Hæstiréttur íslands

Mál nr. 183/2005


Lykilorð

  • Eignarréttur
  • Lausafjárkaup
  • Vörslur


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. nóvember 2005.

Nr. 183/2005

Borgar Jens Jónsson og

Eygló Einarsdóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Sigurbirni Bárðarsyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Eignarréttur. Lausafjárkaup. Vörslur.

H seldi B og E tvö hross, sem S taldi sig eiga. S krafðist þess að eignarréttur hans á hrossunum yrði viðurkenndur. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að hross gætu verið í vörslu annarra en eigenda þeirra um lengri eða skemmri tíma. Því hefðu vörslur H ekki gefið slíkar vísbendingar um eignarrétt hans að hrossunum áður en hann seldi þau að sönnunarbyrði yrði felld á S um rétt hans yfir þeim. Ekki var talið að áfrýjendum hefði tekist að sanna að H hafi keypt hrossin af S. Þá hófst hann þegar handa við að endurheimta hrossin þegar hann varð þess var að þau höfðu verið seld. Var eignarréttur S að hrossunum því viðurkenndur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 2. maí 2005 og krefjast þess að þau verði sýknuð af kröfu stefnda og þeim dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi höfðaði málið gegn áfrýjendum og Hallgrími Jóhannessyni, viðsemjanda þeirra, sem einnig tók til varna en felldi niður þingsókn áður en málið var tekið til aðalmeðferðar í héraði. Eftir uppsögu héraðsdóms kom Hallgrímur fyrir dóm í Héraðsdómi Reykjaness og gaf aðilaskýrslu í málinu, sem hefur verið lögð fyrir Hæstarétt. Þar kemur fram að hann kvaðst hafa eignast hestana tvo með sama hætti og önnur hross sem hann hafi keypt af stefnda, sem væri að hann hafi fengið að borga þau þegar honum hentaði. Þessi viðskipti hafi alltaf farið fram þeirra í milli án þess að neitt væri um þau skjalfest, eins og mjög algengt sé í hrossakaupum, og engin skylda sé til þess að umskrá hross, þótt þannig þyrfti það að vera.

Fyrir héraðsdómi lýsti áfrýjandinn Borgar Jens því að Hallgrímur hafi leigt af þeim hesthús, þar sem hann hafi sett hin umdeildu hross þegar hann fékk þau frá stefnda. Þar hafi hrossin verið fóðruð, hirt og þjálfuð og þar hafi þau verið er Hallgrímur seldi áfrýjendum þau á árinu 2001. Samkvæmt þessu hafa vörslur hrossanna verið hjá Hallgrími og áfrýjendum allt frá því hann fékk þau frá stefnda á árinu 2000.

Fram hefur komið af hálfu stefnda, án þess að því hafi sérstaklega verið andmælt af hálfu áfrýjenda, að algengt sé að hross séu afhent öðrum til þjálfunar, tamningar og ýmissar umhirðu og vörslu. Þannig geti hross verið í vörslum annarra en eigenda þeirra um lengri eða skemmri tíma. Þegar til þessa er litið geta vörslur hrossanna ekki einar út af fyrir sig gefið slíkar vísbendingar fyrir eignarrétti Hallgríms að þeim áður en kaup hans og áfrýjenda voru gerð að sönnunarbyrði verði felld á stefnda um rétt sinn yfir hrossunum. Verður því að fallast á með stefnda að við þessar aðstæður verði áfrýjendur að sanna að Hallgrímur hafi keypt hrossin af stefnda. Gegn andmælum stefnda hefur sú sönnun ekki tekist. Þegar jafnframt er litið til þess að stefndi hafi fyrst á árinu 2002 fengið að vita það frá Hallgrími að hann hafi selt áfrýjendum hrossin og hafist handa í framhaldi af því að endurheimta þau verður hann ekki talinn hafa glatað rétti fyrir tómlæti. Vegna þessa verður hinn árýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að málskostnaður milli aðila falli niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað að því er varðar áfrýjendur Borgar Jens Jónsson og Eygló Einarsdóttur.

Málskostnaður milli stefnda, Sigurbjörns Bárðarsonar, og áfrýjenda fellur niður á báðum dómstigum.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2005.

          Stefnandi er Sigurbjörn Bárðarson, Breiðahvarfi 4, Kópavogi.

             Stefndu eru Hallgrímur Jóhannesson, Lyngholti 19, Reykjanesbæ og Borgar Jens Jónsson og Eygló Einarsdóttir, bæði til heimilis að Kirkjuvogi 11, Höfnum.

             Málið var dómtekið 3. þ.m. Var stefna birt fyrir stefnda Hallgrími 5. júní 2004. Um birtingu stefnu á hendur stefndu Borgari Jens og Eygló fór eftir b. lið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en í áritun lögmanns stefndu er þess ekki getið hvenær hún átti sér stað.

Stefnandi gerir þá kröfu að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur hans að hrossunum Hæru frá Vatnsleysu, IS1991258510, landnúmer 146423, og Randveri frá Enni, IS1992158440, landnúmer 146406. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

             Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

I.

             Í stefnu er því haldið fram að stefnandi hafi orðið eigandi þeirra hrossa, sem viðurkenningarkrafa hans tekur til, árið 1999. Hann hafi keypt Hæru frá Vatnsleysu haustið 1999 af Hirti B. Halldórssyni og Randver frá Enni af Skildi Stefánssyni í desember sama ár. Á fyrri hluta árs 2000 hafi hann lánað stefnda Hallgrími þessi hross, fyrst Randver og Hæru nokkrum mánuðum síðar. Með stefnanda og stefnda hafi verið kunningsskapur. Í upphafi hafi staðið til að stefndi hefði afnot af hrossunum í skamman tíma. Dráttur hafi hins vegar orðið á því að hann skilaði þeim. Hafi stefnandi á árunum 2000 og 2001 ítrekað reynt að fá stefnda til að skila hrossunum. Stefndi hafi ávallt lofað því, en aldrei efnt það loforð sitt. Stefnandi hafi síðan fregnað að hrossin væru í vörslum stefndu Borgars Jens og Eyglóar. Hafi hann óskað eftir því við þau að fá hrossin afhent þar sem hann væri eigandi þeirra. Hefðu þau þá tjáð honum að stefndi Hallgrímur hefði ráðstafað hrossunum til þeirra upp í ógreidd vinnulaun. Í kjölfar þessa, nánar tiltekið í ársbyrjun 2003, hafi stefnandi gengið á fund stefndu Borgars Jens og Eyglóar og lagt fyrir þau gögn um eignarheimild sína á hrossunum. Hefðu stefndu þá óskað eftir því að kaupa hrossin af stefnanda, sem tekið hafi ágætlega í þá málaleitan. Ekkert hafi síðan frá þeim heyrst og hafi stefnandi þá ítrekað kröfu um að fá hrossin afhent. Þar sem engin viðbrögð hafi borist vegna þeirrar kröfu hans hafi hann á endanum misst þolinmæðina og sótt hrossin í hesthús stefndu Borgars Jens og Eyglóar 7. maí 2003. Hefðu þau kært þann verknað hans til lögreglu, sem í kjölfarið hafi lagt hald á hrossin og skilað þeim aftur til stefndu. Þá hafi stefnandi krafist þess að hrossin yrðu tekin úr vörslum þeirra með beinni aðfarargerð. Héraðsdómur hafi hins vegar með úrskurði 30. júní 2003 hafnað því að sú krafa hans næði fram að ganga, enda hefði ekki verið sýnt fram á það að eignarréttur stefnanda væri svo skýlaus og ótvíræður að fallast mætti á kröfu hans um innsetningu.

             Upplýst er að stefnandi höfðaði í lok árs 2003 mál á hendur stefndu Borgari Jens og Eygló til viðurkenningar á eignarrétti að þeim tveimur hrossum sem um ræðir í þessu máli. Það mál var hins vegar fellt niður þar sem nauðsynlegt var talið að beina þyrfti viðurkenningarkröfunni einnig að stefnda Hallgrími. Mál þetta var síðan þingfest 9. júní 2004.

             Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á því að óumdeilt sé að hann hafi keypt umrædd tvö hross á árinu 1999 og þar með orðið lögmætur eigandi þeirra. Stefnandi hafi aldrei selt stefnda Hallgrími hrossin og hann hafi því ekki haft heimild til að ráðstafa þeim til meðstefndu. Ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi Hallgrímur hafi eignast hrossin og haft heimild til að ráðstafa þeim. Stefndu Borgar Jens og Eygló hafi ekki heldur sýnt fram á það að þau hafi í raun keypt hrossin af stefnda Hallgrími. Byggir stefnandi á því að stefndu Borgar Jens og Eygló hafi í öllu falli ekki verið grandlaus um rétt stefnanda til hrossanna hafi stefndi Hallgrímur á annað borð ráðstafað þeim til þeirra. Þannig hafi þeim verið í lófa lagið að kanna hvort stefndi Hallgrímur væri skráður eigandi hrossanna í skrá Bændasamtakanna, en við þá athugun hefði komið í ljós að hrossin væru skráð á stefnanda.

             Í stefnu vísar stefnandi til stuðnings kröfum sínum til reglugerðar nr. 948/2002 um ræktun og uppruna íslenska hestsins og reglugerðar nr. 579/1989 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingu búfjár. Við munnlegan flutning málsins lýsti lögmaður stefnanda því yfir að þessar reglugerðir hefðu ekki þýðingu við úrlausn málsins. Eftir sem áður væri þó á því byggt að stefnandi væri skráður eigandi umræddra tveggja hrossa í skrám Bændasamtakanna.   

II.

             Skilað var einni greinargerð fyrir öll stefndu og sú krafa gerð þar að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda. Undir rekstri málsins og eftir úthlutun þess var því lýst yfir af hálfu þess lögmanns, sem líta verður svo á að hafi fram að því farið með málið fyrir hönd allra stefndu, að hann myndi ekki lengur gæta hagsmuna stefnda Hallgríms. Eftir það hefur sá stefndi ekki látið málið til sín taka.

Að því er málsatvik varðar taka stefndu fram að fullyrðing stefnanda um að hann hafi lánað stefnda Hallgrími þau hross sem um ræðir í málinu stangist á við þann framburð stefnda hjá lögreglu að hann hafi keypt hrossin af stefnanda. Þá hafi stefnandi sjálfur tjáð stefndu Borgari Jens og Eygló á sínum tíma að stefndi Hallgrímur hefði keypt hrossin af honum en ekki greitt fyrir þau. Hjá lögreglu hafi stefndi Hallgrímur jafnframt borið á þann veg að hann hafi selt meðstefndu hrossið Randver í mars 2001 og Hæru í ágúst sama ár. Kaupverð Randvers hafi verið 300.000 krónur og Hæru 400.000 krónur. Hafi salan verið gerð með vitund stefnanda. Þá taka stefndu Borgar Jens og Eygló fram að hrossin hafi ekki verið eigandamerkt, svo sem með frostmerkingu eða örmerkingu. Mótmæla stefndu þeirri fullyrðingu í stefnu að þau hafi verið grandsöm um betri rétt stefnanda til hrossanna þá er þau festu kaup á þeim, enda liggi henni ekkert til grundvallar.

             Stefndu Borgar Jens og Eygló mótmæla sérstaklega þeirri staðhæfingu stefnanda að þau hafi óskað eftir því að fá hrossin keypt af honum.

             Stefndu Borgar Jens og Eygló byggja sýknukröfu sína því að ótvírætt sé að þau séu eigendur þeirra hrossa sem viðurkenningarkrafa stefnanda tekur til og hann eigi því ekkert tilkall til þeirra. Hrossin hafi þau keypt af stefnda Hallgrími og greitt kaupverð þeirra að fullu. Stefnandi hafi ekki að nokkru leyti sýnt fram á eignarrétt sinn að hrossunum. Engin tæmandi skrá sé til yfir íslenska hesta sem veiti ótvíræða sönnun fyrir eignarrétti. Þvert á móti gangi þúsundir hesta kaupum og sölum án þess að það sé á nokkurn hátt skráð, enda sé engin skylda til að skrá þau. Sú skráning hjá Bændasamtökunum sem stefnandi vísar til hafi því enga þýðingu í málinu. Hún feli því ekki í sér sönnun fyrir eignarrétti stefnanda. Önnur fyrirliggjandi gögn staðfesti hins vegar eindregið að stefndu séu eigendur hrossanna. Vísa stefndu þar um til framangreinds framburðar meðstefnda hjá lögreglu. Þá liggi fyrir gögn sem sýni að stefndu hafi innt af hendi greiðslu til meðstefnda vegna kaupa þeirra á hrossunum af honum. Loks liggi fyrir gögn sem sýni að stefnda Eygló hafi á hestaþingi Mána 8. og 9. júní 2001 verið tilgreind sem eigandi Randvers og stefndi Hallgrímur sem eigandi Hæru.

             Stefndu vísa einnig til almennra reglna um þýðingu varslna fyrir sönnun eignarréttar. Á ýmsum sviðum réttarins njóti við reglna um opinbera skráningu eignarheimilda, sbr. ákvæði þinglýsingarlaga nr. 39/1978 að því er varðar fasteignir og skip stærri en fimm rúmlestir og ákvæði laga nr. 21/1966 að því er varðar loftför. Ökutækja- og skipaskráning sé einnig ígildi þinglýstrar eignarheimildar. Þegar kemur að sönnun fyrir eignarrétti að öðrum lausafjármuni hafi vörslur afgerandi þýðingu. Stefndu Borgar Jens og Eygló hafi haft vörslur umræddra tveggja hrossa nær óslitið síðastliðin þrjú ár. Bendi þessi aðstaða ótvírætt til þess að þau séu eigendur hrossanna.

             Stefndu vísa jafnframt, kröfum sínum til stuðnings, til almennra reglna um tómlæti og réttaráhrif þess. Stefndu Borgar Jens og Eygló hafi farið með hrossin sem sína eign síðastliðin tvö til þrjú ár, hirt þau, fóðrað og þjálfað og þar með aukið verðmæti þeirra. Hafi stefndu aldrei gefist tilefni til að efast um réttmæta eignarheimild sína. Fullyrðing í stefnu þess efnis að stefnandi hafi lánað stefnda Hallgrími hrossin og til hafi staðið að hann „hefði afnot hrossanna í skamman tíma“ sé fjarstæðukennd í ljósi þess að hrossin hafi verið búin að vera í vörslum stefnda Hallgríms og síðan stefndu í rúm þrjú ár þegar stefnandi hafi farið að gera tilkall til þeirra.

             Samandregið telja stefndu Borgar Jens og Eygló að með framburði stefnda Hallgríms hjá lögreglu, gagna um greiðslur frá þeim til hans, þeirrar staðreyndar að þau hafi haft vörslur hinna umdeildu hrossa í þrjú ár og tómlæti stefnanda í sama tíma liggi ótvírætt fyrir sönnun þess efnis að þau séu eigendur hrossanna. Kröfu stefnanda um að viðurkenndur verði eignarréttur hans að hrossunum verði því að hafna.       

III.

             Í málinu liggur frammi yfirlýsing Hjartar B. Halldórssonar þess efnis að stefnandi hafi keypt af honum hryssuna Hæru frá Vatnsleysu (IS1991258510) haustið 1999 og hafi eigandaskipti verið tilkynnt Búnaðarfélagi Íslands. Þá er á meðal gagna málsins yfirlýsing frá Skildi Stefánssyni um sölu hans á hestinum Randveri frá Enni (IS1992158440) til stefnanda árið 1999 og að eigandaskipti hafi verið tilkynnt Búnaðarfélagi Íslands í kjölfar sölunnar. Af þessum gögnum er ljóst að stefnandi varð eigandi umræddra hesta árið 1999. Er hann skráður eigandi þeirra samkvæmt Feng, sem er miðlægur gagnagrunnur fyrir íslenska hesta og vistaður hjá Bændasamtökum Íslands.

             Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þar skýrði hann svo frá að hann hafi lánað stefnda Hallgrími hestinn Randver í mars eða apríl 2000 og Hæru nokkru seinna, eða um haustið 2000. Með honum og Hallgrími hafi verið ágætis vinskapur á þessum tíma, en þeir hefðu kynnst í gegnum hestamennskuna. Hafi stefnandi viljað styðja við bakið á Hallgrími, sem á þessum tíma hafi átt erfitt uppdráttar af tilteknum ástæðum. Það hafi hann gert með því að lána Hallgrími þessa tvo hesta og þannig reynt að stuðla að því að hann gæti verið „maður með mönnum“. Upphaflega hafi staðið til að stefnandi fengi Randver aftur í sínar vörslur um haustið 2000, en Hallgrímur hafi þá óskað eftir því að fá að hafa hestinn áfram og stefnandi fallist á þá beiðni hans. Það hafi síðan dregist á langinn að Hallgrímur skilaði hestunum. Rakti stefnandi gang mála að þessu leyti í skýrslu sinni. Verður af þeirri lýsingu ráðið að stefnandi hafi í fyrstu orðið við óskum Hallgríms um að fá að hafa hestana lengur, en síðar hafi Hallgrímur með ósannindum og vífillengjum dregið það á langinn að skila þeim. Hafi verið komið fram á árið 2002 þegar Hallgrímur hafi tjáð stefnanda að hann væri búinn að láta meðstefndu fá hestana. Hefðu þau fóðrað annan hestinn og fengið hann sem greiðslu fyrir fóðrunina, en hinn hefðu þau í hyggju að kaupa. Hafi Hallgrímur óskað eftir því að fá að vinda ofan af þessu þegar stefnandi hafi tjáð honum að hann hefði enga heimild haft til að ráðstafa hestunum með þessum hætti. Á það hafi stefnandi fallist. Þá hafi hann hringt í stefnda Borgar Jens vegna málsins, en stefndi hafi þá verið staddur í útlöndum. Hafi stefndi sagt að þessu yrði kippt í liðinn þegar hann og stefnda Eygló kæmu heim frá útlöndum. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir. Hefðu þau fyrst fundað vegna málsins í janúar 2003. Þar hafi stefnandi boðið þeim að kaupa bæði hrossin á innkaupsverði þeirra, sem hafi verið 500.000 krónur. Á það hefðu stefndu fallist og samningur verið handsalaður. Dráttur hafi hins vegar orðið á að greiðsla bærist og í maí 2003 hafi stefnanda brostið langlundargeðið og hann sótt hestana í hesthús stefndu Borgars Jens og Eyglóar.

             Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði stefndi Borgar Jens svo frá að stefndi Hallgrímur hafi leigt pláss í hesthúsi hans og stefndu Eyglóar í Keflavík. Hafi hestarnir sem um ræðir í málinu komið í húsið árið 1999 eða 2000, Randver í maí og Hæra nokkrum mánuðum síðar. Kvaðst stefndi hafa vitað að hestarnir væru frá stefnanda komnir. Hallgrímur hafi hins vegar sagt meðstefndu að hann væri búinn að kaupa þá af stefnanda. Hefðu meðstefndu ekki haft ástæðu til að rengja þetta. Árið 2001 eða 2002 hefðu stefndi og stefnda Eygló síðan keypt hestana af Hallgrími. Hafi Hallgrímur þá haft á orði að stefnanda væri um þetta kunnugt. Ekki hefði verið kannað á þessum tímamarki hvernig eigendaskráningu hjá Bændasamtökum Íslands væri háttað. Hallgrímur og stefnandi hefðu á þessum tíma verið mestu mátar og stefndu ekki haft ástæðu til að ætla annað en að Hallgrímur hefði heimild til að ráðstafa hestunum til þeirra. Að hluta til hafi kaupverðið verið greitt með peningum, en að hluta með skuldajöfnuði. Þannig hafi Hallgrímur skuldað meðstefndu peninga og vinnulaun og hafi sú skuld verið notuð sem greiðsla fyrir hestana. Um áramótin 2002/2003 hafi stefnandi haft samband við stefnda vegna hestanna. Hefðu þeir fundað 18. febrúar 2003 og stefnandi þá framvísað gögnum úr eigendaskrá hjá Bændasamtökum Íslands sem að hans sögn áttu að sýna að hann væri eigandi hestanna og að Hallgrímur hefði enga heimild haft til að ráðstafa þeim með einum eða öðrum hætti. Þó hafi komið fram hjá stefnanda að hann hefði selt Hallgrími hestinn Randver, en greiðsla ekki borist. Hæru hafi Hallgrímur eingöngu haft að láni. Hafi orðið úr á þessum fundi þeirra að stefndi myndi aðstoða stefnanda við að fá Hallgrím til að greiða fyrir hestana. Þegar stefndi hafi haft samband við Hallgrím vegna málsins hafi Hallgrímur spurt um kaupverðið. Í kjölfarið hafi stefndi aftur rætt við stefnanda. Hafi stefnandi þá haft orð á því hvort stefndu Borgar Jens og Eygló vildu ekki kaupa hestana af honum og hafi verið rætt um 500.000 krónur í því sambandi. Kvaðst stefndi hafa lagt málið út á þann veg að ef hann næði 500.000 krónum frá Hallgrími þá væri málið búið. Hann hafi hins vegar ekki haft áhuga á því að greiða fyrir hestana aftur. Málin hafi síðan þróast á þann veg að enga peninga hafi verið að fá hjá Hallgrími. Eftir að hafa ráðfært sig við lögmann sinn hafi það orðið niðurstaða stefnda að honum bæri ekki skylda til að inna umrædda eða aðra lægri greiðslu af hendi til stefnanda.

             Engin efni eru til að hafna þeirri staðhæfingu stefndu Borgars Jens og Eyglóar að þau hafi árið 2001 keypt þá hesta, sem viðurkenningarkrafa stefnanda tekur til, af meðstefnda og að kaupverðið sé að fullu greitt. Þau eru hins vegar undir þá sök seld að það hvort þau njóti lögvarins réttar til hestanna ræðst af því hvort unnt sé að líta svo á, gegn andmælum stefnanda, að meðstefndi hafi haft heimild til að ráðstafa þeim með þessum hætti til þeirra.

             Á meðal gagna málsins er skjal sem hefur að geyma yfirlýsingu stefnda Hallgríms þess efnis að hann hafi keypt hestana Randver og Hæru af stefnanda og selt meðstefndu þá með vitund hans árið 2001, það er Randver í mars og Hæru í ágúst. Samræmist þessi tímasetning á sölu hestanna gögnum sem meðstefndu hafa lagt fram. Þá gaf stefndi skýrslu hjá lögreglu 10. maí 2003 í tilefni af lögreglurannsókn sem hófst vegna þeirrar aðgerðar stefnanda að sækja hestana í hesthús stefndu Borgars Jens og Eyglóar 7. sama mánaðar. Er í þeirri skýrslu haft eftir stefnda að hann hafi keypt Randver af stefnanda vorið 1999 fyrir 500.000 krónur „sem greiðast ættu þegar [hann] eignaðist peninga til þess“. Haustið 2000 hafi hann síðan skipt við stefnanda á hesti sem hafði fest kaup á en ekki greitt fyrir og hesti stefnanda Hæru. Um jöfn skipti hafi verið að ræða. Hann hafi síðan selt meðstefndu hestinn Randver í mars 2001 og Hæru í júlí eða ágúst sama ár.

             Sú staðhæfing stefnda Hallgríms að hann hafi keypt hestana Randver og Hæru af stefnanda er engum gögnum studd og engin vitni hafa verið leidd til að færa sönnur á hana.

             Svo sem sönnunarstöðu í málinu er háttað verður að leggja til grundvallar við úrlausn þess að stefndi Hallgrímur hafi fengið hestinn Randver til umráða í mars 2000 og Hæru um haustið það sama ár. Er í öllu falli óumdeilt að stefnandi hafi fram að því verið eigandi þeirra. Samkvæmt þessu og því sem rakið er hér að framan er ljóst að stefndi hafði haft hestana í sínum vörslum í um það bil eitt ár þegar hann seldi meðstefndu þá. Með stefnanda og stefnda Hallgrími var kunningsskapur á þessum tíma. Hefur ekki verið gert ósennilegt að umráð stefnda yfir hestunum verði rakin til þess og að þau eigi sér að öðru leyti þá skýringu sem stefnandi hefur gefið á þeim. Þá verður hér til þess að líta að stefndu Borgari Jens og Eygló var um það kunnugt þá er stefndi Hallgrímur kom með hestana í hesthús þeirra í Keflavík að þeir væru frá stefnanda komnir. Var þeim þannig í lófa lagið að ganga úr skugga um það hvort viðsemjandi þeirra hefði heimild til að ráðstafa hestunum til þeirra og tryggja sér eftir atvikum óræka sönnun fyrir eignarrétti sínum að þeim. Þá hefði könnun af þeirri hálfu á eigandaskráningu í Feng ein og sér gefið þeim tilefni til að viðhafa hér frekari aðgæslu, en ganga verður út frá því að þeim hafi verið um hana kunnugt.

Vörslur hlutar geta haft þýðingu þegar leyst skal úr því í vafatilvikum hverjum hann tilheyrir með réttu. Í því máli sem hér er til meðferðar þarf að skera úr um eignarrétt, en ekki aðra tilheyrslu. Er sýknukrafa stefndu Borgars Jens og Eyglóar og þar með sú krafa þeirra að staðfest verði að þau séu eigendur hestanna Randvers og Hæru meðal annars reist á því að þar sem stefndu hafi haft vörslur hestanna í svo langan tíma sem raun ber vitni verði hvað sem öðru að líta svo á að sönnur hafi verið færðar fyrir eignarrétti stefnda Hallgríms að þeim. Það er hins vegar mat dómsins með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ekki sé unnt að virða vörslur stefndu á þann veg að stefndi Hallgrímur teljist með þeim hafa skotið viðhlítandi stoðum undir þá staðhæfingu sína að hann hafi verið eigandi hestanna þegar hann seldi meðstefndu þá. 

             Samkvæmt öllu framansögðu eru ekki efni til annars en að líta svo á að stefndi Hallgrímur hafi á sínum tíma selt meðstefndu þá hesta sem um ræðir í málinu þrátt fyrir að eignarréttur að þeim væri í höndum annars aðila og án heimildar hans.

Engin efni eru til að líta svo á að stefnandi hafi sakir tómlætis fyrirgert þeim eignarrétti sem hann leitar viðurkenningar á með þessari málssókn sinni.

             Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið verður tekin til greina sú krafa stefnanda að viðurkenndur verði eignarréttur hans að hestunum Randveri frá Enni og Hæru frá Vatnsleysu.

             Eftir framangreindum málsúrslitum og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndu gert að greiða stefnanda samtals 300.000 krónur í málskostnað og svo sem nánar greinir í dómsorði. 

             Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð :

             Viðurkenndur er eignarréttur stefnanda, Sigurbjörns Bárðarsonar, að hestunum Hæru frá Vatnsleysu, IS1991258510, landnúmer 146423, og Randveri frá Enni, IS1992158440, landnúmer 146406.

             Stefndu Borgar Jens Jónsson og Eygló Einarsdóttir greiði óskipt stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.

             Stefndi Hallgrímur Jóhannesson greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.