Hæstiréttur íslands
Mál nr. 675/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
- Handtaka
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2016 þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 19. sama mánaðar um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili handtekinn af lögreglu 15. september 2016 eftir hann hafði, að eigin sögn, brotið rúðu í reiðikasti og tekið upp hníf þegar lögreglumenn hugðust taka hann höndum. Lögregla færði sóknaraðila við svo búið á geðdeild þar sem hann var vistaður fram á næsta dag. Þegar hann óskaði útskriftar var tekin ákvörðun um að vista hann þar gegn vilja sínum samkvæmt 2. mgr. 19. gr., sbr. 18. gr. lögræðislaga. Eins og aðstæðum var háttað var lögreglu rétt að handtaka sóknaraðila umrætt sinn samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og færa hann í beinu framhaldi af því á geðdeild án þess að kallaður væri til læknir, svo sem skylt hefði verið samkvæmt 4. mgr. 19. gr. lögræðislaga ef ráðrúm hefði gefist til slíks og ekki verið tök á að koma honum rakleitt undir læknishendur.
Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Benedikts Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2016
I
Með kröfu, sem dagsett er 19. september 2016 og móttekinni 20. sama mánaðar, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], óstaðsettur í hús í Reykjavík, krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 19. september sl., þar sem fallist var á að hann yrði vistaður á sjúkrahúsi á grundvelli 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 í allt að 21 sólarhring. Til vara er þess krafist að nauðungarvistun verði markaður skemmri tími en til 21 dags. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga. Málið var þingfest 22. september og tekið samdægurs til úrskurðar.
Varnaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun sýslumanns um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest.
II
Í beiðni varnaraðila til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um nauðungarvistun sóknaraðila kemur fram að sóknaraðili hafi komið á deild 32C í fylgd lögreglu eftir að hafa sýnt ógnandi hegðun á almannafæri en hann hafi verið með hníf, hótað að drepa fólk og brotið rúðu. Sóknaraðili var metinn í virku geðrofsástandi og hafði hann viðvarandi ranghugmyndir. Var nauðungarvistun talin óhjákvæmileg svo hægt væri að vinna að geðrænni meðferð.
Í læknisvottorði B geðlæknis frá 19. september 2016 er rakin sjúkdómsferill og félagsleg staða sóknaraðila. Í vottorðinu segir m.a. að sóknaraðili sé [...] ára gamall maður, einhleypur og barnlaus. Hann hafi lagst inn á geðdeild í fyrsta skipti árið 2010, þá eftir bílveltu í sjálfsvígstilgangi. Nú sé hann í sinni tólftu innlögn og þeirri fjórðu á þessu ári en sóknaraðili útskrifi sig jafnan eftir nokkra daga á deild. Sóknaraðili sé með viðvarandi ranghugmyndir um að hann sé nokkurs konar liðið lík eða dáinn og bíði hann eftir því að eyðast af æðri máttarverum. Einnig sjái hann verur sem vilji honum illt. Sóknaraðili leiti oft sjálfur á geðdeild og biðji um innlögn vegna svefnerfiðleika og sjálfsvígshugmynda. Þá lýsi hann því oft við innlögn að hann eigi í miklum samskiptaerfiðleikum við fólk og sé þreyttur á því. Sóknaraðili hafi aldrei verið til samvinnu um lyfjameðferð með geðrofslyfjum. Hann hafi verið sviptur sjálfræði til eins árs árið 2013 og fengið lyfjameðferð með forðasprautum, en hann hafi svarað þeirri meðferð nokkuð vel þannig að geðrofseinkennin hafi horfið. Geðrofseinkennin hafi þó versnað fljótlega eftir að hann hætti á lyfjum og hafi verið viðvarandi síðan. Sóknaraðili hafi lagst inn á geðdeild 32C 15. september sl. Við komu hafi hann lítið vilja tala við starfsfólk og neitað að útskýra eða ræða það sem á undan var gengið. Í samtali við lækni daginn eftir, 16. september sl., hafi hann einnig neitað að ræða atburðina. Sagðist sóknaraðili vera að missa „færnina“ og að hann myndi deyja innan skamms tíma. Sóknaraðili hafi þá óskað útskriftar. Í lok vottorðsins segir að sóknaraðili sé metinn í virku geðrofsástandi, hann sé með ranghugmyndir og raddir sem stýri gerðum hans og sé hann jafnframt metinn óútreiknanlegur og hættulegur öðrum í þessu ástandi. Sóknaraðili sé mjög ósáttur við nauðungarvistun á geðdeild og sé ekki í samvinnu um lyfjameðferð á deildinni, en hafi þó inn á milli þegið geðrofslyf í töfluformi. Er það mat læknisins að sóknaraðili sé alveg innsæislaus í sín geðrænu veikindi.
Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann mótmælir því að vera haldinn ranghugmyndum en játar því þó að sjá andaverur og telur það ekkert óeðlilegt. Segist hann vilja vera í samstarfi við lækna um meðferð sína og er tilbúinn til þess að skoða að taka áfram inn þau lyf sem hann tekur í dag.
C geðlæknir, núverandi meðferðarlæknir sóknaraðila, gaf einnig skýrslu fyrir dóminum um síma. Telur hann nauðsynlegt að sóknaraðili verði nauðungarvistaður til þess að tryggja viðeigandi meðferð hans í lengri tíma, enda hafi önnur úrræði verið reynd án árangurs. Hann segir sóknaraðila tala mikið um dauðann og að hann muni bráðlega kveðja þennan heim. Tók hann fram að ástand sóknaraðila sé óbreytt frá því að hann lagðist inn á geðdeild og næsta víst sé að hann muni hætta lyfjatöku verði hann útskrifaður af deildinni. Reynslan sýni það.
III
Skipaður talsmaður sóknaraðila mótmælir kröfu varnaraðila um nauðungarvistun sóknaraðila. Telur hann að ekki séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga til þess að verða við kröfunni og að nauðungarvistun sóknaraðila sé ekki óhjákvæmileg, sbr. 3. mgr. 19. gr. laganna. Þá hafi ekki verið sýnt fram á af hálfu varnaraðila að vægari úrræði komi að gagni og bendir talsmaðurinn á að sóknaraðili hafi verið samvinnufús.
Með vísan til gagna málsins, og þá sérstaklega fyrirliggjandi læknisvottorðs B geðlæknis og vættis C geðlæknis fyrir dómi, sem og fjölda innlagna sóknaraðila á geðdeild á þessu ári þykir nægilega í ljós leitt að nauðsynlegt sé að sóknaraðili verði nauðungarvistaður á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi aðstoð og meðferð við sjúkdómi sínum. Þar sem önnur eða vægari úrræði þykja fullreynd og duga ekki til að tryggja heilsu og batahorfur hans telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 fyrir nauðungarvistun sóknaraðila í allt að 21 sólarhring. Verður ákvörðun sýslumanns um nauðungarvistun sóknaraðila því staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ágústs Karls Karlssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 130.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 19. september 2016 um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi.
Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ágústs Karls Karlssonar hdl., 130.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.