Hæstiréttur íslands
Mál nr. 171/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Kærufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Miðvikudaginn 19. mars 2014. |
|
Nr. 171/2014.
|
Sparnaðarsjóður Íslands ehf. (Ágústína Pálmarsdóttir fyrirsvarsmaður) gegn Íslandsbanka hf. (Elvar Örn Unnsteinsson hrl.) |
Kærumál. Kærufrestur. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem meðal annars var staðfest aðfarargerð um fjárnám í fasteignum S ehf. Kæra barst ekki héraðsdómi fyrr en að liðnum kærufresti og samkvæmt því var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2014 sem barst héraðsdómi degi síðar en Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2014, þar sem meðal annars var staðfest aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík 16. október 2012 um fjárnám í tilgreindum fasteignum. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að ógilt verði fyrrgreind aðfarargerð sýslumanns, en til vara að hún verði látin ná til lægri fjárhæðar. Einnig er krafist „ógildingar [hins kærða úrskurðar] hvað varðar þá hluta dómsorðs sem snúa að staðfestingu á umræddri aðfarargerð og dæmdum málskostnaði á hendur sóknaraðila.“ Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur var ekki sótt þing af hálfu sóknaraðila við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 17. febrúar 2014. Fyrir liggur að héraðsdómari boðaði lögmann sóknaraðila til þinghaldsins. Með tölvubréfi til héraðsdómarans 14. febrúar 2014 upplýsti lögmaður sóknaraðila að hann yrði ekki viðstaddur uppkvaðninguna. Hinn 17. sama mánaðar sendi lögmaðurinn síðan tölvupóst til dómarans og spurði hvort úrskurður lægi fyrir. Því erindi svaraði dómarinn um hæl sama dag og kvaðst hafa sent lögmanninum úrskurðinn. Samkvæmt 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989, er kærufrestur tvær vikur og byrjar hann að líða þegar málsaðili eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um úrskurð eða dómsathöfn. Talið verður að þessi frestur hafi byrjað að líða þegar við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar, þar sem lögmaður sóknaraðila hafði verið boðaður til þinghaldsins og tilkynnt að úrskurðurinn yrði þá upp kveðinn, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 20. september 2010 í máli nr. 513/2010. Er kæra barst héraðsdómi 4. mars 2014 var kærufrestur liðinn. Samkvæmt því verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Sparnaðarsjóður Íslands ehf., greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2014.
Þetta mál var þingfest 27. september 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 14. janúar sl.
Sóknaraðili er Sparnaðarsjóður Íslands, Kringlunni 4-6, Reykjavík, en varnaraðili er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. 011-2012-07387, sem fram fór 16. október 2012 að kröfu varnaraðila, verði ógilt. Einnig krefst sóknaraðili þess ,,að allar fullnustugerðir byggðar á meintri kröfu sem ofangreind fjárnámsgerð útlistar séu stöðvaðar þar til fyrir liggur endanleg úrlausn dómstóla um lögmæti, fjárhæð og aðfararhæfi kröfunnar. Til vara er [þess] krafist að fullnustugerðum á grundvelli fjárnámsgerðarinnar sé frestað á meðan málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.“ Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík frá 16. október 2012 í máli nr. 011-2012-07387. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Málavextir
Hinn 18. apríl 2011 var í Héraðsdómi Reykjavíkur kveðinn upp dómur í máli nr. E-2070/2010 sem varnaraðili höfðaði gegn félaginu Eignageir ehf. Með dóminum var félagið dæmt til að greiða varnaraðila 215.825.818 krónur og 150.000 krónur í málskostnað, en kröfu varnaraðila um dráttarvexti var vísað frá dómi.
Á fasteignunum að Skólabrú 2, fastanúmer 200-2769 og Lækjargötu 10, fastanúmer 200-2756, báðum í Reykjavík, hvíla tryggingarbréf sem Eignageir ehf. gaf út til Glitnis banka hf. Ekki er um það deilt að varnaraðili hefur tekið við réttindum Glitnis banka hf. vegna þessara tryggingarbréfa. Tryggingarbréfið sem hvílir á fasteigninni að Skólabrú 2 er gefið út 14. júlí 2007, auðkennt nr. 99946 og hvílir nú á 1. veðrétti eignarinnar. Í fyrirsögn bréfsins segir m.a.: ,,Tryggingarbréf-Allsherjarveð erlendir gjaldmiðlar.“ Fram kemur í bréfinu að það sé til tryggingar á öllum skuldum og fjárskuldbindingum Eignageirs ehf. við Glitni banka hf., þar með talið gengismun, ,,samtals allt að jafnvirði“ 85 milljónir króna. Næst á eftir þessum texta er tafla sem skiptist í tvo dálka, með fyrirsögnunum ,,Mynt“ og ,,Fjárhæð myntar“. Í töfluna eru ritaðar fjárhæðirnar 1.040.604 svissneskir frankar og 69.572.335 japönsk jen. Fyrir neðan töfluna segir: ,,eða jafngildi þeirrar fjárhæðar á hverjum tíma í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum [...] eða í íslenskum krónum ...“. Fram kemur í bréfinu að við vanefnd sé ,,heimilt að fella alla skuldina/allar skuldirnar í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar og ganga að veði þessu“. Fram kemur að útgefanda beri að greiða stimpilgjald og þinglýsingargjald af bréfinu. Fasteignin var á þessum tíma í eigu Eignasögu ehf.
Tryggingarbréfið sem hvílir á fasteigninni að Lækjargötu 10 er gefið út 26. október 2007, auðkennt nr. 104633 og hvílir nú á 1. veðrétti eignarinnar. Í fyrirsögn bréfsins segir m.a. ,,Tryggingarbréf-Allsherjarveð erlendir gjaldmiðlar“. Fram kemur í bréfinu að það sé til tryggingar á öllum skuldum og fjárskuldbindingum Eignageirs ehf. við Glitni banka hf., þar með talið gengismun, ,,samtals allt að jafnvirði“ 65 milljónir króna. Næst á eftir þessum texta er tafla sem skiptist í tvo dálka, með fyrirsögnunum ,,Mynt“ og ,,Fjárhæð myntar“. Í töfluna eru ritaðar fjárhæðirnar 640.520 svissneskir frankar og 63.476.563 japönsk jen. Fyrir neðan töfluna segir: ,,eða jafngildi þeirrar fjárhæðar á hverjum tíma í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum [...] eða í íslenskum krónum ...“. Fram kemur í bréfinu að við vanefnd sé ,,heimilt að fella alla skuldina/allar skuldirnar í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar og ganga að veði þessu“. Fram kemur að útgefanda beri að greiða stimpilgjald og þinglýsingargjald af bréfinu. Fasteignin var á þessum tíma í eigu Eignasögu-Trausts ehf.
Með aðfararbeiðni, móttekinni hjá sýslumanninum í Reykjavík 30. ágúst 2012, óskaði varnaraðili eftir því að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila í fasteignum hans að Skólabrú 2 og Lækjargötu 10 til tryggingar skuld að fjárhæð 251.956.140 krónur. Þar af var höfuðstóll 215.825.818 krónur, dráttarvextir frá 8. apríl 2011 til 22. ágúst 2012 voru 35.910.650 krónur, málskostnaður var 138.459 krónur, virðisaukaskattur var 12.217 krónur, fjárnámsgjald í ríkissjóð var 19.100 krónur og annar kostnaður nam samtals 49.896 krónum, en hann var vegna veðbókarvottorðs 1.000 krónur, vanskilaskrár 1.000 krónur, eignakönnunar og vottorðs 2.000 krónur, fjárnámsbeiðnar 5.200 krónur og vaxta af kostnaði 40.696 krónur.
Varnaraðili fór þess á leit í beiðninni að sóknaraðili yrði ekki boðaður til fyrirtöku gerðarinnar á grundvelli 2. tl. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Var það rökstutt með því að sóknaraðili væri þriðja félagið sem væri þinglýstur eigandi fasteignarinnar að Skólabrú 2 síðan tryggingarbréfi hefði verið þinglýst á eignina og fjórða félagið sem sé þinglýstur eigandi fasteignarinnar að Lækjargötu 10. Sami maður hafi verið fyrirsvarsmaður allra félaganna en eftir töku bús hans til gjaldþrotaskipta hafi eiginkona hans tekið við í stjórn félaganna. Varnaraðili hafi rökstuddan grun um að verði sóknaraðila tilkynnt um fyrirtöku gerðarinnar verði eignin [sic] færð inn í nýtt félag áður en að fyrirtöku komi. Auk þess sé sami maður fyrirsvarsmaður Eignageirs ehf. en eiginkona hans sé varamaður í stjórn félagsins.
Sýslumaður féllst á að boða sóknaraðila ekki til fyrirtöku gerðarinnar. Aðfarargerðin fór fram 16. október 2012 og kemur fram í endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík að farið hafi verið á lögheimili sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki hist þar fyrir né nokkur sem gæti tekið málstað hans. Skilyrðum 24. gr. laga nr. 90/1989 væri fullnægt til að gerðin færi fram, þrátt fyrir að ekki væri mætt af hálfu sóknaraðila.
Með tveimur nauðungarsölubeiðnum, mótteknum hjá sýslumanninum í Reykjavík 19. október 2012, krafðist varnaraðili þess að fasteignir sóknaraðila að Skólabrú 2 og Lækjargötu 10 yrðu seldar á nauðungarsölu. Í fyrirtöku 7. mars 2013 á beiðni um nauðungarsölu á fasteigninni að Lækjargötu 10 mótmælti lögmaður sóknaraðila því að nauðungarsala á eigninni færi fram. Sýslumaður frestaði málinu til að taka afstöðu til mótmæla sóknaraðila. Í fyrirtöku 7. júní 2013 hafnaði sýslumaður mótmælum sóknaraðila. Í fyrirtöku 24. apríl 2013 á beiðni um nauðungarsölu á fasteigninni að Skólabrú 2 mótmælti lögmaður sóknaraðila því að nauðungarsala á eigninni færi fram. Sýslumaður frestaði málinu til að taka afstöðu til mótmæla sóknaraðila. Í fyrirtöku 11. júlí 2013 hafnaði sýslumaður mótmælum sóknaraðila. Krafa sóknaraðila um úrlausn Héraðsdóms Reykjavíkur barst dóminum 2. júlí 2013.
Málsástæður sóknaraðila
Ágallar á fjárnámsgerð
Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að skylt hafi verið að boða hann til fjárnámsins samkvæmt 21. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Skortur á þeirri boðun teljist slíkur ágalli að fjárnámsgerð sé ógild eða ógildanleg þegar af þeim sökum. Vegna þessa hafi sóknaraðili orðið af tækifæri til þess að koma fram mótmælum á fyrstu stigum málsins og þegar mótmæli hans voru tekin inn í málið hafi venjulegur frestur til þess að bera fjárnámsgerð undir héraðsdóm verið liðinn.
Heimild til þess að víkja frá skyldu um tilkynningu samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 sé undantekning frá meginreglu sem skerði mikilvæg réttindi sóknaraðila. Af þeim sökum sé nauðsynlegt að túlka ákvæðið þröngt og sýna verði fram á að fyrir hendi séu þau atvik sem réttlæti slíkt frávik. Hvorki í aðfararbeiðni né meðfylgjandi gögnum sé sýnt fram á að skilyrði 2. tl. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 eigi við.
Varnaraðili segi í aðfararbeiðni að hætt sé við því, að hans mati, að sóknaraðili spilli fyrir aðför, fái hann vitneskju um að hennar sé að vænta. Þessu til stuðnings sé vísað til þess að umræddar fasteignir að Lækjargötu 10 og Skólabrú 2 í Reykjavík hafi skipt nokkrum sinnum um eigendur á tímabilinu 2007-2013. Slíkur rökstuðningur fyrir þeirri fullyrðingu varnaraðila að sóknaraðili gæti með einhverjum hætti spillt fyrir aðfarargerðinni sé með öllu ófullnægjandi.
Í fyrsta lagi liggi ekki fyrir að eigendaskipti fasteignanna hafi verið örari en á öðrum sambærilegum fasteignum sem notaðar eru við atvinnurekstur á svipuðu tímabili. Sjá megi af framlögðum gögnum með aðfararbeiðni að tíðni eigendaskipta á tímabilinu 1999-2006 sé meira og minna sú sama og á tímabilinu 2007-2013. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki hægt að halda því fram að nokkurt samband sé á milli fjölda eigendaskipta og meints vilja einhvers af eigendum til þess að spilla fyrir veði á tryggingarbréfum sem varnaraðili þinglýsti á umræddar fasteignir.
Eigendaskiptin tengist eðlilegum fasteignaviðskiptum félaga sem kaupi, selji og geri upp fasteignir. Að minnsta kosti eitt tilvik megi rekja til aðgerða við endurfjármögnun eiganda fasteigna og sé varla undarlegt að eignasöfn skipti um eigendur á árunum eftir bankahrunið 2008, þar sem nauðsynlegt hafi verið að afla lausafjár til að standa skil á hækkandi skuldbindingum félaga. Því sé mótmælt að tíðni fasteignaviðskipta hafi nokkurt sönnunargildi um fyrirætlun sóknaraðila um að spilla fyrir fjárnámsgerð. Að sama skapi hafi það enga þýðingu þótt sumir fyrri eigenda hafi haft sameiginlegt starfsfólk eða stjórnarmenn. Þetta séu aðskilin félög í sjálfstæðum rekstri, með eigin skuldbindingar og eignir. Varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að svo sé ekki.
Hvorki sá dómur sem aðfarargerðin er reist á né tryggingarbréf áhvílandi á umræddum fasteignum séu háð því hver sé eigandi fasteignanna. Eignageir ehf. hafi verið dómþoli þess dóms sem varnaraðili reisir aðfararheimild sína á og hafi undirritað umrædd tryggingarbréf ásamt þáverandi eiganda, ekki sóknaraðila. Sóknaraðila hafi aldrei verið stefnt til þess að þola veðrétt og hafi ekki verið skuldari við varnaraðila. Breyting á þinglýstum eiganda umræddra fasteigna áður en fjárnám færi fram gæti aldrei skert rétt varnaraðila. Réttur sem varnaraðili telji sig hafa til aðfarar sé óháður eignarhaldi fasteignanna, eins og sjá megi á því að kröfu þeirra sé beint að sóknaraðila. Sé krafa varnaraðila á annað borð aðfararhæf megi ganga að andlagi tryggingarbréfa varnaraðila, hver sem eigandi fasteignanna kunni að vera.
Af því leiði að sóknaraðili hafi aldrei með nokkru móti getað spillt fyrir aðför. Vangaveltur um eignasögu, eignatengsl og ósannaðar fyrirætlanir eigi ekki heima í málinu, þar sem skilyrði 2. tl. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 geti ekki verið uppfyllt í þessu tilviki. Sýslumanni hafi því borið að hafna kröfu varnaraðila um að boða ekki sóknaraðila til fjárnámsins. Vegna ákvörðunar fulltrúa sýslumanns um að halda aðfarargerð áfram þrátt fyrir þennan ágalla sé fjárnámsgerðin ógild eða ógildanleg, sbr. 24. gr. sömu laga.
Sóknaraðili byggir á því að þrátt fyrir fullyrðingu þess efnis í endurriti gerðarbókar frá 16. október 2012 hafi hvorki varnaraðili né fulltrúi sýslumanns ratað á starfsstöð sóknaraðila. Samkvæmt endurritinu hafi fjárnámsgerð farið fram á skrifstofu sýslumanns að Skógarhlíð 6 kl. 12:22. Þar segir að áður en henni var lokið hafi verið farið á lögheimili sóknaraðila og enginn hist fyrir sem tekið gat málstað hans. Þann dag hafi þrír starfsmenn sóknaraðila verið staddir á lögheimilli sóknaraðila a.m.k. hluta úr deginum og einn starfsmaður allan daginn frá 9-15. Enginn þeirra hafi orðið var við fulltrúa sýslumanns eða varnaraðila þennan dag. Starfsmenn hafi þó verið viðstaddir frá opnun um morguninn og fram til lokunar. Öryggismyndavélar í húsnæði sýni heldur ekki neinn rata inn á starfsstöð sóknaraðila þennan dag sem þekkja megi sem fulltrúa sýslumanns eða varnaraðila. Hefði svo verið hefðu starfsmenn hist fyrir og getað tekið málstað sóknaraðila.
Sóknaraðili beri ekki brigður á fullyrðingar varnaraðila og fulltrúa sýslumanns um að þeir hafi talið sig hafa farið á starfsstöð sóknaraðila, en telur líklegt að farið hafi verið að röngu heimilisfangi, inngangi eða hæð. Húsakynnin séu stór, þar fari fram mikil atvinnustarfsemi og starfstöð sóknaraðila sé aðeins ein þeirra. För í Kringluna þar sem ekki hafi verið gengið inn á starfsstöð sóknaraðila geti ekki verið fullnægjandi fjárnám á lögheimili. Þannig hafi ekki verið uppfyllt skilyrði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1989 eða skilyrði 1., 2. eða 3. mgr. 24. gr. sömu laga við framkvæmd fjárnáms og fjárnámsgerðin sé því ógild eða ógildanleg.
Aðfararhæfi kröfu
Krafa varnaraðila byggi á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2070/2010, um kröfu varnaraðila á hendur Eignageir ehf. Þá vísi varnaraðili til tryggingarbréfa útgefinna til tryggingar skulda Eignageirs ehf. við Glitni hf. með veð í umræddum fasteignum. Sá dómur staðfesti ekki veðrétt varnaraðila á Lækjargötu 10 eða Skólabrú 2. Eignageir ehf. hafi aldrei verið eigandi að umræddum fasteignum. Þá hafi hvorki í dómsorði né niðurstöðum verið vikið að því að tryggingarbréf Glitnis hf. gagnvart Sparnaðarsjóði Íslands ehf. væru aðfararhæf, samkvæmt dóminum eða orðalagi bréfanna sjálfra.
Aðfararbeiðni sé ekki í samræmi við dómsorð, heldur beinist að öðrum aðila og sé reist á túlkun á ákvæðum tryggingarbréfa sem dómstóll hafi ekki dæmt um. Þannig eigi enginn töluliður 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 við um aðfararheimild varnaraðila. Þá eigi hvorki 1. né 2. mgr. 3. gr. sömu laga við um aðstöðu sóknaraðila eða þau skjöl sem að mati varnaraðila liggja til grundvallar fjárnáminu og kröfu varnaraðila. Sóknaraðili sé ekki ábyrgðarmaður eða veðsali samkvæmt tryggingarbréfum sem varnaraðili byggi aðfararheimild á. Þannig sé ómögulegt að votta undirskrift hans þar og geti skilyrði 7. tl. 1. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga, ekki verið uppfyllt gagnvart honum. Þegar af þeirri ástæðu beri að ógilda fjárnámsgerð varnaraðila. Áður en hægt sé að gera aðför samkvæmt efni tryggingarbréfanna verði að afla dóms um veðrétt varnaraðila á grundvelli þeirra.
Vafi um eign varnaraðila á kröfu í aðfararbeiðni
Umrædd tryggingarbréf tryggi endurgreiðslu skuldbindinga Eignageirs ehf. við Glitni hf. með veði í áðurnefndum fasteignum, allt að 65 milljónir króna og 85 milljónir króna hvort, óháð því hvaða mynt sé um að ræða og tryggingarbréfin séu ekki bundin við einstakan lánssamning.
Í fyrrnefndum dómi í máli varnaraðila á hendur Eignargeiri ehf. hafi krafa varnaraðila verið talin snúast um lán í erlendum gjaldmiðli. Þau atriði sem renndu stoðum undir það að um lán í erlendum gjaldmiðli væri að ræða eigi hins vegar ekki við um efni umræddra tryggingarbréfa. Þar sé ekki um neina LIBOR-vexti að ræða og hámarksfjárhæð í íslenskum krónum sé skýrt tekin fram fremst í bréfunum, ólíkt ákvæðum skuldabréfa sem dæmt hafi verið að væru í erlendum gjaldmiðlum.
Hafi ætlun Glitnis hf. verið sú að binda hámarksfjárhæð í íslenskum krónum gengi þeirra erlendu gjaldmiðla sem vísað er til í tryggingarbréfinu vanti ákvæði um hækkun samkvæmt vísitölu eða gengi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Slík binding sé því ekki til staðar. Sóknaraðili andmælir því sem röngu og ósönnuðu að samningi hafi verið ætlað að tengja hámarksfjárhæð í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.
Skv. framburði starfsmanna Eignageirs ehf. hafi samningsaðilar álitið, þegar tryggingarbréf voru gefin út, að ekki væri þörf fyrir veðskuldabréf frekar en tryggingarbréf, enda fylgdi því aukinn kostnaður af stimpilgjöldum. Þá hafi hámarksfjárhæðir, 65 milljónir króna og 85 milljónir króna, þótt fullnægjandi til tryggingar skuldbindinga Eignageirs ehf. við Glitni hf. Sá möguleiki að umræddar fjárhæðir í íslenskum krónum kynnu að verða mun lægri en höfuðstóll lána Eignageirs ehf. hjá Glitni hf. vegna breytinga á gengi hafi ekki virst vera aðilum hugleikinn.
Vegna ófyrirsjáanlegra áfalla og hruns á gengi krónurnar, sem m.a. hafi valdið gjaldþroti bæði skuldara og kröfuhafa þeirra skuldbindinga sem umræddum tryggingarbréfum hafi verið ætlað að tryggja, hafi það mat aðila ekki verið fyllilega rétt. Samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttar beri aðilar samnings hins vegar almennt halla af því, breytist aðstæður þeim í óhag eftir samningsgerð.
Augljóst sé af uppsetningu og orðanna hljóðan í texta fyrrnefndra tryggingarbréfa að fjárhæð í íslenskum krónum sé hámarksfjárhæð þeirra. Þegar tryggingarbréfunum var þinglýst hafi stimpilgjald verið innheimt samkvæmt þeirri tölu. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki hægt að leggja út frá hærri hámarksfjárhæð, enda sé það skýr sönnun um skilning aðila þegar samningar hafi verið gerðir.
Fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum virðist vera sett fram til viðmiðs þar sem sumar skuldbindingar Eignageirs ehf. hafi verið afhentar í umræddum gjaldmiðlum og tryggingarbréf nái yfir skuldbindingar í öllum gjaldmiðlum. Þá megi ef til vill túlka ákvæði bréfanna þannig að miða skuli fjárhæð skuldbindingar við tiltekna fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum, þó ekki þannig að farið sé fram úr hámarksfjárhæð bréfsins í íslenskum krónum. Upphæð í erlendum gjaldmiðlum þjóni þannig hlutverki lágmarksfjárhæðar sem tryggð sé með bréfunum.
Sóknaraðili vísar til þess að íslenska sé það tungumál sem hér á landi sé oftast notað í viðskiptum og einkalífi, auk þess sem íslenska njóti stöðu þingmáls á Íslandi. Þá sé íslensk króna gjaldmiðill hér á landi og eðlilegt að túlka samninga þar sem sett sé fram fjárhæð í íslenskum krónum sem bindandi um þá fjárhæð.
Með tilvísun til stöðu aðila við samningsgerð, skyldu varnaraðila sem fjármálafyrirtækis sbr. lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sérstaklega 36. gr. b., beri að túlka allan vafa um inntak samningsins sóknaraðila í vil. Það væri ósanngjarnt og andstætt góðum viðskiptaháttum af varnaraðila að bera fyrir sig að hámarksfjárhæð tryggingarbréfa sé ekki sú sem skráð er stórum stöfum fremst í skjalinu og sú sem sýslumaður leit til við innheimtu stimpilgjalds.
Útreikningur varnaraðila, sem felist í því að umbreyta erlendum gjaldmiðli í íslenskar krónur þannig að höfuðstóll kröfu sé rúmlega 220 milljónir króna og að auki leggist á yfir 30 milljónir króna, eigi einungis við um kröfu gagnvart Eignageir ehf. Sóknaraðili sé ekki ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum Eignargeirs ehf. gagnvart varnaraðila, einungis þeim sem samið sé um með fyrrnefndum tryggingarbréfum. Það séu að hámarki 150 milljónir króna en ekki þær 251.956.140 krónur sem tilteknar séu í fjárnámsgerð. Varnaraðili hafi aldrei lagt fram neitt sem bendi til þess að gerð hafi verið tilraun til innheimtu á þeirri fjárhæð sem samið var um í tryggingarbréfum. Þess í stað hafi verið reynt að gera sóknaraðila ábyrgan fyrir öllum skuldum Eignageirs ehf. við varnaraðila.
Aðfararbeiðni varnaraðila sé þannig byggð á fjárhæð sem sé mun hærri en það sem sóknaraðili samþykkti að tryggja með veði. Með því að gera fjárnám í báðum fasteignum fari sýslumaður fram úr hámarksfjárhæðum tryggingarbréfa og byggi á röngum forsendum um málavexti og stöðu aðila, til vara umdeildum forsendum. Af því leiðir að fjárnámsgerðin sé ógild eða ógildanleg. Hlutverk sýslumanns sé ekki að skera úr um efnisrétt þegar deilt er um lögmæti og inntak skuldbindinga.
Krafa um stöðvun eða frestun fullnustugerða þar til endanleg niðurstaða dómstóla um kröfu varnaraðila liggur fyrir sé reist á sömu rökum og krafa um ógildingu. Þar til dómstólar hafa skorið úr um vafa um það hvort varnaraðili eigi kröfu að þeirri fjárhæð sem fjárnám er gert fyrir séu ekki uppfyllt skilyrði aðfararhæfis.
Krafa um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá styðst krafa um virðisaukaskatt á málskostnað við lög nr. 50/1988. Sóknaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi varnaraðila.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að skilyrði laga nr. 90/1989 um aðför fyrir því að fjárnámið standi séu uppfyllt. Varnaraðili eigi aðfararhæfa kröfu sem byggi á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2070/2010. Dómkröfurnar séu tryggðar með tryggingarbréfum áhvílandi á fasteignum sóknaraðila. Uppreiknuð fjárhæð tryggingarbréfanna sé hærri en sú skuld sem fjárnáms sé krafist fyrir. Fjárnámið hafi verið tekið á lögheimili sóknaraðila eins og fjárnámsendurritið beri með sér og skilyrði 2. tl. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 hafi verið talin uppfyllt af fulltrúa sýslumanns. Öll skilyrði laga nr. 90/1989 séu því uppfyllt fyrir því að aðför nái fram að ganga.
Ágallar á fjárnámsgerð
Varnaraðili hafnar því að nokkrir þeir ágallar séu á fjárnámsgerðinni sem leiði til ógildis eða ógildingar hennar. Varnaraðili hafi óskað eftir því að fjárnámið færi fram án undangenginnar boðunar þar sem varnaraðili taldi rökstuddan grun um að ef boðað yrði til aðfarargerðarinnar, myndi sóknaraðili færa veðsettar eignir yfir í nýtt félag. Varnaraðili hafi rökstutt það með tíðum flutningi eignanna yfir í ný félög, eftir að eignirnar voru veðsettar varnaraðila. Nýju félögin hafi öll lotið stjórn sömu aðila og voru fyrirsvarsmenn þeirra félaga sem fengu fjármuni að láni hjá varnaraðila og veðsettu eignir sínar til tryggingar þeim skuldbindingum. Varnaraðila hafi verið gert erfiðara um vik með tíðum yfirfærslum að fullnusta dóm héraðsdóms á hendur þeim veðsala sem átt hefur eignina á hverjum tíma.
Fulltrúi sýslumanns hafi fallist á röksemdir varnaraðila og aðfarargerðin fór fram án boðunar. Í athugasemdum um 2. tl. 3. mgr. 21. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/1989 komi fram að lagt sé í vald sýslumanns að ákveða í hverju tilviki hvort þessi regla eigi við. Fulltrúi sýslumanns hafi metið það svo að þessi atvik væru uppi og fallist á ósk varnaraðila. Í samræmi við 2. mgr. 22. gr. sömu laga hafi gerðin verið haldin á lögheimili gerðarþola, Kringlunni 4-6, að viðstöddum fulltrúa sýslumanns, lögmanni varnaraðila og vottinum Ingunni Jónsdóttur, starfsmanni embættis sýslumannsins í Reykjavík. Í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laganna, sbr. 3. mgr. 39. gr., hafi gerðinni lokið með því að fjárnám hafi verið tekið í fasteignum sóknaraðila að Lækjargötu 10 og Skólabrú 2, sem veðsettar séu varnaraðila til tryggingar þeirri skuld sem aðfararbeiðnin byggi á.
Sóknaraðili verði ekki fyrir neinu tjóni við það að fjárnámsgerðin fari fram án undangenginna tilkynninga og að honum fjarstöddum, þar sem sóknaraðili eigi allt að einu möguleika á að bera fjárnámið undir héraðsdóm samkvæmt 92. gr. sömu laga eins og sóknaraðili geri í þessu máli.
Aðfararhæfi kröfu
Varnaraðili hafnar því að hann eigi ekki aðfararhæfa kröfu á hendur sóknaraðila. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2011 í máli nr. E-2070/2010 hafi Eignageir ehf. verið dæmt til að greiða varnaraðila 215.825.818 krónur en dráttarvaxtakröfu varnaraðila hafi verið vísað frá dómi. Skuldin sé tryggð með tryggingarbréfum áhvílandi á fasteignum sóknaraðila að Lækjargötu 10 og Skólabrú 2 í Reykjavík. Varnaraðili telur að þótt sóknaraðili hafi ekki verið aðili að framangreindu dómsmáli sé engu að síður hægt að taka fjárnám í þeim fasteignum sóknaraðila sem settar séu að veði til tryggingar skuldum Eignageirs ehf.
Vafi um eign varnaraðila á kröfu í aðfararbeiðni
Varnaraðili andmælir því að einhver vafi sé um fjárhæð tryggingarbréfanna sem hvíli á fasteignum sóknaraðila. Bæði tryggingarbréfin beri með sér samkvæmt heiti sínu að um sé að ræða tryggingarbréf í erlendum gjaldmiðlum. Fjárhæð erlendu myntanna komi fram í tryggingarbréfunum, annars vegar 1.040.604 svissneskir frankar og 69.572.335 japönsk jen, við útgáfu jafnvirði 85 milljóna króna í bréfinu sem hvíli nú á 1. veðrétti á Skólabrú 2. Hins vegar 640.520 svissneskir frankar og 63.476.563 japönsk jen, við útgáfu jafnvirði 65 milljóna króna í bréfinu sem hvíli á 1. veðrétti á Lækjargötu 10.
Við fyrstu vanskil skuldarinnar sem tryggingarbréfin tryggi, 15. september 2008, hafi gengi svissnesks franka verið 81,11 og gengi japansks jens verið 0,8589. Uppreiknað þann dag hafi tryggingarbréfið áhvílandi á Skólabrú 2 því tryggt skuld að jafnvirði 106.472.597 króna og tryggingarbréfið á Lækjargötu 10 hafi tryggt skuld að jafnvirði 144.159.068 króna. Við gjaldfellingu skuldarinnar 27. janúar 2010 hafi gengi svissnesks franka verið 121,57 og gengi japansks jens verið 1,4257. Tryggingarbréfið á Lækjargötu 10 hafi því tryggt skuld að jafnvirði 168.366.552 króna og tryggingarbréfið á Skólabrú 2 hafi tryggt skuld að jafnvirði 225.695.506 króna. Við fyrirtöku fjárnáms hjá sýslumanni 16. október 2012 hafi gengi svissnesks franka verið 131,91 og gengi japansks jens verið 1,5507. Þann dag hafi tryggingarbréfið á Lækjargötu 10 því tryggt skuld að jafnvirði 182.924.099 króna og tryggingarbréfið á Skólabrú 2 hafi tryggt skuld að jafnvirði 245.151.894 króna.
Fjárnám hafi verið gert í fasteignum sóknaraðila fyrir 251.956.140 krónum auk dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags, kostnaðar við gerðina og kostnaðar af frekari fullnustugerðum ef til þeirra komi. Því sé ljóst að sú fjárhæð sé tryggð með veði í fasteignum sóknaraðila að Lækjargötu 10 og Skólabrú 2 í Reykjavík. Hvort söluandvirði eignanna standi undir þeirri skuld verði tíminn að leiða í ljós en augljóslega muni varnaraðili ekki geta gengið að öðrum eignum sóknaraðila en þeim sem séu veðsettar til tryggingar skuldinni.
Sé litið til túlkunar Hæstaréttar Íslands á því hvaða skilyrði lánveiting þurfi að uppfylla til þess að teljast lánveiting í erlendum myntum telur varnaraðili ljóst að hér sé augljóslega um tryggingarbréf í erlendum myntum að ræða, þar sem heiti skjalanna beri með sér að um sé að ræða tryggingarbréf í erlendum gjaldmiðlum og lánsfjárhæðarinnar sé getið í erlendum myntum, þó svo að hennar sé einnig getið í íslenskum krónum. Þar sem tryggingarbréfin séu án vaxta innihaldi þau eðlilega ekki tilvísun til LIBOR-vaxta sem sé þriðja atriðið sem Hæstiréttur hafi talið skipta máli við mat á því hvort um sé að ræða lánveitingu í erlendum myntum eða ekki, sbr. t.d. dóm réttarins í máli nr. 524/2011.
Við útgáfu hafi tryggingarbréfin tryggt skuldir að jafnvirði 65 milljónir króna og 85 milljónir króna. Þar af leiðandi sé greitt stimpilgjald í samræmi við það og greitt stimpilgjald sé því engin sönnun fyrir því að bréfin tryggi eingöngu þá fjárhæð, þar sem stimpilgjald miðist við þá fjárhæð sem bréfin tryggi þegar þau séu stimpluð.
Loks sé skuldin sem fjárnámsgerðin byggi á engan vegin eina skuld Eignageirs ehf. sem sé tryggð með umræddum tryggingarbréfum. Sama dag og sá dómur hafi verið kveðinn upp hafi Héraðsdómur Reykjavíkur kveðið upp dóma í málum nr. E-2071/2010 og E-2072/2010 þar sem félagið hafi veirð dæmt til að greiða varnaraðila annars vegar 208.236.108 krónur og hins vegar 171.330.944 krónur. Tryggingarbréfin sem hvíli á fasteignum varnaraðila að Skólabrú 2 og Lækjargötu 10 séu til tryggingar öllum skuldum og fjárskuldbindingum Eignageirs ehf. við varnaraðila. Hugleiðingar sóknaraðila um að hámarksfjárhæðirnar 65 milljónir króna og 85 milljónir króna hefðu þótt fullnægjandi til tryggingar skuldum Eignageirs ehf. við Glitni hf. eigi því ekki við rök að styðjast.
Um lagarök vísar varnaraðili til reglna laga nr. 90/1989. Krafa stefnda um greiðslu málskostnaðar byggir á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Sóknaraðili krefst þess m.a. ,,að allar fullnustugerðir byggðar á meintri kröfu sem ofangreind fjárnámsgerð útlistar séu stöðvaðar þar til fyrir liggur endanleg úrlausn dómstóla um lögmæti, fjárhæð og aðfararhæfi kröfunnar. Til vara er [þess] krafist að fullnustugerðum á grundvelli fjárnámsgerðarinnar sé frestað á meðan málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.“ Þetta mál er borið undir dóminn samkvæmt 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Skýrt kemur fram í 1. og 2. mgr. 92. gr. laganna að í slíku máli verður einungis krafist úrlausnar héraðsdómara um tiltekna aðfarargerð sem er lokið. Krafa um að ,,allar fullnustugerðir“ verði stöðvaðar meðan þetta mál er rekið fyrir dóminum kemst því ekki að í þessu máli og verður kröfunni því vísað frá dómi án kröfu. Varakrafa sóknaraðila er sama marki brennd og verður henni því einnig vísað frá dómi án kröfu.
A
Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 skal tilkynna gerðarþola með hæfilegum fyrirvara um aðfararbeiðni, meginefni hennar og hvar og hvenær gerðin muni byrja. Samkvæmt 2. tl. 3. mgr. sömu greinar má víkja frá skyldu til þess að senda tilkynningu ef hætt þykir að gerðarþoli muni spilla fyrir aðför, fái hann vitneskju um að hennar sé að vænta. Sýslumaður ákvað að tilkynna ekki sóknaraðila um aðfarargerðina að ósk varnaraðila. Fram kemur í athugasemdum við 21. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 90/1989 að það sé lagt á vald sýslumanns að ákveða hvort þessi regla eigi við í einstökum tilvikum. Heimild sýslumanns samkvæmt 2. tl. 3. mgr. 21. gr. felur í sér undantekningu frá meginreglunni um að boða skuli gerðarþola til aðfarargerðar. Fyrir liggur að síðan árið 2007, þegar umrædd tryggingarbréf voru gefin út, hafa fasteignirnar að Skólabrú 2 og Lækjargötu 10 skipt oft um hendur. Sóknaraðili er þriðji eigandi fasteignarinnar að Skólabrú 2 og fjórði eigandi fasteignarinnar að Lækjargötu 10 síðan tryggingarbréfin voru gefin út. Samkvæmt framlögðum gögnum var sami maður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi allra félaganna og var einnig stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Eignageirs ehf. Þótt eigendaskipti milli félaga sem stýrt er af sömu mönnum geti átt sér málefnalegar ástæður og sanni ein og sér ekki viðleitni til þess að koma eignum undan kröfuhöfum þá er slík aðstaða til þess fallin að gera kröfuhafa erfitt fyrir að fullnusta kröfu sinni, enda verður hann að beina kröfu að eiganda eignar. Verður því ekki séð að ákvörðun sýslumanns hafi verið ómálefnaleg. Þá er réttarstaða gerðarþola í þessum tilvikum tryggð með því að samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1989 verður að byrja aðför þar sem sennilegast þykir að hann eða málsvari hans muni hittast fyrir, auk þess sem gerðarþoli getur krafist úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerð eftir ákvæðum 92. gr. sömu laga.
Sóknaraðili kveður að þann dag sem aðfarargerðin fór fram, 16. október 2012, hafi starfsmenn verið staddir á lögheimili sóknaraðila en enginn þeirra hafi orðið var við fulltrúa sýslumanns eða lögmann varnaraðila. Sóknaraðili kveðst þó ekki vefengja að þeir hafi mætt á lögheimili hans en telur líklegt að þeir hafi ekki ratað á starfsstöð sóknaraðila. Í endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík kemur fram að farið hafi verið á lögheimili sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki hist þar fyrir né nokkur sem gæti tekið málstað hans. Fram kemur í 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 að þar til annað sannist skuli efni opinbers skjals talið rétt ef það varðar tiltekin atvik sem er sagt að hafi gerst í embætti eða sýslan útgefanda. Sóknaraðili hefur lagt fram yfirlýsingu nafngreinds starfsmanns síns þar sem fram kemur að hún hafi verið í vinnu á skrifstofu sóknaraðila, Kringlunni 4-6, 10. hæð, 16. október 2012 ,,frá rúmlega 9-15“, sem og yfirlit yfir símtöl og tölvuskeyti sem hann segir að hafi farið fram á skrifstofu hans þann dag. Fram kemur í þessum yfirlitum að 16. október 2012 hafi nokkur símtöl farið fram á tímabilinu frá 11:27 til 14:46 og nokkur tölvuskeyti verið send á tímabilinu frá 11:19 til 14:05. Sú fullyrðing í framangreindri yfirlýsingu að viðkomandi starfsmaður hafi verið á lögheimilinu frá um kl. 9 fær því ekki stoð í þessum gögnum. Lögmaður varnaraðila hefur hafnað því að annmarkar séu á aðfarargerðinni og lýst því yfir í greinargerð aðilans í þessu máli að gerðin hafi verið haldin á lögheimili sóknaraðila. Sá lögmaður sem ritar greinargerðina er sá sami og mætti við gerðina fyrir hönd varnaraðila. Gegn mótmælum varnaraðila verður þessi málsástæða því að teljast ósönnuð. Verður umrædd aðfarargerð því ekki felld úr gildi á þessum grundvelli.
B
Sóknaraðili hefur aflað sér dóms fyrir kröfu sinni á hendur Eignageir ehf. Sá dómur er aðfararhæfur á hendur Eignageir ehf., sbr. 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Ekki er um það deilt að tryggingarbréf, áhvílandi á fasteignum varnaraðila að Skólabrú 2 og Lækjargötu 10, tryggja þessa kröfu sóknaraðila. Út frá því hefur verið gengið í dómaframkvæmd að sé trygging fyrir dómkröfu í eign þriðja manns megi leita aðfarar eftir dóminum hjá eigandanum sem gerðarþola, þótt hann hafi enga aðild átt að viðkomandi dómsmáli, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 11. júní 1997 í máli nr. 235/1997 og 2. september 2002 í máli nr. 273/2002. Var varnaraðila því ekki þörf á að afla sér dóms um að sóknaraðila yrði gert að þola veðrétt fyrir kröfu varnaraðila. Var varnaraðila því heimilt að beina kröfu um aðför að sóknaraðila.
C
Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar í málum þar sem málsaðilar hafa deilt um það hvort lán væri í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, verður við úrlausn slíks ágreinings fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í þeim gerningum, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 3/2013, 337/2013 og 391/2013.
Umrædd tryggingarbréf eru að mestu samhljóða. Í fyrirsögn þeirra begja kemur fram að þau séu ,,Tryggingarbréf-Allsherjarveð erlendir gjaldmiðlar“. Fram kemur í tryggingarbréfinu, sem hvílir á fasteigninni að Skólabrú 2, að það sé til tryggingar á öllum skuldum og fjárskuldbindingum Eignageirs ehf. við Glitni banka hf., þar með talið gengismun, ,,samtals allt að jafnvirði“ 85 milljónir króna. Næst á eftir þessum texta er tafla sem skiptist í tvo dálka, með fyrirsögnunum ,,Mynt“ og ,,Fjárhæð myntar“. Í töfluna eru ritaðar fjárhæðirnar 1.040.604 svissneskir frankar og 69.572.335 japönsk jen. Fyrir neðan töfluna segir: ,,eða jafngildi þeirrar fjárhæðar á hverjum tíma í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum [...] eða í íslenskum krónum ...“. Sambærileg lýsing er í tryggingarbréfinu, sem hvílir á fasteigninni að Lækjargötu 10, þar sem segir að það sé til tryggingar á öllum skuldum og fjárskuldbindingum Eignageirs ehf. við Glitni banka hf., þar með talið gengismun, ,,samtals allt að jafnvirði“ 65 milljónir króna. Næst á eftir þessum texta er sömuleiðis tafla sem skiptist í tvo dálka, með fyrirsögnunum ,,Mynt“ og ,,Fjárhæð myntar“, þar sem ritaðar eru fjárhæðirnar 640.520 svissneskir frankar og 63.476.563 japönsk jen. Fyrir neðan töfluna segir: ,,eða jafngildi þeirrar fjárhæðar á hverjum tíma í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum [...] eða í íslenskum krónum ...“. Hæstiréttur hefur slegið því föstu í dómaframkvæmd sinni að sé fjárhæð skýrlega tilgreind í hinni erlendu mynt sé lánið löglegt lán í þeirri mynt og skiptir þá ekki máli þótt jafnvirðis sé getið í íslenskum krónum.
Þegar litið er til fyrrnefndrar lýsingar á efni tryggingarbréfanna í fyrirsögn þeirra og tilgreiningar á fjárhæð þeirra í japönskum jenum og svissneskum frönkum verður að fallast á það með varnaraðila að umrædd tryggingarbréf séu í þeim erlendu gjaldmiðlum sem þar koma fram, en ekki í íslenskum krónum, tengdum við gengi þessara gjaldmiðla. Ekki skiptir máli þótt LIBOR-vaxta sé ekki getið í tryggingarbréfunum, enda eru þau samkvæmt efni sínu ekki til tryggingar á vöxtum. Íslensk króna er lögeyrir hér á landi, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands. Að lögum eru hins vegar engar skorður við því lagðar að aðilar semji um lán og tryggingar í erlendum gjaldmiðlum. Öll framlögð skjöl í málinu eru rituð á íslensku og er óljós málsástæða um stöðu íslensks máls hér á landi haldlaus.
Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. þágildandi laga nr. 36/1978 um stimpilgjald skyldu stimpilskyld skjöl stimpluð innan tveggja mánaða frá útgáfudegi, nema eindagi væri fyrr, og þá fyrir eindaga. Tryggingarbréfið sem hvílir á fasteigninni að Skólabrú 2 var stimplað 30. júlí 2007 og tryggingarbréfið sem hvílir á fasteigninni að Lækjargötu 10 var stimplað 30. október 2007. Stimpilgjald miðast við fjárhæð stimpilskyldra skjala þegar þau eru stimpluð, sbr. 1. mgr. 24. gr. laganna. Sóknaraðili hefur ekki haldið því fram að hinar tilgreindu fjárhæðir í japönskum jenum og svissneskum frönkum hafi ekki numið þeim fjárhæðum sem einnig eru tilgreindar í íslenskum krónum í tryggingarbréfunum, miðað við gengi krónunnar gagnvart þeim gjaldmiðlum, þegar bréfin voru stimpluð. Málsástæða sóknaraðila um að fjárhæð stimpilgjalds sé til merkis um þann skilning sem aðilar lögðu í tryggingarbréfin er því haldlaus.
Ákvæði 36. gr. b laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga gildir um samninga atvinnurekanda við neytanda og kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til skoðunar í þessu máli. Fjárhæðir hinna erlendu mynta eru skýrt tilgreindar í umræddum tryggingarbréfum og verður ekki talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju fyrir varnaraðila að bera fyrir sig þessar fjárhæðir, sbr. 36. gr. sömu laga. Málsástæða sóknaraðila um lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki er ekki nánar rökstudd og kemur því ekki til skoðunar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2070/2010 var kröfu varnaraðila um dráttarvexti frá þar tilgreindum dagsetningum til greiðsludags vísað frá dómi. Þrátt fyrir það krafðist varnaraðili í aðfararbeiðni dráttarvaxta frá dómsuppsögudegi 8. apríl 2011 til 22. ágúst 2012, auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þar sem varnaraðili hefur ekki fengið dóm fyrir kröfu sinni um dráttarvexti verður aðför fyrir þeirri kröfu ekki byggð á 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Varnaraðili hefur ekki vísað til annarrar aðfararheimildar fyrir þeirri kröfu. Krafa varnaraðila um dráttarvexti er því vanreifuð og verður henni því hafnað.
Með vísan til alls framangreinds verður umrædd aðfarargerð staðfest, að öðru leyti en því að dráttarvaxtakröfu varnaraðila er hafnað.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Vísað er frá dómi án kröfu þeirri kröfu sóknaraðila, Sparnaðarsjóðs Íslands, að allar fullnustugerðir byggðar á meintri kröfu varnaraðila, Íslandsbanka hf., sem aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. 011-2012-07387 útlistar séu stöðvaðar þar til fyrir liggur endanleg úrlausn dómstóla um lögmæti, fjárhæð og aðfararhæfi kröfunnar.
Vísað er frá dómi án kröfu varakröfu sóknaraðila um að fullnustugerðum á grundvelli aðfarargerðar sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. 011-2012-07387 sé frestað á meðan þetta mál er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Staðfest er aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. 011-2012-07387, að öðru leyti en því að kröfu um dráttarvexti frá 8. apríl 2011 til 22. ágúst 2012 að fjárhæð 35.910.650 krónur auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskatt.