Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-30

Jakob Adolf Traustason (sjálfur)
gegn
Gísla Guðfinnssyni, Maríu Guðbjörgu Guðfinnsdóttur og dánarbúi Gerðar Bjargar Guðfinnsdóttur (Steinbergur Finnbogason lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 22. janúar 2021 leitar Jakob Adolf Traustason leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 17. desember 2020 í máli nr. 620/2020: Jakob Adolf Traustason gegn Gísla Guðfinnssyni, Maríu Guðbjörgu Guðfinnsdóttur og dánarbúi Gerðar Bjargar Guðfinnsdóttur. Um kæruheimild er vísað til a-liðar 1. töluliðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 2. mgr. sama lagaákvæðis. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda um bætur vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna sölu gagnaðila á landspildu úr landi Hróarsholts 2 í Flóahreppi. Með úrskurði héraðsdóms var hafnað kröfu gagnaðila um frávísun málsins í heild en nánar tilgreindum kröfum í framhaldsstefnu leyfisbeiðanda var vísað frá dómi. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með framangreindum úrskurði og vísaði meðal annars til þess að aðalkrafa leyfisbeiðanda í framhaldsstefnu varðaði sama sakarefni og leyst hefði verið úr með tilteknum dómi Hæstaréttar. Jafnframt var 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 talin girða fyrir að leyfisbeiðandi gæti höfðað nýtt mál á hendur gagnaðilum vegna sömu atvika og áður með því að byggja það á málsástæðum sem hefðu mátt koma fram við höfðun fyrra málsins.

Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar í kærumálum þegar svo er mælt fyrir um í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 91/1991 né öðrum lögum mælt fyrir um að unnt sé að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar um það efni sem hér um ræðir. Þá getur framangreindur úrskurður Landsréttar ekki sætt kæru til Hæstaréttar án leyfis samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.