Hæstiréttur íslands

Mál nr. 181/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Félagsdómur
  • Frávísunarkröfu hafnað


Þriðjudaginn 27

 

Þriðjudaginn 27. maí 2003.

Nr. 181/2003.

Flugfélagið Atlanta hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Félagi íslenskra flugliða

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Kærumál. Félagsdómur. Frávísunarkröfu hafnað.

F höfðaði mál fyrir Félagsdómi og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að túlka bæri tiltekna grein í kjarasamningi F og A þannig, að á meðan engin verkefni væru á Íslandi væri A skylt að bjóða félagsmönnum F ráðningu í flugliðastörf, sem yrðu til vegna erlendra verkefna félagsins. Jafnframt var þess krafist að í þeim tilvikum bæri A að greiða félagsmönnum F laun samkvæmt fyrrnefndum kjarasamningi. Af hálfu A var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi. Í niðurstöðu Félagsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, segir að málið sé höfðað til viðurkenningar á túlkun F á kjarasamningi aðila, en ekki væri deilt um að farið hafi verið eftir kjarasamningi aðila eftir að hann féll úr gildi í árslok 2001. Samkvæmt lögum nr. 80/1938 væri meðal verkefna Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Félli málið því undir valdsvið dómsins. Samkvæmt því og með því að ekki væri hald í öðrum málsástæðum A til stuðnings frávísunarkröfu var henni hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Félagsdóms 5. maí sl., þar sem hafnað var frávísunarkröfu sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. tölulið 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og málinu vísað frá Félagsdómi. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Félagsdómi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar á úrskurði Félagsdóms og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Flugfélagið Atlanta hf., greiði varnaraðila, Félagi íslenskra flugliða, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Félagsdóms 5. maí 2003.

          Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 30. apríl síðastliðinn um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað 24. febrúar 2003.

          Málið úrskurða Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

          Stefnandi er Félag íslenskra flugliða, Mosfellsbæ.

          Stefndi er Flugfélagið Atlanta hf., við Álafossveg, Mosfellsbæ.

          Dómkröfur stefnanda 

          Að viðurkennt verði með dómi að túlka beri gr. 03.07 í kjarasamningi Félags íslenskra flugliða og Flugfélagsins Atlanta ehf. þannig að á meðan engin verkefni séu á Íslandi sé Flugfélaginu Atlanta ehf. skylt að bjóða félagsmönnum Félags íslenskra flugliða ráðningu í flugliðastörf, sem verða til vegna erlendra verkefna félagsins, og skipti ekki máli í því sambandi hvar í heiminum verkefnin eru, og til viðmiðunar skuli farið eftir starfsaldurslistum.

          Að viðurkennt verði með dómi að Flugfélaginu Atlanta ehf. beri að greiða félagsmönnum Félags íslenskra flugliða laun samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra flugliða og Flugfélagsins Atlanta ehf. í þeim tilvikum er félagsmennirnir neyta forgangsréttar til nýráðninga í erlend verkefni samkvæmt gr. 03.07 í kjarasamningnum.

          Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati Félagsdóms.

          Dómkröfur stefnda

          Aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi.

          Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda.

          Til þrautavara krefst stefndi að hann verði sýknaður að svo stöddu.

          Til þrautaþrautavara er krafist að einungis verði viðurkenndur forgangur aðila Félags íslenskra flugliða í nýráðningar komi upp verkefni erlendis á sama tíma og engin verkefni eru á Íslandi, sbr. gr. 03.07. í kjarasamningi, en stefndi verði sýknaður af kröfu stefnanda um að honum beri að greiða félagsmönnum Félags íslenskra flugliða laun samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra flugliða og Flugfélagsins Atlanta hf. í þeim tilvikum sem félagsmenn hljóta nýráðningu á grundvelli ákvæðis gr. 03.07. í kjarasamningi.

          Þá krefst stefndi í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.

          Málavextir

          Félag íslenskra flugliða (FÍF) er stéttarfélag sem starfar samkvæmt lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Tilgangur félagsins er að sameina alla starfandi flugliða hjá Flugfélaginu Atlanta, sem starfa á félagssvæði þess, efla hag félagsmanna, meðal annars með því að semja um kaup þeirra og kjör, vinna að bættum aðbúnaði við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanns og vinna að fræðslumálum. Rekstur stefnda er aðallega fólginn í leiguflugi á svonefndum ACMI kjörum (Aircraft, Crew, Maintenance, Incurance). Hafa verkefni félagsins bæði verið hérlendis, það er flug til og frá Íslandi, og önnur verkefni því tengd, og erlendis. Innlend verkefni félagsins lögðust nánast af vorið 2001 í framhaldi af gjaldþroti tiltekinnar ferðaskrifstofu en þá var öllum fastlaunuðum flugliðum hjá stefnda sagt upp. 

          Í 1. kafla kjarasamnings málsaðila eru meðal annars ákvæði um helstu verkefni flugliða. Í gr. 01.10 segir að kjarasamningurinn nái yfir allt flug til og frá Íslandi og önnur verkefni því tengdu enda hafi upphaflegur fartími hafist við brottför frá Íslandi. Í 3. kafla kjarasamningsins eru ákvæði um ráðningar, reynslutíma og uppsagnir. Í gr. 03.07 er svohljóðandi ákvæði:

 

„Komi upp verkefni erlendis á sama tíma og engin verkefni eru á Íslandi skulu aðilar FÍF hafa forgang í nýráðningar í þau verkefni og skal þar farið eftir starfsaldurslistum”.

 

          Stefndi hefur framfylgt þessu ákvæði í svonefndu pílagrímaflugi á vegum félagsins og hefur félagsmönnum FÍF þá verið boðin ráðning í viðkomandi verkefni og greidd laun fyrir þau í samræmi við kjarasamning aðila. Í öðrum erlendum verkefnum en pílagrímafluginu hefur stefndi samið við svonefndar áhafnaleigur en það eru fyrirtæki sem leigja áhafnir til flugfélaga. Hefur félagsmönnum stefnanda verið boðin ráðning í verkefni á vegum stefnanda samkvæmt verktakasamningum sem gerðir hafa verið gerðir milli áhafnaleigunnar og viðkomandi félagsmanns stefnanda en kjör samkvæmt þeim kveður stefnandi vera mun lakari en þau sem kveðið er á um í kjarasamningi stefnanda og stefnda.

          Stefnandi telur að með þessu brjóti stefnandi gegn forgangsréttarákvæði gr. 03.07 í kjarasamningi aðila og og komi sér þannig undan því með ólögmætum hætti að greiða félagsmönnum laun fyrir verkefnin samkvæmt kjarasamningnum og uppfylla aðrar kjarasamningsbundnar skyldur sínar en því andmælir stefndi.

          Málsástæður og lagarök stefndu vegna frávísunarkröfu

          Stefndi byggir frávísunarkröfu á því að umfjöllun sakarefnis, eins og það er lagt fyrir dóminn, falli utan dómsviðs Félagsdóms. Beri að hafa í huga að Félagsdómur sé sérdómstóll og beri að túlka dómsvið hans þröngt. Sakarefni málsins falli utan gildissviðs kjarasamnings. Sé gildissvið kjarasamnings samkvæmt gr. 01.10. skilgreint svo að það taki til alls flugs til og frá Íslandi og önnur verkefni því tengdu enda hafi upphaflegur fartími hafist við brottför frá Íslandi. Af málatilbúnaði og kröfugerð stefnanda sé sýnt að dómkröfur þessa máls taki ekki til viðfangsefna, sem falla innan gildissviðs kjarasamnings samkvæmt gr. 01.10, þ.e. dómkröfur varði einungis verkefni tengda starfsemi stefnda erlendis og án viðkomu eða tengsla við Ísland. Af framangreindu megi ljóst vera að umrædd starfsemi falli utan gildissviðs kjarasamnings, sbr. gr. 01.10, eins og það sé skilgreint í ótvíræðu og afdráttarlausu orðalagi kjarasamnings. Af því leiði að dómkröfur og sakarefni þessa máls varði ekki ágreining um skilning á vinnusamningi (kjarasamningi) eða gildi hans eins og áskilið sé í 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

          Þá er krafan á því byggð að utan dómsviðs Félagsdóms falli að fjalla um ágreining og sakarefni er varðar starfsemi stefnda utan Íslands enda takmarkist lögsaga íslenskra dómstóla við Ísland. Ágreiningur sá, sem stefnandi hefur nú lagt fyrir Félagsdóm og sakarefni tekur til, varði einungis starfsemi stefnda á erlendri grundu, ýmist í Evrópu, Bandaríkjunum, Asíu, Saudi Arabíu o.s.frv.  Með því sé átt við verkefni sem stefndi sinnir fyrir flugfélög víða um heim og án viðkomu á Íslandi. Samkvæmt framangreindu teljist Félagsdómur hvorki bær til að fjalla um ágreining, er varðar túlkun og framkvæmd verkefna stefnda á erlendri grundu, né löggjöf og gildi kjarasamninga í viðkomandi löndum eða á hlutaðeigandi atvinnusvæðum. Takmarkist  dómsvið Félagsdóms samkvæmt 44. gr. laga nr. 80/1938 við lögsögu íslenskra dómstóla og teljist dómurinn því hvorki bær né geti hann á bindandi hátt fjallað um lögskipti og/eða samningsskyldur aðila utan lögsögu Íslands. Vísar stefndi m.a. í því sambandi til ákvæða IV. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum ákvæði 24. gr. Þá hafi dómkröfur stefnanda að geyma spurningar um lögfræðileg álitaefni sem Félagsdómi beri ekki að fjalla um, sbr. 25.gr.  laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

          Í huga beri að hafa samkvæmt framansögðu að í hlutaðeigandi löndum sé í gildi vinnulöggjöf sem og kjarasamningar stéttarfélaga. Geti ákvæði í kjarasamningi aðila með engu móti gengið framar ákvæðum kjarasamninga stéttarfélaga sem samið hafa á hlutaðeigandi atvinnusvæði. Af ákvæðum þeirra laga, sbr. einkum I. kafli þeirra, verði ráðið að samnings- og félagssvæði takmarkist við Ísland. Þá takmarkist gildissvið laga stefnanda við starfssvæði þess, eins og það sé skilgreint í 1. gr. þeirra, en þar segi að það taki yfir allt Ísland. Verði því að telja að lagaskilyrði skorti fyrir því að íslenskir dómstólar geti fjallað um ágreiningsmál þetta.

          Einnig er á því byggt af hálfu stefnda að ágreiningur aðila varði hvorki kjarasamning sem slíkan né kjarasamningslegar skyldur stefnda í nokkrum skilningi heldur, í besta falli, vilyrði eða viljayfirlýsingu um að veita tilteknum félagsmönnum stefnanda nýráðningar í störf, eftir atvikum að uppfylltum öðrum skilyrðum. Í því sambandi beri að hafa í huga að það sé hvorki hlutverk né á samningssviði stefnanda sem stéttarfélags að tryggja félagsmönnum nýráðningar í störf hjá vinnuveitanda.  Samkvæmt því geti yfirlýsing í besta falli talist yfirlýsing, einkaréttar eðlis, frá stefnda til einstakra félagsmanna stefnanda en kveði ekki á um kjarasamningslegar skyldur né heldur taki efni hennar til slíkra skyldna. Sé utan dómsviðs Félagsdóms að fjalla um efni slíkrar yfirlýsingar og um leið dómkröfur og sakarefni, sbr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

          Ennfremur byggir stefndi á því að enginn fastráðinn starfsmaður, sem falli undir samningssvið stefnanda eða eigi aðild að stefnanda, sé nú að störfum hjá stefnda.  Samkvæmt því geti fyrst reynt á ágreiningsefni þegar slíkar aðstæður koma upp og beri því að vísa máli frá dómi, sbr. 1. mgr. 26. gr laga nr. 91/1991.

          Að lokum byggir stefndi kröfu um frávísun máls á því að kröfugerð stefnanda, eins og hún er lögð fram, eigi enga stoð í ákvæði kjarasamnings og sé orðalag og efni bæði ónákvæmt og ófullkomið. Samkvæmt því teljist dómkröfur ekki dómtækar og geti ekki orðið grundvöllur að dómsorði. Kröfugerð sér miklu víðtækari en tilgreint ákvæði gr. 03.07. í kjarasamningi gefi tilefni til svo og sem leiða megi af öðrum ákvæðum kjarasamnings.  Brjóti málatilbúnaður samkvæmt því gegn ákvæðum laga nr. 91/1991, sbr. einkum ákvæði IV. kafla. Ber því að vísa máli frá dómi ex officio eða samkvæmt kröfu.

          Rökstuðningur stefnanda gegn frávísunarkröfu

          Stefnandi gerir þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að ákvöðrun málskostnaðar verði látin bíða efnisdóms.

          Stefnandi byggir á því að ótvírætt sé að mál þetta eigi undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 en í gr. 03.07 í kjarasamningi aðila sé kveðið á um þýðingarmikla atvinnuhagsmuni félagsmanna stefnanda. Tilvísun stefnda til 25. gr. laga nr. 91/1991 sé í engu rökstudd og þá sé heimild til viðurkenningardóms að finna í 2. mgr. þeirrar greinar. Snúist mál þetta um túlkun á kjarasamningi aðila og hafi dómurinn vald til að takmarka kröfu stefnanda í dómsorði.

          Niðurstaða

          Mál þetta er höfðað til viðurkenningar á túlkun stefnanda á kjarasamningi aðila en ekki er deilt um að farið hafi verið eftir kjarasamningi aðila eftir að hann féll úr gildi í árslok 2001. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 er meðal verkefna Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Fellur málið því undir valdsvið dómsins. Samkvæmt því og með því að ekki er hald í öðrum málsástæðum stefnda til stuðnings frávísunarkröfu er henni hafnað.

          Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.

Ú r s k u r ð a r o r ð

          Frávísunarkröfu stefnda, Flugfélagsins Atlanta hf., er hafnað.

          Málskostnaðarákvörðun bíður efnisdóms.