá framangreindri meginreglu um að ráðherrar fari með yfirstjórn stjórnarmálefna. Um undantekningu sé að ræða sem beri að túlka þröngt. Heimildir til að setja á stofn sjálfstætt stjórnvald séu þannig bundnar við löggjafann einan og ráðherra eða önnur stjórnvöld geti ekki ákveðið með reglugerð eða samningum að stjórnvald sé sjálfstætt. Ef lög kveða ekki alveg skýrt á um sjálfstæði ríkisstofnunar verði stjórnvald ekki talið sjálfstætt. Stefnandi vísar til þess að ákvörðun um úthlutun afgreiðslutíma sé stjórnvaldsákvörðun. Þegar löggjafinn hafi falið tilteknu stjórnvaldi að taka stjórnvaldsákvörðun verði það vald ekki falið einkaréttarlegum aðila nema fyrir liggi skýr lagaheimild þess efnis.

Stefnandi bendir á að stefndi Isavia ohf. sé handhafi valds til úthlutunar afgreiðslutíma þar sem félagið hafi það hlutverk samkvæmt 4. gr. laga nr. 76/2008. Það vald verði ekki með bindandi hætti tekið af félaginu og félagið geti ekki leyst sig undan þeirri skyldu með reglugerð eða samningi. Öðrum aðila verði einungis fengið þetta vald með lögum frá Alþingi. Stefndi Isavia ohf. hafi engu að síður heimild til þess að leita til utanaðkomandi aðila um sérfræðiaðstoð við töku stjórnvaldsákvörðunar. Slíkt leysi þó ekki handhafa veitingarvalds undan þeim skyldum sem á honum hvíla við meðferð máls. Það leiði af lögbundnu hlutverki veitingarvaldshafans og meginreglu stjórnsýsluréttar um að stjórnvaldinu sjálfu beri að taka þá ákvörðun sem því hafi verið falið lögum samkvæmt. Isavia ohf. geti þannig ekki með bindandi hætti komið ákvörðuninni af sínum herðum yfir á Frank Holton. Hin endanlega formlega ákvörðun í málinu sem beint er út á við til flugfélaga sé tekin af Isavia ohf.

Auk framangreindra raka bendir stefnandi á að standi niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála þá fari „ACD/Frank Holton, Managing Director of ACD“ með hluta af íslensku framkvæmdarvaldi. Hann sé þá orðinn sjálfstætt stjórnvald sem þurfi ekki að lúta neinu æðra stjórnvaldi í íslensku stjórnkerfi. Sé þetta rétt hafi hluti af fullveldi Íslands verið framselt til dansks einkafyrirtækis og einstaklings án lagaheimildar. Slíkt fái ekki staðist. Þá bendir hann einnig á að jafnvel þótt niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar um aðild væri rétt þá ætti það ekki að leiða til þess að nefndin ógilti þegar af þeirri ástæðu ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins án nokkurrar efnislegrar umfjöllunar.

Þá vísar stefnandi til þess að áfrýjunarnefnd samkeppnismála sé hluti af stjórnsýslu samkeppnismála á Íslandi. Meginhlutverk áfrýjunarnefndarinnar er að sjá til þess að samkeppnislög séu virt og þau nái tilgangi sínum. Að baki ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins í máli nr. 25/2013 liggur ítarleg rannsókn á íslenskum flugmarkaði. Niðurstaða þeirrar ítarlegu rannsóknar er að samkeppni nái ekki fram að ganga og að afar brýnt sé að grípa til ráðstafana til að stuðla að aukinni samkeppni í flugi til og frá landinu. Áfrýjunarnefndin geti ekki virt þessa niðurstöðu algerlega að vettugi og ógilt hinar nauðsynlegu ráðstafanir jafnvel þótt ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins hefði beinst gegn röngu stjórnvaldi. Áfrýjunarnefndinni bar eftir sem áður að leita allra leiða til þess að samkeppnislög næðu markmiði sínu og tilgangi. Hefði áfrýjunarnefndinni þannig verið rétt að gefa „ACD/Frank Holton, Managing Director of ACD“ kost á að koma sjónarmiðum sínum að við meðferð málsins hjá nefndinni. Að því búnu hefði áfrýjunarnefndin átt að leysa úr málinu efnislega með staðfestingu ákvörðunar, ógildingu hennar eða breytingu. Breyting ákvörðunar hefði m.a. getað falist í því að ákvörðunin beindist að „ACD/Frank Holton, Managing Director of ACD“ í stað stefnda Isavia ohf. Væri slíkt í samræmi við þær ríku kröfur sem gerðar eru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og málsmeðferðar hennar.

Loks vísar stefnandi til þess að hann telji áfrýjunarnefndina hafi rangtúlkað þær reglugerðir sem raktar eru í úrskurðunum. Áfrýjunarnefndin hafi lagt ranga merkingu í þau ákvæði sem kveða á um sjálfstæði samræmingarstjóra og ranglega ályktað að með þeim væri átt við sjálfstæði gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Þá horfir nefndin algerlega framhjá því að fleiri en einn aðili er tilgreindur sem samræmingarstjóri hjá stefnda Isavia ohf., þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar þar um. Engin rök séu færð fram fyrir því hvers vegna málið eigi að beinast að einum aðila sem titlaður er samræmingarstjóri en ekki öðrum aðila sem sé það einnig, en óumdeilt sé að sá starfi hjá stefnda Isavia ohf.

Stefnandi telur að ógilda beri úrskurði áfrýjunarnefndarinnar og vísar til þess að lögmætisreglan sé ein af meginreglum íslensks stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Hún feli í sér að ákvarðanir stjórnvalda skuli almennt eiga sér stoð í lögum og megi ekki vera í andstöðu við lög. Framangreind niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála hafi ekki haft neina lagastoð auk þess að vera í andstöðu við meginreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Hún hafi þannig verið haldin verulegum efnislegum annmarka sem leiði til ógildingar.

                Auk framangreinds byggir stefnandi á því að brotið hafi verið gegn andmælarétti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, rannsóknarreglu 10. gr. og málshraðareglu 9. gr. sömu laga, sbr. 9. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Þá vísar hann til meginreglu stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið og styður kröfu sína um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar við 60. gr. stjórnarskrárinnar. Varðandi fyrirsvar vísar stefnandi í 4. og 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um varnarþing stefnda til 1. og 4. mgr. 33. gr. sömu laga. Þá eigi málskostnaðarkrafa stefnanda sér stoð í 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.

IV

Málsástæður og lagarök stefnda Isavia ohf.

Stefndi Isavia ohf. byggir frávísunarkröfu sína aðallega á því að ýmsir ágallar séu á málatilbúnaði stefnanda.

Í fyrsta lagi bendir stefndi á að í málatilbúnaði stefnanda felist krafa til handa einum stefnda í málinu, Samkeppniseftirlitinu. Eins og fram komi í stefnu hafi áfrýjunarnefnd samkeppnismála ítrekað hafnað aðild stefnanda að kærumálinu er leiddi til þess úrskurðar sem stefnandi gerir nú kröfu um að verði felldur úr gildi með dómi. Í framkvæmd hafi áfrýjunarnefnd samkeppnismála gert það skilyrði fyrir aðild að máli að viðkomandi hafi beina, verulega, sérstaka og lögvarða hagsmuni af úrlausn og niðurstöðu máls. Verði ekki séð að stefnandi eigi slíka hagsmuni að stjórnsýslumálinu að hann gæti gert kröfu um ógildingu úrskurðarins. Dómkrafan snúi þannig að hagsmunum sem séu einungis á hendi stefnda Samkeppniseftirlitsins, eða annarra málsaðila að stjórnsýslumálinu, að krefjast ógildingar á og geti stefnandi því ekki gert kröfu um hagsmunina sjálfum sér til handa. Í þessu sambandi bendi stefndi á að stefnandi hafi aldrei sótt um úthlutun afgreiðslutíma sem hljóti að vera rökbundin nauðsyn þess að hann hafi öðlast lögvarin réttindi, þá annaðhvort að hafa fengið úthlutað afgreiðslutíma eða verið hafnað um slíka úthlutun. Því hafi dómkrafa stefnanda í málinu ekkert raunhæft gildi fyrir stefnanda.

Stefndi bendir á að ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er fjalli um lögvarða hagsmuni leiði til þess að sá er höfðar mál í því skyni að fá dæmd réttindi sér til handa verði að gera grein fyrir því í hverju hinir lögvörðu hagsmunir séu fólgnir og hvernig þeir tengist atvikum máls og athöfnum hans. Stefndi bendir á að úthlutaður afgreiðslutími á Keflavíkurflugvelli hafa litla sem enga þýðingu fyrir starfsemi stefnanda fyrr en hann hafi fengið úthlutað afgreiðslutíma á flugvelli sem hann annaðhvort flýgur frá til Keflavíkurflugvallar eða flýgur til frá Keflavíkurflugvelli. Þannig sé fullyrðing stefnanda í stefnu um að tiltekinn afgreiðslutími á Keflavíkurflugvelli sé honum samkeppnislega mikilvægari en annar orðin tóm fyrr en hann hefur sýnt fram á með sönnunargögnum að hann hafi þegar yfir að ráða úthlutuðum afgreiðslutímum á öðrum flugvöllum sem hann fljúgi annaðhvort frá eða til Keflavíkurflugvallar. Stefnandi hafi ekkert lagt fram þessu til stuðnings og eru fullyrðingar hans ósannaðar. Hann hafi þannig ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni sem eigi að leiða til þess að dómkröfur hans verði teknar til greina. Þá hafi stefnandi enga grein gert fyrir því hverju það skipti fyrir hagsmuni hans sem flugrekanda að fá eingöngu úthlutað afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Sú úthlutun dugi honum engan veginn til þess að hefja áætlunarflug til og frá Keflavíkurvelli. Sakarefnið verði að skipta stefnanda raunverulegu máli að lögum til þess að hann geti borið það undir dómstóla og dómur, sem myndi taka dómkröfu stefnanda til greina, að breyta einhverju um réttarstöðu stefnanda. Stefnandi hafi hvorki lagt fram sönnunargögn né teflt fram málsástæðum vegna þessa þannig að hægt sé að ráða af sakarefni málsins í hverju hinir lögvörðu hagsmunir hans séu fólgnir. Verður þegar af þessum sökum að vísa málinu frá dómi.

Þá vísar stefndi til þess að stefnandi hafi lýst því yfir að hann muni ekki hefja flug til Bandaríkjanna árið 2014. Þar sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem ógilt var með ákvörðunum áfrýjunarnefndar, varðaði að mestu leyti möguleika stefnanda til að hefja flug til Bandaríkjanna, hafi ógilding ákvörðunar áfrýjunarnefndar enga raunhæfa þýðingu fyrir réttarstöðu stefnanda. Hinn þáttur ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins, þar sem beint er þeim tilmælum til stefnda að útbúa leiðbeiningar fyrir samræmingarstjóra um samkeppnissjónarmið, snúi ekki að stefnanda með beinum hætti. Hafi stefnandi því ekki verulegra einstaklegra hagsmuna að gæta af því að úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að fella ákvörðun Samkeppniseftirlitsins úr gildi verði dæmdir ógildir. Telji stefnandi sig eiga óbeina hagsmuni af niðurstöðu máls þessa, byggir stefndi á því að ósannað sé og vanreifað af hálfu stefnanda hvernig hann eigi slíkra beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta þannig að fallast beri á dómkröfu hans í málinu.

Þá bendir stefndi á að samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 1050/2008 er úthlutun skipt upp í áætlunartímabil, sumar- eða vetraráætlun, eftir því hvernig áætlun flugfélaganna er skipt upp og fer oftast fram tvisvar sinnum á hverju ári, fyrir sumaráætlun og vetraráætlun, sbr. d-, f- og k-lið 2. gr., 3. gr., 8. gr., 9. gr. og 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar. Í lok hvers tímabils falla úthlutaðir afgreiðslutímar niður og ný úthlutun samræmingarstjóra á grundvelli reglugerðarinnar tekur gildi. Stefndi byggir á því að þau réttindi sem stefnandi virðist með málatilbúnaðinum vera að reyna að krefjast sér til handa með dómi hafi liðið undir lok og ekki liggur fyrir að hann hafi sótt um afgreiðslutíma fyrir næstu áætlunartímabil. Stefnandi verður eins og hver annar flugrekandi að sækja um afgreiðslutíma í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1050/2008 fyrir hvert áætlunartímabil. Getur hann af þeim sökum ekki lengur haft lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins fyrir dómi, sbr. grunnrök 1. mgr. 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi bendir í öðru lagi á að stefnandi, með vísan til 18. gr. laga nr. 91/1991, stefni báðum aðilum stjórnsýslumáls og sé þannig stefnda Isavia ohf. og stefnda Samkeppniseftirlitinu stefnt sem samaðilum. Stefndi byggir á því að skilyrði 18. gr. séu ekki fyrir hendi, enda eigi stefndu í málinu hvorki óskipt réttindi né beri óskipta skyldu og lögvarðir hagsmunir aðila eðlisólíkir. Stefndi Isavia ohf. sé flugvallarrekandi og hafi þá hagsmuni að fylgt sé eftir settum lögum og reglum um úthlutun afgreiðslutíma á flugvellinum. Stefndi Icelandair hf. sé flugrekandi sem samræmingarstjóri hafi úthlutað afgreiðslutíma á grundvelli reglugerðar nr. 1050/2008 til reksturs farþegaflugs milli flugvalla. Samkeppniseftirlitið sé stjórnvald sem kveðst eiga hagsmuni af því að verja skilvirkni samkeppnismarkaða og framfylgja markmiðum samkeppnislaga nr. 44/2005. Auk þess bendi stefndi á 4. mgr. 18. gr. sömu laga, sem kveði á um að ef kröfur eða yfirlýsingar þeirra sem eiga óskipta aðild séu ósamrýmanlegar, skuli að meginstefnu til telja aðilana alla bundna við þá kröfu eða yfirlýsingu sem er gagnaðila hagkvæmust. Stefndi telur að í ljósi þessa ákvæðis geti stefndi Samkeppniseftirlitið ekki verið samaðili til varnar með stefnda, enda horfir það til réttarspjalla fyrir stefnda þar sem ljóst sé af fyrirliggjandi gögnum að hagsmunir aðilanna af úrlausn málsins séu bæði ólíkir, annars eðlis og í sumum tilfellum gagnstæðir.

Í þriðja lagi byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að málatilbúnaður stefnanda sé svo óljós og vanreifaður að hann standist ekki kröfur 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi telur verulegum erfiðleikum háð að átta sig á því hvers stefnandi krefst. Samkvæmt kröfu stefnanda krefst hann þess að úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 27. febrúar 2014 verði felldir úr gildi. Stefndi telur slíka kröfugerð leiða til þess að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins ógildist um leið. Hins vegar virðist málatilbúnaður stefnanda byggjast á því að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins eigi að standa óhögguð að gengnum dómi í þessu máli án þess að færa fram fyrir því efnisleg rök eða málsástæður. Kröfugerðin samrýmist því ekki málatilbúnaðinum. Stefndi telur auk þess að eins og málið sé lagt upp muni dómur í málinu ekki skera úr um ágreiningsefni aðila. Þannig leiði dómkröfur stefnanda ekki til breytinga á réttarstöðu hans.

V

Málsástæður og lagarök stefnda Icelandair ehf.

Frávísunarkrafa stefnda Icelandair ehf. er á því byggð að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og því beri að vísa kröfum hans frá dómi. Til sömu niðurstöðu leiði að stefnandi geti ekki átt aðild að málinu, í öllu falli sé aðild hans að því veruleg óljós og vanreifuð.

Stefndi bendir á að stefnandi geri þær dómkröfur að tveir tilteknir úrskurðir áfrýjunarnefndar verði felldir úr gildi. Stefnandi var ekki aðili að þeim málum fyrir áfrýjunarnefnd og geti því ekki byggt aðild sína að dómsmálinu á slíkri aðild. Í engu er útskýrt í stefnu á hvaða grundvelli stefnandi byggi aðild sína að málinu. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa kröfum stefnanda frá dómi. Þá virðist málatilbúnaður stefnanda grundvallast á því að verði fallist á dómkröfur hans muni ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins nr. 25/2013 rakna við og taka gildi að nýju. Stefndi dregur þær forsendur í efa, enda ljóst af fordæmum Hæstaréttar að allt stjórnsýslumálið færist til áfrýjunarnefndar og verði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins því efnislega orðinn hluti úrskurðarins. Af þeirri ástæðu einni geti stefnandi ekki haft lögvarða hagsmuni af því að dómkröfur hans séu teknar til greina. Verði hins vegar fallist á þessar forsendur málatilbúnaðar stefnanda sé ljóst að ætlaðir lögvarðir hagsmunir hans ráðast af mati á því hvort hann hafi hagsmuni af því að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 25/2013 rakni við og taki gildi að nýju. Í stefnu sé að finna afar villandi umfjöllun um ætlaða lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurði áfrýjunarnefndar ógilta.

Þá vísar stefndi til þess að ákvörðunarorð ákvörðunar nr. 25/2013 séu tvískipt. Í fyrri hluta ákvörðunarorðanna var kveðið á um að stefnandi skyldi fá úthlutað afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli innan nánar tiltekinna tímabila, fyrir sumaráætlun 2014, sem nauðsynlegir þóttu vegna fyrirhugaðs flugs stefnanda til Bandaríkjanna. Stefnandi hafi lýst því yfir að hann muni ekki fljúga til Bandaríkjanna sumarið 2014. Var þessu lýst yfir af hálfu stefnanda við málflutning fyrir áfrýjunarnefnd, þannig að óháð niðurstöðu nefndarinnar yrði ekki af fyrirhuguðu flugi. Þegar af þeirri ástæðu hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af því að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins rakni við. Hafi slíkir hagsmunir verið fyrir hendi á einhverju tímamarki voru þeir liðnir undir lok við höfðun málsins. Í síðari hluta ákvörðunarorðanna er kveðið á um að stefndi Isavia ohf. skyldi semja „leiðbeiningar“ fyrir samræmingarstjóra, þar sem kveðið yrði „m.a.“ á um að hann skyldi gæta samkeppnissjónarmiða við úthlutun afgreiðslutíma. Í því felist að ef tvö eða fleiri flugfélög sækja um sömu afgreiðslutíma, þá skyldi það flugfélag sem væru með minni hlutdeild að jafnaði njóta forgangs. Þar sem stefnandi hafi bersýnilega enga lögvarða hagsmuni af fyrri hluta ákvörðunarorðanna, sé ljóst að yrði fallist á kröfur hans yrði það eingöngu síðari hlutinn sem tæki gildi. Stefndi telur ljóst að stefnandi geti heldur ekki haft lögvarða hagsmuni af því að sá hluti ákvörðunarorðanna rakni við.

Þá vísar stefndi til þess að af stefnu virðist mega ráða að stefnandi byggi ætlaða lögvarða hagsmuni sína á því að hann hyggist hefja flug til Bandaríkjanna sumarið 2015. Staðreynd málsins sé sú að alls fljúgi 18 flugfélög til og frá Keflavíkurflugvelli á sumaráætlun. Hafi stefnandi enga sértæka hagsmuni umfram öll þau flugfélög af því að síðari hluti ákvörðunarorða Samkeppniseftirlitsins rakni við. Þegar af þeirri ástæðu hafi stefnandi ekki sértæka og þar með lögvarða hagsmuni af dómkröfum sínum. Af þessum 18 flugfélögum hafi 16 flugfélög minni markaðshlutdeild en stefnandi. Rakni síðari hluti ákvörðunarorða Samkeppniseftirlitsins við sé því ljóst að 16 flugfélög hefðu að jafnaði forgang fram yfir stefnanda sæktu þau um sömu afgreiðslutíma og stefnandi fyrir sumarið 2015. Þetta sé staðfest í svörum Samkeppniseftirlitsins við athugasemdum stefnda við greinargerð þess undir rekstri málsins fyrir áfrýjunarnefnd, þar sem segir m.a. á bls. 13:

„Samkeppniseftirlitið mótmælir þessu og bendir á að leiðbeiningum til samræmingarstjóra er ekki ætlað það hlutverk að vernda sérstaklega fyrirtækið WOW Air eða önnur flugfélög. Þvert á móti hafa þær þann tilgang að vernda samkeppni. Ef nýir keppinautar vilja hasla sér völl á áætlunarleiðum sem t.a.m. WOW Air er með háa hlutdeild (jafnvel 100%) og nýir afgreiðslutímar koma til úthlutunar bæri samræmingarstjóra almennt að hafa hliðsjón af því samkvæmt leiðbeiningunum.“

Stefndi telur að af þessu sé ljóst að stefnandi geti ekki haft af því lögvarða hagsmuni að síðari hluti ákvörðunarorða Samkeppniseftirlitsins rakni við og taki gildi að nýju. Hafi Samkeppniseftirlitið staðfest að tilgangur þeirra sé ekki að vernda stefnanda, auk þess sem af þeim leiði beinlínis að 16 af 18 flugfélögum sem fljúga um Keflavíkurflugvöll hefðu forgang að úthlutuðum afgreiðslutímum umfram stefnanda. Geti stefnandi ekki haft lögvarða hagsmuni af slíkri niðurstöðu.

Þá áréttar stefndi að forsendur ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins byggðust á þeim aðstæðum sem voru fyrir hendi á Keflavíkurflugvelli fyrir sumarið 2014. Umtalsverð fjölgun verði á brottfararhliðum á vellinum fyrir sumarið 2015. Af því leiði að forsendur fyrir töku ákvörðunarinnar séu með öllu brostnar. Í öllu falli sé alls óljóst og vanreifað hvaða lögvörðu hagsmuni stefnandi geti haft af því að síðari hluti ákvörðunarorðanna rakni við, við þessar gjörbreyttu aðstæður fyrir sumarið 2015.

Loks bendir stefndi á að vegna ýmissa efnisannmarka geti síðari hluti ákvörðunarorða Samkeppniseftirlitsins ekki haft réttaráhrif samkvæmt efni sínu, m.a. vegna óskýrleika og ómöguleika við framkvæmd þeirra og geti stefnandi því ekki haft lögvarða hagsmuni af því að síðari hluti ákvörðunarorðanna rakni við. Í öllu falli séu ætlaðir lögvarðir hagsmunir hans af því óljósir og þar með vanreifaðir.

Þá byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að hann geti ekki haft samaðild á grundvelli 18. gr. laga um meðferð einkamála með stefnda Samkeppniseftirlitinu. Þannig hafi stefndi andstæða hagsmuni við hagsmuni Samkeppniseftirlitsins, sem hljóti að vera þeir að ákvörðun stofnunarinnar standi. Er við slíkar aðstæður ekki unnt að byggja kröfugerð á samaðild stefndu samkvæmt 18. gr. laga um meðferð einkamála, eins og stefnandi tekur skýrt fram í stefnu að gert sé. Sem dæmi fær ekki staðist að meðstefndu geti þannig bundið stefnda með yfirlýsingum sínum eins og 4. mgr. 18. gr. kveði á um. Er slík aðild, þegar aðilar eiga ósamrýmanlega hagsmuni, í andstöðu við meginreglur réttarfars. Verður af þeim sökum að vísa málinu frá dómi.

Loks vísar stefndi til þess að eins og hér stendur á, þar sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi fellt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins úr gildi, sé Samkeppniseftirlitið ekki réttur aðili til að beina að kröfum um ógildingu úrskurðar áfrýjunarnefndar. Þannig sé við slíkar aðstæður réttarfarsleg nauðsyn á aðild áfrýjunarnefndar. Þar sem kröfum hafi ekki verið beint að nefndinni beri að vísa kröfum stefnanda frá dómi.

IV

Niðurstaða

Stefndi Isavia ohf. byggir frávísunarkröfu sína á því að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, að skilyrði samaðildar samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt og að málatilbúnaður stefnanda sé svo óljós og vanreifaður að hann standist ekki kröfur 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Af hálfu stefnda Icelandair ehf. er frávísunarkrafa einnig byggð á þeim tveimur sömu atriðum og talin eru fyrst upp hér að ofan en einnig á því að réttarfarsleg nauðsyn sé á aðild áfrýjunarnefndar samkeppnismála þar sem nefndin hafi fellt úr gildi úrskurð Samkeppniseftirlitsins.

Hvað varðar þá málsástæðu að skilyrði samaðildar samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki uppfyllt þá byggja stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. aðallega á því að hagsmunir allra stefndu séu ólíkir og því ekki samrýmanlegir. Í dómum Hæstaréttar, sbr. t.d. í máli nr. 539/2006, frá 25. október 2006, hefur verið litið svo á að óhjákvæmilegt sé að beina kröfu um ógildingu úrskurðar æðra stjórnvalds að þeim, sem hafa átt aðild að málinu á málskotsstigi, enda hafi þeir átt verulegra, einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn stjórnsýslumálsins. Stefndu áttu allir aðild að málunum fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Þrátt fyrir að aðkoma stefndu að málinu sé ólík verður að telja að þeir hafi haft slíka hagsmuni af úrslitum málsins að þeim beri að gefa kost á að taka til varna í málinu, sbr. 1. mgr. 18. gr. sömu laga. Þá vörðuðu þau tvö mál sem þar voru rekin sömu atvik og er því einnig samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 heimilt að sækja stefndu í sama máli.

Þá byggir stefndi Icelandair ehf. á því að vísa beri málinu frá héraðsdómi þar sem beina hefði átt kröfum að áfrýjunarnefndinni en ekki Samkeppniseftirlitinu. Málið varði ógildingu á úrskurði nefndarinnar sem hafi fellt úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Áfrýjunarnefndin hefur samkvæmt samkeppnislögum vald til að leysa úr ágreiningsefni eins og því sem hér er til umfjöllunar. Samkeppniseftirlitið var gagnaðili stefnda Isavia ohf. og stefnda Icelandair ehf. við málsmeðferð fyrir nefndinni. Nefndin hefur ekki þá lögvörðu hagsmuni sem lög nr. 91/1991 gera kröfu um að séu fyrir hendi til að aðild að einkamáli fyrir dómstólum verði viðurkennd. Með vísan til framangreinds er því hafnað að vísa málinu frá héraðsdómi af þessari ástæðu.

Samkvæmt 1. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er markmið laganna að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiðinu skuli náð með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Til að ná markmiðunum geta aðgerðir Samkeppniseftirlitsins, samkvæmt 16. gr. sömu laga, falið í sér hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að efla samkeppni, stöðva brot eða bregðast við athöfnum opinberra aðila sem kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Byggt er á því í lögunum að gripið sé til aðgerða gegn þeim brotlega, t.d. með sektum og eftir atvikum dagsektum.

Samkeppnislög eru almenn lög sem samkvæmt almennum lögskýringarreglum víkja fyrir sérlögum. Reglugerð nr. 1050/2008 er sett á grundvelli laga um loftferðir nr. 60/1998. Í 10. gr. reglugerðarinnar er ákveðið að reglugerðin hafi ekki áhrif á vald opinberra yfirvalda til að krefjast færslu afgreiðslutíma milli flugrekenda og til að stjórna því hvernig þeim er úthlutað í samræmi við innlend samkeppnislög eða 52. gr. EES-samningsins eða reglugerða um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja. 

Eins og rakið hefur verið hófst mál þetta með kvörtun stefnanda til Samkeppniseftirlitsins er barst eftirlitinu 14. mars 2013. Afgreiðslu kvörtunarinnar lauk með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 25/2013 dagsettri 1. nóvember sama ár. Þar var, eins og einnig hefur verið rakið, tekið undir sjónarmið stefnanda. Bæði stefndi Isavia ohf. og stefndi Icelandair ehf. kærðu þá ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sbr. mál nefndarinnar nr. 10 og 11/2013, sem með tveimur efnislega samhljóða úrskurðum, dagsettum 27. febrúar 2014, felldi úr gildi framangreindan úrskurð Samkeppniseftirlitsins. Fyrir liggur að stefnanda var ekki veitt staða aðila við málsmeðferð hjá áfrýjunarnefndinni en var veitt áheyrn við upphaf málflutnings fyrir nefndinni. Samkvæmt 40. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 verður ákvörðun Samkeppniseftirlitsins ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir. Þá hefur ekki í dómaframkvæmd verið gerð sú krafa að sá sem ber mál undir dómstóla hafi áður skotið því til nefndarinnar, sbr. 41. gr. laganna en þar kemur fram að aðili, þ.m.t. Samkeppniseftirlitið, sem ekki vill una úrskurði áfrýjunarnefndarinnar geti höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum. Þó að stefnandi hafi ekki verið aðili að málinu á stjórnsýslustigi verður málinu ekki þegar af þeirri ástæðu vísað frá héraðsdómi þar sem aðildarskortur leiðir almennt til sýknu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt orðalagi kvörtunar stefnanda til Samkeppniseftirlitsins er um að ræða almennt orðaða kvörtun sem sett var fram áður en úthlutun afgreiðslutíma vegna sumaráætlunar 2014 fór fram. Í stefnu er það svo rakið að stefnandi telji að stefndi Icelandair ehf. fái bestu og eftirsóttustu afgreiðslutímana á Keflavíkurflugvelli. Önnur félög, einkum stefnandi, mæti afgangi við úthlutunina. Fyrirkomulagið komi í veg fyrir að stefnandi geti á jafnréttisgrundvelli fengið afgreiðslutíma þannig að hann sé samkeppnisfær við aðra aðila á markaði. Þetta raski verulega samkeppni í flugi til og frá Íslandi. Stefnandi byggir á því að hann hafi beina og lögvarða hagsmuni af því að hnekkja úrskurðinum og uppfylli aðildarskilyrði einkamálaréttarfars. Þá vísar hann til þess að ákvörðunin sem borin var undir áfrýjunarnefndina fjalli að verulegu leyti um „stefnanda og möguleika stefnanda til þess að veita stefnda Icelandair ehf. samkeppni“.

Krafa stefnanda í máli þessu er sú að úrskurðir áfrýjunarnefndarinnar verði felldir úr gildi. Í dómi Hæstiréttur í máli nr. 116/2011 frá 1. desember 2011 er vísað til þess að verði úrskurður ógiltur í máli sem þessu verði mál borið á ný undir áfrýjunarnefnd verði þá ekki við ákvörðun Samkeppniseftirlitsins unað. Í ákvörðunarorði Samkeppniseftirlitsins er bæði vísað til ákveðinna afgreiðslutíma til handa stefnanda og forgangs honum til handa. Á skortir að í stefnu komi fram skýringar á þeim hagsmunum sem stefnandi telur sig eiga af úrlausn þessa einstaka máls, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991, með hliðsjón af þeirri niðurstöðu sem fram kemur í ákvörðunarorðunum. Þar koma einungis fram þau almennu sjónarmið sem rakin hafa verið hér að ofan. Þá skortir einnig á að þar komi fram lýsingar á málsatvikum og málástæðum vegna þeirra tímasetninga sem tilgreindar eru í ákvörðunarorðinu. Þrátt fyrir að enn sé svigrúm fyrir stefnanda til framlagningar gagna, sbr. 124. gr. laga nr. 91/1991, verður að gera þá kröfu að stefnandi geri grein fyrir þeim hagsmunum sem hann hefur af úrlausn dómkröfu og málsástæðum sínum í stefnu, sbr. e-liður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Eftir framangreindu er það niðurstaða dómsins að málið sé svo vanreifað og óljóst hvað þetta varðar að fallast beri á kröfu stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. og vísa málinu frá dómi hvað þá varðar. Með sömu rökum og hér að framan koma fram er málinu einnig vísað frá dómi af sjálfsdáðum (ex officio) hvað varðar stefnda Samkeppniseftirlitið.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur til hvers þeirra. Ekki eru efni til að fallast á kröfu stefnda Icelandair ehf. um að stefnanda verði gert að greiða álag á málskostnað með vísan til c-liðar 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Wow air ehf., greiði stefndu, Samkeppniseftirlitinu, Isavia ohf. og Icelandair ehf., hverjum um sig 250.000 krónur í málskostnað.