Hæstiréttur íslands

Mál nr. 669/2013


Lykilorð

  • Landamerki


                                     

Fimmtudaginn 12. júní 2014.

Nr. 669/2013.

 

Eyþór Valdimarsson

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Þórarni Kristinssyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

og til réttargæslu

Braga Gunnarssyni

(sjálfur)

 

Landamerki.

E og Þ deildu um landamerki milli jarðanna Ásgarðs 1 og Tungu í Landbroti í Skaftárhreppi. Fyrir Hæstarétti laut deila þeirra að merkjum milli jarðanna frá Réttarvaðshóli, sem þeir voru á einu máli um, til norðausturs í Skaftá, með viðmið í skerinu Heimsenda, en í landamerkjabréfum fyrir jarðirnar var því ekki lýst hvert á Heimsenda merkin ættu að taka stefnu. Byggði E á því að landamerkin ættu að taka stefnu í það sker á Heimsenda sem best sjónlína væri í frá Réttarvaðshóli en Þ taldi þau eiga að taka stefnu beint í vörðu syðst á Heimsenda. Hæstiréttur taldi, með hliðsjón af staðháttum, að slíkar líkur stæðu til þess að merkin væru á þann veg sem E gerði kröfu um, að leggja yrði sönnunarbyrði á Þ um að miða ætti við annan punkt á skerinu Heimsenda. Hefði sú sönnun ekki tekist. Var því fallist á kröfu E um landamerki milli jarðanna.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. október 2013. Hann krefst þess að viðurkennt verði að landamerki milli jarðanna Ásgarðs 1 og Tungu í Skaftárhreppi séu meðal annars frá Réttarvaðshól með hnitunum A549431.9 og N363924.7 í stefnu að punkti í Heimsendaskeri við Skaftá með hnitunum A549837.3 og N365813.9. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar á báðum dómstigum, en til vara að málskostnaður í héraði verði felldur niður og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjanda.

Dómendur í málinu fóru á vettvang 2. júní 2014.

I

Jarðirnar Ásgarður 1 og Tunga eru í Landbroti í Skaftárhreppi suðaustan við Kirkjubæjarklaustur og liggja lönd þeirra þannig saman að merki Ásgarðs 1 til norðvesturs eru jafnframt merki Tungu til suðausturs. Að norðanverðu markast land beggja jarðanna af Skaftá.

Í landamerkjabréfi fyrir þjóðjörðina Ásgarð 14. júní 1889 var merkjum hennar lýst á eftirfarandi hátt: „Að vestan úr Rjettarvaðshól við Tungulæk til norðausturs í sker, sem kallað er Heimsendir fyrir ofan Skaftá, þaðan beina línu að Keldunúpslandi. Að austan og sunnan: aftur úr Rjettarvaðshól í Beinaklett, þaðan í Dagmálaþúfu beina línu í Skaftá.“ Sunnan við Ásgarð lágu þjóðjarðirnar Kársstaðir og Refsstaðir og var landamerkjabréf fyrir þær einnig gert fyrrgreindan dag, þar sem merkjum þeirra beggja var í einu lagi lýst sem hér segir: „Að norðan frá Skaftá í Dagmálaþúfu, úr henni í Beinaklett; þaðan í þúfu á Rjettarvaðshól. Að sunnan: úr Söðulskeri við Tungulæk og í Myrkvastofu, þaðan í Hliðskjálf, þaðan í Arnarþúfu, svo beina stefnu í Skaftá.“ Samkvæmt bréfi sýslumannsins í Vík 21. júlí 2010 eignaðist nafngreindur maður þessar þrjár jarðir með afsali 1. júlí 1923 og hafi þær upp frá því verið skráðar í einu lagi í þinglýsingabókum þótt þær hafi ekki runnið saman „með formlegum hætti“. Þessu til samræmis verður að líta svo á að framangreind landamerkjabréf leiði til þess að merki jarðanna þriggja gagnvart öðrum jörðum, eins og þeim var þar lýst, teljist nú lýsing á merkjum jarðarinnar Ásgarðs 1 að teknu tilliti til þess að merki milli jarðanna þriggja innbyrðis séu fallin niður.

Landamerkjabréf var gert í einu lagi fyrir þjóðjarðirnar Eystri-Tungu og Ytri-Tungu 2. október 1889. Samkvæmt því voru merki þessara jarða eftirfarandi: „Að vestan úr Tripphól til norðausturs í Markhól; þaðan stefna eptir engjamörkum upp yfir Skaptá í Kirkjubæjarklausturslandi. Að sunnan og austan: aptur úr áður nefndum Tripphól til suðurs í Tungulæk eptir honum til austurs, og svo til norðurs í Rjettarvaðshól austan megin við Tungulæk, þaðan beint í svo kallaðan Heimsendir fyrir ofan Skaptá, þaðan sömu stefnu að Keldunúpslandi.“

Landamerkjabréfin þrjú, sem að framan greinir, voru öll gerð af sama manni, sem mun hafa farið með umráð þessara þjóðjarða, og þinglesin á manntalsþingi 19. júní 1890. Ekkert þessara bréfa var áritað um samþykki vegna aðliggjandi jarða.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum reis ágreiningur með áfrýjanda og stefnda um merki milli Ásgarðs 1 og Tungu, sem var beint til sýslumannsins í Vík til sáttaumleitana 28. janúar 2008. Þær umleitanir báru ekki árangur og þingfesti áfrýjandi af því tilefni mál þetta á hendur stefnda 5. september 2012. Í héraðsdómsstefnu krafðist áfrýjandi þess að viðurkennt yrði að landamerki milli jarðanna væru úr hnitasettum punkti við Söðulsker í beinni línu norðaustur í Réttarvaðshól við Tungulæk, en þaðan í sömu átt í nánar tilgreindan hnitapunkt við skerið Heimsenda. Áfrýjandi stefndi jafnframt sjö nafngreindum mönnum til réttargæslu í málinu, þar á meðal réttargæslustefnda Braga Gunnarssyni sem einum af þremur eigendum landspildu með heitinu Stjórnarsandur, sem stendur andspænis landi Ásgarðs 1 og Tungu norðan Skaftár, en hann lét málið til sín taka í héraði svo sem hann gerir einnig hér fyrir dómi. Stefndi tók til varna gegn framangreindum kröfum áfrýjanda og höfðaði jafnframt gagnsök 28. september 2012, þar sem hann krafðist að viðurkennt yrði að landamerki jarðanna væru frá hnitasettum punkti í miðjum Tungulæk á móts við Söðulsker, þaðan eftir miðlínu lækjarins að tilgreindum punkti móts við Réttarvaðshól, þaðan á þann hól og síðan beina línu norður í farveg Skaftár með viðmiðun í hnitasettum punkti í vörðu syðst á skerinu Heimsenda.

Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að um landamerki jarðanna færi svo sem greindi í kröfugerð stefnda. Áfrýjandi unir niðurstöðu dómsins að því er varðar landamerki jarðanna milli punkts í miðlínu Tungulækjar við Söðulsker í punkt á Réttarvaðshóli. Ágreiningur aðilanna fyrir Hæstarétti lýtur því aðeins að merkjum milli jarðanna frá hnitapunkti á Réttarvaðshóli, sem þeir eru á einu máli um, til norðausturs í skerið Heimsenda í Skaftá. Við meðferð málsins hér fyrir dómi voru jafnframt tekin af öll tvímæli um að kröfur áfrýjanda og stefnda taki einungis til landamerkja jarða þeirra að Skaftá og að hnitapunktar, sem tilgreindir eru á skerinu Heimsenda, séu einungis til viðmiðunar um stefnu úr hnitapunkti á Réttarvaðshóli.

II

Skerið Heimsendi er sandorpinn hraunhryggur, sem mun áður hafa verið áfastur eystri bakka Skaftár, og mynda hraunhólar sker upp úr sandinum. Skerið er nú umlukið vatni, en Skaftá mun þannig hafa brotið sér að hluta leið til austurs á síðustu árum. Landsvæðið, sem deilt er um í málinu, myndar á þennan hátt þríhyrnda landspildu við syðri bakka Skaftár móts við skerið Heimsenda, en fjarlægðin milli þeirra tveggja stefnupunkta í skerinu, sem aðilar miða kröfur sínar við, virðist vera um 100 m í beinni línu.

Áfrýjandi byggir á því að landamerki úr Réttarvaðshóli að Skaftá eigi að taka stefnu „í það sker á Heimsenda sem best sjónlína er í frá Réttarvaðshóli“. Fari landamerkin þannig um gamla hleðslugirðingu á syðri bakka Skaftár í stefnu að skeri á miðjum Heimsenda. Skipti í þessu sambandi ekki máli að lína þessi skeri Tungulæk á tveimur stöðum á leiðinni milli Réttarvaðshóls og Skaftár, enda hafi farvegur lækjarins breyst frá því sem megi sjá af eldri heimildum. Stefndi telur á hinn bóginn að merkin milli jarðanna eigi að taka stefnu frá Réttarvaðshóli í átt beint að vörðu syðst á Heimsenda, enda sé hún á hæsta hluta skersins og því nærtækasta kennileitið þar. Fyrir áratugum síðan hafi þáverandi eigandi jarðarinnar Tungu athugasemdalaust reist girðingu á mörkum jarðanna að Skaftá til móts við þennan stað og sett við enda hennar rammgerðan járnstaur á árbakkanum.

Svo sem áður hefur verið rakið var merkjum Ásgarðs lýst þannig í landamerkjabréfinu 14. júní 1889 að þau væru „úr Rjettarvaðshól við Tungulæk til norðausturs í sker, sem kallað er Heimsendir fyrir ofan Skaftá.“ Í landamerkjabréfi Eystri-Tungu og Ytri-Tungu 2. október 1889 sagði að þessi merki færu úr Réttarvaðshóli „beint í svo kallaðan Heimsendir fyrir ofan Skaptá“. Í hvorugu bréfinu var því lýst frekar hvert á Heimsenda merkin ættu að taka stefnu. Til þess verður að líta að þegar horft er til norðausturs frá Réttarvaðshóli sést til þess staðar á skerinu Heimsenda, sem áfrýjandi telur að miða beri merkin við, en á hinn bóginn ekki til vörðunnar þar, sem stefndi vill miða við. Þótt ekki sé tekið svo til orða í landamerkjabréfunum að sjónhending ráði merkjum á milli þessara staða verður að gæta að því að við gerð þeirra hlýtur eins og venjulegt var að hafa verið miðað við röð sýnilegra kennileita, sem rekja megi merkin eftir frá einum stað til annars, enda á þeim tíma ekki við aðra kosti að styðjast, svo sem uppdrætti eða hnitasetningu, sbr. dóm Hæstaréttar 20. maí 2010 í málinu nr. 338/2009. Þá verður einnig að líta til þess að merki milli jarðanna samkvæmt kröfu áfrýjanda liggja eftir hlöðnum grjótgarði á bakka Skaftár, þar sem þau taka stefnu að Heimsenda. Í landamerkjabréfi fyrir Eystri-Tungu og Ytri-Tungu var þess í engu getið að merkin ættu að taka mið af vörðu á Heimsenda, svo sem nærtækt hefði verið að gera hefði sú verið ætlunin, og verða ekki séð nokkur ummerki á suður bakka Skaftár um að merki jarðanna hafi verið á þeim stað, sem stefndi heldur fram, frá því fyrir þann tíma, sem eigandi Tungu setti þar niður járnstaur eins og áður var getið um. Þótt bein lína, sem áfrýjandi telur að ráða eigi merkjum frá Réttarvaðshóli í átt að skerinu Heimsenda, skeri tvívegis Tungulæk og myndi leggja þannig undir Ásgarð lítilsháttar land á norðurbakka hans verður að taka tillit til þess að lækurinn ræður ekki að öðru leyti merkjum milli jarðanna fyrir norðvestan Réttarvaðshól og er nú óumdeilt að Tungu tilheyri að nokkru leyti land sunnan lækjarins. Að öllu þessu virtu verður að telja slíkar líkur standa til þess að merkin séu að réttu lagi á þann veg, sem áfrýjandi gerir kröfu um, að leggja verði sönnunarbyrði á stefnda um að miða eigi stefnu merkjanna við annan punkt á skerinu Heimsenda. Sú sönnun hefur ekki tekist. Verður því tekin til greina krafa áfrýjanda um merkin milli jarðanna, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins í héraði og hér fyrir dómi er rétt að málskostnaður í héraði falli niður milli áfrýjanda og stefnda, en stefnda verði gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað handa réttargæslustefnda verður staðfest og verður áfrýjanda jafnframt gert að greiða honum málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennt er að merki milli jarðanna Ásgarðs 1 og Tungu í Skaftárhreppi frá Réttarvaðshóli að Skaftá ráðist af punkti á hólnum með hnit A549431.9 og N363924.7 og þaðan í suðurbakka Skaftár með stefnu í punkt með hnitunum A549837.3 og N365813.9 á skerinu Heimsenda.

Málskostnaður milli áfrýjanda, Eyþórs Valdimarssonar, og stefnda, Þórarins Kristinsson, í héraði fellur niður. Stefndi greiði áfrýjanda 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað til réttargæslustefnda, Braga Gunnarssonar, skal vera óraskað. Áfrýjandi greiði réttargæslustefnda 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 17. júlí 2013.

            Mál þetta, sem dómtekið var 3. júní sl., er höfðað með stefnu í aðalsök birtri 19. júlí 2012.

            Aðalstefnandi er Eyþór Valdimarsson, kt. [...], Ásgarði, 880 Kirkjubæjarklaustri.

            Aðalstefndi er Þórarinn Kristinsson, kt. [...], Depluhólum 7, Reykjavík, en hann er eigandi jarðarinnar Tungu í Skaftárhreppi. Þeim Hallgrími Snorrasyni, kt. [...], Margréti Snorradóttur, kt. [...], Auði Snorradóttur, kt. [...] og Finni Snorrasyni, kt. [...] var upphaflega stefnt í máli þessu en þar sem landskipti fóru fram á jörðinni Tungu og aðalstefndi fékk í sinn hlut það land sem liggur að Ásgarði tók aðalstefndi og gagnstefnandi Þórarinn því við málinu.

            Réttargæslustefndu eru Jens Eiríkur Helgason, kt. [...], Hátúni, Skaftárhreppi, Hörður Davíðsson, kt. ...], Efri-Vík, Skaftárhreppi, Jónína Hrönn Hilmarsdóttir, kt. [...], Kristnibraut 49, Reykjavík, Einar Sigurður Magnússon, kt. [...], Syðri-Vík, Skaftárhreppi, Bragi Gunnarsson, kt. [...], Lyngrima 22, Reykjavík, Auður Helgadóttir, kt. [...], Bandaríkjunum og Lárus Helgason, kt. [...], Hraunvangi 7, Hafnarfirði.         

            Dómkröfur aðalstefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að rétt landamerki milli jarðanna Ásgarðs I, lnr. 163300 og Tungu, lnr. 163468 á hinu umþrætta svæði, séu eftirfarandi, samanber hnitsettan uppdrátt á dskj. nr. 3:

Úr punkti við Söðulsker (p.A) (hnit: A-548909.3/N-362737.9) þar sem lína er dregin í Réttarvaðshól við Tungulæk (p.B) (hnit: A-549431.9/N-363924.7) og þaðan í punkt við skerið Heimsenda (p.C) (hnit: 549837.3/365813.9).

             Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar samkvæmt reikningi.

             Dómkröfur aðalstefnda eru þær í aðalsök að hann verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnanda en í gagnsök er þess endanlega krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli Tungu (lnr. 163468) og Ásgarðs I (lnr. 163300) í Skaftárhreppi verði sem hér segir:

            

Frá punkti A (hnit X=548875.8, Y=32701.9) í miðjum Tungulæk á móts við Söðulsker og þaðan eftir miðlínu Tungulæks norður allt að punkti B í miðjum Tungulæk á móts við Réttarvaðshól (hnit X=549374.3, Y=363884.9) og þaðan í punkt C á Réttarvaðshól (hnit X=549431.9, Y=363924.5) og þaðan bein lína norður í farveg Skaftár með viðmið í punkt D sem er varða á Heimsenda handan Skaftár (hnit X=549906.5, Y=365751.4).

             Þá krefst aðalstefndi málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda, bæði í aðalsök og gagnsök.

             Dómkröfur gagnstefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda og kröfur hans í aðalsök verði teknar til greina. Þá krefst gagnstefndi málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda samkvæmt reikningi.

             Réttargæslustefndi Bragi gerir þær kröfur að punktur sá sem ákveðinn verði í Heimsendasker afmarki eingöngu stefnu landamerkja milli Ásgarðs og Tungu en sé ekki endamark þeirra jarða. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda. Við meðferð málsins var ítrekað að ekki væru gerðar sjálfstæðar kröfur af hálfu aðila málsins á hendur þessum réttargæslustefnda, enda snúist málið um landamerkjalínur á milli Ásgarðs og Tungu og sé línan frá Réttarvaðshóli stefnulína og punkturinn í Heimsendaskeri sé ekki sjálfstæður landamerkjapunktur.

             Réttargæslustefndi Jens Eiríkur krefst þess að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

             Aðrir réttargæslustefndu hafa ekki látið málið til sín taka og eru engar kröfur gerðar á hendur þeim.

             Farið var á vettvang þann 6. maí sl.

Málavextir.

            Aðalstefnandi lýsir málavöxtum svo að árið 2007 hafi komið upp ágreiningur milli eigenda jarðanna Ásgarðs og Tungu í Skaftárhreppi um landamerki þeirra og hafi eigendur þeirra ekki verið sammála um merkin þegar komið hafi að uppsetningu sleppitjarna við Tungulæk. Óskað hafi verið eftir því að sýslumaðurinn í Vík leitaði sátta vegna ágreiningsins og kom fram við það tækifæri að aðalstefndi teldi merki jarðanna vera með því móti að draga bæri beina línu úr Myrkvastofu í Réttarvaðshól og þaðan í Heimsendasker. Í vettvangsgöngu með sýslumanni árið 2008 hafi komið fram að aðalstefndi teldi að draga ætti landamerkjalínu frá Réttarvaðshóli í suðurenda Heimsendaskers eftir girðingu sem þar standi í dag. Sættir hafi ekki tekist og hafi sáttaviðræður hafist að nýju árið 2010. Þær hafi orðið árangurslausar og því hafi aðalstefnandi talið nauðsynlegt að höfða mál til viðurkenningar á réttum merkjum jarðanna.

            Heimildir um landamerki er að finna í landamerkjabréfum jarðanna. Í landamerkjabréfi Eystri- og Ytri-Tungu frá 2. október 1889, sem þinglýst var á manntalsþingi 19. júní 1890 segir svo: „Að vestan úr Tripphól til norðausturs í Markhól, þaðan stefna eftir engjamörkum upp yfir Skaftá í Kirkjubæjarklausturslandi. Að sunnan og austan: aftur úr áður nefndum Tripphól til suðurs í Tungulæk eftir honum til austurs, og svo til norðurs í Réttarvaðshól austan megin við Tungulæk, þaðan beint í svo kallaðan Heimsendir fyrir ofan Skaftá, þaðan sama stefna að Keldnúpslandi.“

            Í landamerkjabréfi Ásgarðs frá 14. júní 1889 segir: „Að vestan úr Réttarvaðshól við Tungulæk til norðausturs í sker, sem kallað er heimsendir fyrir ofan Skaftá, þaðan bein lína að Keldunúpslandi. Að austan og sunnan: aftur úr Réttarvaðshól í Beinaklett, þaðan í Dagmálaþúfu beina línu í Skaftá.“

            Í landamerkjabréfi Kárstaða með Refstöðum frá 14. júní 1889 segir: „Að norðan frá Skaftá að Dagmálaþúfu, úr henni í Beinaklett, þaðan í þúfu á Réttarvaðshól. Að sunnan: úr Söðulskeri við Tungulæk og í Myrkvastofu, þaðan í Hliðskjálf, þaðan í Arnarþúfu, svo beina stefnu í Skaftá.“

            Ekki munu vera til aðrar yngri heimildir um landamerkin en landamerkjabréf þau sem að framan getur.

Málsástæður og lagarök aðalstefnanda.

            Aðalstefnandi byggir kröfur sínar á þinglýstum landamerkjabréfum jarðanna Ásgarðs og Kárstaða með Refstöðum og hafi jarðirnar Kárstaðir og Refstaðir verið lagðar undir Ásgarð. Aðalstefnandi telur að lýsingar í landamerkjabréfum Ásgarðs og Kárstaða með Refstöðum styðji túlkun hans á því hvernig rétt landamerki milli jarðanna séu. Beri orðalag landamerkjabréfanna með sér að landamerkjalínur séu dregnar beint í þekkt örnefni sem vel sjáist til en miðlína vatna sé ekki látin ráða mörkum. Landamerkjalína milli Söðulskers (p.A) og Réttarvaðshóls við Tungulæk (p.B) sé því dregin beint milli þeirra örnefna. Landamerkjalína milli Réttarvaðshóls við Tungulæk (p.B) og Heimsendaskers (p. C) sé einnig dregin beint. Ekki sé ágreiningur um þá línu en aðilar deili hins vegar um staðsetningu punkts við Heimsendasker. Aðalstefnandi telur að við staðsetningu landamerkjalínunnar milli þessara örnefna verði að taka stefnu í það sker á Heimsenda sem best sjónhending sé í frá Réttarvaðshóli. Stefnan sé því tekin í gamla hleðslugirðingu við Skaftá og þetta staðfesti Hrefna Kristmundsdóttir, fyrrum ábúandi í Tungu.

            Aðalstefnandi segir eigendur Ásgarðs hafa á hverjum tíma nytjað allt land jarðarinnar innan téðra merkja og byggir á því að við túlkun á lýsingum landamerkjabréfanna verði að horfa heildstætt á þau, meta þau í ljósi eldri heimilda með hliðsjón af landfræðilegum aðstæðum og örnefnum. Þá beri að horfa til þess sem viðurkennt  hafi verið um áratugaskeið án ágreinings, en aðalstefnandi byggi einnig á framburði vitna um merki  jarðanna.

            Aðalstefnandi vísar til landamerkjalaga nr. 5/1882 og 41/1919 með síðari breytingum og meginreglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra. Þá vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök aðalstefnda.

             Aðalstefndi byggir kröfur sínar á óumdeildum þinglýstum landamerkjabréfum Tungujarða, Ásgarðs og Kárstaða og nokkuð skýrum texta bréfanna. Í landamerkjabréfi Tungujarðanna sé því lýst að mörk jarðarinnar að austan gagnvart  Hátúnum og Kárstöðum sé eftir Tungulæk allt norður að Réttarvaðshól og landamerkjabréf Kárstaða mæli því ekki í mót. Í því landamerkjabréfi sé merkjum lýst að norðan frá Beinakletti í þúfu á Réttarvaðshól, en hann sé við Tungulæk. Svo sé merkjum lýst að sunnan úr Söðulskeri í Myrkvastofu en hvergi sé minnst á vesturhliðina. Virðist sem lýsanda merkjanna hafi þótt sjálfgefið að vesturmerkin væru í Tungulæk eða svo sjálfsagt að ekki hafi þurft að taka það fram. Ef ætlunin hefði verið að hafa merkin í beinni línu úr Réttarvaðshól í Söðulsker hefði það verið tekið skýrlega fram. Sami maðurinn, Ólafur Pálsson, hafi hins vegar gert merkjalýsingu fyrir allar jarðirnar þrjár og hefði hann vart komið með lýsingu í Kárstaðabréfið sem væri í andstöðu við landamerkjabréf Tungujarðanna. Jarðirnar hafi verið allar í ríkiseigu á þessum tíma og Ólafur hafi verið umboðsmaður þjóðjarða.

            Aðalstefndi getur ekki séð að aðalstefnandi hafi nokkuð til að byggja á þegar hann haldi því fram að landamerkjalína milli jarðanna sé bein úr Réttarvaðshóli í Söðulsker. Það mæli því einnig í mót að slík lína myndi þvera Tungulæk á tveimur stöðum. Þá hafi aðalstefnandi ekkert til að benda á máli sínu til stuðnings en óljós vottorð frá fólki sem hafi frásagnir eftir fólki sem nú sé látið. Það segist t.d. hafa heyrt að Ásgarður ætti land handan Tungulæks en viti ekki hversu langt eða á hverju slík fullyrðing byggist. Aðalstefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi nýtt það land sem hann haldi fram að sé innan merkja Ásgarðs vestan Tungulækjar. Hann hafi haft beitarhólf suðvestan Myrkvastofu en austan Tungulækjar en það breyti engu um ætluð merki nema þá aðeins til styrkingar því sjónarmiði aðalstefnda að mörkin séu við Tungulæk sunnan Réttarvaðshóls. Rökstuðingur aðalstefnanda sé afar bágborinn og í stefnu vanti algerlega tilvísun í landamerkjabréf Tungujarðanna sem aðalstefndi hafi þó lagt fram, en það sé aðalgagnið í málinu.

            Aðalstefndi telur að með vísan til framangreinds verði ekki hjá því komist að ákvarða merki eftir miðlínu Tungulækjar frá Söðulskeri til Réttarvaðshóls. Þar sem Söðulsker sé ekki alveg á lækjarbakkanum hafi upphafspunkturinn A á uppdrætti verið markaður í Tungulæk miðjum þar sem áframhaldandi lína úr Myrkvastofu um Söðulsker skeri Tungulæk. Þar sem í merkjalýsingu Tungujarða segi: „í Tungulæk eftir honum til austurs, og svo til norðurs í Réttarvaðshól“hafi aðalstefndi þann stað í Tungulæk til viðmiðunar í kröfum sínum sem næst sé Réttarvaðshól er þangað sé komið, enda nærtækasta skýringin á landamerkjalýsingunni. Þar sé markaður punktur B á uppdrætti. Þaðan liggi línan örstutt í Réttarvaðshól, en hann sé óumdeilt merki jarðanna.

            Aðalstefndi byggir á því að landamerkjalínan úr Réttarvaðshóli norður yfir Skaftá sé skýr. Í landamerkjabréfi Tungujarða segi að línan fari beint þaðan í Heimsendi og í landamerkjabréfi Ásgarðs segi að línan liggi í sker sem kallað sé Heimsendir. Heimsendir sé því auðsætt endamark og öllum þekkt. Handan Skaftár sé sker en hæsti hluti þess, nokkurs konar klettarani, teygi sig í suðurátt á móti Tungu/Ásgarði og sé því nærtækasta kennileitið. Syðst á þessum klettarana sé áberandi hlaðin varða, bersýnilega gömul, a.m.k. 1,7 metrar á hæð og 2 metrar í þvermál. Aðalstefndi telur þetta vera endamarkið, merkt D á uppdrætti, enda enginn annar staður sem hægt sé að miða við. Hafi faðir aðalstefnanda ítrekar bent honum á þessa vörðu sem viðmiðunarpunkt landamerkjanna. Viðmiðunarmark aðalstefnanda norðan Skaftár sé algerlega á reiki og til að finna hann sé búin til lína um gamla hleðslugirðingu sunnan Skaftár, sem hvergi sé minnst á annars staðar eða sé líklegri til að vera landamerki. Svona hleðslugarðar séu víða í landi Tungu. Það styðji þessa skoðun að faðir aðalstefnda hafi fyrir áratugum reist girðingu á mörkunum sem nái að Skaftá á móts við þennan stað og sett niður traustan járnstaur í fjöruborðinu. Hafi girðing þessi, sem liggi í kröfulínu aðalstefndu, ekki sætt andmælum af hálfu eigenda Ásgarðs fyrr en mál þetta hafi farið af stað.

            Aðalstefndi byggir á því að punktur sá sem aðalstefnandi vilji miða endamark sitt við sé punktur við skerið Heimsenda og sé enginn fastur viðmiðunarpunktur handan Skaftár. Þetta sé ekki í nokkru samræmi við landamerkjalýsingar jarðanna, órökstutt og ósannfærandi. Í báðum landamerkjalýsingunum sé Heimsendi sjálfur endamark en aðalstefnandi fullyrði að endamark hans sé þar við Skaftá þar sem best sé sjónhending frá Réttarvaðshóli. Aðalstefndi vefengir þetta, enda hafi föður hans ekki verið erfiðleikum bundið að girða nákvæmlega í landamerkjalínunni á bökkum Skaftár fyrir nokkrum áratugum og svo standi hvergi sjónhending í landamerkjabréfinu, heldur bein lína.

            Kröfulína aðalstefnanda norður frá Réttarvaðshóli skeri Tungulæk en það geti engan veginn komið heim og saman við landamerkjalýsingar eða þinglýstar heimildir. Faðir aðalstefnda hafi fengið þinglýsta eignarheimild fyrir 100 m breiðri spildu, 50 metra á hvorn veg meðfram Tungulæk árið 1960 og geti landamerkjalínan ekki legið yfir þá spildu. Hafi aðalstefnandi á einhverjum tíma talið sig eiga hluta í Tungulæk hefði hann átt að sýna einhver merki þess að svo væri og andmæla þinglýsingunni. Það hafi hann ekki gert heldur látið afskiptalaust að eigendur Tungulæksins hafi stundar þar fiskirækt áratugum saman.

            Aðalstefndi mótmælir þeirri fullyrðingu í stefnu að eigendur Ásgarðs hafi nytjað það svæði sem aðalstefndi telur vera deilusvæðið. Engin gögn séu til um slíkt. Að vísu sé girðing sú sem faðir aðalstefnda hafi sett upp og endi í Skaftá ekki í beinni línu og því ekki öll á merkjum, en það hafi verið gert til hagræðis og vegna aðstæðna að hún hafi verið lögð þannig.

            Aðalstefndi vísar til 25. gr. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda, einnig til 1.-6. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, sbr. 6. gr. laga nr. 92/1991, svo og til 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda.

            Gagnstefnandi byggir á sömu málsástæðum og lagarökum og fram koma í greinargerð hans í aðalsök.

Málsástæður og lagarök gagnstefnda.

            Gagnstefndi mótmælir þeirri málavaxtalýsingu í gagnstefnu að gagnstefndi hafi skyndilega árið 2006 farið að halda því fram að landamerkjapunkturinn á Heimsenda væri vestar en áður hefði verið talið. Málatilbúnaður gagnstefnda byggi alfarið á þeim skilningi og væntingum sem hann hafi ávallt haft til landamerkja jarðarinnar Ásgarðs. Þá mótmælir gagnstefndi þeirri fullyrðingu í gagnstefnu að Tungulækur renni á mörkum Tungu og Ásgarðs. Ljóst sé að ekki sé miðað við lækinn enda alþekkt á þessum slóðum að miða frekar við beinar línur en ekki árfarvegi. Kunni það að vera vegna þess að áin hafi grafið sér hlykkjóttari farveg í gegnum tíðina, en sá sem upphaflega hafi ráðið mörkum jarðanna hafi verið mun beinni.

            Gagnstefndi telur að sú grundvallarmálsástæða gagnstefnanda að miða við farveg Tungulækjar taki ekki mið af þeirri staðreynd að ár og lækir grafi sér nýja farvegi og breytist því með ýmsu móti í tímans rás. Slíkir lækir verði bugðóttari með árunum og grafi sér þannig farveg sem sé hlykkjóttari en upphaflega. Slík landfræðileg rök leiði til þess að Tungulækur hafi eitt sinn runnið í mun beinni farvegi en hann geri nú. Allar líkur bendi til þess að landamerkjalýsingar hafi miðað við legu lækjarins eins og hann hafi verið á þeim tíma og stuðst hafi verið nánar við þekkt kennileiti á svæðinu. Því hafi landamerki jarðanna legið úr Heimsenda í Réttarvaðshól og þaðan í beinni línu í Söðulsker. Breytingar lækjarins hafi leitt til þess að gagnstefndi eigi nú land hinum megin lækjarins. Breyti það engu um landamerki jarðarinnar Ásgarðs, enda gildi sú rótgróna forna regla að eigi breytist landamerki þótt farvegur breytist, en hún sé lögfest í 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923.

            Gagnstefndi telur þetta styðja lýsingar landamerkjabréfa Ásgarðs, Refstaða og Kárstaða. Þar geti að líta lýsingar sem taki mið af þessum þekktu kennileitum.  Telur gagnstefnandi að þessar lýsingar styðji túlkun hans á því hvernig rétt landamerki milli jarðanna séu. Geti gagnstefnandi ekki litið framhjá þeirri staðreynd að fjölmargir staðkunnugir aðilar hafi gefið  umsögn sína í samræmi við málatilbúnað gagnstefnda, þvert á málatilbúnað gagnstefnanda.

            Gagnstefndi vísar til landamerkjalaga nr. 5/1882 og 41/1919 með síðari breytingum og meginreglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra. Þá vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig er vísað til vatnalaga nr. 15/1923, helst 2. mgr. 3. gr. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála.

Niðurstaða.

            Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hver skuli vera landamerki milli jarðanna Ásgarðs, sem er austan Tungulækjar og Tungu, sem er vestan Tungulækjar í Skaftárhreppi. Aðalstefnandi gerir þá kröfu að frá punkti merktum A við Söðulsker á dskj. nr. 3 sé dregin bein lína að punkti B sem er í Réttarvaðshóli. Á þessu svæði rennur Tungulækur og ef fallist yrði á kröfur aðalstefnanda að þessu leyti yrði syðsti hluti lækjarins að punkti A í landi Tungu auk landspildu austan lækjarins að kröfulínunni milli punkta A og B. Þá yrði nyrsti hluti lækjarins að punkti B við Réttarvaðshól í landi Ásgarðs. Á þessu svæði rennur Tungulækur frá Söðulskeri í bugðu til austurs og beygir síðan til norðurs í stefnu að Réttarvaðshóli. Í landamerkjabréfi Eystri- og Ytri-Tungu frá 2. október 1889 segir að sunnan og austan séu merkin úr Tripphóli til suðurs í Tungulæk eftir honum til austurs og svo til norðurs í Réttarvaðshól austan megin við Tungulæk. Aðalstefnandi minnist að vísu ekki á þetta landamerkjabréf í málatilbúnaði sínum en aðalstefndi byggir á því í gagnsök. Í landamerkjabréfi Kárstaða með Refstöðum frá 14. júní 1889 segir um þetta svæði að mörkin að sunnan séu úr Söðulskeri við Tungulæk og í Myrkvastofu, þaðan í Hliðskjálf, þaðan í Arnarþúfu, svo beina stefnu í Skaftá. Þess ber að gæta að fyrrgreinda landamerkjabréfið er yngra en hið síðara en skilja verður lýsinguna þar svo að Tungulækurinn ráði mörkum á þessu svæði. Telja verður ólíklegt að sá sem gerði merkjalýsingu fyrir allar jarðirnar, Ólafur Pálsson, umboðsmaður þjóðjarða, hefði sett lýsingu í Kárstaðabréfið sem væri í andstöðu við landamerkjabréf Tungujarðanna. Engum yngri gögnum er til að dreifa sem styðja málatilbúnað aðalstefnanda að þessu leyti. Þá verður ekki fram hjá því litið að aðalstefnandi bar fyrir dómi að ekki hefði verið veitt í Tungulæknum, engin þörf hafi verið á því þar sem veiðiréttur í Skaftá tilheyrði jörðinni. Þar sem aðalstefnanda hefur að mati dómsins ekki tekist að sanna að merki milli jarðanna milli punkta A og B eigi að vera með þeim hætti sem hann byggir á verður kröfu hans í aðalsök að þessu leyti því hafnað en fallist verður á kröfu gagnstefnanda um að mörk jarðanna milli Söðulskers og Réttarvaðshóls skuli liggja eftir miðlínu Tungulækjar, þ.e. á milli punkta A og B eins og þeir eru framsettir á dskj. nr. 31, enda verður að telja þau mörk fyllilega í samræmi við framangreind landamerkjabréf.

            Málsaðilar eru sammála um að mörk jarðanna teljist vera bein lína frá Réttarvaðshóli til norðausturs að tilteknum punkti við svokallað Heimsendasker.   Aðalstefnandi telur að taka verði stefnu í það sker á Heimsenda sem best sjónhending sé í frá Réttarvaðshóli og því miðar hann við gamla hleðslugirðingu við Skaftá og þaðan í mjög ógreinilegt kennileiti á skerinu sem hann segir vera vörðu sem nú sé hrunin, punkt C á dskj, nr. 42. Vettvangsganga leiddi ekki í ljós að á þessum stað væru óræk merki þess að þar hefði verið kennileiti það á skerinu sem vísað er til í landamerkjabréfi Ágarðs frá 14. júní 1889. Kröfulína aðalstefnanda sker Tungulækinn þannig að nokkur hluti hans yrði innan landamerkja aðalstefnanda ef á kröfur hans yrði fallist. Aðalstefndi byggir hins vegar á því að enginn annar staður á skerinu en hlaðin varða, bersýnilega gömul, merkt D á uppdrætti á dskj. nr. 42 komi til greina sem viðmiðunarpunktur. Faðir aðalstefnda hafi fyrir áratugum reist girðingu á mörkunum sem nái að Skaftá á móts við þennan stað og sett niður traustan járnstaur í fjöruborðinu. Enginn ágreiningur hafi verið um þessi merki fyrr en mál þetta hafi farið af stað. Við vettvangsgöngu kom í ljós að þarna var um mjög greinilegt kennileiti að ræða. Aðalstefnandi byggir á framburði Lárusar Siggeirssonar en hann skýrði svo frá fyrir dómi að hann myndi eftir vörðu á Heimsendaskeri og hafi hann fyrst haldið að það væri leiðarmerki vegna vaðs yfir Skaftá. Kristmundur í Tungu hafi sagst eiga landamerkjavörðu á skerinu og væri hún í stefnu úr gömlum grjótgarði með girðingu. Lárus taldi vörðuna hafa verið u.þ.b. nálægt miðju skerinu en hún væri nú horfin. Hallgrímur Snorrason skýrði svo frá fyrir dómi að um 1973 hafi hann heyrt umræður milli Valdimars í Ásgarði og Kristins í Tungu um það hvar draga ætti línuna við skerið og hafi Kristinn talið fjarstæðu ef lækurinn lenti innan Ásgarðslands. Hallgrímur vissi ekki hvort járnstaurinn hafi verið á merkjum og þá rámaði hann í að sjónlína væri frá Réttarvaðshóli að punktinum á Heimsendaskeri en hann var ekki viss. Við vettvangsgöngu kom í ljós að sjónlína er frá Réttarvaðshóli að punkti þeim á skerinu sem aðalstefnandi byggir á, punkti C, en slíkri sjónlínu er hins vegar ekki til að dreifa að því er punkt D varðar og aðalstefndi byggir á. Að mati dómsins verður landamerkjabréfið ekki skilið þannig að nauðsyn beri til að það sjáist í viðmiðunarpunktinn á Heimsendaskeri frá Réttarvaðshóli.

            Þegar gögn máls þessa eru virt verður enn að horfa til þess að ekki hefur verið sýnt fram á að aðalstefnandi hafi nokkurn tíma nýtt Tungulækinn og ekkert bendir ekki til þess að lækurinn eða hluti hans sé eða hafi verið í landi hans. Þá verður ekki fram hjá því litið að faðir aðalstefnda fékk þinglýsta eignarheimild fyrir spildu meðfram Tungulæk árið 1960 og getur landamerkjalínan ekki legið yfir þá spildu. Er því ósannað að kennileiti það á Heimsendaskeri sem aðalstefnandi vill miða við sé sá endapunktur sem markar landamerkjalínuna frá Réttarvaðshóli að Heimsendaskeri. Verður kröfu hans í aðalsök að þessu leyti því hafnað en fallist verður á kröfu gagnstefnanda um að mörk jarðanna milli Réttarvaðshóls og Heimsendaskers skuli liggja eftir beinni línu sem dregin er á milli punkta B og D eins og þeir eru framsettir á dskj. nr. 31 og 42.

            Samkvæmt framansögðu verður aðalstefndi sýknaður af öllum kröfum aðalstefnanda í aðalsök en í gagnsök verða landamerkjakröfur gagnstefnanda teknar til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

            Eftir þessum úrslitum þykir rétt að málskostnaður í aðalsök falli niður að öðru leyti en því að aðalstefnanda verður gert að greiða réttargæslustefnda Braga Gunnarssyni 100.000 krónur í málskostnað. Ekki eru efni til að gera aðalstefnanda að greiða réttargæslustefnda Jens Eiríki Helgasyni málskostnað.

            Í gagnsök skal gagnstefndi greiða gagnstefnanda 1.500.000 krónur í  málskostnað.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

DÓMSORÐ:

            Í aðalsök skal aðalstefndi, Þórarinn Kristinsson, vera sýkn af öllum kröfum aðalstefnanda, Eyþórs Valdimarssonar, í máli þessu.

             Í gagnsök er viðurkennt að að landamerki milli Tungu (lnr. 163468) og Ásgarðs I (lnr. 163300) í Skaftárhreppi verði sem hér segir:            

             Frá punkti A (hnit X=548875.8, Y=32701.9) í miðjum Tungulæk á móts við Söðulsker og þaðan eftir miðlínu Tungulæks norður allt að punkti B í miðjum Tungulæk á móts við Réttarvaðshól (hnit X=549374.3, Y=363884.9) og þaðan í punkt C á Réttarvaðshól (hnit X=549431.9, Y=363924.5) og þaðan bein lína norður í farveg Skaftár með viðmið í punkt D sem er varða á Heimsenda handan Skaftár (hnit X=549906.5, Y=365751.4).

            Málskostnaður í aðalsök fellur niður að öðru leyti en því að aðalstefnanda verður gert að greiða réttargæslustefnda Braga Gunnarssyni 100.000 krónur í málskostnað. 

            Í gagnsök skal gagnstefndi Eyþór Valdimarsson greiða gagnstefnanda Þórarni Kristinssyni 1.500.000 krónur í  málskostnað.