Hæstiréttur íslands
Mál nr. 489/2012
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Miski
- Varanleg örorka
- Matsgerð
Líkamstjón. Skaðabætur. Miski. Varanleg örorka. Matsgerð.
A krafðist skaðabóta úr hendi ábyrgðartryggjandans T hf. og B vegna líkamstjóns sem hann hlaut í umferðarslysi. Aflað var matsgerðar tveggja lækna sem komust að niðurstöðu um að varanlegur miski A af völdum slyssins væri 7 stig og varanleg örorka hans 7%. Bótauppgjör fór fram með fyrirvara í kjölfarið, en T hf. lagði lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til grundvallar uppgjörinu. Við svo búið voru að beiðni A dómkvaddir tveir menn sem komust að niðurstöðu um að varanlegur miski A væri 13 stig og varanleg örorka hans 20%. Í yfirmatsgerð þriggja manna, sem dómkvaddir voru að beiðni T hf., var varanlegur miski A metinn 5 stig og varanleg örorka hans 7%. A taldi undirmatsgerðina gefa réttari mynd af afleiðingum slyssins og höfðaði mál til heimtu frekari skaðabóta á grundvelli hennar. Deila aðila laut annars vegar að mati á varanlegum miska og varanlegri örorku og hins vegar að tekjuviðmiði við ákvörðun bóta, sem A taldi að miða bæri við 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Í dómi héraðsdóms voru T hf. og B sýknuð af kröfum A með vísan til atvika málsins og sjálfstæðs mats á forsendum og niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar, auk þess sem A var ekki talinn hafa sýnt fram á að tekjuviðmið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 ætti við í málinu. Hæstiréttur vísaði til þess að á yfirmatsgerðinni væru engir þeir gallar, sem valdið gætu því að horft yrði framhjá niðurstöðu hennar og byggt þess í stað á undirmatsgerð, og staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sýknu T hf. og B af kröfum A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 2012. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér aðallega 9.974.389 krónur, til vara 4.148.564 krónur, en að því frágengnu 2.567.623 krónur, í öllum tilvikum með 4,5% ársvöxtum af 529.440 krónum frá 5. nóvember 2007 til 24. maí 2009 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fyrstgreindum fjárhæðum frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þau lækkunar á kröfu áfrýjanda, svo og að dráttarvextir verði fyrst dæmdir frá 7. febrúar 2011 og málskostnaður falli niður.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi reisir áfrýjandi dómkröfur sínar einkum á matsgerð tveggja dómkvaddra manna 24. apríl 2009 að því er varðar afleiðingar slyss, sem hann varð fyrir 5. nóvember 2007, svo og á því að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku af völdum slyssins beri að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Varðandi fyrrgreinda atriðið verður að gæta að því að stefndi Tryggingamiðstöðin hf. fékk dómkvadda þrjá yfirmatsmenn 13. nóvember 2009. Í matsgerð þeirra 25. mars 2010 var varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins metinn 5 stig og varanleg örorka 7%, en í undirmatsgerð var miskinn metinn 13 stig og örorkan 20%. Á yfirmatsgerðinni eru engir þeir gallar, sem valdið gætu því að horft yrði fram hjá niðurstöðu hennar og byggt þess í stað á undirmatsgerð. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Aðilarnir verða látnir bera hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf. og B, eru sýkn af kröfum áfrýjanda, A.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2012.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 29. febrúar sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […], með stefnu birtri 7. febrúar 2011, á hendur Tryggingamiðstöðinni, Síðumúla 24, Reykjavík og B, […].
Endalegar dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 9.974.389 krónur að viðbættum 4,50% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 529.440 krónum frá 5. nóvember 2007 til 24. maí 2009 og dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 9.974.389 krónum frá 24. maí 2009 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 4.148.564 krónur að viðbættum 4,50% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga af kr. 529.440 frá 5. nóvember 2007 til 24. maí 2009 og dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu af 4.148.564 krónum frá 24. maí 2009 til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafist að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 2.567.623 krónur að viðbættum 4,50% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga af 529.440 krónum frá 5. nóvember 2007 til 24. maí 2009 og dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, af 2.567.623 krónum frá 24. maí 2009 til greiðsludags. Í öllum tilfellum er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.
Af hálfu stefndu er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Til vara er krafist lækkunar á stefnufjárhæð og málskostnaður verði látinn niður falla. Ef bætur verða að einhverju leyti tildæmdar er þess krafist að tildæmd bótafjárhæð beri fyrst dráttarvexti frá 7. febrúar 2011.
II
Málavextir
Hinn 5. nóvember 2007 ók stefnandi bifreiðinni M austur Listabraut í Reykjavík. Á sama tíma var bifreiðinni N ekið norður Ofanleiti og inn á Listabraut í veg fyrir bifreið stefnanda. Litlar skemmdir urðu á framstuðara M en öxull vinstra megin í N brotnaði við áreksturinn. Á Ofanleiti hvílir biðskylda gagnvart umferð á Listabraut.
Stefnandi hafði áður lent í umferðarslysi árið 1998. Hlaut hann þá tognunaráverka á hálsi og brjóst- og mjóbaki, svo og væg eymsli undir hægri hnéskel. Vegna þessara áverka var stefnandi, samkvæmt matsgerð læknanna frá 24. nóvember 2000, metinn til 7 stiga varanlegs miska og 7% varanlegrar örorku. Í matsgerðinni kemur fram að stefnandi hafði lokið grunnskólaprófi árið 1995. Hann hafi síðan farið að læra hárgreiðslu, en ekki lokið því námi er matið hafi verið framkvæmt. Hafi hann átt eftir að ljúka einum vetri í iðnskóla. Hafi hann ætlað að fara í hárgreiðslustarfið árið eftir að matið fór fram, þ.e. á árinu 2001, og reyna að ljúka iðnskólanum.
Með matsgerð læknanna C og D, dags. 7. október 2008, sem unnin var samkvæmt sameiginlegri beiðni málsaðila, var lagt mat á afleiðingar slyssins 5. nóvember 2007 fyrir stefnanda. Í matsgerðinni er haft eftir stefnanda að hann hafi lokið hárgreiðslunámi frá Iðnskólanum […] um áramót 2004-2005. Hann hafi þó lítið unnið við hárgreiðslu. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar er gerð grein fyrir kvörtunum stefnanda á matsfundi og hvað hafi komið fram við skoðun matsmannanna. Töldu matsmenn að stefnandi hefði hlotið væga tognunaráverka á hryggjarsúlu, en rekja mætti núverandi verkjaástand að nokkru til fyrra slyss. Með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar töldu matsmenn varanlegan miska vera 7 stig. Við mat á varanlegri örorku var vikið að því að stefnandi hefði lítið unnið við þá iðngrein sem hann hafði verið að mennta sig til og unnið einkum við bifreiðaakstur, leigubifreiðaakstur og útkeyrslu. Töldu matsmenn að slysið í nóvember 2007 hefði haft þau áhrif að stefnandi ætti erfiðara með öll líkamlega þyngri störf. Var álit þeirra að varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins teldist hæfilega metin 7%. Þá var talið að 5. febrúar 2008, eða þremur mánuðum eftir slysið, hafi heilsufar stefnanda af völdum slyssins verið orðið stöðugt.
Með bréfi 11. október 2008 til stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. krafðist stefnandi bótauppgjörs á grundvelli matsgerðarinnar en með fyrirvara við niðurstöðu matsmanna um varanlegan miska og varanlega örorku. Þá var krafa um varanlega örorku byggð á meðaltekjum iðnaðarmanna. Stefndi hafnaði því og taldi rétt að miða við meðaltekjur stefnanda þrjú síðustu almanaksárin fyrir slys samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þann 28. nóvember 2008 var líkamstjón stefnanda gert upp, m.a. fyrir varanlegan miska og varanlega örorku auk vaxta og kostnaðar, með samtals 1.949.624 kr.
Að beiðni stefnanda voru E hæstaréttarlögmaður og F bæklunarlæknir dómkvaddir til að meta varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda af völdum slyssins 5. nóvember 2007. Samkvæmt matsgerð þeirra, dags. 24. apríl 2009, var talið að stefnandi byggi við aukinn miska frá mjóbaki og hálsi. Að teknu tilliti til metins miska af völdum fyrra slyss og að miski ætti að vera meiri fyrir þá sök að hann hafði menntað sig til hárgreiðslustarfa væri sanngjarnt að meta miska af völdum slyssins til 13 stiga. Þá töldu matsmennirnir að tekjusaga stefnanda benti ekki til mikillar atvinnuþátttöku hans árin fyrir slys. Töldu þeir ljóst að starfsgeta til erfiðari starfa, svo sem við hársnyrtiiðn, væri allnokkuð skert þótt alls ekki væri útilokað að hann starfaði að einhverju marki við slík störf. Hann ætti á hinn bóginn að geta unnið flest hreyfanleg störf, svo sem við akstur, án mikilla takamarkana. Þar sem starfsval stefnanda væri að nokkru skert eftir slysið, og þar sem hann hefði takmarkaða almenna menntun, væri rétt að meta honum nokkra varanlega örorku. Töldu matsmenn varanlega örorku rétt metna 20%.
Að beiðni stefnda voru dómkvaddir þrír yfirmatsmenn til að meta varanlegar afleiðingar slyssins, þeir G og H læknar, og I héraðsdómslögmaður. Samkvæmt yfirmatsgerð þeirra, dags. 25. mars 2010, var talið að stefnandi byggi fyrst og fremst við staðbundin tognunareinkenni í hálsi sem afleiðingu slyssins. Við mat á varanlegum miska var lagt til grundvallar að stefnandi hefði hlotið viðbótartognun í hálsi. Að teknu tilliti til miska af völdum eldra slyss var miskinn metinn 5 stig. Töldu yfirmatsmenn, í ljósi þess að stefnandi hefði hætt iðnnámi sínu árið 2005, unnið stopult við hárgreiðslu og í mörg ár fyrir slysið unnið við ýmislegt annað en tengdist hárgreiðslu, að við mat á varanlegri örorku bæri að leggja til grundvallar að hann hefði unnið ófagleg störf ef hann hefði ekki lent í slysinu. Yrði því að styðjast við líkleg áhrif varanlegra einkenna á ófaglærð störf að teknu tilliti til varanlegra einkenna sem rakin yrðu til slyssins 1998 og annarra atvika er varða takmarkaða atvinnuþátttöku hans. Því væri tekjuskerðing í framtíðinni líkleg af völdum slyssins og hana mætti jafna til 7% varanlegrar örorku. Töldu matsmennirnir að lágt starfshlutfall stefnanda mætti rekja til annarra atvika en slyssins.
Skýrslur fyrir dóminum gáfu stefnandi, J, K, L, O, P, R, E, F, G, H og I.
III
Málsástæður stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, dags. 24. apríl 2009, gefi mun réttari mynd af raunverulegum afleiðingum slyssins en matsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna, dags. 25. mars 2010, enda hafi slysið haft í för með sér mikla skerðingu á atvinnumöguleikum stefnanda, sem sé menntaður hárgreiðslumaður. Starf hárgreiðslumanns sé talsvert krefjandi líkamlega enda fari mestur hluti vinnunnar fram standandi og með hendur í axlarhæð. Eftir slysið hafi einkenni í hálsi, herðum og öxlum gert það að verkum að stefnandi geti ekki unnið þannig standandi klukkustundum saman. Auk þess að starfa sem hárgreiðslumaður hafi stefnandi í gegnum tíðina sinnt öðrum líkamlega krefjandi störfum sem hann eigi einnig erfitt með eftir slysið.
Stefnandi vísar til þess að líkamleg einkenni séu meðal annars verkir frá mjóbaki, upp eftir hryggsúlu og upp í háls sem valdi oft höfuðverk og ógleði. Ef hann þurfi að sitja eða standa lengi fái hann dofatilfinningu fram í fingurgóma, aðallega vinstra megin. Þá stífni hann einnig upp, mest í hálsi, og gerist það einkum þegar hann sitji í bíl og geri það að verkum að hann treystir sér ekki til að keyra leigubifreið eins og hann hafi unnið við um tíma fyrir slysið. Jafnframt eigi hann mjög erfitt með að sinna bóklegu námi og öðrum störfum sem krefjast langvarandi kyrrsetu. Þá hafi hann þurft að hætta að stunda íþróttir eins og hann hafi gert áður. Stefnandi eigi enn fremur erfitt með að bogra og lyfta þungum hlutum og geri það honum erfitt fyrir að stunda heimilisstörf og sinna börnum sínum. Að teknu tilliti til þessa sé ljóst að mat hinna dómkvöddu yfirmatsmanna sé ekki í samræmi við raunverulegar afleiðingar slyssins.
Stefnandi byggir á því að við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku, eigi að miða við meðallaun iðnaðarmanna, þar sem óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Í tilfelli stefnanda sé ljóst að tjón hans geti ekki talist bætt að fullu sé miðað við lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Hann hafi stundað nám í hársnyrtiiðn við Iðnskólann […] frá hausti 1996-2005 og lokið verklegum hluta náms síns á hárgreiðslustofunni Gullsól og tekið þar u.þ.b. 30 mánuði. Haustið 2005 hafi stefnandi til viðbótar lokið 68 af 76 einingum eða 89% af bóklegum hluta hárgreiðslunáms síns. Stefnandi telur því fullljóst að námslok hans hafi verið fyrirsjáanleg þegar slysið varð. Hann hafi ekið leigubíl með skóla árið 2004-2005 í því skyni að afla sér og þáverandi sambýliskonu sinni aukatekna en þau hafi eignast dóttur í maí 2005. Vorið 2006 hafi stefnandi hafið tímabundið störf hjá […] ehf., sem sé rekið af föður hans, bæði í því skyni að afla sér frekari tekna og til að létta undir með föður sínum. Stefnandi hafi hins vegar alltaf haft hug á því að ljúka hárgreiðslunámi sínu og hefja störf sem hárgreiðslumaður. Hann hafi til að mynda verið búinn að gera samning um störf hjá Wink hársnyrtistofu frá og með 1. desember 2007 en vegna slyssins hafi hann ekki getað hafið störf á stofunni eins og ráðgert hafi verið.
Varakröfu sína byggir stefnandi á að uppgjör bóta verði miðað við lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og niðurstöðu dómkvaddra matsmanna frá 29. apríl 2009, en þrautavarakröfu sína miðar hann við niðurstöðu dómkvaddra yfirmatsmanna frá 25. mars 2010 og meðallaun iðnarmanna.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Þann 24. apríl 2009 hafi legið fyrir allar upplýsingar sem nauðsynlegar hafi verið til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttarins og skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 4. – 7. og 16. gr. laganna. Þá vísar hann til laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga og ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987, einkum XIII. kafla. Varðandi kröfu um greiðslu mótframlags í lífeyrissjóð vísar hann til ákvæða laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda o.fl. Varðandi kröfu um dráttarvexti vísast til laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, einkum III. kafla. Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefndu
Af hálfu stefndu er, hvað varðar mat á varanlegum miska og varanlegri örorku, vísað til þess að matsgerð hinna dómkvöddu yfirmatsmanna sé ítarleg og vel rökstudd. Með henni hafi verið hnekkt mati undirmatsmanna. Forsendur undirmatsmanna við mat á varanlegri örorku, að því marki sem þær miðast við það að stefnandi eigi erfiðara með að sinna störfum við hársnyrtiiðn, eigi ekki við rök að styðjast. Yfirmatið sé í fullu samræmi við miskatöflur örorkunefndar. Kvartanir stefnanda um takmarkaða getu sína til að stunda íþróttir vegna afleiðinga slyssins séu ekki þess eðlis að þær geti leitt til hærra miskastigs en yfirmatsmenn hafi metið. Þá séu engin rök til að meta hærri miska sérstaklega vegna þess að hann hafi menntað sig til hárgreiðslustarfa.
Stefndu vísa til þess að samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. laganna vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Mótmæla þeir því að leggja skuli til grundvallar meðallaun iðnaðarmanna við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku til stefnanda. Stefnandi hafi horfið frá námi sínu í hársnyrtiiðn árið 2005 og hafi eftir það ekkert unnið í þeirri starfsgrein þegar hann hafi lent í umferðarslysinu í nóvember 2007. Á því tímamarki hafði hann ekki gert neinn reka að því að ljúka þeim hluta námsins sem hafi verið eftir. Stefndu mótmæla því sem ósönnuðu að hann hafi verið búinn að ráða sig á hárgreiðslustofu frá 1. desember 2007. Hafi því verið ófyrirséð að stefnandi myndi ljúka iðnnámi sínu er slysið hafi orðið eða að hann myndi yfirhöfuð sinna hársnyrtistörfum í framtíðinni.
Stefndu telja að jafnvel þótt fallist yrði á að miða bæri við önnur árslaun við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku en gert hafi verið við uppgjörið í nóvember 2008 sé engu að síður fráleitt að miðað verði við meðaltekjur iðnaðarmanna árið fyrir slysið. Nærtækast sé að miða við neðri fjórðung í launum iðnaðarmanna á slysaárinu, 2007, eins og þau laun séu birt í 5. tölublaði Hagtíðinda árið 2008.
Stefndu telja að ekki sé grundvöllur að lögum, þegar krafa sé miðuð við verðlag í febrúar 2011, að hún beri dráttarvexti á sama tíma og hún taki verðlagshækkunum, sbr. m.a. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Eins og kröfugerð stefnanda sé háttað séu ekki skilyrði til að dæma dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá og með þeim degi sem dómsmál þetta var höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. og síðari málsl. 9. gr. laga nr. 38/2001, eða frá 7. febrúar 2011 að telja.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um rétt stefnanda til frekari skaðabóta vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir hinn 5. nóvember 2007. Ágreiningur er annars vegar um mat á varanlegri örorku og varanlegum miska en hins vegar um það við hvaða tekjur eigi að miða ákvörðun bóta. Sönnunarbyrði um tjón stefnanda, og að uppfyllt séu skilyrði til að víkja frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um tekjuviðmið, hvílir á honum.
Um mat á varanlegri örorku og miska:
Fyrir liggja þrjár matsgerðir um tjón stefnanda. Í matsgerð, dags. 7. október 2008, sem aflað var að beiðni beggja aðila, kom fram að matsmenn töldu að stefnandi hafi hlotið væga tognunaráverka á hryggjarsúlu, en rekja mætti núverandi verkjaástand að nokkru til fyrra slyss. Töldu þeir varanlegan miska vera 7 stig. Við mat á varanlegri örorku var m.a. litið til þess að slysið í nóvember 2007 hafði þau áhrif að stefnandi ætti erfiðara með öll líkamlega þyngri störf. Var álit þeirra að varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins teldist hæfilega metin 7%. Voru bætur til stefnanda gerðar upp (með fyrirvara) með hliðsjón af niðurstöðu þessa mats og meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hvað varðar tekjuviðmið. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 24. apríl 2009, var talið að stefnandi byggi við aukinn miska frá mjóbaki og hálsi. Að teknu tilliti til metins miska af völdum fyrra slyss og að miski ætti að vera meiri fyrir þá sök að hann hafði menntað sig til hárgreiðslustarfa væri sanngjarnt að meta miska af völdum slyssins til 13 stiga. Þar til grundvallar voru 5 stig vegna einkenna frá mjóbaki og 10-15 stig vegna einkenna frá hálsi og leiðniverkjar út í vinstri handlegg. Töldu matsmenn að heildarmiski frá hrygg yrði því ekki metinn meiri en 15-20 miskastig. Eðlilegt væri að draga 5 miskastig frá vegna fyrri áverka og því stæðu 10-15 stig eftir. Þá töldu matsmenn að starfsval stefnanda væri að nokkru skert eftir slysið og þar sem hann hefði takmarkaða almenna menntun væri rétt að meta honum 20% varanlega örorku. Í matsgerð þriggja dómkvaddra yfirmatsmanna, dags. 25. mars 2010, var talið að stefnandi byggi fyrst og fremst við staðbundin tognunareinkenni í hálsi sem afleiðingu slyssins. Við mat á varanlegum miska var lagt til grundvallar að stefnandi hefði hlotið viðbótartognun í hálsi. Að teknu tilliti til miska af völdum eldra slyss var miskinn metinn 5 stig. Töldu yfirmatsmenn, í ljósi þess að stefnandi hafði hætt iðnnámi sínu árið 2005 og unnið stopult við hárgreiðslu í mörg ár fyrir slysið og einnig unnið við ýmislegt annað, að rétt væri að leggja til grundvallar við mat á varanlegri örorku að hann hefði unnið ófagleg störf ef hann hefði ekki lent í slysinu. Yrði því að styðjast við líkleg áhrif varanlegra einkenna á ófaglærð störf að teknu tilliti til varanlegra einkenna sem rakin yrðu til slyssins 1998 og annarra atvika er varða takmarkaða atvinnuþátttöku hans. Því væri tekjuskerðing í framtíðinni líkleg af völdum slyssins og hana mætti jafna til 7% varanlegrar örorku. Töldu matsmennirnir að lágt starfshlutfall stefnanda mætti rekja til annarra atvika en slyssins.
Stefnandi telur að leggja eigi til grundvallar mat dómkvaddra matsmanna frá 24. apríl 2009. Vísar stefnandi m.a. til þess að sú matsgerð gefi mun réttari mynd af raunverulegum afleiðingum slyssins en matsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna, dags. 25. mars 2010, enda hafi slysið skert mjög atvinnumöguleika stefnanda, sem sé menntaður hárgreiðslumaður. Fyrir liggur að stefnandi hefur nú lokið bóklegu námi sem hárgreiðslumaður en fyrir slysið hafði hann lokið verknáminu.
Í skýrslu lögreglu kemur fram að áætlaður hraði bifreiðar stefnanda M hafi verið um 50 km á klst en áætlaður hraði bifreiðarinnar N, sem ekið var á bifreið stefnanda, um 5-10 km á klst. Samkvæmt gögnum sem fyrir liggja um áreksturinn er ekki að sjá að mikið högg hafi komið á bíl stefnanda. Ljósmyndir frá slysstað sýndu rispur á stuðara en enga aflögun á bifreiðinni. Almennt verður að telja líklegra eftir því sem árekstur er harðari að áverki verði meiri og komi fram strax. Samræmist það því sem fram kemur í forsendum mats dómkvaddra undirmatsmanna um að við tognunaráverka sé eðlilegt að öll einkenni séu komin fram að liðnum þremur mánuðum frá slysi. Þótt stefnandi hafi kvartað yfir leiðniáverka á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, sama dag og hann lenti í árekstrinum, er til þess að líta að í sjúkraskrá slysadeildarinnar kemur fram að hann hafi fundið fyrir verk sem leiddi frá hálsi út í hægri handlegg en ekki í vinstri handlegg eða fætur (ritað á ensku:„Now the patient has pain in his back, especially in the lumbar spine and his neck. The pain radiates to his head and his right arm but not in the left one and the leg.“). Er þetta í samræmi við vottorð slysadeildarinnar, dags. 9. febrúar 2008. Við skoðun á Heilsugæslu […] 27. nóvember 2007 komu ekki fram einkenni út í vinstri handlegg, né heldur við skoðun 29. janúar 2008. Í sjúkraskýrslu frá skoðun á heilsugæslustöðinni 25. febrúar 2008 er í fyrsta sinn minnst á einkenni út í vinstri handlegg, sem er meira en þremur mánuðum eftir slysdag. Taugaskoðun S, prófessors í bæklunarlækningum, 9. júní 2008, á handleggjum og fótleggjum stefnanda, var eðlileg. Einnig liggur fyrir sjúkraskrá slysadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss frá 8. september 1998. Stefnandi var þar til endurmats vegna umferðaróhapps 4. sama mánaðar og fram kemur að hann hafi stundum fundið fyrir verk út í handleggi. Að mati dómsins eru því ekki skýr orsakatengsl á milli leiðniverkjar út í vinstri handlegg og umferðaróhapps stefnanda 5. nóvember 2007. Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn að leggja beri til grundvallar niðurstöðu dómkvaddra yfirmatsmanna um mat á tjóni stefnanda. Þannig kemur fram í yfirmatsgerð að miðað við lýsingu á slysinu og miðað við að verkjaleiðni og dofi, sem stefnandi kvartaði mest um út í vinstri handlegg og fingur, hafi komið fram fyrst tæpum fjórum mánuðum eftir slysið verði að telja ólíklegt að þau einkenni tengist slysinu orsakatengslum þar sem þau hafi ekki komið fram strax eða á fyrstu dögum slyssins. Þau einkenni sem stefnandi hafi og hafi orsakasamband við slysið séu fyrst og fremst bundin við háls og herðar. Enn fremur horfa matsmenn réttilega til þess að með hliðsjón af atvinnusögu stefnanda og áðurmetinnar örorku vegna slyssins frá 1998 sé við mat á varanlegri örorku rétt að styðjast við líkleg áhrif varanlegra einkenna á ófaglærð störf.
Um tekjuviðmið:
Eins og fyrr hefur verið rakið telur stefnandi að við uppgjör á bótum til hans vegna varanlegrar örorku sé óeðlilegt að byggja á meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um að miða skuli við þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysið, eða tekjuárin 2004 til 2006. Tekjur hans á þessum árum gefi ekki rétta mynd af framtíðartekjum hans þar sem hann hafi þá stundað önnur störf en þau sem hann hafi menntað sig til. Beri því að meta árslaun hans sérstaklega með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miða við þær tekjur sem hann hefði haft sem hárgreiðslumaður, þ.e. meðallaun iðnaðarmanna. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun tjónþola metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en sá sem fæst með því að beita aðalreglu 1. mgr. 7. gr. um meðalatvinnutekjur tjónþola sjálfs síðustu þrjú almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð. Til þess að unnt sé að fallast á kröfu stefnanda um að beitt verði ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miða við þær tekjur sem hann hefði haft sem hárgreiðslumaður til ákvörðunar bóta verður hann að leiða líkur að því að aðstæður hans hafi á einhvern hátt verið óvenjulegar á viðmiðunartímabilinu að því er tekjuöflun varðar, þannig að annar mælikvarði teljist réttari. Stefnandi vísar til þess að hann hefði alltaf haft hug á því að ljúka hárgreiðslunámi sínu og hefja störf sem hárgreiðslumaður. Hann hafi stundað nám í hársnyrtiiðn frá hausti 1996-2005 og lokið verklegum hluta náms síns. Haustið 2005 hafi stefnandi til viðbótar lokið 68 af 76 einingum eða 89% af bóklegum hluta hárgreiðslunáms síns. Námslok hans hafi því verið fyrirsjáanleg þegar slysið varð. Hann hafi hins vegar ekið leigubíl með skóla árið 2004-2005 í því skyni að afla sér og þáverandi sambýliskonu sinni aukatekna og vorið 2006 starfað tímabundið hjá […] ehf., sem sé rekið af föður hans, bæði í því skyni að afla sér frekari tekna og til að létta undir með föður sínum. Fyrir liggur að stefnandi hvarf frá námi sínu í hársnyrtiiðn árið 2005 og hafði ekkert unnið í þeirri starfsgrein þegar hann lenti í umferðarslysinu í nóvember 2007. Samkvæmt skattframtölum áranna á undan virðast störf hans við hársnyrtiiðn aðeins hafa verið lítill hluti af atvinnuþátttöku hans. Þrjátíu mánaða starfsnám sitt tók hann frá október 1995 til janúar 1998, janúar til júní 2000 og á árinu 2004. Er stefnandi varð fyrir slysinu hafði hann ekki gert neinn reka að því að ljúka þeim hluta bóklega námsins sem hann átti eftir. Þá er hann tekjulágur árin fyrir slysið en samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum námu vinnutekjur stefnanda 702.196 kr. árið 2004, 696.756 kr. árið 2005 og 1.263.669 kr. árið 2006. Voru tekjurnar þannig lægri en lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, leiðrétt samkvæmt lánskjaravísitölu, mælir fyrir um. Samkvæmt framangreindu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi við í hans tilviki. Verður stefndi því alfarið sýknaður af dómkröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og greiðist gjafsóknarkostnaður hans, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, 1.000.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, úr ríkissjóði.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn, ásamt meðdómendunum Jónasi L. Franklín og Þorvaldi Ingvarssyni bæklunarskurðlæknum.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, 1.000.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.