Hæstiréttur íslands

Mál nr. 621/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


                                                         

Þriðjudaginn 2. október 2012.

Nr. 621/2012.

A

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

gegn

B og

C

(Gizur Bergsteinsson)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. september 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2012, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði. 

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði. 

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Gizurar Bergsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur til hvors þeirra.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2012.

                Með beiðni, sem dagsett er 6. september sl. og þingfest hinn 17. þ.m. hafa B, kt. [...], og C, kt. [...], farið þess á leit að sonur þeirra, A, [...] verði sviptur sjálfræði í 2 ár.  Um aðild sóknaraðila vísast til a- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.  Kröfunni er mótmælt. 

Meðal gagna málsins er staðfest vottorð Tómasar Zoëga geðlæknis þar sem fram kemur varnaraðili haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, aðsóknargeðklofa, sem hann hafi veikst af á árinu 1994.  Hafi hann oftar en tuttugu sinnum vistast á geðsjúkrahúsi af þeim sökum.  Hafi hann síðast verið lagður inn á geðdeild 29. júlí sl. í geðrofsástandi eftir að hafa verið á þvælingi í bænum í marga daga, illa til reika, óhreinn og með miklar sveppasýkingar á fótum. Geti varnaraðili ekki séð um sig sjálfur, taki ekki nauðsynleg lyf og hafi ekkert sjúkdómsinnsæi.  Sé nauðsynlegt að svipta hann sjálfræði í allt að 2 ár til þess að tryggja það að hann fái nauðsynleg lyf en það verði ekki gert með öðrum ráðum en að svipta hann sjálfræði. 

Óttar Guðmundsson geðlæknir, sem stundað hefur varnaraðila að undanförnu, hefur komið fyrir dóminn og borið á sama veg.  Sé varnaraðili mjög veikur af aðsóknargeðklofa og hafi litla stjórn á lífi sínu.  Hann sé framtakslaus og einangri sig og hafi lítið eða ekkert sjúkdómsinnsæi.  Álítur læknirinn að tveggja ára sjálfræðis-svipting sé nauðsynleg til þess að tryggja það að varnaraðili fái nauðsynlega læknismeðferð.

                Dómarinn álítur að nægilega sé í ljós leitt að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum.  Ber því að taka beiðni sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili, A, [...], skuli sviptur sjálfræði í 2 ár.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað af máli þessu, eins og greinir nánar í úrskurðarorði.  Þóknun skipaðra talsmanna málsaðilanna er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Varnaraðili, A [...] er sviptur sjálfræði í 2 ár. 

                Kostnaður, þ.m.t. þóknun til skipaðra talsmanna aðilanna í málinu, Gizurar Bergsteinssonar hrl. 150.000 krónur og Stefán Karls Kristjánssonar hdl.  100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.