Hæstiréttur íslands
Mál nr. 173/2017
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2017. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.
I
Áfrýjandi er 20 ára að aldri og eignaðist hún dóttur sína, B, [...] 2015. Áfrýjandi hefur frá unglingsaldri átt í miklum erfiðleikum meðal annars vegna fíkniefnaneyslu. Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Fyrir Hæstarétti hafa verið lögð fram gögn um málsatvik eftir að málið var dómtekið í héraði 23. janúar 2017. Samkvæmt dagál kom áfrýjandi í viðtal 9. febrúar sama ár hjá starfsmanni stefnda vegna fyrirhugaðar umgengni barnsins við hana. Í kjölfar viðtalsins fór fram umgengnin 14. sama mánaðar undir eftirliti starfsmanna stefnda. Samkvæmt ódagsettu vottorði Sjúkrahússins Vogs lagðist áfrýjandi þar inn til meðferðar 22. mars 2017, en útskrifaði sig sjálf 26. sama mánaðar áður en meðferðinni lauk. Samkvæmt upplýsingum úr dagál ræddi starfsmaður stefnda við áfrýjanda símleiðis 26. maí 2017 í því skyni að koma á umgengni barnsins við hana. Daginn eftir var áfrýjanda sendur tölvupóstur þar sem óskað var eftir hennar hugmyndum um umgengnina, en þeim pósti mun hún ekki hafa svarað. Fór umgengnin því ekki fram og hefur áfrýjandi ekki hitt barnið frá 14. febrúar 2017. Aftur á móti kemur fram í tölvupóstsamskiptum aðila að umgengni er fyrirhuguð 1. október 2017.
II
Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað af hálfu stefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. og 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í því sambandi bendir áfrýjandi á að forsjárhæfni hennar hafi ekki verið metin, hvorki áður en stefndi höfðaði málið né undir rekstri þess.
Svo sem áður segir hefur áfrýjandi glímt við fjölþættan vanda frá unglingsárum. Í málinu liggja fyrir greinargóðar upplýsingar um hagi hennar og barnsins allt frá fæðingu þess. Þá liggur fyrir greinargerð um greiningar- og kennsluvistun áfrýjanda með barninu á vistheimili stefnda, en þangað fóru þær til dvalar 8. ágúst 2016. Fyrirhugað var að hún yrði til 7. september sama ár, en úrræðinu var hætt á fundi með áfrýjanda 30. ágúst það ár, eftir að hún hafði yfirgefið vistheimilið 20. þess mánaðar og ekkert hitt barnið frá þeim tíma. Að þessu virtu er málið nægjanlega upplýst þótt ekki hafi farið fram sérfræðilegt mat á forsjárhæfni áfrýjanda, en slíkt mat þarf að jafnaði að fara fram í málum um forsjársviptingu eftir 29. gr. barnaverndarlaga.
Með því að áfrýjandi hvarf úr greiningar- og kennsluvistuninni hjá stefnda þegar hún hafði staðið í tólf daga kom það úrræði ekki að þeim notum sem vonir stóðu til, en markmið þess var meðal annars að efla áfrýjanda til að ala upp barnið. Eins og greinir í héraðsdómi hefur áfrýjandi heldur ekki verið móttækileg fyrir öðrum stuðningi sem henni hefur staðið til boða. Þá fór hún í meðferð á Sjúkrahúsið Vog en útskrifaði sig sjálf áður en meðferðinni lauk, svo sem áður er komið fram. Þegar þetta er haft í huga bendir fátt til þess að áfrýjandi megni nægjanlega fljótt að snúa við blaðinu og ráða bót á þeim vanda sem hún glímir við svo hún geti tekið til sín barnið og annast það.
Í málinu liggur fyrir að áfrýjandi hefur að óverulegu leyti annast barnið frá fyrri hluta árs 2016 þegar það var nokkurra mánaða gamalt. Einnig hefur komið fram að hún hefur ekkert hitt barnið frá 30. ágúst það ár, ef frá er talin ein umgengni 14. febrúar 2017. Hefur barnið dvalið í fóstri á vegum stefnda frá 21. október 2016 og kom fram við munnlegan flutning málsins að til standi að sú ráðstöfun verði varanleg ef áfrýjandi verður svipt forsjánni. Að þessu virtu mæla hagsmunir barnsins, sem er rétt tæplega tveggja ára, eindregið gegn því að tengsl þess við sína nánustu verði rofin á viðkvæmu aldursskeiði til að það snúi aftur til áfrýjanda, en slá má því föstu að telpan hefur lítil sem engin tengsl við hana. Er þess þá að gæta að við barnavernd gildir sú grundvallarregla að taka ber upp það ráð sem barni er fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður fallist á það með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, sbr. 1. mgr. 54. gr. barnavendarlaga, að fullvíst sé að þroska barnsins sé hætta búinn sökum þess að áfrýjandi sé augljóslega vanhæf til að fara með forsjána, sbr. d. lið 1. mgr. 29. gr. sömu laga. Að virtum málsatvikum og brýnum hagsmunum barnsins er einnig nægjanlega í ljós leitt að öðrum og vægari úrræðum verður ekki beitt til úrbóta, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2017.
Mál þetta, sem höfðað var 8. desember 2016 með áritun lögmanns stefnda um birtingu á réttarstefnu sem útgefin var sama dag, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 23. janúar sl. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 123. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi er Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Stefndi er A, [...], [...].
Stefnandi krefst þess að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar, B, kt. [...], sbr. a- og d-liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
I.
Ekki er ágreiningur meðal aðila um aðdraganda málsins og málsatvik í stærstu dráttum.
Stefnda er 19 ára gömul kona sem glímt hefur við vandamál tengd vímuefnanotkun um nokkurt skeið en mál hennar hafa verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum frá árinu 2013. Eftir nokkur afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum stefndu, þar sem hún hafði m.a. notið svokallaðs MST úrræðis (fjölkerfameðferð) og til stóð að hún færi í meðferðarvistun á Stuðlum, var þó áformað í byrjun árs 2015 að loka máli stefndu þar sem talið var að aðstæður hennar væru orðnar fullnægjandi. Breyting varð hins vegar á þegar Barnavernd Reykjavíkur barst tilkynning frá heilsugæslu 12. mars 2015 um að stefnda hefði mælst jákvæð fyrir kannabisefnum 27. febrúar s.á. og ekki mætt til að taka annað vímuefnapróf en þá var hún gengin 13 vikur með dóttur sína B. Lögð var til áætlun fram til 15. ágúst 2015, og fylgst með stefndu í áhættumeðgöngu ásamt því að fleiri úrræði voru lögð til. Í kjölfarið samþykkti stefnda að fara reglulega í vímuefnapróf sem reyndust neikvæð allt þar til 14. október 2015. Þá mældist stefnda jákvæð fyrir kannabisefnum og mætti síðan ekki í fyrirhugað vímuefnapróf viku síðar. Eftir ítrekaðar tilraunir tókst starfsmönnum stefnanda að ná sambandi við stefndu 28. október 2015 og kvaðst hún þá ekki vera í neyslu vímuefna en gaf ótrúverðugar skýringar á niðurstöðu prófsins, að mati starfsmanna stefnanda. Stefndu fæddist svo stúlka [...] 2015.
Starfsmenn stefnanda höfðu samband við móður stefndu 10. nóvember 2015 og taldi hún aðstæður stefndu vera ágætar en að barnsfaðir hennar beitti hana andlegu ofbeldi. Í desember fóru starfsmenn stefnanda í vitjun á heimili stefndu og samþykkti hún þá meðferðaráætlun, þ. á m. óboðað eftirlit starfsmanna stefnanda, að undanskildu því að hún taldi sig ekki í þörf fyrir úrræðið stuðninginn heim eða sálfræðiviðtöl.
Í janúar 2016 reyndu starfsmenn stefnanda ítrekað að ná sambandi við stefndu án árangurs og kom í ljós að hún hafði ekki mætt í bókaða tíma hjá ungbarnaeftirlitinu dagana 27. nóvember 2015 og 5. janúar 2016 og að talsvert hafði þurft að ganga á eftir stefndu svo unnt væri að sinna ungbarnaeftirliti. Í skýrslu hjúkrunarfræðings 5. janúar 2016 var þeirri skoðun lýst að barnið gæti ekki verið eitt með föður vegna flogaveiki hans, sem gerði málið alvarlegra. Þegar loks tókst að bóka tíma fyrir vitjun starfsmanna stefnanda var stefnda ekki heima þegar á reyndi og svaraði ekki í síma. Næstu mánuði reyndist starfsmönnum stefnanda erfitt að ná sambandi við stefndu sem svaraði sjaldan í síma og hafði ekki samband að fyrra bragði. Þrátt fyrir þetta töldu starfsmenn stefnanda að aðstæður stefndu væru fullnægjandi og lögðu til að málinu yrði lokað á meðferðarfundi
Í maí og júní 2016 bárust Barnavernd Reykjavíkur að nýju tilkynningar þar sem lýst var áhyggjum af aðstæðum dóttur stefndu og því að á heimili hennar væri stunduð vímuefnaneysla og hugsanlega sala vímuefna. Vegna þessara tilkynninga reyndu starfsmenn stefnanda ítrekað að ná sambandi við stefndu og fá hana til viðtals. Að lokum tókst að bóka viðtalstíma 22. júní 2016 en þá mætti stefnda ekki í viðtalið og skellti á þegar hringt var í hana. Stefnda mætti ekki heldur í viðtal sem hún átti bókað daginn eftir og svaraði ekki símtölum starfsmanna stefnanda.
Stuttu síðar bárust Barnavernd Reykjavíkur tilkynningar um að 27. júní sl. hefði stefndu ásamt vinkonu sinni verið haldið nauðugri á heimili sínu og hún beitt ofbeldi af hálfu barnsföður síns og frænda hans. Á heimilinu fundust m.a. vopn, talsvert af vímuefnum og áhöld til neyslu þeirra og lýsti lögreglan áhyggjum af því að dóttir stefndu væri á heimili hennar. Rúmri viku síðar, 6. júlí sl., barst Barnavernd Reykjavíkur tilkynning frá móðurömmu stefndu um að stefnda væri í virkri sprautuneyslu og neytti kannabisefna. Stefnda hefur þó þvertekið fyrir það að hafa sprautað sig með fíkniefnum. Í kjölfar þessarar tilkynningar reyndu starfsmenn stefnanda árangurslaust að ná í stefndu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglumanni og barnsföður stefndu var hún í virkri neyslu vímuefna á þessum tíma, en barnsfaðirinn kom, að aflokinni gæsluvarðhaldsvist vegna framangreinds, á bráðamóttöku geðsviðs til að upplýsa um stórfellda neyslu stefndu. Þar lýsti hann því að hann sjálfur væri reiðubúinn að hætta neyslu fyrir dóttur sína. Hann var þarna undir áhrifum örvandi efna.
Í kjölfarið reyndu starfsmenn stefnanda að ná sambandi við stefndu án árangurs en náðu að lokum sambandi við móður hennar 14. júlí 2016 og kvaðst hún ætla að koma skilaboðum til stefndu um að hafa samband við barnavernd. Stefnda mætti ekki í bókað viðtal daginn eftir og svaraði ekki síma og fór ekki með dóttur sína í læknisskoðun sem fyrirhuguð hafði verið þann dag. Stefnda hafði þó samband við Barnavernd Reykjavíkur og staðfesti komu sína í viðtal 18. júlí sl. Hún mætti þó hvorki í það viðtal né viðtal vegna fóstureyðingar, en hún var þá þunguð að nýju eftir barnsföður sinn. Ekki náðist þarna samband við hana þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir starfsmanna stefnanda. Því var ákveðið að hefja könnun málsins, sbr. 21., 22. og 43. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, og tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi 20. júlí sl.
Stefnda hafði samband við Barnavernd Reykjavíkur 22. júlí sl. og kvaðst koma í viðtal 25. s.m. en þá enn og aftur hvorki mætti hún né svaraði síma. Í skýrslum starfsmanna stefnanda kemur fram að á þessum tíma hafi móðir stefndu haft sterkan grun um vímuefnaneyslu stefndu þar sem hún hefði fundið um 20 notaðar og ónotaðar sprautunálar í föggum stefndu og fötum dóttur hennar. Fyrir dómi lýsti móðir því að hún teldi fullvíst að barnsfaðir stefndu hefði átt þessar nálar. Fram hafði komið í viðtölum starfsmanna stefnanda við bæði stefndu og móður hennar, og var staðfest fyrir dómi, að B hefði í raun verið sinnt af móður stefndu frá upphafi árs 2016 og viðurkenndi stefnda neyslu vímuefna í kjölfar frelsissviptingar hennar í lok júní.
Á meðferðarfundi starfsmanna stefnanda sem haldinn var 27. júlí sl. var það niðurstaða þeirra að staða máls hennar væri það alvarleg að nauðsynlegt væri að gera áætlun um meðferð málsins og að leita yrði leiða til að komast að því hvers konar meðferð stefnda þyrfti til að taka á vanda sínum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðu starfsmenn stefnanda ekki sambandi við stefndu fyrr en 4. ágúst sl. en þá skrifaði hún undir meðferðaráætlun og samþykkti vistun dóttur sinnar á vistheimili barna í allt að átta vikur frá 8. ágúst sl. Frá 8. til 20. ágúst dvaldi stefnda ásamt dóttur sinni á vistheimilinu en sinnti henni þó að mati starfsmanna ekki nægjanlega vel. Um miðjan ágústmánuð bárust tvær tilkynningar um grun um vímuefnaneyslu stefndu og þegar starfsmaður vistheimilisins bað hana um að taka vímuefnapróf 20. ágúst sl. mun hún hafa rokið á dyr.
Eftir þetta vitjaði stefnda ekki dóttur sinnar á vistheimilinu í níu daga og reyndu starfsmenn stefnanda árangurslaust að ná sambandi við hana en samkvæmt móður stefndu og starfsmönnum vistheimilisins hafði stefnda lýst því yfir að hún vildi ekki sjá um dóttur sína og starfsmenn stefnanda greina frá því móðir stefndu hafi talið öruggt að hún væri í neyslu vímuefna. Stefnda tók þó fram að skilyrði væri að stúlkan færi í fóstur til móður hennar. Fram kemur í skýrslu starfsmanna vistheimilisins að eina markmið vistarinnar sem hefði náðst hafi verið kortlagning matar-, svefn- og mjólkurrútínu stúlkunnar.
Á meðferðarfundi starfsmanna stefnanda 9. september sl. var það afstaða þeirra að fullreynt væri að stefnda færi með forsjá dóttur sinnar en þann dag hafði stefnda ekki vitjað dóttur sinnar frá fundi sem haldinn var á vistheimilinu 30. ágúst sl. og hafði því einungis hitt dóttur sína einu sinni frá 20. ágúst sl. Þann 22. september sl. var stefndu tilkynnt um að mál hennar færi fyrir fund barnaverndarnefndar með það að markmiði að koma dóttur hennar í varanlegt fóstur og að hún gæti sótt fundarboð og greinargerð um málið. Að ósk stefndu var henni tilnefndur lögmaður og stefnda látin vita að hún þyrfti að skrifa undir umboð hans. Þann 26. september sl. hafði stefnda ekki enn sótt fundarboð eða greinargerð barnaverndar og hafði lögmanni hennar ekki tekist að ná sambandi við hana.
Fundur Barnaverndarnefndar Reykjavíkur var haldinn 27. september sl., en þá hafði enginn vitjað stúlkunnar á vistheimili barna í átta daga. Stefnda mætti ekki en lögmaður hennar mætti án undirritaðs umboðs. Að beiðni lögmannsins var afgreiðslu málsins frestað um tvær vikur til að gefa honum frekari tækifæri til að ná sambandi við stefndu. Vegna þessarar þróunar málsins var neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga beitt 7. október sl. og stúlkan kyrrsett á heimili á vegum Barnaverndar Reykjavíkur í allt að 14 daga. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók málið fyrir að nýju 11. október sl. og mætti lögmaður stefndu þá einn, með umboð. Á þessum tíma höfðu borist 13 tilkynningar í málinu, gerðar höfðu verið tvær meðferðaráætlanir og neyðarráðstöfun hafði verið beitt í eitt skipti. Með hliðsjón af þróun málsins mat Barnaverndarnefnd Reykjavíkur það svo að stefnda væri óhæf til að fara með forsjá dóttur sinnar og úrskurðaði nefndin um vistun stúlkunnar á vistheimili barna í tvo mánuði og óskaði eftir að borgarlögmaður höfðaði mál til forsjársviptingar stefndu yfir dóttur sinni.
II.
Stefnandi telur að skilyrði a-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu þar sem daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum stefndu og stúlkunnar er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri hennar og þroska. Stefnandi telur þetta bersýnilegt þegar af þeirri ástæðu að stefnda hafi lítið sem ekkert sinnt dóttur sinni og ekki sýnt neinn áhuga á að hitta hana í rúma þrjá mánuði.
Stefnandi kveðst jafnframt telja að skilyrði d-liðar 1. mgr. 29. gr. laganna séu uppfyllt þar sem fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu eða þroska stúlkunnar sé hætta búin sökum vanhæfni stefndu, s.s. vegna vímuefnaneyslu stefndu og algjörrar vanrækslu hennar á uppeldi hennar. Stefnandi leggi áherslu á þau grundvallarréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði og að barnaverndarstarf skuli stuðla að stöðugleika í uppvexti barna, sbr. 3. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Stefnandi telur að það hafi sýnt sig að stefnda hafi hvorki áhuga né færni til að sinna dóttur sinni sem skyldi og skapa henni viðunandi uppeldisaðstæður.
Stefnda hafi ekki viðurkennt vímuefnavanda og ekki viljað fara í meðferð við honum auk þess sem hún hafi sýnt algjört áhugaleysi á því að vera til samstarfs varðandi þau meðferðarúrræði sem hafi verið reynd. Inngrip barnaverndaryfirvalda hafi því ekki megnað að breyta ástandi hjá stefndu til batnaðar og teljist að mati stefnanda fullreynd. Með hliðsjón af viðkvæmum aldri dóttur stefndu, því að stefnda hafi viðurkennt að hafa í raun aldrei borið ábyrgð á umönnun stúlkunnar og að hún hafi nú yfirgefið dóttur sína, telur stefnandi að hagsmunum stúlkunnar sé best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá hennar.
Stefnandi kveðst benda á þá meginreglu barnaverndarstarfs, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga og alþjóðlega sáttmála sem Ísland er aðili að, að í barnaverndarstarfi skuli ávallt beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þessum mannréttindum barna þeirra og þegar hagsmunir foreldris og barns vegast á, eru hagsmunir barnsins þyngri á vogarskálunum. Dóttir stefndu sé á viðkvæmum aldri og þarfnist nauðsynlega öryggis, stöðugleika og þroskavænlegra aðstæðna og þeir hagsmunir vegi þyngra en hagsmunir stefndu af því að hafa forsjá stúlkunnar.
Þá kveðst stefnandi telja rétt að hafa í huga að frá fæðingu hafi stúlkan einungis verið í umsjá stefndu í nokkra mánuði en frá 20. ágúst sl. hafi stefnda einungis hitt dóttur sína einu sinni og ekki óskað eftir frekari samskiptum við hana. Dóttir stefndu hafi þess í stað verið mestmegnis í umsjá ömmu sinnar, sem nú hafi þó ekki séð hana frá 20. september síðastliðnum. Stefnandi telur því ljóst að stúlkan hafi nú verið yfirgefin af fjölskyldu sinni.
Stefnandi segir að skilyrði fyrir beitingu 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða að slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Í málinu hafi stefnandi beitt úrræðum barnaverndarlaga án þess að aðstæður stefndu hafi breyst til batnaðar eða stefnda hafi sýnt vilja til að bæta ástand sitt. Þvert á móti hafi stefnda ekki sýnt samstarfsvilja og hefur starfsmönnum barnaverndaryfirvalda reynst afar erfitt að ná sambandi við hana við meðferð máls hennar.
Stefnandi kveðst því telja að miðað við aðstæður stúlkunnar í dag sé ekki forsvaranlegt að beita öðrum og vægari úrræðum barnaverndarlaga og því séu lagaleg skilyrði fyrir beitingu 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga uppfyllt í máli þessu.
Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings m.a. til barnaverndarlaga nr. 80/2002, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979, og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III.
Stefnda telur ekki lögmæt skilyrði fyrir hendi til að svipta hana forsjá yfir dóttur sinni. Þá telur stefnda forsjársviptingu andstæða hagsmunum dóttur sinnar auk þess sem beita megi öðrum og vægari úrræðum. Þannig fari forsjársvipting í bága við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og meginreglur barnaverndarlaga.
Stefnda byggir kröfu sína aðallega á því að hún telur að skilyrði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, séu ekki uppfyllt og því skorti lagaskilyrði fyrir því að svipta hana forsjá yfir dóttur sinni.
Forsjársvipting sé alvarlegt inngrip og beri ekki að taka slíka kröfu til greina nema ríkar ástæður liggi þar að baki, enda sé hverju barni eðlilegt að alast upp hjá eigin foreldrum og það sé réttur barnsins. Náin tengsl séu á milli stefndu og dóttur hennar eins og fram komi í greiningar- og kennsluvistun og fyrir dómi. Stefnda telur sig góða móður sem geti búið dóttur sinni gott heimili en hún geri sér fulla grein fyrir því að það geti hún ekki gert samhliða neyslu eða sambúð með barnsföður sínum. Stefnda hugsi vel um dóttur sína og hafi ávallt séð um að hana vanhagi ekki um nokkurn hlut. Þá hafi stefnda sterkt stuðningsnet í kringum sig og ástríka fjölskyldu sem hafi verið til staðar fyrir stúlkuna ef á hefur þurft að halda, einkum móður stefndu sem sé boðin og búin til að aðstoða við uppeldi stúlkunnar.
Eina gagnið í málskjölum þar sem lagt sé á einhvern hátt mat á forsjárhæfni stefndu kveður stefnda vera greinargerð sem unnin var af uppeldis- og meðferðarfulltrúum á Vistheimili barna. Þar komi fram að stefnda hafi verið vökul yfir dóttur sinni meðan hún lék við hana, hugað vel að öryggi hennar, verið leiðbeinandi og spjallað við hana. Einnig komi þar fram að stefnda hafi talað í blíðum og róandi tón við stúlkuna, brosað og knúsað hana. Að sama skapi hafi virst vera mikil tengsl milli þeirra mæðgna og stúlkan hafi leitað mikið í öryggi til móður sinnar.
Það sé því ekkert í gögnum málsins sem gefi vísbendingu um að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum stefndu við dóttur sína sé alvarlega ábótavant. Þvert á móti virðist aðeins vera um að ræða unga móður sem glímt hafi við vímuefnavanda en sé nú að taka sig á. Því telji stefnda ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002.
Stefnda telur jafnframt að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði d-liðar 1. mgr. 29. gr. séu uppfyllt í málinu. Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að stefnda sé hæf til að fara með forsjá yfir dóttur sinni. Þrátt fyrir að hafa glímt við áfengis- og vímuefnavanda á unglingsárum verði að líta til þess að stefndu hafi ekki verið gefið tækifæri eða henni veitt aðstoð til að ná almennilegum tökum á vandamálinu. Beri einnig að horfa til þess að hún er aðeins 19 ára gömul og hafi átt ákaflega erfiða æsku og unglingsár.
Stefnda telur að ef kröfur stefnanda verða teknar til greina þá væri það í andstöðu við markmið barnaverndarlaga, m.a. 2. gr. þeirra, þar sem m.a. komi fram það markmið laganna að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu.
Stefnda veki sérstaka athygli á orðalagi d-liðar 29. gr. laganna um að „fullvíst“ sé að heilsu barnsins sé hætta búin og að foreldrar séu „augljóslega vanhæfir“. Gefi þetta til kynna að ríkar sönnunarkröfur séu gerðar til þess að þau atvik sem lagaákvæðið nefnir séu fyrir hendi.
Stefnda byggir einnig á því að óheimilt hafi verið að beita úrræði samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga þar sem unnt hafi verið að beita vægara úrræði miðað við þá stöðu sem uppi var. Í þessu sambandi vísar stefnda til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sem lögfest sé í 12. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem fram komi að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Jafnframt að ávallt skuli miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.
Stefnda nefnir sem dæmi um vægari úrræði, sem hefði mátt beita, ákvæði 24. gr. laganna um að útvega fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu. Þá hefði einnig verið hægt að beita ákvæði 28. gr. laganna um vistun utan heimilis í allt að 12 mánuði og sé stefnda reiðubúin að fallast á slíka vistun meðan hún sýni og sanni fyrir stefnanda, og aðallega sjálfri sér, að hún geti unnið varanlega bót á vandamálum sínum.
Meðalhófsregla stjórnsýsluréttar komi og skýrt fram í 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga en þar segi að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðru og vægara úrræði til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Af gögnum málsins megi sjá að slíkt hafi ekki verið reynt.
Stefnda vísar til rannsóknarreglu sem lögfest sé í 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Reglan sé þess efnis að stjórnvaldi beri að sjá til þess að mál sé nægjanlega vel upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Á því sé byggt af hálfu stefndu að rannsóknarreglan hafi verið virt að vettugi áður en ákvörðun hafi verið tekin um að krefjast forsjársviptingar. Þannig hafi forsjárhæfni stefndu ekki verið metin eða henni fundinn tími hjá sálfræðingi. Það stangist á við áðurnefnt ákvæði, að fara fram með kröfu um forsjársviptingu þegar engin gögn liggi fyrir um hvort skilyrðum a-liðar 29. gr. barnaverndarlaga sé uppfyllt, en matsmaður hefði getað lagt prófanir fyrir stefndu til að leiða í ljós hvort um slíkt væri að ræða eður ei.
Stefnda vísar til barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum til 2. gr., 4. gr., 2. mgr. 12. gr., og 29. gr. laganna. Einnig er vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum til 10. og 12. gr. og hinnar almennu meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Þá er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varðandi málskostnað en stefnda nýtur gjafsóknar skv. 60. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
IV.
Stefnda kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og lýsti m.a. því að hún hefði búið við mikið ofbeldi þegar hún var í sambúð með barnsföður sínum um þriggja ára skeið. Hann hafi beitt hana ofbeldi bæði á meðgöngu og eftir að stúlkan fæddist. Þá greindi hún frá því atviki þegar barnsfaðir hennar, haldinn ranghugmyndum um að hún hefði slegið eign sinni á fé í hans eigu, og frændi hans héldu henni og vinkonu hennar föngnum í um sex klukkustundir í júní 2016 og sættu þær ofbeldi og pyntingum af þeirra hálfu.
Hún kvaðst ætíð hafa farið með stúlkuna til móður sinnar þegar hún fann að barnsfaðir hennar var að fara að fá sér vímuefni.
Aðspurð um neyslu sína nú, kvaðst hún vera edrú og gengi mjög vel og sé í 92% vinnu á [...]. Hún hafi þannig verið laus við sterk vímuefni í um tvo mánuði en tvær til þrjár vikur án neyslu kannabis. Hún sagðist sækja AA fundi lítið vegna þess að hún væri að vinna svo mikið. Hún hafi verið fíkill en sé það ekki lengur og það sé ekkert mál fyrir hana að halda sig frá vímuefnum. Hún hafi ekki farið í meðferð á sjúkrahúsið Vog og telur sig ekki þurfa á slíkri meðferð að halda. Þá gæti hún að sögn haldið sig við hóflega neyslu vímuefna en þurfi hins vegar ekki á því að halda.
Hún kveðst vera góð móðir sem geti haft barnið hjá sér og að hún myndi ekki hika við að gangast við tillögum barnaverndarnefndar ef hún fengi stúlkuna til sín. Hún telur sig vita að hún sé tilbúin til að hafa stúlkuna hjá sér núna, hún bara kvaðst finna það á sér og mat stöðu sína miklu sterkari í dag heldur en hún hefði verið. Aðspurð um stuðningsnet þá nefndi hún einungis móður sína.
Þegar hún var spurð eftir því hvers vegna hún hefði ekki þegið aðstoð áður, kveðst hún hafa verið í afneitun og fundist ekkert vera að, en nú sé ástandið annað og betra.
Spurð um dvöl á vistheimili barna kvaðst hún ekki hafa getað verið á heimilinu, hún hafi fengið innilokunarkennd og henni liðið illa. Hún staðfesti að hafa yfirgefið vistheimilið 20. ágúst sl. en komið aftur 30. ágúst á fund á vistheimilinu. Stefnda staðfesti fyrir dómi að hún hefði ekki hitt dóttur sína frá þeim degi. Hún kveður ástæðuna einkum þá að hún hafi skammast sín vegna þess að hún var komin í neyslu.
Hún játaði að hafa ekki svarað starfsmönnum barnaverndar þegar þeir reyndu ítrekað að ná í hana. Ástæðan sé mikill kvíði sem hún hafi búið mjög lengi við og valdið því m.a. að hún svari helst ekki í síma.
Varðandi umgengni kvaðst hún ekki hafa vitað fyrr en í desember að hún gæti fengið umgengni við dóttur sinnar og hafi þá hringt í starfsmann stefnanda, sem sagðist myndu hafa samband við hana eftir áramótin, en hafi ekki hringt. Hins vegar játaði hún að starfsmenn stefnanda hefðu ítrekað reynt að ná sambandi við hana á milli jóla og nýárs til að gera við hana umgengnissamning. Hún kvaðst ekki hafa leitað eftir umgengni í janúar.
Aðspurð um helstu þarfir stúlkunnar núna, sagði hún að hún þyrfti að koma heim, og þyrfti ást og umhyggju og að vera hjá fjölskyldu sinni.
Hún kveðst ekki vita betur en að barnsfaðirinn sé í neyslu, en hún hafi ekki heyrt frá honum í tvo mánuði.
Móðir stefndu gaf skýrslu. Hún segir að dóttir hennar hafi yfirgefið vistheimilið vegna þess að hún hafi verið í áfalli og mjög hrædd, enda lifði hún við stanslausar hótanir frá barnsföður sínum eftir að þau slitu samvistum.
Hún bar um að engin meðferðarúrræði, s.s. sálfræðiþjónusta eða áfallahjálp, hefðu staðið dóttur hennar til boða á vistheimilinu eða í tengslum við dvölina þar, nema dvölin sjálf. Vitnið kvaðst hafa sóst eftir því að taka stúlkuna í fóstur en ekki haft erindi sem erfiði og sögð vera ekki í forgangi.
Hún kvaðst sjá í dag mikinn mun á dóttur sinni, og telur að upphaf þeirra breytinga megi rekja til tímans þegar stefnda fór [...] að vinna í fiski í nóvember sl. Hún hafi breytt um lífstíl og skipt um vinahóp. Hún telur dóttur sína geta og vera tilbúna til að halda sig frá vímuefnum, vegna þess að hún sé búin að vinna í áfallinu og sé komin í rökhugsun. Hún fullyrti að dóttir hennar væri fullfær um að annast dóttur sína, en til þess þyrfti hún mikla hjálp, s.s. sálfræðiaðstoð og áfallahjálp. Einnig telur móðir stefndu að hún þurfi að gangast undir meðferð vegna vímuefnanotkunar þótt hún sé ekki í neyslu í dag.
Hún segist að mestu hafa hugsað um B frá því upp úr áramótum 2016, eftir að hana grunaði að barnsfaðir stefndu hefði hafið neyslu, sem var kringum jól 2015.
Vitnið hitti stúlkuna síðast í október 2016.
C, þroskaþjálfi og félagsráðgjafi, sem starfar sem slíkur hjá Barnavernd Reykjavíkur, gaf skýrslu. Hún var með mál stefndu frá janúar 2014, en málið hafi komið inn á árinu 2013. Ástæða afskipta var vímuefnaneysla stefndu, áhættuhegðun og alvarlegt kynferðisofbeldi sem hún hafði verið beitt. Ýmis úrræði og ráðgjöf stóðu stefndu til boða. Þannig var úrræðið MST reynt í sex mánuði sem gekk ekki upp. Til stóð að stefnda færi inn á Stuðla, en þá fór að ganga betur hjá henni og hún hélt sig frá vímuefnum. Að mati vitnisins háir það stefndu mest að hún hafi ekki viljað þiggja aðstoð, þrátt fyrir að vera boðið margsinnis t.d. sálfræðiaðstoð. Hún þori ekki að takast á við sjálfa sig og láti eins og hlutirnir og ástand hennar sé í lagi. Stefnda hafi einungis mætt tvisvar í sálfræðiviðtöl sem sett höfðu verið upp og sinnti mjög illa viðtölum í barnahúsi sem fyrirhuguð voru.
Vitnið, sem var með mál stefndu einnig eftir fæðingu barnsins og allt til apríl 2016, metur það svo að vægari úrræði gætu gagnast í málinu, miðað við þau kynni sem hún hefur af stefndu og samskipti þeirra mæðgna þann tíma sem hún vann við málið og sá til. Hún sá ekki betur en að stefnda væri að sinna barninu ágætlega og reyna að gera sitt besta og á milli þeirra væri ágæt tengslamyndum. Hún hafi sýnt innsæi í þarfir barnsins, a.m.k. þegar vitnið gat fylgst með. Hún hafi sýnt mikla væntumþykju og verið í góðum tengslum, en vitnið benti á ungan aldur stefndu. Þá taldi vitnið ómögulegt að leggja mat á stöðuna í dag en taldi að sjálfsagt hefði orðið eitthvert tengslarof þar sem nokkur tími væri liðinn frá því að stúlkan fór í fóstur.
D, félagsráðgjafi og starfsmaður barnaverndar, gaf skýrslu. Hún tók við málinu um miðjan júní 2017. Tilkynning hafði þá borist vegna fíkniefnaneyslu á heimili. Vitnið reyndi í fyrstu um nokkurn tíma að ná í stefndu en það tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Eftir að loksins náðist samband við stefndu voru nefnd sem möguleg stuðningsúrræði, vímuefnaprufur, að stefnda færi í viðeigandi meðferð, að þar sem hún væri í ofbeldissambandi þyrfti hún kennslu og þá var lögð til greiningarvistun á Vistheimili barna til að styrkja samband móður og barns.
Vitnið sagði að móðir stefndu hefði ekki séð fyrir sér að dóttir hennar myndi búa á heimili hennar til frambúðar enda hafi stefnda fundið annan dvalarstað og hafi dvalist um þessar mundir bæði í herbergi út í bæ og í sveit. Aðstæður á heimili móður stefndu hafi og verið ófullnægjandi. Mjög skítugt, matarleifar, skítur á gólfum, mikil reykingalykt, dregið fyrir glugga, ekkert gólfpláss, og því þarna að mati vitnisins ekki aðstæður fyrir barn.
Á fundi 30. ágúst sl. hafi stefnda óskað eftir því að afsala sér forsjá stúlkunnar, en þá með því skilyrði að forsjáin yrði hjá móður hennar.
Stefnda hafi neitað allri þátttöku í öllum þeim stuðningsúrræðum sem starfsmenn stefnenda hafi nefnt við stefndu.
Spurð um það úrræði sem gripið hafi verið til, þ.e. að mæðgurnar færu til átta vikna dvalar á Vistheimili barna, sagði vitnið að þar væri oftast um að ræða endastöð og mjög stórt inngrip. Þó væri reynt að styrkja foreldri með barni sínu og að greina aðstæður og hvernig foreldri væri að sinna barni. Engin vægari úrræði stóðu til boða að mati vitnisins þegar ákvörðun var tekin um að svipta stefndu forsjá og leita staðfestingar þeirrar ákvörðunar fyrir dómi. Vitnið taldi ekki raunhæft að reyna vægari úrræði í ljósi heildstæðs mats á málinu en þá horfði hún ekki síst til þess að stefnda hefði greint sér frá því að hún hafi ekki óskað sér að eignast barn á þessum tíma og ætlaði að afsala sér forsjá.
Þá kom fram hjá vitninu að ítrekað hefði verið reynt að koma á umgengni og mikilvægi þess að koma henni á brýnt fyrir stefndu. Stefnda hafi hins vegar átt nóg með sig og mikið að gera og kvaðst því ekki hafa tíma til að sinna umgengni.
Vitnið taldi forsendur fyrir ákvörðun barnaverndaryfirvalda ekki breyttar. Benti vitnið á að tengslamyndun sé þegar hafin milli stúlkunnar og fósturforeldra.
Þá kom fyrir dóminn E, félagsráðgjafi starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur. Vitnið tók við málinu eftir úrskurð barnaverndarnefndar 12. október, en hún sér einkum um fósturhlutann, fósturheimilið og barnið sem og umgengni kynforeldra og eftir atvikum annarra við barnið.
Vitnið náði loks að sögn, sambandi við stefndu 26. október eða um viku eftir að aðlögun hófst á fósturheimilinu 18. október og stúlkan fór af vistheimilinu 21. október. Vitnið kveðst hafa boðið stefndu á fund daginn eftir og ætlaði stefnda að mæta en gerði síðan ekki.
Næst kveðst vitnið hafa heyrt frá móður stefndu 20. nóvember, sem hafi lýst áhuga á umgengni. Eftir að samskipti virðast hafa legið niðri sendi vitnið tölvuskeyti 6. desember á stefndu og móður hennar vegna umgengni.
Stefnda sendi póst 22. desember, og kvaðst vilja umgengni. Stefnda og vitnið voru í sambandi á Þorláksmessu, þá voru eftirlitsaðilar og starfsmenn komnir í jólafrí og fyrirvari til að koma á umgengni fyrir jól of skammur. Því var ákveðinn fundur á milli hátíða. Reynt var að ná tvisvar saman fundi fyrir áramót en stefnda mætti ekki og hefur, að sögn vitnisins, ekkert samband haft frá þeim tíma.
Vitnið lýsti B sem flottri stelpu með góðan grunn, eftirtektarsamri og mjög glaðlyndri.
Vitnið var ekki afdráttarlaust um hvort vægari úrræði gætu dugað í máli stefndu og dóttur hennar. Taldi vitnið hins vegar að ágæt tengsl hefðu myndast á milli stúlkunnar og fósturforeldra. Hún sé mjög vör um sig og megi ekki af fósturforeldrum sjá og fylgist þannig náið með öllum ferðum þeirra inni á heimilinu. Alvarlegt tengslarof hafi og orðið þegar móðir og móðuramma hættu að hitta og umgangast stúlkuna.
F sálfræðingur, sem aðallega kveðst vinna við að sinna börnum og unglingum og gegnir starfi forstöðumanns vistheimilisins, gaf skýrslu.
Hún greindi frá því að tengsl mæðgnanna hefðu verið góð að hennar mati. Þó hefði fremur skammur tími gefist til að meta tengsl þeirra og samband, því að tími þeirra saman á vistheimilinu hafi ekki verið nema 12 dagar og ekki full samfella í dvalartíma stefndu, en móðir hefði sinnt stúlkunni vel þegar hún var með henni. Hins vegar hefði hún tekið að sér aukavinnu og verið mikið að erinda utan heimilisins, einnig hafi stefnda oft verið ein inni á herbergi með dóttur sinni.
Líkt og önnur vitni greindi hún frá því að stefnda hefði neitað öllum stuðningsúrræðum og vildi heldur ekki ræða þau, eða áföll sem hún hefði orðið fyrir um ævina.
Stefndi þyrfti að mati vitnisins að forgangsraða rétt, hún hefði því ekki haft nægan skilning á mikilvægi þess að hún væri viðstödd á vistheimilinu, og hana skorti úthald. Hún hefði og sagt á fundinum 30. ágúst að hún gæti ekki sinnt þessu lengur.
Vitnið metur það svo að haldi stefnda sig frá fíkniefnum þá ætti hún að geta sinnt stúlkunni miðað við tengsl þeirra mæðgna. Telur hún þó erfitt að segja að stefnda sé hæf til að mynda dýpri tengsl við stúlkuna og átta sig til fulls á þörfum barnsins. Hún sinnti ekki þörfum barnsins að mörgu leyti og hefði þurft að vera meira til staðar.
Vitnið lýsti þeirri skoðun sinni að hún greindi frekar flótta í stefndu heldur en kvíða, líkt og stefndu sjálfri var tíðrætt um.
V.
Stefnandi byggir á því að skilyrði a-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu uppfyllt í máli þessu þar sem daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum stefnda og stúlkunnar sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri hennar og þroska. Stefnandi telur enn fremur að skilyrði d-liðar 1. mgr. 29. gr. laganna séu uppfyllt í þessu máli þar sem fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu eða þroska telpunnar sé hætta búin sökum vanhæfni stefndu einkum vegna vímuefnaneyslu hennar og algjörrar vanrækslu á uppeldisskyldum hennar.
Hagsmunir stúlkunnar séu því ekki tryggðir hjá stefndu.
Það vekur nokkra athygli dómsins hvað mál stefndu og dóttur hennar hefur tekið óvenjustuttan tíma, þ.e. úrvinnsla barnaverndaryfirvalda á því. Þótt vissulega hafi verið afskipti af stefndu fyrir fæðingu B í [...] 2015 og einnig eftir fæðingu, virðist sem lítið gerist í málinu frá því í janúar 2016 og þar til tilkynningar berast í maí og júní um meinta vímuefnaneyslu á heimili stefndu og áhyggjur af stúlkunni. Þá gerðist hins vegar fremur lítið, einkum þó vegna þess að ekki náðist í stefndu og hún var ekki til samstarfs. Stóð enda til að loka málinu sbr. umfjöllun um það á meðferðarfundi 18. apríl. Það er ekki fyrr en í kjölfar atburðarins 27. júní, þegar barnsfaðir stefndu, við annan mann, hélt stefndu og vinkonu hennar nauðugri á heimili hennar og misþyrmdi henni, að málið virðist fara í fastari farveg. Í kjölfar þess að samband náðist við móður stefndu og að stefnda hafði sjálf samband tvívegis um miðjan júlí, var fyrst ákveðið að hefja formlega könnun á málinu samkvæmt 21., 22. og 43. gr. barnaverndarlaga, og sú ákvörðun tilkynnt með bréfi 20. júlí.
Eftir að upplýsingar bárust um meinta fíkniefnaneyslu stefndu, og í ljósi þess að móðir stefndu hafði að annast meira og minna dóttur hennar allt frá áramótum 2016, varð það niðurstaða barnaverndaryfirvalda á fundi 27. júlí sl. að staðan væri svo alvarleg að nauðsynlegt væri að gera áætlun um meðferð málsins. Enn gekk erfiðlega að ná sambandi við stefndu og hún lítt eða ekkert til samstarfs. Stefnda kom þó í viðtal 4. ágúst og samþykkti þá meðferðaráætlun og vistun dóttur sinnar á vistheimili barna í allt að átta vikur frá og með 8. ágúst. Að framan er því lýst hvernig sú dvöl gekk og að stefnda hefði ekki sýnt þeirri áætlun mikinn áhuga og frá 20. ágúst sinnti hún úrræðinu í engu. Á fundi starfsmanna stefnanda 9. september varð niðurstaðan sú að fullreynt væri að stefnda færi með forsjá stúlkunnar.
Þótt framangreind lýsing á atburðarásinni sé mjög gróf má af henni ráða að frá því að formleg könnun barnaverndarnefndar hefst 20. júlí líða ekki nema rétt rúmar sjö vikur þar til tekin er ákvörðun um að leggja til forsjársviptingu. Dómurinn telur vafalaust, eins og kom fram fyrir dómi, að þegar sú ákvörðun var tekin hafi starfsmenn stefnanda horft heildstætt yfir málið og fyrri afskipti af málefnum stefndu, burtséð frá því í hvaða ferli málið var hverju sinni. Einnig að litið hafi verið til þess að stefnda hefði lýst því yfir að hún væri reiðubúin til að afsala sér forsjánni.
Gögn málsins bera það ótvírætt með sér að stefnda hefur átt við mikla erfiðleika að etja í sínu lífi og það allt frá því í barnæsku. Síðustu árin hafa vandamál hennar einkum tengst misnotkun vímuefna og því að hafa verið í afar slæmu og ofbeldisfullu sambandi við barnsföður sinn. Þá er það einnig augljóst að stefnda hefur verið í mikilli afneitun og hana hefur skort til þessa, með öllu að því best verður séð, innsæi í vandamál sín. Jafnframt hefur hún verið lítt, og á stundum alls ekki, til samstarfs við starfsfólk stefnanda, sem ítrekað hefur lagt til vægari úrræði til að freista þess að leysa vanda stefndu. Til marks um afstöðu stefndu þá hefur hún ekki talið sig eiga við fíknivanda að stríða lengur þótt gögn málsins tali sínu máli um hið gagnstæða. Þess vegna hefur stefnda til þessa ekki talið nauðsynlegt að gangast undir vímuefnameðferð. Hún geti stýrt sinni neyslu sjálf.
Þá vekur það óneitanlega athygli í ljósi kröfugerðar stefndu, að hún hefur a.m.k. fram að aðalmeðferð þessa máls og allt frá 30. ágúst 2016 ekki óskað eftir umgengni við stúlkuna fyrir utan ósk sem hún setti fram rétt fyrir síðustu jól, en fylgdi síðan ekki eftir.
Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar, B, sem nú er á öðru ári. Við úrlausn málsins verður litið til þeirrar grundvallarreglu barnaréttar að börn eigi rétt á vernd og umönnun sem hæfir aldri þeirra og þroska, eins og segir í 1. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Í lögunum er og áréttuð sú skylda barnaverndaryfirvalda að stuðla að því að börn njóti þessa réttar, og að ákvarðanir séu ævinlega teknar með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Þá hagsmuni verður þó ætíð að vega og meta andspænis þeim rétti sem kynforeldrar njóta til að fara með forsjá barna sinna. Þá er mikilsvert að gæta sjónarmiða um meðalhóf enda verður ekki fallist á forsjársviptingu nema í ljós sé leitt með afgerandi hætti að önnur og vægari úrræði hafi verið fullreynd, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna.
Stefnandi byggir kröfu sína um forsjársviptingu á a- og d-liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt þeim ákvæðum er barnaverndarnefnd heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar skuli sviptir forsjá ef hún telur að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska eða ef fullvíst er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana eða greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.
Að virtum framburðum fyrir dómi verður ekki betur séð en að stefndu hafi gengið ágætlega með samskipti við dóttur sína, hafi verið henni góð og umhyggjusöm, þ.e. í þau fáu skipti sem hún hefur umgengist hana þannig að starfsmenn stefnanda hafi séð til. Litið verður til framburðar C sem sagði að stefnda hefði sinnt barninu ágætlega, væri að reyna sitt besta, hafi sýnt innsæi í þarfir barnsins og tengsl hennar við dótturina væru með ágætum, þ.e. a.m.k. meðan vitnið vann að málinu. Með vísan til þessa taldi vitnið að vægari úrræði gætu gagnast í málinu. Nokkuð á sama veg bar F sálfræðingur, þ.e. að vægari úrræði en forsjársvipting gæti dugað í máli en þá með því skilyrði að stefnda héldi sig frá fíkniefnum. Ef hún gerði það ætti stefnda að geta sinnt stúlkunni. Önnur gögn málsins styðja þetta, til dæmis segir í ítarlegri greinargerð um málið 7. september 2016, sem skrifuð var af forstöðumanni Vistheimilis barna og tveimur sérfræðingum: „Á tímabilinu 08.08-20.08.2016 þegar A sinnti að mestu viðveru í greiningar- og kennsluvistun, sáu starfsmenn að góð tengsl voru á milli A og B. A fylgdist vel með B í leik á gólfi og hugaði vel að öryggi hennar. A lék við B, spjallaði við hana og leiðbeindi. A talaði til B í blíðum og róandi tón, brosti til hennar og knúsaði. B tók mömmu sinni vel, vildi vera hjá henni og leitaði í öryggi hjá henni. Starfsmenn hrósuðu A fyrir hversu natin og dugleg hún væri með B og hversu fallegt samband væri á milli þeirra.“
Varðandi húsnæði móður stefndu, þá telur dómurinn ósannað að aðstæður séu með þeim hætti að barni sé þar hætta búin eða að þær aðstæður sem hún er reiðubúin til að bjóða dóttur sinni og dótturdóttur upp á séu ófullnægjandi. Þá er alls ekki útilokað að stefnda nái að útvega sér sjálf húsnæði í náinni framtíð. A.m.k. telur dómurinn að félagslegar aðstæður og staða stefndu sé ekki með þeim hætti að hafi áhrif í málinu stefndu í óhag, fyrir utan fíknivanda hennar.
-------
Öll börn þarfnast umhyggju, öryggis og stöðugleika í umhverfi sínu. Á fyrsta og öðru ári er þetta sérlega mikilvægt, en þá byrjar barn að mynda geðtengsl við nánustu umönnunaraðila sína. Eru slík tengsl ákaflega mikilvæg og nauðsynlegur grundvöllur fyrir áframhaldandi þroska barnsins. Mikilvægt er að stuðlað sé að því að þetta ferli fái að þróast án þess að rof verði þar á. Við tengslarof skapast hætta á margvíslegum misfellum í þroska og tengslarof geta verið veruleg ógn við geðheilsu barns. Eins og fram hefur komið sýndi stefnda lítinn skilning eða áhuga á að vinna með tengsl sín við barnið eftir að hún hafði þó samþykkt dvöl á Vistheimili barna, a.m.k. dvínaði áhuginn hratt eftir að dvölin hófst. Þótt það sé ekki vitað í raun verður gengið út frá því að stefnda hafi sinnt og einbeitt sér að móðurhlutverki sínu frá fæðingu og fram að eða yfir áramótin 2016. Eftir það verður ekki betur séð en að barnið hafi dvalið meira og minna hjá móðurömmu sinni eða allt fram til 8. ágúst 2016 þegar hún fór til dvalar á vistheimilið. Frá 21. október hefur barnið svo verið hjá fósturforeldum.
Niðurstaðan er því sú að á fyrstu 15 mánuðunum í lífi dóttur stefndu hefur stefnda einungis verið í samfelldum samskiptum við hana í um sjö til átta vikur eftir því sem næst verður komist. Eftir það var hún í mun minni samskiptum enda þá á stundum í fíkniefnaneyslu og eftir 30. ágúst, eða í næstum hálft ár, hefur stefnda ekki séð dóttur sína og gert afar lítinn reka að því að fá að umgangast hana, sbr. framangreint, jafnvel þótt henni hafi verið bent á mikilvægi þess að sinna slíkri umgengni á fósturtímabilinu. Dómurinn telur einsýnt að vegna lítilla samskipta við barnið hafa ekki náðst að myndast frumgeðtengsl á milli barnsins og stefndu. Samkvæmt framburði fyrir dómi virðist barnið hins vegar hafa tengst fósturforeldrum sínum vel. Dómurinn telur það mjög mikilvægt við úrlausn málsins og með hag barnsins að leiðarljósi að ekki verði um frekari tengslarof að ræða.
Þótt stefnda hafi greint frá því að hún hafi í dag fullkomna stjórn á neyslu sinni er óhjákvæmilegt að líta til þess að mjög stutt er síðan hún, að sögn, hætti neyslu vímuefna. Jafnframt verður litið til þess að stefnda var í verulega harðri neyslu eftir fæðingu dóttur sinnar og þá þar til nýverið. Sá áhugi sem stefnda sýnir því nú að halda forsjá barnsins er mjög á skjön við staðreyndir málsins og undanfara þess. Sá áhugi hefur í raun og veru engan veginn verið fyrir hendi frá því barnið var tæplega tveggja mánaða gamalt og þar til greinargerð stefndu í máli þessu var skilað og við skýrslugjöf stefndu við aðalmeðferð málsins. Þess í stað hefur stefnda verið í neyslu fíkniefna, sýnt barninu lítinn áhuga og jafnframt lýst því yfir áður að hún sé reiðubúin að afsala sér forsjá. Sýndur áhugi nú á barninu og fullyrðing stefndu um að hún ráði við fíknivanda sinn fer engan veginn saman. Að minnsta kosti hefur engin líkleg skýring komið fram í málinu hvers vegna stefnda beitti ekki þessum meinta viljastyrk sínum í þágu dóttur sinnar á fyrstu mánuðum lífs hennar. Dómurinn telur því að afar fátt bendi til þess að stefnda muni getað ratað af þessari villu vegar í bráð.
Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga skulu barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þá skulu þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Skal því aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í 2. mgr. 29. gr. laganna er þessi regla um meðalhóf sérstaklega áréttuð að því er tekur til kröfu um forsjársviptingu, en hún skal því aðeins gerð að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.
Stefnda telur að ekki hafi verið gætt meðalhófs í málinu, og vægari úrræði hafi ekki verið fullreynd.
Eina úrræðið sem sjáanlegt er að mætti hugsanlega reyna í máli stefndu væri tímabundið fóstur í tólf mánuði. sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002, eins og stefnda hefur nú lýst sig samþykka, en slíka kröfu hefði stefnandi þá þurft að gera fyrir dómi. Að virtum atvikum málsins þykir sýnt að allar líkur stæðu þá til þess að slíkur tími yrði nýttur til fulls enda ólíklegt að stefnda gæti sýnt fram á það með ótvíræðum hætti að hún væri reiðubúin til að takast á við móðurhlutverkið. Dómurinn telur afar ólíklegt, sbr. framangreint, að stefndu myndi takast þetta. Við mat á því hvort úrræðið sé tækt verður og litið til þess sem að framan greinir um tenglamyndun og tengslarof. Ef úrræðið yrði nýtt þá væri fyrirsjáanlegt að málið yrði tekið til skoðunar í lok tímabilsins en þá væri barnið orðið næstum tveggja og hálfs árs gamalt. Því verður ekki talið að efni séu til að sýkna stefndu í málinu á grundvelli þess að hún hefur lýst sig reiðubúna að samþykkja slíkt úrræði líkt og gert var í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 382/2007. Í þessu sambandi er og óhjákvæmilegt að líta til þess að stefnda hefur til þessa ekki verið til neins samstarfs svo heitið geti. Fram hefur komið að hún hefur hafnað því að gangast undir meðferð við fíknivanda sínum og hún hefur hafnað því ítrekað að ganga til sálfræðings. Það er því svo að ekkert í málinu utan, eins og áður segir, greinargerðar stefndu til dómsins og framburðar hennar sem gefur ástæðu til að ætla að stefndu muni ganga betur að fóta sig í nánustu framtíð heldur en til þessa.
Dómurinn sem skipaður er sérfróðum meðdómurum telur að ekki sé þörf á sérfræðilegu áliti á forsjárhæfni stefndu. Þykir málið því vera nægjanlega upplýst og verður stefnukröfu ekki hafnað af þeim sökum.
Dómurinn telur því að öllu framangreindu virtu og gögnum málsins að stefnda sé ekki hæf til að fara með forsjá dóttur sinnar og sinna forsjárskyldum sínum gagnvart henni. Þykja skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, þannig vera fyrir hendi í málinu auk þess sem hagsmunir og velferð barnsins krefjast þessa. Brýna nauðsyn þykir þannig bera til að tryggja barninu það öryggi og þá umönnun sem hún þarf á að halda og á rétt á lögum samkvæmt, sbr. 1. og 2. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Í ljósi ungs aldurs barnsins og þarfa þess fyrir tilfinningatengsl við umönnunaraðila sína, sem og allra málsatvika, þykir tímabundin vistun barnsins ekki koma til álita. Þá þykir ljóst að reynd hafi verið öll þau stuðningsúrræði sem krefjast verður að séu reynd áður en gripið er til þess að svipta foreldri forsjá og að önnur úrræði séu ekki tæk í málinu, en grunnforsenda fyrir því að beita slíkum úrræðum er eðli máls samkvæmt sú að forsjáraðili sé fús til samstarfs. Verður því að virtu öllu framangreindu að telja að hagsmunir og þarfir barnsins krefjist þess að stefnda verði svipt forsjá þess. Þar víkur réttur stefndu til forsjár yfir barninu fyrir mannréttindum barnsins, sbr. framangreint.
Stefnda hefur lagt fram gjafsóknarleyfi vegna reksturs þessa máls fyrir héraðsdómi, útgefið 5. janúar sl., sbr. 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga um rétt stefnda til þess. Rétt er því að málskostnaður milli aðila falli niður, en stefnandi gerði ekki kröfu um málskostnað. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, sem telst, miðað við umfang málsins og rekstur þess, hæfilega ákveðin 900.000 kr.
Jón Pétur Skúlason héraðsdómslögmaður flutti mál þetta fyrir hönd stefnanda og Ómar Örn Bjarnþórsson héraðsdómslögmaður fyrir hönd stefndu.
Fyrir dómsuppkvaðningu var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en lögmenn aðila voru sammála dómurum um að endurflutningur væri óþarfur.
Dóm þennan kveður upp Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt meðdómsmönnunum Odda Erlingssyni og Rögnu Ólafsdóttur sálfræðingum.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, A, er svipt forsjá dóttur sinnar, B, sem fædd er [...] 2015.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar, 900.000 kr.