Hæstiréttur íslands
Mál nr. 135/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 6. apríl 2005. |
|
Nr. 135/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. apríl nk. kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar lá fyrir kæra Húsasmiðjunnar hf. vegna tveggja vöruúttekta hjá fyrirtækinu 26. mars sl., sem greitt hafði verið fyrir með fölsuðum tékkum, annars vegar að fjárhæð 645.048 krónur en hins vegar að fjárhæð 302.478 krónur. Fyrir Hæstarétt hafa af hálfu sóknaraðila verið lögð nokkur ný gögn, þar á meðal afrit reikninga vegna þessara vöruúttekta, sem fundust við húsleit hjá varnaraðila eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Þá liggur nú fyrir að hluti varnings samkvæmt þessum reikningum hefur komið í leitirnar. Einnig hefur verið lagt fyrir Hæstarétt afrit af fölsuðum tékka að fjárhæð 230.695 krónur úr sama tékkhefti og tveir hinir fyrrnefndu, sem notaður var til að greiða fyrir vörur í versluninni Elkó 19. mars sl. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að [...] Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms
Reykjavíkur 2. apríl 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X
[...] Reykjavík, verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð
opinberra mála, nr. 19/1991, úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi allt til
þriðjudagsins 12. apríl nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að þriðjudaginn 29.
mars s.l. hafi A tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík hvarf á tékkhefti sínu
frá SPRON, Skólavörðustíg 11, Reykjavík. Hins vegar hafi hann ekki vitað
hvenær, eða með hvaða hætti tékkheftið hafi horfið, en talið hugsanlegt að það
hafi verið tekið úr eldhússkáp í íbúð að [...] Reykjavík, sem hann sé að gera
upp. Hvarfið hafi hins vegar uppgötvast
þegar í ljós hafi komið að falsaðir tékkar, sem höfðu verið notaðir í
viðskiptum við Húsasmiðjuna og Elkó, höfðu borist bönkum.
Miðvikudaginn 30. mars sl. hafi Smári Hilmarsson, hdl.,
haft samband við lögregluna í Reykjavík f.h. Húsasmiðjunnar. Tilefnið hafi
verið fyrirhuguð kæra vegna falsaðs
tékka úr hefti A, að fjárhæð 645.048 kr. sem notaður hafi verið í timbursölu
Húsasmiðjunnar við Súðarvog, Reykjavík, þann 26. mars sl. til kaupa á 150
dokaplötum. Vitað hafi verið að þær höfðu verið fluttar í bifreið á vegum Húsasmiðjunnar
hf. að V, Kópavogi, þriðjudagsmorguninn 29. mars sl. og skömmu síðar hafi þær
verið sóttar þangað af annarri vörubifreið.
Við nánari eftirgrennslan hafi verið talið að tveir
karlmenn, sem tengist þessu skjalafalsi, hafi komið í Húsasmiðjuna á
bílaleigubifreiðinni [...] þann 29. mars sl.
Leigutaki hafi reynst vera Z. Sama bifreið hafi einnig sést á þeim stað
þar sem vörunni hafi verið ekið að V, Kópavogi.
Z hafi verið handtekinn í gær kl. 15:30. Í yfirheyrslu hafi hann greint frá því að
hann farið með D nokkrum tvívegis í Húsasmiðjuna til viðskipta. Jafnframt segist hann hafa aðstoðað D við
umstöflun á gulbrúnum flekum að V, Kópavogi.
Aðspurður segist Z ekki þekkja nánari deili á þessum D.
Starfsmaður á lager Húsasmiðjunnar hafi hins vegar borið
kennsl á farþega [...] þann 29. mars sl. sem kærða. Hann hafi tekið við dokaplötunum í Húsasmiðjunni og farið með
bifreið fyrirtækisins að V, Kópavogi.
Hann hafi verið handtekinn í gærkvöldi kl. 20:29. Í yfirheyrslu hafi hann neitað sök. Hins vegar liggi fyrir í málinu
rithandarsýnishorn, gefið af kærða sem sé sláandi líkt þeirri rithönd sem sé á
fyrirliggjandi tékkum í málinu.
Lögreglan kveður rannsókn málsins vera á algjöru
frumstigi og ljóst að fleiri tékkar hafi verið notaðir úr umræddu hefti. Enn fremur eigi eftir að endurheimta þau
verðmæti, sem svikin hafi verið út með tékkunum, og rannsaka hvort fleiri
tengist málinu. Eftir sé að yfirheyra
þá kærða og Z og hugsanlega fleiri aðila vegna málsins.
Þeir Z og kærði séu
grunaðir um brot gegn 155. og 248. gr. almennra hegningarlaga, nr.
19/1940. Með vísan til framanritaðs,
framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 103 gr. nr. 19/ 1991, um
meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina
eins og hún sé fram sett.
Samkvæmt
framansögðu er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn 155. og
248. gr. almennra hegningarlaga. Verður fallist á það með lögreglu að hætta
kunni að vera á því að kærði muni spilla fyrir rannsókn málsins og torvelda að
unnt verði að endurheimta þau verðmæti sem meint brot kærða lúta að verði honum
sleppt úr gæslu.
Samkvæmt
framansögðu verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina með
vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála,
þó þannig að henni verður markaður skemmri tími í samræmi við það sem segir í
úrskurðarorði.
Ásgeir Magnússon
héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8.
apríl nk. kl. 15.00.