Hæstiréttur íslands
Mál nr. 91/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Geðrannsókn
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Mánudaginn 19. febrúar 2007. |
|
Nr. 91/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Geðrannsókn. Dómkvaðning matsmanns.
L kærði úrskurður héraðsdóm, þar sem vísað var frá dómi kröfu um að X skyldi sæta geðrannsókn og að dómkvaddur yrði geðlæknir til að framkvæma rannsóknina. Ekki var fallist á að þeir annmarkar væru á kröfunni er leiða ættu til frávísunar hennar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2007, þar sem kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sæti geðrannsókn og dómkvaddur verði geðlæknir til að framkvæma rannsóknina var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að verða við fyrrgreindri kröfu.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Krafa sóknaraðila í málinu er tvíþætt. Lýtur hún annars vegar að því að varnaraðili sæti geðrannsókn, sbr. d. lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991, og hins vegar að því að dómkvaddur verði geðlæknir til að framkvæma geðrannsóknina, sbr. 1. mgr. 63. gr. sömu laga. Í fyrrnefnda ákvæðinu kemur fram að úrskurð dómara þurfi til að sakborningur verði látinn sæta sérstakri geðrannsókn nema fyrir liggi ótvírætt samþykki sakbornings. Ekki er þar áskilið að sá sem rannsókn stýrir leiti eftir samþykki sakbornings áður en krafist er úrskurðar af þessum toga. Þá eru ekki reistar skorður við því í lögum nr. 19/1991 að dómari taki samhliða þessu til meðferðar kröfu um að kunnáttumaður verði dómkvaddur samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laganna til að framkvæma geðrannsókn sem krafist er úrskurðar um. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að þeir annamarkar séu á kröfu sóknaraðila að leiða eigi til frávísunar hennar. Ber því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2007.
Með bréfi Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 29. janúar síðastliðinn, var þess óskað að X, [kt. og heimilisfang], sætti geðrannsókn og að dómkvaddur yrði geðlæknir til að framkvæma geðrannsóknina og að hann legði mat á hvort X hefði verið sakhæfur samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sunnudaginn 8. maí 2005. Jafnframt skyldi geðlæknirinn leggja mat á hvort refsing gæti borið árangur samkvæmt 16. gr. sömu laga eins og hagir X væru í dag. Um lagaheimild er vísað til 1. mgr. 63. gr. og d-liðar 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Tilefni beiðnar þessarar er að sunnudaginn 8. maí 2005 barst lögreglu tilkynning um að kærði hefði ruðst inn í bifreið og þvingað ökumann með aflsmunum til að fara úr bifreiðinni og hótað ökumanni lífláti. Hafi hann meðal annars sagst vera með hníf. Skömmu síðar barst lögreglu tilkynning um að bifreiðin hefið lent utan vegar og að ökumaðurinn hefði þvingað annan vegfaranda út úr annarri bifreið og ekið á brott. Kærði var handtekinn nokkru síðar og yfirheyrður 22. september sama ár. Mundi hann óljóst eftir atburðum og kvaðst hafa verið í fíkniefna- og lyfjaneyslu á þessum tíma. Játaði kærði að hafa beitt þvíngunum og hótunum til að ná umráðum bifreiðanna. Fram er komið í málinu að kærði hefur átt við geðræn veikindi að stríða.
Beiðni þessari var hafnað með bréfi dómsins 2. febrúar síðastliðinn og hefur lögreglustjóri með bréfi 8. þessa mánaðar, sem móttekið var næsta dag, krafist þess að úrskurðað verði um hana.
IX. kafli laga um meðferð opinberra mála (66.-77. gr.) hefur að geyma ákvæði um frumrannsókn sakamála. Segir í 67. gr. laganna að markmið rannsóknar sé að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar.
Í d-lið 1. mgr. 71. gr. laganna eru fyrirmæli um hvernig með skuli fara rannsókn á þroska og heilbrigðisástandi sakbornings sem lið í frumrannsókn máls. Segir þar að um þessi atriði skuli afla vottorða læknis og sálfræðings, ef ástæða er til, en ef vafi leiki á hvort ákvæði 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eigi við um hagi sakbornings er mælt svo fyrir að hann skuli látinn sæta sérstakri geðrannsókn til þess að leidd verði í ljós atriði sem geri dómara fært að meta sakhæfi hans. Segir í niðurlagi greinarinnar til þess þurfi úrskurð dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki sakbornings.
Geðrannsókn samkvæmt ofangreindu ákvæði er liður í gagnaöflun lögreglu við frumrannsókn sakamáls. Er sérstaklega mælt fyrir um málsmeðferð vegna slíkrar rannsóknar í niðurlagsákvæði nefndrar lagagreinar. Ljóst er af ákvæðinu að þar er ráðgert að sakborningur sé leiddur fyrir dómara, krafa um geðrannsókn borin undir hinn fyrrnefnda og honum gefinn kostur á að taka afstöðu til hennar. Samþykki sakborningur kröfuna er úrskurðar um hana ekki þörf. Ef kröfunni er hins vegar mótmælt ber dómara að úrskurða um hvort uppfyllt séu lagaskilyrði til þess að rannsóknin fari fram. Telji dómari svo vera kveður hann upp úrskurð þess efnis en það er síðan í verkahring lögreglu að hlutast til um að þar til bær sérfræðingur framkvæmi geðrannsóknina. Er þessi háttur á réttarframkvæmd í samræmi við áratuga dómvenju.
Samkvæmt 63. gr. laga um meðferð opinberra mála getur dómari, af sjálfsdáðum eða eftir ósk aðila, dómkvatt kunnáttumenn, einn eða fleiri, til að framkvæma mats- eða skoðunargerðir. Hér er um almennt ákvæði um dómkvaðningu matsmanna að ræða sem jafnframt ber þess merki að vera leifar frá gamla rannsóknarréttarfarinu þegar frumrannsókn mála var í höndum dómara. Svo sem áður greinir hafa lög um meðferð opinberra mála hins vegar að geyma sérákvæði um hvernig með skuli fara þegar um er að ræða rannsókn á geðheilbrigði sakbornings sem lið í frumrannsókn máls. Eiga ákvæði 63. gr. laganna því ekki við um kröfu þá er hér um ræðir heldur er, eins og fyrr greinir, sérstaklega mælt fyrir um það í þeim hvernig með skuli fara þegar um rannsókn á geðheilbrigði sakbornings er að ræða.
Samkvæmt framansögðu er málið ekki lagt fyrir dóminn á formlega réttan hátt. Ber því að vísa ofangreindri kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sjálfkrafa frá dómi.
Úrskurðinn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að dómkvaddur verði geðlæknir til að framkvæma geðrannsókn á X, [kt.], er vísað frá dómi.