Hæstiréttur íslands

Mál nr. 214/2013


Lykilorð

  • Líkamsárás


                                              

Fimmtudaginn 5. desember 2013.

Nr. 214/2013.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hrl.)

Líkamsárás.

X var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa tekið utan um háls fyrrverandi sambýliskonu sinnar og lyft henni þannig upp, barið á hendur hennar með krepptum hnefum og hent henni í gólfið með þeim afleiðinum að hún hlaut tognun og ofreynslu á hálshrygg og olnboga, og mar á hné og fótleggi. Var refsing X hæfilega ákveðin skilorðbundið fangelsi í 60 daga.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Gréta Baldursdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. mars 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefið að sök að hafa ráðist að fyrrum sambýliskonu sinni 31. janúar 2012 þar sem þau dvöldu saman í sumarbústað að [...] í Rangárþingi ytra. Ákærði neitar sök og hefur lýst atvikum þannig að hann hafi aðeins tekið í úlnlið brotaþola þegar hann var að reyna að taka af henni bíllykla til að aftra því að hún æki undir áhrifum áfengis. Þá hafi hún hrasað illa í hálku og dottið fyrir utan bústaðinn. Þessi frásögn ákærða getur ekki skýrt alla þá áverka sem fram komu við læknisskoðun daginn eftir og lýst er í áverkavottorði en efni þess er rakið í héraðsdómi. Aftur á móti eru áverkarnir í samræmi við framburð brotaþola sem héraðsdómur hefur metið trúverðugan. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 325.543 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2013.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 20. nóvember sl. á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], [...], „fyrir líkamsárás, á hendur fyrrum sambýliskonu sinni A, með því að hafa þriðjudaginn 31. janúar 2012 innandyra í sumarhúsi að [...] í Rangárþingi ytra, tekið um háls hennar og lyft henni þannig upp, kýlt í andlit hennar með olnboganum, barið á hendur hennar með krepptum hnefum og hent henni í gólfið, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut tognun og ofreynslu  á hálshrygg og olnboga, og mar á hné og fótlegg.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Málavextir

Miðvikudaginn 1. febrúar 2012, kl. 14.16 kom á lögreglustöðina við Hverfisgötu A, fædd 1975, og kærði fyrrum sambýlismann sinn, ákærða í máli þessu, fyrir að hafa ráðist á hana í sumarbústað á [...] kvöldið áður og veitt henni áverka.  Hefði ákærði tekið um hálsinn á henni og lyft henni þannig upp.  Þá hefði hann veitt henni högg í andlitið með olnboga, fleygt henni á gólfið og dregið hana upp.  Hann hefði kýlt hana svo fast í úlnliðinn að úrið hennar brotnaði.  Þá hefði hann stigið ofan á gleraugu hennar sem dottið höfðu í gólfið og brotið þau.  Kvaðst hún hafa komist út í bíl og ekið á brott.  Fyrr um daginn kvaðst hún hafa leitað á heilsugæslustöðina í [...] og farið þar í læknisskoðun.

Ákærði var yfirheyrður um málið 9. mars sl. og neitaði þá sök.  Sagði hann að það kynni að hafa séð á úlnlið kærandans en það væri vegna þess að hann tók um hann þegar hann reyndi að ná af henni bíllyklunum.  Um gleraugun væri það að segja að þau hefðu brotnað þegar hún tók þau af sér og fleygði þeim í gólfið.  Hefði það verið í sambandi við deilur um 45 þúsund króna skuld hennar við hann og hún sagt þegar hún braut gleraugun að nú skuldaði hann henni meira en það. 

Meðal gagna málsins er staðfest vottorð Grímu Huldar Blængsdóttur heilsugæslulæknis.  Segir þar að A hafi komið á heilsugæslustöðina kl. 13, umræddan miðvikudag.  Hafi hún virst þreytuleg. Hafi hún sagt fyrrum sambýling sinn hafa gripið í handleggina á henni, snúið upp á hönd hennar, tekið hana hálstaki í stutta stund,  hrint henni og ýtt upp að vegg.  Þá hefði hann slegið hana á úlnliðinn og að lokum fleygt henni út úr sumarbústaðnum sem þau voru stödd í.  Á hægri augabrún hafi verið mar og bólga, mar og bólga á hægri úlnlið og hreyfiskerðing.  Þá hafi verið marblettir á báðum upphandleggjum og báðum fótleggjum.  Ekki hafi sést á hálsi konunnar en hún kvartað um eymsli yfir trapezius-vöðva beggja vegna, upp í hnakkafestur.  Þá hafi hliðarsnúningur á hálsi verið skertur vegna verkja sem einnig hafi tekið í bakið.  Þá hafi hún verið aum hvar sem við hana var komið. 

Aðalmeðferð málsins

Ákærði, sem neitar sök, segir þau A hafa ákveðið að reyna að taka saman aftur eftir að upp úr sambúð þeirra hafði slitnað og farið austur í sumarbústaðinn saman í því skyni.  Kastast hafi í kekki með þeim þar þegar hún komst á snoðir um að ákærði hafði verið þar með aðra konu en leynt því fyrir henni.  Hafi A verið undir áhrifum áfengis og sturlast við þetta og tilraunir hans til þess að róa hana hafi einungis orðið til þess að æsa hana meira.  Hafi hún tekið bíllyklana en hann tekið um höndina á henni og tekið af henni bíllyklana. Hafi hún svo virst róast við fortölur hans en hún svo fundið bíllyklana aftur og tekið bílinn og farið á honum.  Hann neitar því að hafa lyft henni upp, enda sé hann með áverka undir herðablaðinu eftir gamalt bílslys.  Sé þessi staðhæfing hennar fjarri sanni.  Þá neitar hann því að hafa tekið um háls konunnar, sett olnbogann í andlitið á henni, barið á hendur hennar með krepptum hnefum eða hent henni í gólfið.  Aftur á móti tekur hann fram að hálka hafi verið á pallinum við bústaðinn og hún dottið á pallinn þegar hún hljóp.  Hann segir að þau átök sem urðu með þeim hafi mest snúist um það að róa hana niður en hún hafi hlaupið æst í átt að hnífaparaskúffunni, gjörsamlega sturluð.  Áverkar sem á henni kunni að hafa verið eftir þetta séu eftir það að hann tók um úlnliðinn á henni til þess að taka af henni bíllyklana.  Hafi þau svo lagst til svefns.  Um áverka þá sem lýst er í læknisvottorðinu segir ákærði að hann kunni ekki aðrar skýringar á þeim en að hún hafi „hrasað ansi illa“ við bústaðinn.  Ákærði segist hafa verið búinn að drekka þrjú rauðvínsglös þegar þetta gerðist en hún þó töluvert meira.  Hann hafi þó ekki verið drukkinn og hvorki verið æstur né drukkinn.  Hann segir A hafa sjálfa brotið gleraugun sín með því að fleygja þeim í gólfið.  Hafi hún sagt þau vera meira virði en skuldin, sem þau deildu um, og spurt: „Hver skuldar nú hverjum?“

A hefur skýrt frá því að þau ákærði, fyrrum sambýlismaður, hennar hafi verið stödd í sumarbústaðnum umrædda sem standi einn fjarri mannabyggð.   Hafi þau talað um samband þeirra og sitthvað komið upp í því sambandi sem leitt hafi til deilu milli þeirra.  Hafi ákærði ráðist á hana tekið hana hálstaki, lyft henni upp á hálsinum og haldið henni þannig með bakið að vegg.  Þá hafi hann dregið hana eftir gólfinu, brotið gleraugu hennar og úr.  Átökin hafi að mestu orðið í eldhúsi, gangi og stofunni og á baðinu.  Hann hafi tekið í hendur hennar og handleggi, hrint henni í gólfið.  Ákærði hafi barið á hendur hennar þegar hún hélt þeim um höfuð sér til þess að verjast honum.  Ákærði hafi reynt að fleygja henni út og viljað læsa hana úti sem hún hafi hindrað, enda hún verið þarna bjargarlaus, fjarri byggð og í myrkri um vetur.  Að endingu hafi hún einhvern veginn náð til sín bíllyklunum og hlaupið út.  Ákærði hafi veitt henni eftirför en hún falið sig.  Hún hafi svo tekið bílinn sem þau komu á og ekið ein til Reykjavíkur, enda verið farin að óttast um líf sitt fyrir ákærða, sem hafi verið drukkinn og árásargjarn.  Hún kveðst hafa verið marin og meidd á hálsi eftir þetta, marin á handleggjum.  Hún segir ákærða hafa verið drukkinn og tryllingslegan.  Sjálf hafi hún einnig verið undir áhrifum áfengis og ekki í góðu jafnvægi.  Daginn eftir hafi hún lagt af stað austur aftur til þess að sækja ákærða en ekki treyst sér alla leið.  Hafi hún snúið við og farið á heilsugæslustöðina [...] og eftir það til lögreglunnar í Reykjavík til þess að leggja fram kæru.   

Aðspurð segir A ákærða hafa rekið olnbogann í andlitið á henni svo að sprakk fyrir á vinstri augabrún.  Hafi hún þurft að fara í leigubíl til þess að láta sauma þetta saman.  Er að skilja hana svo að þetta hafi verið annað atvik en það sem hún kærði út af.  Þá segir hún aðspurð að fjármál hafi ekki borið á góma milli þeirra í sumarbústaðnum.  Hún segist aðspurð ekki hafa hrasað á pallinum við bústaðinn.

Gríma Huld Blængsdóttir læknir hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að A hafi verið greinilega marin og bólgin á hægri augabrún, bólga á úlnlið og erfitt af þeim sökum fyrir hana að hreyfa höndina.  Þá hafi verið marblettir á upphandleggjum sem greinilega hafi verið eftir fingur.  Ekki hafi verið að sjá ummerki á hálsi, baki eða búk en hún sagst vera mjög aum í öllum skrokknum.  Marblettir hafi verið á báðum fótleggjum konunnar.  Segir læknirinn áverkana og eymslin, sem konan lýsti, geta samrýmst frásögn hennar af átökunum.  Verkirnir í hálsvöðvum konunnar gætu bent til þess að hún hefði verið tekin hálstaki og hnykkt aftur á bak og snúið til hliðar.  Sé ekki líklegt að þessi áverki sé kominn til við það að konan hafi fallið, nema þá að um mikið fall væri að ræða.

Niðurstaða

Ákærði hefur frá upphafi neitað sök.  Ekki er öðrum vitnum að því sem gerðist í sumarbústaðnum til að dreifa en A.  Aftur á móti metur dómurinn hana trúverðugt vitni.  Þá hefur frásögn hennar stuðning af læknisvottorði og vitnisburði Grímu Huldar heilsugæslulæknis.  Skilja verður framburð A þannig að högg ákærða í andlit henni með olnboga hafi gerst við annað tækifæri en hér um ræðir og er allt óvíst um það atvik.  Ber því að sýkna ákærða af því ákæruatriði.  Að öðru leyti er óhætt að telja sannað að ákærði hafi, að þessu frátöldu, ráðist á A í umrætt með þeim hætti sem lýst er í ákærunni og veitt henni þá áverka sem þar er lýst.  Varðar það athæfi hans við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing og sakarkostnaður

Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot.  Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.  Rétt er að fresta því að framkvæma refsingu þessa og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Oddgeiri Einarssyni, 150.000 krónur í málsvarnarlaun, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Annan sakarkostnað hefur ekki leitt af málinu.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 60 daga.  Frestað er því að framkvæma refsingu þessa og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð.

Ákærði greiði verjanda sínum, Oddgeiri Einarssyni, 150.000 krónur í málsvarnarlaun.