Hæstiréttur íslands
Mál nr. 653/2015
Lykilorð
- Skuldabréf
- Gengistrygging
- Frávísunarkröfu hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. september 2015. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en þó þannig að áfrýjanda verði gert að greiða sér 78.683.028 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum, aðallega frá 5. ágúst 2009 en til vara 27. ágúst 2013, í báðum tilvikum til greiðsludags. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir frávísunarkröfu sinni og verður henni því hafnað.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að lán það, sem ágreiningur málsins lýtur að, hafi verið í erlendum gjaldmiðli og ákvæði þess því ekki í andstöðu við fyrirmæli VI. kafla laga nr. 38/2001. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti áfrýjandi því yfir að ekki væri ágreiningur um útreikning á kröfu stefnda, eins og hún er sett fram hér fyrir dómi samkvæmt áðursögðu, að því gefnu að komist yrði að þeirri niðurstöðu að lánið væri ekki háð ólögmætum skilmála um tengingu fjárhæðar þess við gengi erlends gjaldmiðils. Samkvæmt þessu verður aðalkrafa stefnda tekin til greina á þann hátt, sem í dómsorði greinir, en ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Morrinn ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 78.683.028 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 521.149 krónum frá 5. ágúst 2009 til 5. september sama ár, af 1.063.208 krónum frá þeim degi til 5. október sama ár, af 1.599.143 krónum frá þeim degi til 5. nóvember sama ár, af 2.138.060 krónum frá þeim degi til 5. desember sama ár, af 2.663.848 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2010, af 3.192.676 krónum frá þeim degi til 5. febrúar sama ár, af 3.753.632 krónum frá þeim degi til 5. mars sama ár, af 4.282.850 krónum frá þeim degi til 5. apríl sama ár, af 4.811.231 krónu frá þeim degi til 5. maí sama ár, af 5.327.909 krónum frá þeim degi til 5. júní sama ár, af 5.872.894 krónum frá þeim degi til 5. júlí sama ár, af 6.412.384 krónum frá þeim degi til 5. ágúst sama ár, af 6.941.385 krónum frá þeim degi til 5. september sama ár, af 7.474.454 krónum frá þeim degi til 5. október sama ár, af 7.978.028 krónum frá þeim degi til 5. nóvember sama ár, af 8.494.162 krónum frá þeim degi til 5. desember sama ár, af 9.009.647 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2011, af 9.542.897 krónum frá þeim degi til 5. febrúar sama ár, af 10.080.836 krónum frá þeim degi til 4. mars sama ár, af 10.313.173 krónum frá þeim degi til 5. sama mánaðar, af 10.815.220 krónum frá þeim degi til 5. apríl sama ár, af 11.324.266 krónum frá þeim degi til 5. maí sama ár, af 11.848.511 krónum þeim degi til 5. júní sama ár, af 12.380.652 krónum frá þeim degi til 5. júlí sama ár, af 12.903.290 krónum frá þeim degi til 5. ágúst sama ár, af 13.456.098 krónum frá þeim degi til 5. september sama ár, af 14.019.243 krónum frá þeim degi til 5. október sama ár, af 14.589.178 krónum frá þeim degi til 5. nóvember sama ár, af 15.137.263 krónum frá þeim degi til 5. desember sama ár, af 15.694.006 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2012, af 16.289.679 krónum frá þeim degi til 5. febrúar sama ár, af 16.887.300 krónum frá þeim degi til 5. mars sama ár, af 17.442.023 krónum frá þeim degi til 5. apríl sama ár, af 18.011.913 krónum frá þeim degi til 5. maí sama ár, af 18.575.965 krónum frá þeim degi til 5. júní sama ár, af 19.180.971 krónu frá þeim degi til 5. júlí sama ár, af 19.758.383 krónum frá þeim degi til 5. ágúst sama ár, af 20.316.353 krónum frá þeim degi til 5. september sama ár, af 20.890.779 krónum frá þeim degi til 5. október sama ár, af 21.445.373 krónum frá þeim degi til 5. nóvember sama ár, af 22.022.976 krónum frá þeim degi til 5. desember sama ár, af 22.567.197 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2013, af 23.099.585 krónum frá þeim degi til 5. febrúar sama ár, af 23.590.198 krónum frá þeim degi til 5. mars sama ár, af 24.050.395 krónum frá þeim degi til 5. apríl sama ár, af 24.490.590 krónum frá þeim degi til 5. maí sama ár, af 24.903.855 krónum frá þeim degi til 5. júní sama ár, af 25.343.589 krónum frá þeim degi til 5. júlí sama ár, af 25.782.813 krónum frá þeim degi til 5. ágúst sama ár, af 26.209.850 krónum frá þeim degi til 27. sama mánaðar og af 78.683.028 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 3. júní sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, á hendur Morranum ehf., Merkjateigi 8, Mosfellsbæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 78.693.754 krónur, ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af 239.506 krónum frá 5. júlí 2009 til 5. ágúst 2009, af 760.654 krónum frá 5. ágúst 2009 til 5. september 2009, af 1.302.713 krónum frá 5. september 2009 til 5. október 2009, af 1.838.647 krónum frá 5. október 2009 til 5. nóvember 2009, af 2.377.563 krónum frá 5. nóvember 2009 til 5. desember 2009, af 2.903.351 krónu frá 5. desember 2009 til 5. janúar 2010, af 3.432.179 krónum frá 5. janúar 2010 til 5. febrúar 2010, af 3.993.135 krónum frá 5. febrúar 2010 til 5. mars 2010, af 4.522.352 krónum frá 5. mars 2010 til 5. apríl 2010, af 5.050.733 krónum frá 5. apríl 2010 til 5. maí 2010, af 5.567.410 krónum frá 5. maí 2010 til 5. júní 2010, af 6.112.394 krónum frá 5. júní 2010 til 5. júlí 2010, af 6.651.885 krónum frá 5. júlí 2010 til 5. ágúst 2010, af 7.180.884 krónum frá 5. ágúst 2010 til 5. september 2010, af 7.713.953 krónum frá 5. september 2010 til 5. október 2010, af 8.217.526 krónum frá 5. október 2010 til 5. nóvember 2010, af 8.733.658 krónum frá 5. nóvember 2010 til 5. desember 2010, af 9.249.143 krónum frá 5. desember 2010 til 5. janúar 2011, af 9.782.393 krónum frá 5. janúar 2011 til 5. febrúar 2011, af 10.320.331 krónu frá 5. febrúar 2011 til 5. mars 2011, af 10.822.378 krónum frá 5. mars 2011 til 5. apríl 2011, af 11.331.423 krónum frá 5. apríl 2011 til 5. maí 2011, af 11.855.667 krónum frá 5. maí 2011 til 5. júní 2011, af 12.387.808 krónum frá 5. júní 2011 til 5. júlí 2011, af 12.910.446 krónum frá 5. júlí 2011 til 5. ágúst 2011, af 13.463.253 krónum frá 5. ágúst 2011 til 5. september 2011, af 14.026.397 krónum frá 5. september 2011 til 5. október 2011, af 14.596.331 krónu frá 5. október 2011 til 5. nóvember 2011, af 15.144.416 krónum frá 5. nóvember 2011 til 5. desember 2011, af 15.701.158 krónum frá 5. desember 2011 til 5. janúar 2012, af 16.296.831 krónu frá 5. janúar 2012 til 5. febrúar 2012, af 16.894.452 krónum frá 5. febrúar 2012 til 5. mars 2012, af 17.449.175 krónum frá 5. mars 2012 til 5. apríl 2012, af 18.019.065 krónum frá 5. apríl 2012 til 5. maí 2012, af 18.583.117 krónum frá 5. maí 2012 til 5. júní 2012, af 19.188.122 krónum frá 5. júní 2012 til 5. júlí 2012, af 19.765.533 krónum frá 5. júlí 2012 til 5. ágúst 2012, af 20.323.502 krónum frá 5. ágúst 2012 til 5. september 2012, af 20.897.927 krónum frá 5. september 2012 til 5. október 2012, af 21.452.521 krónu frá 5. október 2012 til 5. nóvember 2012, af 22.030.123 krónum frá 5. nóvember 2012 til 5. desember 2012, af 22.574.343 krónum frá 5. desember 2012 til 5. janúar 2013, af 23.106.730 krónum frá 5. janúar 2013 til 5. febrúar 2013, af 23.597.343 krónum frá 5. febrúar 2013 til 5. mars 2013, af 24.058.134 krónum frá 5. mars 2013 til 5. apríl 2013, af 24.498.925 krónum frá 5. apríl 2013 til 5. maí 2013, af 24.912.784 krónum frá 5. maí 2013 til 5. júní 2013, af 25.353.113 krónum frá 5. júní 2013 til 5. júlí 2013, af 25.792.931 krónu frá 5. júlí 2013 til 5. ágúst 2013, af 26.220.563 krónum frá 5. ágúst 2013 til 27. ágúst 2013 og af 78.693.754 krónum frá 27. ágúst 2013 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun, úr hendi stefnda, samkvæmt mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins og málskostnaðar úr hendi stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.
Með úrskurði upp kveðnum 4. desember sl., var frávísunarkröfu stefnda hafnað.
II
Ágreiningur máls þessa lýtur að skuldabréfi, útgefnu af stefnda hinn 17. ágúst 2006, til Sparisjóðs Hafnarfjarðar, nú Íslandsbanka hf., sbr. samþykki Fjármálaeftirlitsins um samruna Byrs hf. og Íslandsbanka hf., dagsettu 17. október 2011. Skuldabréfið er upphaflega að fjárhæð 56.600.000 japanskra jena.
Stefndi sótti um lán hjá sparisjóðnum samkvæmt lánsumsókn, dagsettri 3. ágúst 2006. Stefndi kveður ástæðu lánsumsóknarinnar hafa verið kaup hans á fasteigninni Köldukinn 20, Hafnarfirði, og hafi kaupverðið verið 48.500.000 krónur. Um hafi verið að ræða þriggja hæða hús sem þurft hafi að lagfæra og hafi síðan átt að leigja út. Stefndi kveðst hafa lagt fram eigið fé að fjárhæð 14.300.000 krónur og fengið að láni 34.200.000 krónur.
Samkvæmt lánsumsókninni var um að ræða 70% veðsetningu og í henni kom fram að upphæð lánsins væri 34.000.000 króna. Lánið átti að vera í japönskum jenum til 25 ára með mánaðarlegum gjalddögum.
Hinn sama dag og sótt var um lánið útbjó stefnandi yfirlýsingu þar sem samþykkt var að veita stefnda lán að fjárhæð 38.800.000 krónur, eða samsvarandi upphæð í erlendri mynt til allt að 25 ára til kaupa á Köldukinn 20, Hafnarfirði.
Skuldabréfið bar að endurgreiða á 25 árum, á mánaðar fresti, í fyrsta sinn 5. október 2006. Lokagjalddagi höfuðstóls átti að vera 5. september 2031. Vextir skyldu reiknast frá kaupdegi og greiðast eftir á, á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 5. október 2006. Vextir áttu að taka mið af eins mánaðar LIBOR-vöxtum, eins og þeir eru á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði á hverjum gjalddaga fyrir sig, en LIBOR-vextir eru vextir á millibankamarkaði í London eins og þeir eru auglýstir kl. 11:00 að staðartíma í London á BBA síðu Reuters. Vextir eru breytilegir og breytast á gjalddögum skuldarinnar, þ.e. í upphafi hvers vaxtatímabils, sem er einn mánuður í senn, að fyrsta vaxtatímabilinu undanskildu, en þar skyldu vextirnir miðast við LIBOR-vexti sem í gildi voru á kaupdegi bréfsins, að viðbættu föstu 4,50% álagi.
Í skilmálum skuldabréfsins kemur fram að standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana, gengisálags og vaxta skuldarinnar innan hálfs mánaðar frá gjalddaga, falli allt lánið, ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, í gjalddaga án uppsagnar eða tilkynningar. Þá segir í skilmálum bréfsins að vanefni lántaki skuld samkvæmt samningnum sé SPH, nú Íslandsbanka hf., heimilt að umreikna skuldina yfir í íslenskar krónur á gjalddaga miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands í þeirri mynt sem skuldin samanstendur af. Þá beri að reikna dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri skuld í samræmi við gjaldskrá sparisjóðsins hverju sinni, sbr. ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Í framhaldi af þinglýsingu lánsins fékk stefndi greitt inn á reikning sinn hjá stefnanda nr. 1101-26-3210 32.869.223 íslenskar krónur, sbr. kaupkvittun, dagsetta 28. ágúst 2006 og viðskiptakvittun, dagsetta 28. ágúst 2006.
Skilmálum skuldabréfsins var breytt hinn 16. janúar 2009 og er þar tilgreind upphafleg fjárhæð þess. Í breytingunni fólst í fyrsta lagi að lántaki skuldbatt sig til að endurgreiða lánið á tuttugu og þremur árum, þannig að 1/269 hluti af upphaflegum höfuðstól yrði greiddur á hverjum gjalddaga, í fyrsta sinn hinn 5. ágúst 2009 og síðan á eins mánaðar fresti út lánstímann. Í öðru lagi að vextirnir væru breytilegir og ákvörðuðust fyrir fram tveimur virkum dögum fyrir upphaf næsta vaxtatímabils. Vextirnir reiknuðust frá 6. október 2008 og greiddust eftir á með sex vaxtagjalddögum á mánaðar fresti, í fyrsta sinn hinn 5. febrúar 2009 og síðan á mánaðar fresti út lánstímann. Í þriðja lagi fólst skilmálabreytingin í því að hinn 5. febrúar 2010 og árlega eftir þann tíma fram að lokagjalddaga lánsins væri lánveitanda heimilt að breyta vaxtaálagi til hækkunar eða lækkunar. Ef breyting yrði á vaxtaálagi láns skyldi lánveitandi tilkynna lántakendum það með 15 bankadaga fyrirvara. Ef lántakendur sættu sig ekki við ákvörðun lánveitanda um breytingu vaxtaálags var þeim heimilt að greiða skuldina upp að fullu, ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, á endurskoðunardegi vaxta án greiðslu sérstaks uppgreiðslugjalds, enda greindu þeir lánveitanda frá því með sjö daga fyrirvara. Að öðru leyti héldust skilmálar skuldabréfsins óbreyttir.
Stefndi kveðst síðan hafa gert munnlegan samning við stefnanda um að greidd húsaleiga færi inn á reikning hjá stefnanda í íslenskum krónum sem hann tæki síðan út af til greiðslu afborgana lánsins eftir greiðslu á rafmagni, hita og fasteignagjöldum. Þessi aðferð við greiðslu lánsins hafi haldist í nokkurn tíma þangað til lánið hafi verið orðið óviðráðanlegt vegna of hárra afborgana sökum gengisbindingar þess, þannig að leigugreiðslur dekkuðu ekki lengur greiðslur af láninu.
Stefndi kveðst hafa greitt skilmerkilega af láninu í íslenskum krónum á hverjum gjalddaga fram til 20. nóvember 2008, sbr. yfirlit yfir greiðslu gjalddaga.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á áður lýstu skuldabréfi í erlendum myntum útgefnu af Morranum ehf. til Sparisjóðs Hafnarfjarðar, nú Íslandsbanka hf. Byggir stefnandi á því að skuldabréfið hafa verið í vanskilum frá 5. júlí 2009 og hafi bréfið verið gjaldfellt hinn 27. ágúst 2013, samkvæmt heimild í skuldabréfinu. Uppfærðar eftirstöðvar hafi þá verið 42.432.476,83 japönsk jen og áfallnir vextir frá 5. ágúst 2013 14.503,35 japönsk jen. Gengi japanska jensins á gjaldfellingardegi hafi verið 1,2333 og hafi eftirstöðvar verið umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við gengi gjaldmiðla á þeim degi, 52.473.191 króna.
Þá hafi gjaldfallnir ógreiddir gjalddagar verið samtals 18.344.610,29 japönsk jen, umreiknaðir í íslenskar krónur miðað við gengi japanska jensins á hverjum gjalddaga fyrir sig, samtals 26.220.563 krónur.
Heildareftirstöðvar skuldabréfsins við gjaldfellingu, hinn 27. ágúst 2013, séu því 78.693.754 krónur, sem sé stefnufjárhæð málsins.
Allar innheimtutilraunir hafi verið án árangurs og sé málsókn þessi því nauðsynleg. Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu skuldabréfsins á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga auk skýrra ákvæða skuldabréfsins.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, um greiðslu fjárskuldbindinga.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 6. gr., sbr. III kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla, laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni, en samkvæmt 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laganna sé stefnandi ekki virðisaukaskattsskyldur aðili. Því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
IV
Stefndi byggir á því að skuldabréfið/lánssamningurinn feli í sér ólögmæta gengistryggingu, sem leiði til þess að um ólögmætan gengislánasamning sé að ræða í íslenskum krónum. Af því leiði að endurútreikna verði samninginn eins og hann væri ólögmætur gengislánasamningur í íslenskum krónum með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 153/2010, 471/2010, 600/2011 og 464/2012. Telur stefndi því að lækka beri dómkröfur stefnanda verulega.
Þrátt fyrir titil skuldabréfsins telur stefndi ljóst að bréfið feli í sér gengistryggingu á lánsfé í íslenskum krónum en slíkt er óheimilt samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í 13. gr. vaxtalaga segi orðrétt: „Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar.“ Af þessu orðalagi 13. gr. vaxtalaga sé ljóst að ekki skipti máli hver titill skuldabréfsins sé eða hver tilgreining fjárhæðar bréfsins sé ef lánsfé það sem skuldabréfinu sé ætlað að tryggja endurgreiðslu á sé lánsfé í íslenskum krónum.
Skuldabréfið hafi verið gefið út sem skuldaviðurkenning vegna láns sem stefndi hafi tekið hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar og síðar BYR sem sameinaðist stefnanda. Í ljósi þess að stefnandi varð eigandi umþrætts skuldabréfs með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, sem hann hafi bent á í stefnu sinni án nánari tilgreiningar, sé ljóst að stefnandi starfi á sömu starfsstöð og fyrrgreindir sparisjóðir gerðu auk þess sem sama starfsfólkið sinni að miklu leyti sömu störfum fyrir stefnanda og það hafi gert fyrir Sparisjóð Hafnarfjarðar og síðar BYR. Geti stefnandi ekki talist grandlaus framsalshafi bréfsins. Stefndi geti því haft uppi allar þær mótbárur gagnvart stefnanda sem hann hefði getað haft uppi gagnvart BYR. Af því leiði einnig að stefnandi geti ekki byggt rétt á bréfinu/lánssamningnum sem Sparisjóður Hafnarfjarðar, síðar BYR, hafi aldrei átt, þrátt fyrir orðalag bréfsins.
Sparisjóður Hafnarfjarðar hafi veitti stefnda lán í íslenskum krónum sem sótt hafi verið um í íslenskum krónum, með erlendu gengisviðmiði án þess að tilgreint væri hve há fjárhæðin væri í japönskum jenum og greitt hafi verið út í íslenskum krónum en stefndi hafi í kjölfarið gefið út veðskuldabréf/lánssamning, þar sem fjárhæð skuldarinnar, sem stefndi hafi viðurkennt að skulda Sparisjóði Hafnarfjarðar, hafi verið tilgreind í erlendum myntum eða jafnvirð þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, enda hafi alla tíð verið greitt af láninu í íslenskum krónum af reikningi stefnda hjá stefnanda.
Jafnframt sé lánið tilgreint í íslenskum krónum á veðbandayfirliti á 1. veðrétti á fasteigninni Köldukinn 20, Hafnarfirði.
Í máli þessu liggi fyrir yfirlýsing frá Sparisjóði Hafnarfjarðar, þar sem fram komi að sparisjóðurinn láni stefnda 38.800.000 krónur í japönskum jenum til kaupa á fasteigninni Köldukinn 20, Hafnarfirði.
Sparisjóður Hafnarfjarðar, BYR og síðar stefnandi, hafa alla tíð innheimt afborganir af téðu veðskuldabréfi/lánssamningi í íslenskum krónum eins og áður greini, ýmist í samræmi við ákvæði bréfsins eða þvert gegn ákvæðum þess.
Veðskuldabréfið/lánssamningur kveði á um að stefndi viðurkenni að skulda Sparisjóði Hafnarfjarðar „eftirfarandi erlendar fjárhæðir JPY. 56.600.000 eða jafnvirði þeirra fjárhæða í íslenskum krónum, erlendum myntum eða mynteiningum, miðað við sölugengi í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi“. Af þessu sé ljóst að fjárhæð skuldar stefnda vegna veðskuldabréfsins/lánssamningsins sé ekki ákveðin og sé óljós miðað við hvernig greiðslur af því hafi farið fram. Einnig sé ljóst að efni fjárhæðar skuldar stefnda vegna skuldabréfsins sé ekki nægilega ákveðið.
Stefndi telur að það orki tvímælis að viðskiptabréfareglur eigi við í máli þessu, þar sem ekki sér um eiginlegt veðskuldabréf að ræða heldur lánssamning. Þótt svo væri að bréfið væri metið sem veðskuldarbréf og ætti undir viðskiptabréfareglur sé rangt og geti ekki staðist að líta eigi eingöngu til formsins, þ.e. forms veðskuldabréfsins, en horfa ekki til efnis þess eða hvernig að greiðslum eða öðru hafi verið staðið sem allt beri að sama brunni, þ.e. að um hafi verið að ræða íslenska fjárveitingu, íslenskt lán sem þinglýst hafi verið sem slíku af hálfu stefnanda.
Af þessu leiði að skuldari viðurkenni að skulda tiltekna fjárhæð í íslenskum krónum sem svo sannanlega liggi fyrir, enda segir í stöðluðum texta bréfsins „eða jafnvirði þeirra fjárhæða í íslenskum krónum“. Hafi sú krónufjárhæð verið tilgreind í lánsumsókn sem inngreidd fjárhæð á reikning stefnda. Allt að einu sé ljóst að fjárhæð skuldbindingar þeirrar sem veðskuldabréfinu/lánssamningnum hafi verið ætlað að tryggja sé ekki skýr eða ótvíræð nema það sem raunverulega hafi verið lánað og komið hafi inn á reikning stefnda.
Á þessum tíma hafi það og verið tilviljunum háð hvernig form bréfsins eða lánssamnings hafi litið út, hvort sem fjárhæð bréfsins hafi verið í íslenskum krónum með gengisviðmiði eða í erlendri mynt með tilvísun til jafnvirðis í íslenskum krónum eða tilgreind fjárhæð í íslenskum krónum einnig í bréfinu. Framgangsmáti við lánveitingarnar hafi yfirleitt alltaf verið eins, þ.e. að lánað hafi verið í íslenskum krónum, skuldin verið innheimt í íslenskum krónum og viðskiptamaður bankastofnunar aldrei séð erlenda mynt.
Hugtakið skuldabréf eigi sér langa sögu en hafi lengi framan af ekki verið skilgreint í lögum. Með setningu laga nr. 11/2008, um sértryggð skuldabréf, hafi hugtakið verið skilgreint, en samkvæmt 2. tölulið 2. gr. laganna teljist skuldabréf vera skrifleg yfirlýsing þar sem útgefandi viðurkenni einhliða og skilyrðislaust skyldu sína til að inna af hendi ákveðna peningagreiðslu. Þrátt fyrir að þessi skilgreining sé auðvitað bundin við ákvæði laga um sértryggð skuldabréf sé hún efnislega í samræmi við almenna skilgreiningu á hugtakinu skuldabréf. Skuldabréf sé ávallt skjal sem efnislega verði að geta staðið sjálfstætt. Stefndi telur svo ekki vera þar sem öll réttarfarsúrræði bréfsins vanti auk þess sem það, af þeim sökum, sé óframseljanlegt. Jafnframt sé fjárhæð bréfsins ekki nægilega ákveðin þar sem hún sé háð gengi og sé því breytileg. Form bréfsins sé heldur ekki í samræmi við veðskuldarbréf almennt enda komi og fram í bréfinu sjálfu, að um lánssamning sé að ræða.
Það verði því að líta svo á að umþrætt skuldabréf sé haldið slíkum annmarka að það geti ekki staðið sjálfstætt sem skuldabréf, heldur verði við mat á efni þess að líta til þess að það sé frekar líkara lánssamningi, þar sem viðskiptabréfareglur eigi ekki við. Stefnandi hafi útbúið bréfið og hefði hann sem sérfræðingur við gerð skuldabréfa og lánssamninga átt að útbúa bréfið á skilmerkilegan hátt, þar sem skýrt kæmi fram að það væri annað hvort veðskuldabréf eða lánssamningur og eigi slík ónákvæmni að vera stefnda í hag.
Lánið hafi verið tekið í þeim tilgangi að fjármagna kaup á fasteign og því ljóst að stefndi hafi enga þörf haft fyrir erlent lánsfé. Enda sé ljóst af gögnum málsins að ekkert erlent lánsfé hafi skipt um hendur, heldur hafi allt lánsféð verið íslenskt.
Í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, í skýringum við 13. og 14. gr. laganna, komi fram að með lögunum verði ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Þessu til viðbótar verði að líta til þess að ákvæði 13. og 14. gr. laganna gildi um skuldbindingar sem varði sparifé og lánsfé í íslenskum krónum, þar sem skuldari lofi að greiða peninga og þar sem umsamið sé eða áskilið að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Enn fremur segi í 14. gr. laganna að heimilt sé að verðtryggja sparifé og lánsfé samkvæmt 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs.
Að mati stefnda sé einungis hægt að leggja tvennan skilning í tilgreiningu lánsins í bréfinu, annaðhvort sé lánið gengistryggt og þannig verðtryggt, án þess að grundvöllur verðtryggingarinnar sé vísitala neysluverðs, en slíkt er í beinni andstöðu við skýr ákvæði vaxtalaga. Hins vegar að hinn erlendi höfuðstóll lánsins skuli taka breytingum í samræmi við þróun erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu, en af þeim orðum sé ljóst að það sé erlendi höfuðstóllinn sem breytist en ekki hinn íslenski. Geti það ekki þýtt annað en að hinar erlendu fjárhæðir eigi að taka breytingum þannig að hinn erlendi höfuðstóll skuli alltaf vera að jafnvirði hinnar upphaflegu lánsfjárhæðar eins og hún hafi verið kynnt lántaka í lánssamningi. Frá þeirri fjárhæð dragist svo greiddar afborganir. Slíkt sé í beinni andstöðu við vaxtalög.
Öllu framangreindu til stuðnings sé svo það sem fram komi í umsókninni um lánið að lánaðar séu 34.000.000 króna, að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum og hafi verið skuldfært af íslenskum reikningi stefnda, sem þýði með öðrum orðum að greiðslur af láninu skuli lántaki/stefndi inna af hendi í íslenskum krónum. Í samræmi við þetta hafi Sparisjóður Hafnarfjarðar reiknað út fjárhæð hverrar afborgunar og/eða vaxta miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim gjaldmiðli sem lánið hafi samanstaðið af, í íslenskum krónum. Af því leiði að stefndi hafi aldrei séð erlent lánsfé og hvergi sjáist í gögnum málsins að stefnandi hafi yfirhöfuð lánað stefnda erlent fé. Hefði svo átt að vera hefði átt að koma inn á gjaldeyrisreikning stefnda hin erlenda fjárhæð. Vextir hefðu átt að vera í erlendum fjárhæðum eins og skuldabréfið/lánssamningurinn geri ráð fyrir sem ekki hafi orðið. Af öllu framansögðu verði að telja að þótt skuldabréfið/lánssamningurinn teldist kveða á um skuldbindingu í erlendum myntum feli það ekki í sér að samið hafi verið um lán í erlendum myntum. Þvert á móti beri lánssamningur aðila, og þ.m.t. umsókn um lánið, með sér að um sé að ræða lán í íslenskum krónum.
Stefndi byggir á því að þar sem lánsfé í íslenskum krónum hafi verið bundið dagsgengi erlendra gjaldmiðla feli slíkt í sér verðtryggingu sem sé andstæð 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og beri því að endurútreikna lánið í samræmi við þá dóma sem fallið hafi um ólögmæt erlend lán, m.a. dóma Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og 471/2010. Jafnframt beri að líta til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 600/2011 og 464/2012 um fullnaðarkvittanir, en lánið þannig út reiknað muni lækka verulega.
Um lagarök vísar stefndi til 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, almennra reglna samninga- og kröfuréttar og viðskiptabréfareglna.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að greiðsluskyldu stefnda samkvæmt skuldabréfi, útgefnu af stefnda til forvera stefnanda, hinn 17. ágúst 2006. Byggir stefnandi á því að umþrætt skuldabréf sé um lán í japönskum jenum og stefnda beri greiðsluskylda samkvæmt því. Stefndi byggir á því að skuldin sé í íslenskum krónum sem bundin sé með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla, í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindinginn er tilgreind í þeim efnum.
Lánið var veitt með því að stefndi gaf út veðskuldabréf, sem bar yfirskriftina: „Veðskuldabréf í erlendum myntum/mynteiningum“. Ákvæðum umdeilds skuldabréfs hefur verið lýst hér að framan, en þar sagði: „Morrinn ehf., kt. 480806-0850, Merkjateig 8, 270 Mosfellsbæ, viðurkennir hér með að skulda Sparisjóði Hafnarfjarðar, kt. 610269-5599, Strandgötu 8-10, 220 Hafnarfirði, eða þeim sem hann vísar til, eftirfarandi erlendar fjárhæðir: JPY. 56.600.000**fimmtíuogsexmilljónirogsexhundruð 00/100 japönsk jen** eða jafnvirði þeirra fjárhæða í íslenskum krónum, erlendum myntum eða mynteiningum, miðað við sölugengi í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi.“ Í skuldabréfinu var jafnframt kveðið á um að skuldari veitti skuldareiganda heimild til að skuldfæra nánar tilgreindan reikning sinn, sem var í íslenskum krónum, fyrir afborgunum, vöxtum og innheimtukostnaði af láninu á gjalddögum þess. Þá sagði þar jafnframt að skuldareigandi áskildi sér rétt til að yfirfæra jafnvirði eftirstöðva fjárhæða lánsins yfir í íslenskar krónur, miðað við sölugengi í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi.
Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringar á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir.
Eins og að framan greinir var um að ræða skuld reista á skuldabréfi, sem samkvæmt yfirskrift þess var í erlendum gjaldmiðli og þar sem fjárhæð skuldarinnar var skýrlega tilgreind í erlendri mynt, sem sagt var að væri jafnvirði hennar í íslenskum krónum, án þess að fjárhæðin væri tilgreind í íslenskum krónum. Form og efni skuldaskjalsins ber því ótvírætt með sér að um sé að ræða lán í hinni tilgreindu erlendu mynt. Þá var lánsfjárhæðin tilgreind með sama hætti í skilmálabreytingu lánsins, sem ekki breytti eðli skuldbindingarinnar. Ekki er unnt að líta svo á að umsókn stefnda um lánið breyti hinu eiginlega skuldaskjali. Að því gættu gat ákvæði um endurgreiðslu skuldarinnar eða útgreiðslu lánsins engu breytt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 446/2013.
Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að lánið til stefnda hafi verið í erlendum gjaldmiðli og skiptir þá ekki máli í hvaða tilgangi hann tók það. Slíkt lán fellur ekki undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001, um heimildir til verðtryggingar lánsfjár.
Samkvæmt því sem að framan greinir er málsástæðum stefnda hafnað. Stefnda ber að standa við skuldbindingar sínar og þann samning sem hann gerði við forvera stefnanda. Samningurinn hefur verið í vanskilum frá 5. júlí 2009, og var bréfið gjaldfellt hinn 27. ágúst 2013, samkvæmt heimild í skuldabréfinu sjálfu. Krafa stefnanda verður því tekin til greina, eins og hún er fram sett, þ.e.a.s. stefndi verður dæmdur til að greiða skuld sína við stefnanda, sem er í japönskum jenum, ásamt dráttarvöxtum, eins og krafist er.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Morrinn ehf., greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 78.693.754 krónur, ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, af 239.506 krónum frá 5. júlí 2009 til 5. ágúst 2009, af 760.654 krónum frá 5. ágúst 2009 til 5. september 2009, af 1.302.713 krónum frá 5. september 2009 til 5. október 2009, af 1.838.647 krónum frá 5. október 2009 til 5. nóvember 2009, af 2.377.563 krónum frá 5. nóvember 2009 til 5. desember 2009, af 2.903.351 krónu frá 5. desember 2009 til 5. janúar 2010, af 3.432.179 krónum frá 5. janúar 2010 til 5. febrúar 2010, af 3.993.135 krónum frá 5. febrúar 2010 til 5. mars 2010, af 4.522.352 krónum frá 5. mars 2010 til 5. apríl 2010, af 5.050.733 krónum frá 5. apríl 2010 til 5. maí 2010, af 5.567.410 krónum frá 5. maí 2010 til 5. júní 2010, af 6.112.394 krónum frá 5. júní 2010 til 5. júlí 2010, af 6.651.885 krónum frá 5. júlí 2010 til 5. ágúst 2010, af 7.180.884 krónum frá 5. ágúst 2010 til 5. september 2010, af 7.713.953 krónum frá 5. september 2010 til 5. október 2010, af 8.217.526 krónum frá 5. október 2010 til 5. nóvember 2010, af 8.733.658 krónum frá 5. nóvember 2010 til 5. desember 2010, af 9.249.143 krónum frá 5. desember 2010 til 5. janúar 2011, af 9.782.393 krónum frá 5. janúar 2011 til 5. febrúar 2011, af 10.320.331 krónu frá 5. febrúar 2011 til 5. mars 2011, af 10.822.378 krónum frá 5. mars 2011 til 5. apríl 2011, af 11.331.423 krónum frá 5. apríl 2011 til 5. maí 2011, af 11.855.667 krónum frá 5. maí 2011 til 5. júní 2011, af 12.387.808 krónum frá 5. júní 2011 til 5. júlí 2011, af 12.910.446 krónum frá 5. júlí 2011 til 5. ágúst 2011, af 13.463.253 krónum frá 5. ágúst 2011 til 5. september 2011, af 14.026.397 krónum frá 5. september 2011 til 5. október 2011, af 14.596.331 krónu frá 5. október 2011 til 5. nóvember 2011, af 15.144.416 krónum frá 5. nóvember 2011 til 5. desember 2011, af 15.701.158 krónum frá 5. desember 2011 til 5. janúar 2012, af 16.296.831 krónu frá 5. janúar 2012 til 5. febrúar 2012, af 16.894.452 krónum frá 5. febrúar 2012 til 5. mars 2012, af 17.449.175 krónum frá 5. mars 2012 til 5. apríl 2012, af 18.019.065 krónum frá 5. apríl 2012 til 5. maí 2012, af 18.583.117 krónum frá 5. maí 2012 til 5. júní 2012, af 19.188.122 krónum frá 5. júní 2012 til 5. júlí 2012, af 19.765.533 krónum frá 5. júlí 2012 til 5. ágúst 2012, af 20.323.502 krónum frá 5. ágúst 2012 til 5. september 2012, af 20.897.927 krónum frá 5. september 2012 til 5. október 2012, af 21.452.521 krónu frá 5. október 2012 til 5. nóvember 2012, af 22.030.123 krónum frá 5. nóvember 2012 til 5. desember 2012, af 22.574.343 krónum frá 5. desember 2012 til 5. janúar 2013, af 23.106.730 krónum frá 5. janúar 2013 til 5. febrúar 2013, af 23.597.343 krónum frá 5. febrúar 2013 til 5. mars 2013, af 24.058.134 krónum frá 5. mars 2013 til 5. apríl 2013, af 24.498.925 krónum frá 5. apríl 2013 til 5. maí 2013, af 24.912.784 krónum frá 5. maí 2013 til 5. júní 2013, af 25.353.113 krónum frá 5. júní 2013 til 5. júlí 2013, af 25.792.931 krónu frá 5. júlí 2013 til 5. ágúst 2013, af 26.220.563 krónum frá 5. ágúst 2013 til 27. ágúst 2013 og af 78.693.754 krónum frá 27. ágúst 2013 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.