Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-180

A (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
TM tryggingum hf. (Þórir Júlíusson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótamál
  • Líkamstjón
  • Varanleg örorka
  • Sönnun
  • Viðmiðunartekjur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 23. desember 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. nóvember sama ár í máli nr. 713/2023: A gegn TM tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Í málinu er deilt um hvaða tekjuviðmið beri að leggja til grundvallar við ákvörðun bóta til leyfisbeiðanda vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir árið 2018. Ágreiningur er um hvort við ákvörðun bóta skuli miða við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða meta árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu greinar.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar var rakið að leyfisbeiðandi bæri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga væru uppfyllt og þá jafnframt hvaða árslaun teldust réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. Leyfisbeiðandi hefði lagt fram gögn sem staðfestu að hann hefði þegið greiðslur fyrir umönnunarstörf en að því frátöldu hefði hann ekki veitt upplýsingar um tekjur sínar á síðustu þremur almanaksárum fyrir slysið. Þegar litið var til aldurs og atvinnusögu leyfisbeiðanda var ekki talið að hann hefði sýnt fram á með viðhlítandi hætti að þær aðstæður hefðu verið fyrir hendi að ákveða bæri bætur til hans eftir 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins varði hann miklu. Þá sé niðurstaða Landsréttar bersýnilega röng að efni til. Hann sé erlendur ríkisborgari og hafi unnið hin ýmsu störf í heimalandi sínu. Haustið 2018 hafi orðið breytingar á högum hans þegar hann flutti til Íslands og réði sig sem háseta hjá útgerðarfyrirtæki. Hann hafi undirritað ótímabundinn ráðningarsamning við útgerðina og orðið fyrir slysi við störf sín þegar hann hafði starfað þar í tæpa tvo mánuði. Telur leyfisbeiðandi að rökstuðningur Landsréttar sé í verulegu ósamræmi við tilgang þeirrar breytingar sem gerð var á árslaunaviðmiði skaðabótalaga árið 1999. Í greinargerð um 6. gr. frumvarpsins, sem breyttist í 7. gr. skaðabótalaga með lögum nr. 37/1999, segi meðal annars að launatekjur liðinna ára séu ekki góður mælikvarði ef breytingar hafi orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar fullyrða má að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Í dæmaskyni sé nefnt að tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum hans og að í slíkum tilvikum sé eðlilegra að ákveða viðmiðunarlaun miðað við nýjar aðstæður. Telur leyfisbeiðandi það rangt í hinum áfrýjaða dómi að hafna því að um breyttar aðstæður hafi verið að ræða vegna þess eins að ekki liggi fyrir endanlegar upplýsingar um tekjur hans árin fyrir slys. Í raun megi einu gilda hvort upplýsingar liggi fyrir þegar fyrir liggur skýr staðfesting á breyttum aðstæðum.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.