Hæstiréttur íslands

Mál nr. 68/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur
  • Aðalmeðferð


Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. febrúar 2006.

Nr. 68/2006.

Ákæruvaldið

(Sigurður Tómas Magnússon settur saksóknari)

gegn

A

(Gestur Jónsson hrl.)

B

(Einar Þór Sverrisson hrl.)

C

(Kristín Edwald hrl.)

D

(Jakob R. Möller hr.)

E og

F

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Frestun. Aðalmeðferð máls.

Fellt var úr gildi ákvæði í úrskurði héraðsdóms, sem kvað á um frestun aðalmeðferðar málsins að því er varðaði fjóra  ákærðu.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2006, þar sem kveðið var á um að mál ákæruvaldsins á hendur varnaraðilum yrði skilið í sundur þannig að þáttur varnaraðilanna E og F yrði greindur frá málinu að öðru leyti og dæmdur sér, svo og að hafnað væri kröfu varnaraðila um að „aðalmeðferð málsins verði um þá átta ákæruliði sem eftir standa.“ Um kæruheimild vísa varnaraðilar til 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þau krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka allt málið að því er varðar alla varnaraðila til efnislegrar meðferðar án frekari tafa. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili gerir enga kröfu í kærumáli þessu.

I.

Ríkislögreglustjóri höfðaði mál þetta gegn varnaraðilum með ákæru 1. júlí 2005, þar sem þau voru borin sökum, sem greindi í 40 liðum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2005 var málinu vísað í heild frá dómi. Þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar, sem með dómi 10. október 2005 í máli nr. 420/2005 vísaði málinu frá héraðsdómi að því er varðaði 1. til og með 32. lið ákærunnar, en felldi úrskurðinn að öðru leyti úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðaði 33. til og með 40. lið hennar. Þessir liðir ákærunnar beindust að varnaraðilunum á þann hátt að í 33. og 34. lið voru varnaraðilarnir A, D og E bornir sökum, í 35. og 36. lið þeir sömu ásamt varnaraðilanum F, í 37. og 38. lið varnaraðilinn A, í 39. lið varnaraðilinn B og í 40. lið varnaraðilinn C.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun héraðsdómur hafa tilkynnt aðilunum 16. janúar 2006 að aðalmeðferð málsins gæti farið fram 2. og 3. febrúar 2006. Mun sóknaraðili hafa óskað eftir því að aðalmeðferð yrði frestað og dómurinn þá tilkynnt að hún færi fram 9. og 10. sama mánaðar. Málið var síðan tekið fyrir í þinghaldi 27. janúar 2006. Þar var greint frá því að dómurinn teldi að til álita kæmi að skipta málinu samkvæmt heimild í 24. gr. laga nr. 19/1991, þannig að þáttur varnaraðilanna E og F yrði skilinn frá og dæmdur sér. Því var mótmælt af hálfu sóknaraðila, svo og allra varnaraðila, sem kröfðust þess að málið allt, eins og það stæði, yrði tekið til aðalmeðferðar á þeim dögum, sem áður var getið. Var þá fært til bókar að dómendur hefðu ákveðið að skilja málið í sundur á framangreindan hátt og yrði það tekið til aðalmeðferðar 9. og 10. febrúar 2006 að því er varðar varnaraðilana E og F. Málið var síðan tekið fyrir á ný í þinghaldi 31. janúar 2006 og hinn kærði úrskurður upp kveðinn.

II.

Samkvæmt h. lið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 verður ekki kærður til Hæstaréttar úrskurður héraðsdómara eða ákvörðun um að sameina mál eða kljúfa það í fleiri mál. Hinn kærði úrskurður getur því ekki komið til endurskoðunar varðandi ákvörðun um að greina þátt varnaraðilanna E og F frá málinu að öðru leyti.

Með því ákvæði hins kærða úrskurðar að hafna kröfu varnaraðila um að fyrirhuguð aðalmeðferð málsins 9. og 10. febrúar 2006 tæki til þáttar þeirra allra samkvæmt 33. til 40. lið ákæru var í raun tekin ákvörðun um að fresta meðferð málsins um óákveðinn tíma gagnvart öðrum en varnaraðilunum E og F. Er heimilt samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 að kæra úrskurðinn til að fá þessu ákvæði hans hnekkt.

Í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 er mælt svo fyrir að hraða skuli meðferð opinbers máls eftir föngum. Ákæra í máli þessu var sem fyrr segir gefin út 1. júlí 2005. Þær sakir samkvæmt henni, sem ekki hefur verið vísað frá héraðsdómi, eru skýrt afmarkaðar og standa ekki í slíkum tengslum við þau atriði málsins, sem ákæruvaldið kann að hafa nú til athugunar hvort sæta eigi ákæru á nýjan leik, að efni geti verið til að fresta meðferð þeirra fyrir dómi frekar en orðið er. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 128. gr., sbr. 1. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari tekið ákvörðun um hvenær aðalmeðferð máls verði háð þótt aðilar þess hafi ekki enn lýst gagnaöflun lokið. Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að nokkuð standi því í vegi að slík ákvörðun verði þegar tekin. Verður því fallist á kröfu varnaraðila á þann hátt, sem nánar greinir í dómsorði.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Taka ber málið til aðalmeðferðar að því er varðar varnaraðila, A, B, C og D.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 31. janúar 2006.

Í þinghaldi í máli þessu 27. þ.m. hafa dómendur lagt fyrir sakflytjendur það álitaefni hvort neyta eigi heimildar í 24. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 um það hvort skilja eigi þátt ákærðu E og F frá þætti annarra í málinu.  Gerðu verjendur þá svofellda bókun í málinu:  “Verjendurnir krefjast þess að aðalmeðferð varðandi alla ákæruna sem eftir stendur og alla ákærðu fari fram 9. og 10. febrúar nk.  Er þess krafist að úrskurðað verði um þetta.”  Settur ríkissaksóknari hefur mótmælt því að málið verði skilið í sundur með þessum hætti og sagt að ekki séu efni til þess.  Var krafa verjenda tekin til úrskurðar í þinghaldinu og sú athöfn jafnframt áréttuð hamarshöggi, þótt láðst hafi að færa hana til bókar.  Allt að einu hefur krafan verið tekin til úrskurðar í dag að nýju.

Krafa verjenda varðar tvö efnislega aðskilin atriði.  Ber að úrskurða um hana í tvennu lagi.  Verður hér fjallað um þá kröfu verjenda að ákæruliðirnir átta, nr. 33 – 40, varðandi öll ákærðu fái meðferð í einu lagi. 

Ákæru í máli þessu var vísað frá dómi í Hæstarétti Íslands 10. október sl. að öðru leyti en því að eftir standa 8 síðustu ákæruliðirnir af 40.  Þessi hluti varðar alla sakborninga upphaflega málsins, hvern á sinn hátt.  Þannig eru  ákærðu A og Dí fjórum liðum ákæru, nr. 33 – 36, saksóttir fyrir að hafa gert ársreikninga K hf. fyrir árin  1998 – 2001 þannig úr garði að þeir hafi verið rangir, villandi og andstæðir lögum í þar tilteknum atriðum en ákærðu E og F eru, í sömu ákæruliðum, saksótt fyrir það að hafa, sem endurskoðendur hlutafélagsins, brotið lög með því að árita þessa ársreikninga án fyrirvara, E einn í tveimur tilvikum en þau tvö saman í tveimur tilvikum.  Eru þetta einu ákæruatriðin sem þau tvö varða.  Af hálfu verjenda hefur því margsinnis verið hreyft að ákærðu E og F, sem einungis séu ákærð fyrir þessi fáu afmörkuðu tilvik, eigi ekki að þurfa að þola það að bíða eftir því hvort ákært verði fyrir þau sakaratriði sem vísað var frá dómi í október og í því tilfelli að þeirra sakir fái meðferð ásamt málinu í heild, verði nýtt mál höfðað, enda gæti sú meðferð dregist á langinn.  Settur ríkissaksóknari hefur að sínu leyti lagt áherslu á það að allt málið sé umfangsmikið, að dómkvaddir hafi verið matsmenn til þess að meta atriði sem tengist bæði sakaratriðum sem vísað var frá dómi og sakaratriðum sem eftir standa.  Þá muni hann geta ákveðið það fyrir febrúarlok hvort mál verði höfðað vegna þeirra atriða sem vísað var frá dómi.

Dómendur álíta að ákærðu E og F eigi skýlausan rétt til þess að mál þeirra dragist ekki frekar en orðið er og alls ekki er unnt að útiloka það að nýtt mál verði höfðað fyrir þær sakir sem vísað var frá dómi.  Má þá ætla að meðferð þess máls geti tekið langan tíma.  Á það er einnig að líta að mál þetta var höfðað fyrir sjö mánuðum og hefur enn ekki fengið efnismeðferð.  Sakargiftir á hendur ákærðu E og F eru skýrt afmarkaðar og varða þau ein, þótt þær tengist að vísu beint sakargiftunum á hendur ákærðu A og D í þessum fjórum tilteknu ákæruliðum.  Nokkuð er um það að heimildin í 24. gr. oml. sé notuð og oft í þeim tilvikum að tveir eða fleiri menn eru saksóttir fyrir að hafa beinlínis staðið saman að broti.  Er það mat dómsins að vandalaust sé að skilja þátt E og F úr málinu þannig að ekki sé gengið á rétt þeirra, rétt meðákærðu til sanngjarnrar málsmeðferðar eða á hagsmuni ákæruvaldsins.  Er synjað kröfu verjenda um það að aðalmeðferð málsins verði um þá átta ákæruliði sem eftir standa.  Ber að ákveða að skilja málið í sundur þannig að þáttur ákærðu E og F verði dæmdur sér.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Synjað er kröfu verjenda um það að aðalmeðferð málsins verði um þá átta ákæruliði sem eftir standa.  Er málið skilið í sundur til þess að þáttur ákærðu E og F verði dæmdur sér.