Hæstiréttur íslands

Mál nr. 93/2011


Lykilorð

  • Verðbréfaviðskipti
  • Fjármálafyrirtæki
  • Samningur


                                     

Fimmtudaginn 24. nóvember 2011.

Nr. 93/2011.

SPB hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Þorgilsi Einari Ámundasyni

(Björn Jóhannesson hrl.)

Verðbréfaviðskipti. Fjármálafyrirtæki. Samningur.

S hf. höfðaði mál gegn Þ til innheimtu kröfu sem S hf. taldi sig eiga á grundvelli svokallaðs gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamnings. Upphaflega höfðu aðilar gert slíkan samning sín á milli 18. október 2006 til eins árs en ágreiningur þeirra laut einkum að því hvort nýr samningur sama efnis hefði verið gerður að liðnum gildistíma þess samnings. Talið var að í almennum skilmálum S hf. um markaðsviðskipti, sem Þ hafði skrifað undir, hefði ekki verið kveðið skýrt á um skyldu til að einstakir viðskiptasamningar milli aðila yrðu gerðir skriflega svo að afleiðingar gæti haft fyrir gildi þeirra. Samkvæmt því gat úrlausn málsins ekki ráðist af því einu að Þ hefði ekki undirritað samning um þau viðskipti, sem aðilar deildu um hvort komist hefðu á. Með vísan til upptaka af símtölum og tölvubréfa milli Þ og starfsmanna S hf. þótti sannað að ekki síðar en 31. október 2007 hefði komist á samningur milli aðila um að framlengja í eitt ár frá 18. sama mánaðar þann samning sem þeir gerðu 18. október 2006. Ekki var fallist á að víkja ætti samningnum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Aftur á móti þótti ósannað að aðilar hefðu samið um annað en að óbreytt kjör ættu að gilda við framlengingu samningsins og var því ekki fallist á að Þ skyldi greiða 2% vaxtaálag, eins og kom fram í texta skriflegs samnings sem Þ undirritaði ekki, heldur 1% vaxtaálag eins og í upphaflegum samningi aðila. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 13.391.371 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. október 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti hefur heiti áfrýjanda verið breytt úr Sparisjóðabanka Íslands hf. í SPB hf.

I

Samkvæmt gögnum málsins áttu aðilarnir um nokkurt árabil talsverð viðskipti með fjármálagerninga, en stefndi, sem eftir gögnum málsins er menntaður viðskiptafræðingur og hefur rekið eigin starfsemi meðal annars við fjármálagjöf, undirritaði 12. maí 2003 almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti við áfrýjanda. Í þessum skilmálum kom fram að þeir tækju til allra markaðsviðskipta aðilanna, meðal annars með gjaldeyri og afleiður. Um framkvæmd einstakra viðskipta á grundvelli skilmálanna skyldu gerðir skriflegir samningar með nánari ákvæðum um sérgreinda skilmála, lánskjör og endurgreiðslu. Beiðni um viðskipti skyldi komið á framfæri við áfrýjanda með símbréfi, tölvupósti eða símtali, en staðfesta bæri alla samninga skriflega nema um væri að ræða svokölluð stundarviðskipti með gjaldeyri eða verðbréf. Átti áfrýjandi að koma skriflegum samningum í hendur viðskiptamanns, sem bæri að undirrita þá og skila þeim aftur til áfrýjanda innan fimm daga. Um þörf á tryggingum við upphaf viðskiptanna skyldi farið eftir mati áfrýjanda, en tekið var fram að honum væri heimilt að krefjast viðbótartrygginga færi tap viðskiptamanns yfir helming af andvirði trygginga og bæri þeim síðarnefnda að meginreglu að verða við slíkri kröfu innan sjö daga. Sérstök fyrirmæli voru um vanefndir og þess meðal annars getið að yrðu þær verulegar af hendi viðskiptamanns væri áfrýjanda heimilt en þó aldrei skylt að „gjaldfella eða loka samningi“. Til verulegra vanefnda í þessum skilningi teldust nánar tilgreind atvik, þar á meðal að tap viðskiptamanns færi yfir 80% af andvirði trygginga eða frumrit samnings bærist ekki áfrýjanda undirritað innan tíu daga frá dagsetningu hans. Áfrýjanda bæri að tilkynna viðskiptamanni um gjaldfellingu skuldbindingar eða lokun samnings af slíkum ástæðum, en áfrýjandi myndi þá annast útreikning á hagnaði eða tapi af samningi og markaðsverðmæti trygginga og skyldi slíkur útreikningur sendur viðskiptamanni innan fimmtán daga krefðist hann þess. Með undirritun skilmálanna lýsti viðskiptamaður því yfir að sér væri ljóst að markaðsviðskiptin gætu verið „sérstaklega áhættusöm“, auk þess sem eftirfarandi var tekið fram: „Viðskiptamaður gerir sér grein fyrir því að í markaðsviðskiptum bankans felst ekki viðskiptavakt. Af því leiðir að bankinn ábyrgist ekki tilkynningar til viðskiptamanns um stöðu samninga eða lokun þeirra við ákveðin mörk. Það er því á ábyrgð viðskiptamanns að fylgjast með stöðu og þróun þeirra samninga sem hann hefur gert við bankann.“ Þá var þess einnig getið í skilmálunum að áfrýjandi kynni að taka upp símtöl við viðskiptamann, sem væri því samþykkur að slíkar hljóðritanir yrðu lagðar fram í dómsmáli kæmi til ágreinings um viðskipti þeirra.

Aðilarnir undirrituðu 18. október 2006 skjal með fyrirsögninni „gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamningur“. Samkvæmt honum var svokallaður samningsdagur 17. október 2006, en lokadagur 18. október 2007. Á lokadeginum átti stefndi að afhenda áfrýjanda 361.646,90 svissneska franka, 10.425.717 japönsk yen og 65.885,80 bandaríkjadali að viðbættum LIBOR vöxtum með 1% álagi, en áfrýjandi að afhenda stefnda íbúðabréf með auðkenninu „HFF150914 að nafnverði 34.850.271 að viðbættum afborgunum, vöxtum og verðbótum sem greiddar hafa verið af nafnverðinu á tímabilinu ávaxtað með REIBID.“ Í samningnum var vísað til þess að stefndi hafi með yfirlýsingu 10. apríl 2003 sett áfrýjanda innstæðu á tilteknum bankareikningi að handveði og stæði hún til tryggingar þessari skuldbindingu stefnda. Tekið var fram að ef tap stefnda af samningnum færi yfir 80% af innstæðunni væri áfrýjanda heimilt að krefjast frekari tryggingar, sem stefnda bæri að setja innan sólarhrings að því viðlögðu að áfrýjandi mætti gjaldfella skuldbindingu hans. Um uppgjör á lokadegi voru svofelld ákvæði: „Á gjalddögum samningsins verða upphæðir nettaðar þannig að erlend mynt verður seld á sölugengi og dregin frá greiðslu frá Sparisjóðabanka. Viðskiptareikningur Sparisjóðabankans verður notaður fyrir nettun greiðslustrauma. Skal sú greiðsla sem á að koma frá bankanum vera lögð inn á handveðbók viðskiptamanns yfir líftíma samningsins.“

Í málinu liggur fyrir skjal með yfirskriftinni „uppgjör vegna skiptasamnings“, sem dagsett var 17. nóvember 2007 og undirritað af starfsmanni áfrýjanda. Ljóst er af efni skjalsins, sem fært var á eyðublað frá áfrýjanda, að það hafi snúið að framangreindum samningi aðilanna, þótt þar sé ekki berum orðum vísað til hans. Í reit með fyrirsögninni „skuldbinding viðskiptamanns“ voru tilgreindar sömu fjárhæðir í þremur erlendum gjaldmiðlum og getið var hér að framan og bætt við þær vöxtum, þannig að „höfuðstóll á gjalddaga“ næmi samtals 376.790,36 svissneskum frönkum, 10.701.298,69 japönskum yenum og 70.822,39 bandaríkjadölum, en tekið var fram að þetta væri „framlengt á gjalddaga með nýjum samning“. Í reit með fyrirsögninni „skuldbinding banka“ var ekkert fært. Loks var sagt að „undirliggjandi bréf“ væri „HFF150914“ að nafnverði 34.850.271 króna og væri það „framlengt á gjalddaga með nýjum samningi“.

Þá liggur fyrir í málinu annað skjal með fyrirsögninni „gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamningur“ og segir að hann sé gerður milli áfrýjanda og stefnda. Samningsdagur sé 18. október 2007, en á lokadegi 18. október 2008 beri stefnda að afhenda áfrýjanda 376.790,36 svissneska franka, 10.701.298,69 japönsk yen og 70.822,39 bandaríkjadali og áfrýjanda að afhenda stefnda íbúðarbréf, sem lýst var á sama hátt og í samningi aðilanna 18. október 2006. Skilmálum var að öðru leyti lýst á sama veg og í fyrri samningnum, en þó skyldu fjárhæðirnar, sem stefnda var ætlað að afhenda, bera LIBOR vexti með 2% álagi, sagt var að stefndi hafi látið áfrýjanda í té „tryggingar samkvæmt samkomulagi aðila þar um“, sem ekki var getið nánar, tekið var fram að áfrýjanda væri heimilt að krefjast frekari trygginga ef tap af samningi færi yfir 50% af andvirði þeirra og ekki var settur ákveðinn frestur til að verða við slíkri kröfu. Samningur þessi var undirritaður af tveimur starfsmönnum áfrýjanda, Óðni Árnasyni og Ólöfu Pétursdóttur, en ekki af stefnda. Hann var dagsettur 18. október 2007, en eins og ráðið verður af því, sem rakið verður hér á eftir, er ljóst að sú dagsetning fær ekki staðist.

Í málinu deila aðilarnir um hvort komist hafi á samningur milli þeirra með því efni, sem greindi í síðastnefndu skjali. Stefndi andmælir ekki að hann hafi óskað eftir því við áfrýjanda, en telur á hinn bóginn að ekki hafi orðið af samningsgerð.

II

Meðal gagna, sem áfrýjandi hefur lagt fram í málinu, eru endurrit af hljóðupptökum, sem gerðar voru af nokkrum símtölum starfsmanna hans og stefnda með stoð í áðurgreindu ákvæði í almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti milli þeirra. Samkvæmt endurriti af einu slíku símtali, sem var milli stefnda og starfsmanns áfrýjanda Daða Kristjánssonar 19. október 2007, urðu orðaskipti þeirra meðal annars sem hér segir: „[Stefndi]: ... ég var að spá í, ég er með skiptasamning hjá ykkur ... verðtryggð skuldabréf HFF14 ... og ég er með það í mínum bókum skráð að hann sé eða hafi verið á gjalddaga 18. október, ég hef ekki séð neitt uppgjör eða neitt frá ykkur og ekkert rætt það. Ég hef ekkert endurnýjað hann sko. [Daði]: Hvernig er hann segir þú? [Stefndi]: Þar sem ég kaupi sem sagt HFF14, með erlendu láni. [Daði]: Með erlendu láni? [Stefndi]: Já hann hefur væntanlega komið á gjalddaga í gær, en ég ætlaði að endurnýja hann sko, ekki láta hann renna út sko. [Daði]: Ókey, hvenær var þetta gert? [Stefndi]: Fyrir ári síðan. [Daði]: Fyrir ári síðan? [Stefndi]: Já Ólöf þekkir þetta ... [Daði]: Já ... ég þarf eiginlega að ná að tala við hana um þetta sko. [Stefndi]: Getur nokkuð verið að samningnum hafi verið lokað án þess að ég vissi af því? [Daði]: Það finnst mér mjög ólíklegt ... það eru ekki viðskiptahættir okkar alla vega, að spyrja kúnnann ekkert og loka bara ... [Stefndi]: Að vísu hefur krafan líklega hækkað í millitíðinni, eða hún var í reyndar í hámarki held ég í gær ... [Daði]: Það þarf þá bara að skoða það hvernig við myndum tækla þetta ef að þetta hefur einhvern veginn gleymst. [Stefndi]: Ég myndi þá bara rúlla þessu í annað ár og á sömu kjörum ef að það væri í boði, en ég þarf þá bara að fá tilboð frá ykkur í það. [Daði]: Já ... ég þarf bara að tala um þetta við Ólöfu, hún kemur á mánudaginn. ... [Stefndi]: Þú hefur þetta bara hjá þér og skoðar þetta með henni á mánudaginn. [Daði]: Já.“ Þeir sömu áttu aftur símtal 23. október 2007, þar sem meðal annars fóru eftirfarandi orð milli þeirra: „[Stefndi]: Ólöf er ekkert búin að svara þessu með verðbréfaskiptasamninginn? [Daði]: Heyrðu nei, með þarna hvað var það aftur HFF? [Stefndi]: 14 ... [Daði]: Hún er þarna á kafi í einhverju akkúrat núna ... en hún veit af þessu. [Stefndi]: Já, já minntu hana bara á þetta. [Daði]: Já.“

Stefndi sendi tölvubréf 25. október 2007 til fyrrnefnds starfsmanns áfrýjanda Ólafar Pétursdóttur, þar sem sagði: „Þurfum við ekki að gera eitthvað núna varðandi skiptasamninginn sem ég er með á móti HFF14, held að gjalddaginn á honum hafi verið 18/10?“ Stefndi átti síðan símtal við Daða Kristjánsson 31. sama mánaðar, þar sem meðal annars kom fram eftirfarandi: „[Stefndi]: En aftur á móti voru samningar á gjalddaga 18. október sem að ég er náttúrulega búinn ítrekað að reyna að fá upplýsingar um, bæði í gegnum þig og síðan sendi ég línu beint á Ólöfu líka ... hún svarar mér engu sko, þannig að ég veit ekki alveg hvað maður á að gera með þetta sko. [Daði]: Ég skal spyrja hana um þetta á eftir. [Stefndi]: Ég myndi náttúrulega vilja rúlla þessum samningum áfram eins og ég talaði um, annað ár og hérna bara á hvaða kjörum þið eruð til í að gera það sko. [Daði]: Já, já, já. [Stefndi]: Þannig að ég vil meina að ég hafi rúllað þeim fyrir þennan tímapunkt sko. [Daði]: Já, já. [Stefndi]: Þið vinnið bara úr því, en endilega nefndu þetta við hana af því að hún hefur ekkert svarað mér eftir að ég sendi henni tölvupóst. [Daði]: Ókey.“

Í málinu liggur fyrir tölvubréf, sem starfsmaður áfrýjanda Óðinn Árnason sendi stefnda sama dag og síðastgreint símtal átti sér stað, en þar óskaði Óðinn eftir því að stefndi hefði samband við sig út af tveimur skiptasamningum „á gjalddaga 02/11“. Stefndi svaraði þessari orðsendingu samdægurs með tölvubréfi, þar sem meðal annars sagði eftirfarandi: „Þetta er dálítið sérstakt mál, ég hélt að þessir samningar væru á gjalddaga 18/10 sl. og hef verið að spyrja Daða og Ólöfu út í þá frá þeim tíma, án þess að fá nokkur svör. Nú síðast í dag sagði ég Daða að ég vildi framlengja þessum samningum til eins árs, kæmu þeir í leitirnar, lagði áherslu á að ganga frá þessu í dag ef hægt væri. Ég sagði Daða líka að ég liti svo á að ég væri búinn að framlengja þessum samningum með mínum fyrirmælum þó þið næðuð tæknilega ekki að ganga frá þessu fyrr en eftir mánaðarmót. Þú mættir hringja í mig upp úr hádeginu á morgun ... og þá getum við farið betur yfir þetta (myndi jafnvel vilja breyta myntsamsetningunni og hækka samningana, ef hægt er).“ Þessu svaraði Óðinn um hæl með svohljóðandi tölvubréfi: „Það kom kannski ekki nægjanlega vel fram hjá mér í fyrsta pósti en þeir samningar sem ég átti við voru gjaldeyrissamningarnir sem þú ræddir við Daða um og kláraðir. Ólöf ætlar svo að framlengja HFF-samningunum um eitt ár.“ Enn svaraði stefndi þessu sama dag með tölvubréfi, þar sem sagði: „Gott að heyra að þetta er klárt. Ég hefði jafnvel viljað hækka þennan skiptasamning sem Ólöf er með úr 30 í 50 mkr., er alveg jafn gott að gera bara nýjan samning fyrir viðbótinni? Myndi vilja hafa viðbótina alla í EUR, 20 mkr.“ Eftir gögnum málsins urðu ekki frekari samskipti milli aðilanna fyrr en Óðinn sendi stefnda svohljóðandi tölvubréf 7. nóvember 2007: „Varðandi skiptasamninginn sem þig langaði til að stækka þá var það ekki hægt út af MiFID löggjöfinni. Þú ert metinn sem almennur fjárfestir og því var ekki hægt að framkvæma þessi viðskipti svona seint, því miður. En við framlengdum öllu því sem þú baðst okkur um að framlengja.“ Í svari við þessu, sem stefndi sendi samdægurs, voru engar athugasemdir gerðar um atriði, sem varða mál þetta.

Áfrýjandi hefur lagt fram bréf með yfirskriftinni „óundirritaður samningur“, sem hann kveðst hafa sent stefnda 27. desember 2007, en hann segir það varða samninginn, sem deilt er um í málinu. Í bréfinu kom fram að áfrýjanda hafi „ekki borist meðfylgjandi samningur undirritaður“ og var óskað eftir að stefndi undirritaði hann og endursendi annaðhvort með tölvubréfi eða símbréfi. Þá hefur áfrýjandi jafnframt lagt fram tölvubréf, sem fór milli tveggja starfsmanna hans 11. desember 2008, en þar sagði meðal annars: „Jólastarfsmaður sendir honum fax 27.12.2007 þar sem beðið er um undirskrift á þessum samningi. Það hefur ítrekað verið beðið um undirritun á öllum samningum þessa manns.“ Stefndi kveðst ekki kannast við að hafa fengið bréfið frá 27. desember 2007.

Stefndi sendi tölvubréf 31. desember 2007 til áðurnefnds starfsmanns áfrýjanda, Ólafar Pétursdóttur, þar sem sagði meðal annars: „Ég sendi þér tölvupóst um daginn þar sem ég spurði hvort ekki hefði verið einhver afkoma af verðtryggða skiptasamningnum mínum þegar hann kom á gjalddaga í lok október en hef engin svör fengið, geturðu kannað þetta?“ Í svari, sem Ólöf sendi samdægurs, kvaðst hún ekki kannast við tölvubréf frá stefnda, en „ef mig minnir rétt þá var tap á samningnum sem var framlengt í nýja samningnum þannig að ekkert greiðsluflæði átti sér stað.“ Stefndi svaraði þessari orðsendingu með tölvubréfi 7. janúar 2008, þar sem sagði eftirfarandi: „Viltu vinsamlegast senda mér eitthvað uppgjörsblað fyrir þessari framlengingu, eitthvað svoleiðis hlýtur að hafa verið sett upp?“

Áfrýjandi hefur meðal annars vísað til þess að þegar gengi íslensku krónunnar hafi lækkað fyrri hluta árs 2008 hafi stefndi gert ráðstafanir til að verja sig með því að gera við áfrýjanda framvirk kaup á þeim erlendu gjaldmiðlum, sem hann hafi átt að standa skil á 18. október á því ári samkvæmt samningnum, sem deilt er um í málinu. Þessu til stuðnings hefur áfrýjandi meðal annars vísað til hljóðupptöku af símtali starfsmanns síns Daða Kristjánssonar og stefnda 17. mars 2008, þar sem eftirfarandi kom fram: „[Daði]: Og svo var ... út af þarna samningnum sem að þú varst með þarna, hinum ... [Stefndi]: Verðbréfasamningnum. [Daði]: Já, hann er 10,7 sé ég já, ... þannig að ég loka öllu því, loka ég bara með framvirkum samningi sem að lendir á sama degi með nákvæmlega sömu upphæðum. [Stefndi]: Já ... þú þarft ekki að loka honum svo langt ... [Daði]: Ókey ég get gert það styttra ... [Stefndi]: Þriggja mánaða lokun bara og svo myndi ég kannski hérna skoða hvernig þetta verður, ég get alltaf opnað þetta aftur sko. [Daði]: Já þetta er þá, þetta er þá ég get tekið, ég tek þá í þrjá mánuði. [Stefndi]: Já. [Daði]: En ég hef þetta bara nákvæmlega þessar upphæðir 376.790 ... og 10 milljónir komma, eða 10,7 milljónir jena og 70,8 dollarar. [Stefndi]: Já. [Daði]: Ókey. Þetta er svo mikið hérna, mikið af drasli sem við erum með í gangi hérna. [Stefndi]: Já.“ Samningur um slík gjaldeyriskaup hefur ekki verið lagður fram í málinu og virðist hafa risið ágreiningur um þau, sem hafi orðið til þess að Daði ritaði tölvubréf til stefnda 28. apríl 2008. Þar sagði meðal annars að þrír tilteknir samningar, sem hafi tekið gildi 19. mars 2008 og væru á gjalddaga 16. júní sama ár, hafi verið gerðir „til að loka erlenda hlutanum í HFF samningunum þínum. Þú baðst sérstaklega um það. Svo segirðu að þú hafir ekki viljað hafa þá í þrjá mánuði sem er gjörsamlega rangt. Ég hlustaði á samtalið og það var á þá leið að ég stakk uppá því að gera þessa framvirku fram á lokadag HFF samningsins sem er í haust en þú segir að þú viljir frekar hafa þá bara í 3 mánuði. Þetta var 17. mars sl. og þ.a.l. hafði ég þá til 16. júní nk.“ Þessu svaraði stefndi með tölvubréfi sama dag, en ekki er að sjá að efnislegum athugasemdum hafi þar verið hreyft við því, sem að framan greinir.

Í málinu liggur fyrir tölvubréf 3. apríl 2008 frá starfsmanni áfrýjanda Jóhanni Þórhallssyni til stefnda, þar sem sagði meðal annars: „Endilega skoðaðu viðhengin. Ég tók saman alla samningana hjá þér í excel skjali ... Leggja þarf inn á tryggingarreikning kr. 1.999.351 vegna taps á samningum. Að auki þarf að bæta í tryggingastöðu vegna opinna samninga alls 4.250.990 kr.“ Jóhann ritaði síðan annað tölvubréf til stefnda 11. sama mánaðar, þar sem eftirfarandi kom fram: „Hérna færðu í viðhenginu alla samningana sem eru óundirritaðir. Vinsamlegast sendu mér þetta í síðasta lagi ... 15. apríl. Einnig væri gott að fá að vita þegar þú leggur inn auknar tryggingar fyrir opnum samningum að fjárhæð kr. 4.250.990“. Óumdeilt er að samningsins, sem málið varðar, hafi hvorki verið getið á yfirliti, sem fylgdi fyrrnefnda tölvubréfinu, né hafi hann verið meðal óundirritaðra samninga aðilanna, sem fylgdu því síðarnefnda. Þá er óumdeilt að áfrýjandi kallaði á engu stigi eftir frekari tryggingum frá stefnda vegna þessa samnings.

Starfsmaður áfrýjanda Margeir Vilhjálmsson sendi svohljóðandi tölvubréf til stefnda 5. nóvember 2008: „Á gjalddaga þann 18. október sl. var gjaldmiðla og verðbréfaskiptasamningur Nr. 01-2007, þar sem þú áttir að afhenda CHF 376.790,36 – JPY 10.701.298,69 – og USD 70.822,39. Á móti áttirðu að fá HFF 150914 að nafnvirði 34.850.271 að viðbættum afborgunum, vöxtum og verðbótum sem greiddar hafa verið á tímabilinu, ávaxtað með reibid. Sjá meðfylgjandi útreikninga, en tap er á samningnum uppá ríflega 32 milljónir, sem gera þarf upp.“ Þetta ítrekaði Margeir í tölvubréfum 17. og 18. nóvember 2008, en við því virðist stefndi ekki hafa brugðist og beindi áfrýjandi til hans innheimtubréfi 28. sama mánaðar, þar sem skuld vegna samningsins var sögð vera að höfuðstóli 37.113.199 krónur og samtals 39.490.408 krónur með vöxtum og kostnaði.

Stefndi sendi tölvubréf til Margeirs Vilhjálmssonar 7. desember 2008, þar sem meðal annars sagði eftirfarandi: „Eftir talsverða yfirlegu yfir þessu máli finn ég ekkert hjá mér um að ég hafi gert þennan samning né minnist ég þess. Ég vísa því þessu máli frá mér, nema fram komi einhver gögn frá ykkur sem staðfesta annað. Aftur á móti komst ég loksins í að yfirfara uppgjör frá ykkur vegna sambærilegs samnings sem rann út í fyrra. Ég fæ ekki betur séð en að ég eigi inni hjá ykkur u.þ.b. 2,7 mkr. vegna þess uppgjörs, sem væri gott að fá greitt frá ykkur við fyrsta tækifæri. Til gamans setti ég líka inn tölur sem fram koma hjá ykkur varðandi meintan nýjan samning og stillti upp uppgjöri miðað við að hann hefði verið gerður, sem ég ítreka að ég kannast ekki við að hafi átt sér stað. Skv. þeim útreikningum ... hefði tap samningsins numið u.þ.b. 19,5 mkr. (og u.þ.b. 16,4 mkr. samtals fyrir báða samningana, að meðtöldum vöxtum af hagnaði af fyrri samningnum, á móti 32,9 mkr. skv. ykkar útreikningum!).“ Þessu svaraði starfsmaður áfrýjanda með tölvubréfi 9. desember 2008, þar sem vísað var til þess að hann hefði „undir höndum tölvupóst þar sem þú ferð fram á framlengingu á umræddum samningi.“ Stefndi óskaði rakleitt eftir að fá þetta tölvubréf sent, sem áfrýjandi varð við 11. sama mánaðar. Í framhaldi af því gengu tölvubréf milli aðilanna, þar á meðal bréf frá stefnda 17. desember 2008, þar sem hann gagnrýndi útreikninga áfrýjanda á kröfu sinni. Ekki verður séð í þessum orðsendingum stefnda að hann hafi á því stigi hreyft því frekar að samningurinn hafi ekki verið gerður.

Áfrýjandi gaf út kvittun til stefnda 16. júní 2009 fyrir greiðslu á 3.932.691 krónu inn á skuld samkvæmt samningi, sem hafi verið á lokadegi 18. október 2008. Greiðslu þessa mun áfrýjandi hafa tekið af innstæðu bankareiknings, sem stefndi hafði sett að handveði til tryggingar skuld við þann fyrrnefnda. Sama dag mun áfrýjandi hafa gefið út stefnu í máli á hendur stefnda til heimtu skuldar á grundvelli samningsins, aðallega að fjárhæð 35.455.090 krónur en til vara 24.168.427 krónur, í báðum tilvikum að frádreginni framangreindri innborgun. Ekki mun áfrýjandi hafa látið verða af því að þingfesta það mál, sem mun hafa átt að gera 30. sama mánaðar. Hann höfðaði á hinn bóginn mál þetta 9. október 2009, en í héraðsdómsstefnu var aðeins gerð sú krafa, sem mun hafa verið höfð uppi til vara í fyrri stefnu hans.

III

Samkvæmt gögnum málsins hefur fjárhæð kröfu, sem áfrýjandi telur sig geta haft uppi á hendur stefnda samkvæmt samningi á lokadegi 18. október 2008, verið mjög á reiki. Sem fyrr segir mun áfrýjandi í innheimtubréfi hafa talið höfuðstól kröfunnar 37.113.199 krónur. Í fyrri stefnu vegna kröfunnar taldi áfrýjandi hana nema 35.455.090 krónum, en samkvæmt skýringum á þeirri fjárhæð, sem liggur fyrir í málinu, átti skuld stefnda samkvæmt ætluðum samningi að hafa verið að fjárhæð 71.588.696 krónur með því að miðað hafi verið við sölugengi hjá áfrýjanda á svissneskum frönkum, japönskum yenum og bandaríkjadölum. Á móti þeirri skuld átti á hinn bóginn að koma eign stefnda vegna íbúðabréfs með auðkenninu HFF150914 að nafnverði 34.850.271 króna en að andvirði 30.609.144 krónur, auk vaxta, sem greiddust af því bréfi 15. mars og 15. september 2008 að fjárhæð samtals 5.524.462 krónur, eða alls 36.133.606 krónur. Í málinu hefur áfrýjandi ekki gert kröfu samkvæmt þessari sundurliðun, heldur krafðist hann í héraðsdómsstefnu greiðslu á 24.168.427 krónum. Þá fjárhæð hefur hann skýrt þannig að skuldbinding stefnda til að inna af hendi 376.790 svissneska franka, 10.701.299 japönsk yen og 70.822 bandaríkjadali 18. október 2008 hafi eftir sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim gjaldmiðlum þann dag svarað til 60.302.033 króna, en til frádráttar komi fyrrnefndar 36.133.606 krónur vegna inneignar stefnda á grundvelli íbúðabréfs. Sú fjárhæð stóð óbreytt þegar dómur var lagður á málið í héraði, en áfrýjandi taldi sem áður segir til frádráttar kröfunni innborgun 16. júní 2009 að fjárhæð 3.932.691 króna.

Fyrir Hæstarétti krefst áfrýjandi sem fyrr segir þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 13.391.371 krónu. Breytt fjárhæð kröfunnar skýrist fyrst í stað af því að samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda hér fyrir dómi láðist honum að taka tillit til þess að 18. október 2008 bar upp á laugardag og hafi því með réttu átt að miða við sölugengi svissneskra franka, japanskra yena og bandaríkjadala 20. sama mánaðar við útreikning á ætlaðri skuldbindingu stefnda, en hún nemi samkvæmt þessu 59.712.451 krónu. Í annan stað eigi að draga frá þeirri fjárhæð samtals 42.388.389 krónur vegna inneignar stefnda samkvæmt fyrrnefndu íbúðarbréfi. Í málatilbúnaði áfrýjanda er hækkun á fjárhæð þessarar inneignar rakin til þess að í fyrsta lagi hafi á fyrri stigum verið tekið mið af röngu gengi við útreikning á verðmæti íbúðabréfsins, sem með réttu hafi verið 31.145.830 krónur, í öðru lagi hafi láðst að taka tillit til vaxtagreiðslna af því 15. mars og 15. september 2007 að fjárhæð samtals 5.713.794 krónur og í þriðja lagi séu vaxtagreiðslur sömu daga á árinu 2008 að réttu lagi samtals 5.528.765 krónur. Loks hefur krafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti sætt lækkun frá því, sem hann krafðist í héraði, sökum þess að áðurnefnd innborgun að fjárhæð 3.932.691 króna er dregin frá höfuðstóli kröfunnar.

IV

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, sem voru í gildi 18. október 2007, bar fjármálafyrirtæki að gera skriflegan samning við viðskiptavin sinn, þar sem meðal annars yrði kveðið á um réttindi þeirra og skyldur, ef það tók að sér þjónustu við hann á sviði verðbréfaviðskipta, sem fól í sér viðvarandi viðskiptasamband, sbr. nú 1. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Í þessu lagaákvæði var ekki mælt fyrir um skyldu til að gera skriflegan samning um hver einstök viðskipti og var þeim áskilnaði, sem þar var gerður, þannig fullnægt með því að stefndi hafði 12. maí 2003 gengist undir framangreinda almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti við áfrýjanda. Í 2. grein þeirra skilmála var eins og áður var getið kveðið á um hvernig viðskiptamaður ætti að koma á framfæri við áfrýjanda beiðni um viðskipti og því bætt við að „allir samningar skulu staðfestir skriflega“ nema um væri að ræða stundarviðskipti með gjaldeyri eða verðbréf. Þá var einnig tekið fram að áfrýjanda bæri að senda frumrit allra samninga, sem samkvæmt þessu ætti að gera skriflega, til viðskiptamanns, sem væri skylt að koma þeim undirrituðum til áfrýjanda innan fimm daga frá samningsgerð. Í ákvæðum 7. greinar skilmálanna um vanefndir og heimildir áfrýjanda til að gjaldfella skuldbindingar viðskiptamanns sagði á hinn bóginn að áfrýjanda væri „heimilt, en undir engum kringumstæðum skylt, að gjaldfella eða loka samningi“ meðal annars ef „frumrit samninga hafa ekki borist bankanum innan 10 daga frá dagsetningu samninga“.

Samkvæmt meginreglum fjármunaréttar er gildi samnings ekki háð því að hann sé gerður í tilteknu formi nema slíkan áskilnað leiði af lögum eða aðilar hans hafi gengist undir að hlíta þeim skilmála í lögskiptum sínum. Sem fyrr segir leiddu lög nr. 33/2003 ekki til þess að málsaðilum hafi borið að gera skriflega samninga um einstök viðskipti sín. Það ósamræmi, sem var innbyrðis milli framangreindra ákvæða skilmálanna sem stefndi undirritaði 12. maí 2003, verður óhjákvæmilega að valda því að þar teljist ekki hafa verið kveðið skýrt á um skyldu til að gera einstaka viðskiptasamninga milli aðilanna skriflega svo að afleiðingar geti haft fyrir gildi þeirra. Samkvæmt þessu getur úrlausn málsins ekki ráðist af því einu að stefndi hafi ekki undirritað samning um þau viðskipti, sem aðilarnir deila um hvort komist hafi á.

Gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamningur, sem aðilarnir undirrituðu 18. október 2006, var sem áður segir á lokadegi réttu ári síðar. Í fyrrgreindu símtali, sem stefndi átti við starfsmann áfrýjanda 19. október 2007, kom skýrlega fram ósk stefnda um að framlengja þennan samning í eitt ár með sömu kjörum og áður giltu og leitaði hann í símtali og tölvubréfi 23. og 25. sama mánaðar sérstaklega eftir svari áfrýjanda við þessari ósk. Enn ítrekaði stefndi þetta í símtali við starfsmann áfrýjanda 31. október 2007 og sagðist þá meðal annars „vilja rúlla þessum samningum áfram eins og ég talaði um, annað ár“, en bætti því svo við litlu síðar að „ég vil meina að ég hafi rúllað þeim fyrir þennan tímapunkt“, sem viðmælandi hans játti. Í tölvubréfi sama dag til annars starfsmanns áfrýjanda kvaðst stefndi hafa sagt viðmælanda sínum í þessu símtali að hann vildi framlengja samninginn til eins árs, svo og að hann hafi jafnframt sagt „að ég liti svo á að ég væri búinn að framlengja þessum samningum með mínum fyrirmælum þó þið næðuð tæknilega ekki að ganga frá þessu fyrr en eftir mánaðarmót.“ Í sömu orðsendingu hreyfði stefndi því einnig að hann „myndi jafnvel vilja breyta myntsamsetningunni og hækka samningana, ef hægt er“. Þessu tölvubréfi svaraði starfsmaðurinn meðal annars með því að vísa til þess að stefndi hafi rætt við annan nafngreindan starfsmann um gjaldeyrisskiptasamninga, sem stefndi hafi klárað, og enn annar starfsmaður myndi framlengja samning um íbúðabréf í eitt ár. Stefndi svaraði þessu aftur með tölvubréfi og sagði það gott „að heyra að þetta er klárt“, en gat þess þó aftur að hann „hefði jafnvel viljað hækka þennan skiptasamning“. Loks sendi starfsmaðurinn stefnda tölvubréf 7. nóvember 2007, þar sem fram kom að af nánar tilteknum ástæðum hafi ekki verið unnt að „stækka“ skiptasamninginn, en bætti því svo við að „við framlengdum öllu því sem þú baðst okkur um að framlengja.“ Samkvæmt gögnum málsins gerði stefndi enga athugasemd af þessu tilefni.

Án þess að líta þurfi til nokkurs annars af því, sem áður var rakið, er sannað með þessu að ekki síðar en 31. október 2007 hafi komist á samningur milli aðilanna um að framlengja í eitt ár frá 18. sama mánaðar að telja þann gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamning, sem þeir gerðu 18. október 2006. Engin skilyrði eru til að víkja þeim samningi til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum, sem stefndi hefur til vara borið fyrir sig. Hann hefur ekki andmælt því sérstaklega að í þessari framlengingu hafi meðal annars falist að hann hafi tekið á sig skyldu til að standa áfrýjanda skil 18. október 2008 á fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum eins og þær stóðu á lokadegi eldri samningsins eða 376.790,36 svissneskum frönkum, 10.701.298,69 japönskum yenum og 70.822,39 bandaríkjadölum. Til þess verður á hinn bóginn að líta að í samningnum 18. október 2006 var kveðið á um að stefnda bæri ári síðar að greiða áfrýjanda tilteknar fjárhæðir í þessum gjaldmiðlum að viðbættum LIBOR vöxtum með 1% álagi, en í texta skriflegs samnings 18. október 2007, sem stefndi undirritaði ekki, var mælt fyrir um LIBOR vexti með 2% álagi og er útreikningur á dómkröfu áfrýjanda miðaður við það. Með því, sem að framan er rakið, er ósannað að aðilarnir hafi samið um annað en að óbreytt kjör ættu að gilda við framlengingu samningsins, þar á meðal um vexti. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti nemur krafa hans 12.809.981 krónu ef reiknað er með 1% álagi á LIBOR vexti. Með því að stefndi andmælir ekki þessum útreikningi á kröfunni verður honum gert að greiða þessa síðastnefndu fjárhæð, sem ber dráttarvexti frá gjalddaga kröfunnar eins og nánar greinir í dómsorði.

Eins og áður var rakið hefur komið fram í málatilbúnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti að fjárhæð dómkröfunnar, sem hann gerði fyrir héraðsdómi, hafi svo að miklu munaði verið of há. Að því virtu er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði, en stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndi, Þorgils Einar Ámundason, greiði áfrýjanda, SPB hf., 12.809.981 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. október 2008 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Stefndi greiði áfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2010.

Mál þetta, sem var dómtekið 11. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sparisjóðabanka Íslands hf., Rauðarárstíg 27, Reykjavík, á hendur Þorgils Einari Ámundasyni, Klukkubergi la, Hafnarfirði, með stefnu birtri 9. október 2009.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 24.168.427 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 18. október 2008 og til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 3.932.691 kr. hinn 16. júní 2009. Þá er krafist málskostnaðar með virðisaukaskatti að skaðlausu að mati réttarins.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.

Þess er krafist bæði í aðal- og varakröfu að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

Málavextir

Hinn 18. október 2006 gerði stefndi gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamning við stefnanda. Samningurinn var að fjárhæð 30.000.000 kr. og var til 12 mánaða. Samkvæmt samningnum skuldbatt stefndi sig til að afhenda stefnanda í lok samningstímans hinn 18. október 2007 fjárhæðir í þremur erlendum myntum, þ.e. CHF 361.646,90, JPY 10.425.717 og USD 65.885,80 að viðbættum vöxtum frá samningsdegi til lokadags sem námu LIBOR vöxtum að viðbættu 1% vaxtaálagi. Stefnandi skuldbatt sig hins vegar samkvæmt samningnum til að afhenda stefnda á lokadegi samningsins skuldabréf í flokknum HFF 1590914, svonefnd íbúðabréf. Afborganir, vextir og verðbætur af íbúðabréfinu skyldu á samningstímanum fjárfestar á Reibid og greiddar stefnda á lokadegi samningsins. Samkvæmt samningnum bar stefndi gengisáhættuna af erlendu myntunum en fékk á móti vexti af íbúðabréfinu sem á þessum tíma voru 5,7% auk verðbóta. Sem tryggingu vegna þessara viðskipta lagði stefndi 3.000.000 kr. inn á bankabók hjá stefnanda, sem var 10% af fjárhæð samningsins, en það var skilgreind tryggingaþörf af hálfu stefnanda. Samningurinn var gerður í stað annarra skiptasamninga sem hann hafði verið með hjá stefnanda í nokkur ár, en þeim samningum hafði verið lokað nokkru áður. Samningurinn var sambærilegur fyrri samningum stefnda hjá stefnanda fyrir utan þá vaxtaáhættu sem var af verðbreytingum á íbúðabréfinu. 

Fyrir liggur í málinu gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamningur, dags. 18. október 2007. Samningurinn var með lokadag hinn 18. október 2008. Samningur þessi er ekki undirritaður af hálfu stefnanda. Dómkrafa stefnanda byggir á þessum samningi. Samkvæmt ákvæðum samningsins skyldi stefndi afhenda stefnanda á lokadegi samningsins fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum: CHF 376.790,36, JPY 10.701.298,69 og USD 70.822,39, að viðbættum vöxtum frá samningsdegi til lokadags sem námu LIBOR vöxtum að viðbættu 2% vaxtaálagi. Vaxtatímabil var 12 mánuðir og vextir reiknuðust frá 18. október 2007. Stefnandi skyldi afhenda stefnda á lokadegi samningsins skuldabréf í flokki HFF150914, að nafnverði 34.850.271 kr. að viðbættum afborgunum, vöxtum og verðbótum, sem greiddar hafa verið af nafnverðinu á tímabilinu ávaxtað með REIBID. Gjalddagar á skuldabréfinu voru tveir á samningstímanum, þ.e. 15. mars 2008 og 15. september 2008.

Stefnandi kveður samninginn frá dags. 18. október 2007, vera framlengingu á samningi aðila um sama efni, dags. 18. október 2006. Ágreiningslaust er að vilji stóð hjá stefnda til að framlengja samninginn. Eins og að framan greinir er samningurinn frá 18. október 2007 óundirritaður og ágreiningur um hvort hann hafi komist á milli aðila.

Hinn 31. október 2008 sendi stefndi tölvupóst til stefnanda, þar sem hann kvaðst vilja framlengja samninginn um eitt ár. Stefndi óskaði jafnframt eftir því við stefnanda að fá uppgjör á samningnum frá 18. október 2006, sem stefndi taldi að hefði skilað sér talsverðum hagnaði. Stefndi óskaði einnig eftir því í tölvupósti til stefnanda að starfsmenn stefnanda hefðu samband við hann varðandi framlengingu á samningnum, þar sem hann hefði í huga að gera breytingar á fjárhæð og myntsamsetningu samningsins. Í áðurnefndum tölvupósti stefnda voru hins vegar ekki tilgreindar ákveðnar fjárhæðir, vextir né aðrar forsendur fyrir framlengingu samningsins. Í tölvupósti frá stefnanda til stefnda síðar þann sama dag kom fram að starfsmaður stefnanda ætlaði að framlengja gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamninginn um eitt ár, en stefndi svaraði því að nýju að hann vildi gera ákveðnar breytingar á samningnum bæði á fjárhæð og myntsamsetningu hans.

Með tölvupósti, dags. 5. nóvember 2008, var stefnda send áminning um gjalddaga samningsins hinn 18. október 2008 og honum tilkynnt að hann þyrfti að gera tap samningsins upp. Þá var stefnda send ítrekun.

Hinn 7. nóvember 2008 var stefnda tilkynnt í tölvupósti að ekki væri hægt að stækka samninginn og var vísað í því sambandi til MIFID samþykktar svo og þess að stefndi væri metinn sem almennur fjárfestir hjá stefnanda.

Með tölvupóstsendingum til stefnanda í desember 2007 leitaði stefndi ítrekað eftir því við stefnanda að fá uppgjör á samningnum frá 18. október 2006.

Hinn 27. desember 2007 óskaði stefnandi eftir því að samningurinn frá 18. október 2007 yrði undirritaður. Stefndi kveðst aldrei hafa fengið eintak af þeim samningi, né beiðni eða ítrekun um að undirrita slíkan samning.

Í tölvupósti 31. desember 2007 frá starfsmanni stefnanda til stefnda kom fram að starfsmanninn minnti að tap hefði verið á fyrri samningnum án þess að það væri skýrt nánar. Stefndi sendi stefnanda tölvupóst 7. janúar 2008, þar sem hann fór þess á leit við stefnanda að fá í hendurnar uppgjörsblað vegna fyrri samnings og gögn varðandi framlengingu á samningnum, ef um slíkt væri að ræða.

Í mars og apríl 2008 óskaði stefndi þá eftir því við stefnanda að fá yfirlit yfir alla þá samninga sem hann hefði hjá stefnanda, jafnt framvirka gjaldeyrissamninga sem aðra opna samninga. Það var sent að sögn stefnda og liggur það fyrir í málinu.

Í apríl 2008 fékk stefndi fyrirmæli frá stefnanda um að leggja fram auknar tryggingar vegna opinna framvirkra gjaldeyrissamninga. Stefndi varð við þeim tilmælum og bætti við tryggingarnar, en tók síðar ákvörðun um að loka þessum samningum.

Í byrjun nóvember 2008 var stefndi krafinn um greiðslu á rúmum 32 milljónum króna sem stefnandi taldi vera útreiknað tap á þeim samningi sem átti að hafa verið framlengdur 18. október 2007 með lokagjalddaga 18. október 2008. Í framhaldinu átti stefndi fund með starfsmönnum stefnanda þar sem hann skýrði sín sjónarmið til málsins.

Hinn 28. nóvember 2008 fékk stefndi innheimtubréf vegna málsins frá lögmanni stefnanda, þar sem höfuðstóll innheimtukröfu stefnanda var 37.113.199 kr., en því til viðbótar komu dráttarvextir og innheimtukostnaður.

Hinn 16. júní 2009 fékk stefndi kvittun frá lögmanni stefnanda þar sem tilgreind var innborgun inn á kröfuna að fjárhæð 3.932.691 kr. sem mun hafa verið sú handveðstrygging sem stefndi lagði fram við gerð samningsins 18. október 2006, í formi inneignar á reikningi stefnda nr. 1100-15-530032 hjá stefnanda.

Mál á hendur stefnda var síðan höfðað.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Krafa stefnanda er byggð á uppgjöri hinn 18. október 2008, í samræmi við efni samnings aðila 18. október 2007, en stefndi átti að afhenda stefnanda CHF 376.790,36, JPY 10.701.298,69 og USD 70.822,39, að viðbættum áföllnum vöxtum frá 18.10.2007. Til afhendingar af hálfu stefnda voru því CHF 395.943,87, JPY 11.042.919,82 og USD 75.790,58. Sölugengi Seðlabanka Íslands var á uppgjörsdegi CHF 99,44, JPY 1,12 og USD 112,96. Umreiknað í íslenskar krónur, í samræmi við sölugengi Seðlabanka Íslands 18. október 2008, voru því til afhendingar 60.302.033 kr.

Til afhendingar af hálfu stefnanda var skuldabréf í flokki HFF150914, að nafnverði 34.850.271 kr. að viðbættum afborgunum, vöxtum og verðbótum sem greiddar höfðu verið af nafnverðinu á samningstímanum, ávaxtað með REIBID. Á uppgjörsdegi var verðmæti þess 36.133.606 kr. Gengi skuldabréfaflokks HFF150914 hinn 18. október 2008 var 0,87830. Verðmæti skuldabréfsins á uppgjörsdegi var því 30.609.144 kr.

Til greiðslu á gjalddaga skuldabréfsins hinn 15. mars 2008 voru 2.520.105 kr. sem var ávaxtað með REIBID til lokadags samningsins. Til afhendingar af hálfu stefnanda voru því 2.723.097 kr. á lokadegi samningsins vegna gjalddaga 15. mars 2008. Til greiðslu á gjalddaga skuldabréfsins hinn 15. september 2008 voru 2.761.247 kr. sem var ávaxtað með REIBID til lokadags samningsins. Til afhendingar af hálfu stefnanda voru því 2.801.365 kr. á lokadegi samningsins vegna gjalddaga 15. september 2008.

Stefnandi átti þar með að afhenda stefnda samtals verðmæti að fjárhæð 36.133.606 kr. Gengi skuldabréfaflokks HFF150914 á uppgjörsdegi 18. október 2008, þ.e. 0,87830 er svokallað óhreint verð (e. dirty price), þar sem tekið er tillit til afborgana og áfallinna vaxta af skuldabréfinu. Taka verður tillit til afborgana og vaxta þegar fundið er út hversu mikils virði skuldabréfin eru. Hreint verð (e. clean price) á uppgjörsdegi var 1,0267.

Krafa stefnanda er mismunur á þeim verðmætum sem stefnandi og stefndi áttu að afhenda hvor öðrum á uppgjörsdegi samnings aðila. Stefndi átti að afhenda stefnanda verðmæti að jafnvirði 60.302.033 kr. Stefnandi átti að afhenda stefnda verðmæti að jafnvirði 36.133.607 kr. Mismunurinn er 24.168.427 kr. sem er stefnufjárhæð máls þessa og vaxtaberandi frá gjalddaga samningsins hinn 18. október 2008.

Stefnandi telur körfuna vera í samræmi við samning aðila og uppgjör á lokadegi hinn 18. október 2008, reiknað eftir sölugengi Seðlabanka Íslands. Í samningi aðila er kveðið á um að í uppgjöri skuli farið eftir sölugengi stefnanda. Á uppgjörsdegi höfðu verið sett á lög um gjaldeyrishöft. Þeir einir fengu að kaupa gjaldeyri af Seðlabanka Íslands sem þurftu að greiða fyrir nauðsynjavörur. Seðlabanki Íslands seldi ekki gjaldeyri til þeirra sem þurftu að afhenda erlendan gjaldeyri vegna fjármögnunar í erlendri mynt. Til staðar var markaður þar sem fyrirtæki og aðrir aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri seldu hann fyrir mun hærra verð heldur en skráð gengi Seðlabanka Íslands . Stefndi hefur mótmælt þeirri uppgjörsleið, þar sem verulegur munur var á gengisskráningu stefnanda og Seðlabanka Íslands og hefur hann jafnframt haldið því fram að það skuli miða við gengisskráningu Seðlabanka Íslands. Stefnandi hefur því í kröfugerð sinni tekið fullt tillit til athugasemda stefnda. Uppgjör í samræmi við gengisskráningu stefnanda er að fjárhæð 35.455.090 kr. Sölugengi stefnanda á uppgjörsdegi var CHF 114,7145, JPY 1,422787 og USD 137,9653. Samkvæmt því hefði verið til afhendingar af hálfu stefnda verðmæti að jafnvirði 71.588.696 kr. á uppgjörsdegi. Stefnandi átti eftir sem áður að afhenda verðmæti að jafnvirði 36.133.606 kr. Mismunurinn er 35.455.090 kr.

Hinn 16. júní 2009 var 3.932.691 kr. greidd inn á skuld stefnda. Um var að ræða innborgun vegna innistæðu á reikningi nr. 1100-15-530032, sem var handveðsettur stefnanda vegna allra skulda og skuldbindinga stefnda við stefnanda, sbr. handveðsyfirlýsingu, dags. 11. desember 2007. Tekið verður tillit til þessarar innborgunar við uppgjör kröfunnar.

Stefnandi byggir rétt sinn á ákvæðum samnings aðila og almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda. Stefnandi byggir auk þess kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og um efndir fjárskuldbindinga. Jafnframt vísast til laga um verðbréfaviðskipti. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 og 11. gr. almennra markaðsskilmála stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukrafa stefnda er byggð á því, að sá samningur, er stefnandi byggir dómkröfur sínar á í málinu, hafi aldrei komist á milli málsaðila. Málsaðilar gerðu með sér gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamning hinn 18. október 2006 sem var á lokagjalddaga ári síðar en engin staðfesting liggur hins vegar fyrir um að sá samningur hafi verið framlengdur um eitt ár eins og haldið er fram af hálfu stefnanda. Fyrir liggur að vilji var til þess af hálfu stefnda að fyrrgreindur samningur yrði framlengdur en jafnframt kom fram af hans hálfu að áður en til framlengingar kæmi þyrfti að liggja fyrir uppgjör á fyrri samningi þannig að hægt yrði að ákveða fjárhæð og myntsamsetningu nýs samnings. Stefndi lét það í ljós gagnvart stefnanda að uppgjör á samningnum frá 18. október 2006 þyrfti að liggja fyrir áður en gengið yrði frá framlengingu samningsins. Einhverra hluta vegna fékk stefndi þó aldrei að sjá uppgjör á samningnum þó ítrekað væri eftir því væri leitað og stefnanda skylt að senda stefnda uppgjör eigi síðar en 15 dögum eftir lokun samningsins, sbr. 7. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda. Það er ófullnægjandi uppgjör sem liggur fyrir á samningnum, dags. 17. nóvember 2007, mánuði eftir að skiptasamningurinn á að hafa verið framlengdur. Stefndi sá þetta uppgjör fyrst ári seinna og taldi þá og telur enn að þetta uppgjör sé rangt. Útreikningar stefnda á samningnum gefa hins vegar til kynna að skiptasamningurinn frá 18. október 2006 hafi skilað honum hagnaði og vísar stefndi í því sambandi til uppgjörsblaðs á dskj. nr. 19. Stefndi hefði aldrei samþykkt framlengingu samningsins ef miða hefði átt við þá útreikninga sem nú hafa verið lagðir fram af hálfu stefnanda. Að mati stefnda var aldrei samið um fjárhæð nýs samnings þar sem ekki lá fyrir uppgjör vegna samningsins frá 18. október 2006.

Stefndi bendir jafnframt á að ef til framlengingar á samningnum hefði átt að koma var forsenda þess sú að fyrir lægi staðfest uppgjör á fyrri samningi sem samþykkt hefði verið af báðum aðilum, sem þá hefði verið grunnurinn að fjárhæðum nýs samnings. Jafnframt hefðu málsaðilar þurft að semja sérstaklega um þær breytingar sem gera hefði átt á samningnum ef um slíkt hefði verið að ræða. Hagnaður af fyrri samningnum hefði t.d. átt að koma til lækkunar á skuldbindingum stefnda við framlenginguna. Þá telur stefndi fráleitt að stefnandi hafi getað gert einhliða breytingar á samningnum til hagsbóta fyrir sig eins og hann virðist hafa gert án samþykkis stefnda, þar sem vaxtaálag á skuldbindingu stefnda er hækkað um 100% frá fyrri samningi, úr 1% í 2%. Ekkert liggur fyrir í málinu um að stefndi hafi samþykkt slíka breytingu.

Stefndi vísar jafnframt til þess að sá samningur sem stefnandi telur að hafi verið gerður 18. október 2007 hafi aldrei verið undirritaður af hálfu stefnda og aldrei verið eftir því leitað af hálfu stefnanda. Þannig hafi stefndi aldrei samþykkt fyrrgreindan samning. Samkvæmt almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda, sem gilti um viðskipti málsaðila, skal frumrit allra samninga að undanskildum samningum um stundarviðskipti með gjaldeyri og verðbréf, undirritað af hálfu viðskiptamanns innan fimm daga frá því að samningurinn er gerður. Í 2. gr. skilmálanna kemur einnig fram að allir samningar skulu staðfestir skriflega þar sem kveðið er nánar á um sérgreinda skilmála, lánskjör og endurgreiðslu. Stefndi var skilgreindur sem almennur fjárfestir hjá stefnanda. Mun strangari kröfur eru gerðar til fjármálafyrirtækis varðandi upplýsingagjöf og framkvæmd viðskiptasamninga þegar um almennan fjárfesti er að ræða en þegar viðskipti eru átt við fagfjárfesta. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti skal fjármálafyrirtæki sem sér um þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta fyrir almennan fjárfesti sjá til þess að gerður sé skriflegur samningur milli fjármálafyrirtækisins og viðskiptavinar þess þar sem m.a. er kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 108/2007 kemur fram að fyrrgreint ákvæði geri ekki einungis ráð fyrir að gera skuli skriflegan samning ef um er að ræða viðvarandi viðskiptasamband heldur eigi fyrrgreint ákvæði við í hvert sinn sem fjármálafyrirtæki tekur að sér þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta fyrir almennan fjárfesti. Ákvæðið á þannig við um alla þjónustu sem fjármálafyrirtæki veitir viðskiptavinum sínum á sviði verðbréfaviðskipta, hvort sem um er að ræða einstök viðskipti eða viðvarandi viðskiptasamband. Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum hvílir sú skylda á fjármálafyrirtæki að sjá til þess að gerður sé skriflegur samningur á sviði verðbréfaviðskipta. Allur vafi um efni samninga ber að túlka þeim í óhag er lætur undir höfuð leggjast að sinna lögbundinni skyldu sinni til að gera skriflegan samning. Breytingar á efni samnings verða að vera staðfestar af gagnaðila til að þær öðlist gildi.

Samkvæmt framansögðu telur stefndi ljóst að hvorki hafi verið samið um fjárhæð né vexti nýs samnings sem hafi m.a. gert það að verkum að samningurinn hafði aldrei verið undirritaður af stefnda og þannig aldrei komist á.

Þá bendir stefndi á að öll framkoma stefnanda frá því að fyrrgreind framlenging á skiptasamningnum á að hafa átt sér stað, þ.e. í október 2007, hafi gefið stefnda réttmæta ástæða til að líta svo á að enginn samningur væri í gildi. Vísar stefnandi í því sambandi einkum til tveggja atriða.

Í fyrsta lagi hafi stefnandi aldrei beitt vanefndaúrræðum sínum vegna samningsins þó full ástæða hefði verið til slíks í ljósi þess hvernig að málum var staðið. Fyrir liggur að stefnandi kallaði aldrei eftir auknum tryggingum vegna samningsins þrátt fyrir að tapið á samningnum hafi verið margföld sú trygging sem stefndi lagði fram í upphafi. Þrátt fyrir þetta mikla tap, sem lætur nærri að vera tíföld fjárhæð tryggingar samkvæmt upphaflegum útreikningum stefnanda, sá stefnandi enga ástæðu til að kalla eftir auknum tryggingum né hafa samband við stefnda vegna málsins. Er það einkar athyglisvert í ljósi þess að í samningnum kemur fram að fari tap viðskiptamanns af samningnum yfir 50% af markaðsverðmæti/fjárhæð trygginga sé stefnanda heimilt að krefjast viðbótartrygginga frá stefnda sem stefnandi metur fullnægjandi eða gjaldfella samninginn. Samsvarandi ákvæði er einnig 3. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda, og þá kemur einnig fram í 7. gr. fyrrgreindra skilmála að fari tap viðskiptamanns yfir 80% af markaðsvirði trygginga skuli slíkt ávallt skoðast sem veruleg vanefnd af hans hálfu. Þá kemur einnig fram í áðurnefndri 7. gr. samningsskilmálanna að hafi frumrit samninga ekki borist bankanum innan 10 daga frá dagsetningu samnings teljist slíkt til verulegrar vanefndar af hálfu viðskiptamanns. Þrátt fyrir öll fyrrgreind ákvæði sá stefnandi aldrei ástæðu til að hafa samband við stefnda vegna málsins og gera honum grein fyrir stöðu þess eða vanefndum stefnda. Stefnandi nýtti sér aldrei vanefndaúrræði sín né tilkynnti stefnda um afkomu samningsins. Á sama tímabili var stefnandi hins vegar að krefja stefnda um auknar tryggingar vegna þeirra framvirku gjaldeyrissamninga sem stefndi var með hjá stefnanda.

 Í öðru lagi bendir stefndi á að hann hafi í apríl 2008, vegna óróa sem þá var á gjaldeyrismörkuðum, kallað eftir upplýsingum frá stefnanda um alla opna samninga. Í því yfirliti , sbr. dskj. 20 og 21, sem stefndi fékk frá stefnanda, hafi ekkert verið getið um fyrrgreindan skiptasamning, en hins vegar hafi í yfirlitinu verið gerð grein fyrir öllum öðrum gjaldeyris- og skiptasamningum sem stefndi var með hjá stefnanda á þessum tíma. Samkvæmt 2. og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007 skal fjármálafyrirtæki halda sérstaka skrá yfir alla samninga sem gerðir eru fyrir hvern viðskiptavin sem innihalda ákvæði um réttindi og skyldur í viðskiptum aðila. Fjármálafyrirtækið skal senda viðskiptavinum sínum yfirlit yfir þá þjónustu sem það veitir þeim. Ekki verður séð að stefnandi hafi fullnægt þessari skyldu sinni og í ljósi þess að fyrrgreindur skiptasamningur sem stefnandi byggir dómkröfur sínar á kom ekki fram á því yfirliti sem stefndi kallaði eftir í apríl 2008 var það enn ein staðfesting þess að ekkert liggur fyrir um að fyrrgreindur samningur, sem stefnandi byggir á dómkröfur sínar í málinu, hafi komist á milli málsaðila.

                Þá vísar stefndi einnig til ákvæða 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og þeirra sjónarmiða sem eru að baki því ákvæði. Í ljósi atvika málsins telur stefndi það bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnanda að halda því fram að samningur hafi komist á með málsaðilum um nýjan gjaldmiðla- og verðbréfaskiptasamning þann 18. október 2007 eins og haldið er fram af hálfu stefnanda í málinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur stefndi að hafna beri kröfum stefnanda og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. 

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu er þess krafist til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Verði talið að samkomulag hafi komist á með málsaðilum um framlengingu á fyrri samningi hinn 18. október 2007 þá telur stefndi að við útreikning á samningnum frá 18. október 2006, sem var á lokadegi ári síðar, beri að miða við þann útreikning sem stefndi hefur lagt fram á dskj. nr. 19. Sá útreikningur er að öllu leyti í samræmi við efni og forsendur samningsins. Stefndi telur að útreikningur stefnanda á dskj. nr. 5 sé rangur. Niðurstaða útreiknings stefnda á dskj. nr. 19 sýnir að samningurinn skilaði stefnda hagnaði að fjárhæð 2.837.066 kr. Sá hagnaður hefði þá átt að koma til lækkunar við framlengingu á samningnum hinn 18. október 2007. Rangur útreikningur á samningnum frá 18. október 2006 gerir það að verkum að höfuðstóll samningsins við framlengingu er rangur. Því til viðbótar telur stefndi einnig að útreikningur stefnanda á dskj. nr. 10 sé rangur.

Verði talið að um framlengingu hafi verið að ræða hinn 18. október 2007 telur stefndi að stefnandi hafi ekki getað breytt einhliða ákvæðum samningsins. Vísar stefndi þar til þess að fjárhæðum og vöxtum hafi verið breytt án þess að slíkt hefði verið samþykkt af hálfu stefnda.   

Þá vísar stefndi varakröfu sinni til stuðnings til þess að stefnanda hafi borið í samræmi við almenna viðskiptahætti, og þá almennu skilmála sem giltu um viðskiptin, að loka samningnum þegar stefnanda var ljóst að undirritað frumrit samningsins hafði ekki borist stefnanda auk þess sem stefnanda bar að hafa samband við stefnda og gera honum grein fyrir stöðu samningsins þegar tapið af samningnum var komið yfir 80% af markaðsverði trygginga. Í ljósi þessara staðreynda telur stefndi það bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnanda að gera stefnda ekki grein fyrir stöðu samningsins. Þvert á móti lét stefnandi eins og samningurinn væri ekki til og þegar stefndi kallaði eftir yfirliti yfir opna samninga er þessa samnings ekki getið.

Stefndi gerir, bæði í aðal- og varakröfu sinni, kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á ákvæðum 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Varðandi lagarök vísar stefndi kröfum sínum til stuðnings til meginreglna samninga- og kröfuréttar um réttar efndir og um skuldbindingargildi samninga. Þá er vísað til ákvæða laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, einkum til 1., 2., 5., 9.,14., 18. og 19. gr. laganna. Þá er vísað til sambærilegra ákvæða í eldri lögum um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, einkum til II. kafla laganna um réttindi og skyldur. Jafnframt er vísað til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. laganna. Þá er vísað til almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda.

Niðurstaða

                Í málinu gerir stefnandi kröfu um greiðslu skuldar og byggir á samningi dags 18. október 2007. Sá hængur er þó á að stefndi hefur ekki undirritað samninginn, en ágreiningslaust er að vilji stefnda stóð til þess að gera samning við stefnanda á þessum tíma.

                Ágreiningslaust er í málinu að stefnandi taldi stefnda vera almennan fjárfesti, þótt stefndi hefði mikla þekkingu og reynslu á sviði verðbréfaviðskipta og væri talinn sem fagfjárfestir hjá öðrum bankastofnunum. Þá er stefnandi fjármálafyrirtæki sem m.a. annast verðbréfaviðskipti.

                Fyrir liggur að stefndi hefur samþykkt almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti í Sparisjóðabanka Íslands hf. frá nóvember 2001. Samkvæmt 2. gr. þeirra ber að gera skriflega samninga þar sem kveðið sé nánar á um sérgreinda skilmála, lánskjör og endurgreiðslu. Í 3. mgr. skilmálanna segir: „Viðskiptamaður skal senda markaðsviðskiptum bankans beiðni um viðskipti með símbréfi, tölvupósti eða í gegnum síma. Allir samningar skulu staðfestir skriflega.“ Þetta á þó ekki við ef um stundarviðskipti með verðbréf er að ræða, en það skiptir ekki máli hér. Í lok 3.mgr. skilmálanna segir að ef viðskiptamaður gerir athugasemd, skuli upptaka í síma gilda sem sönnun fyrir skilmálum viðskiptanna. Í lok 4. mgr. 2. gr. segir síðan að viðskiptamaður skuldbindi sig til að senda undirrituð, eða koma og undirrita, frumrit samninga til bankans innan fimm daga frá því að samningur var gerður. Þá kemur einnig fram í 7. gr. skilmálanna að hafi frumrit samninga ekki borist bankanum innan 10 daga frá dagsetningu samnings teljist slíkt til verulegrar vanefndar af hálfu viðskiptamanns. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 33/2003 skal gerður skriflegur samningur milli fjármálafyrirtækisins og viðskiptavinar þess, þar sem m.a. skal kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila.

                Almennt er það svo, að ekki er skilyrði fyrir gildi samninga að þeir séu skriflegir. Munnlegir samningar eru jafn skuldbindandi og skriflegir samningar, en sönnunarstaðan er erfiðari þegar um munnlega samninga er ræða. Það er viðurkennt af stefnda að vilji stóð til hjá honum að endurnýja samninginn frá 18. október 2006 og þá liggur það enn fremur fyrir að í mars 2008 voru málsaðilar í samskiptum er túlka má þannig að báðir aðilar hafi talið að gildur samningur væri til staðar. Hins vegar liggur ekkert fyrir í málinu um að stefndi hafi samþykkt hækkun á vaxtaálagi úr 1%, eins og það var samkvæmt fyrri samningnum, í 2% sem tilgreint er í þeim síðari. Þá liggur það fyrir í málinu að stefndi óskaði í apríl eftir yfirliti yfir samninga sína hjá stefnanda, og á yfirlitinu var samningsins frá 18. október 2007 ekki getið. Þá var stefndi ekki krafinn um auknar tryggingar þrátt fyrir að tapið á samningnum hafi verið margföld sú trygging sem stefndi lagði fram í upphafi. Þegar allt þetta er metið er ósannað að gildur samningur hafi komist á 18. október 2007 milli málsaðila.

Með vísan til ákvæða laga um verðbréfaviðskipti, til almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti í Sparisjóðabanka Íslands hf., þar sem í báðum tilvikum er krafist skriflegra samninga, svo og þess sem að framan greinir verður að telja að samningur hafi ekki komist á milli málsaðila. Því ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

                Með vísan til þessara niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 850.000 kr.  

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Þorgils E. Ámundason, er sýknaður af kröfum stefnanda, Sparisjóðabanka Íslands hf.

Stefnandi greiði stefnda 850.000 kr. í málskostnað.