Hæstiréttur íslands

Mál nr. 796/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ákæra
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Þriðjudaginn 14. janúar 2014.

Nr. 796/2013.

Ákæruvaldið

(Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Ákæra. Frávísun frá héraðsdómi.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli ákæruvaldsins á hendur X, en með ákæru voru X gefin að sök brot aðallega gegn 249. gr. almennra hegningarlaga en til vara 247. gr. sömu laga, sökum þess að ákæra uppfyllti ekki áskilnað 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. desember 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í ákæru er varnaraðila gefið að sök að hafa á tilgreindu tímabili er hann sat í óskiptu búi eftir eiginkonu sína „með óhæfilegri fjárstjórn rýrt efni hins óskipta bús á grófan og óforsvaranlegan hátt, með þeim afleiðingum að allur arfshluti samerfingja ákærða úr dánarbúinu reyndist glataður þegar opinber skipti á dánarbúinu fóru fram.“ Í ákærunni er meðal annars tekið fram til skýringar á sakargiftum að talið sé augljóst að „margvíslegar ráðstafanir“ varnaraðila hafi leitt til þessa. Hins vegar er þar ekki greint með nákvæmari hætti hverjar þær ráðstafanir hafi verið, enda þótt rannsóknargögn málsins, þar á meðal gögn um millifærslu fjármuna varnaraðila til tveggja einstaklinga erlendis, hafi gefið fullt tilefni til þess. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. desember 2013.

Mál þetta, sem þingfest var 5. desember 2013, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 13. nóvember 2013 á hendur X, kt. [...], [...],[...]

“fyrir umboðssvik

með því að hafa á tímabilinu 13. apríl 2007 til 24. ágúst 2011 er ákærði sat í óskiptu búi eftir eiginkonu sína A, kt. [...] er lést hinn [...] 2007, með óhæfilegri fjárstjórn rýrt efni hins óskipta bús á grófan og óforsvaranlegan hátt, með þeim afleiðingum að allur arfshluti samerfingja ákærða úr dánarbúinu reyndist glataður þegar opinber skipti á dánarbúinu fóru fram.

Telst brot þetta varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19,1940, en til vara við 247. gr. sömu laga.

Röksemdir sem málsóknin er byggð á sbr. d. lið 1. mgr. 152. gr. l. nr. 88/2008

Samkvæmt umsókn ákærða og samerfingja hans um setu í óskiptu búi frá 12.04.2007 var nettóeign dánarbúsins á þeim tíma kr. 8.824.712,-  (skjal 4-1) Á því tímabili sem ákæran tekur til runnu auk þess tjónabætur frá Viðlagatyggingu Íslands að fjárhæð kr. 9.623.311 inn í hið óskipta bú. (6-1)  Af þeirri fjárhæð munu um kr. 1.500.000,- hafa runnið til viðgerða á húsnæðinu.  Samkvæmt bréfi lögmanns ákærða þann 28. maí 2010 (skjal 9-1) telur ákærði sjálfur búið eignalaust með öllu á þeim tímapunkti, sem síðar er staðfest með bréfi skiptastjóra dags. 1. desember 2011 (skjal 2-1).   Á því tímabili er ákæran tekur til telur ákæruvaldið augljóst að margvíslegar fjárhagslegar ráðstafnir [sic.] ákærða hafi leitt til þess að dánarbúið varð eignalaust með öllu með þeim afleiðingum að eignarhluti samerfingja ákærða í hinu óskipta búi glataðist. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

Í málinu gerir Grímur Hergeirsson hdl. f.h. B, kt. [...] og C, kt. [...] kröfu um að ákærða verði með dómi gert að greiða hvorum þeirra um sig skaðabætur að fjárhæð kr. 1.046.769 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. ágúst 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara er þess krafist að bótaskylda ákærða vegna óforsvaranlegrar meðferðar á fjármunum í hinu óskipta búi verði viðurkennd með dómi.  Ef bótakröfu verður vísað til meðferðar í sérstöku einkamáli gera tjónþolar jafnframt kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Í málinu gerir Sigurður Jónsson hrl. f.h. D, kt. [...], E, kt. [...] og F, kt. [...] kröfu um að ákærða verði með dómi gert að þeim hverjum um sig skaðabætur að fjárhæð kr. 1.046.769 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. ágúst 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara er þess krafist að bótaskylda ákærða vegna óforsvaranlegrar meðferðar á fjármunum í hinu óskipta búi verði viðurkennd með dómi.  Ef bótakröfu verður vísað til meðferðar í sérstöku einkamáli gera tjónþolar jafnframt kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.”

Mál þetta var þingfest 5. desember 2013 og kom þá ákærði fyrir dóm og lýsti því að hann óskaði ekki eftir að fá skipaðan verjanda að svo stöddu.

Með vísan til 159. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var sækjanda og ákærða gefinn kostur á því að tjá sig um það hvort ákæru í málinu yrði vísað frá dómi án kröfu.  Sækjandi og ákærði tjáðu sig um það efni.

Í  1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 segir að í ákæru skuli greina svo glöggt sem verða megi þau atriði sem þar eru nánar tilgreind, en í c lið ákvæðisins kemur fram að þannig skuli greina í ákæru m.a. hver sú háttsemi er sem ákært er fyrir.

Í ákæru í málinu er ákærða gefin að sök umboðssvik og er háttsemi ákærða lýst með orðunum „með óhæfilegri fjárstjórn rýrt efni hins óskipta bús á grófan og óforsvaranlegan hátt, með þeim afleiðingum að allur arfshluti samerfingja ákærða úr dánarbúinu reyndist glataður þegar opinber skipti á dánarbúinu fóru fram.“  Í ákæru eru greindar röksemdir sem málssóknin er byggð á sbr. d lið 1. mgr. 152. gr. laganna og segir þar m.a. að ákæruvaldið telji „augljóst að margvíslegar fjárhagslegar ráðstafnir [sic.] ákærða hafi leitt til þess að dánarbúið varð eignalaust með öllu með þeim afleiðingum að eignarhluti samerfingja ákærða í hinu óskipta búi glataðist.“

Í ákærunni er þannig hvorki vikið að neinni einstakri fjárhagslegri ráðstöfun ákærða á fjármunum umrædds bús, né hópi samskonar eða samkynja ráðstafana, sem hafi verið óhæfilegar eða til þess fallnar að rýra „efni hins óskipta bús á grófan og óforsvaranlegan hátt, með þeim afleiðingum að allur arfshluti samerfingja ákærða úr dánarbúinu reyndist glataður þegar opinber skipti á dánarbúinu fóru fram.“

Ákærða er þannig ekki gefinn kostur á að verjast ásökunum um að tilteknar fjárhagslegar ráðstafanir hans hafi verið óhæfilegar og rýrt efni búsins á grófan og óforsvaranlegan hátt og er dóminum heldur engin grein gerð fyrir því í ákærunni hverjar eru umræddar ráðstafanir á því rúmlega fjögurra ára tímabili sem ákæran tekur til.  Úr þessum ágalla á ákærunni verður að mati dómsins ekki bætt undir rekstri málsins, hvorki með útgáfu framhaldsákæru sbr. 153. gr. laga nr. 88/2008, né með tilvísunum í gögn málsins við dómsmeðferð þess.  Þá er ljóst að ákærði verður ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þá sem lýst er í ákærunni, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Með hliðsjón af ofansögðu er það mat dómsins að ákæra í máli þessu uppfylli ekki skilyrði c liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um tilgreiningu þeirrar háttsemi sem ákært er út af.  Er það jafnframt mat dómsins, eins og að ofan er lýst, að ekki verði úr þessu bætt við meðferð málsins fyrir dómi og er við svo búið óhjákvæmilegt að vísa ákærunni frá dómi án kröfu sbr. 1. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008, að meðtöldum einkaréttarkröfum sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ákæru í máli þessu er vísað frá dómi.