Hæstiréttur íslands

Mál nr. 232/2013


Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Skilorð
  • Ákæra


                                                         

Fimmtudaginn 31. október 2013.

Nr. 232/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson

vararíkissaksóknari)

gegn

Guðjóni Jónssyni

(Valtýr Sigurðsson hrl.)

Fjárdráttur. Skilorð. Ákæra.

G var ákærður fyrir fjárdrátt með því að hafa ráðstafað fjármunum A ehf. í eigin þágu. G var hafði verið framkvæmdastjóri og prókúruhafi A ehf. og þá átti hann 90% í öðru félagi sem átti A ehf. að öllu leyti. Fénu varði G til að standa straum af kostnaði vegna málsóknar annars félags sem hann átti hlut í en virti með því að vettugi gjaldfallnar skuldir A ehf. kröfuhöfum þess til tjóns. Vegna þessa var G fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var G einnig ákærður vegna kaupa hans á bifreið af A ehf. Hafði G ekki greitt félaginu umsamið kaupverð og var brotið heimfært til 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga í ákæru. G var sýknaður af þessum hluta ákærunnar þar sem verknaðarlýsing hennar að þessu leyti fól í sér innbyrðis mótsögn. Þá var talið að verknaðurinn gæti ekki fallið undir 249. gr. almennra hegningarlaga þar sem annar maður hafði sem stjórnarmaður A ehf. ritað undir kaupsamninginn fyrir hönd félagsins. Var G dæmdur í átta mánaða fangelsi en þar af voru sex mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð. 

I

Einkahlutafélagið A var stofnað í nóvember 1999 og samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá var tilgangur þess kaup og sala og rekstur fasteigna ásamt annarri eignaumsýslu. Á þeim tíma, sem ákæra málsins tekur til, mun eini eigandi hlutafjár í félaginu hafa verið einkahlutafélagið C, en í því félagi mun ákærði hafa átt 90% hlutafjár og eiginkona hans 10%. Ákærði var framkvæmdastjóri A ehf. og fór sem slíkur með prókúruumboð fyrir félagið. Þá var hann varamaður í stjórn þess. D sat frá 12. september 2006 í stjórn félagsins sem aðalmaður, en sú breyting var gerð 28. ágúst 2009 að F var kjörinn stjórnarmaður í félaginu í hennar stað.

Bú A ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 28. október 2010. Í tilkynningu skiptastjóra þrotabúsins 4. janúar 2011 til ríkislögreglustjóra samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna rökstudds gruns um auðgunarbrot kom fram að við yfirferð gagna búsins og skýrslutökur af ákærða sem fyrirsvarsmanni þess hafi komið í ljós að í upphafi hvers mánaðar frá mars 2009 til október 2010 hafi reikningur félagsins hjá Landsbankanum hf. verið tæmdur og fjárhæðirnar lagðar inn á reikning ákærða. Hafi úttektirnar oft numið um 800.000 krónum á mánuði og um verið að ræða leigugreiðslur sem félagið fékk vegna á útleigu á einu fasteign þess að [...]. Jafnframt var athygli vakin á „meðferð“ ákærða á bifreið af gerðinni [...], sem bar skráningarnúmerið [...]. Hafi bifreiðin verið í eigu A ehf. til 28. ágúst 2009 er hún virðist hafa verið seld ákærða fyrir 1.200.000 krónur samkvæmt kaupsamningi og afsali þann dag, en þó þannig að ákærði hafi skuldbundið sig til að ráðstafa kaupverði bifreiðarinnar til kostnaðar vegna málaferla G ehf. í Serbíu „til tryggingar á endurgreiðslu skuldar G við A ehf.“

Ákærði hefur játað að hafa í tuttugu skipti á tímabilinu frá mars 2009 til og með október 2010 millifært samtals 15.719.280 krónur af reikningi A ehf. hjá Landsbankanum hf. yfir á eigin reikning hjá sama banka. Hefur ákærði gefið þær skýringar á millifærslunum að vorið 2007 hafi hann eignast hlut í einkahlutafélaginu G, en það félag hafi verið stofnað til kaupa á tilgreindri fasteign í Belgrad í Serbíu. Hafi G ehf. keypt 74,5% hlut í serbnesku félagi, sem átt hafi 1.140 fermetra fasteign í Belgrad. Í september 2008 hafi ákærði fengið veður af því að búið væri að færa umrædda eign yfir á nafn annars félags. Af þessu hafi hlotist kostnaðarsöm málaferli í Serbíu sem G ehf. hafi átt aðild að og ákærði fjármagnað að verulegu leyti. Ákærði kvaðst hafa talið sér heimilt sem eina eiganda A ehf. að millifæra fyrrgreindar 15.719.280 krónur af reikningi félagsins yfir á eigin reikning og jafnframt skylt að verja hagsmuni félagsins með því að nota féð til að greiða kostnað vegna málaferlanna í Serbíu. Hafi ákærði litið á féð sem lán félagsins til sín, en enginn lánssamningur þó verið gerður.

Með kaupsamningi og afsali 28. ágúst 2009, er áðurnefndur F ritaði sama dag undir sem stjórnarmaður í A ehf. fyrir hönd félagsins sem seljandi, var fyrrnefnd bifreið þess, [...], seld ákærða og ritaði hann undir skjalið sem kaupandi hennar. Umsamið kaupverð var 1.530.000 krónur. Staðgreiða skyldi 1.200.000 krónur, en „aðrar greiðslur“ áttu að vera 330.000 krónur. Í framhaldi af tilgreiningu kaupverðs bifreiðarinnar sagði: „Kaupandi skuldbindur sig til að ráðstafa kaupverði á [...] til kostnaðar v. málaferla G ehf. í Serbíu til tryggingar á endurgreiðslu skuldar G við A ehf.“ Ákærði kvaðst sem öryrki hafa fengið 1.200.000 króna styrk frá Tryggingastofnun ríkisins til kaupa bifreiðarinnar og hafi hann ráðstafað því fé á sama hátt og leigugreiðslunum inn á kostnað vegna málaferlanna í Serbíu.

Skiptum í þrotabúi A ehf. lauk 10. febrúar 2011. Eina eignin sem fannst í búinu var fyrrgreind fasteign að [...]. Samkvæmt kröfuskrá námu lýstar kröfur 100.866.816 krónum. Þar af nam veðkrafa NBI hf., áður Landsbankans hf., sem fjármagnaði kaup A ehf. á fasteigninni, 70.605.894 krónum. Upp í veðkröfur vegna fasteignarinnar greiddust 54.000.000 krónur, en ekkert fékkst greitt upp í almennar kröfur.   

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í starfi sínu sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi A ehf. á tímabilinu mars 2009 til og með október 2010 dregið sér samtals 15.719.280 krónur með því að hafa í tuttugu skipti millifært fé af tilgreindum bankareikningi einkahlutafélagsins inn á nánar tiltekinn reikning sinn hjá Landsbankanum hf. Jafnframt var hann sakfelldur fyrir sams konar brot með því að hafa í fyrrgreindu starfi fyrir einkahlutafélagið dregið sér bifreiðina [...], sem hann hafði samkvæmt áðursögðu keypt 28. ágúst 2009 af félaginu fyrir 1.530.000 krónur án þess að gera skil á kaupverði hennar.

II

Ákærði átti ásamt fleirum hlut í G ehf., en það félag stóð sem fyrr segir í fasteignaviðskiptum í Serbíu og festi í því skyni kaup á verulegum hluta í serbnesku félagi, en það félag mun hafa átt tiltekna fasteign. Vegna þessara fjárfestingaráforma, sem til var stofnað í hagnaðarskyni, samþykkti ákærði í desember 2007 fyrir hönd A ehf. að félagið gengist í 13.000.000 króna ábyrgð fyrir yfirdráttarskuld G ehf. við Landsbankann hf., þrátt fyrir að fyrrnefnda félagið ætti enga aðild að viðskiptum þessum. Ábyrgðin féll síðan á félagið í janúar 2008. Þegar ljóst varð að fasteignaviðskiptin í Serbíu þróuðust ekki á þann veg, sem að var stefnt af hálfu ákærða og annarra eigenda G ehf. og til málaferla kom þar í landi af þeim sökum, ákvað ákærði að ráðstafa leigutekjum A ehf. af fasteign félagsins að [...], sem voru einu tekjur félagsins, mánaðarlega í eigin þágu og í ávinningsskyni á þann hátt sem í ákæru greinir, en virti á sama tíma að vettugi gjaldfallnar skuldir félagsins, kröfuhöfum þess til tjóns. Hefur ákærði með þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök í þessum kafla ákærunnar, gerst sekur um fjárdrátt samkvæmt 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga.

Í síðari kafla ákærunnar er ákærða gefinn að sök fjárdráttur en til vara umboðssvik „með því að hafa í starfi sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi einkahlutafélagsins A, þann 28. ágúst 2009, misnotað aðstöðu sína og dregið sér bifreiðina [...] ... þegar hann með kaupsamningi keypti bifreiðina af félaginu A ehf., fyrir samtals kr. 1.530.000, án þess að hafa gert skil á umræddu kaupverði við félagið A ehf. og þannig ráðstafað fjármununum í eigin þágu og málarekstur í Serbíu sem varðar lögaðila óskyldan A ehf.“

Í þessari verknaðarlýsingu í ákæru er ákærði sagður hafa með kaupsamningnum tekist á herðar þá skyldu að greiða umsamið kaupverð fyrir áðurnefnda bifreið á nánar tiltekinn hátt, en samhliða því er honum gefið að sök að hafa „dregið sér bifreiðina“ og þar með brotið gegn 247. gr. almennra hegningarlaga. Í verknaðarlýsingunni felst þannig innbyrðis mótsögn sem leiðir til þess að sýkna verður ákærða af sakargiftum um brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga. Til vara eru ákærða gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga með því að hann hafi misnotað aðstöðu sína með framangreindum hætti. Samkvæmt þeirri grein er það refsivert ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til að gera eitthvað, er annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína. Í þessu sambandi er á það að líta að það var fyrrgreindur F sem ritaði sem stjórnarmaður A ehf. undir kaupsamninginn um bifreiðina fyrir hönd félagsins sem seljanda og skuldbatt það samkvæmt því, en ekki ákærði. Verður ákærði því á sama hátt og áður segir einnig sýknaður af broti gegn 249. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði hefur samkvæmt framansögðu verið sakfelldur fyrir fjárdrátt með því að hafa ráðstafað um hver mánaðamót frá og með mars 2009 til og með október 2010 samtals 15.719.280 krónum af reikningi A ehf. hjá Landsbankanum hf. yfir á eigin reikning hjá sama banka og þaðan í eigin þágu. Var þannig um ræða kerfisbundnar greiðslur af reikningi A ehf. samfellt í tuttugu mánuði og lét ákærði sér engu varða að standa skil á skuldum félagsins við kröfuhafa þess. Að þessu virtu og þegar litið er til þeirrar fjárhæðar, sem ákærði dró sér, en einnig til þess að hann játaði brot sitt afdráttarlaust og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.    

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Guðjón Jónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 270.104 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Valtýs Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. febrúar 2013.

Mál þetta, sem þingfest var 6. nóvember sl. og dómtekið 28. janúar 2013, var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, dagsettri 28. september 2012, á hendur Guðjóni Jónssyni, kt. [...], [...];

I.

„Fyrir fjárdrátt en til vara umboðssvik með því að hafa í starfi sem framkvæmdarstjóri og prókúruhafi einkahlutafélagsins A, kt. [...], á tímabilinu mars 2009 til og með október 2010, misnotað aðstöðu sína og dregið sér fé samtals kr. 15.719.280, þegar hann í alls tuttugu skipti millifærði fé af bankareikningi félagsins A ehf., nr. [...] hjá Landsbanka Íslands hf., inn á sinn persónulega reikning, nr. [...] hjá Landsbanka Íslands hf., og þannig ráðstafað peningunum í eigin þágu og málarekstur í Serbíu sem varðar lögaðila óskyldan A ehf. Um er að ræða eftirtaldar færslur:

Dagsetning                           Upphæð

6.3.2009                                               817.553 kr.

6.4.2009                                               526.644 kr.

6.5.2009                                               633.763 kr.

5.6.2009                                               786.802 kr.

6.7.2009                                               733.200 kr.

6.8.2009                                               809.000 kr.

4.9.2009                                               794.382 kr.

6.10.2009                             667.036 kr.

6.11.2009                             806.379 kr.

4.12.2009                             826.000 kr.

6.1.2010                                               788.490 kr.

5.2.2010                                               837.867 kr.

5.3.2010                                               838.980 kr.

6.4.2010                                               841.881 kr.

6.5.2010                                               834.403 kr.

7.6.2010                                               838.731 kr.

6.7.2010                                               840.335 kr.

6.8.2010                                               828.866 kr.

6.9.2010                                               887.390 kr.

6.10.2010                             781.578 kr.

II.

Fyrir fjárdrátt en til vara umboðssvik með því að hafa í starfi sem framkvæmdarstjóri og prókúruhafi einkahlutafélagsins A, þann 28. ágúst 2009, misnotað aðstöðu sína og dregið sér bifreiðina [...], [...], þegar hann með kaupsamningi keypti bifreiðina af félaginu A ehf., fyrir samtals kr. 1.530.000, án þess að hafa gert skil á umræddu kaupverði við félagið A ehf. og þannig ráðstafað fjármununum í eigin þágu og málarekstur í Serbíu sem varðar lögaðila óskyldan A ehf.

Telst háttsemi ákærða varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til vara 249. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu þrotabús A ehf. er þess krafist að Guðjóni Jónssyni verði gert að greiða þb. A ehf., kt. [...], 15.719.280 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. október 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að krafa þessi verður birt honum, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 89.000 krónur hinn 23. júní 2009.-“

Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og kvað þá háttsemi sem lýst er í ákærulið I rétta utan að hann kvaðst setja spurningu við að fénu hafi verið ráðstafað í eigin þágu. Varðandi ákærulið II viðurkennir ákærði að hafa keypt bifreiðina eins og segir í ákæruliðnum en samþykkti ekki að hafa ráðstafað fénu í eigin þágu. Ákærði samþykkir framkomna bótakröfu.

Aðalmeðferð fór fram 28. janúar sl. Krafðist ákærði sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.

Málsatvik.

Aðdragandi máls þessa er að þann 28. október 2010 var bú A ehf., kt. [...],[...],[...], tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og var B hdl. skipaður skiptastjóri. Sendi skiptastjóri ríkislögreglustjóra tilkynningu, skv. 84. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, um rökstuddan grun um auðgunarbrot ákærða. Samkvæmt gögnum málsins var eini eigandi hluta í A ehf. C ehf. Eigendur hluta í C ehf. voru ákærði með 90% hluta í félaginu og D með 10% hluta í félaginu. Var ákærði skráður framkvæmdastjóri A ehf. og einnig stjórnarmaður ásamt D. A ehf. átti eina fasteign, [...], sem félagið leigði út til E ehf. Námu mánaðarlegar leigugreiðslu 800-900.000 krónum á mánuði.

                Í 16. gr. samþykkta fyrir A ehf. segir að stjórn félagsins skuli skipuð einum aðalmanni og varamanni. Aðalmaður og varamaður skuldbindi félagið sameiginlega. Þá segir í 18. gr. að stjórn félagsins ráði framkvæmdastjóra og veiti honum prókúruumboð fyrir félagið. Framkvæmdastjóri hafi með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og komi fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varði venjulegan rekstur. Með tilkynningu til Fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra 12. september 2006 tilkynnti ákærði breytingu á framkvæmdastjórn félagsins þar sem hann var sjálfur skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Þá tilkynnti ákærði einnig breytingu á stjórn þann sama dag þannig að ákærði var varamaður í stjórn en D, kt. [...], var formaður stjórnar. Á stjórnarfundi 28. ágúst 2009 var F kjörinn sem stjórnarmaður og ákærði sem varamaður. Ákærði var áfram framkvæmdastjóri með prókúru. Var skiptum lokið á búi A ehf. þann 10. febrúar 2011 og félagið afskráð 17. febrúar 2011. Var einu eign búsins, fasteigninni að [...], ráðstafað til veðhafa. Lýstar kröfur í búið námu 128.150.832 krónum auk áfallinna vaxta og kostnaðar og greiddust alls 54.000.000 króna upp í veðkröfur. Ekkert fékkst greitt upp í almennar eða eftirstæðar kröfur.

                Upplýst hefur verið í málinu að ákærði var einn hluthafa í G ehf., kt. [...], ásamt fjórum öðrum aðilum. Gekkst ákærði, fyrir hönd A ehf., í ábyrgð fyrir G ehf., vegna yfirdráttarskuldar G ehf., á veltureikningi hjá Landsbankanum. Þau gögn sem staðfesta ofangreinda ábyrgðaryfirlýsingu í málinu eru afrit yfirlýsingar ákærða fyrir hönd A ehf., frá 20. desember 2007, millifærslukvittun frá 7. febrúar 2008 og tilkynning til ábyrgðarmanns frá 9. nóvember 2009. Þá lýsti skiptastjóri A ehf. kröfu í þrotabú G ehf., þann 10. janúar 2011, vegna ofangreindrar ábyrgðar að höfuðstól 13.500.000 krónur auk vaxta, en bú G ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 4. nóvember 2010.

                Samkvæmt frásögn ákærða hjá skiptastjóra keypti G ehf. 74,5% hlut í félaginu H í Serbíu. Hafi það félag átt 1.140 fm fasteign að [...] í Belgrad í Serbíu. Í fasteigninni hafi verið m.a. 99 ára samningur við ríkið varðandi 420 fm. hennar. Aðrir aðilar að þessari eign voru I , Serbíu, ásamt fjórum öðrum aðilum. Kaupin hafi verið m.a. fjármögnuð gegnum íslenska aðila sem hafi lagt fé inn á reikning G ehf., þann 31. desember 2007. Framkvæmdastjóri G, J, hafi eytt þeim peningum í allt annað. Ákærði, sem var einn af eigendum G, og aðrir eigendur hafi ekki komist að þessu strax. Í framhaldi hafi verið farið út í að vinna að endurfjármögnun á félaginu. Reynt hafi verið að bjarga málum og þau kynnt fyrir aðila sem var með fjármögnunarfélag. Þeirri vinnu hafi lokið í júní 2008. Hafi J útbúið gjafagerning í júní og júlí 2008 þannig að eignarhlutur G ehf. í áðurnefndri byggingu hafi verið færður yfir til K og félags í hans eigu, en K verið fenginn til að vera framkvæmdastjóri H ásamt því að hann hafi verið í stjórn G. Í september 2008 hafi ákærði og aðrir eigendur G fyrst fengið veður af því að búið var að færa eignina yfir á þriðja aðila án þess þó að fá það staðfest en það hafi síðan verið staðfest í apríl 2009. Þá hafi barátta ákærða og annarra eigenda G við að fá hlutina á hreint hafist. Botnlaus vinna hafi farið í að reyna að vinda ofan af þessu. A ehf. hafi verið í ábyrgð fyrir yfirdráttarheimild sem G ehf. hafi verið með hjá Landsbankanum, ásamt nokkrum eigendum G ehf., persónulega. Bankinn hafi gengið að A fyrir þeirri heimild sem sé upphafið að greiðsluerfiðleikum A ehf. Kvað ákærði starfsemi félagsins A ehf. hafa falist í rekstri fasteigna og hafi fasteign félagsins verið leigð út. Engir aðrir hafi komið að rekstri félagsins.

                Í gögnum málsins liggur fyrir að 15.630.280 krónur voru millifærðar af reikningi A ehf. yfir á einkareikning ákærða. Þá liggur fyrir skjal, samið af ákærða sjálfum, um millifærslur í gegnum Western Union að fjárhæð 6.836.752 krónur á tímabilinu 2. apríl 2009 til 15. nóvember 2010. Engin gögn eru í málinu sem staðfesta það. Hins vegar liggja fyrir afrit af millifærslum í gegnum Western Union á árunum 2009 og 2010 og má lesa skýringar þar á nokkrum greiðslum, „gjöf“. Þá má sjá sömu dagsetningar á nokkrum millifærslum og á skjali ákærða þótt fjárhæðir sjáist ekki á fylgiskjölum. Einnig liggur fyrir skjal frá Landsbanka Íslands þar sem fram kemur að ákærði hafi millifært til Serbíu, á tímabilinu 16. október 2009 til 9. apríl 2010, samtals 1.999.272 krónur. Eru þar sömu dagsetningar að hluta og á skjali ákærða. Fær sú fjárhæð að mestu stoð í öðrum gögnum málsins. 

                Í gögnum málsins liggur fyrir bréf Tryggingastofnunar ríkisins, dagsett 25. ágúst 2009, þar sem samþykkt er að veita ákærða styrk til bifreiðakaupa að fjárhæð 1.200.000 krónur. Þá liggur fyrir afrit af kaupsamningi og afsali milli A ehf. og ákærða þar sem ákærði kaupir bifreiðina [...], [...], árgerð [...], af A. Er kaupverð sagt vera 1.580.000 krónur sem greiðist með 1.200.000 krónum frá TR og 380.000 krónum. Þá er handritað á samninginn að kaupandi skuldbindi sig til að ráðstafa kaupverðinu á [...] til kostnaðar vegna málaferla A ehf. í Serbíu til tryggingar á endurgreiðslu skulda G ehf. við A. Undir afsalið ritar ákærði sem kaupandi en F, fyrir hönd A ehf., sem seljandi. Samkvæmt gögnum málsins var fjárhæðin frá TR, 1.200.000 krónur, lögð inn á bankareikning ákærða 3. september 2009. Ekkert var greitt af kaupverðinu inn á reikning A ehf.

Skýrslur fyrir lögreglu og dómi.

Ákærði lýsti því svo hjá lögreglu að ástæða gjaldþrots A ehf. [...], hafi verið ábyrgð félagsins að fjárhæð 13.000.000 króna sem Landsbanki Íslands var með vegna G ehf. [...]. G  hafi keypt fasteign í Serbíu sem átti að selja en það ekki gengið sökum pretta félaga þeirra. Í framhaldi hafi barátta fyrir því að fá eignina til baka hafist fyrir dómstólum og væri niðurstaða ekki enn komin í það mál.  Hafi ákærða fundist það skylda sín að nota fé A til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni og borga lögmönnum í Serbíu, til að ná eigninni til baka, og kostnað í kring um allt málið. Hafi þeir peningar verið eyrnamerktir skattaskuld A. Kvað ákærði að hann hafi verið eini aðilinn sem kom að rekstri A, hann hafi verið framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Aðrir hafi ekki komið að neinum gjörningum fyrir félagið. Kvaðst ákærði hafa talið að með ábyrgð sinni fyrir G hjá Landsbankanum hafi hann ekki verið að leggja félagið A í neina fjárhagslega hættu. Aðspurður um heimild ákærða fyrir þeim millifærslum sem ákært er fyrir í ákærulið I, kvaðst hann hafa veitt sér sjálfur heimild til að millifæra fjármunina. Aðspurður kvað hann strangt til tekið að féð hafi verið eign A en hann hafi sjálfur verið eigandi A. Þá kvaðst ákærði hafa millifært fjármunina inn á bók sem var í persónulegri eigu hans í Landsbankanum og hann hefði einnig millifært á aðra reikninga í persónulegri eigu sinni. Skýrði ákærði út að hann hefði notað Western Union til að millifæra peninga til Serbíu og hann hefði einnig fengið aðra til að millifæra fyrir sig. Hann hafi tekið út peninga af sínum reikningi í þessum tilgangi því að það hafi verið hámark á þeim fjárhæðum sem hægt var að millifæra í einu í gegnum WU. Taldi ákærði að hann hafi greitt lögmanni sínum í Serbíu á sjöttu milljón króna vegna málarekstursins. Kvaðst ákærði hafa litið á féð, sem hann millifærði yfir á sig persónulega frá A, sem lán, hann hafi verið að verja hagsmuni A með því að fara í málaferlin úti í Serbíu. Enginn lánasamningur hafi verið gerður milli hans og A. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið farinn að velta því fyrir sér á árinu 2010 hvort ekki væri komið nóg varðandi málaferlin í Serbíu. Aðspurður kvað ákærði strangt til tekið að A hafi átt þá fjármuni sem hann millifærði yfir á sig en liti á sig og A sem eitt þar sem hann ætti A. Viðurkenndi ákærði að hafa farið út fyrir þau lög sem gilda varðandi fyrirtæki og rekstur þeirra, þannig að hann hefði kannski átt að greiða gjöld A fyrst. Þá kvað hann þá ákvörðun að nota fé A í málareksturinn hafa verið ranga og komið A í gjaldþrot.

                Ákærði lýsti aðdraganda gjaldþrots A ehf. með sama hætti fyrir dómi og hjá lögreglu. Kvað hann A hafa gengist í ábyrgðir fyrir G, að fjárhæð þrettán milljónir króna, en Landsbankinn hafi gengið á ábyrgðina í ágúst 2008. Í framhaldi hafi hann þurft að fjármagna málaferlin úti í Serbíu og kostnað við að verja sig og þá sem hafi lagt þeim lið í þeim fjárfestingum. Þetta hafi verið eina leiðin sem hann hafði til að leggja málinu lið, bæði vegna lögfræðikostnaðar og annars sem málarekstrinum fylgdi. Þeir, sem hafi staðið að málarekstrinum, hafi verið G,  ákærði, L og F. Kvaðst ákærði hafa talið sig hafa haft heimild til að millifæra umrædda fjármuni en hann hafi veitt sér þá heimild sjálfur. A hafi átt þá fjármuni en félagið hafi líka átt þá fjármuni sem gengið var að. Eftir miklu hafi verið að slægjast í Serbíu því tilboð hafi legið á borðinu í janúar 2008  frá fjárfestum í Serbíu í fasteign þá sem þeir voru að kaupa upp á tólf milljónir evra, sem félagar ákærða, J og N, hafi séð um að ekki hafi verið tekið. Hafi ákærði og fleiri verið í viðræðum við fjárfesti í desember 2007 vegna fjármögnunar á þeirri fasteign í Serbíu. A ehf. hafi ekki átt hlut í G. Þá sé A ekki aðili að þessu dómsmáli sem rekið er af hálfu G, í Serbíu. Kvað hann málareksturinn í Serbíu hafa kostað miklu miklu meira en þá fjármuni sem teknir voru út úr A. Ákærði kvaðst hafa notað þessa fjármuni í lögfræðikostnað, ferðalög fram og til baka, uppihald, fæði og gistingu en menn hafi þurft að vera í Serbíu vikum saman í tengslum við málareksturinn. Ákærði kvað bankahrunið 2008 hafa haft mikil áhrif á skuldir A. Afborganir lána hafi hækkað mikið. Félagið hafi fengið leigutekjur mánaðarlega sem bankinn hafi haft heimild til að skuldfæra af reikningi félagsins. Ákærða hafi verið ráðlagt að hætta að greiða af lánum félagsins og til að bankinn gæti ekki skuldfært féð af reikningnum hafi ákærði millifært leigutekjurnar af reikningi A yfir á sinn persónulega reikning. Því hafi hann tekið féð strax út af reikningnum til að bankinn gæti ekki skuldfært af reikningnum mánaðarlega.

                Ákærði kvað [...] D hafa á tímabili verið skráða sem stjórnarmann auk þess að F hafi komið í stjórn félagsins þegar D fór úr stjórninni. Ákærði kvaðst ekki hafa getað verið stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi í einu samkvæmt lögum. Því hafi [D] og síðan F verið munstruð sem formenn stjórnar. Ákærði hafi hins vegar séð alfarið um allan rekstur og ákvörðunartöku, þau hafi aldrei komið að neinu varðandi félagið, nema formsins vegna. Kvað hann það fé sem hann millifærði af reikningum félagsins yfir á sinn reikning hafa verið lán til hans frá A. Það hafi hins vegar ekki verið gerður neinn lánasamningur né fært í bókhald félagsins.

                Ákærði lýsti ástæðum bifreiðakaupanna svo að hann hafi verið kominn upp við vegg fjárhagslega vegna málarekstursins í Serbíu. Ákærði hafi átt rétt á styrk til bifreiðakaupa sem hann hafi nýtt sér. Ákærði kvaðst hafa haft samband við nokkrar bílasölur til að fá verð á bifreiðina. Hann hafi farið milliveginn á uppgefnu verði. Greiðsla hafi komið frá Tryggingastofnun ríkisins, 1.200.000 krónur. Réttast hefði verið að færa það inn á reikning A og síðan fá það lánað hjá félaginu. Ákærði hafi því sett skilyrði í kaupsamninginn til að tryggja að þeir fjármunir gengu aftur til A. Ákærði kvaðst hafa samið samninginn sjálfur auk skilmálanna.

                Ákærði kvað aðra sem stóðu í málarekstrinum í Serbíu ekki hafa haft mikla fjármuni til að leggja í málareksturinn. Ákærði hafi því dregið vagninn og verið sá eini sem hafi getað lagt eitthvert fé til málsins. Heiðursmannasamkomulag hafi verið gert við skiptastjóra G ehf., að allur málskostnaður yrði greiddur fyrst þegar málið ynnist í Serbíu. Taldi ákærði að ef málið ynnist í Serbíu þá myndu þeir sem hafi lagt fé til málsins fá sín framlög greidd.

                B, héraðsdómslögmaður og skipaður skiptastjóri A ehf., gaf skýrslu sem vitni fyrir dóminum. Kvaðst hann hafa tekið skýrslu af ákærða og innt hann eftir skýringum á fjármunum félagsins. Kvað hann ákærða hafa lýst atvikum á sama hátt og ákærði hafi gert fyrir dóminum en ákærði hafi ekki nefnt það við skýrslutöku að millifærslurnar hafi verið lán félagsins til ákærða. Ákærði hafi gefið þær skýringar að fjármunirnir hafi runnið til málareksturs í Serbíu. Kvað hann veðkröfum hafa verið lýst í búið auk samningskrafna. Hafi þar komið í ljós að félagið greiddi aldrei af veðskuldum og því hafi vanskil hrannast upp auk skulda við Tollstjóra. Því hafi vitnið sem skiptastjóri tilkynnt lögreglu um grun um fjárdrátt. Þá staðfesti vitnið að fjármunir vegna sölu bifreiðarinnar hafi ekki skilað sér inn á reikninga félagsins. Ekkert af ofangreindu fé hafi skilað sér til þrotabúsins. Þá hafi ákærði ekki afhent skiptastjóra bókhald félagsins. Kvað vitnið Tollstjóra hafa farið fram á gjaldþrotaskipti A ehf. vegna vanskila á opinberum gjöldum.

                D, [...], kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í stjórn A. Hún hafi verið í stjórn félagsins eingöngu formsins vegna. Kvaðst hún ekkert hafa vitað um millifærslur þær sem ákært er fyrir né um sölu á bifreiðinni. Ákærði hafi ekkert rætt um málið við hana. Í eitt sinn hafi hún heyrt um málareksturinn í Serbíu.

                F kom fyrir dóminn og kvaðst ekki hafa vitað til þess að hann hafi verið skráður í stjórn A frá ágúst 2009. Hann hafi ekki komið að rekstri félagsins né verið kallaður á fundi félagsins. Hann hafi vitað að ákærði hafi verið skráður eigandi en hann hafi skrifað undir pappíra fyrir ákærða, formsins vegna. Hann hafi ekki verið í stjórn félagsins. Kvaðst hann vera vinur ákærða. Hann hafi ekki átt neitt í félaginu. Þá hafi hann ekkert vitað um millifærslurnar fyrr en hann sá þær hjá lögreglu. Ákærði hafi aldrei rætt það við hann. F kvaðst hafa skrifað undir kaupsamning vegna sölu á bifreiðinni fyrir ákærða þar sem ákærði hafi ætlað að nota þann pening í Serbíudæmið. Ákærði hafi hins vegar ekkert rætt þessi mál við sig. F kvaðst hafa verið einn af eigendum G og hafa lagt einhverjar milljónir í það mál.

                L kom fyrir dóminn og skýrði fasteignaviðskipti G í Serbíu. Er ekki ástæða til að reifa þann framburð frekar hér en hann er í samræmi við frásögn ákærða.

Forsendur og niðurstöður.

Ákærði krafðist aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Ákærði byggði sýknukröfu sína á því að hann hafi aldrei falið gjörning sinn, hann hafi ekki dregið sér umrædda fjármuni heldur fengið þá að láni hjá A ehf., fyrirtæki sem hann hafi átt að fullu. Hann hafi því haft heimildir til að ráðstafa umræddum fjármunum og hafi það ekki verið saknæmt.

                Í 16. gr. samþykkta A ehf. kemur fram að aðalmaður og varamaður skuldbindi félagið sameiginlega. Þá segir að stjórn félagsins stýri öllum málefnum félagsins milli hluthafafunda og gæti hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Samkvæmt upplýsingum með ársreikningi A ehf. árið 2008 kemur fram að C ehf., kt. [...], er 100% eigandi hluta í félaginu. Með ársreikningi C ehf. árið 2008 kemur fram að Guðjón Jónsson er eigandi 90% hluta og D eigandi 10% hluta. Er því rangt með farið af hálfu ákærða að hann sé einn eigandi A ehf.

                Ákærði upplýsti fyrir dómi að hann hafi ákveðið að hætta að greiða af lánum sem A ehf. bar að greiða af á árinu 2008 en öll lán hafi tekið stökkbreytingum til hækkunar í efnahagshruninu. Hann hafi því fært leigutekjur sem félagið hafði til ráðstöfunar mánaðarlega yfir á sinn persónulega reikning til að tryggja að Landsbanki Íslands gæti ekki skuldfært féð af reikningi félagsins til greiðslu afborgana á þeim lánum. Óumdeilt er að þeir fjármunir sem ákært er fyrir runnu á bankareikning í eigu ákærða persónulega. Ákærði var á sama tíma í fjárfestingum í Serbíu í gegnum einkahlutafélagið G ehf., sem hann kvaðst hafa átt hluti í persónulega. A ehf. átti hins vega ekki hluti í því félagi og var ekki aðili að málarekstri þeim sem ákærði var í ásamt fleiri aðilum. Er því ljóst að millifærslur ofangreindra fjármuna yfir á persónulegan reikning ákærða voru í ávinningsskyni fyrir ákærða en hann kvað fyrir dóminum mikinn ávinning hafa verið í sjónmáli með fasteignakaupum í Serbíu. Hvernig sem þeim málarekstri lýkur verður það G ehf., og þá ákærði persónulega, sem kemur til með að hafa hagnað af þeim niðurstöðum verði þær jákvæðar fyrir þá sem að þeim koma. A ehf. á þar enga lögvarða kröfu né hagsmuna að gæta. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að stór hluti af því fé sem ákærði millifærði yfir á sinn reikning fór í persónulega neyslu fyrir hann en hluti þess í málareksturinn í Serbíu. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um að stjórn félagsins A ehf. hafi komið að meintum lánveitingum, eins og 16. gr. samþykkta félagsins kveða á um, en þær fjárhæðir sem ákærði millifærði verða að teljast meiri háttar fyrir félagið þar sem háttsemi ákærða varð til þess að félagið var úrskurðað gjaldþrota. Mátti ákærða vera ljóst að háttsemi hans var bæði gegn samþykktum félagsins og stofnaði félaginu í fjárhagslega hættu eins og kom á daginn.

                Í 247. gr. almennra hegningarlaga segir að dragi maður sér fjármuni eða önnur verðmæti, sem hann hefur í vörslum sínum, en annar maður er eigandi að, án þess þó að verknaðurinn varði við 246. gr., þá skuli hann sæta fangelsi allt að sex árum. Ákærði var einn með prókúru á reikninga félagsins, hann var framkvæmdarstjóri og sat í stjórn félagsins. Hann hafði fullan aðgang að fjármunum félagsins. Ákærði fékk ekki samþykki annarra stjórnarmanna fyrir yfirfærslu fjármunanna né upplýsti þá um þá háttsemi. Þó svo að engin leynd hafi hvílt yfir háttsemi ákærða, þá var heldur enginn sem hafði aðgang að upplýsingum, né gat fylgst með því sem ákærði aðhafðist. Einkahlutafélag er sjálfstæður lögaðili með lögbundna stjórn og um slík félög gilda lög nr. 138/1994 með síðari breytingum. Ber stjórn einkahlutafélags að fara að þeim lögum, sem lögaðila, varðandi réttindi, skyldur og skuldbindingar. Geta stjórnarmenn bakað sér refsiábyrgð fari þeir ekki að lögum um meðferð fjármuna slíkra félaga. Það hefur ákærði gert. Telur dómurinn sannað, með framburði ákærða sjálfs, framburði vitna og gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákærulið I í ákæru og bakað sér refsiábyrgð með háttsemi sinni. Verður ákærða gerð refsing fyrir.

                Þá hefur ákærði játað meðferð á söluandvirði bifreiðarinnar [...], sem var í eigu A ehf., samkvæmt ákærulið II, en telur þá háttsemi ekki refsiverða, þar sem hann hafi ætlað að greiða það fé til baka. Fyrir liggur að söluandvirði bifreiðarinnar skilaði sér aldrei til A ehf. heldur var féð, sem til kaupanna var ætlað, lagt inn á persónulegan reikning ákærða, sem síðan ráðstafaði þeirri fjárhæð í eigin þágu. Telur dómurinn, með sömu rökum og að ofan greinir, þá háttsemi ákærða refsiverða og réttilega heimfærða til 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ákærða gerð refsing fyrir þá háttsemi.

                Með hliðsjón af broti ákærða, sem verður að ætla að sé stórfellt þar sem það varð til þess að félagið A ehf. var úrskurðað gjaldþrota í kjölfarið, og því að einbeittur ásetningur ákærða lá að baki, en ákærði hafi mikla hagnaðarvon gengju áætlanir hans eftir, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í átta mánuði. Með vísan til þess að ákærði hefur játað háttsemi sína greiðlega fyrir lögreglu og dóminum og þess að ákærða hefur ekki áður verið gerð refsing, þykir rétt að skilorðsbinda sex mánuði refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði samþykkti bótakröfuna eins og hún er í ákæru. Ekki verður annað séð af gögnum málsins en að ákærða hafi fyrst verið birt bótakrafan við birtingu fyrirkalls þann 15. október 2012. Verður ákærði því dæmdur til að greiða bótakröfuna eins og segir í dómsorði.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Valtýs Sigurðssonar hrl., sem eru hæfilega ákveðin 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Guðjón Jónsson, skal sæta fangelsi í átta mánuði en fresta skal fullnustu sex mánaða refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði sakarkostnað, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Valtýs Sigurðssonar hrl., 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði þrotabúi A ehf., kt. [...], 15.719.280 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. október 2010 til 15. nóvember 2012, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 89.000 krónur þann 23. júní 2009.