Hæstiréttur íslands
Mál nr. 445/2001
Lykilorð
- Flutningssamningur
|
|
Fimmtudaginn 6. júní 2002. |
|
Nr. 445/2001. |
Friðgerður Pétursdóttir(Kristján Ólafsson hrl.) gegn Samskipum hf. (Sveinn Skúlason hdl.) |
Flutningssamningur.
Vörugámar, sem F hafði fengið senda frá Danmörku, urðu af óútskýrðum ástæðum innlyksa á vörugeymslusvæði S hf. í Reykjavík. Upp kom ágreiningur um hvort F bæri að greiða S hf. leigu fyrir gámana og rekstur á kælikerfi þeirra. Óumdeilt var að S hf. hafði tekið að sér flutning á umræddum gámum til Ólafsvíkur (Ó) F að kostnaðarlausu. Af þeim sökum þótti verða að ganga út frá því að S hf. hafi borið að ljúka þeirri samningsskyldu sinni og koma vörunni á ákvörðunarstað áður en félagið gat farið að krefja F um greiðslu gámaleigu eða annarra gjalda vegna þess að sendingarinnar var ekki vitjað í tíma. Tekið var fram að hafi ætlun S hf. verið að krefja um slík gjöld áður en flutningi var lokið, bar félaginu nauðsyn á að orða slíka skilmála með skýrum og ótvíræðum hætti, en svo hafði ekki verið gert. Venja, sem S hf. hélt fram að myndast hefði í viðskiptum aðilanna, var talin ósönnuð. Þá var engu talið breyta að tveir gámanna hefðu ekki verið tollafgreiddir fyrr en eftir að því tímabili lauk sem leigu var krafist fyrir. F var samkvæmt þessu sýknuð af kröfum S hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 3. október 2001. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 14. nóvember 2001 og áfrýjaði hún á ný 7. desember sama árs með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Áfrýjandi krefst þess aðallega að sér verði aðeins gert að greiða stefnda 111.873 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 104.345 krónum frá 1. nóvember 1999 til 29. mars 2000 og af 111.873 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að auk ofangreindrar greiðslu verði sér „ekki gert að greiða geymslugjöld af fleiri en tveimur gámum til áramótanna 2000/2001.“ Hún krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málavextir eru þeir að áfrýjandi mun á árinu 1999 hafa keypt allmikið magn af frosnu sandsíli, sem ætlað var til beitu, af Thorkil Grøn A/S í Danmörku. Mun hún hafa greitt seljandanum fyrir flutning vörunnar til Ólafsvíkur. Sandsílið mun hafa verið sent til áfrýjanda í 13 frystigámum, sem hver um sig hafði að geyma um 25 tonn. Mun stefndi hafa annast flutning meginhluta vörunnar frá Danmörku samkvæmt samkomulagi við seljanda hennar eða fulltrúa hans. Af ástæðum, sem aðilana greinir á um, urðu síðustu fjórir frystigámarnir innlyksa á vörugeymslusvæði stefnda í Reykjavík. Snýst ágreiningur þeirra um hvort áfrýjanda beri að greiða stefnda leigu fyrir gámana og rekstur á kælikerfi þeirra.
Samkvæmt farmbréfi, sem gefið var út í Árósum 10. september 1999, voru tveir af síðastnefndum frystigámum fluttir með Helgafelli, skipi stefnda. Var áfrýjandi tilgreind sem viðtakandi á farmbréfinu. Þar voru Árósar tilgreindir sem fermingarhöfn en Reykjavík sem losunarhöfn. Ekki var fyllt út í þann reit farmbréfsins, sem ætlaður var fyrir afhendingarstað framhaldsflytjanda („Place of delivery by on-carrier“). Var í farmbréfinu meðal annars tekið fram að afhenda skyldi tilgreindum viðtakanda eða fulltrúa hans í losunarhöfn eða afhendingarstað eftir því sem við ætti. Eftir komu skipsins til Reykjavíkur sendi stefndi áfrýjanda komutilkynningu og reikning vegna uppskipunar, vörugjalds og afgreiðslugjalds. Komutilkynningin var ódagsett. Í henni var Reykjavík tilgreind sem „losunarhöfn (POD)“ og Ólafsvík sem „ákvörðunarstaður (PLD)“. Í tilkynningunni var tekið fram að gámaleiga reiknist fyrir vörusendingu, sem ekki hefur verið sótt sjö dögum eftir komu til Reykjavíkur. Í tilkynningunni voru einnig upplýsingar um vöruna og þau gjöld, er á hana féllu við uppskipun og afgreiðslu. Reikningurinn var dagsettur 15. september 1999. Á honum voru hliðstæðar upplýsingar og í komutilkynningunni, sem að framan eru raktar, þar á meðal að Ólafsvík væri ákvörðunarstaður. Þar var að auki tilgreint að gjald fyrir geymslu á dag væri 7.232,94 krónur. Var áfrýjandi með reikningnum krafin um greiðslu á 102.007 krónum vegna uppskipunar, vörugjalds og afgreiðslugjalds auk virðisaukaskatts. Á bakhlið reikningsins var tekið fram að gámaleiga reiknist fyrir vörusendingar, sem ekki hafi verið sóttar sjö dögum eftir komu til ákvörðunarstaðar. Samkvæmt útskrift úr viðskiptamannabókhaldi stefnda greiddi áfrýjandi reikninginn 17. september 1999 eða tveim dögum eftir útgáfu hans. Ekki liggja fyrir gögn um tollafgreiðslu þessarar sendingar, en fullyrðingu áfrýjanda um að sendingin hafi verið tollafgreidd skömmu eftir komu hennar til landsins hefur ekki verið mótmælt af stefnda.
Hinir tveir gámarnir, sem mál þetta varðar, komu til landsins með skipi stefnda Arnarfelli. Farmbréf vegna þessarar sendingar er ekki meðal gagna málsins. Í ódagsettri komutilkynningu varðandi þessa sendingu komu fram atriði hliðstæð þeim, sem tilgreind voru í áðurnefndri komutilkynningu varðandi fyrri sendinguna, þar á meðal að ákvörðunarstaður væri Ólafsvík. Reikningur vegna uppskipunar- og afgreiðslugjalda er ekki meðal gagna málsins, en af útskrift úr viðskiptamannabókhaldi stefnda verður ráðið að hann hafi verið að fjárhæð 106.337 krónur, gefinn út 6. október 1999 og greiddur af áfrýjanda 22. sama mánaðar að viðbættum 1.329 krónum í vexti og vanskilagjald. Þessi sending var samkvæmt greiðslukvittun sýslumannsins í Stykkishólmi ekki tollafgreidd fyrr en 22. desember 2000.
Stefndi sendi áfrýjanda fyrst reikning vegna leigu gáma í fyrri sendingunni 26. september 1999. Þann 26. október sama árs sendi stefndi áfrýjanda reikning vegna leigu á öllum gámunum og síðan mánaðarlega eftir það, síðast 26. júní 2000. Er mál þetta höfðað til greiðslu reikninga þessara, sem og tveggja reikninga, er varða annað og áfrýjandi hefur fallist á fyrir Hæstarétti að henni sé skylt að greiða.
Eins og fyrr greinir hafði stefndi áður flutt allmarga gáma af sandsíli, sem áfrýjandi hafði keypt frá Danmörku af sama félagi og með sömu kjörum. Um þennan flutning og framkvæmd hans nýtur við takmarkaðra gagna í málinu. Þannig liggja hvorki fyrir farmbréf, komutilkynningar eða reikningar vegna uppskipunar og komugjalda vegna þeirra sendinga né upplýsingar um hvar eða hvenær þær voru tollafgreiddar. Af gögnum málsins er þó ljóst að stefndi taldi um tíma að áfrýjandi ætti að greiða fyrir flutning vörunnar frá Reykjavík til Ólafsvíkur, en ákvað síðan að beina kröfum sínum í þeim efnum til seljanda vörunnar, sem hann náði síðar samkomulagi við. Er ekki ágreiningur milli aðila um að stefnda hafi borið að flytja gámana til Ólafsvíkur áfrýjanda að kostnaðarlausu og verður ekki séð af gögnum málsins að vafi eða ágreiningur um greiðslu kostnaðar við þann flutning hafi valdið því að gámarnir urðu innlyksa í Reykjavík. Flutning gáma frá Reykjavík til Ólafsvíkur annaðist Rúnar Benjamínsson, sem starfaði á þeim tíma sem sjálfstæður verktaki fyrir stefnda.
II.
Eins og að framan greinir er óumdeilt að stefndi tók að sér flutning á umræddum gámum til Ólafsvíkur áfrýjanda að kostnaðarlausu. Verður af þeim sökum að ganga út frá því að stefnda hafi borið að ljúka þeirri samningsskyldu sinni og koma vörunni á ákvörðunarstað áður en hann gat farið að krefja áfrýjanda um greiðslu gámaleigu eða annarra gjalda vegna þess að sendingarinnar var ekki vitjað í tíma, enda er óumdeilt að áfrýjandi greiddi með skilum uppskipunar- og afgreiðslugjöld vegna gámanna. Hafi ætlun stefnda verið að krefja um slík gjöld áður en flutningi vörunnar var lokið bar honum nauðsyn á að orða slíka skilmála með skýrum og ótvíræðum hætti. Eins og sést af framanröktum gögnum var svo ekki. Þannig var bæði í komutilkynningu og reikningi vegna uppskipunar- og afgreiðslugjalda tekið fram að ákvörðunarstaður vörunnar væri Ólafsvík, en misræmi var þó í texta þessara skjala varðandi gámaleigu, þar sem í komutilkynningu sagði að gámaleiga reiknist fyrir vörusendingu, sem ekki hefur verið sótt sjö dögum eftir komu til Reykjavíkur, en í texta reiknings sagði að gámaleigan reiknist fyrir vörusendingu, sem ekki er sótt sjö dögum eftir komuna til ákvörðunarstaðar.
Stefndi heldur því og fram að í viðskiptum aðila hafi myndast sú venja að áfrýjandi leitaði til Rúnars Benjamínssonar, þess verktaka, sem gámana flutti á vegum stefnda frá Reykjavík til Ólafsvíkur, og bæði hann að færa sér gámana þegar hún óskaði þess og það hentaði henni að lokinni tollafgreiðslu þeirra. Áfrýjandi andmælir því að slík venja hafi myndast. Eins og að framan er rakið eru ekki teljandi gögn í málinu um fyrri vörusendingar til stefnda. Framburður Rúnars Benjamínssonar fyrir héraðsdómi er óskýr um þetta atriði. Þó verður af honum ráðið að Magnús Snorrason, eiginmaður áfrýjanda, hafi látið hann vita að það væru komnir gámar sem „þyrftu að koma vestur“ og hafi Rúnar svo flutt þá. Einnig kemur fram í framburði hans að Magnús hafi komið til hans í sambandi við flutning gámanna, gengið hafi verið frá pappírunum fyrir sunnan og hann sótt gámana „í gegnum Samskip“ eftir að þeir voru klárir til flutnings. Aldrei hafi hann flutt gáma fyrr en þeir voru tilbúnir hjá stefnda og búið að afgreiða þá og tollafgreiða. Í framburði sínum fyrir héraðsdómi bar Magnús að gámarnir hefðu átt að koma „automatiskt“ til Ólafsvíkur. Þar sem ekki nýtur við um þennan flutning frekari gagna verður ekki talið gegn andmælum áfrýjanda að stefnda hafi tekist að sýna fram á að venja sú, sem hann heldur fram, hafi myndast í viðskiptum aðilanna.
Þá hefur stefndi bent á að tveir umræddra gáma hafi ekki verið tollafgreiddir fyrr en í desember 2000, löngu eftir að því tímabili lauk, sem leigu er krafist fyrir í máli þessu, og því hafi ekki verið unnt að flytja þá til Ólafsvíkur. Samkvæmt 69. gr tollalaga nr. 55/1987 er farmflytjanda, sem flytur vörur til landsins, heimilt að flytja þær milli tollumdæma, enda séu þær fluttar til ákvörðunarstaðar, sem er tollhöfn, og í viðurkennda vörugeymslu. Í framkvæmd mun ákvæðinu hafa verið beitt svo að vörugeymslur utan tollhafna hafi verið viðurkenndar í þessu skyni og flutningur milli tollumdæma í þær heimilaður. Flutningur til Ólafsvíkur í slíkra geymslu myndi samkvæmt þeirri framkvæmd heimill, þótt Ólafsvík sé hvorki aðaltollhöfn samkvæmt 1. mgr. 28. gr. tollalaga með áorðnum breytingum né hafi verið gerð að tollhöfn með reglugerð samkvæmt 2. mgr sömu greinar. Ekki liggur fyrir í málinu hvort slík geymsla hefur verið viðurkennd á umræddum ákvörðunarstað vörunnar, en af framansögðu virðist ljóst að það var í valdi stefnda að leita viðurkenningar á slíkri geymslu eða afla sér heimildar til notkunar slíkrar geymslu á þeim stöðum, sem hann tók að sér að flytja vörur til. Getur hann því ekki borið það fyrir sig að honum hafi verið ómögulegt að flytja vörurnar ótollafgreiddar til Ólafsvíkur. Hafi hann ekki haft aðgang að slíkri geymslu þar bar honum að vekja sérstaka athygli áfrýjanda á því ef hann hugðist af því tilefni heimta af henni gámaleigu áður en vörurnar voru komnar á umsaminn áfangastað. Þar sem stefndi gætti þess ekki svo sannað sé verður greiðsluskylda áfrýjanda varðandi leigu fyrir þessa tvo gáma heldur ekki reist á þessum grunni.
Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi sýknuð af kröfu stefnda vegna leigu og rekstrarkostnaðar af umræddum gámum. Þar sem áfrýjandi hefur fyrir Hæstarétti fallist á greiðslu þeirra reikninga, sem að öðru lúta, verður hún dæmd til að greiða áfrýjanda 111.873 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Friðgerður Pétursdóttir, greiði stefnda, Samskipum hf., 111.873 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 104.345 krónum frá 1. nóvember 1999 til 29. mars 2000 og af 111.873 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 24. ágúst sl. af Samskipum hf., kt. 440986-1539, Holtabakka v/Holtaveg, Reykjavík, á hendur Friðgerði Pétursdóttur, kt. 111043-2999, Brautarholti 26, Ólafsvík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til greiðslu skuldar að fjárhæð 8.313.692 krónur með dráttarvöxtum af 220.387 krónum frá 26. október 1999 til 1. nóvember 1999 en af 325.182 krónum frá þeim degi til 26. nóvember 1999 en af 765.697 krónum frá þeim degi til 26. desember 1999 en af 1.491.127 krónum frá þeim degi til 16. febrúar 2000 en af 2.222.914 krónum frá þeim degi til 26. febrúar 2000 en af 3.822.099 krónum frá þeim degi til 26. mars 2000 en af 4.585.716 krónum frá þeim degi til 29. mars 2000 en af 4.593.244 krónum frá þeim degi til 26. apríl 2000 en af 5.315.727 krónum frá þeim degi til 26. maí 2000 en af 6.713.929 krónum frá þeim degi til 26. júní 2000 en af 8.313.692 krónum frá þeim degi til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 26. október 2000 en síðan árlega. Krafist er málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi að skaðlausu að mati dómsins.
Stefnda krefst sýknu og að henni verði dæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi stefnanda.
Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að stefnda keypti beitusíli af West Ship/Thorkil Grön a/s í Hanstholm í Danmörku á árinu 1999 og greiddi seljanda fyrir vöruna og flutning hennar til Ólafsvíkur. Stefnandi flutti vöruna til Reykjavíkur en þaðan átti hún að fara með flutningabíl til Ólafsvíkur. Varan var flutt í frystigámum og fóru þeir allir til stefndu í Ólafsvík að undanskildum fjórum þeirra sem hafa verið í vörslu stefnanda frá því þeir komu til Reykjavíkur frá Danmörku í september 1999.
Krafa stefnanda í málinu er vegna ógreiddra gjalda, flutnings og leigu á nokkrum þessara gáma á tímabilinu 31. ágúst 1999 til 26. júní 2000. Ekki hefur öðrum reikningum verið andmælt af hálfu stefndu en þeim sem eru vegna gámaleigu. Í því sambandi er deilt um það hvers vegna gámarnir fjórir voru ekki fluttir alla leið til Ólafsvíkur en af hálfu stefndu er því haldið fram að það hafi verið vegna þess að stefnandi hafi neitað að flytja þá á sinn kostnað þangað. Þessu er mótmælt af hálfu stefnanda og því haldið fram að stefnda hafi ekki hirt um að taka við vörunni og greiða gjöld af henni.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Krafa stefnanda er byggð á tíu reikningum vegna ógreiddra gjalda og fyrir flutning og gámaleigu auk virðisaukaskatts. Reikningunum er af hálfu stefnanda lýst þannig:
|
Númer: |
Útgáfudagur: |
Gjalddagi: |
Fjárhæð: |
|
504517 |
26/09/1999 |
26/10/1999 |
220.837 krónur |
|
533461 |
01/10/1999 |
01/11/1999 |
104.345 " |
|
522173 |
26/10/1999 |
26/11/1999 |
440.515 " |
|
544864 |
26/11/1999 |
26/12/1999 |
725.430 " |
|
563953 |
26/12/1999 |
26/01/2000 |
731.787 " |
|
580744 |
26/01/2000 |
26/02/2000 |
762.569 " |
|
598596 |
26/01/2000 |
kredit |
- 158.598 " |
|
598598 |
26/01/2000 |
26/02/2000 |
995.214 " |
|
600895 |
26/02/2000 |
26/03/2000 |
763.617 " |
|
602536 |
29/02/2000 |
29/03/2000 |
7.528 " |
|
616391 |
26/03/2000 |
26/04/2000 |
722.483 " |
|
635231 |
26/04/2000 |
kredit |
- 119.581 " |
|
633610 |
26/04/2000 |
26/05/2000 |
787.288 " |
|
635232 |
26/04/2000 |
26/05/2000 |
730.495 " |
|
652269 |
26/05/2000 |
26/06/2000 |
777.702 " |
|
673385 |
26/06/2000 |
26/07/2000 |
822.061 " |
Saman myndi fjárhæðir þessar stefnufjárhæðina, 8.313.692 krónur. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir greiðslutilmæli og sé stefnandi því knúinn til að innheimta hana með dómi.
Af hálfu stefnanda er því mótmælt að stefnandi hafi vegna ágreinings um flutningskostnað komið í veg fyrir að varan yrði afhent. Rót vandans liggi í misskilningi af hálfu stefndu um magn vörunnar. Hún hafi því ekki hirt um að fá alla vöruna tollafgreidda og að greiða lögboðin gjöld af henni svo og að veita umræddum frystigámum viðtöku.
Stefnandi vísar til laga um meðferð einkamála og almennra reglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu skuldara. Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnanda vísað til þess að réttarstaða málsaðila væri grundvölluð á ákvæðum siglingarlaga en stefnandi væri farmflytjandi vörunnar og stefnda eigandi hennar. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og kröfu um málskostnað við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda lýsir málsatvikum þannig að á árinu 1999 hafi hún keypt a.m.k. 13 gáma af beitusíli af fyrirtækinu West Ship/Thorkil Grön a/s í Hanstholm í Danmörku. Seljandi beitunnar hafi samið um flutninginn við fyrirtækið Blue Water Shipping A/S í Danmörku, sem hafi aftur samið við stefnanda nema í tveimur tilvikum, en þá hafi verið samið við Eimskip hf. Stefnda hafi samið við seljandann þannig að hún hafi greitt fyrir vöruna og flutninginn alla leið til Ólafsvíkur. Fyrst í stað hafi vöruflutningabíll frá Ólafsvík flutt gámana vestur þegar þeir komu til Reykjavíkur. Bíllinn hafi verið í einkaeigu en bílstjórinn hafi þjónað stefnanda. Hvorugur málsaðila hafi talið sig eiga að greiða fyrir þennan flutning en samningar hafi síðan tekist við Blue Water Shipping A/S um þetta og hafi þeir verið stefndu óviðkomandi. Stefnda hafi því aldrei greitt stefnanda fyrir flutning gámanna þar sem greitt hafi verið fyrir hann til Thorkil Grön A/S í Danmörku inni í verði beitusílisins. Gámarnir hafi yfirleitt verið tollafgreiddir við komuna til Ólafsvíkur í gegnum sýsluskrifstofuna í Stykkishólmi.
Fjórir gámanna hafi komið með einhverju millibili til Reykjavíkur með skipum stefnanda haustið 1999. Þar hafi þeir orðið innlyksa vegna þess að stefnandi hafi neitaði að flytja þá vestur á sinn kostnað. Stefnda hafi neitað að sjá um flutninginn. Á meðan hafi gámarnir legið á svæði stefnanda í Sundahöfn tengdir rafmagni. Stefnandi sé nú að rukka stefndu fyrir rafmagn og leigu á gámum frá hausti 1999. Stefndu sé ekki kunnugt um að stefnandi hafi haft samband við sendanda vörunnar um hvernig komið væri þrátt fyrir að hafa fyrr á árinu verið í viðræðum við sendanda um kostnað við flutning annarra gáma til stefndu. Vorið 2000 hafi lögmaður stefndu ásamt eiginmanni hennar, Magnúsi, farið á fund starfsmanna stefnanda vegna ítrekaðra símtala þeirra við Magnús um þessi mál. Fulltrúar stefnanda hafi sett fram tilboð um uppgjör, þá liðlega 6 milljón króna kröfu fyrir gámaleigu og rafmagn, þannig að stefndu hafi verið ætlað að greiða 2,5 milljónir króna. Þar sem hún hafi talið að það væri ekki sitt að greiða þessi gjöld, enda hefði hún greitt fyrir vöruna til Ólafsvíkur, hafi hún vísað þessu boði frá. Lögmaður stefndu hafi haft frumkvæði að því að hafa samband við seljanda vörunnar og tjá honum hvernig komið væri. Hann hafi staðfest að stefnda hefði greitt fyrir sjóflutning og flutning til Ólafsvíkur. Stefnda sé þeirrar skoðunar að gámarnir séu á athafnasvæði stefnanda á ábyrgð annarra en sín. Kröfunni sem stefnt er út af sé því ranglega beint að henni.
Stefnda telur að milli sín og stefnanda hafi ekkert réttarsamband myndast. Hún hafi samið um og greitt seljanda vörunnar fyrir flutning hennar alla leið til Ólafsvíkur. Varan sé enn í umsjá flutningsaðila, stefnanda og/eða Blue Water A/S í Danmörku. Þessir aðilar verði að leysa úr ágreiningi sem greinilega sé þeirra á milli.
Kröfuna um málskostnað byggir stefnda á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstöður
Samkvæmt því sem fram hefur komið flutti stefnandi umrædda fjóra gáma frá Danmörku til Reykjavíkur í september 1999 en óumdeilt er að stefnda er viðtakandi vörunnar. Aðrir gámar, sem samningar stefndu náðu einnig til, voru fluttir til Ólafsvíkur með flutningabíl. Stefnda greiddi seljanda vörunnar fyrir flutning hennar alla leið til Ólafsvíkur en stefnandi fékk greitt fyrir flutninginn frá Reykjavík á áfangastað og gerði upp við flutningabifreiðastjórann þegar það átti við. Ekki kemur fram í gögnum málsins að stefnandi hafi neitað að afhenda stefndu vöruna í gámunum fjórum vegna ágreinings um hver ætti að bera kostnað vegna flutningsins frá Reykjavík til Ólafsvíkur. Verður að telja þá staðhæfingu stefndu ósannaða gegn andmælum stefnanda.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefnda hafi ekki greitt fyrir uppskipun svo og vörugjöld og afgreiðslugjöld en skuld stefndu við stefnanda vegna þessa kemur fram á reikningi nr. 533461, sem dagsettur er 1. október 1999, sbr. dskj. nr. 4, þótt þar sé um að ræða önnur gámanúmer en þau sem gámarnir fjórir hafa samkvæmt öðrum gögnum málsins. Af hálfu stefndu er því ekki haldið fram að gjöld þessi hafi verið greidd. Óumdeilt er að tveir gámanna sem um ræðir voru ekki tollafgreiddir fyrr en löngu síðar. Bifreiðastjórinn, Rúnar Benjamínsson, staðfesti fyrir dóminum að hann hafi oft flutt gáma fyrir stefndu til Ólafsvíkur en aldrei fyrr en eftir að þeir höfðu verið tollafgreiddir og voru tilbúnir til flutnings. Með vísan til þess sem fyrir liggur verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að ástæðan fyrir því að gámarnir voru ekki fluttir alla leið til Ólafsvíkur hafi verið sú að stefnda hafi ekki hirt um að taka við þeim.
Réttarsamband málsaðila er að rekja til þess að stefnda er viðtakandi vörunnar og stefnandi flutti vöruna til landsins. Staðhæfingar stefndu um að varan sé ekki á hennar ábyrgð á athafnasvæði stefnanda og að á milli málsaðila sé ekkert réttarsamband eru með vísan til þessa svo og þess sem hér að framan kemur fram ekki studdar fullnægjandi rökum.
Með vísan til þess sem hér að framan segir verður að fallast á að stefnandi hafi réttilega beint kröfum að stefndu fyrir leigu á umræddum frystigámum. Reikningunum fyrir gámaleiguna hefur að öðru leyti ekki verið andmælt af hálfu stefndu. Reikningum stefnanda fyrir flutning og vegna ógreiddra gjalda er ómótmælt af hálfu stefndu. Samkvæmt þessu ber að taka kröfur stefnanda ásamt dráttarvöxtum, sem ekki er mótmælt, til greina.
Rétt þykir að stefnda greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Friðgerður Pétursdóttir, greiði stefnanda, Samskipum hf., 8.313.692 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 220.387 krónum frá 26. október 1999 til 1. nóvember 1999 en af 325.182 krónum frá þeim degi til 26. nóvember 1999 en af 765.697 krónum frá þeim degi til 26. desember 1999 en af 1.491.127 krónum frá þeim degi til 16. febrúar 2000 en af 2.222.914 krónum frá þeim degi til 26. febrúar 2000 en af 3.822.099 krónum frá þeim degi til 26. mars 2000 en af 4.585.716 krónum frá þeim degi til 29. mars 2000 en af 4.593.244 krónum frá þeim degi til 26. apríl 2000 en af 5.315.727 krónum frá þeim degi til 26. maí 2000 en af 6.713.929 krónum frá þeim degi til 26. júní 2000 en af 8.313.692 krónum frá þeim degi til greiðsludags en dráttarvextir leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 26. október 2000, og 150.000 krónur í málskostnað.