Hæstiréttur íslands
Mál nr. 611/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Föstudaginn 18. september 2015. |
|
Nr. 611/2015.
|
A (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. september 2015, sem barst réttinum 14. sama mánaðar, en kærumálsgögn bárust 17. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 31. ágúst sama ár um nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, 148.880 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2015.
Með beiðni, dagsettri 31. f.m. hefur A, kt. [...], [...], Reykjavík, farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 31. f. m., um það að hann skuli vistast á sjúkrahúsi. Af hálfu varnaraðila í málinu, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, er kröfu sóknaraðila mótmælt.
Í málinu eru skýrslur þriggja lækna sem þekkja til sóknaraðila og andlegrar heilsu hans, geðlæknanna B og C og D, deildarlæknis, sem er í sérnámi í geðlækningum. Ber þeim saman um það að sóknaraðili sé haldinn geðrofssjúkdómi, líklegast geðklofa. Hafi hann ekki fengist til þess að þiggja læknismeðferð og skorti allt innsæi í sjúkdóminn. Geðheilsu hans hafi hrakað verulega undanfarið ár og sé fullreynt að fá hann til þess að þiggja meðferð við sjúkdóminum. Þá sé hann ófær um að sjá um sig sjálfur og síðast hafi hann lagst út og látið fyrir berast í tjaldi. Hefur komið fram hjá D að sóknaraðili geti jafnvel verið sjálfum sér hættulegur.
Dómarinn telur ljóst af þessu áliti læknanna að brýna nauðsyn beri til þess að sóknaraðili vistist á sjúkrahúsi svo unnt sé að veita honum meðferð við alvarlegum geðsjúkdómi. Er skilyrðum 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga til þeirrar ráðstöfunar fullnægt. Ber því að synja kröfu hans og ákveða að fyrrgreind ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast.
Þóknun til skipaðs talsmanns sóknaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, ber að greiða úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], um það að felld verði úr gildi sú ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 31. ágúst 2015, að vista hann á sjúkrahúsi.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun til talsmanns sóknaraðila Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.