Hæstiréttur íslands
Mál nr. 56/2001
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Sjómaður
- Vinnuslys
- Stöðuumboð
|
|
Fimmtudaginn 4. október 2001. |
|
Nr. 56/2001. |
Útgerðarfélag Akureyringa hf. (Ólafur Axelsson hrl.) gegn Júlíusi Sigurðssyni (Sigurbjörn Magnússon hrl.) og gagnsök |
Skaðabótamál. Sjómenn. Vinnuslys. Stöðuumboð.
J, yfirvélstjóri á skipinu A, sótti eiganda þess, ÚA hf., um skaðabætur vegna vinnuslyss er hann varð fyrir er verið var að taka nýjan rafmótor út úr jeppabifreið, en þessi mótor átti að koma í stað annars, sem bilað hafði í skipinu. Fallist var á það með J að verkið hefði verið unnið undir álagi en ekki yrði þó talið að aðstæður hefðu verið með þeim hætti sem óvenjulegar eru í útgerð. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 hefur vélstjóri umsjón með nauðsynjum til reksturs og viðhalds véla, veitir þeim móttöku og athugar magn þeirra og gæði. Samkvæmt tilgreindum ákvæðum framlagðrar verklýsingar yfirvélstjóra á A var það í verkahring J að gera tillögu til útgerðarinnar um varahlutakaup og annast innkaup þeirra í samráði við útgerð. Þar sem hann og skipstjórinn höfðu ekki náð sambandi við útgerðina var fyrir hendi stöðuumboð til þess að afla nauðsynlegra varahluta. Var það því talið í verkahring J að annast það að útvega mótorinn og stjórna því að hann kæmist um borð. Valdi J aðferðina við að koma mótornum úr bifreiðinni og stjórnaði aðgerðum. Sannað þótti að unnt hefði verið að útvega lyftara á staðnum, en ósannað að ekki hefði mátt nota lyftara til verksins. Jafnframt var það viðurkennt af J að aðrar og heppilegri aðferðir hefði mátt viðhafa þótt mótorinn væri tekinn úr bifreiðinni með handafli. Upplýst var að J og hjálparmenn hans réðu ekki við þennan þunga mótor með þeirri aðferð sem valin var. Hún var á ábyrgð J og ekki var talið að hann hefði sýnt fram á saknæmt atferli annarra. Var ÚA hf. því sýknaður af kröfum J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. febrúar 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara lækkunar á kröfum hans. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 25. apríl 2001. Hann gerir þær kröfur aðallega að aðaláfrýjandi greiði sér 11.750.004 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 12.948.722 krónum frá 25. mars 1997 til 21. júní 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga af 11.750.004 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara gerir hann kröfu um að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt sviðsettar myndir af því þegar rafmótor, eins og sá sem um getur í málinu, er settur í og tekinn úr jeppabifreið. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms voru frekari skýrslur teknar fyrir dómi af gagnáfrýjanda og vitnum. Fékk gagnáfrýjandi þá tækifæri til að tjá sig um sviðsettu myndirnar og koma að athugasemdum sínum.
I.
Gagnáfrýjandi sækir aðaláfrýjanda um skaðabætur vegna vinnuslyss er hann varð fyrir á bryggjunni í Ólafsvík aðaranótt 25. mars 1997 er verið var að taka nýjan rafmótor út úr jeppabifreið. Mótorinn hafði verið settur í bifreiðina hjá Landvélum ehf. í Kópavogi með lyftara og fluttur með bifreiðinni þaðan til Ólafsvíkur þá um kvöldið af syni gagnáfrýjanda. Gagnáfrýjandi var yfirvélstjóri á Arnarnúpi ÞH 272 og var verkið unnið undir hans stjórn. Skipið hafði komið inn til Ólafsvíkur vegna þess að rafmótor fyrir nótaniðurleggjara hafði bilað og átti nýi mótorinn að koma í hans stað. Þetta var í lok loðnuvertíðar og var skipverjum kappsmál að geta stundað veiðar þann sólarhring sem eftir var. Þeim hafði ekki tekist að ná til útgerðarinnar og höfðu skipstjórinn og gagnáfrýjandi komið sér saman um að hann annaðist um að fá nýjan mótor og koma honum á sinn stað. Mótorinn vóg um 260 kg og var hann tekinn með handafli úr bifreiðinni um bakhurð. Hurðin opnaðist upp og skagaði út frá farangurgeymslunni. Tveir plankar voru reistir upp að bifreiðinni og bretti sett undir og plankarnir negldir í það. Átti að færa mótorinn niður plankana. Fjórir menn voru við verkið, gagnáfrýjandi og sonur hans öðrum megin við plankana en tveir skipverjar hinum megin. Myrkur var og blautt. Fljótlega eftir að þeir höfðu komið mótornum út á plankana virtist þeim sem hann væri að renna út af öðrum megin. Skipverjarnir tveir, er þar voru, tóku þá hraustlega á móti með þeim afleiðingum að mótorinn fór út af hinum megin og á gagnáfrýjanda. Hlaut hann alvarlegan áverka á hné, svo sem nánar greinir í héraðsdómi. Hefur hann fengið bætur vegna áverkans í samræmi við 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Í málinu sækir hann útgerðina um frekari bætur en dregur áminnstar bætur frá kröfu sinni samkvæmt þágildandi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
II.
Loðnuskipið Arnarnúpur ÞH 272 er nú í eigu aðaláfrýjanda. Er ekki ágreiningur um aðild málsins. Bókað var um slysið í skipsdagbók og verður að telja tildrög þess ljós og óumdeild. Fallast má á það með gagnáfrýjanda að verkið hafi verið unnið undir álagi en ekki verður þó talið að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem óvenjulegar eru í útgerð. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 hefur vélstjóri umsjón með nauðsynjum til reksturs og viðhalds véla, veitir þeim móttöku og athugar magn þeirra og gæði. Í framlagðri verklýsingu yfirvélstjóra á Arnarnúpi, liðum 3.2 og 3.5, var það í verkahring gagnáfrýjanda að gera tillögu til útgerðarinnar um varahlutakaup og annast innkaup þeirra í samráði við útgerð. Þar sem hann og skipstjórinn náðu ekki sambandi við útgerðina var fyrir hendi stöðuumboð til þess að afla nauðsynlegra varahluta. Samkvæmt greindum ákvæðum og samkomulagi við skipstjóra var það í verkahring gagnáfrýjanda að annast það að útvega mótorinn og stjórna því að hann kæmist um borð. Valdi gagnáfrýjandi aðferðina við að koma mótornum úr jeppabifreiðinni og stjórnaði aðgerðum. Samkvæmt framburði hafnarvarðarins í Ólafsvík var unnt að útvega lyftara á staðnum. Er ósannað að ekki hafi mátt nota lyftara til verksins þótt bakhurð jeppans skagi út frá farangursgeymslunni þegar hún er opin. Jafnframt er það viðurkennt af gagnáfrýjanda að aðrar og heppilegri aðferðir hefði mátt viðhafa þótt mótorinn væri tekinn úr bifreiðinni með handafli. Upplýst er að mennirnir fjórir réðu ekki við þennan þunga mótor með þeirri aðferð sem valin var. Hún var samkvæmt áður sögðu á ábyrgð gagnáfrýjanda og verður ekki talið að hann hafi sýnt fram á saknæmt atferli annarra. Ber því að sýkna aðaláfrýjanda af kröfum hans.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Útgerðarfélag Akureyringa hf., skal vera sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Júlíusar Sigurðssonar.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 27. október sl. er höfðað með stefnu birtri 7. febrúar sl. af Júlíusi Sigurðssyni, kt. 201155-2749, Yrsufelli 4, Reykjavík, á hendur Útgerðarfélagi Akureyringa hf., kt. 670269-4429, Fiskitanga, Akureyri, til greiðslu skaðabóta ásamt vöxtum og kostnaði og til réttargæslu á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda, Útgerðarfélag Akureyringa hf., verði dæmt til að greiða 11.750.004 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 12.948.722 krónum frá 25. mars 1997 til 21. júní 1999 en frá þ.d. af 11.750.004 krónum til 10. október 1999 en með dráttarvöxtum frá þ.d. til greiðsludags, sbr. III. kafla laga nr. 25/1987. Þá er krafist málskostnaðar að mati réttarins, þ.m.t. virðisaukaskatts.
Stefndi gerir þær dómkröfur aðalega að hann verði sýknaður og stefnanda gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og engar kröfur eru gerðar af hans hálfu.
Yfirlit um ágreiningsefni
Mál þetta er höfðað til heimtu skaðabóta vegna vinnuslyss er stefnandi, sem var yfirvélstjóri á loðnuveiðiskipi varð fyrir á bryggju við skipshlið er hann, ásamt þremur öðrum, vann við að taka þungan varahlut í vélbúnað skipsins út úr bifreið. Stefnandi stjórnaði verkinu. Meiddist stefnandi á hné og hlaut af talsvert mikla örorku. Deilt er um hvernig ábyrgð vegna slyssins er háttað. Stefnandi heldur því fram að vinnuaðstæður hafi verið óforsvaranlegar og að útgerðin beri ábyrgð á því, þeirri pressu sem var á stefnanda vegna aðstæðna, og beri húsbóndaábyrgð vegna fyrirmæla skipstjóra og gáleysis og til vara vegna mistaka starfsmanna sem leitt hafi til slyssins. Stefndi telur að um óhappatilvik hafi verið að ræða, en ella beri stefnandi sjálfur ábyrgð á slysinu þar sem verkið hafi fallið undir hans verksvið og hann hafi stjórnað því. Ekki er deilt um afleiðingar slyssins né endanlega fjárkröfu stefnanda.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að stefnandi, sem var yfirvélstjóri á loðnuveiðiskipinu Arnarnúpi ÞH-272, slasaðist aðfaranótt 25. mars 1997, er verið var að taka nýjan rafmótor út úr bifreið á bryggjunni á Ólafsvík. Hafði mótorinn verið fluttur frá Reykjavík til Ólafsvíkur þá um kvöldið. Skipið hafði komið inn til Ólafsvíkur vegna þess að rafmótor fyrir nótaniðurleggjara hafði bilað. Þetta var í lok loðnuvertíðar sem hafði verið slök og var skipverjum kappsmál að geta stundað veiðar þann sólarhring sem eftir var. Fá þurfti mótorinn frá Reykjavík en þar hafði bensínverkfall staðið um nokkurn tíma og heppilegt flutningstæki fékkst því ekki til að flytja mótorinn vestur. Skipstjórnarmenn náðu ekki sambandi við forsvarsmenn útgerðarinnar og varð því úr að mótorinn var fluttur til Ólafsvíkur af syni stefnanda í Cherokee jeppabifreið. Mótorinn vóg um 260 kg. Hann var tekinn út úr bifreiðinni með handafli. Afturhurð bifreiðarinnar opnaðist upp og skagaði fram yfir farangurgeymsluna. Tveir plankar voru reistir upp að bifreiðinni og bretti sett undir og átti að færa mótorinn niður plankana. Fjórir menn voru við verkið, stefnandi og sonur hans öðrum megin og tveir skipverjar hinum megin. Myrkur var og blautt. Fljótlega eftir að þeir höfðu komið mótornum út á plankana hafi þeim virst mótorinn, af ókunnum ástæðum, vera að renna út af þeim megin sem skipverjarnir tveir voru, tóku þeir þá á móti með þeim afleiðingum að mótorinn fór á stefnanda og fékk hann við það áverka á hné. Stefnandi stjórnaði verkinu. Kveðst hann hafa kallað til skipverjanna að sleppa mótornum og láta hann fara þegar hann tók að halla, en þeir ekki gert það.
Við slysið fann stefnandi til mikils sársauka en hnéð dofnaði, hann harkaði af sér og tókst að setja mótorinn upp. Var hægt að halda aftur til veiða um nóttina og veiddust um 600 tonn. Á leið austur til Raufarhafnar að veiðum loknum, hinn 26. mars, var siglt inn á Neskaupstað þar sem líðan stefnanda var slæm. Var hann látinn í land og leitaði hann þar til læknis sem vísaði honum þegar til sérfræðings í Reykjavík. Páskar fóru í hönd og vegna þess hitti hann Boga Jónsson, bæklunarlækni, sem annaðist hann síðan, fyrst 2. apríl 1997, sama dag var fyrsta liðspeglun gerð.
Hefur stefnandi allt frá slysdegi átt við mjög mikil verkja- og bólguvandamál að stríða í vinstra hné. Hann hefur farið í fjölmargar liðspeglunaraðgerðir og í liðbrjósktöku. Í liðspeglunaraðgerð haustið 1998 komst sýking í hnéð og jukust verkjavandamál hans í kjölfarið. Einnig fór að bera á vaxandi mjóbaksvandamáli með leiðslu út í hægri fót og einnig varð vart stirðleika í hálsi fyrir utan mikil álagsóþægindi í hægra hné sem bólgnaði út og átti til að smella í. Hefur hann ekki getað farið aftur á sjó eftir slysið. Hann hóf störf í júlí 1998 hjá AFA á Íslandi sem eftirlitsmaður með nýjum strætisvagnabiðskýlum.
Örorkunefnd fjallaði um mál hans og segir svo í niðurstöðu álits hennar frá 8. júní 1999:
“Við skoðun er að finna ungan mann sem gekk með miklu vi. helti. Greinilega mjög niðurdreginn yfir því hvernig komið var. Það var að finna verulega hreyfiskerðingu í vi. hné fyrir utan mikla bólgu. Hafði mikil hreyfieymsli í vi. hné og mikil álagseinkenni. Vi. læri var áberandi rýrara en það hægra. Í hæ. hné var að finna liðvökva og einnig allnokkur þreifieymsli yfir ytra liðbili. Þá var að finna væg vöðvabólgulík einkenni í hálsi en í baki hafði einkenni um baksjúkdóm með leiðslu út í hæ. fót.
Örorkunefnd telur að langvarandi vi. hnémein tjónþola hafi leitt til álagseinkenna frá baki og hæ. hné. Tjónþoli hafði áður skaddað liðþófa í hæ. hné í tvígang, en jafnaði sig að fullu. Hæ. hné er viðkvæmara en ella vegna verulega aukins álags.
Örorkunefnd telur að ekki sé að vænta að tjónþoli fái frekari bata af afleiðingum vinnuslyssins 25. mars 1997 en þegar er orðinn.
Að öllum gögnum virtum telur örorkunefnd varanlegan miska tjónþola vegna afleiðinga vinnuslyssins 25. mars 1997 vera hæfilega (sic) 28% - tuttugu og átta af hundraði-.
Tjónþoli er með vélstjóramenntun og fram að slysi hafði hann verið á sjó. Vegna afleiðinga slyssins hefur hann ekki farið aftur á sjóinn og að áliti Boga Jónssonar, sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 29. september 1997, mun hann ekki geta stundað sjómennsku framar. Skattframtöl tjónþola bera með sér að hann hefur lækkað nokkuð í tekjum eftir slysið. Að áliti örorkunefndar mun tjónþoli ekki getað stundað erfiðisvinnustörf í framtíðinni. Nefndin telur því að geta hans til öflunar vinnutekna í framtíðinni hafi verulega skerst. Nefndin telur varanlega örorku hans vegna afleiðinga vinnuslyssins 25. mars 1997 hæfilega metna sem 30% þrjátíu af hundraði-“.
Í bréfi lögmanns stefnanda til réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., dagsettu 10. september 1999, setti lögmaðurinn fram bótakröfur f.h. stefnanda í samræmi við niðurstöðu örorkunefndar og ákvæði skaðabótalaga.
Með bréfi, dagsettu 29. nóvember 1999, er hafnað bótaskyldu og greiðslum úr ábyrgðartryggingu útgerðarinnar á þeim forsendum að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Í framhaldi af því áttu sér stað sáttaviðræður en án árangurs. Um afleiðingar slyssins er ekki deilt.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi heldur því fram að legið hafi fyrir skýr fyrirmæli af hálfu útgerðarinnar um að halda loðnuskipinu Arnarnúpi ÞH-272 á veiðum fram á síðasta dag á yfirstandandi loðnuvertíð. Er í hönd fór síðasta nóttin hafi rafmótor nótaniðurleggjara bilað. Skipinu hafi því verið siglt inn til Ólafsvíkur hinn 24. mars 1997 til að skipta mætti um mótor. Ekki hafi náðst samband við forsvarsmenn útgerðarinnar varðandi tilhögun verksins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Skipstjórinn hafi gefið stefnanda fyrirmæli um að það yrði að bjarga málinu með einhverjum hætti. Engin leið hafi verið, vegna bensínverkfalls í Reykjavík, að fá viðeigandi farartæki til að flytja mótorinn. Hafi þrautalendingin þá verið að stefnandi fengi son sinn til þess að koma með mótorinn á jeppabifreið. Vegna þess hvernig hurð farangursrýmis jeppans var hönnuð hafi ekki verið hægt að koma við venjulegum lyftara eða krana við það að taka mótorinn út úr bifreiðinni og hafi stefnandi því neyðst til að láta gera það með haldafli. Hann hafi beitt hefðbundinni aðferð við að taka mótorinn út úr bifreiðinni með því að láta mjaka honum niður eftir tveimur plönkum, sem komið hafði verið fyrir. Var hann sjálfur við verkið ásamt syni sínum og tveimur skipverjum. Skyndilega hafi mótorinn byrjað að halla og virtist ætla að renna út af þeim megin sem skipverjarnir voru.
Stefnandi byggir dómkröfu sína á því slysið verði rakið til þess að honum hafi verið falið af skipstjóra að framkvæma verkið við algerlega óforvaranlegar aðstæður sem í senn hafi verið óviðunandi og hættulegar. Hafi þetta verið afleiðing þess að ekki náðist í forsvarsmenn útgerðarinnar. Hafi það verið á verksviði útgerðar og skipstjóra að sjá um flutning varahluta og að koma þeim um borð í skipið. Verkið hafi þannig verið framkvæmt í umboði útgerðarinnar samkvæmt fyrirmælum skipstjóra. Er á því byggt að skipstjóri eigi sök á slysinu með því að fyrirskipa að verkið skyldi unnið við þessar aðstæður og samþykkja verkháttu þá sem viðhafðir voru, en stefndi beri húsbóndaábyrgð á störfum hans.
Hann telur að slysið hefði aldrei orðið ef hægt hefði verið að beita krana eða lyftara við verkið. En hann hafi verið undir mikilli pressu að framkvæma verkið við þessar aðstæður þar sem miklir hagsmunir og margra hagsmunir hafi verið undir því komnir að skipið gæti haldið áfram veiðum þá um nóttina, sem það hafi og gert.
Þá byggir stefnandi til vara á þeirri málsástæðu, samanber bókun í þinghaldi 19. september sl. sem ekki var mótmælt, að húsbóndaábyrgð stefnda nái einnig til sakar annarra skipverja en skipstjóra. Fram hafi komið í vitnaleiðslum að skipverjum hafi orðið á mistök þegar brugðist var við því að mótorinn tók að halla. Kveðst stefnandi hafa kallað til þeirra að sleppa og láta hann fara, en þeir, andstætt fyrirmælum hans, tekið á móti og þá hafi ekki viljað betur til en svo að mótorinn hafi runnið út af plönkunum þeim megin sem stefnandi stóð með greindum afleiðingum.
Hann kveðst hafa beitt aðferð við verkið sem hann taldi vera í lagi og oft væri notuð og hann hefði áður notað. Verði honum sjálfum því með engu móti kennt um slysið. Loks hafi sjópróf ekki farið fram og verði stefndi því að bera allan halla af skorti á sönnun fyrir orsökum slyssins. Varðandi framangreindar málsástæður er vísað til tveggja dóma Hæstaréttar árið 1999, máls nr. 25/1999 og máls nr. 18/1999.
Bótakrafan sé reist á niðurstöðu örorkumatsnefndar frá 8. júní 1999 þar sem varanleg örorka stefnanda var metin 30% en varanlegur miski 28%. Vísað er til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum og krafan sundurliðuð með svofelldum hætti, samkvæmt endanlegri kröfugerð:
I. Þjáningarbætur, sbr. 3. gr.
9,5x30x 798 = 227.430,-
2,0x30x1482 = 88.920,-kr.316.350,-
II. Tímabundið atvinnutjón, sbr. 2.gr.
355.880x11,5= 4.092.620,- kr. 593.751,-
Frádráttur, sbr. 2. mgr. 2.gr.
1.895.080+253.190+782.391+568.208=3.498.869,-
III. Varanlegur miski, sbr. 4.gr.
4.560.000x0,28 kr. 1.276.800,-
IV. Varanleg örorka, 5.gr.-9.gr.
4.270.564x10x0,3x0,84= 10.761.821,- kr. 10.761.821,-
Tjón samtals kr. 12.948.722,-
Frá kröfunni sé dregin greiðsla úr slysatryggingu sjómanna, sbr. 4. mgr. 5.gr. skaðabótalaga en hún hafi verið greidd hinn 21. júní 1999 að fjárhæð 1.198.718 krónur og verði því endanleg krafa stefnanda 11.750.004 krónur sem er stefnufjárhæð máls þessa.
Stefnandi skýrir einstaka liði kröfugerðarinnar á eftirfarandi hátt.
I. Krafan um þjáningabætur sé byggð á örorkumati Örorkumatsnefndar, einkum á bls. 2 til 3 þar sem fjallað er um vinnuslysið hinn 25. mars 1997 og afleiðingar þess. Stefnandi hafi haldið launum í þrjá mánuði frá slysdegi og hætt á launum hjá Jökli hf. hinn 30. júní 1997 og hafið vinnu á nýjum stað hinn 15. júní 1998. Tímabilið sem miðað sé við í þessum lið sé því 11,5 mánuðir. Þar af hafi stefnandi verið rúmliggjandi í a.m.k. tvo mánuði.
II. Krafan um tímabundið atvinnutjón sé miðuð við sama tímabil og krafan í lið I og af sömu ástæðum. Miðað sé við meðaltekjur hans á næstliðnu ári fyrir slysdag og þær margfaldaðar með 11,5. Frá þeirri fjárhæð séu síðan dregnar þær bætur og dagpeningar sem stefnandi hafi fengið á árunum 1997 og 1998 og þær tölur fengnar úr skattframtölum stefnanda.
III. Krafan um varanlegan miska sé ekki talin þarfnast skýringa en vísað til skaðabótalaga.
IV. Krafan um varanlega örorku sé byggð á tekjum stefnanda á næstliðnu ári fyrir slysið. Það athugist að tekjur ársins 1996 falli allar til á þessu tímabili þar sem hann hóf störf hjá Jökli hf. í maí það ár, þær séu samtals 2.427.395 krónur. Tekjur vegna fyrstu 3ja mánaða ársins séu samkvæmt launaseðlum samtals 1.843.169 krónur. Samanlagt geri þessar tekjur því 4.270.564 krónur á næstliðnu ári fyrir slysið.
Um lagarök er vísað til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, 3., 13., 37. og 42. gr., III. kafla sjómannalaga nr. 35/1985, og skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. brl. nr. 42/1996.
Á þeim tíma er slysið átti sér stað var Arnarnúpur ÞH 272 gerður út af Jökli hf. á Raufarhöfn en hinn 1. desember 1999 sameinaðist Jökull hf. Útgerðarfélagi Akureyringa hf. Af þessum sökum sé Útgerðarfélagi Akureyringa hf. stefnt í máli þessu.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. sé stefnt til réttargæslu vegna þess að Jökull hf. keypti ábyrgðartryggingu hjá félaginu til þess að tryggja sig gegn tjónum af því tagi sem hér um ræði og bótakrafa stefnanda sé reist á. Réttargæsluaðildin sé studd við 21. gr. laga nr. 91 / 1991.
Um málskostnað er vísað til l. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um dráttarvaxtakröfu er vísað til II. og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, einkum 7. gr. og 15. gr.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er því haldið fram að það hafi fallið undir verksvið stefnanda samkvæmt starfslýsingu, að sjá um viðgerð á rafmótor þeim sem bilaði, bæði að útvega stykkið og að koma því um borð. Hafi mótorinn verið sendur frá Reykjavík í jeppabifreið sonar stefnanda til móts við skipið í Ólafsvík. Þennan flutningsmáta hafi stefnandi ákveðið og einnig hvernig staðið var að affermingu hans. Ekkert hafi verið óeðlilegt við slíkan flutning og aðferð sú sem hann hafi beitt, að láta mótorinn renna niður á jörðina eftir tveimur plönkum, eigi ekki að vera hættuleg ef fyllstu varúðar sé gætt. Fjórir menn hafi verið við verkið og hafi það verið fullnægjandi að mati stefnanda og þeir hafi haft gott tak á mótornum. Vitni hafi borið að þessi aðferð væri oft viðhöfð og væri örugg og að ekki hafi verið óeðlilegt að standa að verkinu eins og gert var. Ekki hafi verið óeðlileg pressa á stefnanda, aðeins eins og venjulegt sé á skipi á loðnuvertíð. Af hálfu skipstjóra hafi því ekki verið um neitt saknæmt atferli að ræða, hann hafi ákveðið að gert yrði við skipið en framkvæmdin hafi verið í höndum stefnanda. Það hafi verið í hans verkahring að útvega stykkið og að koma því um borð. Skipstjórinn hafi ekki mátt vita að afturhurð jeppans opnaðist upp og hindraði aðgengi með tækjum. Ekki sé heldur sýnt fram á að sjómennirnir hafi sýnt af sér saknæmt atferli.
Sérstaklega er af hálfu stefnda mótmælt þeirri fullyrðingu í stefnu að verklagið hafi verið viðhaft eða unnið eftir fyrirmælum skipstjórans. Umrætt verk hafi verið unnið undir verkstjórn stefnanda sem yfirvélstjóra skipsins og hafi hann einn ráðið allri verktilhögun. Skipstjórinn eða aðrir yfirmenn hafi ekkert komið þar nærri. Ef talið verði að verklagið hafi verið rangt og hættulegt eða eitthvað verið óeðlilegt við það og verði slysið rakið til þessa, þá beri stefnandi einn ábyrgð á því. Stefnandi hafi ekki gætt sín nægilega við verkið og verði slysið fyrst og fremst rakið til aðgæsluleysis hans sjálfs eða hreins óhapps sem enginn beri ábyrgð á.
Mótmælt er þeirri fullyrðingu í stefnu að ekki hafi verið hægt að fá krana til verksins. Ef stefnandi hefði talið þess þörf hefði honum staðið til boða til afnota kranar eða lyftarar. Að sögn Kristjáns Helgasonar, yfirhafnarvarðar á Ólafsvík, hafi verið til gnótt slíkra tæka á eða við plássið og ekkert mál að fá þau til verka, jafnt að nóttu til sem degi. Þá sé krani á skipinu sem auðveldlega hefði mátt nota við verkið til að halda við mótorinn ef stefnandi hefði talið þess þörf.
Að því er varði sjópróf hafi ekki virst tilefni til þess þegar slysið varð, enginn ágreiningur sé um það hvernig slysið hafi orðið og sjópróf síðar hefðu ekki leitt neitt frekar í ljós, sönnunarbyrgðin hvíli því alfarið á stefnanda.
Varakrafan byggi einnig á þeim sjónarmiðum sem að ofan greini. Ef talið verði að stefndi beri ábyrgð á slysinu verði það engu að síður fyrst og fremst rakið til ógætni stefnanda sjálfs.
Varanlegri örorku og miska stefnanda vegna slyssins sem metið var af örorkunefnd sé ekki mótmælt, né heldur tölulegum forsendum endanlegrar dómkröfu stefnanda.
Niðurstaða.
Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn stefnandi, Júlíus Sigurðsson, Indriði Indriðason, sem var skipverji á Arnarnúpi og var við að taka mótorinn úr bifreiðinni, og Jón Andri Júlíusson, sonur stefnanda sem flutti mótorinn frá Reykjavík til Ólafsvíkur og aðstoðaði við að taka hann út úr bifreiðinni. Einnig var tekin símaskýrsla af Sævari Baldri Þórarinssyni, sem var skipstjóri á Arnarnúpi ÞH-272 þegar slysið varð, Sigurbirni Viðari Júlíussyni skipverja, sem var við að taka mótorinn úr bifreiðinni, og Kristjáni Helgasyni, yfirhafnarverði á Ólafsvík. Aðalmeðferð var 27. september sl. Málið var endurupptekið 27. október sl. og fór þá fram vettvangsganga þar sem skoðaður var rafmótor af sömu gerð og slysinu olli og bifreið sömu tegundar og sú sem hann var fluttur í til Ólafsvíkur og málið síðan flutt að nýju.
Samkvæmt framburðarskýrslum kom skipið að bryggju í Ólafsvík um kl. 20.00 hinn 24. mars, slysið varð eftir kl. 01.00 eftir miðnætti og skipið lagði aftur úr höfn um kl. 04.00 um nóttina. Um tveir dagar voru eftir af vertíðinni þegar bilun varð í greindum rafmótor fyrir nótaniðurleggjara. Upplýst er að ekki var hægt að halda veiðunum áfram nema gert væri við rafmótorinn. Stefnanda og vitnunum Sævari Baldri Þórarinssyni, skipstjóra, Sigurbirni Viðari Júlíussyni, sjómanni og Indriða Indriðasyni, sjómanni bar saman um það í framburði sínum fyrir dóminum að sjómönnunum hefði verið mikið í mun að ná þessari síðustu lotu. Vertíðin hafi verið búin að vera treg og lá von skipverjanna um að ná einhverju út úr henni í þessum klukkustundum sem voru eftir. Skipstjórinn bar að það hefði vantað mikinn afla. Hann kvaðst hafa gefið fyrirmæli um að mótorinn yrði útvegaður og það á sem fljótlegastan máta, kvað hann það vera ganginn í þessu að reynt væri að koma hlutunum í lag. Þessum fyrirmælum um að bjarga málinu var beint til stefnanda. Skipstjórinn staðfesti að ekki væri ósennilegt að ekki hafi náðst í neinn hjá útgerðinni eins og stefnandi ber, þó hann myndi það ekki. Einnig staðfesti hann að þeir hafi rætt það að stefnandi léti son sinn koma með mótorinn á jeppabifreið sinni og hafi hann talið það vera flutningsmáta sem væri í lagi, aðalatriðið hafi verið að fá mótorinn eins fljótt og unnt væri. Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið undir mikilli pressu sem hafi sett hann í óbærilega erfiða aðstöðu og að aðstæður hafi vegna þessa verið óviðunandi og hættulegar við verkið þegar slysið varð. Með framburði stefnanda og framangreindra vitna, og í ljósi þeirrar almennu vitneskju að miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi þegar skip tefst, þykir það vera sannað að stefnandi hafi, í umrætt sinn, verið undir verulegri pressu að útvega sem fyrst og koma fyrir í skipinu rafmótor þeim sem slysinu olli.
Deilt er um hvort það var á verksviði stefnanda sem yfirvélstjóra að skipuleggja flutning á og afferma varahlutinn. Stefnandi heldur því fram að það hafi ekki verið á sínu verksviði sem yfirvélstjóra að annast það að rafmótorinn væri útvegaður og honum komið að skipshlið. Það sé almennt í verkahring útgerðarinnar að sjá um aðdrætti og vinnureglan hafi verið að ef eitthvað bilaði hringdi hann í útgerðina sem annaðist að koma hlutnum að skipshlið. Hann kveðst hins vegar hafa farið að fyrirmælum skipstjóra, þar sem ekki náðist í forsvarsmenn útgerðarinnar, og telur einnig að það hafi hvílt á honum siðferðileg skylda gagnvart skipverjunum að gera það sem í hans valdi stæði til að skipið kæmist aftur á veiðarnar. Samkvæmt verklýsingu fyrir yfirvélstjóra, liðum 3.2 og 3.5, var það í verkahring stefnanda að gera tillögu til útgerðar um varahlutakaup og að annast innkaup varahluta í samráði við útgerð. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 hefur vélstjóri umsjón með nauðsynjum til reksturs og viðhalds véla, “veitir þeim móttöku og athugar magn þeirra og gæði.” Af þessu orðalagi má gagnálykta að það sé almennt í verkahring útgerðarinnar að koma varahlutum að skipshlið eins og stefnandi heldur fram. Staðfesti skipstjórinn að hann hefði gefið fyrirmæli um verkið í umrætt sinn, en treysti sér ekki til að taka afstöðu til þess í hvers verkahring það hefði í raun verið. Telja verður upplýst að ekki hafi náðst til forsvarsmanna útgerðarinnar og fallast verður á það með stefnanda að verk það sem hann vann þegar slysið varð hafi ekki augljóslega verið á hans verksviði og að hann hafi sinnt því samkvæmt fyrirmælum skipstjóra, en skipstjóri hefur æðsta vald á skipi í öllum efnum, sbr. 49. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Slysið verður vegna þeirra aðstæðna sem voru við að ná mótornum út úr bifreiðinni og niður á bryggjuna. Um mjög þungan hlut var að ræða og að öllu eðlilegu hefði krani eða lyftari verið notaður við að lyfta honum af flutningstækinu og til að ferja hann um borð. Af bryggjunni var hann síðan hífður með talíu en skipskraninn var óvirkur vegna hins bilaða mótors. Málsgögn staðfesta að bensínverkfall var í Reykjavík og verður að telja upplýst að það hafi verið orsök þess að stefnanda tókst ekki, þrátt fyrir tilraunir sínar, að fá viðeigandi flutningstæki. Einnig að ekki hafi náðst til forsvarsmanna útgerðarinnar en stefnandi ber að þeir hafi haft aðgang að heppilegri bifreið. Einnig að það hafi verið talið taka of langan tíma að senda bíl frá Ólafsvík til Reykjavíkur að sækja mótorinn. Þrautalendingin hafi verið að sonur hans kæmi með mótorinn í jeppabifreið stefnanda.
Skipstjórinn kvaðst hafa verið í koju þegar jeppinn kom með mótorinn til Ólafsvíkur og fylgdist hann því ekki með affermingu hans. Stefnanda og vitnunum Sigurbirni Viðari og Indriða ber saman um að ekki hafi verið unnt að koma krana að vegna þess að afturhurðin að farangursrými jeppans opnaðist upp og skagaði meira en meter aftur úr bifreiðinni yfir hurðaropinu. Stefnandi og Indriði fullyrtu einnig að ekki hefði verið hægt að koma að lyftara af sömu ástæðu, en Sigurbjörn Viðar var ekki viss um þetta. Jón Andri upplýsti að mótorinn hefði verið settur í bifreiðina í Reykjavík með hálfum lyftara, rafmagnslyftara. Samkvæmt því sem fram kom við vettvangsskoðun þykir sú fullyrðing geta staðist að ekki hafi verið unnt að koma krana eða venjulegum lyftara að við verkið eins og almennt myndi vera gert þegar svo þungur hlutur væri hreyfður. Aðstæður voru að þessu leyti erfiðar, hættulegar og óvenjulegar þar sem ekki var unnt að beita slíkum tækjum við verkið.
Af öllu þessu leiðir að fallast má á það með stefnanda að skipstjóri hafi sýnt nokkuð gáleysi með því að fyrirskipa að málum “skyldi bjarga” þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður, og með því að fylgjast ekki frekar með framkvæmdinni þótt hann mætti vita að hér var um það að ræða að koma mjög þungum varahlut um borð án þess að hjálpartækum yrði komið við vegna hinna óvenjulegu aðstæðna.
Mótorinn er 260 kg að þyngd. Fjórir menn voru við verkið. Stefnandi kvaðst áður hafa beitt sömu aðferð við svipaðar aðstæður og hefði það gengið áfallalaust. Var það mat hans að fjórir menn réðu við verkið. Kvað hann þá hafa haft gott tak á hlutnum og vogarafl hefði verið nýtt. Vitnið Indriði taldi að notuð hefði verið sú aðferð sem best var við þessar aðstæður. Fram hefur komið að blautt var en stefnandi telur það ekki hafa komið að sök enda sé olía til dæmis oft sett á fleti sem þungum hlutum sé rennt eftir. Upplýst er að bjálkarnir, sem mótorinn var færður eftir, voru um einn meter að lengd. Mótorinn virðist hafa verið ofarlega á bjálkunum og því enn undir hurðinni þegar hann fór út af. Ekki er ljóst hvað olli því að mótorinn tók að renna, eða virtist vera að fara út af, en augljóst má telja að orsök slyssins hafi verið sú að mennirnir réðu ekki við hlutinn við þær aðstæður sem þarna voru. Þegar þyngd mótorsins er höfð í huga verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Það að mennirnir ráða ekki við mótorinn samsvarar því að aðstæður hafi ekki verið forsvaranlegar.
Telja verður upplýst með framburði stefnanda, sonar hans og vitnisins Indriða að stefnandi hafi kallað til Indriða og Sigurbjarnar Viðars að sleppa, þegar mótorinn virtist vera að fara á þá, en þeir ekki gert það heldur tekið á móti. Gátu þeir ekki fyllilega útskýrt viðbrögð sín fyrir dóminum. Indriði sagði að þeim hefði fundist mótorinn vera að koma á þá og þá hafi þeir paníkerast og tekið á móti. Sigurbjörn Viðar kannaðist ekki við að stefnandi hefði kallað til þeirra að sleppa og sagði að þeir hefðu ekki ráðið við mótorinn en reynt að halda við, þeir hefðu ekki viljað missa hann niður því þá gætu þeir ekki veitt meira. Hann sagði að mótorinn hefði verið “ægilega þungur.” Þar sem stefnandi stjórnaði verkinu verður að líta svo á að sjómennirnir hafi ekki hlýtt fyrirmælum hans svo sem þeim bar að gera samkvæmt 2. mgr. 57. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, annað hvort vegna fáts, sem á þá kom, eða ofurkapps. Virðast viðbrögð þeirra hafa orðið til þess að mótorinn fór út af þeim megin sem stefnandi og sonur hans voru og með þeim afleiðingum að stefnandi meiddist.
Langt er um liðið síðan slysið varð og sönnunarstaða um ýmis atriði er veikari vegna þess að slysið var ekki rannsakað strax. Slysið var skráð í dagbók skipsins en sjópróf fóru ekki fram. Tilgangur sjóprófs er að er að leiða í ljós orsakir atburðar og aðrar staðreyndir sem skipt geta máli, sbr. 1. mgr. 221. gr. siglingalaga. Þegar setja þurfti stefnanda sérstaklega í land vegna meiðslanna mátti gera ráð fyrir því að þau væru alvarleg og þess eðlis að leitt gæti til bótakröfu vegna líkamstjóns, var því þá komið fullt tilefni til að láta sjópróf fara fram. Þar sem mennirnir unnu ekki undir verkstjórn úr landi eiga lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ekki beint við, sbr. 2. mg. i.f. 3. gr. þeirra.
Niðurstaða máls þessa er, samkvæmt því sem hér hefur verið rakið, byggð á því að um óvenjulegar aðstæður hafi verið að ræða. Þessar vinnuaðstæður hafi skapast af því að mikil pressa var á að ljúka verkinu og ekki voru önnur úrræði tæk í stöðunni en að flytja mótorinn með jeppabifreiðinni. Sköpuðust hættulegar vinnuaðstæður vegna þess að ekki var hægt að koma við hefðbundnum vinnutækjum til að færa svo þungan hlut út úr bifreiðinni vegna hönnunar hennar, enda reyndist það mönnunum ofraun að hafa stjórn á hlutnum og leiddi það til slyssins. Stefnandi vann verkið að fyrirmælum skipstjóra og upplýst telst að samstarfsmönnum hans hafi orðið á mistök með því að hlýða ekki fyrirmælum hans. Ábyrgðina á því að þessar aðstæður sköpuðust verður því að leggja á útgerðina.
Ber þá að huga að því hvort stefnandi sjálfur beri einnig einhverja sök. Þykir í því sambandi verða að líta til þess að honum var falið að annast málið og stjórnaði hann og skipulagði verkið sem slysið varð við. Stefnandi átti vegna reynslu sinnar og þekkingar að geta metið hvort það verklag sem hann valdi var öruggt. Upplýst telst að mennirnir fjórir réðu ekki við þennan þunga rafmótor og hefði stefnanda átt að vera ljóst að ekki var öruggt að vinna verkið með þeim hætti sem gert var og með þeim mannskap sem hann hafði til þess. Af þessari ástæðu þykir hann hafa sýnt gáleysi verður hann því sjálfur að bera hluta tjóns síns. Þykir hæfilegt að hann beri það að einum þriðja hluta.
Meiðsli stefnanda voru slík að mikil örorka hefur hlotist af þeim svo sem hér að framan hefur verið lýst og hann getur ekki stundað sjómennsku eða önnur erfiðisstörf þar sem menntun hans nýtist. Í málinu er hvorki ágreiningur um afleiðingar slysins né endanlegar dómkröfur.
Samkvæmt framangreindri niðurstöðu skal stefndi greiða stefnanda 7.433.763 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 8.632.481 krónu frá 25. mars 1997 til 21. júní 1999 en frá þ.d. af 7.433.763 krónum til 10. október 1999 en með dráttarvöxtum frá þ.d. til greiðsludags, sbr. III. kafla laga nr. 25/1987.
Stefndi skal greiða stefnanda málskostnað 750.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kvað upp Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Útgerðarfélag Akureyringa hf., skal greiða, stefnanda, Júlíusi Sigurðssyni, 7.433.763 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 8.632.481 krónu frá 25. mars 1997 til 21. júní 1999 en frá þ.d. af 7.433.763 krónum til 10. október 1999 en með dráttarvöxtum frá þ.d. til greiðsludags, sbr. III. kafla laga nr. 25/1987 og 750.000 krónur í málskostnað.