Hæstiréttur íslands

Mál nr. 8/2013


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni


                                     

Þriðjudaginn 26. mars 2013.

Nr. 8/2013.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Valgeiri Reynissyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni.

V var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 81,93 g af amfetamíni. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði auk þess sem fíkniefnin voru gerð upptæk.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess aðallega að honum verði gerð vægasta refsing í formi hæfilegrar sektar en til vara krefst hann mildunar á refsingu.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Valgeir Reynisson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 197.143 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 16. október 2012, á hendur Valgeiri Reynissyni, kt. [...], [...], [...], fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa, fimmtudaginn 10. maí 2012, að [...] í [...], haft í vörslum sínum […] 81,93 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit á heimili ákærða.

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er jafnframt krafist að gerð verði upptæk 81,93 g af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í nóvember 1969. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 1988 hlotið 17 refsidóma fyrir þjófnað, nytjastuld, umferðarlagabrot, eignaspjöll og fíkniefnalagabrot.  Þá hefur hann gengist undir 16 dómsáttir, viðurlagaákvarðanir og lögreglustjórasáttir fyrir ýmis brot, einkum umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Síðast gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun 30. maí 2012 vegna fíkniefnalagabrots. Refsing verður tiltekin eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 eru 81,93 g af amfetamíni dæmd upptæk.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 62.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Fanney Björk Frostadóttir fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Valgeir Reynisson, sæti fangelsi í 4 mánuði.

Upptæk eru dæmd 81,93 g af amfetamíni.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 62.750 krónur.