Hæstiréttur íslands
Mál nr. 435/2001
Lykilorð
- Hlutafélag
- Samningur
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2002. |
|
Nr. 435/2001. |
Hákon Gunnarsson(Sigurður G. Guðjónsson hrl. Karl Georg Sigurbjörnsson hdl.) gegn Nýbrauði ehf. (Hróbjartur Jónatansson hrl. Þorbjörg I. Jónsdóttir hdl.) |
Hlutafélög. Samningar. Aðild.
Þann 12. júlí 1999 undirrituðu J, sem þá var stjórnarformaður einkahlutafélagsins N, annars vegar og H hins vegar, samkomulag um að H skráði sig fyrir hlutabréfum í N. Greiddi H síðan umsamda fjárhæð inn á reikning á nafni stefnda, eftir fyrirsögn í bréfi J til hans. Vann H á þeim tíma að ráðgjöf fyrir N og varð síðar framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Við könnun á bókhaldi fyrirtækisins komst H að því að þeir fjármunir sem hann hafði greitt fyrir kaup sín á hlutum í félaginu höfðu ekki skilað sér til þess og að bankareikningur sá sem H greiddi féð inn á væri ekki talinn meðal reikninga fyrirtækisins. Krafðist H þess að N endurgreiddi honum það fé sem hann hafði greitt fyrir hluti sína í félaginu. Reisti H kröfur sínar á því að N hafi verið aðili að umræddu samkomulagi frá 12. júlí 1999 og sá reikningur sem H hafi lagt andvirði hlutabréfanna inn á, hafi verið á nafni fyrirtækisins. Í framburði J fyrir dómi kom fram að umræddur reikningur hafi verið settur á nafn N til að liðka fyrir viðskiptum fyrirtækisins við viðkomandi banka, en í raun hafi þetta verið reikningur J sjálfs. Andvirði yfirverðs bréfanna hafi því runnið til J enda hafi legið fyrir að H væri að kaupa hlutabréf af honum. Óumdeilt var að nafnverð umræddra hlutabréfa hafði runnið til N. Talið var ljóst að þegar umrætt samkomulag var gert hafi engin hlutabréf verið í eigu félagsins sjálfs og tilkoma nýrra hluthafa hafi ekki getað orðið nema fyrir kaup bréfa af hluthöfum. Samkvæmt orðanna hljóðan hafi umrætt samkomulag verið gert persónulega milli H og J. Haft var og í huga að H hafði, áður en að þessu kom, verið að fjalla um málefni er vörðuðu rekstur og uppbyggingu fyrirtækisins, en hann var viðskiptafræðingur að mennt. Þegar litið var á málið í heild þótti ekki unnt að líta svo á að N hafi verið aðili að umræddu samkomulagi. Var N því sýknað á grundvelli aðildarskorts.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. nóvember 2001 og krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að hann sé óbundinn af áskrift sinni frá 12. júlí 1999 að hlutum í stefnda að nafnverði 2.571.428,57 krónur og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða honum kaupverð hlutanna, 9.000.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. júní 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að samningur sinn og stefnda frá 12. júlí 1999 um kaup sín á ofangreindum hlutum verði dæmdur ógildur og stefndi dæmdur til að endurgreiða sömu fjárhæð og í aðalkröfu greinir og með sömu vöxtum. Til þrautavara krefst hann þess að viðurkenndur verði réttur sinn til að rifta framangreindum samningi og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða sömu fjárhæð og í aðalkröfu greinir og með sömu vöxtum. Til þrautaþrautavara krefst hann þess að framangreindum samningi verði vikið til hliðar að því er varðar yfirverð hinna keyptu hluta og stefnda gert að endurgreiða sér 6.428.571 krónu með dráttarvöxtum eins og greinir í aðalkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var hið stefnda einkahlutafélag stofnað 23. febrúar 1999 og skráð 4. mars sama ár. Voru stofnfélagar tveir. Stofnhlutafé var 500.000 krónur, en á hluthafafundi 17. mars 1999, þar sem báðir stofnfélagar voru mættir, var samþykkt að auka hlutaféð í 50 milljónir króna og lágu fyrir á þeim fundi áskriftir að þeirri fjárhæð. Gerðust fimm nýir aðilar hluthafar á fundinum. Sama dag var Jóhann Þorvarðarson kosinn formaður stjórnar félagsins og á stjórnarfundi 25. mars var honum veitt prókúra og skyldi hann einn geta skuldbundið félagið fjárhagslega. Á stjórnarfundi 26. apríl 1999 var samþykkt að boða til hluthafafundar 10. maí 1999 og bera þar upp tillögu um hlutafjáraukningu um 25 milljónir króna. Var sá fundur haldinn og tillagan um hlutafjáraukningu samþykkt. Lá jafnframt fyrir áskrift hluthafa að allri hlutafjáraukningunni, en á fundinum voru mættir allir hluthafar eða fulltrúar þeirra. Þessi ákvörðun var síðan ítrekuð á hluthafafundi 9. júlí 1999. Þá var jafnframt samþykkt sú breyting á samþykktum félagsins að stjórn þess og hluthafar skyldu ekki hafa forkaupsrétt að fölum hlutum. Hlutafjárhækkanirnar voru tilkynntar til hlutafélagaskrár 15. febrúar 2000 og kom þar jafnframt fram að ógreitt hlutafé næmi tæplega 1,3 milljón krónum.
Hinn 12. júlí 1999 gerðu áfrýjandi og Jóhann Þorvarðarson með sér samkomulag, sem lýst er í héraðsdómi, þar sem sagði að áfrýjandi skrifaði sig fyrir hlutabréfum í stefnda að nafnvirði 2.571.428,50 krónur á sölugenginu 3,5 og var verð bréfanna samkvæmt því 9 milljónir króna. Þessa fjárhæð greiddi áfrýjandi síðar inn á reikning hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, sem var á nafni stefnda, eftir fyrirsögn í bréfi Jóhanns Þorvarðarsonar til hans 5. ágúst 1999, en bréfið ritaði hann fyrir hönd stefnda sem stjórnarformaður þess.
Af framburði áfrýjanda og Jóhanns fyrir dómi verður ráðið að ofangreint samkomulag hafi verið gert í framhaldi þess að hinn síðarnefndi hafði óskað ráðgjafar áfrýjanda varðandi uppbyggingu og rekstur verksmiðjubakarís, en áfrýjandi hafði reynslu á því sviði. Hafi mál þróast með þeim hætti að til umræðu kom að hann yrði hluthafi. Hann var síðan ráðinn framkvæmdastjóri hjá félaginu 17. nóvember 1999 og fékk prókúru fyrir stefnda 7. febrúar 2000, en Jóhann hafði horfið úr stjórn félagsins 4. sama mánaðar.
II.
Allar kröfur áfrýjanda í máli þessu eru reistar á því að stefndi hafi verið aðili að samkomulagi því frá 12. júlí 1999, sem áður er að vikið, og vísar hann einkum í því sambandi til þess að hann hafi greitt andvirði hlutabréfanna inn á reikning í Sparisjóði Hafnarfjarðar á nafni stefnda eftir fyrirsögn í bréfi Jóhanns Þovarðarsonar, sem hann undirritaði fyrir hönd hlutafélagsins. Í framburði Jóhanns fyrir dómi kom fram að umræddur reikningur við Sparisjóð Hafnarfjarðar, sem andvirði hlutabréfa áfrýjanda var lagt inn á, hafi verið settur á nafn stefnda til að liðka fyrir viðskiptum fyrirtækisins við sparisjóðinn, en í raun hafi þetta verið reikningur hans sjálfs. Hafi andvirði yfirverðs hlutabréfanna runnið til sín, enda hafi hann verið að selja áfrýjanda eigin hlutabréf. Óumdeilt er að nafnverð umræddra hlutabréfa rann til stefnda.
Áður er rakið hvernig staðið var að hlutafjáraukningu hjá hinu stefnda hlutafélagi. Fyrir liggur að 10. maí 1999 höfðu þáverandi hluthafar þegar skrifað sig fyrir allri þeirri hlutafjáraukningu, sem ákveðin hafði verið. Þegar samkomulagið var gert 12. júlí 1999 voru því engin hlutabréf í eigu félagsins sjálfs og tilkoma nýrra hluthafa gat ekki orðið nema fyrir kaup bréfa af hluthöfum. Samkvæmt orðanna hljóðan var umrætt samkomulag gert persónulega milli áfrýjanda og Jóhanns Þorvarðarsonar. Hafa verður og í huga að áfrýjandi hafði áður en að þessu kom verið að fjalla um málefni, er vörðuðu rekstur og uppbyggingu fyrirtækisins, en hann er viðskiptafræðingur að mennt. Tók hann og nokkrum mánuðum síðar við framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
Þegar litið er til framangreindra atriða í heild, þykir ekki, hvað sem líður samskiptum áfrýjanda og Jóhanns Þorvarðarsonar, unnt að líta svo á að stefndi hafi verið aðili að samkomulaginu 12. júlí 1999. Þau atriði varðandi framkvæmd hlutafjárhækkunar, sem áfrýjandi hefur lagt áherslu á í málflutningi sínum og rakin eru í héraðsdómi, eru heldur ekki þess eðlis að þau geti rennt stoðum undir kröfur hans á framangreindum grundvelli. Samkvæmt því er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna beri stefnda af kröfum áfrýjanda vegna aðildarskorts.
Rétt þykir að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Hákon Gunnarsson, greiði stefnda, Nýbrauði ehf., 350.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. september s.l. er höfðað með stefnu birtri 25. janúar s.l.
Stefnandi er Hákon Gunnarsson, kt. 181059-3389, Grundarhúsum 40, Reykjavík.
Stefndi er Nýbrauð ehf., kt. 440399-3639, Völuteigi 4, Mosfellsbæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé óbundinn af áskrift sinni frá 12. júlí 1999 að hlutum í stefnda að nafnverði kr. 2.571.428,57 og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kaupverð hlutanna kr. 9.000.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 16. júní 2000 til greiðsludags. Til vara að samningur stefnanda og stefnda frá 12. júlí 1999 um kaup stefnanda á hlutum að nafnverði kr. 2.571.428,57 í hinu stefnda félagi verði dæmdur ógildur og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kaupverð hlutanna kr. 9.000.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 16. júní 2000 til greiðsludags. Til þrautavara að viðurkenndur verði réttur stefnanda til að rifta samningi hans og stefnda frá 12. júlí 1999 um kaup stefnanda á hlutum að nafnverði kr. 2.571.428,57 í hinu stefnda félagi og stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kaupverð hlutanna kr. 9.000.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 16. júlí 2000 til greiðsludags. Til þrautaþrautavara gerir stefnandi þá kröfu að samningi hans og stefnda um kaup á hlutum í hinu stefnda félagi frá 12. júlí 1999 verði vikið til hliðar að því er varðar yfirverð hinna keyptu hluta og stefnda gert að endurgreiða stefnanda yfirverðið kr. 6.428.571 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 16. júní 2000 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður samkvæmt reikningi. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði verulega lækkaðar og honum verði dæmdur málskostnaður samkvæmt reikningi.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að hið stefnda félag var stofnað 23. febrúar 1999 og var tilgangur félagsins rekstur bakarís og sala á brauðum og annað varðandi brauðgerð. Stofnendur félagsins voru Einar Viðarsson og Bárður Ágústsson og var hlutafé félagsins kr. 500.000. Jóhann Þorvarðarson var kosinn skoðunarmaður félagsins og var félagið skráð hjá hlutafélagaskrá 3. mars 1999. Samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá er hlutafé stefnda nú kr. 115.000.000.
Á hluthafafundi 17. mars 1999 var samþykkt að auka hlutafé félagsins í kr. 50.000.000 og á sama hluthafafundi var kosin ný stjórn og var hún skipuð áðurgreindum Jóhanni, Jóni Gerald og Bárði Ágústssyni. Jóhann var kosinn formaður stjórnar félagsins á stjórnarfundi 25. mars 1999 og var ákveðið að hann færi með alla framkvæmdastjórn í samræmi við samning hans við NBS Ltd. Skyldi stjórnarformaður stjórna daglegum rekstri félagsins og koma fram fyrir hönd þess í öllum málum. Honum var ætlað að sjá um allar fjárfestingar, reikningshald og ráðningu starfsfólks. Stjórnarformanni var veitt prókúruumboð og lagt var til að hann einn gæti skuldbundið félagið fjárhagslega og jafnframt færi hann einn með öll fjármál þess.
Á hluthafafundi, sem haldinn var 10. maí 1999, var samþykkt að auka hlutafé um kr. 25.000.000 og var þessi samþykkt ítrekuð á hluthafafundi sem haldinn var 9. júlí sama ár. Þann 12. júlí sama ár undirrituðu stefnandi og Jóhann Þorvarðarson eftirfarandi samkomulag: „Hákon Gunnarsson kt. 181059-3389 annarsvegar og Jóhann Þorvarðarson kt. 210962-7519 hinsvegar gera með sér eftirfarandi samkomulag. Undirritaður skrifar sig fyrir hlutabréfum í Nýbrauð ehf., kt. 440399-3639, að nafnvirði kr. 2.571.428 á sölugenginu 3.5.” Skjalið ber ekki með sér að Jóhann riti undir það fyrir hönd stefnda en með bréfi dagsettu 5. ágúst sama ár undirrituðu af Jóhanni fyrir hönd stefnda er stefnanda tilkynnt að hann hafi skráð sig fyrir hlutabréfum í stefnda og er þess óskað að kaupverð bréfanna, kr. 9.000.000, yrði greitt fyrir 10. sama mánaðar inn á reikning stefnda í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Er upplýst að stefnandi greiddi þessa fjárhæð inn á reikning stefnda á umsömdum tíma. Stefnandi er viðskiptafræðingur að mennt og hafði áður starfað sem framkvæmdastjóri Samsölubakarís. Stefnandi mun vegna þessarar fyrri reynslu sinnar hafa veitt stjórn stefnda ráðgjöf varðandi rekstur verksmiðjubakarís og var hann ráðinn framkvæmdastjóri stefnda 17. nóvember 1999. Jóhann Þorvarðarson lét af stjórnarformennsku 9. janúar 2000 og við tók Bárður Ágústsson. Stefnandi fékk hins vegar ekki prókúru fyrr en 7. febrúar sama ár. Við könnun á bókhaldi stefnda komst stefnandi að því að fjármunir þeir sem hann greiddi fyrir kaup sín á hlutum í félaginu hefðu ekki skilað sér til stefnda og þá komst hann að því að bankareikningur sá sem stefnandi greiddi inn á var ekki talinn meðal reikninga stefnda. Krafðist stefnandi þá þess að stjórn stefnda hæfist þegar handa um að innheimta það fé sem komið hefði fyrir selda hluti. Stjórn stefnda varð ekki við þessum kröfum stefnanda og var hann leystur frá störfum 23. maí 2000 frá og með 1. júní sama ár. Þegar gengið var frá starfslokasamningi við stefnanda afhenti hann stjórn stefnda yfirlýsingu þess efnis að hann félli ekki frá rétti til að krefja stefnda um endurgreiðslu innborgaðs hlutafjár þar sem í ljós hefði komið að það hefði ekki nema að litlu leyti skilað sér í sjóði félagsins. Með bréfi dagsettu 16. júní 2000 krafðist stefnandi þess að honum yrðu endurgreiddar kr. 9.000.000 sem stefnandi greiddi fyrir hluti sína í félaginu. Þar sem stefnanda bárust ekki formleg viðbrögð við þessum kröfum sínum hefur hann höfðað mál þetta í þeim tilgangi að losna undan ofangreindum samningi um hlutafjárkaup.
Aðila málsins greinir nokkuð á um aðdraganda þess að stefnandi festi kaup á umræddum hlut í stefnda. Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi að Jóhann Þorvarðarson hafi komið fram fyrir hönd stefnda og mótmælti stefnandi því að hann hafi keypt hlutabréfin persónulega af Jóhanni, þvert á móti hefði hann keypt hlutina af stefnda. Þá kvað hann Jóhann hafa samið skjalið þar sem samkomulag þeirra er skráð.
Jóhann Þorvarðarson skýrði hins vegar svo frá fyrir dómi að stefnandi hafi samið umrætt skjal og kvaðst hann persónulega hafa selt stefnanda hlutabréfin og hafi aldrei farið á milli mála að viðskiptin voru á milli hans og stefnanda. Þá kvað Jóhann hið stefnda félag aldrei hafa átt hlutabréf. Jóhann kvað það ekkert leyndarmál að hann hefði hagnast á þessum viðskiptum og þá kvað hann umræddan reikning í Sparisjóði Hafnarfjarðar hafa verið á nafni stefnda til málamynda í því skyni að sýna ákveðna veltu og auka möguleika á lánsfé.
Hjörleifur Hjörleifsson, kt. 200370-4659, núverandi framkvæmdastjóri stefnda, skýrði svo frá fyrir dómi að engin gögn fyndust í bókhaldi félagsins um að stefnandi hefði keypt hlut í því af stefnda. Þá kvað hann umræddan reikning í Sparisjóði Hafnarfjarðar aldrei hafa verið skráðan í bókum félagsins.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir málssókn sína á því að hann hafi keypt umrædda hluti í stefnda af stefnda og greitt kaupverðið inn á bankareikning hans eftir að hafa fengið um það fyrirmæli frá stefnda, undirrituð af æðsta stjórnanda hans, Jóhanni Þorvarðarsyni.
Stefnandi rökstyður aðalkröfu sína með þeim hætti að sannað sé að stofnendur og stjórnendur stefnda hafi í störfum sínum brotið allar reglur um einkahlutafélög varðandi aukningu hlutafjár, skráningu aukningar og jafnvel falsað gögn sem afhent hafi verið hlutafélagaskrá. Hlutafé stefnda hafi í raun átt að vera kr. 75.500.000 frá og með 10. maí 1999 eftir að tvívegis hafi verið ákveðið að auka hlutaféð. Stjórnin hafi í hvorugt skiptið fylgt ákvæðum V. kafla laga um einkahlutafélög um hækkun hlutafjár, t.d. þeirri reglu 2. mgr. 23. gr. laganna sem leggi þá skyldu á stjórn félags að leggja fram upplýsingar um atriði sem verulegu máli skipti um fjárhag þess þegar hlutafjáraukning sé ákveðin. Þá hafi hlutafélagaskrá ekki verið tilkynnt um aukningu hlutafjár innan þeirra tímamarka er greini í 123. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laganna veiti óskráðir hlutir hluthöfum engin réttindi í eða gagnvart stefnda. Hafi því hluthafar sem skráðu sig fyrir hlutum í stefnda á hluthafafundi 17. mars 1999 ekki getað tekið þátt í störfum félagsins, m.a. um aukningu hlutafjár.
Þá byggir stefnandi á því að stjórn stefnda hafi ekki hirt um að reyna að leiða hið sanna og rétta í ljós varðandi ráðstöfun fjármuna stefnda af bankareikningi við Sparisjóð Hafnarfjarðar, þegar í ljós hafi komið að hlutafjárframlög greidd inn á þann reikning hefðu ekki að öllu leyti skilað sér í sjóði stefnda. Hafi verið sendar rangar og ófullnægjandi tilkynningar til hlutafélagaskrár og jafnvel hafi dagsetning verið fölsuð. Hafi þetta leitt til þess að tilkynning hafi legið óafgreidd hjá hlutafélagaskrá svo mánuðum skipti. Telur stefnandi sig því hafa verið í fullum rétti er hann tilkynnti stefnda að hann væri óbundinn af hlutafjárframlagi sínu.
Varakrafa stefnanda um að samningurinn frá 12. júlí 1999 sé ógildur er á því byggð að Jóhann Þorvarðarson, stjórnarformaður og prókúruhafi stefnda, hafi beitt hann svikum við kaupin. Hafi Jóhann látið líta svo út að stefnandi væri að kaupa hluti af stefnda í stefnda sjálfum. Síðar hafi komið á daginn að Jóhann hafi í krafti prókúruumboðs síns hirt kr. 6.428.571 af kaupverðinu. Hafi stjórn stefnda reynst ófáanleg til að taka málið til athugunar eða gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja hagsmuni stefnda gagnvart Jóhanni.
Þrautavarakrafa stefnanda um riftun er á því byggð að stjórnendur stefnda hafi kynnt fyrir sér rekstur verksmiðjubakarís sumarið 1999 og hafi átt að vera rekstrargrundvöllur fyrir því. Hafi stefnandi því vegna þekkingar sinnar á slíkum rekstri verið fús að leggja fram fé til hlutafjárkaupa og greiða yfirverð fyrir þá hluti. Stefnandi hafi hins vegar verið leyndur þeirri staðreynd að allt yfirverð nýrra hluta hafi runnið til annarra en stefnda. Hafi hinir seldu hlutir því verið gallaðir í skilningi kauparéttarins, þar sem minni verðmæti hafi staðið á bak við hluti en stefnandi gerði ráð fyrir. Stefnandi þurfi ekki að sanna umfang gallans heldur aðeins svikin til að geta rift kaupunum.
Þrautaþrautavarakrafa stefnanda er byggð á þeim málsástæðum sem raktar eru hér að framan og einnig á því að eftir gerð samnings hans um kaup á hlutum í stefnda hafi komið í ljós atvik varðandi meðferð fjármuna stefnda, sem geri það að verkum að ósanngjarnt sé að telja stefnanda bundinn samningi um greiðslu yfirverðs fyrir hluti sína. Það standi nær stefnda sjálfum að bera ábyrgð á ólögmætri og saknæmri háttsemi þeirra sem kjörnir hafi verið til að gegna trúnaðarstörfum fyrir stefnda. Þá eigi stefnandi væntanlega skaðabótakröfu á hendur Jóhanni samkvæmt ákvæðum XV. kafla laga um einkahlutafélög vegna þess tjóns sem hann kunni að hafa valdið félaginu með því að ráðstafa yfirverði hluta í stefnda í þágu annars en stefnda sjálfs.
Stefndi vísar einkum til ákvæða V., IX. og XVII. kafla laga um einkahlutafélög, 30. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922. Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Telur stefndi ljóst að ekkert samningssamband sé á milli stefnanda og stefnda og komi fram í samkomulagi stefnanda og Jóhanns Þorvarðarsonar að samningsaðilar voru stefnandi og Jóhann persónulega, en það sjáist á tilgreiningu á kennitölu hans í samkomulaginu. Telur stefndi málssókn þessari beint að stefnda gegn betri vitund stefnanda, þar sem hann telji vænlegra að freista þess að krefja stefnda um greiðslu en Jóhann í ljósi endurskipulagningar á stefnda og innkomu sterks hluthafa í félagið. Orðalag samkomulagsins um að stefnandi „skrifaði sig” fyrir hlutafé hafi enga þýðingu, enda var stefnandi þá ekki hluthafi og átti engan rétt til áskriftar að hlutum. Hafi allir hluthafar í félaginu nýtt sér áskriftarrétt sinn, enda hafi sölugengið verið 1:1 og því hafi ekki getað orðið um aðilaskipti að ræða nema fyrir sölu einstakra hluthafa, eins og raunin hafi orðið í því tilviki sem hér um ræði.
Verði ekki á það fallist að um aðildarskort sé að tefla, mótmælir stefndi því að allar reglur laga laga um einkahlutafélög hafi verið brotnar við aukningu hlutafjár og skráningu aukningar. Þá er því mótmælt að gögn hafi verið fölsuð. Byggir stefndi á því að gögn málsins sýni fram á annað. Þá telur stefndi ekki annað fram komið en að þeir hluthafar sem tekið hafi þátt í aukningu hlutafjár í kr. 75.000.000 hafi sætt sig að fullu við þær upplýsingar sem stjórn félagsins hafi lagt fram um hag félagsins, enda hafi mátt falla frá öllum formreglum með samþykki allra hluthafa, sbr. 5. mgr. 63. gr. og 23. gr. laga nr. 138/1994. Stefnandi hafi eðli málsins samkvæmt ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu varðandi aukninguna og geti því ekki, gegn vilja þeirra hluthafa sem atkvæðisrétt áttu, borið fyrir sig að ekki hafi verið gætt formreglna V. kafla laga nr. 138/1994.
Stefndi byggir á því að væri um fjárdrátt að ræða, eins og stefnandi haldi fram, geti slíkt hvorki verið grundvöllur fyrir ógildingu eða riftun samningsins að hluta eða öllu leyti. Í því tilviki væri um að ræða refsi- og bótaskyldan verknað gagnvart stefnda og af augljósum ástæðum skorti því skilyrði fyrir bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda.
Stefndi byggir á því að hafi Jóhann Þorvarðarson beitt stefnanda svikum og látið líta svo út að stefnandi væri að kaupa hluti af stefnda sjálfum, væri ljóst að stefnandi ætti að beina kröfum sínum að Jóhanni en ekki stefnda. Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki sem hluthafi borið upp tillögu á hluthafafundi um að Jóhann skuli sóttur um skaðabætur, sbr. fyrirmæli 109. gr. laga nr. 138/1994. Allar fullyrðingar stefnanda um að stjórn stefnda hafi ekki hirt um að leiða hið sanna í ljós eigi því ekki við rök að styðjast þar sem aldrei hafi reynt á afstöðu stjórnar til slíkrar tillögu.
Varakrafa stefnda um lækkun er byggð á því að stefndi hafi í reynd aðeins greitt sjálfur kr. 1.000.000 af söluverði hlutanna, en aðrir kr. 8.000.000. Sé nafnvirði hluta hans í félaginu því kr. 285.714. Aðrir en stefnandi hafi hvorki gert sjálfstæða kröfu á hendur stefnda né veitt stefnanda umboð til slíkrar kröfugerðar. Geti krafa stefnanda því aldrei numið hærri fjárhæð en hlut hans nemur eða kr. 1.000.000.
Niðurstaða.
Í máli þessu er ágreiningur um aðild stefnda og verður eðli málsins samkvæmt fyrst leyst úr því álitaefni.
Samkomulagið frá 12. júlí 1999 milli stefnanda og Jóhanns Þorvarðarsonar um að stefnandi skrifi sig fyrir hlutabréfum í stefnda ber ekki með sér að það sé undirritað fyrir hönd stefnda og samkvæmt því virðist Jóhann persónulega vera að selja stefnanda hlut í stefnda. Nægilega er upplýst að stefnandi greiddi kr. 9.000.000 fyrir umrædd hlutabréf inn á reikning á nafni stefnda í Sparisjóði Hafnarfjarðar samkvæmt fyrirmælum Jóhanns. Jóhann hefur borið fyrir dómi að aldrei hafi farið á milli mála að viðskiptin hafi verið á milli hans og stefnanda. Segir Jóhann umræddan reikning hafa verið á nafni stefnda til málamynda í þeim tilgangi einum sýna fram á ákveðna veltu og auka möguleika á lánsfé. Stefnandi hafði tök á því að kanna bókhald stefnda eftir að hann hafði fengið prókúruumboð og varð honum þá ljóst að umræddir fjármunir höfðu ekki skilað sér til stefnda og bankareikningurinn var ekki talinn meðal reikninga stefnda í bókhaldi hans. Stefnandi hefur borið Jóhanni á brýn að hann hafi beitt hann svikum við þessi viðskipti og þá hefur hann ýjað að því að háttsemi hans kunni að vera refsiverð.
Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að stefndi sé réttur aðili máls þessa og verður því með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda kr. 250.000 í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Nýbrauð ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Hákonar Gunnarssonar í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda kr. 250.000 í málskostnað.