Hæstiréttur íslands

Mál nr. 217/2006


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda


 

Fimmtudaginn 24. maí 2007.

Nr. 217/2006.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson settur saksóknari)

gegn

Unnsteini B. Eggertssyni

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda.

U var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Fyrir lá að U greiddi fyrir útgáfu ákæru upp í hluta þeirra gjaldföllnu skattskulda sem ákæra tók til og var við ákvörðun refsingar litið til þess, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 134/2005. Var sektarrefsing hans ákveðin 83.500.000 krónur. Brot U voru talin meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var honum gert að sæta fangelsi í 8 mánuði, skilorðsbundin í tvö ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 28. mars 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara krefst hann sýknu en að því frágengnu að refsing verði felld niður, en ella milduð og skilorðsbundin.

Ekki er fallist á með ákærða að vísa beri málinu frá dómi vegna vanreifunar ákæruvaldsins en ákæruatriði eru byggð á gögnum frá fyrirtækjunum Kraftvaka ehf. og Kvarða Afli ehf. eins og nánar er rakið í héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.

Samkvæmt framlögðum gögnum hafa greiðslur vegna liðar I í A kafla ákæru ekki náð því marki að þær hafi áhrif á beitingu sektarlágmarks 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Varðandi II. lið A kafla ákærunnar hafði ákærði fyrir útgáfu ákæru hins vegar greitt 948.794 krónur vegna vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins inn á skuld greiðslutímabilsins október 2001. Sú skuld telst samkvæmt því greidd að verulegu leyti, í skilningi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 134/2005. Um skuldir vegna annarra greiðslutímabila í þessum lið ákærunnar gildir sektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987.

Varðandi I. lið B kafla ákærunnar hafði ákærði fyrir útgáfu ákæru greitt að verulegu leyti virðisaukaskattsskuld fyrir uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2002, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt eins og þessu ákvæði var breytt með lögum nr. 134/2005. Skuld vegna staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin maí, júlí og ágúst 2002, sbr. II. lið B kafla ákærunnar, var að fullu greidd. Álagsgreiðslu vegna framangreindra tímabila verður í samræmi við fordæmi Hæstaréttar ráðstafað upp í elstu skuld, sem er skuld vegna greiðslutímabilanna september og október 2002. Greiðsla álags nam samtals 153.730 krónum. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að vegna greiðslutímabilsins maí 2002 hafi reiknuð staðgreiðslugjöld vegna launa ákærða sjálfs numið 225.239 krónum og verður þeirri greiðslu ráðstafað með sama hætti og álaginu. Að teknu tilliti til þessa telst skuld vegna greiðslutímabilanna september og október 2002 að fullu greidd, en skuld samkvæmt síðari tímabilum, sem ákært er fyrir, ekki greidd að verulegu leyti.

Samkvæmt öllu framangreindu verður sektarrefsing ákærða ákveðin 83.500.000 krónur og komi 12 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.

Ákvæði héraðsdóms um fangelsisrefsingu ákærða og skilorðsbindingu hennar verður staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til greiðslu áfrýjunarkostnaðar og eru þar meðtalin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans sem tiltekin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Unnsteinn B. Eggertsson, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu héraðsdóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 83.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 12 mánuði

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, 293.104 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

                                       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2006.

Mál þetta sem dómtekið var 17. janúar sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 6. apríl 2005 á hendur Unnsteini B. Eggertssyni, kennitala 281051-3779, Vallarási 2, Reykjavík, fyrir eftirtalin hegningar- og skatta­lagabrot, sem framkvæmdastjóri einkahlutafélaganna Kraftvaka, kt. 520299-2629 og Kvarða-Afls, kt. 531299-2139.

A. Vegna Kraftvaka ehf.

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og almennum hegningarlögum.

Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2001 og 2002, samtals að fjárhæð 25.578.026 krónur og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2001

September – október                         kr.          5.110.819

Nóvember – desember                     kr.              17.089.752                                      kr.             22.200.571

Árið 2002

Janúar – febrúar                                      kr.             817.926

Mars – apríl                             kr.               2.559.529                                      kr.          3.377.455

Samtals: kr. 25.578.026

Þetta er talið varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og almennum hegningarlögum.

Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfs­manna einkahlutafélagsins á árunum 2001 og 2002, samtals að fjárhæð 17.579.274 krónur, og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2001

Október                                                 kr.          2.318.824

Nóvember                                kr.               2.147.339

Desember                                 kr.                2.509.601                                      kr.          6.975.764

Árið 2002

Janúar                                                    kr.          2.081.314

Febrúar                                                  kr.          2.169.632

Mars                                         kr.                2.813.057

Apríl                                         kr.               1.966.313

Maí                                           kr.               1.355.858

Júní                                           kr.                  217.336                                      kr.             10.603.510

Samtals: kr. 17.579.274

Þetta er talið varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

B. Vegna Kvarða Afls, ehf.

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og almennum hegningarlögum.

Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins árið 2002, samtals að fjárhæð 2.771.139 krónur og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Maí - júní                                 kr.               1.360.118

Júlí - ágúst                                kr.               1.411.021

Samtals                                      kr.         2.771.139

Þetta er talið varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og almennum hegningar­lögum.

Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins árið 2002, samtals að fjárhæð 2.093.501 krónur, og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Maí                                           kr.                  973.192

Júlí                                            kr.                  122.510

Ágúst                                       kr.                  216.359

September                                kr.                    92.450

Október                                                 kr.             281.519

Nóvember                                kr.                   222.382

Desember                                 kr.                  185.089

Samtals                                      kr.         2.093.501

Þetta er talið varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

                Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.  Til vara krefst hann þess að ákærða verði ekki gerð refsing, en að ákvörðun refsingar verði að öðrum kosti frestað skilorðsbundið. Til þrautavara krefst hann þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að fullnustu verði þá frestað skilorðsbundið. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins og þóknun fyrir verjandastörf á rannsóknarstigi með vísan til framlagðrar tímaskráningarskýrslu.

             Við meðferð málsins lýsti sækjandi því yfir í tilefni af þeim skjölum sem lögð voru fram af hálfu verjanda að fallið væri frá þeim hluta ákærunnar sem greinir í kafla B.I. vegna uppgjörstímabils maí til júní að fjárhæð 1.360.118 krónur. Þessi hluti ákærunnar lýtur því eingöngu að uppgjörstímabilinu júlí til ágúst 2002 að fjárhæð 1.411.021 krónu.

Málavextir.

             Með bréfi skattrannsóknarstjóra, dagsett 1. október 2002, hófst formleg rann­sókn á skilum Kraftvaka ehf. á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda. Rann­sökuð voru skil skattaðilans vegna greiðslutímabila á tekjuárunum 2001 og 2002 og skilum hans á innheimtum virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabila á tekjuárunum 2001 og 2002. Lauk rannsókninni með skýrslu skattrannsóknarstjóra og leiddi hún í ljós að fyrrum fyrirsvarsmenn skattaðilans, Eggert Unnsteinsson og ákærði Unnsteinn B. Eggerts­son, töldust ekki hafa staðið að fullu skil á þeirri afdregnu staðgreiðslu opinberra gjalda sem þeim bar að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs og höfðu haldið eftir af launum starfsmanna. Ennfremur leiddi rannsóknin í ljós að þeir hafi

ekki staðið full skil á þeim innheimta virðisaukaskatti sem þeim bar að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs fyrir hönd skattaðilans. 

             Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá var skráður tilgangur Kraftvaka ehf., á því tímabili sem rannsókn skattrannsóknarstjóra tók til, verktakastarfsemi, smá­sala og heildsala, kaup, sala og rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Eggert Unnsteins­son, sonur ákærða, var skráður formaður stjórnar skattaðilans og prókúruhafi það tímabil sem rannsókn stóð yfir en ákærði sat í stjórn skattaðilans og var framkvæmda­stjóri hans með prókúru.

             Bú Kraftvaka ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 9. janúar 2003, og var Kristján Ólafsson hæstaréttar­lög­maður skipaður skiptastjóri.  Skiptum búsins mun enn vera ólokið.

Samkvæmt gögnum málsins var bú Kvarða-Afls ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum þann 12. mars 2003. Hófst formleg rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum Kvarða-Afls ehf. þann 4. september 2003 með því að tilkynning var send skiptastjóra þrotabúsins, Kristjáni Ólafssyni hæstaréttarlögmanni, þess efnis að rannsókn væri hafin á skilum skattaðilans á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti vegna ársins 2002.  Lauk rannsókninni með skýrslu skattrannsóknarstjóra og leiddi hún m.a. í ljós að ákærði, sem fyrrverandi fyrirsvarsmaður skattaðilans, hefði ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna og virðisaukaskatti skattaðilans sem honum bæri að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs og staðgreiðslu fyrir hönd skattaðilans.

             Skráður tilgangur Kvarða-Afls ehf. samkvæmt hlutafélagaskrá var verktaka­starfsemi, útgerð, smásala og heildsala, kaup, sala og rekstur fasteigna og lánastarf­semi. Ákærði var skráður meðstjórnandi skattaðilans og framkvæmdastjóri með pró­kúru­umboð frá 21. október 2000 til 15. september 2002, en frá þeim degi var ákærði formaður stjórnar til 6. febrúar 2003. Á tímabilinu 15. september 2002 til 6. febrúar 2003 var Eggert Unnsteinsson varamaður í stjórn skattaðilans og með prókúruumboð.

             Ekki kom til endurákvörðunar skattfjárhæða í málunum samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra. Í framhaldi þess tók skattrannsóknarstjóri ákvörðun um að vísa þeim til opinberrar meðferðar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                Ákærði var fyrst spurður um A. kafla ákæru vegna Kraftvaka ehf. Kvaðst ákærði ekki gera athugasemd við þá heildarfjárhæð sem þar kemur fram og lögð er til grundvallar. Rétt væri að tölurnar væru byggðar á skýrslum frá fyrirtækinu. Hann hafi verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins á þeim tíma sem um ræðir og séð um daglegan rekstur þess ásamt öðrum starfsmönnum. Ástæðu þess að félagið hafi ekki staðið skil á umræddum gjöldum megi að verulegu leyti rekja til þess að fyrirtækið hafi orðið fyrir „fjárhagslegu hruni“ á örskömmum tíma. Fyrirtækið hafi starfað að verktakaiðnaði í þrjú ár þegar þetta gerðist og tekið að sér ýmis verkefni fyrir opinber fyrirtæki.  Á þessum tíma hafi það tekið að sér stórt verkefni við Þjóðminjasafnið sem hafi gert það að verkum að fyrirtækið fór í þrot. Hafi það mikið til verið vegna þess verksamnings sem lá til grundvallar og að hans mati slælegra vinnubragða starfsmanna Fram­kvæmda­sýslunnar. Kvaðst ákærði hafa keyrt verkið áfram þrátt fyrir slæma fjárhags­lega stöðu og hafi hann þannig í raun náð að takmarka fjárhagslegt tjón ríkissjóðs af málinu. Eftir á að hyggja hafi hann séð að réttast hefði verið að rifta verksamningnum en þá hefði það leitt til þess að tjónið hefði orðið margfalt meira. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa gert neinar ráðstafanir til þess að fá leiðréttingu á því misrétti sem hann teldi sig hafa orðið fyrir. Kvaðst hann ekki hafa haft fjárhagslegt bolmagn til þess að fylgja slíkri kröfugerð eftir.

                Varðandi Kvarða-Afl ehf. kvaðst ákærði hafa verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem var í eigu Kraftvaka ehf., á þeim tíma sem um ræðir og séð um daglegan rekstur þess. Tilgangurinn með rekstri félagsins hafi verið sá að taka yfir þau raflagnaverkefni sem Kraftvaki ehf. hafi verið komið í þrot með að framkvæma. Ákærði kvað það sína skoðun að Kristján Ólafsson hrl., skiptastjóri þrotabús Kvarða-Afls ehf., bæri ábyrgð á því að innheimta margra milljóna fyrir unnin verk hafi farið forgörðum. Þeir fjármunir hafi átt að ganga til greiðslu skulda félagsins.

Ákærði kvaðst kannast við vanskil á virðisaukaskatti fyrir tímabilið júlí-ágúst 2002.Varðandi vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda kvað ákærði það vel hugsanlegt að þær skilagreinar sem lægju þar til grundvallar hafi ekki verið greiddar á eindaga. Hins vegar hafi verið greitt inn á þessa skuld eftir þann tíma. Kvað hann erfiðleika í rekstri hafa valdið því að peningar hafi ekki verið fyrir hendi og því hafi gjöldin ekki verið greidd.

                Ákærði kvað mál þetta hafa haft gríðarlega slæm áhrif fyrir hann. Hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota en þeim skiptum sé ekki enn lokið. Hann hafi gengist í ábyrgð fyrir fyrirtækið og þær hafi fallið á hann. Þá hafi málið haft mikil áhrif á hann persónulega. Hann væri þó í ágætri vinnu í dag.

                Vitnið, Kristján Ólafsson hæstaréttarlögmaður, kvaðst hafa verið skipaður skiptastjóri Kraftvaka ehf. en skiptum væri ólokið. Sagði hann að við athugun á málefnum félagsins hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að málamyndagerningar hafi staðið að baki kaupum ákærða og sonar hans á hlutabréfum í Kvarða-Afli ehf.  Hafi verið um millifærslu í bókhaldi að ræða og því engin raunveruleg kaup átt sér stað. Hafi hann því talið að félagið tilheyrði þrotabúi Kraftvaka ehf. og hafi hann gerst stjórnarformaður Kvarða-Afls ehf.  með prókúru í febrúar árið 2003.

             Vitnið Jóhann Jónsson kannaðist við að hafa verið starfsmaður þrotabús Kvarða-Afls ehf. á árinu 2003. Ekki þykir ástæða til þess að rekja framburð hans fyrir dóminum.

             Vitnið, Sveinbjörn Sveinbjörnsson endurskoðandi, kannaðist við að hafa verið endurskoðandi Kvarða-Afls ehf. frá 6. febrúar 2003 til 12. mars 2003 er félagið fór í þrot. Ekki þykir ástæða til þess að rekja framburð hans fyrir dóminum.

Niðurstaða.

             Í máli þessu er óumdeilt að ákærði var fyrirsvarsmaður Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf. á þeim tíma sem ákæra lýtur að. Fór hann í krafti stöðu sinnar sem framkvæmdastjóri með daglegan rekstur fyrirtækjanna. Fyrir liggur að umræddar skatt­greiðslur féllu í gjalddaga án þess að greiðslur bærust. Verður ekki séð að tölulegur ágreiningur sé um þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í ákæru, enda kannast ákærði við að þær séu byggðar á gögnum fyrirtækjanna og taldi þær réttar að undan­skyldri þeirri fjárhæð sem ákæruvaldið féll frá við aðalmeðferð málsins. Ákærði lýsti því hér fyrir dómi hvernig fjárhagslegir erfiðleikar í rekstri drógu fyrirtækin í þrot. Kvað hann ástæður þess að skattgreiðslum hefði ekki verið skilað í samræmi við skattskýrslur aðallega þær að allt handbært fé félaganna hafi farið í að halda þeim gangandi og forða þannig frekara tjóni.

Með framburði ákærða og fyrirliggjandi gögnum telur dómurinn sannað að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru með því að vanrækja að skila umræddum skattgreiðslum til Tollstjórans í Reykjavík á lögmæltum tíma.  Verður ekki fallist á með verjanda að lagaskilyrði séu til að sýkna ákærða vegna virðisaukaskatts af ógreiddum, útistandandi reikningum, enda liggur ekkert frammi í málinu til stuðnings staðhæfingum ákærða hvað það varðar. Athafnir eða athafnaleysi skiptastjóra þrotabúa félaganna hafa hér heldur enga þýðingu, enda brot ákærða fullframin áður en skiptastjóri tók þar við stjórn.  Hefur ákærði því unnið til refsingar samkvæmt ákvæðum laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 sem vísað er til í ákæru. Þykja brot ákærða vera stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot hans því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Hann hefur haldið því fram að við ákvörðun refsingar skuli litið til þess að ástæður rekstrarerfiðleika fyrirtækjanna, og þar með vanskilanna sem hann er nú sakfelldur fyrir, megi öðrum þræði rekja til þess að forsendur verksamnings þess sem gerður var fyrir tilstilli Framkvæmdasýslunnar hafi brostið og einnig meintrar vanrækslu skiptastjóra Kvarða-Afls ehf. á að nýta andvirði innheimtra reikninga félagsins til að greiða slíkar skattaskuldir. Enda þótt leggja megi  trúnað á að ákærði hafi haft vilja til að vinna fyrirtækjunum vel og takmarka það tjón sem af hlaust þykja engin lagaskilyrði til að taka tillit til framangreindra atriða við ákvörðun refsingar ákærða.

Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 8 mánaða fangelsi. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Fyrir liggur að ákærði stóð skil á hluta vanskilafjárhæðar virðisaukaskatts og staðgreiðslu vegna Kvarða-Afls ehf., þó greitt hafi verið eftir eindaga. Við ákvörðun refsingar verður því litið til 1. ml. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. lög nr. 134/2005, og verður sektarfjárhæð vegna II. kafla í ákæru færð niður úr lágmarki. Að teknu tilliti til leiðréttingar sem gerð var á I. kafla B. í ákæru af hálfu ákæruvaldsins við málsmeðferðina og varðaði uppgjörstímabilið maí - júní 2002, er fjárhæðin sem ákærði er nú sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á, samtals 46.661.822 krónur. Verður hann dæmdur til að greiða 89.700.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi eins árs fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgríms­sonar hæstaréttarlögmanns, 330.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og réttargæsluþóknun að fjárhæð 110.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Birni Þorvaldssyni, fulltrúa ríkis­lögreglustjóra.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð

Ákærði, Unnsteinn B. Eggertsson, sæti 8 mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 89.700.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi eins árs fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Ólafs Hallgríms­sonar hæstaréttarlögmanns, 330.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og réttar­gæslu­þóknun að fjárhæð 110.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.