Hæstiréttur íslands

Mál nr. 107/2006


Lykilorð

  • Líkamsárás


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. júní 2006.

Nr. 107/2006.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Brynjari Þorláki Emilssyni

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

Líkamsárás.

B var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa slegið A hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði. Fyrir dómi kannaðist B við að rétt væri eftir honum haft í lögregluskýrslu þar sem hann kvaðst hafa slegið A eitt hnefahögg í varnaðarskyni og var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing B ákveðin 30 daga skilorðsbundið fangelsi og honum gert að greiða X skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu ákærða. Þá krefst ákæruvaldið staðfestingar á ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðslu skaðabóta og vaxta af þeim.

Ákærði krefst sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu.

Fyrir dómi kannaðist ákærði við að rétt væri eftir honum haft í lögregluskýrslu 19. apríl 2004, þar sem hann kvaðst hafa slegið A eitt hnefahögg í varnarskyni. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og bótakröfu A.

Fyrir Hæstarétti hefur ákæruvaldið upplýst, að í febrúar 1991 hafi ákærði verið sakfelldur í sakadómi Reykjavíkur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þá hlotið skilorðsbundið fangelsi í 30 daga. Í þeim dómi er getið um dómsáttir sem ákærði hafði gengist undir, þar á meðal í mars 1989 fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga. Þessi brot hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar í þessu máli og þykir með vísan til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum mega staðfesta héraðsdóm um refsingu ákærða.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Brynjar Þorlákur Emilsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 209.558 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 30. nóvember 2005.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 9. nóvember sl., er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, dags. 26. janúar 2005, á hendur Brynjari Þorláki Emilssyni, kt. [...], Akranesi, fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2004, í íbúð að [...] í Vestmannaeyjum, slegið A, kennitala [...] hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði á neðri kjálka vinstra megin og bólgnaði vinstra megin í andliti niður á háls og hlaut sár á endajaxlsvæði vinstra megin.

Ákæruvaldið telur brot ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Þá hefur Jóhann Pétursson hdl. krafist þess fyrir hönd A að ákærði verði dæmdur til þess að greiða honum skaðabætur að fjárhæð krónur 745.563- ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá tjónsdegi 12. febrúar 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  Helgi Bragason, hdl., var skipaður réttargæslumaður brotaþola. 

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst ákærði málsvarnarlauna til handa verjanda sínum sem greiðist úr ríkissjóði. Loks krefst hann að bótakröfunni verði vísað frá og til vara lækkunar á kröfunni.

Málsatvik.

             Mánudaginn 16. febrúar 2004 sneri kærandi, A, sér til lögreglunnar í Vestmannaeyjum og sagðist vilja leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás aðfaranótt 12. febrúar sama ár.  Kvaðst kærandi hafa verið með matarveislu á heimili sínu að kvöldi 11. febrúar og hafi ákærði verið þar ásamt C.  Kærandi sagði ákærða tengjast sér þannig að ákærði hafi verið í sambúð með móðursystur kæranda.  Hafi áfengis verið neytt en um miðnætti hafi C farið en kærandi og ákærði hafi setið eftir og spjallað um hitt og þetta.  Eitthvað hafi þeir rifist, um kvótamál og samband ákærða og móðursystur hans.  Skýrði ákærði svo frá að allt í einu hafi ákærði staðið upp úr stólnum, gengið að sér þar sem hann sat og slegið hann a.m.k. eitt högg í andlitið. Hafi höggið lent á vinstri kjálka og segist kærandi hafa vankast og því ekki sagt til um hvort hann hafi verið sleginn oftar en einu sinni.  Sagði kærandi munn sinn hafa fyllst af blóði og hafi hann verið að standa upp þegar hann sá ákærða fara út úr íbúðinni.  Kærandi hafi farið heim til foreldra sinna og hafi móðir hans farið með hann á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. 

             Samkvæmt læknisvottorði Sigurjóns Kristinssonar, læknis, dagsettu 26. febrúar 2004,  kom í ljós við skoðun að blætt hafði úr tannholdi í vinstri, neðri góm.  Ekki munu hafa fundist merki um lausar tennur og var kæranda vísað til heilsugæslu morguninn eftir til röntgenmyndatöku.  Við myndatöku hjá tannlækni daginn eftir mun hafa komið í ljós brot og því var hann sendur á LSH til frekari meðferðar.   Við skoðun þar kom í ljós bólga vinstra megin í andliti sem náði niður á háls og var kærandi hvellaumur á svæðinu.  Í munni var sár á endajaxlsvæði í neðri kjálka vinstra megin og tennur hans mættust ekki rétt saman.  Röntgenmyndir staðfestu tilfært brot í angulus mandibulare vinstra megin í gegnum socket tannar 38.  Var gerð aðgerð á kæranda í svæfingu þar sem brot var spengt saman með titan-plötu og titan-skrúfum. 

             Í vottorði Sævars Péturssonar, sérfræðings í munn- og kjálkaskurðlækningum, dagsettu 9. nóvember s.l., segir að kærandi hafi gróið vel sára sinna og var hann útskrifaður 14. febrúar 2004.  Hinn 15. apríl sama ár hafi brotið verið vel gróið og bit eðlilegt en smá doði í neðri vör vinstra megin.  Hafi kærandi verið óvinnufær af þessum sökum í 4 vikur.

             Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglunni á Akranesi 19. apríl 2004.  Skýrði hann svo frá málsatvikum að hann hafi verið í heimsókn hjá kæranda og hafi þeir setið í eldhúsi og verið að ræða málin.  Hafi kærandi verið mikið ölvaður en ákærði kvaðst sjálfur hafa verið búinn að drekka þrjá litla bjóra.  Hafi þeim orðið sundurorða og kærandi staðið upp og slegið til ákærða og hafi höggið komið á öxl og hnakka.  Hafi kærandi því næst rifið ákærða upp af stólnum og gert sig líklegan til þess að fylgja árásinni eftir.  Kvaðst ákærði þá hafa borið hendur fyrir sig og slegið kæranda eitt högg í varnarskyni með hægri hendi á kjálkann og farið síðan út úr íbúðinni.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

             Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi komið á heimili kæranda um miðnætti umrætt sinn, en hann hafi ekki verið í matarboði hjá honum.  Hann hafi verið búinn að drekka tvo-þrjá bjóra og hafi þeir eitthvað farið að rífast eftir að C var farinn.  Ákærði telur sig hafa dvalið í u.þ.b. klukkutíma hjá kæranda.  Kærandi hafi þá staðið upp og slegið ákærða aftan á hnakkann þar sem þeir voru við eldhúsborðið.  Hann hafi síðan slegið sig aftur en ákærði hafi sett höndina fyrir sig, staðið upp og ýtt honum frá sér.  Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvort hönd hans hafi lent í andliti kæranda og kannaðist ekki við að hafa slegið hann hnefahögg.  Kærandi hafi náð hálstaki á sér og hafi þeir kúvelst á gólfinu.  Kvaðst ákærði hafa reynt að ýta honum frá sér og síðan forðað sér út.  Hann kvaðst ekki hafa séð áverka á kæranda.  Kvað ákærði kæranda hafa verið í kasti en ákærði hafi reynt að verja sig.  Ákærði kvað kæranda hafa verið dauðadrukkinn og kvaðst hann hafa tjáð honum að honum kæmi fjármál fyrrverandi sambýliskonu sinnar ekki við.  Borin voru undir ákærða ummæli hans í lögregluskýrslu þess efnis að hann hefði slegið kæranda eitt hnefahögg í varnarskyni.  Kvaðst ákærði hafa verið fullur eða rakur þegar þessi skýrsla var tekin og fengið bakþanka síðar um efni hennar.  Hann staðfesti að rétt væri eftir sér haft og jafnframt staðfesti hann undirskrift sína.  Ákærði staðfesti að honum hefði ekki verið birt bótakrafa í málinu fyrr en við birtingu ákæru.  Ákærði kvaðst vera 190 cm á hæð og 90 kg að þyngd.

             Kærandi skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hafi verið í matarboði hjá honum umrætt sinn og hafi þeir farið að rífast og hafi það endað með því að ákærði stóð upp og sló hann eitt högg í andlitið án nokkurs fyrirvara þar sem þeir voru staddir í eldhúsinu og sátu þar við borð.  Kvað kærandi munn sinn hafa fyllst af blóði og hann síðan hnigið niður.  Kvað hann engin átök hafa orðið milli þeirra, hvorki fyrir né eftir höggið.  Hafi ákærði síðan drifið sig út mjög fljótlega eftir þetta, en kærandi tók fram að hann hefði verið ölvaður og jafnframt hefði hann vankast við höggið.  Kærandi kannaðist ekki við að hafa slegið ákærða, hvorki fyrir né eftir höggið.  Þá kannaðist kærandi ekki við að hafa verið í átökum við ákærða þetta kvöld og þá kannaðist hann ekki við að hafa rekið sig í neitt.  Kvað hann meiðsli sín eingöngu af völdum ákærða.  Kærandi kvaðst hafa verið óvinnufær í 3-4 vikur eftir þetta, hann hafi farið í aðgerð en heilsist vel nú.  Kærandi kvaðst vera 187 cm á hæð og 87 kg að þyngd. Kærandi staðfesti að hann hefði ekki fengið greidd laun í veikindaforföllum frá vinnuveitanda sínum, enda kvaðst hann ekki hafa kannað réttindi sín þar að lútandi.

             Vitnið C skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið staddur á heimili kæranda umrætt sinn og hafi ákærði einnig verið þar.  Hafi þeir neytt áfengis og kærandi og ákærði farið að rífast um báta.  Hann kvaðst ekki hafa búist við að til átaka kæmi milli þeirra.  Hann kvaðst hafa farið heim til sín um tvöleytið um nóttina og hann kvaðst ekki hafa orðið vitni að átökunum.  Hann kvaðst hafa frétt af þeim daginn eftir og hefðu kærandi og ákærði haft hvor sína söguna af því sem gerðist.  

             Vitnið D, starfsmaður [...]., skýrði svo frá fyrir dómi að kærandi hefði orðið af launum sem næmu 462.056 krónum tímabilið 12. febrúar 2004 til 14. mars sama ár.  Vitnið staðfesti jafnframt að kærandi hefði ekki gert kröfu um greiðslu launa í veikindaforföllum, en vitnið gat ekki svarað því hvort kærandi hefði átt rétt á slíkri greiðslu.

             Vitnið Viðar Stefánsson, lögreglufulltrúi á Akranesi, skýrði svo frá fyrir dómi í símaskýrslu að hann kannaðist við að hafa tekið skýrslu af ákærða vegna máls þessa.  Hann mundi þó ekki í smáatriðum um hvað málið snerist.  Hann kvað ekki vinnureglu að taka skýrslur af ölvuðu fólki og kvað hann af og frá að ákærði hafi verið ölvaður við skýrslutökuna.  Það hafi þó verið hugsanlegt að ákærði hafi verið þunnur eða lyktandi, en hann mundi það þó ekki.

             Vitnið Sævar Pétursson, tannlæknir, sérfræðingur í munn- og kjálkaskurðlækningum, staðfesti fyrir dómi í símaskýrslu áverkavottorð dagsett 9. nóvember s.l.  Hann staðfesti að áverkinn samræmdist því að kærandi hefði fengið hnefahögg á neðri kjálkann.

Niðurstaða.

             Ákærði hefur skýrt svo frá fyrir dómi að kærandi hefði átt upptökin með því að slá sig aftan á hnakkann, en þeir hefðu verið að rífast í eldhúsinu.  Hann hafi síðan slegið aftur en ákærði hafi þá sett hönd fyrir höfuð sér, staðið upp og ýtt við kæranda.  Ákærði kannaðist ekki við það fyrir dómi að hafa slegið kæranda hnefahögg en við skýrslutöku hjá lögreglunni á Akranesi kvaðst hann hafa slegið kæranda eitt hnefahögg í varnarskyni.  Ákærði gaf þá skýringu á þessum framburði að hann hafi verið fullur eða rakur þegar skýrslan var tekin og hefði hann fengið bakþanka síðar.  Ákærði kvað þá í kjölfarið hafa velst um á gólfinu en kærandi kannast ekki við það.  Þá skýrir kærandi svo frá að ákærði hafi slegið sig fyrirvaralaust eitt högg í andlitið án nokkurs fyrirvara og hafi engin átök orðið milli þeirra, hvorki fyrir né eftir þetta.

             Ákærði og kærandi eru einir til frásagnar um það sem gerðist umrætt sinn og ber þeim ekki saman um aðdragandann.  Ljóst þykir þó af málavöxtum öllum að engum öðrum en ákærða er til að dreifa sem hafi getað veitt kæranda umræddan áverka.  Fær sú niðurstaða jafnframt stoð í framburði ákærða hjá lögreglu en ákærði hefur ekki gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna hann dregur þann framburð til baka fyrir dómi.  Þykir því ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.  Voru afleiðingarnar slíkar að brot ákærða varðar við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

             Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.  Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu hennar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

             Bótakrafa kæranda er þannig sundurliðuð að útlagður kostnaður er 24.328 krónur, vinnutap 462.056 krónur, þjáningabætur samkvæmt 2. ml. 1. gr. skaðabótalaga 29.499 krónur, miskabætur samkvæmt 26. gr. sömu laga 140.000 og þóknun lögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti 89.680 krónur.

             Er krafist vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  Upplýst hefur verið að bótakrafa var ekki birt ákærða á rannsóknarstigi málsins, en ákæra, þar sem bótakröfu er getið, var birt honum 7. mars s.l.

             Árás ákærða olli kæranda líkamlegu tjóni og er til þess fallin að valda andlegum þjáningum.  Er ákærði því bótaskyldur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.  Þar sem krafa kæranda er sanngjörn og nægum gögnum studd verður hún tekin til greina, þó þannig að dráttarvextir reiknast ekki fyrr en frá uppsögu dómsins.

             Þá ber að dæma ákærða til að greiða allan áfallinn sakarkostnað, 7.500 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Jóns G. Valgeirssonar, hdl., 112.050 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Þá verður ákærði dæmdur til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Helga Bragasonar, hdl., 31.125 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en hann mætti fyrir dómi og reifaði sjónarmið skjólstæðings síns um framkomna bótakröfu.

             Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Brynjar Þorlákur Emilsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955.

 Ákærði greiði A 745.563 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 12. febrúar 2004 til dómsuppsögu, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfallinn sakarkostnað, 7.500 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Jóns G. Valgeirssonar, hdl., 112.050 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Helga Bragasonar, hdl., 31.125 krónur, einnig að meðtöldum virðisaukaskatti.