Hæstiréttur íslands

Mál nr. 39/2010


Lykilorð

  • Umboð
  • Kaupsamningur


Fimmtudaginn 14. október 2010.

Nr. 39/2010.

Avant hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

M. Kristinssyni ehf.

(Þórarinn V. Þórarinsson hrl.)

Umboð. Kaupsamningur.

A og M áttu í viðskiptasambandi sem fólst einkum í því að A fjármagnaði kaup á bifreiðum sem M hafði til sölumeðferðar. Í því sambandi veitti A umboð til handa M til þess að undirrita fyrir hönd A, sem kaupanda, tilkynningar og önnur viðeigandi skjöl til Umferðarstofu vegna eigendaskipta á bifreiðum. J, sölumaður hjá M, varð uppvís að því að hafa útbúið kaupsamning um bifreið sem M hafði til sölu og var í þess eigu. Í kaupsamningi 12. júlí 2007 var A sagður kaupandi, M seljandi og J umráðamaður bifreiðarinnar. Samdægurs útbjó J tilkynningu til Umferðarstofu vegna eigendaskiptanna sem undirrituð var af hálfu aðila, að A undanskyldum. Í kaupsamningi 6. september 2007, sem J fékk A til að útbúa, var hann tilgreindur seljandi og umráðamaður bifreiðarinnar en A kaupandi hennar. Kaupsamningurinn var undirritaður af J og A og kaupverð samningsins var greitt til J. Að endingu gerði A svokallaðan kaupleigusamning við J um bifreiðina. Í tilefni af framangreindum atvikum höfðaði M mál þetta gegn A, þar sem hann krafði A um kaupverð samnings frá 12. júlí 2007 á þeim grundvelli að kaupsamningur hefði stofnast með þeim um bifreiðina, en til vara um greiðslu skaðabóta úr hendi A sem svaraði til söluverðs samkvæmt samningi frá 6. september 2007. Í dómi Hæstaréttar segir að fallist sé á með héraðsdómi að ekki hafi komist á kaupsamningur um bifreiðina milli A og M 12. júlí 2007 eða síðar. Óumdeilt var í málinu að hluti af störfum J fyrir M fól í sér skjalagerð á grundvelli umboðs A til handa M og við ráðstafanir J yrði því að samsama M starfsmanni hans. M bæri ábyrgð á því að ekki yrði misfarið með umboðið og hann yrði sjálfur að bera ábyrgð á því tjóni sem hann hefði orðið fyrir vegna misnotkunar starfsmanns hans á starfsheimildum sínum. Var A því sýknaður af kröfu M um skaðabætur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2010. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram áttu áfrýjandi og stefndi í viðskiptasambandi, sem fólst einkum í því að áfrýjandi fjármagnaði kaup á bifreiðum, sem stefndi hafði til sölumeðferðar. Áfrýjandi veitti stefnda umboð 10. maí 2007 ,,til þess að undirrita fyrir hönd [áfrýjanda], sem kaupanda, ... tilkynningar og önnur viðeigandi skjöl til Umferðarstofu vegna eigendaskipta að nýjum eða notuðum bifreiðum. Umboð þetta á eingöngu við þegar um kaup á bifreið skv. bílasamningi við [áfrýjanda] er að ræða.“ Umboð þetta mun hafa verið sent Umferðarstofu.

Jóhann Aron Traustason starfaði sem sölumaður hjá stefnda og hafði heimild til þess að gera skjöl sem getið var um í umboðinu. Hann kom í því sambandi fram fyrir hönd stefnda. Stefndi hafði til sölu bifreið af gerðinni Toyota Hilux með fastanúmerinu VZ 701 sem var í hans eigu. Jóhann Aron útbjó kaupsamning 12. júlí 2007 vegna bifreiðar þessarar þar sem áfrýjandi er sagður kaupandi en stefndi seljandi og umráðamaður bifreiðarinnar er sagður Jóhann Aron sjálfur. Þessi samningur var ekki undirritaður, en sama dag útbjó Jóhann Aron tilkynningu til Umferðarstofu um eigendaskipti að bifreiðinni. Tilkynningu þessa undirritaði gjaldkeri stefnda og var hún vottuð af öðrum starfsmanni hans, auk þess sem Jóhann Aron ritaði undir hana sem umráðamaður bifreiðarinnar. Ekki var ritað undir þessa tilkynningu fyrir hönd áfrýjanda sem kaupanda. Jóhann Aron sótti um lán til áfrýjanda til kaupa á bifreiðinni. Umsóknin mun hafa verið samþykkt en ekki afgreidd. Í skýrslu gjaldkera stefnda fyrir héraðsdómi kemur fram að hún hafi sett þessi skjöl í skúffu á skrifstofu sinni og aðrir en hún ættu ekki að hafa sent tilkynningar til Umferðarstofu. Hún hefur einnig upplýst að hún telji að Jóhann Aron hafi farið í skúffuna án heimildar þegar hún var í sumarleyfi og sent tilkynningu um eigendaskipti til Umferðarstofu. Áfrýjandi eða starfsmenn hans áttu engan þátt í þessari atburðarrás.

Fyrir atbeina Jóhanns Arons Traustasonar var útbúinn annar kaupsamningur 6. september 2007 þar sem hann er tilgreindur sem seljandi og einnig umráðamaður bifreiðarinnar en áfrýjandi kaupandi. Kaupsamningur þessi er undirritaður af honum og áfrýjanda og vottaður af starfsmanni áfrýjanda. Kaupverðið var tilgreint 3.500.000 krónur og var sú fjárhæð greidd inn á reikning Jóhanns Arons. Sama dag gerði áfrýjandi svonefndan bílasamning, sem sagður er vera kaupleigusamningur, við Jóhann Aron sem skuldbatt sig til að greiða áfrýjanda samningsverðið 3.535.354 krónur með 84 jöfnum greiðslum á sjö ára tímabili. Að þeim tíma liðnum skyldi  honum vera heimilt að kaupa bifreiðina fyrir 1.000 krónur.

Með ráðstöfunum þeim, sem lýst hefur verið, var bifreiðin VZ 701 færð úr eignarráðum stefnda til áfrýjanda, án þess að stefndi fengi andvirði hennar. Krefur hann áfrýjanda um andvirðið, aðallega á þeim grundvelli að kaupsamningur hafi stofnast með þeim um bifreiðina og sé áfrýjanda skylt að efna þann kaupsamning með því að greiða kaupverðið. Til vara reisir stefndi kröfu sína á því að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi áfrýjanda, sem svarar til söluverðs þess, sem áfrýjandi greiddi Jóhanni Aroni fyrir bifreiðina. Á þessa málsástæðu var fallist í hinum áfrýjaða dómi.

II

Jóhann Aron Traustason hafði sem sölumaður hjá stefnda heimild til að útbúa skjöl og önnur gögn á grundvelli þess umboðs, sem áfrýjandi hafði veitt stefnda 10. maí 2007. Hann misnotaði starfsheimildir sínar er hann útbjó skjöl um sölu á bifreiðinni frá stefnda til áfrýjanda í júlí 2007 og tilkynningu til Umferðarstofu. Hann misnotaði einnig aðstöðu sína er hann tók þessi gögn úr vörslum gjaldkera stefnda og sendi tilkynningu um eigendaskipti til Umferðarstofu. Hann beitti áfrýjanda og starfsmenn hans blekkingum er hann, gegn betri vitund, fékk þá til að undirrita kaupsamning um bifreiðina og greiða sér kaupverð hennar samtímis því að gerður var lánssamningur þar sem ráðgert var að hann greiddi tilgreint samningsverð á sjö árum.

Fallist er á með héraðsdómi að ekki hafi komist á kaupsamningur um bifreiðina milli áfrýjanda og stefnda 12. júlí 2007 eða síðar. Áfrýjandi hefur ekki stofnað til kaupsamnings við stefnda um bifreiðina og ráðstafanir Jóhanns Arons, sem fólu í sér misnotkun á umboði því, sem áfrýjandi hafði veitt, gátu ekki leitt til þess að slíkur kaupsamningur stofnaðist. Er því hafnað að stefndi geti krafið áfrýjanda um greiðslu kaupverðs bifreiðarinnar.

Jóhann Aron Traustason hafði enga heimild til þeirra ráðstafana, sem að framan greinir. Þær gerði hann á grundvelli umboðs sem stefndi, vinnuveitandi hans, hafði fengið frá áfrýjanda til að útbúa og undirrita skjöl í því skyni að hraða afgreiðslu á kaupum og sölu bifreiða á vegum stefnda. Að því leyti sem Jóhann Aron kann að hafa farið út fyrir umboðið misnotaði hann það traust sem stefndi og áfrýjandi höfðu sýnt honum sem starfsmanni stefnda. Við ráðstafanir þessar verður að samsama stefnda starfsmanni hans, Jóhanni Aroni, enda er ekki um það deilt að það var hluti af störfum Jóhanns Arons hjá stefnda að útbúa skjöl á grundvelli umboðsins.

Stefndi ber ábyrgð á því að ekki yrði misfarið með umboð það sem hann fékk. Hann verður sjálfur að bera ábyrgð á því tjóni, sem hann hefur orðið fyrir vegna misnotkunar starfsmanns hans á umboðinu. Hann getur ekki krafið áfrýjanda um skaðabætur vegna þessa tjóns. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda um skaðabætur.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Avant hf., er sýkn af kröfu stefnda, M. Kristinssonar ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, 800.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2009.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 3. desember 2009, var höfðað 24. júní 2009.  Stefnandi er M. Kristinsson ehf., Nýbýlavegi 6-8, Kópavogi, en stefndi er Avant hf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 3.760.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júlí 2007 til greiðsludags.  Ef ekki verður fallist á þann upphafsdag vaxta krefst stefnandi dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. september 2007 til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 3.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. október 2007 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að meðtöldum virðisauka­skatti.

II

Stefnandi er bílasala með umboð til sölu á Toyota bifreiðum á Íslandi.  Þá selur stefnandi notaðar bifreiðar og varahluti og veitir þjónustu við eigendur Toyota bifreiða. 

Stefnandi var eigandi bifreiðarinnar VZ-701, Toyota Hilux, og kveðst hann hafa átt bifreiðina þar til hún hafi verið seld stefnda hinn 12. júlí 2007.

Í málinu liggur frammi reikningur/afsal vegna umræddrar bifreiðar, dagsett 12. júlí 2007, þar sem seljandi er sagður stefnandi, kaupandi er sagður stefndi og umráðamaður er sagður Jóhann Aron Traustason, en hann var á þessum tíma starfsmaður stefnanda.  Umsamið kaupverð bifreiðarinnar samkvæmt skjalinu er 3.760.000 krónur og greiðslufyrirkomulag er bílasamningur.  Þá liggur frammi afrit lánsumsóknar Jóhanns Arons vegna kaupa á umræddri bifreið þar sem um er að ræða lán vegna alls kaupverðsins að fjárhæð 3.760.000 krónur með 1. gjalddaga 31. ágúst 2007.  Afrit þetta ber ekki með sér hver sé lánveitandinn eða eigandi bifreiðarinnar.  Kveðst stefnandi hafa haft aðgang að lánakerfi stefnda og hafi hann getað sótt um bílalán og bílasamninga fyrir hönd kaupenda sinna, en það hafi verið gert til þess að auðvelda kaupendum aðgang að fjármögnun og bæta þjónustu við þá.  Bílasamningur sé í eðli sínu kaupleigusamningur þar sem fjármögnunaraðili, í þessu tilviki stefndi, samþykki kaup bifreiðar gegn samningi við skráðan umráðamann, kaupleigutaka, um endurgreiðslu með áskildum vöxtum á umsömdum tíma  Fjármögnunaraðilinn sé skráður eigandi bifreiðar á meðan á leigutímabili standi en umráðamaður hafi afnot bifreiðarinnar á tímabilinu.  Við lok leigutímans greiði umráðamaðurinn síðan loka­greiðslu og fái bifreiðina skráða yfir á sitt nafn.  Í þessum viðskiptum hafi stefndi verið kaupandi og skráður eigandi bifreiðarinnar á samningstímanum.

Þá liggur fyrir í málinu tilkynning um eigendaskipti til Umferðarstofu 12. júlí 2007 sem er í samræmi við framangreint afsal, þar sem stefnandi selur stefnda umrædda bifreið og Jóhann Aron er sagður umráðamaður bifreiðarinnar.  Undir skjal þetta er ritað af hálfu stefnanda sem seljanda og Jóhanns Arons sem umráðamanns en ekki er ritað undir skjalið af hálfu stefnda sem kaupanda.

Samkvæmt umboði, dagsettu 10. maí 2007, veitti stefndi stefnanda fullt umboð til að undirrita, fyrir hönd stefnda sem kaupanda, tilkynningar og önnur viðeigandi skjöl til Umferðarstofu vegna eignendaskipta á nýjum og notuðum bifreiðum, en eingöngu þegar um kaup á bifreið samkvæmt bílasamningi við stefnda væri að ræða.  Var bif­reið­in síðan skráð í samræmi við þessa tilkynningu um eigendaskipti hjá ökutækja­skrá Umferðarstofu hinn 13. ágúst 2007

Stefndi kveður að umræddur Jóhann Aron hafi misnotað aðstöðu sína í starfi sínu hjá stefnanda.  Hann hafi skráð sölu á bifreiðinni inn í sölukerfi stefnanda 12. júlí 2007 og tilgreint stefnda sem kaupanda og sjálfan sig sem umráðamann.  Samfara því hafi hann sótt um kaupleigusamning til stefnda í gegnum tölvukerfi stefnanda og hafi umsóknin verið samþykkt í kerfinu hjá stefnanda.  Ágreiningslaust sé hins vegar að þessum drögum að kaupleigusamningi hafi aldrei verið komið á framfæri við stefnda og hafi því aldrei verið gengið frá kaupleigusamningnum sjálfum.  Hafi allar þessar tilfærslur verið gerðar á starfsstöð stefnanda án vitundar, vilja eða atbeina stefnda.

Stefnandi kveður að við afstemmingu hjá félaginu hinn 20. nóvember 2007 hafi komið í ljós að greiðsla vegna fyrrgreindra viðskipta hafi ekki borist og hafi þá verið haft samband við stefnda til að kanna hverju það sætti.  Hinn 21. nóvember 2007 hafi stefndi svo tilkynnt að greiðsla vegna bifreiðarinnar hefði verið lögð inn á reikning Jóhanns Arons.  Kveður stefnandi að þegar hann hafi í kjölfarið óskað skýringa hjá Jóhanni Aroni á viðskiptunum hafi sá hinn síðarnefndi látið sig hverfa og hafi hann hætt störfum hjá stefnanda.

Samkvæmt kaupsamningi og afsali dagsettu 6. september 2007 gerðu stefndi og umræddur Jóhann Aron með sér samning þar sem sá síðarnefndi selur stefnda umrædda bifreið fyrir 3.500.000 krónur.  Kemur þar fram að kaupverðið sé greitt með bílasamningi og var bifreiðinni afsalað í samræmi við kaupleigusamning.  Undir skjal þetta ritar Jóhann Aron sem seljandi og umráðamaður bifreiðarinnar og starfsmaður stefnda ritar undir fyrir hönd stefnda sem kaupandi.  Var ekki send tilkynning um eigendaskipti til Umferðarstofu vegna þessara eignaskipta.  Kaupverðið var síðan eins og fyrr greinir lagt inn á reikning Jóhanns Arons. 

Í samræmi við efni samningsins gerðu Jóhann Aron og stefndi jafnframt með sér bílasamning og kaupleigusamning um bifreiðina þar sem stefndi er leigusali og Jóhann Aron leigutaki.

 Stefndi kveður Jóhann Aron hafa upplýst sig um bifreiðin væri þegar komin á nafn stefnda þar sem Jóhann Aron hefði keypt bifreiðina af vinnuveitanda sínum, stefnanda, í júlí 2007 og hafi hann ætlað sér að taka bílalán á bílinn hjá stefnda og selja hann svo.  Hann hafi hins vegar ákveðið að bíða með að taka lánið og hafi hann greitt kaupverðið með öðrum hætti.  Kveður stefndi að starfsmenn hans hafi engar athugasemdir gert við þessar skýringar Jóhanns Arons, enda hafi hann verið starfs­maður Toyota og hafði verið sem slíkur í samskiptum við starfsmenn stefnda í langan tíma.  Þá hafi verið alkunna að starfsmenn stefnanda keyptu notaðar uppítökubifreiðar af stefnanda á lágu verði til endursölu á hærra verði og allur gangur hafi verið á því hvernig starfsmennirnir hafi greitt kaupverðið til stefnanda.  Hafi verið algengt að starfsmenn stefnanda greiddu kaupverð bifreiðanna þegar þeir sjálfir seldu þær.

Stefnandi hefur kært Jóhann Aron Traustason til lögreglu vegna meints auðgunarbrots í tengslum við sölu umræddrar bifreiðar auk þess sem stefnandi hefur freistað þess að krefja Jóhann Aron um andvirði söluverðs bifreiðarinnar.  Það hefur hins vegar ekki borið árangur.  Hinn 6. júní 2008 var stefna á hendur Jóhanni Aron, þar sem stefnandi í þessu máli krefur Jóhann Aron um greiðslu 3.760.000 króna, árituð í Héraðsdómi Reykjaness.  Þrátt fyrir innheimtutilraunir hefur stefnanda ekki tekist að fá fjárnáms­gerð fullnægt á hendur Jóhanni Aroni og telur að þar sem opinber gögn sýni fram á að hann eigi engar eignir blasi við að gert verið hjá honum árangurslaust fjárnám ef í hann næst.  Telur stefnandi því fullreynt að innheimta kröfuna og að Jóhann Aron muni ekki greiða hana.  Þá telur stefnandi ljóst að Jóhann Aron hafi vanefnt bíla­samning við stefnda enda hafi bifreiðin verið tekin úr vörslum hans og hafi stefndi ráðstafað henni til Sævars B. Þórarinssonar.  Með bréfi 12. janúar 2009 krafði stefn­andi stefnda um greiðslu kaupverðs bifreiðarinnar.

III

Kröfu sína kveðst stefnandi byggja á því að stefnda sem kaupanda bifreiðarinnar VZ-701, hafi verið skylt að greiða stefnanda sem eiganda bifreiðarinnar kaupverðið og hljóti stefndi að bera áhættu af því að hafa greitt kaupverðið til aðila sem enga heimild hafi haft til viðtöku þess.  Stefndi hafi því keypt umrædda bifreið sem stefnandi hafi átt en greitt kaupverðið til annars aðila sem ekki hafi haft heimild til að taka við greiðslunni.  Það sé meginregla kröfuréttar að krafa teljist ekki greidd nema greiðsla sé afhent réttum viðtakanda.  Hefði starfsmönnum stefnda verið í lófa lagið að ganga úr skugga um hver væri eigandi bifreiðarinnar samkvæmt bifreiðabók Um­ferðar­stofu.

Sé það eðlileg krafa að fyrirtæki sem sérþekkingu hafi á sviði bifreiðaviðskipta athugi hver sé réttmætur eigandi að hinu keypta.  Ef það hefði verið gert hefði komið í ljós að stefndi sjálfur væri skráður eigandi að hinu keypta.  Stefndi geti því ekki borið fyrir sig grandleysi um vanheimild Jóhanns Arons og að hann hefði með greiðslu til hans  uppfyllt skyldu sína gagnvart stefnanda.  Hefði það átt að vera sérstakt athugunarefni fyrir starfsmenn stefnda að kanna hvort Jóhann Aron hefði eignarrétt að bifreiðinni þar sem hann hafi í kjölfarið gert bílasamning við stefnda um bifreiðina sem hann hafði selt stefnda.

Í máli þessu hafi því verið um að ræða algera og upprunalega vanheimild þegar Jóhann Aron hafi selt bifreiðina til stefnda í ljósi þess að stefnandi hafi átt rétt á greiðslunni vegna bifreiðarinnar.  Hafi réttindi stefnanda verið ósamrýmanleg kaup­samningi milli Jóhanns Arons og stefnda.  Geti stefndi því ekki byggt rétt á þeim samningi gagnvart stefnanda.  Upphaflegur samningur milli stefnda og stefnanda sé því enn í gildi og eigi stefnandi tilkall til greiðslu vegna bifreiðarinnar á grundvelli þess samnings.

Til vara byggist krafa um greiðslu kaupverðs, vaxta og kostnaðar á því að starfsmenn stefnda hafi bakað stefnda skaðabótaskyldu með því að valda stefnanda tjóni með stórfelldu gáleysi við umrædd kaup, þar sem þeim hefði átt að vera ljós heimildar­skortur Jóhanns Arons til sölu bifreiðarinnar, þegar af þeirri ástæðu að stefndi hafi sjálfur verið skráður eigandi bifreiðarinnar þegar gengið hafi verið frá kaup­samningi þeim sem hafi verið grundvöllur greiðslunnar.  Hefði starfsmönnum stefnda borið að fara yfir eigendasögu bifreiðarinnar og þá hefði blasað við að bifreiðin væri enn ógreidd.

Hafi tveir starfsmenn stefnda því sýnt af sér stórfellt gáleysi í störfum sínum sem leitt hafi til þess að stefnandi hafi ekki fengið greiðslu fyrir bifreiðina sem stefndi hafi keypt af stefnanda samkvæmt kaupsamningi 12. júlí 2007.  Hafi gáleysið falist í undirskrift starfsmanns stefnda, Skarphéðins Eiríkssonar, undir kaupsamning og afsal 6. september 2007 án þess að kanna eigendasögu bifreiðarinnar en þá hefði komið í ljós að félagið væri að kaupa bifreið sem hafi þá þegar verið eign stefnda eftir kaup hans á bifreiðinni í júlí 2007 án þess að hafa greitt fyrir hana.  Þá teljist það stefnda einnig til gáleysis að hafa ekki sent tilkynningu um eigendaskipti til Umferðarstofu vegna sölu bifreiðarinnar líkt og nauðsynlegt sé að gera svo að eignarréttur á bifreiðinni teljist óskoraður sbr. 3. mgr. 47. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.  Þá hafi gjaldkeri stefnda einnig gerst sekur um alvarlega vanrækslu með því að greiða andvirði bifreiðar til aðila sem ekki hafi haft eignarrétt að henni auk þess sem hvergi hafi komið fram í gögnum að hann væri eigandi hennar.

Verði að gera þá kröfu til félags sem sérhæfi sig í bílaviðskiptum að það kanni hvort verið sé að kaupa bifreið af réttmætum eiganda hennar.  Stefndi þurfi að bera hallann af því að hafa ekki viðhaft öruggari vinnubrögð.  Með vörslutöku stefnda og ráðstöfun á umræddri bifreið hafi stefndi sýnt í verki þá afstöðu að hann eigi tilgreinda bifreið sem hann hafi sjálfur eignast með þeim sviksamlega hætti sem að framan sé rakið.  Beri stefndi ábyrgð á gjörðum umræddra starfsmanna á grundvelli vinnuveitenda­ábyrgðar.  Saknæmar aðgerðir starfsmannanna, sem þeir hafi viðhaft í beinum tengsl­um við starf sitt hjá stefnda, hafi leitt til fjárhagslegs tjóns fyrir stefnanda og verði að telja að skilyrði sakarreglunnar, meðal annars um orsakatengsl og sennilega afleið­ingu, séu uppfyllt.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en regla þessi fái meðal annars stoð í VI. og VII. kafla laga nr. 50/2000.  Um gjald­daga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga.  Um varakröfu vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttarins meðal annars til sakarreglunnar og regl­unnar um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda ásamt reglna í skaða­bóta­lögum nr. 50/1993.  Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um varnarþing vísar hann til 32. gr. sömu laga.

IV

Stefndi hafnar því að hann hafi sýnt af sér saknæma og bótaskylda háttsemi gagnvart stefnanda og kveður ljóst af öllum atvikum málsins að tjónið verði rakið til háttsemi starfsmanna stefnanda sjálfs og beri stefnandi því sjálfur ábyrgð á tjóni sínu.

Fyrir liggi að Jóhann Aron Traustason, þá starfsmaður stefnanda, hafi nýtt sér aðstöðu sína í starfi sínu til að blekkja stefnanda og aðra, þar með talið stefnda, til þess að komast yfir umrædda bifreið og andvirði hennar.  Í stefnu stefnanda á hendur Jóhanni Aroni segi stefnandi meðal annars: “Stefndi notfærði sér trúnaðarstöðu sína hjá stefnanda og fékk því afnot bifreiðarinnar þann dag [12.7.2007] þótt ekki hafi verið endanlega gengið frá bílasamningi við Avant skv. fyrrgreindri umsókn og því engar greiðslur borist skv. fyrrgreindri umsókn um fjármögnun.“

Óumdeilt sé að stefndi ritaði ekki undir sölutilkynningu 12. júlí 2007 sem skráð hafi verið hjá Umferðarstofu 13. ágúst 2007.  Það hafi einungis verið starfsmenn stefnanda sem það gerðu ásamt Jóhanni Aroni, þeir hafi undirritað fyrir hönd stefnanda sem seljanda og vottað eignaskiptin án þess þó að stefndi ritaði undir sem kaupandi og án þess að ganga úr skugga um að bílasamningur væri frágenginn við stefnda eða greiðsla innt af hendi til stefnanda.  Starfsmönnum stefnanda hafi því verið óheimilt að ráðstafa eignarhaldi á bílnum með þessum hætti.  Sölutilkynning sú sem undirrituð hafi verið og síðar borist Umferðarstofu skrifist því alfarið á starfsmenn stefnanda en varði stefnda á engan hátt enda hafi hann hvergi komið þar nærri.  Í ljósi umboðsins sem stefndi hafi veitt stefnanda hafi Umferðarstofa mátt ætla að tilkynningin væri lögmæt enda hafi stefnandi sjálfur sent sölutilkynninguna inn til skrán­ingar.

Svo sem tilvitnun í fyrrgreinda stefnu staðfesti hafi umræddur Jóhann Aron fengið afnot bifreiðarinnar hinn 12. júlí 2007 og hafi hann notað hana að því er virðist athugasemdalaust frá þeim degi til 6. september 2007 er hann hafi haft samband við stefnda með ósk um að stefndi keypti af honum bifreiðina.  Hafi stefnanda sem vinnuveitanda Jóhanns Arons og bílasala borið, í ljósi þess að bifreiðin hafði verið skrifuð út úr sölukerfi stefnanda 12. júlí 2007, að knýja á um greiðslu kaupverðs úr hendi Jóhanns Arons, en ella taka hana úr umráðum hans.  Hlaut stefnanda að hafa verið ljóst að Jóhann Aron hefði þegar hafið notkun bifreiðarinnar og ekið henni meðal annars til vinnu sinnar hjá stefnanda.  Afstaða stefnanda beri því hins vegar helst vott að hann hafi samþykkt að selja Jóhanni bifreiðina með gjaldfresti enda muni það hafa tíðkast í samskiptum stefnanda og starfsmanna hans.

Í byrjun september 2009 þegar Jóhann Aron hafi óskað eftir því við stefnda að hann keypti bifreiðina hafi Jóhann Aron upplýst að hann hefði keypt bifreiðina nokkru áður af vinnuveitanda sínum og hún hefði verið skráð á stefnda vegna fyrirhugaðs bílaláns.  Stefnda hafi auðvitað verið ljóst að sölutilkynning yrði ekki löglegt andlag bifreiða­skráningar nema eigandi og kaupandi rituðu báðir undir hana og í ljósti umboðs hans til stefnanda hafi stefndi mátt ætla að rétt væri að starfsmenn stefnanda hefðu skrifað undir fyrir hönd stefnda að beiðni Jóhanns Arons.  Sömuleiðis hefði stefndi mátt ætla að starfsmenn stefnanda myndu ekki rita undir sölutilkynningu fyrir hans hönd sem seljanda nema því aðeins að kaupverðið hefði verið innt af hendi eða að minnsta kosti um það samið.  Í ljósi þessa og þess að almennt hafi verið vitað að starfsmenn stefnanda keyptu uppítökubíla af stefnanda gegn gjaldfresti hafi starfsmenn stefnda enga ástæðu haft til þess að rengja staðhæfingar Jóhanns Arons um að hann hefði greitt kaupverðið áður til stefnanda.

Sé því mótmælt að sérstök skylda hafi hvílt á stefnda að grafast fyrir um það hjá stefnanda, vinnuveitanda Jóhanns Arons, hvernig það hefði komið til að bifreiðin hafi verið skráð á nafn stefnda.  Hvorki beiðni um bílasamning vegna umræddrar bifreiðar né samningsgögn til undirritunar hefðu nokkru sinni borist stefnda og hafi stefndi ekki komið með neinum hætti að viðskiptum með umrædda bifreið.  Þá hafi tæplega tveir mánuðir verið liðnir frá því að starfsmenn stefnanda hafi ritað undir sölutilkynninguna og einn mánuður verið liðinn frá því að bifreiðin hafi verið umskráð.  Virðist stefnandi hafa sýnt af sér verulegt tómlæti hafi það verið raunin að umræddur Jóhann Aron hafi valdið stefnanda bótaskyldu tjóni.

V

Eins og fram er komið sérhæfir stefnandi sig í sölu bifreiða.  Stefndi er fjármögnunar­fyrirtæki sem, eins og fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins, veitir fjölþætta þjónustu á sviði fjármögnunar ökutækja og atvinnutækja.  Af gögnum málsins þykir ljóst að aðilar máls þessa voru í nánu samstarfi þegar kaupandi bifreiðar óskaði eftir þjónustu stefnda við að fjármagna kaupin, enda virðist sem starfsmenn stefnanda hafi haft aðgang að tölvukerfi stefnda.   Þá liggur fyrir að stefndi hafði veitt stefnanda víðtækt umboð til að ganga frá skjölum vegna bifreiðakaupa enda væri um að ræða kaup á bifreið samkvæmt bílasamningi við stefnda.

Í máli þessu liggur fyrir óundirritað skjal dagsett 12. júlí 2007 þar sem stefnandi selur stefnda bifreiðina Toyota Hilux með fastnúmer VZ-701 á 3.760.000 krónur.  Umráðamaður er Jóhann Aron Traustason og greiðslufyrirkomulag sagt vera bíla­samn­ingur við umræddan Jóhann Aron.  Í kjölfarið virðist sem Umferðarstofu hafi verið tilkynnt um eigendaskipti á bifreiðinni á grundvelli framangreinds skjals.  Undir þá tilkynningu ritar Þóra Sveinsdóttir starfsmaður stefnanda fyrir hönd seljanda og Jóhann Aron ritar undir fyrir sína hönd sem umráðamaður.  Þá ritar undir sem vottur Róbert Jónsson starfsmaður stefnanda.  Engin undirskrift er fyrir hönd stefnda sem kaupanda.  Þrátt fyrir að undirskrift stefnda sem kaupanda vanti virðist sem Umferðarstofa hafi tekið tilkynningu þessa gilda og hinn 13. ágúst 2007 var bifreiðin skráð á nafn stefnda sem eiganda og Jóhann Aron var skráður sem umráðamaður.

Byggir stefnandi á því að samkvæmt framanskráðu hafi komist á samningur milli aðila og eigi stefndi því að greiða stefnanda kaupverðið, að fjárhæð 3.760.000 krónur.  Óumdeilt er að aldrei var gengið frá umræddum bílasamningi við nefndan Jóhann Aron og stefnanda var ekki greitt framangreint kaupverð.  Virðist því umrædd tilkynning um eigandaskipti hafa farið í gegn hjá Umferðarstofu athugasemdalaust fyrir mistök en ljóst er að hvorki stefndi sjálfur né stefnandi fyrir hans hönd rituðu undir umrædda tilkynningu enda umboð stefnanda til að undirrita skjöl af þessu tagi fyrir hönd stefnda bundið því skilyrði að um kaup á bifreið samkvæmt bílasamningi við stefnda væri að ræða.  Að þessu virtu þykir ljóst að stefndi gerði ekki samning við stefnanda um kaup á umræddri bifreið hinn 12. júlí 2007 og verður hann því ekki krafinn um greiðslu kaupverðs bifreiðarinnar á þeim forsendum. 

Stefndi gerði hins vegar samning við þáverandi starfsmann stefnanda, Jóhann Aron Traustason, hinn 6. september 2007, þar sem hann kaupir títtnefnda bifreið af Jóhanni Aroni, sem skráður er í samningnum sem seljandi bifreiðarinnar.  Þá er Jóhann Aron einnig skráður í samningnum sem umráðamaður bifreiðarinnar.  Kaupverðið var 3.500.000 krónur og greiddi stefndi þá fjárhæð inn á reikning Jóhanns Arons.  Samhliða þessum gerningi var gerður bílasamningur milli stefnda og Jóhanns Arons þar sem stefndi er leigusali og Jóhann Aron leigutaki sömu bifreiðarinnar og er kaupverð hins leigða það sama eða 3.500.000 krónur.  Samkvæmt þessu var Jóhann Aron bæði seljandi og leigutaki í þessum viðskipum og stefndi kaupandi og leigusali. 

Samkvæmt gögnum málsins þykir blasa við að umræddur Jóhann Aron var aldrei skráður eigandi bifreiðarinnar og þegar stefndi gerði við hann samninga, annars vegar kaupsamning og hins vegar kaupleigusamning, vegna umræddrar bifreiðar hinn 6. september 2007, var stefndi sjálfur skráður eigandi bifreiðarinnar.  Verður að gera þær kröfur til stefnda sem sérhæfir sig í slíkum viðskiptum sem hér um ræðir að hann kanni til hlítar hver sé skráður eigandi þeirrar bifreiðar sem hann er að kaupa.  Með því að ganga frá greiðslu til Jóhanns Arons, sem stefndi virðist hafa treyst að væri að segja rétt frá af því að hann var starfsmaður stefnanda, sýndu starfsmenn stefnda af sér stórkostlegt gáleysi sem varð þess valdandi að stefnandi varð fyrir tjóni.  Þykir ekki draga úr ábyrgð stefnda að þessu leyti að umræddur Jóhann Aron, sem augljóslega beitti blekkingum,  var starfsmaður stefnanda.  Þá liggja ekki fyrir nein haldbær gögn varðandi þær fullyrðingar stefnda að almennt hafi verið vitað að starfsmenn stefnanda keyptu bifreiðar af stefnanda gegn gjaldfresti, en stefndi nefnir það sem ástæðu þess að starfsmenn hans hafi ekki rengt staðhæfingar Jóhanns Arons um að hann hefði þegar keypt bifreiðina af stefnanda.

Þá þykir vægast sagt undarleg sú háttsemi starfsmanna stefnda að ganga ekki úr skugga um það áður en gengið var frá kaupunum hverju það sætti að stefndi væri sjálfur skráður eigandi bifreiðarinnar, þar sem fyrir liggur og er óumdeilt að stefndi hafði aldrei greitt stefnanda fyrir bifreiðina.  Þá verður af gögnum málsins ráðið að stefndi hafi ekki hirt um að tilkynna þau eigendaskipti sem áttu sér stað við viðskipti hans og Jóhanns Arons hinn 6. september 2007 en samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003, sem sett eru á grundvelli umferðarlaga nr. 50/1987, skulu fyrri og nýr eigandi ökutækis tilkynna eigendaskiptin til Umferðarstofu eða annars sem hefur umboð hennar, innan 7 daga frá eigendaskiptum.  Þá skal einnig tilkynna um nýjan umráðamann ökutækisins.  Þessi skylda hvíldi á stefnda enda þótt skráningin hefði í raun farið fram áður á grundvelli ófullnægjandi gagna fyrir mistök.

Enda þótt liðið hafi talsvert langur tími frá því að stefnandi fékk upplýsingar um þessar bótaskyldu ráðstafanir stefnda, þ.e. frá 21. nóvember 2007 þar til hann krafði stefnda um greiðslu hinn 12. janúar 2009, er til þess að líta að stefnandi freistaði þess að reyna að fá þann aðila sem beitti báða aðila blekkingunum, til að greiða kröfuna í því skyni að takmarka tjón sitt.  Verður því ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður að fallast á það með stefnanda að starfsmenn stefnda hafi í samningum sínum við Jóhann Aron sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem hafi orðið þess valdandi að stefnandi fékk ekki greitt fyrir bifreið sem hann átti og stefndi keypti.  Í stað þess að ganga frá kaupum og greiðslu andvirðis við rétt­an aðila var aðila sem engan eignarrétt átti að bifreiðinni greitt söluandvirðið og þar með varð stefnandi fyrir tjóni sem stefndi ber ábyrgð á.  Hefur því ekki verið and­mælt að tjón stefnanda felist í því kaupverði sem stefndi greiddi umræddum Jóhanni Aroni fyrir bifreiðina og verður varakrafa stefnanda því tekin til greina eins og hún er fram sett með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en dráttarvaxtakröfu stefnanda hefur ekki verið mótmælt sérstaklega.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Þórarinn V. Þórarinsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Hróbjartur Jónatansson hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Avant hf., greiði stefnanda, M. Kristinssyni ehf., 3.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. október 2007 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.