Hæstiréttur íslands

Mál nr. 335/2016

A (Þórdís Bjarnadóttir hrl.)
gegn
fjölskyldusviði G (Andri Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun

Reifun

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms þar sem nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi var framlengd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. maí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2016 þar sem nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi var framlengd í allt að tólf vikur frá 2. maí 2016 að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að framlengingu nauðungarvistunar verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsenda úrskurðarins verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns,  vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                              

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2016.

Með beiðni, dagsettri 28. apríl 2016, sem barst Héraðsdómi Reykjaness sama dag, hefur G, kt. [...], krafist þess að nauðungarvistun varnaraðila, A, kt. [...], [...], [...], verði framlengd í allt að tólf vikur að liðnum 21 sólarhring frá 11. apríl 2016 að telja.

Varnaraðili hefur mótmælt framgangi kröfunnar. Af hennar hálfu er þess aðallega krafist að beiðni sóknaraðila verði hafnað, en til vara að framlengingu verði markaður skemmri tími en krafist sé af hálfu sóknaraðila.

Í beiðni sóknaraðila er málavöxtum lýst svo að varnaraðili hafi verið nauðungarvistuð á sjúkrahúsi frá 8. apríl sl., fyrst í 72 klukkustundir á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en síðar í 21 sólarhring samkvæmt ákvörðun sýslumannsins á höfuðsborgarsvæðinu 11. apríl sl. á grunvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Samdægurs hafi varnaraðili farið fram á það við Héraðsdóm Reykjaness að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi, en með úrskurði héraðsdóms 14. apríl sl. í máli nr. [...]/2016 hafi ákvörðun sýslumanns um nauðungarvistun varnaraðila á sjúkrahúsi staðfest. Sóknaraðili hafi kært þann úrskurð til Hæstaréttar með kæru 15. apríl sl., en með dómi Hæstaréttar í gær hafi úrskurður héraðsdóms verið staðfestur.

Sóknaraðili krefjist þess nú með vísan til 29. gr. a. lögræðislaga að nauðungarvistun varnaraðila verði framlengd í allt að tólf vikur að liðnum 21 sólarhring frá framangreindri ákvörðun sýslumanns frá 11. apríl 2016 að telja.

Fyrir liggi læknisvottorð B, geðlæknis á móttökugeðdeild 32A á Landspítalanum við Hringbraut, dagsett 28. apríl 2016, þar sem fram komi að læknirinn telji framlengingu nauðungarvistunar með rýmkun óhjákvæmilega. Auk þess liggi fyrir yfirlýsing læknisins, dagsett 28. apríl 2016, um að ekki hafi náðst samkomulag varnaraðila um áframhaldandi meðferð af nokkru tagi.

Í beiðni sóknaraðila er einnig vísað til læknisvottorðs C, dagsetts 11. apríl sl., sem legið hafi til grundvallar beiðni sóknaraðila um nauðungarvistun varnaraðila samkvæmt 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga.

Í læknisvottorði C, sérfræðings á móttökudeild 32A á Landspítala, dagsettu 28. apríl 2016, kemur fram að varnaraðili hafi hinn 8. apríl sl. verið lögð inn á geðgjörgæsludeild 32C á Landspítalanum. Þar hafi verið hafin geðrofslyfjameðferð með forðasprautulyfi þar sem engin leið hafi verið að fá varnaraðila til að taka lyf í töfluformi, enda hafi hún verið algjörlega innsæislaus hvað varðar vandamál sín. Hún hafi jafnframt hafnað alfarið öllum rannsóknum, svo sem blóðrannsóknum og röntgenmynd af höfði. Varnaraðili hafi hinn 22. apríl sl. verið flutt yfir á deild 32A, sem sé almenn móttökugeðdeild, til áframhaldandi aðhlynningar og meðferðar, en þar hafi hún sýnt sömu einkenni og áður sem ekkert hafi gengið til baka. Hún hafi áfram verið gríðarlega tortryggin og sjái samsæri gegn sér í hverju horni. Þá hafi hún verið mjög ásakandi í garð starfsfólks sjúkrahússins og telji jafnvel að þar sé verið að myrða fólk.

Niðurstaða vottorðsins er sú að varnaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi þar sem fyrst og fremst sé um að ræða mjög skrautlegar tortryggnihugmyndir, hún sé algjörlega innsæislaus, vilji ekki þiggja nokkra meðferð og krefjist útskriftar. Mjög líklega sé um að ræða geðklofasjúkdóm af paranoid-gerð, en vinnugreining sé óvefrænt geðrof F29. Meðferð til þessa hafi ekki skilað tilætluðum árangri, en varnaraðili fá geðrofslyf í forðasprautuformi og klárlega þurfi lengri tíma til að lyfið hrífi. Þar sem nauðungarvistun varnaraðila í 21 sólarhring sé að renna út sé krafist framlengingar nauðungarvistunar í allt að 12 vikur með rýmkunarákvæði þannig að varnaraðili geti farið út af stofnuninni þegar heilsa leyfi. Ekkert samkomulag hafi náðst við varnaraðila um áframhaldandi meðferð af nokkru tagi, sem geri beiðni þessa óhjákvæmilega.

C geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti áðurgreint vottorð sitt. Þá staðfesti hann að varnaraðili hefði ekki verið til nokkurrar samvinnu um áframhaldandi meðferð og því væri óhjákvæmilegt að krefjast framlengingar á nauðungarvistuninni.

Niðurstaða.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og með vísan til fyrirliggjandi gagna þykir ljóst að að varnaraðili sé enn alvarlega veik af geðrofssjúkdómi og að brýnt sé að hún fái áframhaldandi geðlæknismeðferð á sjúkráhúsi. Þá hefur komið fram að reynt hafi verið til þrautar að ná samkomulagi við varnaraðila um áframhaldandi meðferð, en án árangurs, og að mati læknis sé framlenging nauðungarvistunar óhjákvæmileg. Með hliðsjón af framangreindu þykir hafa verið sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði 29. gr. a. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. lög nr. 84/2015, til að unnt sé að fallast á kröfu sóknaraðila í málinu. Verður nauðungarvistun varnaraðila því framlengd um allt að tólf vikur frá 2. maí 2016 að telja.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Nauðungarvistun varnaraðila, A, kt. [...], er framlengd í allt að tólf vikur frá 2. maí 2016 að telja.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.