Hæstiréttur íslands

Mál nr. 314/2008


Lykilorð

  • Nytjastuldur
  • Fíkniefnalagabrot
  • Umferðarlagabrot
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Játningarmál
  • Hegningarauki
  • Upptaka


                                     

Fimmtudaginn 4. desember 2008.

Nr. 314/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

Kristni Kristinssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Nytjastuldur. Fíkniefnalagabrot. Umferðarlagabrot. Akstur sviptur ökurétti. Játningarmál. Hegningarauki. Upptaka fíkniefna.

 

K var sakfelldur fyrir vörslur fíkniefna og fyrir að hafa heimildarlaust og sviptur ökurétti ekið bifreið frá Reykjavíkur til Dalvíkur sem hann hafði fengið að reynsluaka hjá bílasölu. K var dæmdur til að sæta fangelsi í níu mánuði og fíkniefni gerð upptæk.Við ákvörðun refsingar K var litið til þess að hann var í níunda sinn fundinn sekur um akstur sviptur ökurétti og höfðu ítrekunaráhrif aldrei rofnað á milli brotanna. Þá rauf K skilorð reynslulausnar. Þann 27. nóvember 2007 var K dæmdur til greiðslu sektar fyrir fíkniefnalagabrot. Var fíkniefnalagabrotið sem K var nú sakfelldur fyrir framið fyrir þann dóm, og bar því að dæma K hegningarauka. Ákærða var því gerð refsing í málinu að teknu tilliti til 78. og 77. gr. almennra hegningarlaga. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar  Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. maí 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.

Skýra ber ákæru 20. febrúar 2008 svo að ákærða sé gefið að sök að hafa heimildarlaust ekið bifreiðinni RM 022 frá Reykjavík til Dalvíkur 10. janúar 2008 sem hann hafði fengið að reynsluaka hjá bílasölu Bílabúðar Benna og er þetta brot hans talið varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði játaði í þinghaldi 26. mars 2008 að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn í heimildarleysi eins og að framan greinir.

Að þessu gættu og með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Fíkniefnalagabrot það, sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt ákæru 8. febrúar 2008, var framið 19. mars 2007. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. nóvember 2007 var ákærði dæmdur til greiðslu 60.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot. Ákærða verður því gerð refsing í máli þessu að teknu tilliti til 78. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms sem og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þykir mega staðfesta hann um refsingu ákærða.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms verða með vísan til forsendna staðfest um upptöku fíkniefna og að því er ákærða snertir um sakarkostnað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Kristinn Kristinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 164.892 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. apríl 2008.

Mál þetta, sem var dómtekið þann 26. mars sl., höfðaði sýslumaðurinn á Akureyri hér fyrir dómi með tveimur ákærum á hendur Kristni Kristinssyni, kt. 060474-3039, Vesturgötu 4, Ólafsfirði, og Bylgju Bjarnadóttur, kt. 200581-3699, Miðtúni 52, Reykjavík.

1.  Ákæruskjal útgefið 20. febrúar 2008, á hendur báðum ákærðu;

„fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa staðið saman að því fimmtudaginn 10. janúar 2008, að taka bifreiðina RM-022, í heimildarleysi frá Reykjavík og aka henni áleiðis til Ólafsfjarðar, uns lögreglan stöðvaði för þeirra skammt frá Dalvík, en bifreið þessa höfðu þau fengið á Bílasölu Bílabúðar Benna á Bíldshöfða í Reykjavík til að fara á henni í stuttan reynsluakstur og gegn ákærða Kristni fyrir að hafa ekið greinda leið sviptur ökurétti.

Brot ákærðu beggja telst varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 20, 1956 og umferðarlagabrot ákærða Kristins við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. lög nr. 44,1993.

Þess er krafist að ákærðu verið dæmd til refsingar.“

2.  Ákæruskjal útgefið 8. febrúar 2008, á hendur ákærða Kristni:

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 19. mars 2007, verið með í vörslum sínum 0,19 grömm af hassi og 0,32 grömm af tóbaksblönduðu hassi í fangaklefa sínum í fangelsinu á Akureyri.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65,1974, sbr. lög nr. 60,1980, sbr. lög nr. 13,1985 og sbr. lög nr. 82,1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana og fíkniefna nr. 233,2001.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á 0,19 grömmum af hassi og 0,32 grömmum af tóbaksblönduðu hassi, sem lögreglan lagði hald á og tilgreint er í efnaskrá nr. 11.661, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233,2001.“

Skipaður verjandi ákærðu krafðist fyrir þeirra hönd vægustu refsingar sem lög heimila, en að auki hæfilegra málsvarnarlauna.  Hann tjáði sig, líkt og sækjandi, um lagaatriði og viðurlög.

I.

Ákærðu hafa fyrir dómi bæði viðurkennt brot sín eins og þeim er lýst í ákærum.  Eru játningar þeirra í samræmi við gögn málsins og teljast brot þeirra því nægjanlega sönnuð og varða við tilgreind lagaákvæði.  Að framangreindu virtu þykja efni til að leggja dóm á málið á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

II.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði Kristinn hlotið 24 refsidóma frá því á árinu 1996, m.a. fyrir brot á hegningarlögum, umferðarlögum og fíkniefnalöggjöfinni.  Hann fékk reynslulausn 10. mars 2007 í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 150 dögum.

Við ákvörðun refsingar ber m.a. að líta til þess að ákærði Kristinn er nú í níunda sinn fundinn sekur um akstur sviptur ökurétti og hafa ítrekunaráhrif aldrei rofnað á milli brotanna.  Ákærði hefur með brotum sínum einnig rofið skilorð framangreindrar reynslulausnar og þar sem ekki þykir fært miðað við sakaferil að láta hana halda sér ber samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að gera honum refsingu fyrir þau brot sem nú eru dæmd með hliðsjón af hinni óafplánuðu fangelsisrefsingu, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005.  Að þessu virtu þykir refsing ákærða Kristins hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins gekkst ákærða Bylgja undir sátt vegna brota á fíkniefnalöggjöfinni þann 28. ágúst 2007.  Eftir atvikum þykir refsing hennar hæfilega ákveðin eins mánaðar fangelsi.  Rétt þykir að fresta fullnustu hennar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi hún almennt skilorð 57. gr. hegningarlaganna.

Gera ber upptæk fíkniefni eins og krafist er í ákæru og nánar er rakið í dómsorði.

Loks ber að dæma ákærðu til að greiða óskipt þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 62.500 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar, 31.960 krónur, samtals 94.460 krónur.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Kristinn Kristinsson, sæti fangelsi í níu mánuði.

Ákærða Bylgja Bjarnadóttir, sæti fangelsi í einn mánuð en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi hún almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs fíkniefni, 0,19 grömm af hassi og 0,32 grömm af tóbaksblönduðu hassi, sbr. efnaskrá lögreglu nr. 11.661.

Ákærðu greiði óskipt þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 94.460 krónur.