Hæstiréttur íslands
Mál nr. 120/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. febrúar 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með dómi Hæstaréttar 4. júní 2015 í máli nr. 731/2014 var meðal annars felld úr gildi lögbannsgerð sýslumannsins í Reykjavík 1. nóvember 2013, þar sem lagt var bann við því að sóknaraðili þessa máls notaði og hagnýtti sér vörumerki varnaraðila. Sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna lögbannsins og höfðaði því mál þetta til heimtu þess fjártjóns og miska sem hann telur lögbannið hafa valdið sér. Frestur til þess að höfða mál til heimtu bóta vegna lögbannsgerðar er þrír mánuðir frá því að þeim, sem bóta krefst, varð kunnugt um höfnun beiðni um gerðina, niðurstöðu staðfestingarmáls eða niðurfellingu gerðar af öðrum sökum, sbr. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda við þingfestingu máls að leggja fram stefnu og þau skjöl sem varða málatilbúnað hans eða hann byggir kröfur sínar á. Í stefnu skal greina svo glöggt sem verða má málsástæður og ber að lýsa þeim með gagnorðum og skýrum hætti svo að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Lagareglur þessar tryggja að stefnda sé fært að taka efnislega afstöðu til krafna stefnanda og að dómari geti lagt dóm á sakarefni málsins, sbr. 1. mgr. 96. gr. og 1. mgr. 99. gr. laganna.
Þótt málshöfðunarfrestur 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 sé skammur og ekkert sé því til fyrirstöðu eftir lögum nr. 91/1991 að sóknaraðili afli frekari sönnunargagna undir rekstri málsins, þar á meðal með því að afla samkvæmt IX. kafla laganna mats sérfróðs manns á því tjóni sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir, er til þess að líta að við þingfestingu þessa máls voru engin gögn lögð fram af hálfu sóknaraðila sem styðja kröfur hans, heldur eru kröfuliðir í stefnu eingöngu byggðir á eigin mati sóknaraðila. Málatilbúnaður sóknaraðila er því svo vanreifaður að óhjákvæmilegt er að vísa málinu frá héraðsdómi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, iGwater ehf., greiði varnaraðila, Icelandic Water Holdings ehf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. febrúar 2016.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. janúar sl., er höfðað með stefnu birtri 24. ágúst 2015.
Stefnandi er iGwater ehf., kt. [...], [...], Reykjavík, en stefndi er Icelandic Water Holdings hf., kt. [...], [...], Ölfusi, Árnessýslu. Fyrirsvarsmaður stefnanda er Helen Ekonomidis, kt. [...], [...], 270 Mosfellsbæ, en fyrirsvarsmaður stefnda er Jón Ólafsson, kt. [...], [...], London, NW8 6BX Englandi.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum miska- og skaðabætur að fjárhæð kr. 1.821.388.086,00 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Til vara að stefndi verði dæmdur til greiðslu miska- og skaðabóta að annarri lægri fjárhæð að álitum með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi neytir heimildar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015, og hefur einungis gert kröfu um að málinu verði vísað frá dómi og lagt fram greinargerð um það, auk þess að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað í þessum þætti málsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts, samkvæmt mati dómsins eða málskostnaðarreikningi.
Málavextir
Samkvæmt fram lögðum gögnum og málatilbúnaði aðila eru málavextir þeir að þann 2. september 2013 lagði stefndi fram eftirfarandi kröfur um lögbann hjá Sýslumanninum í Reykjavík:
„1. Að lagt verði lögbann við notkun og hagnýtingu stefnanda á eftirtöldum vörumerkjum stefnda:
A. „ICELAND GLACIER“ orðmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 674/2008.
B. „ICELAND GLACIER“, orð- og myndmerki., sbr. vörumerkjaskráningu nr. 1175/2007.
2. Að stefnanda verði gert að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem vörumerki stefnda nr. 1175/2007 og 674/2008 koma fyrir.“
Þann 29. október 2013 tók Sýslumaðurinn í Reykjavík svofellda ákvörðun:
„Ákvörðun sýslumanns:
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn sanni gerðarbeiðandi eða geri sennilegt að athöfn sú sem krafist er lögbanns við brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans á þann veg að réttindi hans fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Skv. 1. tl. 3. mgr. greinarinnar verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega.
Með vísan til framlagðra gagna og þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið í máli þessu telur sýslumaðurinn í Reykjavík að skilyrði framangreindrar 24. gr. laga nr. 31/1990 séu uppfyllt og leggur lögbann við notkun og hagnýtingu gerðarþola, Iceland Glacier Wonders ehf. , kt. 540507-1390, á eftirtöldum vörumerkjum gerðarbeiðanda:
a „ICELAND GLACIER“, orðmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 674/2008.
b „ICELAND GLACIER“, orð- og myndmerki, sbr. vörumerkjaskráning nr. 1175/2007.
Einnig er gerðarþola gert að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er, þar sem vörumerki gerðarbeiðanda nr. 1175/2007 og nr. 674/2008 koma fyrir, allt gegn því að gerðarbeiðandi leggi fram viðbótartryggingu sem endanlega er ákveðin kr. 33.500.000, eigi síðar en kl. 11:30 föstudaginn 1. nóvember nk.“
Kveður stefnandi að í kjölfar lögbannsins hafi hann breytt nafni sínu úr Iceland Glacier Wonders ehf. í iGwater ehf.
Stefndi mun hafa lagt fram viðbótartrygginguna og höfðaði hann staðfestingarmál sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 14. nóvember 2013.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu var kveðinn upp hinn 27. október 2014. Dómsorð Héraðsdóms Reykjavíkur hljóðaði þannig:
„Stefndi, Iceland Glacier Wonders ehf., skal vera sýkn af þeirri kröfu stefnanda, Icelandic Water Holdings hf., að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að nota og hagnýta sér vörumerkin ICELAND GLACIER orðmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 674/2008 og ICELAND GLACIER, orð- og myndmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 1175/2007.
Stefndi skal vera sýkn af þeirri kröfu stefnanda að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða form sem er þar sem vörumerki nr. 1175/2007 og 674/2008 koma fyrir.
Felld er úr gildi lögbannsgerð Sýslumannsins í Reykjavík, nr. L-24/2013, sem tekin var fyrir á skrifstofu sýslumannsembættisins hinn 29. október 2013 og lokið var 1. nóvember 2013, þar sem lagt var bann við notkun og hagnýtingu stefnda á vörumerkjunum ICELAND GLACIER orðmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 674/2008 og ICELAND GLACIER, orð- og myndmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 1175/2007.
Felld er úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík við lögbannsgerðina um að stefndi skuli fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem vörumerki nr. 1175/2007 og 674/2008 koma fyrir.
Stefnandi greiði stefnda kr. 700.000 krónur í málskostnað.“
Stefndi áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Íslands og var dómur kveðinn í Hæstarétti upp 4. júní 2015. Dómsorð Hæstaréttar hljóðaði þannig:
„Stefndi, Iceland Glacier Wonders ehf., er sýkn af kröfum áfrýjanda, Icelandic Water Holdings hf.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti“
Kveður stefnandi að með síðastgreindum dómi hafi endanlega verið staðfest að lögbannið hafi verið ólögmætt.
Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna lögbannsins enda hafi stefndi fylgt því eftir af mikill hörku og haft að fyrra bragði samband við smásöluverslanir þær, er selt hafi framleiðslu stefnanda og aðra viðskiptavini.
Kveðst stefnandi hafa orðið að farga öllum birgðum sínum og eyðileggja. Eins hafi orðið að fjarlægja úr smásöluverslunum og veitingahúsum það sem búið hafi verið að selja til þeirra aðila. Þá kveðst stefnandi hafa orðið fyrir verulegu sölutjóni þar sem markaðsstarf og markaðir hafi eyðilagst.
Kveður stefnandi tjón sitt felast í tapaðri sölu, missi hagnaðar, umbúðatjóni, tapaðri framleiðslu, glötuðu markaðsefni og markaðsstarfi. Auk þess sem fyrirtæki stefnanda hafi orðið fyrir verulegum álitshnekki vegna hins ólögmæta lögbanns, sem ekki enn sjái fyrir endann á.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst einkum byggja kröfur sínar á VII. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o. fl. nr. 31/1990. Í 1. mgr. 42. gr. tilvitnaðra laga segi efnislega að gerðarbeiðandi, stefndi, skuli bæta gerðarþola, stefnanda, þann miska og fjártjón þar á meðal spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum sem telja má að gerðin hafi valdið. Því sé ótvírætt að stefndi sé bótaskyldur fyrir öllu því tjóni, sem lögbannsbeiðni hans og lögbann það sem lagt var á að kröfu hans og staðið hafi frá 1. nóvember 2013 til 4. júní 2015, hafi valdið stefnanda.
Hið ólögmæta lögbann stefnda hafi orðið til þess að meira og minna öll sú áralanga vinna sem hafi farið í að setja vatnsframleiðslu stefnanda á markað hafi verið fyrir bí. Í raun sé tjón stefnanda, sem nemi því að hefja allan þann starfa að nýju og freista þess jafnframt að bæta fyrir það tjón og þann álitshnekki sem stefnandi hafi orðið fyrir í kjölfar hins ólögmæta lögbanns.
Í raun sé um altjón á fyrirtæki og vinnu stefnanda að ræða enda hafi hann orðið að byrja allt sitt starf frá grunni undir nýju vörumerki og þegar lögbannið hafi loks verið dæmt ólögmætt hafi stefnandi orðið að byrja aftur að kynna og markaðssetja sitt fyrra vörumerki.
Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir umtalsverðu sölutjóni, missi hagnaðar og álitshnekki á erlendum mörkuðum vegna hins ólögmæta lögbanns. Þar hafi stefnandi hvort tveggja orðið fyrir beinu tjóni og jafnframt fyrir miklum framlegðarmissi.
Dæma beri stefnanda bætur sem geri hann eins settan og lögbannið hefði aldrei verið sett. Því beri, við ákvörðun bóta, að taka tillit til þeirrar eðlilegu söluaukningar sem orðið hefði hjá stefnanda og miða við þá sölu sem hann ætti að vera með í dag ef stefndi hefði ekki á ólögmætan hátt skaðað starfsemi hans.
Stefnandi kveður aðalkröfu sína vera svofellda:
Bein útgjöld: Stefnandi hafi orðið fyrir verulegum beinum útgjöldum vegna lögbannsmáls stefnda, eftirfarandi staðfestingarmáls og svo áfrýjunar stefnda á staðfestingarmálinu til Hæstaréttar. Þá hafi stefnandi fengið til liðs við sig sérfræðinga í vörumerkjalögum og fleira. Nemi þessi kostnaður stefnanda USD 150.000 eða kr. 15.960.000. Stefnandi áskilur sér rétt til að leggja fram gögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar á þessari fjárhæð, verði henni mótmælt.
Vinna stefnanda: Stefnandi kveður fyrirsvarsmenn sína hafa þurft að eyða verulegum tíma vegna málsvarnar í lögbannsmálinu og staðfestingarmálinu. Vinna þessi hafi verið fólgin í fundum með lögmönnum, gagnaöflun og mörgu fleiru. Miðað við umfang og mikilvægi málanna verði að leggja til grundvallar að fyrirsvarsmenn stefnanda hafi eytt um það bil 20 tímum á viku í málaferlin frá því lögbannsbeiðni stefnda kom fram 2. september 2013 þar til greinargerð var skilað í staðfestingarmálinu hinn 19. desember 2013 eða í um 16 vikur. Það geri samtals 320 tímar sem fyrirsvarsmenn stefnanda hafi verið á launum hjá stefnanda en í vinnu sem hafi eingöngu verið tilkomin vegna ólögmætrar lögbannsbeiðnar stefnda. Tjón stefnanda vegna þessa nemi kr. 15.000 á klst. Eða samtals kr. 4.800.000. Stefnandi áskilur sér rétt til að leggja fram gögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar á þessari fjárhæð, verði henni mótmælt.
Spjöll á lánstrausti: Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir verulegum spjöllum á lánstrausti vegna hinna ólögmætu aðgerða stefnda. Stefnandi hafi orðið að þola fjölmiðlaumfjöllun um að hann væri að brjóta lög með starfsemi sinni, auk annarra aðgerða stefnda. Lögbann stefnda hafi leitt til þess að allar bankalínur stefnanda hafi lokast og stefnandi ekki fengið neina bankafyrirgreiðslu. Til þess að forða stefnanda frá gjaldþroti hafi eigendur og fyrirsvarsmenn stefnanda selt einbýlishús sitt að Svöluhöfða 17, Mosfellsbæ og lagt andvirðið inn í stefnanda. Stefnandi kveðst meta þetta tjón sitt á kr. 100.000.000 og áskilur sér rétt til að leggja fram gögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar á þessari fjárhæð, verði henni mótmælt.
Spjöll á viðskiptahagsmunum: Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir verulegum spjöllum á viðskiptahagsmunum sínum vegna hinna ólögmætu aðgerða stefnda. Stefnandi hafi orðið að þola fjölmiðlaumfjöllun um að hann væri að brjóta lög með starfsemi sinni, auk þess sem stefndi hafi sett sig í beint samband við viðskiptamenn hans, bæði munnlega og bréflega til að tilkynna þeim um meint lögbrot stefnanda. Kveðst stefnandi meta þetta tjón sitt á kr. 500.000.000 og áskilur sér rétt til að leggja fram gögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar á þessari fjárhæð, verði henni mótmælt.
Glötuð verðmæti: Stefnandi kveðst, vegna lögbanns stefnda, hafa orðið að farga öllum birgðum sínum, taka til baka og farga vörum sem seldar hafi verið í smásöluverslanir og veitingahús, bæði hérlendis og erlendis. Þá hafi stefnandi orðið að farga mjög miklu af umbúðum og auglýsingaefni sem hafi verið framleitt og greitt fyrir. Stefnandi kveðst meta tjón sitt vegna þessa þannig:
Alls kr. 23.466.086.
Kveðst stefnandi munu láta meta þetta tjón sitt verði þessari fjárhæð mótmælt.
Glatað markaðsstarf: Vegna breytinga á umbúðum utan um vörur stefnanda hafi glatast mjög mikið markaðstarf sem stefnandi hafi lagt í. Þá hafi stefnandi, meðan á lögbanni stóð, orðið að leggja í þá vinnu að hanna nýjar umbúðir, nýja vefsíðu, ný tölvupóstföng og hefja nýtt markaðsstarf til þess kynna vöru sína upp á nýtt. Nú þegar lögbann stefnda hafi verið dæmt ólögmætt þurfi stefnandi að leggja aftur í kostnað og vinnu við að kynna fyrra vörumerki sitt aftur. Kveðst stefnandi meta þennan kostnað sinn á kr. 480.000.000 og áskilur sér rétt til að leggja fram gögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar á þessari fjárhæð, verði henni mótmælt.
Töpuð sala: Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir mjög miklu tjóni vegna tapaðrar sölu, bæði hérlendis og erlendis. Tjón stefnanda hafi orðið vegna þess að hann hafi orðið að taka til baka vörur sínar frá smásöluaðilum og veitingahúsum eins og um væri að ræða ólögmæta framleiðslu. Salan hjá stefnanda hafi dottið mjög mikið niður, bæði vegna álitshnekkis, sem fyrirtæki hans hafi orðið fyrir og eins vegna þess að framleiðsluvörur hans í nýjum umbúðum hafi verið óþekktar og nýjar og selst því mun lakar en þær fyrri sem stefnandi hafi lagt í mikla vinnu við að markaðssetja og kynna. Kveðst stefnandi meta þetta tjón sitt kr. 547.162.000 og áskilur sér rétt til að leggja fram gögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar á þessari fjárhæð, verði henni mótmælt.
Miskabætur: Kveður stefnandi ljóst að tjón hans verði ekki að fullu bætt þótt hann fái bættan útlagðan kostnað, vinnutap, spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum, glötuð verðmæti, glatað markaðsstarf og tapaða sölu. Stefnandi hafi orðið fyrir verulegum álitshnekki vegna hins ólögmæta lögbanns, sem ekki sjái enn fyrir endann á. Álitshnekkir þessi skerði orðspor fyrirtækisins útávið og muni fyrirsjáanlega hafa veruleg áhrif á afkomu þess í framtíðinni bæði með minni sölu en orðið hefði ef stefndi hefði ekki farið út í hinar ólögmætu lögbannsaðgerðir sínar og eins með dýrara og erfiðara markaðsstarfi. Stefnandi kveðst meta miska sinn á kr. 150.000.000 og áskilur sér rétt til að leggja fram gögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar á miskafjárhæðinni, verði henni mótmælt.
Kveður stefnandi því að alls nemi tjón hans kr. 1.821.388.086.
Stefnandi kveður fjárhæðina byggja á eigin mati sínu, byggðu á gögnum hjá honum og þeim upplýsingum sem stefnandi hafi um sölu á vatni frá Íslandi þann tíma er lögbannið hafi staðið yfir. Kveðst stefnandi áskilja sér rétt til að láta dómkveðja matsmenn til að meta tjón sitt og breyta stefnufjárhæð til samræmis við niðurstöður þeirra. Þá tekur stefnandi jafnframt fram að hann áskilji sér rétt til þess að láta dómkveðja matsmenn til þess að meta það tjón stefnanda vegna lögbanns stefnda, sem ekki verði sannað með öðrum gögnum.
Varakrafa
Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaða- og miskabætur eftir álitum dómsins, skv. heimild í 1. mgr. 42. gr. l. nr. 31/1991 [sic.] um kyrrsetningu, lögbann o.fl., telji dómurinn að stefnanda hafi ekki tekist að sanna beint fjártjón sitt og fjárhæð miskabóta, eða nái ekki með matsgerð að sanna það. Kveðst stefnandi þá byggja á því að háttsemi stefnda hafi leitt til eiginlegrar rekstrarstöðvunar stefnanda og missis hagnaðar af þeim sökum og að í samræmi við venju og viðurkenndar kenningar hafi dómstólar heimild til að ákveða fjárhæð skaðabóta vegna rekstrarstöðvunar að álitum. Stefnandi telur ljóst, ef aðalkrafa nær ekki fram að gagna, að líta verði til þess að líkur séu fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefnanda. Lögbannsgerðin hafi leitt til eiginlegrar rekstrarstöðvunar stefnanda. Tjón vegna rekstrarstöðvunar og missis hagnaðar af þeim sökum beri tjónvaldi að bæta eins og annað tjón. Slík rekstarstöðvun eins og stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að hann hafi fyrir tilverknað stefnda verið sviptur öllum möguleikum til að stunda starfsemi sína, þ.e. þau lögmætu viðskipti sem tilgangur stefnanda skv. samþykktum kveði á um, verði almennt að teljast vera til þess fallin að valda tjóni fyrir missi hagnaðar og öðru tjóni vegna tilfallandi kostnaðar við að halda lágmarks starfsemi á þeim tíma, eins og t.d. að halda bækur félagsins, gera ársreikninga, telja fram til skatts og sérstaklega í þessu máli vinnu stefnanda við að halda uppi réttmætum kröfum félagsins á hendur stefnda. Sé viðurkennt að það sé almennt afar erfitt að sýna fram á raunverulegt tjón þegar um rekstrarstöðvun og missi hagnaðar af þeim sökum sé að ræða. Sönnunarbyrði leggist því sérlega þungt á stefnanda ef honum verði ætlað að sýna með óyggjandi hætti fram á raunverulegan missi hagnaðar og sýna fram á raunverulegan kostnað til þess að fá tjón sitt bætt. Þess vegna hafi dómstólar fallist á að dæma skaðabætur að álitum í slíkum málum og kveður stefnandi að það eigi einmitt við í máli þessu hvað varðar varakröfu hans og vísar til Hæstaréttardóma í málum nr. 1998 bls. 3398 og 1999 bls. 1709. Stefnandi telur að hann hafi gert það sennilegt að hann hafi orðið fyrir tjóni, eða a.m.k. leitt nægar líkur fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni, hann hafi gert grein fyrir því í hverju það tjón hans hafi falist og hver tengsl þess séu við atvik málsins og að dóminum sé því heimilt að dæma honum skaðabætur úr hendi stefnda að álitum.
Um lagarök kveðst stefnandi vísa til ákvæða laga um kyrrsetningu, lögbann o. fl. nr. 31/1990, einkum 42. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveðst mótmæla málatilbúnaði stefnanda í heild sinni sem röngum og ósönnuðum, þ.á m. málsástæðum og lýsingu stefnanda á málavöxtum.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á að málatilbúnaður stefnanda sé svo óskýr, órökstuddur og án stuðnings nokkurra sönnunargagna að stefnda verði ekki gert að grípa til varna gegn honum. Úr þessu verði ekki bætt undir rekstri málsins og því ljóst að vísa verði málinu frá dómi. Stefndi vísar m.a. til d.-, e.- og g. liðar 1. mgr. 80. gr., 1. mgr. 95. gr., 5. mgr. 101. gr. og 2. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi telur málatilbúnað stefnanda brjóta í öllum aðalatriðum gegn meginreglum laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað.
Stefndi kveður stefnanda hvorki hafa gert grein fyrir meintu tjóni sínu eða umfangi þess né heldur öllum grundvallarskilyrðum skaðabótaréttar, þ.m.t. meintri sök stefnda, tjóni stefnda [sic.], orsakatengslum þess við háttsemi stefnanda [sic.] og sennilegri afleiðingu.
Stefnandi hafi ekki lagt fram neina útreikninga, sundurliðun eða gögn til grundvallar kröfum sínum. Hið eina sem liggi til grundvallar hinni háu dómkröfu stefnanda séu hans eigin fullyrðingar um að hann telji meint tjón sitt nema svo og svo háum fjárhæðum. Ómögulegt sé fyrir stefnda að átta sig á hvaða atvik og forsendur liggi að baki hverjum bótalið fyrir sig eða við hvaða málsástæður stefnandi styðji kröfur sínar. Stefndi byggir á að útilokað sé að gera sér grein fyrir með hvaða hætti stefnufjárhæðin sé fundin og sé hún engum gögnum studd.
Stefndi kveður það vera á skjön við ákvæði laga nr. 91/1991 að stefnandi fullyrði að hann eigi kröfu á hendur stefnda vegna beinna útgjalda sem nemi kr. 15.960.000,- sem hvorki sé sundurliðuð né studd gögnum.
Stefndi kveður kröfu stefnanda um greiðslu bóta vegna vinnu stefnanda kr. 4.800.000 hvorki vera sundurliðaða né studda neinum gögnum. Vísar stefndi til þess að í stefnu sé notað orðalag líkt og „verður að leggja til grundvallar að fyrirsvarsmenn stefnanda hafi eytt um það bil 20 tímum á viku í málaferlin frá því að lögbannsbeiðni...“. Engar vinnuskýrslur eða önnur gögn liggi þó þessari fullyrðingu til grundvallar.
Þá kveður stefndi að svo virðist sem að þessum tveimur kröfuliðum sé ætlað að taka til krafna sem Hæstiréttur hafi þegar fjallað um, en í dómi Hæstaréttar frá 4. júní 2015 hafi verið fallist á málskostnaðarkröfu stefnanda í tengslum við rekstur lögbannsmálsins. Engin réttarfarskilyrði séu fyrir því að bera sömu kröfu aftur upp í öðru máli í þeirri von um að fá fram aðra niðurstöðu.
Stefndi kveður kröfu stefnanda um greiðslu bóta vegna meintra spjalla á lánstrausti, vegna meintra spjalla á viðskiptahagsmunum, vegna meintra glataðra verðmæta, vegna meints glataðs markaðsstarfs, vegna meintrar tapaðrar sölu og vegna meints miska vera algjörlega órökstuddar, þar sem ítrekað segi í stefnu: „Stefnandi metur þetta tjón sitt...“. Allir bótaliðir málsins byggi þannig á eigin mati stefnanda án nokkurra sönnunargagna þar um eða nánari rökstuðnings eða útskýringa. Stefndi bendir á að stefnandi leggur einungis fram þrjú dómskjöl við þingfestingu málsins. Í fyrsta lagi stefnu, í öðru lagi skjalaskrá og í þriðja lagi dóm Hæstaréttar í máli nr. 731/2014. Framangreind dómskjöl séu þau einu gögn sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á en stefnandi geri ekki einu sinni tilraun til að leggja fram þau gögn sem hann styðji sitt einhliða mat sitt um meint tjón á. Þá verði að telja að þessi kröfugerð stefnanda sé ósamrýmanleg dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2014, þar sem krafa stefnda hafi verið tekin til greina og stefnanda gert að afmá auðkennið „Iceland Glacier” í firmaheiti sínu að viðlögðum dagsektum.
Stefndi kveðst mótmæla hverjum og einum lið bótakröfu stefnanda sem og öllum samanteknum. Stefndi hafnar bótaskyldu sinni en telur bótakröfu stefnanda að auki svo óljósa og vanreifaða að stefnandi geti ekki fengið efnislega úrlausn um hana né verði stefnda gert að grípa til varna gegn slíkum málatilbúnaði, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi kveður ógerlegt að grípa til varna gegn málatilbúnaði stefnanda enda sé ómögulegt af efni stefnu og framlagðra gagna að gera sér grein fyrir á hverju málshöfðun stefnanda byggi.
Meint bótaskylda stefnda verði ekki byggð á fullyrðingum stefnanda einum og með vísan til 95. gr. laga nr. 91/1991 sé ljóst að honum beri skylda til að leggja fram öll gögn kröfum sínum til stuðnings þegar við þingfestingu máls. Það hafi stefndi ekki gert og sé málatilbúnaður hans því vanreifaður og málsgrundvöll skorti. Stefndi mótmælir því að stefnandi geti bætt úr slíkum grundvallar ágalla á málatilbúnaði á síðari stigum málsins enda væri stefnda þar með ókleift að grípa til varna í máli þessu með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.
Í íslensku réttarfari sé þess krafist að allar kröfur, málsástæður og gögn eigi að koma fram eins fljótt og mögulegt er, m.a. með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi verði ekki látinn bera hallann af því að stefnandi hafi ekki sannreynt tjón sitt með nokkru móti, eða svo mikið sem lagt fram nokkur gögn sem eigi að styðja meint tjón hans.
Stefnandi hafi þingfest mál sitt án þess að fullnægja ákvæði 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um framlagningu gagna og skýringar málsástæðna sem liggi til grundvallar málatilbúnaði stefnanda. Stefndi bendir á að fái stefnandi það tækifæri að afla matsgerðar í máli þessu og leggja fram, þá hafi hann ekki aflað frekari gagna til stuðnings kröfugerð sinni heldur hafi hann fyrst þá aflað einu gagnanna sem málatilbúnaður hans byggi á. Ljóst sé að slík matsgerð kæmi til með að raska málsgrundvellinum svo verulega að ekki yrði tækt að kröfur stefnanda fengju efnisdóm.
Heimild IX. kafla laga nr. 91/1991 til að óska dómkvadds mats undir rekstri máls sé til þess að aðilar máls geti aflað gagna um sérfræðileg atriði sem í ljós komi undir rekstri máls að færa þurfi sönnur á. Heimildin nái ekki til þess að bæta úr því sem illa hafi farið í málatilbúnaði stefnanda og bæta þannig upp fyrir skort á öllum gögnum við upphaf málsmeðferðar. Slík aðferðafræði stangist alfarið á við meginreglu 95. og 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 og raski málsgrundvelli þeim sem stefnandi hafi kosið að leggja upp með.
Að sama skapi sé ljóst að stefndi gæti ekki komið að andsvörum sínum með greinargerð heldur myndi slík matsgerð óhjákvæmilega raska jafnræði málsaðila. Stefndi hafi þann lögbundna rétt að fá tækifæri til að kynna sér málatilbúnað stefnanda og eiga þess sanngjarnan kost að verjast kröfum hans hvað alla þætti hans varðar. Í þeim tilfellum sem aflað er matsgerðar undir rekstri máls sé gerð sú krafa að matsgerðin sé til styrkingar kröfum og öðrum sönnunargögnum málsaðila. Í þessu máli liggi hins vegar engin gögn til grundvallar og sem útiloki stefnda þar með alfarið frá því að grípa til varna.
Ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 geri þá kröfu að málsgrundvöllur sé strax í upphafi svo skýr og greinilega markaður að stefndi geti brugðist við með málefnalegum rökum. Augljóst sé að málatilbúnaður stefnanda, sem byggi alfarið á eigin mati og getgátum stefnanda, geti ekki uppfyllt þessi skilyrði. Væri stefnanda gert kleift að afla matsgerðar á grundvelli málshöfðunar þessarar væri ekki aðeins ljóst að hann hefði þingfest stórkostlega vanreifaða kröfu heldur myndi hann undir rekstri málsins gjörbreyta öllum málsgrundvelli án þess að stefnda yrði gert kleift að grípa til varna. Úr þessari vanreifun geti stefnandi því ekki bætt undir rekstri málsins og þannig leitast við að bæta úr þeim annmörkum sem séu á málatilbúnaði hans.
Þá kveður stefndi að varakrafa stefnanda um bætur að álitum bæti ekki fyrir hinn vanreifaða málatilbúnað. Sömu rök eigi við og um aðalkröfu stefnanda að því er varði það að stefndi geti ekki gripið til varna gegn varakröfu stefnanda þegar hann hafi ekki leitast við að styðja hana nokkrum gögnum. Stefndi telur jafnframt ljóst að enginn grundvöllur sé fyrir dómara til að ákvarða slíka fjárhæð á grundvelli engra gagna sem sýnt geti fram á tilvist eða umfang meints tjóns stefnanda. Gera verði þá lágmarkskröfu til stefnanda að hann leggi viðhlítandi grunn að sönnun um meint fjártjón sitt sem og umfang þess.
Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda sé stefnda gert að skila greinargerð áður en frekari gagnaöflun stefnanda fer fram. Gegn slíkum málatilbúnaði sé ljóst að jafnræði aðila sé raskað í öllum meginatriðum enda ljóst að stefnda myndi ekki gefast tækifæri til að verjast kröfugerð stefnanda og þeim tölum og gögnum sem hún kynni að byggja á á síðari stigum málsins, yrði stefnanda veitt tækifæri til að leiðrétta hinn vanreifaða málatilbúnað. Að gera stefnanda kleift að fá efnisúrlausn krafna sinna í máli þessu gerði það að verkum að stefnendur fengju hvatningu til að þingfesta vanreifuð mál, án nokkurs rökstuðnings eða gagna til grundvallar kröfum sínum, í því skyni að útiloka stefndu frá því að taka til efnisvarna á fullnægjandi máta. Leiði allt framangreint til þess að vísa verði kröfum stefnanda frá dómi.
Kveður stefndi kröfu sína um frávísun styðjast við fjölmörg dómafordæmi. Að lokum bendir stefndi á að framangreindir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda geti leitt til frávísunar ex officio.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 1. mgr. 80. gr., 1. mgr. 95. gr., 5. mgr. 101. gr. og 2. mgr. 111. gr., ásamt 2. mgr. 99. gr. laganna. Um málskostnað vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en vegna greiðslu virðisaukaskatts til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu gerir stefnandi háar fjárkröfur vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna lögbanns þess sem að framan er lýst. Er samkvæmt kröfugerð hans um að ræða bæði fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón, en stefnandi krefst bæði skaðabóta og miskabóta.
Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn um meint tjón sitt, en framlögð gögn hans eru eins og áður segir stefna, skjalaskrá og afrit dóms Hæstaréttar ásamt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Er þetta í ósamræmi við 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991. Hefur stefnandi ekki gert kröfur um að leggja fram frekari tiltekin gögn í málinu, hvorki fyrir né eftir að frávísunarkrafa stefnda kom fram, en áskilið sér rétt til þess í stefnu verði kröfum hans mótmælt.
Stefnandi flokkar meint tjón sitt niður í nokkra flokka eins og að framan er lýst og verður fjallað um kröfur hans í þeirri röð.
Stefnandi gerir kröfur um bætur vegna beinna útgjalda sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna lögbannsmálsins, staðfestingarmálsins og áfrýjunar á því. Kveður stefnandi tjón sitt samkvæmt þessu nema kr. 15.960.000. Ekki er gerð fyrir því í hverju tjónið felst a.ö.l. en því að stefnandi kveðst hafa fengið til liðs við sig sérfræðinga í vörumerkjalögum „og fleira“. Krafan er þannig algerlega vanreifuð og er dóminum ófært að taka afstöðu til hennar og stefnda jafnframt ófært að verjast henni. Fullnægir stefnan að þessu leyti ekki ákvæðum e liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki betur séð en að stefnandi sé hér að setja fram kröfu vegna málskostnaðar sem hann hafi orðið fyrir í framangreindu máli, en um kröfu hans um málskostnað hefur þegar verið dæmt í því máli og gengur því þessi þáttur krafna stefnanda í málinu gegn ákvæðum 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi gerir kröfur um bætur vegna vinnu fyrirsvarsmanna stefnanda sem þeir hafi þurft að eyða tíma í vegna málsvarnar í lögbannsmálinu og staðfestingarmálinu. Kveður stefnandi vera um að ræða 320 tíma sem hafi farið í vinnuna, sem er þó hvorki lýst frekar né heldur hvaða fólk sé þarna um að ræða. Verðleggur stefnandi vinnustundina á kr. 15.000, án þess þó að gera nokkra grein fyrir þeirri fjárhæð. Styðst þetta ekki við nein gögn. Fullnægir þessi kröfuliður ekki ákvæðum e liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki betur séð en að stefnandi sé hér aftur að setja fram kröfu vegna málskostnaðar sem hann hafi orðið fyrir í framangreindu máli, en um kröfu hans um málskostnað hefur þegar verið dæmt í því máli og gengur því þessi þáttur krafna stefnanda í málinu gegn ákvæðum 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi gerir kröfur um bætur vegna spjalla á lánstrausti, sem m.a. hafi orðið vegna ótilgreindrar fjölmiðlaumfjöllunar. Engin nánari grein er gerð fyrir þessu, en fram kemur að bankalínur hafi lokast og stefnandi ekki fengið neina bankafyrirgreiðslu. Þá kveður stefnandi að til að forða stefnanda gjaldþroti hafi eigendur og fyrirsvarsmenn stefnanda selt einbýlishús sitt og lagt inn á stefnanda. Ekki verður séð hvernig það getur tengst meintu tjóni stefnenda, en eigandi og fyrirsvarsmenn stefnanda eru ekki aðilar að þessu dómsmáli. Er málatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmi við e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi gerir kröfur um bætur vegna spjalla á viðskiptahagsmunum. Kveðst hann hafa orðið fyrir verulegum slíkum spjöllum, m.a. vegna ótilgreindrar fjölmiðlaumfjöllunar, en ekki er gerð nein nánari grein fyrir þessu. Er málatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmi við e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi gerir kröfur um bætur vegna glataðra verðmæta, en hann kveðst hafa þurft að farga öllum sínum birgðum og vörum. Er ekki gerð sérstök grein fyrir þessu að öðru leyti en því að í stefnu er tafla á enskri tungu, sem er í ósamræmi við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Er málatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmi við e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi gerir kröfur um bætur vegna glataðs markaðsstarfs, sem hann kveður tilkomið vegna breytinga á umbúðum utan um vörur sínar. Hafi þurft að leggja í mikinn kostnað við hönnun á nýjum umbúðum, vefsíðu og tölvupóstföngum, en jafnframt við að hefja nýtt markaðsstarf. Þá þurfi hann nú að leggja í kostnað og vinnu við að kynna vörumerki sitt, en ekki kemur neitt fram um það hvort sú vinna hafi farið fram eða hvort stofnað hafi verið til þess kostnaðar. Þá verður ekki betur séð en að samsláttur verði hér við síðasta greindan kröfulið, en í töflu þeirri sem honum fylgir er liður með fyrirsögninni „DAMAGED MARKETING WORK“. Er að öðru leyti engin grein gerð fyrir þessu ætlaða tjóni og er málatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmi við e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi gerir kröfur um bætur vegna tapaðrar sölu. Tjónið hafi orðið vegna þess að stefnandi hafi orðið að taka til baka vörur sínar frá smásöluaðilum og veitingahúsum og hafi salan dottið mjög niður. Ekki er gerð nein frekari grein fyrir þessu og er málatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmi við e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi gerir kröfur um miskabætur og kveður í því sambandi að tjón hans verði ekki að fullu bætt þó hann fái bætt allt það meinta tjón sem að ofan er lýst, en hann hafi orðið fyrir verulegum álitshnekki sem skerði orðspor fyrirtækisins og muni hafa áhrif í framtíðinni. Er ekki gerð nein grein fyrir þessu meinta tjóni að öðru leyti og er að auki óljóst hver er lagagrundvöllur þessarar kröfur og hvort stefnandi er að vísa til fjárhagslegs eða ófjárhagslegs tjóns, en stefnandi er lögaðili. Er að öðru leyti engin grein gerð fyrir þessu ætlaða tjóni og er málatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmi við e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Eru allar fjárhæðir í kröfu stefnanda órökstuddar með öllu og ógjörningur að glöggva sig á því hvernig þær eru tilkomnar.
Er samkvæmt framansögðu óhjákvæmilegt að vísa aðalkröfu stefnanda frá dómi í heild sinni.
Stefnandi gerir kröfu um það til vara að honum verði dæmdar skaða- og miskabætur eftir álitum dómsins samkvæmt heimild í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990. Um þetta vísar stefnandi til nefnds ákvæðis laga nr. 31/1990 og byggir á því að háttsemi stefnda hafi leitt til rekstrarstöðvunar og missis hagnaðar af þeim sökum. Samkvæmt venju og viðurkenndum kenningum hafi dómstólar heimild til að ákveða skaðabætur vegna rekstrarstöðvunar að álitum. Sé ljóst að ef aðalkrafa hans nái ekki fram að ganga þá hafi verið leiddar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefnanda [sic.]. Viðurkennt sé að almennt sé afar erfitt að sýna með óyggjandi hætti fram á raunverulegt tjón og missi hagnaðar við rekstrarstöðvun. Sönnunarbyrði um tjónið leggist því sérlega þungt á stefnanda ef honum sé ætlað að sýna með óyggjandi hætti fram á raunverulegan missi hagnaðar og raunverulegan kostnað til að fá tjón sitt bætt.
Vera kann að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna lögbanns þess sem lagt var á að kröfu stefnda í máli þessu. Í framangreindu ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 er heimild til að dæma bætur að álitum ef ljóst þykir að fjárhagslegt tjón hafi orðið en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess. Í máli þessu hagar hins vegar þannig til að stefnandi hefur gert afar takmarkaða grein fyrir meintu tjóni sínu í stefnu og er öll umfjöllun um það takmörkuð og almennt orðuð. Er ekkert að finna í stefnu eða framlögðum gögnum til að dómara, eða stefnda, megi vera unnt að glöggva sig á umfangi meints tjóns stefnanda. Er þannig ekki við neitt að styðjast fyrir dóminn til að dæma bætur að álitum í málinu. Er þannig varakrafan sama marki brennd og aðalkrafan að því leyti að framsetning hennar og umfjöllun í stefnu svarar ekki kröfum e liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, en jafnframt eru engin gögn henni til stuðnings sbr. það sem áður sagði um þetta sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991. Er óhjákvæmilegt að vísa varakröfunni frá dómi af þessum sökum.
Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu benti lögmaður stefnanda á það að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 sé aðeins 3 mánaða frestur til að höfða mál til heimtu skaðabóta skv. 42. gr. laganna frá því þeim, sem bóta krefst, varð kunnugt um höfnun beiðni um gerðina, um niðurstöðu staðfestingarmáls eða um niðurfellingu gerðar af öðrum sökum. Hafi hann af þeim sökum ekki getað aflað matsgerðar til stuðnings kröfum stefnanda. Þetta getur hins vegar ekki breytt því að málatilbúnaður stefnanda verður allt að einu að uppfylla kröfur 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og aðrar kröfur sem gerðar eru til málshöfðunar. Þá getur þetta ekki hindrað stefnanda í að leggja fram önnur gögn máli sínu til stuðnings. Jafnframt vísaði lögmaður stefnanda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 268/2011 um að heimilt geti verið að afla matsgerðar þrátt fyrir að frávísunarkrafa hafi komið fram. Vegna þessa er þess að geta að jafnvel þó að stefnandi myndi afla matsgerðar til stuðnings kröfum sínum, þá getur það ekki orðið til þess að stefnan uppfylli frekar þær kröfur sem gerðar eru til stefnu í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Verður samkvæmt framansögðu málinu vísað frá dómi.
Rétt er að stefnandi greiði stefnda málskostnað og er hann ákveðinn kr. 400.000 að meðtöldum virðisaukaskatti og að virtum stefnukröfum og umfangi málsins.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, iGwater ehf., greiði stefnda, Icelandic Water Holdings hf., kr. 400.000 í málskostnað.