Hæstiréttur íslands
Mál nr. 263/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfulýsing
- Fjármálafyrirtæki
|
|
Þriðjudaginn 15. maí 2012. |
|
Nr. 263/2012.
|
Fanný Gunnarsdóttir og Hörður Gunnarsson (Jón Ögmundsson hrl.) gegn Kaupþingi banka hf. (Hjördís E. Harðardóttir hrl.) |
Kærumál. Kröfulýsing. Fjármálafyrirtæki.
Úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu F og H þess efnis að krafa þeirra, sem lýst var við slit K hf. yrði viðurkennd við slitin sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2012, þar sem hafnað var kröfu sem sóknaraðilar höfðu lýst við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfu þeirra verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, aðallega að fjárhæð 5.506.048 krónur en til vara að fjárhæð 4.418.030 krónur. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en að því frágengnu að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður óskipt gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Fanný Gunnarsdóttir og Hörður Gunnarsson, greiði óskipt varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2012.
I
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 25. maí 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember sama ár. Sóknaraðilar, Fanný Gunnarsdóttir og Hörður Gunnarsson, Hlaðhömrum 13, Reykjavík, lýstu sameiginlega kröfu á hendur varnaraðila, alls að fjárhæð 5.506.048 krónur, og byggði hún á úrskurði Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki frá 1. október 2009. Samkvæmt þeim úrskurði var varnaraðila gert að greiða sóknaraðilum 27.845.356 krónur, ásamt vöxtum, en að frádregnum innborgunum varnaraðila. Kröfunni var lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Með bréfi 9. október 2009 var sóknaraðilum tilkynnt að slitastjórn varnaraðila myndi ekki una úrskurði nefndarinnar og var kröfunni því hafnað. Sóknaraðilar mótmæltu afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málið þingfest 29. september sl.
Í greinargerð sinni til dómsins krefjast sóknaraðilar þess aðallega að krafa þeirra að fjárhæð 5.506.048 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa í samræmi við 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en að krafa um dráttarvexti af fjárhæðinni, frá 22. apríl 2009 til greiðsludags, auk kostnaðar sem kann að falla til fram til þess tíma, verði viðurkennd sem eftirstæð krafa, sbr. 114. gr. sömu laga.
Til vara krefjast sóknaraðilar þess að krafa þeirra að fjárhæð 4.418.030 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. október 2008 til 1. mars 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til 22. apríl 2009, verði viðurkennd sem almenn krafa í samræmi við 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá er krafist dráttarvaxta af fjárhæðinni frá 22. apríl 2009 til greiðsludags, auk kostnaðar sem kann að falla til fram til þess tíma, og að sú krafa verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Í báðum tilvikum krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.
Málið var tekið til úrskurðar 2. mars sl.
II
Sóknaraðilar voru eigendur hlutdeildarskírteina í fjárfestingarsjóðum sem báru heitið „Kaupþing Peningamarkaðssjóður“ og „Kaupþing Skammtímasjóður“ og voru reknir af Rekstrarfélagi Kaupþings banka hf. Varnaraðili var söluaðili sjóðanna, annaðist markaðssetningu þeirra og þjónustu við fjárfesta, auk milligöngu um útgáfu og innlausn hlutdeildarskírteina, allt í samræmi við ákvæði útboðslýsinga fyrir sjóðina frá nóvember 2007, 3. mgr. 3. gr. reglna þeirra frá 29. september 2003, með síðari breytingum, og 18. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Samkvæmt samningum frá árunum 1999 og 2003 höfðu sóknaraðilar notið þjónustu varnaraðila við eignastýringu.
Samkvæmt sundurliðuðu yfirliti um verðbréfaeign sóknaraðila 6. október 2008 nam markaðsvirði hlutdeildarskírteina þeirra í áðurnefndum peningamarkaðssjóði 26.718.235 krónum, en 1.127.121 krónu í skammtímasjóðnum. Að morgni þess dags, kl. 10:03, mun annar sóknaraðila hafa hringt í fjármálaráðgjafa sinn hjá varnaraðila og óskað eftir því að öll hlutdeildarskírteini í báðum sjóðunum yrðu innleyst, og andvirði þeirra lagt á almennan innlánsreikning hjá bankanum. Hvað aðilum fór nákvæmlega á milli í símtali þeirra liggur ekki fyrir, enda hringdi sóknaraðili í farsíma starfsmanns varnaraðila og var samtalið því ekki hljóðritað. Varnaraðili hefur þó ekki mótmælt því að efni samtalsins hafi verið að innleysa hlutdeildarskírteinin. Í greinargerð sóknaraðila er fullyrt að fjármálaráðgjafinn hafi einnig sett í gang það ferli sem alla jafna ljúki með sölu hlutdeildarskírteina og að fundinn hafi verið innlánsreikningur sem átti að leggja fjárhæðina inn á.
Þennan sama morgun tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að stöðva tímabundið viðskipti með alla fjármálagerninga, sem útgefnir voru af tilteknum félögum, þ. á m. varnaraðila. Mun tilkynning þessa efnis hafa birst kl. 10:13 á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Skömmu síðar, kl. 11:58, sendi varnaraðili Fjármálaeftirlitinu rafpóst þess efnis að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins leiddi til þess að Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. kæmist ekki hjá því að fresta innlausnum hlutdeildarskírteina í nafngreindum sjóðum, þ. á m. Peningamarkaðssjóði og Skammtímasjóði Kaupþings, enda innihéldu þeir sjóðir fjármálagerninga sem Fjármálaeftirlitið hefði stöðvað viðskipti með. Í kjölfarið, eða kl. 12:23, birtist á heimasíðu varnaraðila tilkynning um ótímabundna frestun innlausna hlutdeildarskírteina flestra sjóða rekstarfélagsins, þ. á m. peningamarkaðssjóðsins og skammtímasjóðsins. Tilkynning sama efnis var birt á vef rekstrarfélagsins kl. 13:06. Fram kom í tilkynningunni að ákvörðun um frestun væri tekin þar sem ekki væri með öðrum hætti unnt að tryggja jafnræði fjárfesta. Jafnframt var þar vísað til 2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Hlutdeildarskírteini sóknaraðila í áðurnefndum sjóðum voru ekki seld 6. október 2008. Í greinargerð varnaraðila er fullyrt að engar eignir sjóðfélaga í umræddum sjóðum hafi verið seldar þennan dag og að allar innlausnir hafi verið bakfærðar.
Með bréfi til skilanefndar varnaraðila 13. október 2008 kröfðust sóknaraðilar skaðabóta vegna meintrar handvammar starfsmanns varnaraðila við sölu hlutdeildarskírteinanna. Erindinu var hafnað með bréfi skilanefndar 8. janúar 2009.
Hinn 31. október 2008 voru sóknaraðilum greiddar samtals 22.581.104 krónur úr áðurnefndum peningamarkaðssjóði, og svaraði fjárhæðin til 75,1% af markaðsvirði eignar þeirra 3. október 2008, og 846.222 krónur úr skammtímasjóðnum, en sú fjárhæð svaraði til 85,3% af eign sóknaraðila. Samtals voru því sóknaraðilum greiddar 23.427.226 krónur. Greiðslan var fullnaðargreiðsla og var sjóðunum lokað í kjölfarið.
Sóknaraðilar lögðu fram kvörtun til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki 29. janúar 2009 vegna framangreindra viðskipta þeirra við varnaraðila. Var mál þeirra þar til meðferðar til 1. október 2009, er úrskurðarnefndin kvað upp þann úrskurð að varnaraðila bæri að greiða sóknaraðilum 4.418.030 krónur, ásamt vöxtum. Niðurstaða nefndarinnar var á því reist að sóknaraðilar ættu að verða eins settir og ef innlausn hlutdeildarskírteinanna hefði farið fram 6. október 2008, eins og um hafði verið beðið. Er fjárhæðin mismunur á markaðsvirði eignar sóknaraðila í umræddum sjóðum 3. október 2008 og greiðslna varnaraðila til þeirra 31. október sama ár.
Varnaraðili tilkynnti sóknaraðilum með bréfi 9. október 2009 að hann myndi ekki una úrskurði nefndarinnar, og vísaði í því sambandi til 2. mgr. 12. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefndina. Í kjölfarið lýstu sóknaraðilar kröfu sinni við slitameðferð varnaraðila og var hún móttekin 15. desember 2009.
III
Aðalkrafa sóknaraðila byggist á því að starfsmenn varnaraðila hafi með vanrækslu sinni bakað þeim fjártjón sem varnaraðili beri bótaábyrgð á. Vanrækslan hafi falist í því að ekki hafi verið fylgt eftir skýrum fyrirmælum sóknaraðila um sölu hlutdeildarskírteina þeirra í áðurnefndum sjóðum. Beri því að viðurkenna bótakröfu þeirra sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Sóknaraðilar telja óumdeilt að þeir hafi óskað eftir innlausn hlutdeildarskírteina sinna í samtali við viðskiptastjóra hjá varnaraðila kl. 10:03 að morgni 6. október 2008. Báðir umræddir sjóðir hafi verið fjárfestingarsjóðir, sbr. 3. mgr. 2. gr. reglna þeirra, og um þá hafi því gilt ákvæði III. kafla A laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Í 3. málslið 2. mgr. 53. gr. þeirra laga komi fram sú meginregla að hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóðs séu innlausnarskyld og að um innlausn þeirra fari samkvæmt reglum hans. Því til samræmis segi í 3. mgr. 5. gr. reglna peningamarkaðssjóðsins að hlutdeildarskírteini sjóðsins skuli innleyst að kröfu eiganda á því kaupgengi sem gildi á innlausnardegi, berist umsókn fyrir kl. 14:00. Í 3. mgr. 5. gr. reglna skammtímasjóðsins segi hins vegar að hlutdeildarskírteini skuli innleyst á því kaupgengi sem gildi á innlausnardegi, en án þess að getið sé um tímamörk umsóknar. Leggja sóknaraðilar áherslu á að heimildir til að fresta innlausn úr sjóði séu undantekningar frá meginreglu tilvitnaðs ákvæðis laga nr. 30/2003, og beri því samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum að skýra þær þröngt.
Með vísan til ofanritaðs, svo og með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 og 5. gr. reglna sjóðanna, byggja sóknaraðilar á því að varnaraðila hafi verið skylt að selja hlutdeildarskírteinin um leið og þeir kröfðust þess, enda hafi rekstrarfélag sjóðanna á þeirri stundu ekki tekið ákvörðun um að fresta innlausn, né hafi slík ákvörðun verið tilkynnt Fjármálaeftirlitinu eða birt opinberlega, eins og skylt sé að gera samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laganna. Telja sóknaraðilar að slík ákvörðun geti ekki skuldbundið aðila fyrr en hún hafi verið tekin af rekstrarfélagi sjóðanna, tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og birt opinberlega.
Sóknaraðilar mótmæla því harðlega að ákvörðun um að fresta innlausn úr sjóðunum, sem tekin hafi verið síðar sama dag og birt kl. 12:23 og 13:06 á heimasíðum aðila, geti haft afturvirk áhrif, líkt og varnaraðili virðist byggja á. Hvorki í lögum né reglum sjóðanna sé gert ráð fyrir því að unnt sé að takmarka innlausnarskyldu hlutdeildarskírteina með þessum hætti. Málsástæða varnaraðila, þessa efnis, eigi sér því enga lagastoð. Því síður sé hægt að fallast á þau rök varnaraðila að ekki hafi tekist að selja eignir sóknaraðila áður en frestun innlausna tók gildi, enda hafi eignir sóknaraðila ekki verið hlutabréf eða aðrir fjármálagerningar þar sem mótaðila þurfi til viðskipta. Hlutdeildarskírteini séu þess eðlis að þau beinist að viðkomandi sjóði, og séu eins og nafn þeirra gefi til kynna skírteini um tiltekinn hluta af eignum sjóðsins. Beiðni um innlausn hlutdeildarskírteina sé því ekkert annað en beiðni um að fá eign sína í sjóðnum greidda út. Þá benda sóknaraðilar á að þar sem opið hafi verið fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í sjóðunum að morgni 6. október 2008, hljóti kaupgengi hlutdeildarskírteinanna að hafa verið skráð.
Sóknaraðilar byggja einnig á því að samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 hvíli sú skylda á varnaraðila að leita allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir sóknaraðila, m.a. með tilliti til hraða við afgreiðslu máls, svo og að gera ráðstafanir sem miði að sanngjarnri og skjótri framkvæmd fyrirmæla, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Ákvæði þessi hafi verið leidd í lög á grundvelli svokallaðrar MIFID-tilskipunar, og sé tilgangur þeirra einkum að vernda einstaklinga í viðskiptum við verðbréfa- og fjárfestingarsjóði. Því beri að túlka þau ákvæði til samræmis við hagsmuni sóknaraðila. Telja sóknaraðilar ljóst að varnaraðili hafi vanrækt skyldu sína til að gera allt sem í hans valdi stóð til að tryggja þeim eins hagfellda niðurstöðu og mögulegt var. Þá benda sóknaraðilar á að varnaraðili sé bundinn af ákvæðum 19. gr. laga um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði nr. 30/2003 og 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, en þar sé að finna fyrirmæli um góða og trausta viðskiptahætti fjármálafyrirtækja gagnvart viðskiptavinum.
Samkvæmt ofanrituðu telja sóknaraðilar ljóst að varnaraðila beri að bæta þeim það tjón sem þeir urðu fyrir sökum þess að ekki var orðið við beiðni um innlausn hlutdeildarskírteina þeirra í áðurnefndum fjárfestingarsjóðum. Aðalkrafa þeirra sundurliðast þannig:
Upprunalegur höfuðstóll m.v. 6. október 2008 kr. 27.845.356.
Innborgarnir 31. október 2008 kr. 23.427.236.
Höfuðstóll eftir innborganir kr. 4.418.030.
Dráttarvextir frá 6. október 2008 til 22. apríl 2009 kr. 1.088.018.
Samtals kr. 5.506.048.
Sóknaraðilar miða við að hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað 6. október 2008 og því sé sá dagur upphafsdagur dráttarvaxta. Er kröfunni lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefjast sóknaraðilar dráttarvaxta af allri fjárhæðinni frá 22. apríl til greiðsludags, en þeirri kröfu er lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga.
Til stuðnings varakröfu sinni vísa sóknaraðilar til sömu sjónarmiða og aðalkrafan byggist á. Sá munur sé einn á kröfunum að í varakröfu sé miðað við 1. mars 2009 sem upphafsdag dráttarvaxta, en þann dag hafi einn mánuður verið liðinn frá því að sóknaraðilar lögðu fram kvörtun til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, og þar með upplýsingar um tjónsatvik og fjárhæð tjóns, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá sé þar krafist vaxta samkvæmt 8. gr. sömu laga frá tjónsdegi, 6. október 2008, til 1. mars 2009.
Um lagarök, kröfum sínum til stuðnings, vísa sóknaraðilar til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og til meginreglna gjaldþrotaréttar. Einnig er vísað til meginreglna kröfuréttar, samningaréttar og skaðabótaréttar, um skuldbindingargildi samninga, réttar efndir samninga, endurgjaldshættu og skyldu þess er vanefnir samning til greiðslu efndabóta. Þá er vísað til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, einkum 5., 18. og 19. gr. þeirra, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, einkum 19. gr. þeirra, og til laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, einkum 19. og 53. gr. þeirra. Krafa um vexti og dráttarvexti byggist á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, en málskostnaðarkrafan er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
IV
Varnaraðili hafnar með öllu málatilbúnaði sóknaraðila og telur að hafna beri kröfu þeirra, þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði almennu sakarreglunnar. Virðist honum sem skaðabótakrafan byggi á því að tilgreindur starfsmaður varnaraðila hafi á saknæman og ólögmætan hátt komið í veg fyrir innlausn eignar sóknaraðila í áðurnefndum sjóðum sama dag og lokað hafi verið fyrir viðskipti með alla fjármálagerninga tiltekinna félaga í NASDAQ OMX Iceland hf. Þó komi ekkert fram í málatilbúnaði þeirra hvernig meint vanræksla starfsmanns varnaraðila hafi haft áhrif á stöðu hlutdeildarskírteina þeirra í þeim sjóðum. Sóknaraðilar hafi þannig ekki sýnt fram á að meint háttsemi starfsmannsins hafi almennt verið til þess fallin að valda þeim tjóni sem varnaraðili beri ábyrgð á.
Varnaraðili leggur áherslu á að ákvörðun stjórnar rekstarfélags varnaraðila um að fresta innlausn hlutdeildarskírteina í sjóðum varnaraðila 6. október 2008 hafi verið í samræmi við 3. mgr. 5. gr. reglna beggja umræddra sjóða og 2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003. Frestunin hafi verið almenn og náð til allra hlutdeildarskírteina í sjóðunum, og gerð í því skyni að tryggja jafnræði eigenda hlutdeildarskírteina við þá fordæmalausu atburði sem gengu yfir fjármálakerfið haustið 2008. Ákvörðunin hafi tekið gildi þá þegar, og hafi sóknaraðilar ekki getað vænst þess, fremur en aðrir sjóðfélagar, að brugðist yrði við beiðni þeirra um innlausn hlutdeildarskírteinanna frá þeim tíma. Í því sambandi vekur varnaraðili athygli á því að honum hafi ekki borið skylda til að sinna slíku erindi strax. Hins vegar hafi honum að öllu óbreyttu borið að gera það sama dag og beiðni barst. Áður en til þess kom hafi þó verið búið að loka fyrir öll viðskipti í sjóðunum. Í þessu ljósi er mótmælt þeirri málsástæðu sóknaraðila að starfsmaður varnaraðila hafi í samskiptum sínum við sóknaraðila ekki sýnt af sér trausta og góða viðskiptahætti, enda hafi það ekki verið á valdi hans að mismuna sjóðfélögum með innlausn hlutdeildarskírteina. Um leið er bent á að engu máli hefði skipt þótt innlausn hefði farið fram þegar í stað, þar sem allar innlausnir sem áttu sér stað 6. október 2008 hafi verið bakfærðar í samræmi við reglur sjóðanna, í því skyni að gæta fyllsta jafnræðis meðal eigenda hlutdeildarskírteina. Því hafi engar sölur átt sér stað í sjóðum þessum á tímabilinu frá 6. október til 31. október 2008. Með vísan til framanritaðs byggir varnaraðili á því að starfsmaður hans hafi ekki sýnt af sér vanrækslu, þannig að færi í bága við 18. og 19. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, líkt og sóknaraðilar haldi fram. Þvert á móti heldur varnaraðili því fram að hann hafi gætt hagsmuna allra sjóðfélaga, eins og honum hafi borið að gera samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003. Meint skaðabótakrafa sóknaraðila sé því með öllu haldlaus.
Varnaraðili bendir einnig á að sóknaraðilar hafi gert sér fulla grein fyrir eðli verðbréfaviðskipta og þeirri áhættu sem þeim fylgdi, og vísar þá til 16. gr. samnings aðila um eignastýringu. Hafi þeim hlotið að vera ljóst að verðbréfaviðskipti gætu bæði haft tap og ávinning í för með sér. Af þeirri ástæðu geti þeir ekki byggt skaðabótakröfu á hendur varnaraðila á þeim grunni að verðmæti eignar þeirra í oftnefndum sjóðum hafi rýrnað. Þess utan sé sá annmarki á máltilbúnaði sóknaraðila að ekki sé gerð grein fyrir því hvernig þeir telji ábyrgð varnaraðila til komna, þar sem fyrir liggi að rekstarfélag varnaraðila hafi verið útgefandi hlutdeildarskírteinanna og annast rekstur sjóðanna. Að þessu leyti sé krafa sóknaraðila vanreifuð, auk þess sem tjón þeirra sé ósannað.
Af hálfu varnaraðili er því harðlega mótmælt að úrskurður Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, nr. 6/2009, geti haft nokkurt gildi við úrlausn þessa máls. Beri þar fyrst að nefna að úrskurðir nefndarinnar séu ekki bindandi, sbr. 11. og 12. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefndina frá 8. júní 2000. Þá sé nefndin ekki starfrækt á grundvelli laga, heldur hafi tilteknir aðilar sett hana á fót með samningi sín á milli og greiði þeir kostnað af störfum hennar. Ljóst sé því að úrskurður nefndarinnar hafi enga þýðingu í málinu.
Varnaraðili kveðst einnig ósammála niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, sem talið hafi eðlilegt og í samræmi við góða viðskiptahætti að afgreiða þær beiðnir um innlausn hlutdeildarskírteina sem höfðu borist áður en tilkynning um frestun innlausna birtist á vef varnaraðila. Telur hann niðurstöðu nefndarinnar fara í bága við 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003, sem byggi á því sjónarmiði að tryggja skuli jafnræði hlutdeildarskírteinishafa. Hvorki í lögum né reglum umræddra sjóða sé gert ráð fyrir því að ákvörðun um frestun innlausna verði ekki bindandi fyrr en hún hafi verið tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og birt opinberlega.
Verði á það fallist að sóknaraðilar eigi kröfu á hendur varnaraðila hafnar varnaraðili fjárhæð kröfunnar þar sem sóknaraðilar hafi ekki fært sönnur á hvert tjón þeirra sé. Beri þeir sönnunarbyrði fyrir fjárhæð tjónsins. Gögn sóknaraðila, til stuðnings kröfu þeirra, miðist öll við gengi sjóðanna 3. október 2008, sem hafi verið síðasta skráða gengi þeirra. Í 3. mgr. 5. gr. reglna beggja sjóðanna segi að við innlausn skuli gilda kaupgengi í dagslok á innlausnardegi. Þar sem ekkert gengi hafi verið skráð 6. október 2008, enda sjóðurinn lokaður, telur varnaraðili útilokað að miða við gengi sjóðanna 3. október.
Varnaraðili mótmælir loks kröfu sóknaraðila um dráttarvexti frá 6. október 2008 til 22. apríl 2009. Telur hann að ekki sé hægt að fallast á að krafan beri vexti fyrr en frá úrskurðardegi, eða í fyrsta lagi frá kröfulýsingardegi, en í báðum tilvikum yrðu vextir eftirstæðir samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Einnig er mótmælt kröfu sóknaraðila um dráttarvexti frá 22. apríl 2009 til greiðsludags, og bendir varnaraðili á að krafa sóknaraðila sé skaðabótakrafa, sem aðeins geti þá borið vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, en ekki dráttarvexti á grundvelli III. kafla sömu laga. Að endingu mótmælir varnaraðili kröfu sóknaraðila um kostnað, þar sem slík krafa sé eftirstæð, og muni slitastjórn ekki taka afstöðu til eftirstæðra krafna. Þá telur varnaraðili að sú meginregla gildi við gjaldþrotaskipti að hver kröfuhafi beri sinn kostnað af því að halda kröfunni fram.
Um lagarök er vísað til laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Málskostnaðarkrafan er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
V
Ekki er um það deilt að annar sóknaraðila óskaði eftir því í símtali við starfsmann varnaraðila kl. 10:03 að morgni 6. október 2008 að öll hlutdeildarskírteini sóknaraðila í Peningamarkaðssjóði og Skammtímasjóði Kaupþings yrðu innleyst, og andvirði þeirra lagt á almennan innlánsreikning hjá bankanum. Fyrir liggur einnig að þennan sama morgun tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að stöðva tímabundið viðskipti með fjármálagerninga sem gefnir höfðu verið út af öllum helstu fjármálafyrirtækjum landsins og teknir höfðu verið til viðskipta á skipulögðum markaði. Tilkynning þessa efnis birtist á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins kl. 10:13. Þar sem fjármálagerningar þessir voru meðal eigna flestra sjóða Rekstrarfélags Kaupþings banka hf., þ. á m. peningamarkaðssjóðsins og skammtímasjóðsins, ákvað rekstarfélagið að fresta innlausnum hlutdeildarskírteina í þeim sjóðum, og mun tilkynning þess efnis hafa birst á heimasíðu varnaraðila kl. 12:23, en á heimasíðu rekstrarfélagsins kl. 13:06. Tekið var fram að ákvörðun um frestun innlausna væri tekin á grundvelli 2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.
Hlutdeildarskírteini sóknaraðila í áðurnefndum sjóðum voru ekki innleyst 6. október 2008 og fullyrðir varnaraðili að engar eignir sjóðfélaga hafi verið seldar þann dag. Að sama skapi hafi allar beiðnir um innlausn, sem mótteknar höfðu verið áður en ákvörðun um frestun lá fyrir, verið bakfærðar. Fram er komið að 31. október 2008 fengu sóknaraðilar greiddar 22.581.104 krónur úr áðurnefndum peningamarkaðssjóði, sem svaraði til 75,1% af markaðsvirði eignar þeirra 3. október 2008, og 846.222 krónur úr skammtímasjóðnum, eða 85,3% af eign þeirra í þeim sjóði 3. október 2008. Við greiðsluna mun hafa verið tekið fram að um fullnaðargreiðslu væri að ræða og var sjóðunum lokað í kjölfarið. Fjárhæð kröfu sóknaraðila er mismunur á samanlögðu markaðsvirði hlutdeildarskírteina sóknaraðila í báðum sjóðunum 3. október 2008 og þeim greiðslum sem inntar voru af hendi 31. október sama ár.
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, eru hlutdeildaskírteini fjárfestingarsjóða innlausnarskyld, og fer um innlausn þeirra samkvæmt reglum fjárfestingarsjóðsins. Í 2. mgr. beggja tilvitnaðra greina segir þó að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé heimilt samkvæmt ákvæðum reglna fjárfestingarsjóðsins að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Skuli frestunin þá vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina, og verði henni einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Þá segir þar að frestun á innlausn skuli þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og jafnframt auglýst opinberlega.
Meðal gagna málsins er útboðslýsing og reglur beggja umræddra fjárfestingarsjóða. Samkvæmt útboðslýsingu peningamarkaðssjóðsins bar að afgreiða umsóknir um innlausn hlutdeildarskírteina samdægurs, bærist slík umsókn fyrir kl. 14:00 á opnunardegi Kaupþings banka hf. Í þeim kafla útboðslýsingar, sem bar heitið „Sölugengi og innlausnarvirði“ sagði síðan:
„Sjóðurinn er skuldbundinn til að innleysa bréfin að kröfu eigenda á því kaupgengi sem gildir daginn eftir innlausnardag. Þó er heimilt að fresta innlausn hlutdeildarskírteina mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjast þess. Sem dæmi um slík tilvik má nefna lokun kauphalla þar sem verulegur hluti eigna sjóðsins er skráður þannig að ekki reynist unnt að staðreyna innlausnarvirði hlutdeildarskírteina. Einnig gæti verðbréfasjóður staðið frammi fyrri svo miklum kröfum um innlausn að ekki væri unnt að mæta þeim nema með sölu eigna sem tekið gæti einhvern tíma. Frestunin skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina. Frestun á innlausn skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirliti og auglýst opinberlega.“
Í reglum peningamarkaðssjóðsins er sambærilegt ákvæði að finna í 3. mgr. 5. gr. þeirra. Í 1. málslið ákvæðisins segir þó að hlutdeildarskírteini sjóðsins skuli innleyst að kröfu eigenda á því kaupgengi sem gildi á innlausnardegi, berist umsóknir fyrir kl. 14:00.
Í 3. mgr. 5. gr. reglna skammtímasjóðsins er ekki að finna tímamörk á umsókn fyrir innlausn, þótt ákvæðið sé að öðru leyti samhljóða ákvæði í reglum fyrir peningamarkaðssjóðinn. Hins vegar kemur fram í útboðslýsingu fyrir skammtímasjóðinn að umsóknir um innlausn þurfi að berast fyrir kl. 15:00, og skuli hlutdeildarskírteini þá innleyst á því kaupgengi sem gildi í dagslok á innlausnardegi. Einnig er þar fjallað um heimild til frestunar á innlausn, á sama hátt og í útboðslýsingu fyrir peningamarkaðssjóðinn, sbr. hér að ofan.
Af framansögðu er ljóst að ákvörðun Rekstrarfélags Kaupþings banka hf. 6. október 2008, um að fresta innlausn hlutdeildarskírteina í Peningamarkaðssjóði og Skammtímasjóði Kaupþings, var í samræmi við heimildir útboðsskilmála, reglna sjóðanna og tilvitnuð ákvæði laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, og gerð í því skyni að tryggja hagsmuni og jafnræði allra sjóðfélaga við þær sérstöku og dæmalausu aðstæður sem þá ríktu á fjármálamarkaði. Tók ákvörðunin þegar gildi og gátu sóknaraðilar ekki vænst þess, fremur en aðrir sjóðfélagar, að brugðist yrði við beiðni þeirra um innlausn hlutdeildarskírteina frá þeim tíma. Breytir engu í því efni þótt beiðni um innlausn hafi borist starfsmanni varnaraðila tæpum tveimur klukkustundum áður en sú ákvörðun var tekin og tilkynnt opinberlega. Um leið er minnt á að varnaraðila bar engin skylda til að sinna slíku erindi strax. Að öllu óbreyttu bar honum hins vegar að gera það samdægurs. Samkvæmt því verður ekki á það fallist að varnaraðila hafi borið skylda til að selja umrædd hlutdeildarskírteini um leið og sóknaraðilar kröfðust þess. Af því leiðir einnig að hafnað er þeirri málsástæðu að starfsmaður varnaraðila hafi sýnt af sér vanrækslu, svo bótaábyrgð varði, þótt honum hafi ekki auðnast að selja hlutdeildarskírteini sóknaraðila fyrir frestun viðskipta. Með sömu rökum stoðar heldur ekki sóknaraðila að vísa til ákvæða 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, 19. gr. laga um verbréfasjóði og fjárfestingarsjóði nr. 30/2003, né 19. gr. laga nr. um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, en ákvæðum þessum er ætlað að tryggja viðskiptavinum fjármálafyrirtækja góða og trausta viðskiptahætti.
Við munnlegan flutning málsins féllu sóknaraðilar frá þeirri málsástæðu sinni að ákvörðun Rekstarfélags Kaupþings banka hf. um frestun innlausna hlutdeildarskírteina hafi ekki orðið bindandi gagnvart þeim fyrr en sú ákvörðun var tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og auglýst opinberlega. Verður því ekki um hana fjallað.
Eins og áður greinir lögðu sóknaraðilar fram kvörtun til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki vegna viðskipta sinna við varnaraðila. Kvað nefndin upp úrskurð í málinu 1. október 2009, og var það niðurstaða hennar að varnaraðila bæri að greiða sóknaraðilum 4.418.030 krónur, ásamt vöxtum. Samkvæmt 11. og 12. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefndina frá 8. júní 2000, sem liggja frammi í málinu, getur hvor aðili skotið niðurstöðu nefndarinnar til dómstóla. Úrskurðir nefndarinnar eru því ekki bindandi fyrir aðila. Þegar af þeirri ástæðu hefur umræddur úrskurður ekki þýðingu við úrlausn þessa máls.
Samkvæmt öllu framanrituðu er það niðurstaða dómsins að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 450.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfum sóknaraðila, Fannýjar Gunnarsdóttur og Harðar Gunnarssonar, aðallega að fjárhæð 5.506.048 krónur, en til vara að fjárhæð 4.418.030 krónur, sem þeir lýstu við slitameðferð varnaraðila, Kaupþings banka hf., er hafnað.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila 450.000 krónur í málskostnað.