Hæstiréttur íslands
Mál nr. 721/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Greiðsluaðlögun
|
Miðvikudaginn 20. janúar 2010. |
|
|
Nr. 721/2009. |
Sýslumaðurinn á Eskifirði (Inger L. Jónsdóttir sýslumaður) gegn A (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Greiðsluaðlögun.
S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem staðfestur var nauðasamningur til greiðsluaðlögunar fyrir A. Fyrir Hæstarétt voru lögð gögn um skattskil A. Af þeim var ljóst að allur höfuðstóll vangreidds virðisaukaskatts A byggðist á skýrslu hans sjálfs og að hinn kærði úrskurður væri að því leyti reistur á röngum forsendum. Talið var að skuldir A sem stöfuðu frá atvinnurekstri væru tiltölulega lítill hluti heildarskulda hans og ákvæði 2. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991 stæði því ekki í vegi að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar yrði staðfestur. Hins vegar var talið að synja hefði átt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar á grundvelli 4. tl. 1. mgr. 63. gr. d. laganna þar sem A hefði bakað sér skuldbindingar með vangreiðslu virðisaukaskatts sem næmi ríflega 8,3% af skuldum hans. Var því synjað um staðfestingu á nauðasamningi til greiðsluaðlögunar fyrir A samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 3. desember 2009, þar sem staðfestur var nauðasamningur til greiðsluaðlögunar fyrir varnaraðila. Kæruheimild er í 2. mgr. 63. gr. d., sbr. 179. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar skuli komast á. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Þar kemur meðal annars fram að samkvæmt kröfuskrá umsjónarmanns með greiðsluaðlögun varnaraðila var lýst átta kröfum á hendur varnaraðila samtals að fjárhæð 21.381.765 krónur. Þar af voru kröfur sóknaraðila vegna vangreiddra opinberra gjalda 3.174.633 krónur eða tæp 15%. Vangreiddur virðisaukaskattur var 1.780.437 krónur þar af, eða rúm 8,3% af heildarkröfum. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að opinber gjöld séu reist á áætlun sökum þess að skattframtal hafi ekki verið tekið gilt og að varnaraðili fullyrði að skuldin muni falla niður þegar framtali verið skilað. Því sé reyndin ekki sú að varnaraðili hafi innheimt útskatt án þess að gera skil í ríkissjóð.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð virðisaukaskattskýrsla fyrir uppgjörstímabilið september til október 2006 undirrituð af varnaraðila. Skýrslan er dagsett 8. janúar 2007 og móttekin af skattstjóra sama dag. Þá hefur verið lögð fram álagning skattstjóra 18. janúar 2007 vegna sama tímabils, sem reist er á fyrrgreindri skýrslu, þar sem á stefnda er lagður virðisaukaskattur að fjárhæð 988.476 krónur að viðbættu álagi að fjárhæð 98.847 krónur eða samtals 1.087.323 krónur. Af þessu er ljóst að allur höfuðstóll vangreidds virðisaukaskatts varnaraðila byggist á skýrslu hans sjálfs og að hinn kærði úrskurður er að því leyti reistur á röngum forsendum.
II
Af gögnum málsins, þar á meðal fyrrgreindri virðisaukaskattskýrslu, er ljóst að varnaraðili hætti ekki atvinnurekstri fyrr en í lok ársins 2006. Beiðni hans um heimild til greiðsluaðlögunar, dagsett 17. júlí 2009, barst héraðsdómara 21. sama mánaðar. Er rétt að miða þriggja ára frest er um ræðir í 2. mgr. 63. gr. a. í lögum nr. 21/1991, sbr lög nr. 24/2009, við þann dag, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 2. gr. laganna. Skuldir varnaraðila er stafa frá atvinnurekstri virðast samkvæmt gögnum málsins ekki vera aðrar en vangreidd opinber gjöld, eða 15% af heildarskuldum. Verður að telja þær tiltölulega lítinn hluta heildarskulda hans og stendur ákvæði fyrrgreindrar 2. mgr. 63. gr. a. því ekki í vegi að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar sóknaraðila verði staðfestur.
Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 63. gr. d. í lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009, getur dómari hafnað beiðni um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingar sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi er varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Að framan er rakið að virðisaukaskattskuld varnaraðila nemur 1.780.437 krónum. Þessi fjárhæð verður út af fyrir sig að teljast allhá og sem hlutfall af heildarskuldum varnaraðila er hún ríflega 8,3%. Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili nú eignalaus og ekki verður af gögnunum ráðið að eignir hans hafi í árslok 2006 verið slíkar að vangreiddur virðisaukaskattur sé smávægilegur með hliðsjón af þeim. Verður því að telja að synja hefði átt varnaraðila um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar á grundvelli 4. töluliðs 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991 og því beri samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 57. gr. laganna að synja staðfestingu á nauðasamningi til greiðsluaðlögunar fyrir hann.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, A, um að staðfestur verði nauðasamningur til greiðsluaðlögunar fyrir hann.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 3. desember 2009.
Mál þetta var þingfest 17. nóvember 2009 og tekið til úrskurðar 1. desember sama ár. Sóknaraðili er A, [...], en varnaraðili er sýslumaðurinn á Eskifirði, Strandgötu 52 á Eskifirði.
Sóknaraðili krefst þess að staðfestur verði nauðasamningur til greiðsluaðlögunar fyrir sóknaraðila í samræmi við meðmæli umsjónarmanns með samningsumleitunum frá 28. október 2009.
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðili um að staðfestur verði nauðasamningur til greiðsluaðlögunar fyrir hann.
I.
Með beiðni 17. júlí 2009 fór sóknaraðili þess á leit að honum yrði veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Í beiðni sóknaraðila kom fram að hann er fráskilin tveggja barna faðir. Ástæður fjárhagsörðugleika sóknaraðila voru raktar til þess að lágar tekjur hans hrykkju ekki fyrir afborgunum lána, barnsmeðlögum og framfærslu skuldara. Einnig kom fram í beiðninni að sóknaraðila hefði verið sagt upp störfum og tæki uppsögnin gildi 1. nóvember 2009.
Meðfylgjandi beiðni sóknaraðila var greiðsluáætlun en þar kom fram að tekjur sóknaraðila á mánuði næmu um 180.000 krónum. Þar af var framfærsla sóknaraðila áætluð 126.800 krónur á mánuði. Greiðslugeta á mánuði næmi því 53.200 krónum. Greiðslubyrði af lánum væri hins vegar 177.994 krónur en skuldir næmu liðlega 19.000.000 króna. Einnig kom fram að sóknaraðili væri eignalaus.
Þegar beiðni sóknaraðila var tekin til meðferðar óskaði dómurinn eftir nánari upplýsingum um skuldir hans og tilurð þeirra. Kom þá meðal annars fram að sóknaraðili hefði árið 2006 starfað sem [...] á Eskifirði. Skattyfirvöld hefðu ekki tekið framtal hans vegna þess árs til greina og áætlað á hann opinber gjöld. Sóknaraðili hefði síðan ekki haft fjárráð til að ráða sér bókara til að telja fram á ný til að fá gjöld sín leiðrétt.
Með úrskurði dómsins 7. september 2009 var fallist á beiðni sóknaraðila og honum veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
II.
Í kjölfar þess að umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum var skipaður fékk hann birta innköllun til lánardrottna. Samkvæmt kröfuskrá umsjónarmanns var lýst átta kröfum á hendur sóknaraðila samtals að fjárhæð 21.381.765 krónur.
Meðal kröfulýsinga var krafa varnaraðila sem sundurliðast þannig að meðtöldum vöxtum og innheimtukostnaði:
Þing- og sveitarsjóðsgjöld kr. 1.304.040
Staðgreiðsla tryggingagjald kr. 90.156
Virðisaukaskattur kr. 1.780.437
Samtals kr. 3.174.633
Fundur til að fjalla um greiðsluáætlun sóknaraðila var haldinn 22. október 2009, en til fundarins var boðað í innköllun sem birtist í Lögbirtingarblaði og með bréfi til þekktra kröfuhafa. Sóknaraðili sótti fundinn en ekki var mætt af hálfu kröfuhafa. Á fundinum komu ekki fram andmæli við lýstum kröfum.
Í greinargerð umsjónarmanns frá 28. október 2009 eru málefni og aðstæður sóknaraðila raktar ítarlega. Þar kemur fram að mánaðarlegar tekjur sóknaraðila hrökkvi rétt fyrir eðlilegum framfærslukostnaði. Einnig kemur fram það mat umsjónarmanns að sóknaraðili hafi sinnt skyldum sínum og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar. Í niðurlagi greinargerðar umsjónarmannsins segir svo:
Almennt er tilgangur nauðasamninga í stórum dráttum tvíþættur. Annars vegar að jafna stöðu almennra kröfuhafa og takmarka tjón, sem gæti orðið við gjaldþrot og hins vegar að ráða bót á ógjaldfærni skuldara með niðurfellingu skulda og/eða breytingu á þeim. Markmið ákvæða gjaldþrotaskiptalaganna um greiðsluaðlögun er að gera skuldara kleift að ráða bót á fjárhagsörðugleikum sínum til að forða því að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Skuldari hefur gert greiðsluáætlun með tilliti til forsendna, sem hafa staðist skoðun umsjónarmanns. Með hliðsjón af framangreindu er það mat umsjónarmanns að tekju- og útgjaldaáætlun skuldara sé sanngjörn og raunhæf og að tekið hafi verið tillit til sjónarmiða kröfuhafa. Hafa ber í huga að enginn kröfuhafa hefur gert athugasemdir við greiðsluáætlun skuldara.
Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um fjárhag skuldara virðist ljóst að hann er ekki fær um að greiða skuldir sínar og alls óljóst hvort hann verður það. Með vísan til þessa er það mat umsjónarmanns að fallast beri á tillögu skuldara um að samningskröfur verði felldar niður.
Krafa sóknaraðila um staðfestingu barst dóminum 29. október 2009. Í þinghaldi 1. desember sama ár, þar sem krafan var tekin fyrir, sótti varnaraðili þing og mótmælti kröfunni. Var ágreiningsmál þetta þá þingfest, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
III.
Sóknaraðili heldur því fram að öll skilyrði séu fyrir hendi til að krafa hans um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar verði tekin til greina.
Sóknaraðili telur að krafa varnaraðila um skatta og opinber gjöld standi því ekki í vegi að greiðsluaðlögun komist á. Í því sambandi bendir sóknaraðili á að krafa um virðisaukaskatt nemi 1.780.437 krónum eða 56% af kröfu varnaraðila. Þar sé höfuðstóll þess kröfuliðar 988.476 eða 31% af kröfunni. Hér sé þess að gæta að um sé að ræða áætlun sökum þess að skattframtal hafi ekki verið tekið gilt. Fullyrðir sóknaraðili að þessi skuld muni falla niður þegar framtali verði skilað. Því sé reyndin ekki sú að sóknaraðili hafi innheimt útskatt án þess að gera skil í ríkissjóð. Sóknaraðili bendir einnig á að skuld vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda sé áætlun, sem falla muni brott þegar framtali verður skilað.
IV.
Varnaraðili vísar til þess að greiðsluaðlögun eigi ekki við um einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra, sbr. 2. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991. Varnaraðili heldur því fram að þetta ákvæði girði fyrir að fallist verði á kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Skuldir sóknaraðila við varnaraðila hafi fallið til vegna atvinnurekstrar sóknaraðila í eigin nafni og hafi þær að öllu leyti stofnast á síðustu þremur árum.
Einnig vísar varnaraðili til þess að hafna beri heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laganna. Í því sambandi bendir varnaraðili á að stærsti hluti af skuldinni sé vörsluskattur, sem refsivert sé að skila ekki til innheimtumanns ríkissjóðs.
Loks bendir varnaraðili á að gögn sóknaraðila séu ekki fullnægjandi um skuldir hans meðan hann hafi ekki skilað inn viðhlítandi gögnum til varnaraðila. Því beri að hafna kröfu hans þar sem fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag hans, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laganna.
V.
Þegar umsjónarmaður mælir með því að greiðsluaðlögun komist á ber skuldara að leggja fram kröfu um staðfestingu nauðasamnings, sbr. 63. gr. h. laga nr. 21/1991. Verður þeirri kröfu hafnað ef svo stendur á sem greinir í 57. eða 58. gr. laganna. Í þessu máli ræður úrslitum hvort synja hefði átt í öndverðu um heimild til að leita nauðasamnings, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 57. gr. laganna.
Fyrir liggur að sóknaraðili hætti sjálfstæðum atvinnurekstri síðla árs 2006. Skuld við varnaraðila sem stafar frá þessum atvinnurekstri nemur um 15% af heildarskuldum sóknaraðila. Einnig er til þess að líta að skattskuldin er að mestu leyti áætluð. Því er óhætt að reikna með að raunveruleg skuld sé lægri þar sem áætlun skal vera svo rífleg að eigi sé hætt við að skattfjárhæð sé áætluð lægri en hún er í raun og veru, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um virðisaukasatt, nr. 50/1988, og 2. mgr. 95. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Að þessu gættu þykir skuldin tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum sóknaraðila og því verður 2. mgr. 63. gr. a. ekki talin girða fyrir að greiðsluaðlögun geti komist á fyrir sóknaraðila.
Skuld sóknaraðila við varnaraðila vegna vörsluskatta nemur innan við 10% af heildarskuldum hans. Er þá einnig til þess að líta að verulegur hluti skuldarinnar er áætlaður virðisaukaskattur. Samkvæmt þessu verður ekki talið að sóknaraðili hafi bakað sér skuldbindingu, svo einhverju nemi miðað við fjárhag hans, með háttsemi sem varðar refsingu. Verður 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laganna því ekki talin hindra að fallist verði á kröfu sóknaraðila.
Samkvæmt framansögðu og þar sem önnur ákvæði 57. og 58. gr. laganna eiga ekki við verður krafa skuldara tekin til greina.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar fyrir sóknaraðila, A, er staðfestur.