Hæstiréttur íslands
Mál nr. 154/2007
Lykilorð
- Dýr
- Skaðabætur
- Líkamstjón
|
|
Fimmtudaginn 20. desember 2007. |
|
Nr. 154/2007. |
Áslaug Garðarsdóttir(Magnús Guðlaugsson hrl.) gegn Bjarna Sigurðssyni og (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) Hestamannafélaginu Sörla(Bjarni Ásgeirsson hrl.) |
Dýr. Skaðabætur. Líkamstjón.
Í málinu deildu aðilar um það hvort B og hestamannafélagið S bæru bótaábyrgð á afleiðingum slyss er Á varð fyrir er hestur, er B sat fyrir utan reiðskemmu S, rauk skyndilega af stað og hljóp Á niður, sem þar var stödd vegna reiðnámskeiðs. Þá var jafnframt deilt um það hvort rekja mætti þau meiðsli, sem voru grundvöllur málsóknarinnar til atviksins. Á byggði kröfur sínar á hendur B meðal annars á því að hann hefði átt sök á tjóni hennar þar sem hann hefði ekki átt að fara á bak hesti sínum svo nærri reiðskemmunni en jafnframt að B hefði borið að vara Á og aðra nærstadda við því að hesturinn væri stjórnlaus. Hvað varðaði kröfur Á á hendur S byggði hún á því að aðstæður í grennd við reiðskemmuna hefðu ekki verið nægilega öruggar. Í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna hans sagði að Á hefði ekki sýnt fram á að B hefði sýnt af sér saknæma háttsemi og að ekki yrði fallist á bótaskyldu B á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar. Hefði verið um óhappatilvik að ræða sem B yrði ekki talinn bera ábyrgð á. Var B því sýknaður af kröfum Á. Þá þótti ósannað að rekja mætti slysið til aðstæðna við reiðskemmu S. Var S því sýknað af kröfum Á.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2007. Hún krefst þess að stefndu verði í sameiningu gert að greiða sér aðallega 5.009.012 krónur, en til vara 4.151.987 krónur, með 4,5% ársvöxtum frá 1. október 2001 til 5. október 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi Bjarni Sigurðsson krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi Hestamannafélagið Sörli krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Áslaug Garðarsdóttir, greiði stefndu, Bjarna Sigurðssyni og Hestamannafélaginu Sörla, hvorum fyrir sig 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. janúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. nóvember sl., var höfðað 1. október 2005.
Stefnandi er Áslaug Garðarsdóttir, Vesturtúni 55b, Álftanesi.
Stefndu eru Bjarni Sigurðsson, Klausturhvammi 5, Hafnarfirði og Hestamannafélagið Sörli, Kaldárselsvegi, Sörlastöðum, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 5.372.793 krónur með 4,5 % vöxtum af 2.536.310 krónum frá 16. maí 2001 til 1. október s. á., en af 5.372.793 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, 5. október 2005, en með dráttarvöxtum af 5.372.793 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara krefst stefndi þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 4.421.442 krónur með 4,5 % vöxtum af 2.022.708 krónum frá 16. maí 2001 til 1. október s. á., en af 4.421.442 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, 5. október 2005, en með dráttarvöxtum af 4.421.442 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar.
Stefndi Bjarni Sigurðsson krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórlega. Stefndi krefst málskostnaðar.
Stefndi Hestamannafélagið Sörli krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, en til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði verulega lækkaðar og að málskostnaður verði látin niður falla.
I.
Í málinu deila aðilar um það hvort stefndu beri bótaábyrgð á afleiðingum slyss er stefnandi varð fyrir er hestur, er stefndi Bjarni sat fyrir utan Sörlastaði, rauk skyndilega af stað og hljóp stefnanda, sem þar var stödd, niður og hvort rekja megi þau meiðsli, sem eru grundvöllur málssóknarinnar, til atviksins.
Helstu atvik eru þau að þann 16. maí 2001 um kl. 21:00 yfirgaf stefnandi reiðnámskeið sem hún sótti hjá stefnda Hestamannafélaginu Sörla í reiðskemmu félagsins við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Stefnandi fór út úr reiðskemmunni með hest sinn og gekk út á opið svæði við skemmuna. Hún lét hestinn í hendur eiginmanns síns sem fór á bak. Hjá stefnanda var stödd Dóróthea Jónsdóttir. Á sama tíma komu stefndi Bjarni og eiginkona hans á staðinn en hún var að fara á reiðnámskeið. Er stefndi Bjarni var staddur við inngöngudyrnar að reiðskemmunni, sem þátttakendur reiðnámskeiða fara um, var hann aftur kominn á bak hesti sínum Baldri, 13 vetra klári, en átti eftir að setja fót í annað ístaðið, þegar hesturinn fældist skyndilega og tók á rás. Stefndi kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því á þessum tímapunkti hvað varð til þess að hesturinn fældist, en á staðnum hefði verið mikið um fólk og bifreiðar. Án þess að stefndi gæti neitt við ráðið hefði hesturinn stefnt á stefnanda og hefði fjarlægðin frá ráspunkti til stefnanda aldrei verið meiri en 15-20 metrar. Hesturinn hefði strokist við stefnanda sem við það hefði fallið til jarðar. Með hliðsjón af því hvað þetta gerðist allt á stuttum tíma og hve fjarlægðin var lítil kvaðst stefndi ekki hafa komið því við að aðvara neinn á staðnum. Hins vegar hefði hann gert allt sem hann gat til þess að beygja hestinum frá stefnanda. Stefndi kvaðst hafa liðsinnt stefnanda í beinu framhaldi og hlúð að henni allt þar til hjálp barst.
Þar sem stefnandi stóð ásamt Dórótheu kvað hún hest stefnda Bjarna skyndilega hafa komið hlaupandi og stefnt beint á hana. Stefndi Bjarni hefði setið á hestinum. Hesturinn hefði hlaupið af miklum þunga á hana, þannig að hún hafi henst upp í loft og lent á jörðinni með höfuðið fyrst. Hún hefði þá verið búin að taka reiðhjálminn af höfði sínu. Hún kvað hestinn hafa komið á vinstri hlið hennar og og hefði hesturinn stigið á hægra læri hennar. Dóróthea hefði einnig fallið í jörðina er hesturinn skall á þeim, en hún hefði sloppið betur frá árekstrinum en stefnandi, enda hefði höggið verið mest á stefnanda. Stefnandi kvaðst hafa borið fyrir sig hendurnar, en engin leið hefði verið til að verjast þessu áhlaupi, sem varð mjög hratt.
Stefnandi kvaðst hafa verið flutt á slysadeild í sjúkrabifreið í kjölfar atburðarins. Hún hefði strax fundið fyrir sársauka í hægra læri og í ökkla, auk þess sem hún hefði verið með áverka á höfði. Þá hefði hún farið að finna fyrir verk í hálsi og baki skömmu eftir óhappið. Verkirnir hefðu ekki minnkað er frá leið slysinu nema síður sé og hefði hún þurft að leita til lækna í kjölfar slyssins.
Stefndi Bjarni kvað kallað hafa verið á dýralækni í framhaldi af þessum atburði, sem hefði skoðað hestinn og við þá skoðun hefði ekkert óeðlilegt komið í ljós. Áður en atvikið átti sér stað hafði verið gerð aðgerð á hestinum í streng í framhaldi af geldingu og hafði aðgerðin á engan hátt háð hestinum og hefði hann verið við mjög góða heilsu.
Í stefnu er vikið að læknisvottorðum sem lögð hafa verið fram í málinu svo og matsgerð dómkvadds matsmanns.
Í áverkavottorði Vilhjálms Ara Arasonar, dagsettu 30. mars 2003, fyrir Heilsugæslustöðina Sólvang í Hafnarfirði segir m.a. um stefnanda: “Virðist hafa tognað aðall. vi. megin í hálsi niður hrygg en marðist á hæ. öxl þar sem hún kom niður. Einnig vægari maráverkar á ganglimum. [ ] nokkuð ljóst er að hún var með umtalsverð stoðkerfiseinkenni, vöðvabólgueinkenni, sem að líkindum má að einhverju leyti rekja til slyssins amk.”
Í áliti Alberts Páls Sigurðssonar, sérfræðings í taugasjúkdómum, dagsettu 15. ágúst 2003, sem stefnandi fór til 24. júlí 2002 segir m.a.: “Við skoðun þá var hún með mikil þreifieymsli í vöðvum í hálsi, yfir smáliðum í hálsi og occipital festum vinstra meira en hægra megin. Einnig væg þreifieymsli yfir vinstri supraspinatus sin en enginn verkur við registeraðar hreyfingar. Verkur var einnig við þreifingu yfir vinstri gluteal bursu. Áslaug var með skerta extension í hálsi og vægari skerðing við að snúa höfði til vinstri. [ ] Við slysið 16. 05. 01 fékk Áslaug slæma tognun á háls auk mars á hæ. læri, sköflung og ökkla. Í kjölfarið var hún með verki í hálsi, vi. öxl, mjóbaki auk svefntuflana. Hún var slæm af verkjum í 3-4 mánuði, batnandi í sex mánuði en segist hafa verið óbreytt eftir það. Áslaug var frá vinnu í 4 ½ mánuð.”
Stefnandi kveður áhrif slyssins á hana hafa verið ýmis og sé hún t.a.m. þreyttari og orkuminni eftir slysið en áður var. Hún þreytist í baki við langar setur og hafi óþægindi í hálsi og vinstri öxl, sem leiði upp í höfuð og valdi þrálátum höfuðverkjum. Hún vinni í svipuðu starfshlutfalli og áður, en eigi erfitt með það vegna þreytu. Hún vinni við bókhald, sem krefjist setu langtímum saman, en hún eigi erfitt með það vegna sársauka. Andlega sé hún þyngri en áður vegna líkamlega ástandsins.
Þann 10. nóvember 2004 var Guðmundur Björnsson læknir dómkvaddur til að meta tímabundna og varanlega örorku, þjáningabætur og miskastig stefnanda. Í matsgerð hans segir m.a.: “Við skoðun á hálsi eru snúningshreyfingar um 80 gráður í báðar áttir og hallahreyfing um 40 gráður í báðar áttir. Það vantar um tvær fingurbreiddir upp á að haka nái bringubeini og rétta er skert með óþægindum. Það tekur meira í vinstra megin við allar þessar hreyfingar og er með þreifieymsli í vöðvum hliðlægt í hálsi, út í herðar og niður á milli herðablaða. Þá eru einnig talsverð óþægindi í hnakkagróp, meira vinstra megin. [ ] Við skoðun á baki í heild sinni eru hreyfingar vægt skertar, sérstaklega í mjóbaki með óþægindum í endastöðu hreyfinga. Það eru þreifieymsli í vöðvum hliðlægt í bakinu öllu, bæði í brjóstbaki og mjóbaki. Það eru óþægindi milli hryggjartinda og álagseymsli á mótum lendhryggjar og spjaldhryggjar.”
Niðurstaða matsmanns er þessi:
Tímabundið atvinnutjón 100 % frá 16.05.01 til 01.10.01
Þjáningartími frá 16.05.01 til 01.10.01, og á þeim tíma telst hún ekki hafa verið rúmliggjandi.
Varanlegur miski 15%
Varanleg örorka 10%
Hefðbundin varanleg læknisfræðileg örorka 15%.
Matsmaðurinn staðfesti mats sitt í símaskýrslu við aðalmeðferð málsins.
Með bréfi til stefnda Bjarna, dagsettu 28. ágúst 2001, fór lögmaður stefnanda fram á afstöðu stefnda til bótaskyldu á tjóninu. Lögmaður stefnda hafnaði bótaábyrgð stefnda með bréfi dagsettu 17. september 2001.
Í greinargerð stefnda Bjarna kemur fram að stefndi hefði haft samband við móður stefnanda daginn eftir atburðinn og spurt frétta af stefnanda. Hefði móðir stefnanda sagt honum að útlitið væri ekki eins slæmt og fyrst hefði áhorfst og bætt því við að stefnandi hefði ekki brotnað eða neitt því um líkt. Fimm dögum eftir óhappið hefði stefnandi farið í lokareiðtúrinn sem hafi tekið um eina klukkustund. Farið hefði verið frá reiðskemmunni hjá Sörla upp að Hvaleyrarvatni í gegnum skógræktargirðinguna og niður á reiðveg að hesthúsahverfi. Á þessum tímapunkti hefði slysið ekki virst aftra stefnanda að taka virkan þátt í reiðmennskunni.
Í byrjun júní 2001 eða u.þ.b. hálfum mánuði eftir óhappið hefði stefnandi haft samband við stefnda og spurt hvar stefndi væri tryggður. Á sama tíma hefði stefnandi tilkynnt stefnda að hún ætti rétt á bótum úr hendi hans vegna þess líkamstjóns sem hún hefði beðið vegna atburðarins.
Þann 28. ágúst 2001 hafi lögmaður stefnanda ritað stefnda bréf þar sem fullyrt var að fyrirsjáanlegt væri að afleiðingar slyssins yrðu varanleg örorka hjá stefnanda og að stefndi væri ótvírætt bótaskyldur gagnvart stefnanda. Þessu bréfi hafi lögmaður stefnda svarað með bréfi 17. september 2001 þar sem fram komi að hann telji að um óhappatilvik hafi verið að ræða sem engum yrði kennt um og væri bótaskyldu stefnda hafnað og talið að hvorki væri hægt að byggja á hlutlægum bótareglum né almennu skaðabótareglunni.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur stefnandi, stefndi Bjarni Sigurðsson, og Björn Bjarnason, formaður stefnda Hestamannafélagsins Sörla. Skýrslur vitna gáfu Björgvin Þórisson, dýralæknir, Helga Björg Sveinsdóttir, eiginkona stefnda Bjarna, Vilhjálmur Ólafsson, fyrrverandi formaður stefnda Hestamannafélagsins Sörla, Dórótea Jónsdóttir, vinkona stefnanda og Guðmundur Björnsson endurhæfingarlæknir og dómkvaddur matsmaður í málinu.
Stefnandi kvaðst hafa komið út af reiðnámskeiðinu ásamt Dórótheu vinkonu sinni og hefðu þær leitt hesta sína út. Fyrir utan hefðu eiginmenn þeirra beðið og tekið við hestunum og hjálmum og ætlað að fara með hestana í hesthús. Þar sem þær stóðu þarna fyrir utan hefði hestur með knapa skyndilega komið á harðastökki. Hún hefði séð hestinn um leið og hann lenti á henni. Hún hefði engin viðvörunarorð heyrt. Hún hefði skollið í jörðina.
Stefnandi kvaðst hafa verið þarna á 10 tíma reiðnámskeiði fyrir byrjendur en hún hefði hvorki haft reynslu af hestum né þekkingu á hestum fyrir. Hún lýsti afleiðingum slyssins.
Stefndi Bjarni Sigurðsson kvaðst hafa farið með eiginkonu sinni á reiðnámskeið umrætt sinn sem hún var á hjá Sörla. Þau hefðu beðið eftir að námskeiðinu sem var á undan lyki og hefði eiginkona hans þá farið inn. Hann hefði verið að stíga á bak hesti sínum Baldri er hesturinn rauk allt í einu af stað og lenti á stefnanda. Þetta hefði gerst á einni svipstundu.
Hann kvað stefnanda hafa haft samband við sig hálfum mánuði eftir óhappið og innt hann eftir því hjá hvaða tryggingafélagi hann væri tryggður. Stefnandi hefði jafnframt sagt að hann væri bótaskyldur.
Hann kvaðst hafa verið búinn að eiga hest sinn Baldur í 4 ár. Þetta hefði verið 13 vetra gæfur hestur, sem aldrei hafði fælst áður. Á þessum tíma hefði hann ekki vitað að hesturinn hafði verið með streng áður en hann eignaðist hann. Hann kvað hestinn ekki hafa verið meiddan á fæti. Stefndi kvaðst vera vanur hestamaður enda búinn að vera á hestum frá barnsaldri. Hann þekkti því vel til hesta og vissi að þeir geta bæði bitið og slegið. Hann kvað umferð hesta, hunda, bíla og fólks hafa verið þarna fyrir utan reiðskemmuna. Hann kvað nýbúið að fella hestinn vegna aldurs, en hann hefði notað hestinn eftir óhappið.
Vitnið Björgvin Þórisson dýralæknir staðfesti fyrir dóminum vottorð sem hann gaf út 27. febrúar 2006 og lagt var fram í málinu. Þar segir: “Ef hestur hefur verið skorinn vegna strengs, og aðgerðin tekist vel og hesturinn verið einkennalaus síðan, þá er hægt að fullyrða að hesturinn er læknaður af meininu. Því er ekki hægt að tengja strengskurð á hestinum fyrir 7-8 árum við óstöðugleika eða að vera hættulegur dýrum og mönnum í umgengni.” Vitnið kvaðst hafa skoðað umræddan hest nokkrum klukkustundum eftir slysið og hefðu engin meiðsli verið á fæti hestsins við þá skoðun. Vitnið kvað hesta vera flóttadýr í eðli sínu.
Vitnið Björn Bjarnason núverandi formaður stefnda Hestamannafélagsins Sörla kvaðst hafa tekið við formennskunni í október 2004 af Vilhjálmi Ólafssyni sem var formaður félagsins er óhappið varð. Hann kvaðst aldrei hafa fengið tilkynningar um dómkvaðningu matsmanns vegna óhappsins né boðun á matsfund. Hann kannaðist ekki við neinar almennar reglur um umferð og lagningu bifreiða á svæðinu. Hins vegar væri bifreiðum lagt sunnan við húsið, við mölina og við stéttina þar sem gengið er inn þegar skemmtanir væru í skemmunni og hestamót. Almennt væri bifreiðum ekki lagt við vesturgafl skemmunnar. Hann kvað engar breytingar hafa verið gerðar á svæðinu eftir slysið. Hann kvað umferð almennt fremur litla við húsið þegar reiðnámskeið fara fram. Umferðin væri mun meiri um helgar.
Vitnið Vilhjálmur Ólafsson fyrrverandi formaður stefnda Hestamannafélagsins Sörla kvaðst ekkert hafa komið að málinu. Hann hefði hætt sem formaður 20. október 2004. Hann kvaðst hvorki hafa fengið tilkynningu um dómkvaðningu matsmanns né um matsfund. Hann kvað öryggi þátttakenda á reiðnámskeiðum tryggt. Um það sjái reyndir reiðkennarar. Eftir að námskeiði lýkur og fólk er farið út sé það ekki lengur á ábyrgð félagsins.
Vitnið Dóróthea Jónsdóttir kvaðst hafa staðið við hlið stefnanda er hún heyrði hófatak. Hún hefði litið upp og séð hestinn rétt áður en hann rauk á stefnanda án nokkurrar viðvörunar. Hún kvað bringu hestsins hafa lent á stefnanda og skellt henni niður og áfram og hefði hesturinn svo stigið á stefnanda. Sjálf hefði hún dottið er hesturinn rak rassinn í hana.
Vitnið Guðmundur Björnsson endurhæfingarlæknir staðfesti matsgerð sína frá 20. júní 2005 fyrir dóminum. Hann kvaðst ekki hafa boðað neinn á vegum stefnda Hestamannafélagsins Sörla á matsfund. Hann kvað stefnanda hafa komist á stöðugleikapunkt þann 1. október 2001 og hefði þá í fyrsta lagi átt að vera unnt að meta örorku stefnanda. Hann kvað ekkert óeðlilegt við það að örorka sé ekki metin fyrr en 12-18 mánuðum eftir slys eða jafnvel síðar.
II.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda Bjarna á því að stefndi eigi sök á tjóni stefnanda með því að hafa ekki haft fulla stjórn á hesti sínum er hann sté á bak honum, sem varð til þess að hesturinn rauk af stað og hljóp stefnanda niður af fullum krafti, með þeim afleiðingum að hún hlaut af varanlegt líkamstjón.
Í lögregluskýrslu sem tekin hafi verið af stefnda Bjarna þann 9. október 2001, sé haft eftir honum að hann hafi verið kominn á bak og átt eftir að setja annan fótinn í ístaðið þegar hesturinn tók á rás, án þess að hann sjálfur kæmi nokkrum vörnum við. Hesturinn hafi stefnt á hina slösuðu, sem stefndi taldi vera í um 20 metra fjarlægð frá sér. Stefndi hafi sagt fjarlægðina hafa verið það stutta að hann hafi ekki komið því við að aðvara neinn. Hann hafi reynt að stöðva hestinn en er það tókst ekki hafi hann reynt að beygja honum frá stefnanda. Það hafi ekki tekist og hafi hesturinn þá hlaupið hana niður.
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi borið að vara stefnanda og aðra nærstadda við því að hesturinn væri stjórnlaus. Fyrst stefndi hafði tíma til að reyna að stöðva hestinn og reyna að beygja honum frá stefnanda hljóti hann að hafa haft tíma til að kalla til stefnanda og annarra til að vara við því sem var yfirvofandi. Mögulegt gæti hafa verið að koma í veg fyrir slysið með því að kalla til stefnanda og vara hana við hestinum, en eins og atvik urðu hafi ekkert verið sem stefnandi gat gert til að koma í veg fyrir slysið, eða draga úr tjóninu sem hún varð fyrir.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi borið ábyrgð á því að hesturinn lyti stjórn hans á því svæði sem slysið varð á, þar sem umferð gangandi fólks var, sem og bílar og hestar. Óvæntur hávaði, t.d. bílflaut, hafi svo sem getað fælt hestinn líkt og hvað annað. Það hafi alfarið verið í höndum stefnda að gæta þess að hesturinn héldi ró sinni.
Þá liggi fyrir að hesturinn hafði farið í aðgerð á nára. Hafði hesturinn verið skorinn upp vegna strengs og sé ekki útilokað að sú aðgerð hafi haft í för með sér einhvers konar fælni hjá hestinum. Stefnda Bjarna hafi því borið að sýna ýtrustu varkárni, bæði vegna þessa galla í hestinum, og eins vegna þess að hann var með hættulegt dýr á svæði þar sem hann mátti vita að börn gætu verið að leik. Stefndi hafi vanrækt allar varúðarskyldur sínar með þeim afleiðingum að slys varð og tjón, er hann beri fulla ábyrgð á.
Auk ofangreinds telur stefnandi stefnda Bjarna bera ábyrgð á tjóninu með vísan til almennra reglna skaðabótaréttar um að eigendur húsdýra beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem dýrin kunna að valda. Þá byggir stefnandi einnig á varúðarákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987, sérstaklega 4. gr.
Kröfu sína á hendur stefnda Hestamannafélaginu Sörla, byggir stefnandi á því að aðstæður í kringum námskeiðsstaðinn hafi ekki verið nægilega öruggar, en stefndi hafi staðið fyrir námskeiðinu sem stefnandi sótti og greiddi fyrir og séð um það hesthúsahverfi sem um ræðir og skipulag þar og hafi stefnda borið að sjá til þess að umbúnaður væri þannig að eigi væri boðið heim sérstakri hættu. Hafi stefnda borið að sjá til þess að öruggt umhverfi væri fyrir nemendur námskeiðsins, og ekki síst vegna þess að námskeið þetta var sérstaklega ætlað byrjendum í hestamennsku og þeim sem hræddir voru við hesta, en námskeiðið kallaðist “Hræðslupúkanámskeið”. Fyrir utan skemmuna, þar sem námskeiðið fór fram, hafi verið margir hestar, auk gangandi umferðar fullorðinna og barna og bílaumferðar. Hafi stefnda borið að sjá til þess að þeim sem komu út úr skemmunni að námskeiði loknu stafaði ekki hætta af þeim hestum eða annarri þeirri umferð sem var þar fyrir utan, né öðrum þeim sem voru á þessu opna svæði staddir. Megi í því sambandi vísa til 3. gr. reglugerðar um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit hrossa nr. 132/1999 þar sem fram komi að varast beri að hross verði fyrir óvæntum hávaða, en ekki fáist séð að það hafi verið tryggt á því svæði sem hér um ræðir. Sé þess því krafist að stefndi, Hestamannafélagið Sörli, verði dæmt greiðsluskylt.
Krafa stefnanda um að báðir stefndu verði dæmdir til greiðslu skaða- og miskabóta in solidum er byggð á þeirri meginreglu skaðabótaréttar að séu fleiri en einn aðili bótaskyldir beri þeir óskipta ábyrgð gagnvart tjónþola.
Stefnandi sundurliðar dómkröfur sínar þannig:
1. Aðalkrafa:
1.1. Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, skv. 2. gr. skbl;
Meðallaun á mán. sem stefnandi hafði á tímabili atvinnutjóns
Meðallaun á mánuði m.v. 2 mánuði fyrir slys x 6%
framlag vv. í lifsj. kr. 196.971,-.
Tímabundið atgvinnutjón=5,5 mánuðir.
Krafa vegna 100% tímab. atv.tjóns frá 16.05.2001-01.10.2001:
196.971x5,5 mán.-117.644x5,5 mán kr. 436.299
vegna vinnu utan heimilis (50%)
196.971x5,5 mán. kr. 1.083.341
v./vinnu á heimili (50%).
Samtals krafa v/tímabundins atvinnutjóns kr. 1.519.640
1.2. Þjáningabætur, skv. 3. gr. skbl; 136 dagar x 5.853 kr. 138.720
1.3. Bætur v./varanlegs miska, skv. 4. gr. skbl;15%x 5.853 kr. 877.950
1.4. Bætur v/varanlegrar örorku, skv. 5.-7. gr. (2.mgr.7. gr.) skbl.
(laun 1998)632.870x215,2/170,4=799.258x6%
framlag vv. orlofs. kr. 847.213
(laun 1999)1.047.105x215,2/182,0=1.238.115 x
6% framlag vv. í lífsj. kr. 1.312.402
(laun 2000) 981.735x215r,2/194,1=1.088.456 x 6%
framlag vv. í lífsj. kr. 1.153.763
kr. 3.313.378
(Meðallaun á ári) 3.313.378/3= 1.104.459
(heimavinnandi 50%) 1.104.459x2=2.208.918
2.208.918 x 12,595x 10% kr. 2.782.132
Samtals kr. 5.318.442
Útlagður kostnaður:
Lyfjakostnaður kr. 6.406
Kostnaður við endurhæfingu kr. 32.445
Fatakostnaður kr. 15.500
Samtals útlagður kostnaður kr. 54.351
Aðalkrafa samtals kr. 5.372.793
Stefnandi kveður bætur vegna tímabundins atvinnutjóns vera byggðar á meðaltekjum síðustu tveggja mánaða áður en tjón varð, og þar með fyrir upphaf tímamarks hins tímabundna atvinnutjóns. Samkvæmt matsgerð Guðmundar Björnssonar læknis teljist stefnandi hafa verið 100 % óvinnufær frá 16.05.2001 til 01.10.2001. Frá kröfunni séu dregin þau laun sem stefnandi hafði á tímabili hins tímabundna atvinnutjóns. Sé þess krafist að mismunur á meðallaunum stefnanda síðustu tvo mánuði fyrir slysið og meðallaunum hennar á tímabili hins tímabundna atvinnutjóns verði bætt, enda megi rekja þann tekjumissi stefnanda beint til afleiðinga slyssins. Krafist sé launa vegna heimilisstarfa stefnanda, en hún hafi verið 50 % heimavinnandi, sbr. 3.mgr. 1. gr. skbl.
Krafa um bætur vegna varanlegs miska sé byggð á matsgerð dómkvadds matsmanns þar sem fram komi að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins nemi 15 %, auk 4. gr. skbl.
Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku er grundvölluð á framangreindri matsgerð, en í henni sé komist að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka stefnanda sé 10 %. Stefnandi hafi unnið hlutastörf, en verið heimavinnandi 50 % og sé krafan því byggð á 2. mgr. 7. gr. Krafan sé leiðrétt skv. lánskjaravísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, þ.e. stöðugleikatímamark, sbr. 15. gr. skbl.
Kröfur um þjáningabætur og varanlegan miska kveður stefnandi leiðréttar skv. lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, og séu fjárhæðir krafnanna, auk kröfu um varanlega örorku, hækkaðar eða lækkaðar þannig að þær standi á heilu eða hálfu þúsundi króna, nema krafa um þjáningabætur, sem sé hækkuð eða lækkuð þannig að fjárhæðin standi á heilum tug króna, sbr. 15. gr. skbl.
Stefnandi hafi verið til meðferðar hjá læknum og sjúkraþjálfurum eftir slysið og hafi hún haft af því ýmsan kostnað, auk annars útlagðs kostnaðar, sem farið sé fram á endurgreiðslu á.
2. Varakrafa:
Varakrafa vegna tímabundins atvinnutjóns, sbr. 2. gr. skbl.
Meðallaun á mán. á tímabili atv.tjóns x 6 % framlag
Vinnuveitanda í lífsj. kr. 117.644
(til frádráttar)
Meðallaun á mán. m.v. 6 mánuði fyrir slys x 6 % framlag
vv. í lífsj. kr. 150.280
Tímabundið atvinnutjón = 5,5 mánuðir
Krafa vegna 100 % tímab. atv.tjóns frá 16.05.2001-01.10.2001:
150.280 x 5,5 mán.- 117.644 x 5,5 mán. kr. 179.498
v. vinnu utan heimilis (50 %).
150.280 x 5,5, mán. kr. 826.540
v. vinnu á heimili (50 %).
Samtals krafa v. tímabundins atvinnutjóns kr. 1.006.038
Varakrafa vegna varanlegrar örorku, sbr. 5.-7. gr. (3. mgr. 7. gr.)sbl;
Lágmarkslaun, 1.756.00 x 6 & framlag vv. í lífsj.= 1.861.360.
1.861.360 x 12.595x10 % kr. 2.344.383
Varðandi kröfu um þjáningabætur, bætur vegna varnalegs miska
sem og varðandi útlagðan kostnað er vísað til aðalkröfu.
Þjáningabætur kr. 138.720
Bætur vegna varanlegs miska kr. 877.950
Útlagður kostnaður kr. 54.351
Varakrafa samtals kr. 4.421.442
Af hálfu stefnanda er byggt á því, að verði talið rangt að miða við meðaltekjur stefnanda síðustu 2 mánuði fyrir tjón, sé þess krafist til vara varðandi bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, að byggt verði á meðaltekjum síðustu 6 mánaða áður en tjón varð, og þar með fyrir upphaf tímamarks hins tímabundna atvinnutjóns. Frá kröfunni séu dregin þau laun sem stefnandi hafði á tímabili hins tímabundna atvinnutjóns, en krafist sé launa vegna heimilisstarfa stefnanda, sbr. 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga.
Verði ekki fallist á tvöföldun launa vegna heimavinnu stefnanda og stuðst við 2. mgr. 7. gr. skbl. vegna varanlegrar örorku, sé þess krafist að miðað verði við lágmarkstekjur skv. 3. mgr. 7. gr. skbl. Megi sjá af matsgerð hins dómkvadda matsmanns að tekjur stefnanda hafi verið undir því lágmarki sem lögin setja.
Bæði í aðal- og varakröfu sé krafist 4,5 % vaxta vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáningarbóta og varanlegs miska frá því að tjón varð og fram að stöðugleikatímamarki, en frá þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku, samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skbl. fram til þingfestingardags.
Þá sé krafist dráttarvaxta frá því 30 dögum eftir þingfestingu málsins með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 16. gr. skbl.
Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, almennra reglna skaðabótaréttar, umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr., og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. og 33. gr. laga um meðferð einkamála. Varðandi varakröfu sína vísar stefnandi til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, sem og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 2.mgr. 16. gr. skaðabótalaga.
III.
Stefndi Bjarni Sigurðsson byggir dómkröfur sínar á því, að hann beri ekki ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir hvorki á grundvelli hlutlægra bótareglna, né heldur samkvæmt hinni almennu skaðabótareglu.
Nánast strax frá tjónsdegi hafi stefnandi lagt ríka áherslu á það að hún ætti rétt á bótum vegna meints líkamstjóns. Fyrst hálfum mánuði frá óhappinu í samtali við stefnda og þá í bréfi lögmanns stefnanda tæpum þremur mánuðum frá atburðinum við reiðhöllina. Stefndi veki athygli á því að á þeim tíma hafi það hvorki verið á færi stefnanda né lögmanns hennar að fullyrða það að fyrirsjáanlegar afleiðingar slyssins yrðu veruleg örorka. Ekkert læknamat hafi þá legið fyrir.
Þá veki það athygli að stefnandi byrji að færa dagbók að því er virðist um leið og slysið varð og til loka ársins 2001. Bæði séu færslur í dagbókinni, stíll, fullyrðingar og annað nokkuð sérstakar.
Stefndi kveður víða í málatilbúnaði stefnanda vera misræmi þegar borið sé saman hennar eigin frásögn, skýrslur lögreglu, lækna og fleiri. Svo dæmi séu nefnd segi stefnandi að hún hafi orðið vör við sjóntruflanir eftir slysið og annað afleitt og þá hafi hún kvartað mikið um höfuðverk. Allt virðist þetta vera afleiðingar slyssins. Í læknisvottorði Alberts Páls Sigurðssonar komi hins vegar greinilega fram að stefnandi hafi komið í fjórar læknisskoðanir á rúmu ári, eða á tímabilinu 11. janúar 2000 til 23. janúar 2001. Þar hafi stefnandi kvartað yfir verkjum í höfði og sjóntruflunum. Þessi einkenni hafi því verið til staðar tæpu 1 ½ ári fyrir slysdag.
Af hálfu stefnda er því sérstaklega mótmælt að hægt verði að fella óhapp það sem stefnandi varð fyrir undir almennu skaðabótaregluna og með skírskotun til annarra reglna s.s. 4. gr. umferðarlaga. Ekkert í gögnum málsins styðji það að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi né heldur stórkostlegt gáleysi.
Þá sé því mótmælt að hesturinn hafi haft einhverja galla og þá þannig að stefnda hafi borið að sýna sérstaklega ýtrustu varúð af þeim sökum. Stefndi hafi að eigin sögn ávallt sýnt ýtrustu varúð í umgengni við hesta, enda sé það góð regla sem allir sem komi að hestamennsku eigi að venja sig á. Hesturinn í þessu máli hafi verið við góða heilsu. Hann hafi verið gæfur og rólyndur og hafi hann aldrei fyrir slysið sýnt af sér þá hegðun að hann væri kvikur eða óstöðugur. Allt þetta styðji þá tilgátu stefnda að ytri hávaði eða annað hafi fælt hestinn og verði stefnda ekki kennt um það.
Þá liggi fyrir í málinu að á svæðinu þar sem hestarnir söfnuðust saman voru bifreiðar, þ.á.m. bifreið stefnanda, sbr. skýrslu stefnanda hjá lögreglu. Bifreið stefna hafi hins vegar ekki verið á staðnum enda hafi hann komið þangað ríðandi. Þá komi fram í lögregluskýrslu sem tekin var af Sigrúnu Sigurðardóttur, að ekki væri ætlast til að bifreiðar væru þar sem menn og dýr safnast saman, það skapaði óþarfa hættu. Verði því að færa ábyrgðina yfir á stefnanda hvað þetta varðar að hafa ekki gætt nægilega varúðarsjónarmiða, þ.e. að hafa bifreið sína innan um fólk, börn og hesta í þröngu umhverfi.
Stefndi telur meiri líkur en minni vera á því t.d. að eingöngu gangsetning bifreiðar geti hafa fælt hestana á staðnum. Hestar séu flóttadýr sem taki á rás ef þeim bregður eða þeir meiða sig.
Þá hafi aðdragandi að óhappinu verið mjög hraður og óvæntur. Ekkert ráðrúm hefði verið til að gefa viðvaranir eða annað, líkt og stefnandi haldi fram í stefnu að stefndi hefði átt að gera. Bæði tímalengd og fjarlægð hefi verið lítil. Ekkert hefði verið hægt að gera nema reyna að afstýra árekstrinum. Þá sé ekki rétt eins stefnandi haldi fram að hesturinn hafi hlaupið á hana af öllu afli. Hesturinn hafi á hinn bóginn strokist við stefnanda sem við það hafi fallið til jarðar.
Stefndi byggir á því að ekki sé í gildi almenn hlutlæg regla um skaðabótaábyrgð á tjóni sem dýr veldur, enda sé því ekki haldið fram í málinu. Stefnandi virðist hins vegar eingöngu miða kröfu sína við almennu skaðabótaregluna, þ.e. að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi eða einfalt eða stórkostlegt gáleysi. Stefndi telur málsatvik og gögn málsins taka af allan vafa um að háttsemi stefnda verði ekki talin saknæm, né að hann hafi sýnt af sér gáleysi eða að stefndi hafi brotið varúðarreglu 4. gr. umferðarlaga. Um hafi verið að ræða óhappatilvik sem engum verði kennt um og því ekki bótaskylt á grundvelli sakarrreglunnar. Stefndi hafi með engu móti getað átt von á því að gæfur og rólyndur hestur tæki skyndilega á rás án nokkurra viðvarana, enda hafði slíkt aldrei gerst áður.
Þá telur stefndi að með því einu að skrá sig á námskeiðið og vera innan um hesta á staðnum hafi stefnandi tekið á sig áhættu. Menn geti alltaf átt von á því að meiðast við það að vera í leik sem þessum án þess að nokkrum verði um kennt.
Stefndi mótmælir bæði aðal- og varakröfu stefnanda og telur hann stefnanda ekki hafa tekist að sanna að hún hafi orðið fyrir fjártjóni. Af framlögðum gögnum, þ.á.m. staðgreiðsluyfirliti verði ekki séð að stefnandi hafi orðið fyrir neinu fjártjóni varðandi tímabundið atvinnutjón, fjárhagslegri örorku, miska, hvað þá meintu tjóni varðandi heimilisstörf. Þá séu tjónsútreikningar ekki byggðir á réttum forsendum.
Byggt er á því, að hafi stefnandi einhvern tíma átt einhvern bótarétt, þá hafi hún glatað rétti sínum til skaðabóta sökum tómlætis.
Kröfu sína um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Stefndi Hestamannafélagið Sörli byggir sýknukröfur sínar á eftirfarfarandi málsástæðum.
Í fyrsta lagi á þekkingu stefnanda á staðháttum. Stefnandi hafi verið búin að ljúka sínum sjöunda reiðtíma að Sörlastöðum þegar slysið varð. Verði að gera ráð fyrir því að stefnanda hafi verið staðhættir vel kunnugir. Henni hafi mátt vera vel kunnugt um að utan við reiðskemmuna var umferð ríðandi fólks, bílar og krakkar.
Í öðru lagi er byggt á því að umhverfið og útganga úr austurgafli Sörlastaða sé þannig að aðgengi sé gott og útsýni og rými til allra átta. Tvöföld vængjahurð sé á gaflinum, ætluð þeim sem erindi eiga um reiðskemmuna með hross sín. Þá sé steypt upphituð stétt, u.þ.b. 2ja metra breið utan við hluta gafls, ætluð gangandi umferð um húsið. Stéttin nái ekki um það svæði sem ætlað sé umferð hrossa, inn og út úr húsinu. Ekki verði með nokkurri sanngirni lagðar þær kvaðir á stefnda sem húseiganda að þarna séu við dyrnar einhvers konar girðingar eða varnir gagnvart hestum eða bílum. Engar reglur skyldi stefnda til slíkra frekari aðgerða.
Í þriðja lagi beri að líta til fjarlægðar stefnanda frá reiðskemmu er slys átti sér stað. Verði að byggja á því að stefnandi hafi verið komin út af hinu raunverulega námskeiðssvæði strax og hún yfirgaf reiðskemmuna. Eftir það hafi stefnandi verið úti á eigin ábyrgð.
Í fjórða lagi verði að áætla að nokkrar mínútur hafi liðið frá því að stefnandi yfirgaf húsið þar til slysið varð. Hún hafi því alfarið verið utan við reiðskemmuna á eigin forsendum og á eigin ábyrgð. Útilokað sé að leggja nokkra ábyrgð á stefnda í þessu sambandi. Þar sé ekkert orsakasamband milli þess námskeiðs sem stefnandi var á og umrædds slyss.
Í fimmta lagi verði að telja orsakir slyssins vera hreina óhappatilviljun. Ekkert liggi fyrir um orsakir þess að hestur stefnda Bjarna tók roku og hljóp stefnanda niður. Ætlaðar ástæður þess séu allar getgátur. Ekki verði neitt á þeim byggt.
Í sjötta lagi verði stefndi á engan hátt gerður ábyrgur fyrir slysi þessu með stefnda Bjarna, ef svo fer að ábyrgð verði lögð á hann. Allt orsakasamhengi þar á milli skorti. Yrði ábyrgð lögð á stefnda vegna slyss stefnanda væri um hreina hlutlæga ábyrgð að ræða, sem ekki ætti sér stoð í lögum.
Í sjöunda lagi mótmælir stefndi því að aðstæður kringum námskeiðsstaðinn hafi ekki verið nægilega öruggar eins og haldið sé fram í stefnu. Það sé ósannað.
Í áttunda lagi sé því mótmælt sem haldið sé fram í stefnu að það eigi að leiða til aukinnar ábyrgðar stefnda gagnvart stefnanda, að stefndi hafi tekið námskeiðsgjöld fyrir námskeiðið og að stefndi standi að einhverju leyti að skipulagi hesthúsahverfisins og hafi umsjón með hverfinu. Þarna sé engu orsakasambandi fyrir að fara sem leggi auknar ábyrgðir á stefnda hvað umrætt slys varðar. Ekki liggi fyrir að nokkur sök sé af hálfu stefnda í málinu og að hann hafi á nokkurn hátt búið svo um umhverfi sitt að sök varði. Stefnandi beri alla sönnunarbyrði fyrir slíkum fullyrðingum.
Í níunda lagi sé því mótmælt að stefndi eigi að bera ábyrgð á því hverjir kunni að ríða um hlað reiðskemmunnar, ganga þar um eða aka. Þarna gildi almennar reglur. Þarna sé opið svæði og vítt og vegfarendur verði að bera ábyrgð á ferðum sínum sjálfir.
Í tíunda lagi sé því mótmælt að reglugerð nr. 132/1999, sbr. 3. gr., um aðbúnað og heilbrigði hrossa eigi við um tilvik það sem hér um ræðir. Tilvitnuð grein vísi til aðbúnaðar og innréttinga hesthúsa og sé í engu samhengi við þetta mál.
Í ellefta og tólfta lagi vísi stefndi til þess að hann hafi hvorki verið boðaður til þinghalds þar sem matsmaður var dómkvaddur að beiðni stefnanda né til matsfundar til að gæta hagsmuna sinna við framkvæmd mats. Hvoru tveggja leiði til sýknu, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 299/2003 og 1969/1163.
Í þrettánda lagi sé tjónsútreikningum stefnanda mótmælt.
a. Aðalkrafa stefnanda. Tímabundið atvinnutjón.
Í forsendum matsgerðar, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, sé gert ráð fyrir því að stefnandi hafi verið í 100% starfi fyrir slysið, að hluta sem launþegi og að hluta sem verktaki. Því megi gera ráð fyrir að þær tekjur sem stefnandi hafði fyrir slysið byggi á 100% vinnuframlagi en ekki á 50% eins og lagt sé til grundvallar í stefnu. Þessari kröfu sé mótmælt. Staðgreiðsluyfirlit stefnanda gefi ekki tilefni til að ætla að breytingar hafi orðið á launum stefnanda á þeim tíma sem hún var álitin óvinnufær eða frá tjónsdegi 1. október 2001. Þá sé því mótmælt að stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna óvinnufærni við heimilisstörf.
b. Aðalkrafa stefnanda. Varanleg örorka.
Stefndi telur að með sömu rökum og fram koma í a-lið að ofan varðandi tímabundið atvinutjón, sé ósannað að stefnandi hafi haft þær launatekjur sem fram komna á skattaframtali miðað við 50 % starfshlutfall. Með hliðsjón af 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skuli því miðað við lágmarkstekjur, sbr. varakröfu stefnanda.
C, Útreikningsstuðull.
Stefndi kveðst gera athugasemdir við útreikningsstuðul þann sem fram komi í stefnu, 12,595. Stefndi telji réttan stuðul vera 12.568, en útreikningur stuðulsins miðist við að stefnandi hafi verið 31 árs og 42 daga á stöðugleikapunkti.
Í fjórtánda lagi sé því mótmælt að tilvitnuð lagarök stefnanda eigi á nokkurn hátt við hvað þátt stefnda varðar. Ekki verði séð að lögð verði ábyrgð á stefnda á grundvelli 3. gr. umferðarlaga og skorti samhengi þar á milli.
Varðandi lagarök vísar stefndi einkum til VI. kafla laga nr. 91/1991, um sönnunarmat, einkum sbr. 44. gr. Þá vísast til IX. kafla s.l. varðandi matsgerðir. Varðandi málskostnað vísast til XXI. kafla, einkum 129., 130. og 131. gr. Þá verði ekki betur séð en að málshöfðun þessi sé tilhæfulaus á hendur stefnda og beri að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar. Varðandi kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísar stefndi til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
V.
Eins og að framan er rakið er mál þetta sprottið af því atviki þegar hestur stefnda Bjarna Sigurðssonar, Baldur, tók skyndilega á rás í þann mund er stefndi settist á bak honum og hljóp á stefnanda sem við það féll til jarðar og slasaðist. Þetta gerðist fyrir utan reiðskemmu stefnda Hestamannafélagsins Sörla. Þetta sætir ekki ágreiningi. Ekki er vitað hvað olli því að hestur stefnda Bjarna rauk af stað.
Dýralæknir var kvaddur á staðinn strax eftir slys stefnanda og skoðaði hann hestinn. Hefur hann borið fyrir dóminum að hesturinn hafi ekki verið meiddur á fæti eins og í stefnu er gefið í skyn. Þá hefur hann borið, í samræmi við vottorð sem hann gaf, að hafi hestur verið skorinn vegna strengs, og aðgerðin tekist vel og hesturinn verið einkennalaus síðan, þá sé hægt að fullyrða að hesturinn sé læknaður af meininu. Því sé ekki hægt að tengja strengskurð á hestinum fyrir 7-8 árum við óstöðugleika eða að vera hættulegur dýrum og mönnum í umgengni. Samkvæmt þessu þykir umrætt slys ekki verða rakið til þess að eitthvað hafi verið að hestinum Baldri.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda Bjarna hafi borið að hafa stjórn á hesti sínum er hann settist á bak honum og að vara þá sem þarna voru staddir við er hesturinn tók á rás. Þarna hafi verið mikil umferð bifreiða, hesta og gangandi fólks og gæti óvæntur hávaði t.d. bílflaut hafa getað hafa fælt hestinn eins og hvað annað. Það hafi því verið stefnda Bjarna að gæta þess að hesturinn héldi ró sinni. Þá hafi stefndi verið þarna með hættulegt dýr á svæði þar sem hann vissi að börn gætu verið að leik. Stefndi hafi því vanrækt allar varúðarskyldur sínar með þeim afleiðingum að slys hlaust af.
Eins og aðstæður eru á vettvangi, sem dómari kynnti sér á vettvangsgöngu fyrir aðalmeðferð málsins, verður hvorki talið óeðlilegt né óvarlegt af stefnda Bjarna að stíga á bak hesti sínum fyrir utan reiðskemmuna umrætt sinn. Í málinu hefur ekki verið sýnt fram á að hann hafi fælt hestinn eða hesturinn fælst vegna atvika sem stefndi verði talinn bera ábyrgð á. Er með öllu óupplýst hvað olli því að hesturinn fældist og rauk af stað. Fram hefur komið að allt gerðist þetta á örskotsstund og þykir óvarlegt að fullyrða að stefnda Bjarna hafi verið gerlegt að aðvara þá sem á vegi hestsins urðu. Þá hefur því eigi verið andmælt að stefndi Bjarni reyndi á þeirri örskotsstund er hann hafði frá því að hestur hans rauk af stað og þangað til hann lenti á stefnanda, að gera allt sem unnt var til að bægja hestinum frá stefnanda. Þykir stefnanda ekki hafa tekist að sanna að stefndi Bjarni hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, en án sakar verður hann eigi dæmdur bótaskyldur vegna slyss stefnanda. Ekki kemur til álita að beita hlutlægri ábyrgð enda ætti slík niðurstaða sér ekki stoð í lögum. Að öllu þessu virtu er því ekki fallist á að stefndi Bjarni hafi sýnt af sér slíka háttsemi eða aðgerðaleysi að varði hann bótaskyldu gagnvart stefnanda. Verður að telja að um óhappatilvik hafi verið að ræða, sem stefndi verður ekki talinn bera ábyrgð á. Ber því þegar af þeim ástæðum að sýkna stefnda Bjarna af öllum kröfum stefnanda.
Kröfur sínar á hendur stefnda Hestamannafélaginu Sörla byggir stefnandi á því að aðstæður í kringum reiðnámskeiðið hafi ekki verið nægilega öruggar eins og áður er rakið. Hafi stefnda m.a. borið að sjá til þess að þeim sem komu út af námskeiðinu stafaði hvorki hætta af hestum og annarri þeirri umferð sem var fyrir utan reiðskemmuna, né af öðrum sem voru þarna á þessu opna svæði. Er á því byggt að stefnandi hafi greitt námskeiðsgjald og að stefndi hafi haft umsjón með skipulagi þessa hesthúsahverfis.
Eins og að framan kemur fram var stefnandi að ljúka sínum sjöunda tíma á reiðnámskeiði hjá stefnda Hestamannafélaginu Sörla er hún varð fyrir slysinu. Verður að fallast á þau sjónarmið stefnda að stefnanda hafi þá mátt vera aðstæður fyrir utan reiðskemmuna ljósar, að þar væri umferð hesta, manna og bifreiða. Þarna væru menn ýmist að koma eða fara. Rúmt er og vítt til allra átta fyrir utan reiðskemmuna. Þar eru bifreiðastæði ekki sérstaklega merkt, en fram kom í skýrslu formanns stefnda að bifreiðum væri aðallega lagt sunnanvert við reiðskemmuna en síður við gaflinn að vestanverðu þar sem farið er með hesta inn á reiðnámskeiðin. Eins og áður er getið var stefnandi komin út af reiðnámskeiðinu er slysið varð. Var hún þá eigi lengur undir handleiðslu reiðkennara síns sem gætti alls öryggis á sjálfu námskeiðinu og þar af leiðandi á eigin ábyrgð fyrir utan námsskeiðshúsið. Þykir ósannað að rekja megi slysið til aðstæðna við reiðskemmu stefnda eða til atvika eða hegðunar starfsmanna stefnda sem leiði til skaðabótaábyrgðar stefnda gagnvart stefnanda. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda Hestamannafélagið Sörla af kröfum stefnanda.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður stefnandi dæmd til að greiða stefndu málskostnað eins og í dómsorði greinir.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.
Dómsorð:
Stefndu, Bjarni Sigurðsson og Hestamannafélagið Sörli, eiga að vera sýknir af kröfum stefnanda, Áslaugar Garðarsdóttur, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu Bjarna Sigurðssyni og Hestamannafélaginu Sörla hvorum fyrir sig 300.000 krónur í málskostnað.