Hæstiréttur íslands

Mál nr. 693/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Greiðsluaðlögun


                                     

Mánudaginn 9. janúar 2012.

Nr. 693/2011.

Drómi hf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

A

(sjálfur)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Greiðsluaðlögun.

D hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kröfu fyrirtækisins um að bú A yrði tekið til gjaldþrotaskipta var vísað frá dómi þar sem ekki var talið unnt að taka bú A til gjaldþrotaskipta á meðan leitað væri greiðsluaðlögunar, sbr. d. lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með umræddu ákvæði væri aðeins girt fyrir að úrskurður gengi um að bú A yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en ekki að beiðni þess efnis yrði lögð fram. Gæti móttaka héraðsdóms á beiðninni markað frestdag við gjaldþrotaskipti ef til þeirra kæmi í kjölfarið, sbr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Frekari meðferð þeirrar beiðni réðist síðan af afdrifum umsóknar A um greiðsluaðlögun og kæmu þá eftir atvikum til skoðunar þær varnir sem hann hefði teflt fram gegn því að búið yrði tekið til skipta. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2011, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá er krafist kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði barst héraðsdómi beiðni sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila 19. ágúst 2011. Áður hafði varnaraðili lagt inn umsókn um greiðsluaðlögun sem móttekin var hjá umboðsmanni skuldara 19. maí sama ár.

Samkvæmt d. lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga er lánardrottnum óheimilt að fá bú skuldara tekið til gjaldþrotaskipta meðan tímabundin frestun greiðslna stendur eftir að umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Þessi tímabundna frestun greiðslna tekur einnig til umsókna um greiðsluaðlögun sem umboðsmaður skuldara tók við frá gildistöku laganna 1. ágúst 2010 til 1. júlí 2011, sbr. 1. mgr. II. ákvæðis til bráðabirgða með lögunum. Því gildir tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. laganna um varnaraðila.

 Með d. lið 1. mgr. 11. gr. laganna er girt fyrir að úrskurður gangi um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, en ekki að beiðni þess efnis verði lögð fram. Getur móttaka héraðsdóms á beiðninni markað frestdag við gjaldþrotaskipti komi til þeirra í kjölfarið, sbr. 2. gr. laga nr. 21/1991. Frekari meðferð þeirrar beiðni ræðst síðan af afdrifum umsóknar varnaraðila um greiðsluaðlögun og koma þá eftir atvikum til skoðunar þær varnir sem varnaraðili hefur teflt fram gegn því að búið verði tekið til skipta. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi. 

Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðili, A, greiði sóknaraðila, Dróma hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2011.

Með beiðni er barst dóminum 19. ágúst 2011 krafðist Drómi hf., kt. 710309-1670, Lágmúla 6, Reykjavík, þess að bú [A], Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. 

Málið var tekið fyrir í dómi 19. október sl.  Þá krafðist varnaraðili frávísunar málsins og var þingfest ágreiningsmál þetta. 

Varnaraðili krefst þess aðallega að beiðni sóknaraðila verði vísað frá dómi, til vara að meðferð beiðninnar verði frestað til munnlegs málflutnings á ákveðnum degi, en ekki ótímabundið.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um frávísun verði hafnað.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. 

Gjaldþrotakrafan byggir á víxli að fjárhæð 14.300.000 krónur, er sýndur var til greiðslu 9. mars 2011. Varnaraðili er ábekingur á víxlinum.  Gert var árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 19. maí 2011.  

Varnaraðili bendir á að hann hafi lagt inn umsókn um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara 19. maí 2011, sama dag og fjárnámsgerðin fór fram.  Samkvæmt g-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010, sbr. 5. gr. laga nr. 135/2010, sé óheimilt að ráðast í aðgerðir til innheimtu krafna sem tryggðar séu með veði í fasteign þriðja aðila, á meðan á frestun greiðslna einstaklings í greiðsluaðlögun standi.  Varnaraðili vísar einnig til 1. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991. 

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi ekki mótmælt þingfestingu málsins og því geti hann ekki krafist frávísunar.  Málið hafi verið þingfest og sé ekki annað fyrir en að fresta meðferð þess uns leyst hefur verið úr umsókn varnaraðila um greiðsluaðlögun. 

Niðurstaða

Samkvæmt d-lið 11. gr. laga nr. 101/2010 er ekki unnt að taka bú aðila til gjaldþrotaskipta á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.  Varnaraðila hefur ekki verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar, en hann sótti um greiðsluaðlögun 19. maí 2011.  Samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða gildir 11. gr. laganna um þá aðila sem lagt hafa inn umsókn um greiðsluaðlögun fyrir 1. júlí 2011.  Á meðan beiðni varnaraðila um greiðsluaðlögun hefur ekki verið hafnað er því ekki unnt að taka bú hans til gjaldþrotaskipta.  Verður því að vísa kröfu sóknaraðila frá dóminum, en hér skiptir ekki máli hvort varnaraðili andmælti þingfestingu málsins eða ekki. 

Málskostnaður fellur niður. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Beiðni sóknaraðila, Dróma hf., um að bú varnaraðila, [A], verði tekið til gjaldþrotaskipta, er vísað frá dómi. 

Málskostnaður fellur niður.