Hæstiréttur íslands
Mál nr. 281/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Varnarþing
- Málshöfðunarfrestur
- Stefnubirting
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 14. maí 2013. |
|
Nr. 281/2013.
|
LBI hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Banca Centrale Della Republica Di San Marino (Oddgeir Einarsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki Slit. Riftun. Varnarþing. Málshöfðunarfrestur. Stefnubirting. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli fjármálafyrirtækisins L hf. gegn B. L hf. hafði verið tekið til slita og höfðaði málið til riftunar greiðslu til B. Með vísan til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var talið að L hf. hefði mátt reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Talið var að L hf. hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að miða bæri upphaf málshöfðunarfrests samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði við síðara tímamark en lok kröfulýsingarfrests. Þar sem sótt hafði verið þing af hálfu B við þingfestingu málsins skipti engu hvort honum hefði verið birt stefna á lögmætan hátt. L hf. hafði farið þess á leit að stefna yrði birt fyrir fyrirsvarsmanni B í San Marínó í samræmi við ákvæði samnings um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum. Þá fékk L hf. stefnuna einnig birta í Lögbirtingablaði. Við þingfestingu málsins lagði L hf. fram eintak stefnunnar án þess að henni fylgdu gögn um að hún hefði verið birt B. Síðar lagði L hf. fram afrit af stefnunni sem birt var í Lögbirtingablaði og tölvubréf utanríkisráðuneytisins um að yfirvöld í San Marínó hefðu ekki birt stefnuna þar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við þingfestingu málsins hefðu hvorki verið lögð fram gögn um né hefði L hf. látið þess getið að stefna hefði verið birt í Lögbirtingablaði og af hvaða ástæðu slík birting gæti talist fullnægjandi eins og L hf. hefði verið í lófa lagið að gera. Varð því að líta svo á að L hf. hefði fyrst höfðað málið þegar mætt var af hálfu B við þingfestingu málsins, en þá var liðinn sá frestur sem L hf. hafði til að höfða málið samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um frávísun. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðila til riftunar á greiðslu, sem sá fyrrnefndi innti af hendi til þess síðarnefnda 3. október 2008 eins og nánar er gerð grein fyrir í hinum kærða úrskurði, og endurheimtu fjárhæðarinnar sem greidd var. Varnaraðili krafðist þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi. Sú krafa var reist á því í fyrsta lagi að hann eigi ekki varnarþing hér á landi. Í öðru lagi að héraðsdómsstefna í málinu hafi ekki verið birt honum með lögmætum hætti innan málshöfðunarfrests samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum og málið því ekki höfðað í tæka tíð. Í þriðja lagi að málatilbúnaður sóknaraðila í stefnunni uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 er slitastjórn fjármálafyrirtækis veitt heimild til að krefjast riftunar á ráðstöfunum fyrirtækisins ef ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til að efna skuldbindingar þess, eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Samkvæmt þriðja málslið málsgreinarinnar, sem tekinn var upp í hana með 1. gr. laga nr. 146/2011, skal mál sem slitastjórn höfðar á grundvelli hennar þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki var tekið til slita. Að virtu þessu síðastgreinda lagaákvæði og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 21. september 2012 í máli nr. 485/2012 mátti sóknaraðili reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Í öðrum málslið 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, eftir að honum var breytt með 1. gr. laga nr. 146/2011, er mælt svo fyrir að frestur slitastjórnar til að höfða riftunarmál samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé 30 mánuðir. Samkvæmt því byrjar málshöfðunarfresturinn að líða þegar slitastjórn átti þess kost að gera riftunarkröfu, þó aldrei fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Slitastjórn sóknaraðila var skipuð 29. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti við slit hans 30. október sama ár. Sóknaraðili hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að atvik málsins séu með þeim hætti að miða beri upphaf þessa rúma málshöfðunarfrests við síðara tímamark en lok kröfulýsingarfrests og verður því litið svo á að hann hafi runnið út 30 mánuðum síðar eða 30. apríl 2012.
Þar sem varnaraðili sótti þing við þingfestingu málsins skiptir engu hvort honum var birt stefna á lögmætan hátt, sbr. 4. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því og með vísan til þess sem áður segir stendur eftir að leysa úr því hvort sóknaraðili hafi höfðað málið á hendur varnaraðila innan þess frests sem að framan greinir.
Samkvæmt 93. gr. laga nr. 91/1991 telst mál höfðað þegar stefna er birt eða árituð um viðtöku samrits hennar, sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna, ellegar stefndi mætir að öðrum kosti fyrir dómi þar sem stefnandi afhendir honum samrit stefnu og þingfestir mál. Í samræmi við það segir í 1. mgr. 94. gr. sömu laga að mál sé þingfest með því að stefna er lögð fram fyrir dómi. Við þingfestingu skal stefnandi leggja fram stefnu og þau skjöl sem varða málatilbúnað hans eða hann byggir annars kröfur sínar á, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna.
Samkvæmt kæru sóknaraðila til Hæstaréttar sendi hann utanríkisráðuneytinu í janúar 2012 stefnu í máli þessu ásamt beiðni um að það hefði milligöngu um birtingu stefnunnar í San Marínó og hafi íslenska sendiráðið í Brussel framsent þetta erindi 27. sama mánaðar til sendiráðs San Marínó þar í borg. Íslenska sendiráðinu hafi 8. mars 2012 borist erindi frá erlenda sendiráðinu þar sem komið hafi fram að ekki væri unnt að birta stefnuna með því að gögnin sem send voru hafi hvorki verið vottuð né í frumriti. Hafi sóknaraðili bætt úr þessu og sent gögnin öðru sinni. Þegar frestur til stefnubirtingar var við að renna út án þess að frekari upplýsingar hefðu borist frá yfirvöldum í San Marínó um birtingu stefnunnar fyrir varnaraðila fékk sóknaraðili birta í Lögbirtingablaði 27. apríl 2012 stefnu, sem óumdeilt virðist að hafi verið samhljóða þeirri upphaflegu að öðru leyti en því að í kafla með fyrirsögninni „lagatilvísanir“ hafði til samræmis við 2. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 verið bætt svohljóðandi málslið: „Stefna þessi er birt í Lögbirtingablaði á grundvelli b-liðar 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem birting stefnunnar hefur ekki tekist á hendur stefnda.“ Við þingfestingu málsins 29. maí 2012 lagði sóknaraðili fram eintak stefnunnar eins og hún hljóðaði í upphafi án þess að henni fylgdu gögn um að hún hefði verið birt fyrir varnaraðila eftir einhverri þeirri leið sem um ræðir í 1. til 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Auk stefnunnar lagði sóknaraðili meðal annars fram bréf sitt til varnaraðila 11. maí 2012, þar sem honum var tilkynnt um málshöfðunina og jafnframt að leitað hafi verið eftir því að fá stefnuna birta í heimalandi hans, en sökum þess að ekki hafi borist staðfesting á að það hafi verið gert hafi stefnan verið birt í Lögbirtingablaði 27. apríl 2012. Á hinn bóginn lagði sóknaraðili hvorki fram afrit af stefnunni sem hafði verið birt í Lögbirtingablaði né gögn um þá birtingu eða til stuðnings því að uppfyllt væri það skilyrði b. liðar 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 fyrir slíkri birtingu stefnu að erlend yfirvöld hafi neitað eða látið hjá líða að verða við ósk um að birta hana. Í þinghaldi 23. nóvember 2012 lagði sóknaraðili fram skjal á frönsku sem í þingbók var nefnt yfirlýsing sendiráðs San Marínó 4. maí 2012, en hvorki voru bókaðar frekari skýringar á efni eða tilefni þessarar yfirlýsingar né fylgdi henni þýðing á íslensku. Þegar málið var tekið til munnlegs flutnings um frávísunarkröfu varnaraðila 4. mars 2013 óskaði sóknaraðili eftir því að leggja fram tölvubréf frá utanríkisráðuneytinu ásamt útprenti af rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðsins 27. apríl sama ár, þar sem stefnan hafi verið birt. Þessu andmælti varnaraðili, en í stað þess að taka strax afstöðu til þessa ágreiningsefnis gerði héraðsdómari það ekki fyrr en eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Ákvað hann þá að hafna andmælum varnaraðila og lagði fram gögnin eftir að hafa vísað málinu frá dómi. Í fyrrnefndu tölvubréfi, sem er meðal kærumálsgagna og sent var lögmanni sóknaraðila 31. maí 2012, kom fram að íslenska sendiráðinu í Brussel hafi borist svar frá yfirvöldum í San Marínó, þar sem tilkynnt hafi verið að stefnan sem leitað var birtingar á væri ekki enn í fullnægjandi búningi sökum þess að allar blaðsíður hennar þyrftu ásamt þýðingu að vera vottaðar af íslenskum yfirvöldum.
Samkvæmt framansögðu lagði sóknaraðili við þingfestingu málsins 29. maí 2012 hvorki fram gögn um né lét hann þess getið að stefna í því hafi verið birt í Lögbirtingablaði 27. apríl sama ár og af hvaða ástæðu slík birting gæti talist fullnægjandi, en þetta hefði honum verið í lófa lagið að gera. Þess í stað reyndi sóknaraðili ekki að leggja fram gögn um þetta í viðhlítandi búningi fyrr en í þinghaldi 4. mars 2013. Eins og sóknaraðili lagði málið fyrir héraðsdóm verður, að virtum dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2013 í máli nr. 74/2013, að líta svo á að það hafi fyrst verið höfðað gegn varnaraðila þegar hann mætti við þingfestingu þess 29. maí 2012, sbr. niðurlag 93. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem frestur sóknaraðila til málshöfðunar var þá liðinn samkvæmt framansögðu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, LBI hf., greiði varnaraðila, Banca Centrale Della Republica Di San Marino, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2013.
Mál þetta, sem þingfest var 29. maí 2012, var tekið til úrskurðar mánudaginn 4. mars 2013 að loknum munnlegum málflutningi um kröfu stefnda, Banca Centrale Della Republica Di San Marino, Via del Voltone 120, San Marino, um frávísun. Stefnandi, LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík, krefst þess að kröfu stefnda um frávísun verði hafnað. Báðir aðilar krefjast málskostnaðar.
Yfirlit yfir efnishlið málsins
Í málinu hefur stefnandi uppi þær efniskröfur að staðfest verði með dómi riftun á greiðslu stefnanda, sem þá bar heitið Landsbanki Íslands hf., til stefnda hinn 3. október 2008 að fjárhæð 993.660,77 evrur vegna kröfu að nafnvirði 1.100.000 evrur af skuldabréfaflokki með gjalddaga 10. mars 2009, gefinn var út af Landsbanka Íslands hf., skráður sem EMTN 43-T1 FIN og með ISIN númer XS0187674816. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 993.660,77 evrur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. september 2010 til greiðsludags. Í efnisþætti málsins krefst stefndi sýknu en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar.
Því er lýst í stefnu að hinn 15. maí 2001 hafi Landsbanki Íslands hf. gefið úr útboðslýsingu vegna fyrirhugaðrar útgáfu bankans á skuldabréfum samkvæmt svokölluðum EMTN skuldabréfaramma (e. Euro Medium Term Note Programme, hér eftir nefndur EMTN skuldabréfaramminn). Á næstu árum og allt þar til að bankinn féll 7. október 2008 hafi verið gerðar árlegar uppfærslur á skuldabréfarammanum og við fall bankans hafi heimild hans til þess að gefa út skuldabréf undir rammanum verið orðin 11.000.000.000 evrur.
Vorið 2004 hafi Landsbanki Íslands hf. gefið út skuldabréf með breytilegum vöxtum, samkvæmt framangreindum skuldabréfaramma, að heildarnafnvirði EUR 400.000.000 undir EMTN rammanum. Flokkurinn hafi fengið raðnúmerið 43-T1 FIN. Skilmálar skuldabréfanna hafi komið fram í lýsingu 9. mars 2004 sem Landsbanki Íslands hf. annaðist. Skuldabréfin hafi fengið auðkennið EMTN 43-T1 FIN og ISN númerið XS0187674816. Útgáfan hafi átt að skrá í Lúxemborg. Skuldabréfin hafi verið með breytilegum vöxtum tengdum þriggja mánaða EURIBOR og vaxtálagi 0,25%. Vaxtagjalddagar hafi verið fjórir á ári. Gjalddagi höfuðstóls bréfanna (e. Redemption date) hafi verið ákveðinn 10. mars 2009. Engin uppgreiðsluheimild hafi verið fyrir þann dag. Þá er því lýst að Landsbanki Íslands hf. hafi greitt upp kröfu við stefnda á grundvelli þessara bréfa með greiðslu sem innt var hendi 3. október 2008 að fjárhæð 993.660,77 evrur fyrir bréf að nafnvirði EUR 1.100.000, þó svo að ekki væri komið að gjalddaga bréfanna. Á staðfestingu úr kerfum komi fram að stefndi hafi verið mótaðili bankans, sbr. kóðinn ICSMSMSM sem sé einkenni stefnda.
Í stefnu er einnig lýst þróun fjármálamarkaða og stöðu Landsbanka Íslands hf. fram á haustið 2008 sem lyktaði með því að Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi bankans 7. október 2008 með vísan til 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá er í stefnu gerð grein fyrir því þegar Landsbanki Íslands hf. var tekin til slita samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002 og aðgerðum slitastjórnar við riftun þeirra greiðslna sem áður er lýst.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í meginatriðum á því að Landsbanki Íslands hf. hafi með framangreindum greiðslum greitt skuld við stefnda fyrr en eðlilegt hafi verið á sama tíma og bankinn hafi verið ógjaldfær. Ekki hafi verið komið að gjalddaga þeirra og uppgreiðsluheimild hafi ekki verið fyrir hendi. Við greiðslurnar hafi réttindi og skyldur samkvæmt skuldabréfunum farið á eina hendi og skuldabréfakröfurnar fallið niður. Því séu greiðslurnar riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðsla skuldar, fyrr en nauðsynlegt hafi verið að greiða og með takmörkuðu lausafé bankans, hafi ekki getað verið venjuleg eftir atvikum eða eðlileg ráðstöfun, með hliðsjón af stöðu bankans og íslenska fjármálamarkaðarins.
Málsástæður og lagarök aðila í frávísunarþætti málsins
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun í fyrsta lagi á því að stefndi eigi ekki varnarþing á Íslandi og málið sé því höfðað á röngu varnarþingi. Stefnandi byggi heimild sína til að höfða mál á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. breytingarlög nr. 146/2011 sem tekið hafi gildi 25. október 2011. Heimildin sé undantekning frá þeirri meginreglu alþjóðlegs einkamálaréttar að höfða skuli mál gegn aðila þar sem hann eigi skráð lögheimili. Þegar stefndi hafi átt í þeim viðskiptum sem mál þetta varðar hafi ekki annað legið fyrir en að leyst yrði úr mögulegum ágreiningi um þau lögskipti þar sem heimilisvarnarþing gagnaðila stefnanda er eða í Englandi þar sem samningsvarnarþing aðila hafi verið á grundvelli skilmála útgáfulýsingar. Það feli í sér afturvirka beitingu laga að beita lögum nr. 146/2011 um viðskipti aðila sem lokið hafi árið 2008 og áður en slitameðferð stefnanda hófst. Slíkt brjóti gegn meginreglum stjórnskipunarréttar, sbr. einnig 27. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og rétti stefnda til réttlátrar meðferðar fyrir dómi, sem honum sé tryggður með ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá telur stefndi að breyting á löggjöf sem varði varnarþing feli í sér breytingu á efnisrétti auk þess sem lög nr. 146/2011 brjóti í bága við lögmætar væntingar stefnda sem njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Enn fremur verði að telja að í undanþágureglu 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 felist brot á jafnræðisreglu því verið sé að hygla tilteknum aðilum, slitastjórnum, á kostnað annarra aðila. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 146/2011 sé sérstaklega tekið fram að augljóst hagræði sé fólgið í því fyrir slitastjórnir að geta höfðað mál á Íslandi því annars þyrftu þær að leggja út umtalsverðan sérfræðikostnað við málshöfðun erlendis. Með vísan til framangreinds sé ekki hægt að byggja á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 í þessu máli. Málið sé höfðað á röngu varnarþingi og af þeim sökum beri að vísa því frá dómi.
Stefndi telur í annan stað að málið hafi ekki verið höfðað fyrr en að liðnum málshöfðunarfresti sem kveðið sé á um í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 146/2011. Óumdeilt sé að kröfulýsingafresti í slitameðferð stefnanda hafi lokið 30. október 2009. Með vísan til þess hafi málshöfðunarfresti lokið 30. apríl 2012. Samkvæmt 93. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé málið höfðað með birtingu stefnu, þegar stefna sé árituð eða stefndi mætir við þingfestingu málsins og fær afhent samrit stefnu. Birting samkvæmt framangreindu verði að hafa farið fram innan málshöfðunarfrests. Fyrir liggi að stefna þessa máls sé ekki árituð um birtingu og ósannað sé að stefnan hafi verið birt fyrir stefnda með löglegum hætti. Önnur stefna hafi hins vegar verið auglýst í Lögbirtingablaði 27. apríl 2012. Stefndi telur skilyrði 89. gr. laga nr. 91/1991 fyrir birtingu með auglýsingu í Lögbirtingablaði ekki vera fyrir hendi og málið hafi því ekki verið höfðað með þeirri birtingu. Birting í Lögbirtingablaði sé eingöngu heimil í ákveðnum tilvikum sem séu tæmandi talin í 89. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi vísi til b-liðar fyrrgreindrar 89. gr. um heimild til birtingar í Lögbirtingablaði í stefnunni sem þar hafi verið birt. Í ákvæðinu segir að hafi erlent stjórnvald hafnað birtingu eða látið hjá líða að birta sé unnt að birta með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Í málinu liggi ekki fyrir hvort þetta skilyrði hafi verið uppfyllt enda hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn til sönnunar á því. Skilyrði birtingar með auglýsingu í Lögbirtingablaði séu því ekki uppfyllt. Sönnunarbyrðin um að svo sé hvíli á stefnanda. Þá bendir stefndi á að stefnan sem hafi verið birt með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu sé ekki sú sama og var þingfest 29. maí 2012. Birting stefnunnar sem var þingfest hafi því ekki verið lögmæt. Með vísan til framangreinds byggi stefndi á því að birting stefnu málsins hafi fyrst farið fram með mætingu stefnda við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. maí 2012. Þá hafi þeir 30 mánuðir sem stefnandi hafi haft til höfðunar riftunarmáls verið liðnir. Þar sem málið hafi ekki verið höfðað innan lögbundins málshöfðunarfrests beri að vísa því frá dómi.
Í þriðja lagi byggir stefndi á því að kröfugerð í stefnu sé óljós og vanreifuð og uppfylli ekki meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum e-lið, f-lið og g-lið. Stefndi telur kröfugerðina ekki eiga sér neina stoð í þeim málsgögnum sem stefnandi leggi fram né vera rökstudda í stefnu málsins. Því sé erfitt fyrir stefnda að gera sér grein fyrir því á hvaða grundvelli stefnandi beini kröfum að honum og þar með að verjast þeim. Sönnunarbyrði um það sem stefnandi haldi fram hvíli á stefnanda. Hvergi í málatilbúnaði stefnanda sé fjallað um eða leitast við að rökstyðja með hvaða hætti stefndi eigi að hafa auðgast á viðskiptum með hagsmuni í allsherjarskuldabréfinu. Ekki sé heldur gerð grein fyrir meintu tjóni stefnanda vegna þessa viðskipta. Ætla megi að slík vanreifun leiði ein og sér til frávísunar málsins. Þá séu gögn málsins og umfjöllun í stefnu ekki skýr um hvernig hægt sé að líta svo á að viðskiptin hafi verið greiðsla á skuld. Í málinu sé ekkert sem sýni fram á og sanni að stefndi hafi komið fram gagnvart stefnanda sem kröfuhafi og fengið kröfu á hendur stefnanda greidda. Stefnandi hafi ekki lagt neitt fram því til stuðnings að stefndi hafi átt þá hagsmuni sem hafi verið seldir. Í málatilbúnaði stefnanda sé enn fremur ekki gerð grein fyrir þeirri skuldabréfaútgáfu sem málið varði og þeim sérstöku reglum sem gildi um slíkar útgáfur. Telja verði það grundvallaratriði við mat á því hvort stefnandi eigi þær kröfur á hendur stefnda sem hann haldi fram. Framangreindir vankantar á málatilbúnaði stefnanda séu brot á meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað sem leiði til frávísunar málsins.
Stefnandi mótmælir málsástæðum stefnda um málið sé höfðað á röngu varnarþingi. Vísar hann til þess að skorið hafi verið úr þessu álitaefni í nýlegum dómi Hæstaréttar Íslands sem beri að leggja til grundvallar sem fordæmi í þessu máli. Þá breyti varnarþingsregla 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 146/2011, ekki íslenskum efnisrétti um riftun greiðslna. Með breytingarlögunum frá 2011 hafi verið innleidd meginregla EES réttar um að framkvæmd þrotaskipta fari fram á heimavarnarþingi þrotabús og eftir lögum þess ríkis. Hvað varðar málshöfðunarfrestinn þá telur stefnandi að miða eigi málshöfðun við birtingu stefnu í Lögbirtingablaði 27. apríl 2012. Umsókn um birtingu í San Marino hafi verið send til utanríkisþjónustunni en ekkert hafi heyrst frá þarlendum yfirvöldum og því verið birt í Lögbirtingablaði. Þá hafi verið miðað við að 30 mánaða málshöfðunarfrestur hafi byrjað að líða við lok kröfulýsingarfrests en þó megi miða við að hann hafi byrjað að líða síðar sé litið til þess hversu stórt þrotabúið sé og þess að starfsemi Landsbanka Íslands hf. hafi einnig verið í Englandi og Lúxemborg. Þá hafi stefnandi þurft að óska eftir aðgangi að gögnum sem hafi verið í vörslu annarra. Stefnandi hafi einnig orðið að leita til endurskoðunarfyrirtækis til rannsóknar á málefnum slitabúsins. Niðurstöður þeirrar rannsóknar hafi ekki legið fyrir fyrr en 3. mars 2010 og hafi það verið fyrstu upplýsingar sem slitastjórnin hafi fengið um um þær kröfur sem hér um ræðir. Sé litið til framangreinds hafi 30 mánaða málshöfðunarfresturinn ekki verið liðinn þegar málin voru þingfest 29. maí 2012.
Stefnandi mótmælir einnig málsástæðum stefnda um vanreifun. Tiltekin skuld Landsbanka Íslands hf. við stefnda hafi verið greidd. Það liggi fyrir að stefndi hafi tekið við greiðslunni hvort sem hann hafi verið eiginlegur kröfuhafi eða ekki. Stefnandi telur augljóst að kröfuréttarsamband hafi verið milli bankans og stefnda enda ljóst af framlögðum skjölum að handhafi hvers bréfs hafi verið kröfuhafi. Verði ekki fallist á það hafi stefndi í öllu falli auðgast á greiðslu skuldarinnar. Ekki þurfi þó að sýna fram kröfuréttarsamband hafi verið milli aðila til þess að fá greiðslu rift. Fullyrðingar stefnda um að greiðslan hafi farið til þriðja aðila séu ósannaðar. Gerð sé grein fyrir skuldabréfarammanum í stefnu málsins. Hins vegar hafi fæst af því sem komi fram í skuldabréfarammanum beina þýðingu fyrir þetta mál og því hafi, til einföldunar, ekki verið fjallað um það í smáatriðum. Þá sé lagður fram listi aðila sem hafi ekki fengið greiddar kröfur sínar á grundvelli eins eða sams konar bréfa og hafi því notið annarrar meðferðar en stefndi þessa máls.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi hlutaðist til um birtingu stefnu fyrir fyrirsvarsmanni stefnda fyrir milligöngu utanríkisþjónustunnar. Samkvæmt gögnum málsins töldu yfirvöld í San Marino að þau gögn sem send voru þeim til birtingar ófullnægjandi með hliðsjón af því að allar blaðsíður í stefnu voru ekki vottaðar með viðhlítandi hætti. Í málinu hafa ekki komið fram upplýsingar um gildandi reglur San Marino um birtingu þannig unnt sé að meta hvort synjun þarlendra stjórnvalda sé í samræmi við lög eða hvort líta beri svo á að stjórnvöld ríkisins hafi látið hjá líða að birta stefnuna þannig að heimilt hafi verið að birta hana í Lögbirtingarblaði, samkvæmt b-lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, af þessum sökum.
Samkvæmt gögnum málsins birti stefnandi stefnu í Lögbirtingarblaðinu 27. apríl 2012. Hins vegar er fram komið að þessi stefna var ekki þingfest við fyrirtöku málsins 29. maí 2012 heldur var hún lögð fram við síðari fyrirtöku þess sem sérstakt dómskjal. Samkvæmt þessu, svo og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands 15. febrúar 2013 í máli nr. 74/2013, verður að leggja til grundvallar að sú stefna sem lögð var fram sem dómskjal nr. 1 við þingfestingu málsins 29. maí 2012 hafi ekki verið birt. Hafa framangreind álitamál um beitingu heimildar b-liðar 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 þar af leiðandi ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins.
Krafa stefnda um frávísun málsins vegna ófullnægjandi birtingar stefnu kom fram í greinargerð hans og telst því nægilega snemma fram komin. Með vísan til mótmæla stefndu er því skylt að vísa málinu frá dómi. Er þá ekki þörf á því að fjalla um önnur þau atriði sem stefndi telur að eigi að leiða til frávísunar málsins.
Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnda flutti máli Borgar Þór Einarsson hdl.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes Sigurðsson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, LBI hf., greiði stefnda, Banca Centrale Della Republica Di San Marino, 500.000 krónur.