Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-98
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Málefni aldraðra
- Jafnræðisregla
- Stjórnarskrá
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 26. mars 2020 leita Grund hjúkrunarheimili og Dvalarheimilið Ás leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 28. febrúar sama ár í málinu nr. 287/2019: Grund hjúkrunarheimili og Dvalarheimilið Ás gegn íslenska ríkinu. Íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni.
Málið höfðuðu leyfisbeiðendur og gerðu fjárkröfu á hendur gagnaðila sem þeir telja svara til eðlilegs leigugjalds á árunum 2013 til 2016 fyrir þær fasteignir sem þeir nota við rekstur á hjúkrunar- og dvalarrýmum fyrir aldraða. Leyfisbeiðandinn Grund hjúkrunarheimili er sérstök sjálfseignarstofnun sem hefur það hlutverk að veita öldruðum heimilisvist og umönnun og rekur meðal annars samnefnd hjúkrunarheimili við Hringbraut í Reykjavík í fasteign sem er í eigu stofnunarinnar sjálfrar. Leyfisbeiðandinn Dvalarheimilið Ás er dótturfélag leyfisbeiðandans Grundar hjúkrunarheimilis og rekur hjúkrunar- og dvalarheimili í Hveragerði í fasteignum sem eru í eigu leyfisbeiðenda. Leyfisbeiðendur hafa um árabil fengið greiðslur í formi daggjalda frá Sjúkratryggingum Íslands samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar vegna starfsemi sinnar en í þeim greiðslum felst ekki endurgjald vegna stofnkostnaðar, afskrifta og meiri háttar viðhalds fasteigna sem fylgt hefur rekstri leyfisbeiðenda.
Leyfisbeiðendur telja að gagnaðila hafi verið skylt samkvæmt lögum nr. 112/2008 að greiða allan rekstrarkostnað við hjúkrunar- og dvalarheimili leyfisbeiðenda þar með talið endurgjald eða leigugjald sem endurspegli stofnkostnað, afskriftir og meiri háttar viðhald fasteignanna. Telja leyfisbeiðendur að sú skylda gagnaðila byggi einnig á ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt aldraðra til aðstoðar, 21. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra og 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Þar sem lagaskyldunni hafi ekki verið sinnt af Sjúkratryggingum Íslands hafi starfsmenn gagnaðila sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem hafi leitt til tjóns fyrir áfrýjendur. Þá telja leyfisbeiðendur að þeir hafi átt rétt á eðlilegu endurgjaldi vegna húsnæðiskostnaðar á grundvelli samninga þeirra við Sjúkratryggingar Íslands um að veita þjónustu á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Vísuðu leyfisbeiðendur til þess að aðrir rekstraraðilar hjúkrunar- og dvalarheimila hafi ýmist fengið greiddan stofnkostnað við fasteignir með sérstökum samningum við gagnaðila eða fengið endurgjaldslaus afnot af húsnæði undir starfsemi sína. Telja þeir að með þessari háttsemi hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Gagnaðili var sýknaður af kröfu leyfisbeiðenda í héraði og Landsrétti. Landsréttur vísaði til þess að hvorki væri í fjárlögum, almennum lögum né reglugerðum að finna ákvæði sem skyldaði gagnaðila til greiðslu á umræddum kostnaði. Þvert á móti kæmi fram í reglugerðum að þessi kostnaður væri ekki greiddur og í rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila (nú rammasamningur um öldrunarþjónustu) væri ekki að finna ákvæði sem heimilaði slíkar greiðslur. Þá var talið að réttindi samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar yrði eingöngu sótt af einstaklingum en ekki lögpersónum. Taldi Landsréttur því að leyfisbeiðendur hefðu ekki sýnt fram á að þeir ættu á grundvelli laga eða samninga, lögvarða kröfu á hendur gagnaðila um greiðslu á leigu fyrir notkun á umræddum fasteignum í starfsemi sinni. Þá kom fram að ekki yrði ráðið af þeim upplýsingum sem lágu fyrir í málinu að ákvarðanir gagnaðila um uppbyggingu og fjármögnun hjúkrunar- og dvalarrýma hefðu verið ómálefnalegar gagnvart leyfisbeiðendum í gegnum tíðina og að þar hefði ekki verið gætt meðalhófs, sem leitt hefði til mismunar í andstöðu við grunnreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði.
Leyfisbeiðendur vísa einkum til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem til úrlausnar sé núverandi fyrirkomulag á rekstri hjúkrunar- og dvalarrýma fyrir aldraða. Augljóst sé að þetta fyrirkomulag stríði gegn meginreglum um jafnræði þeirra sem reka slíka þjónustu fyrir gagnaðila, þar sem ekkert tillit sé tekið til þess að leyfisbeiðendur leggi húsnæði til rekstrarins á eigin kostnað. Benda leyfisbeiðendur á að verði niðurstaða Landsréttar látin standa óhögguð muni þeir ekki geta sinnt nauðsynlegu viðhaldi og úrbótum á fasteignunum, sem þeir nýta til þjónustunnar við gagnaðila, og muni þær á endanum ónýtast og verða ónothæfar til rekstrarins með tilheyrandi tjóni bæði fyrir leyfisbeiðendur og gagnaðila. Þá telja leyfisbeiðendur þann annmarka vera á dómi Landsréttar að ekki sé tekin nægilega skýr rökstudd afstaða til þess sjónarmiðs þeirra að af ákvæði stjórnarskrár og annarra laga leiði að um sé að ræða þjónustu sem gagnaðila beri að kosta að öllu leyti og leggja beri þá meginreglu til grundvallar við túlkun og beitingu þeirra laga og reglna sem um þjónustuna gilda. Sú meginregla krefjist þess jafnframt að gagnaðili hagi gerð reglugerða, gjaldskráa, fjárlaga og staðlaðra samningsskilmála við rekstraraðila þannig að eðlilegt endurgjald sé greitt fyrir þjónustuna. Að lokum vísa leyfisbeiðendur til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Er umsókn leyfisbeiðenda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.