Hæstiréttur íslands

Mál nr. 84/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna


Þriðjudaginn 5

 

Miðvikudaginn 5. mars 2008.

Nr. 84/2008.

M

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

K

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

 

Kærumál. Fjárslit milli hjóna.

Í máli vegna ágreinings við opinber skipti til fjárslita milli M og K krafðist M þess að  nánar tilgreindar aflaheimildir yrðu taldar einkaeign hans og persónubundin réttindi. Þá krafðist hann þess að fyrirliggjandi mat á verðmæti A ehf. yrði ekki talið bindandi við skiptin og einnig að K yrði svipt umráðum nánar tilgreindra fjármuna. Með vísan til laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða var tekið fram að aflaheimildum væri úthlutað til skipa, en umræddar heimildir tilheyrðu skipi í eigu A ehf. og væri verðmæti þeirra innifalið í verði félagsins og var kröfu hans hafnað. K hafði ekki farið fram á yfirmat og ekki krafist ógildingar hinnar umdeildu matsgerðar. Þá taldist hann ekki hafa rökstutt með fullnægjandi hætti hvaða áhrif hann teldi að ætlaðir ágallar á framkvæmd matsins kynnu að hafa á niðurstöðu þess og var kröfu hans er laut að gildi matsins því einnig hafnað. Þá var ekki fallist á að K yrði svipt umráðum þeirra fjármuna sem um ræddi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2008, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum varðandi opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að aflaheimildir sem nánar eru tilgreindar í kvöð dagsettri 7. mars 2007, séu einkaeign hans og persónubundin atvinnuréttindi og eigi að falla utan skipta. Einnig krefst hann þess að fyrirliggjandi mat dómkvaddra matsmanna á A ehf. verði ekki talið bindandi við skiptin. Loks krefst hann þess að varnaraðili verði svipt vörslum á nánar tilgreindum fjármunum búsins og gert að skila þeim til skiptastjóra. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Meðal gagna málsins er skjal sem ber yfirskriftina „Yfirlýsing um kvöð“ og er dagsett 7. mars 2007 og ber með sér að hafa verið þinglýst degi síðar. Er þetta yfirlýsing sóknaraðila og staðfesting á að A ehf., sem sé eigandi að skipunu B, skipaskrárnúmer [...], visti aflaheimildir í nánar tilgreindum tegundum sem sóknaraðili hafi fengið úthlutað á skipið C árið 1983. Aflaheimildirnar séu hans persónubundnu atvinnuréttindi og hafi fylgt honum á skipið D, þaðan á skipið E, en séu nú vistaðar á skipið B. Loks greinir að ekki megi færa þessar heimildir af skipinu B nema með leyfi sóknaraðila og undirskrift.

Í kröfugerð sinni vísar sóknaraðili til umræddrar yfirlýsingar sem kvaðar á umræddar aflaheimildir, sem séu hans persónubundnu atvinnuréttindi og eigi því að falla utan skipta. Í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða er skýrt kveðið á um að aflaheimildum sé úthlutað til skipa, sbr. 4. gr. laganna varðandi veiðileyfi og 2. mgr. 8. gr. varðandi aflamark. Eigandi skips getur flutt umræddar heimildir milli skipa með tilteknum takmörkunum, að gættum nánar tilgreindum skilyrðum, sbr. 15. gr. laganna. Óumdeilt er að A ehf. er eigandi skipsins B. Ráðstöfunarréttur aflaheimilda skipsins er samkvæmt framansögðu bundinn við eiganda þess og breytir einhliða yfirlýsing sóknaraðila, sem að framan er rakin, engu um þetta efni og verður ekki séð að hún geti haft gildi við úrlausn málsins. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður staðfest niðurstaða hans um að hafna kröfu sóknaraðila um að réttindi þessi skuli falla utan skipta.

Þá gerir sóknaraðili kröfu um að mat sem fyrir liggur á verðmæti A ehf. verði ekki talið bindandi við skiptin. Byggir hann kröfu sína á því að nánar tilgreindir ágallar hafi verið á framkvæmd matsins, einkum sá að matsmaður hafi ekki tekið mið af réttmætum kröfum sóknaraðila um nánar tilgreindar forsendur við matið. Ennfremur telur hann að skiptastjóra hafi borið að hlutast til um að afla tiltekinna gagna sem sóknaraðili taldi sér nauðsynleg til að geta tekið afstöðu til réttmætis matsins. Sóknaraðili krefst ekki ógildingar umræddrar matsgerðar. Þá hefur hann ekki rökstutt með fullnægjandi hætti hvaða áhrif hann telur að ætlaðir ágallar á framkvæmd matsins kunni að hafa á niðurstöðu þess þannig að á því verði ekki byggt. Verður því með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, staðfest niðurstaða hans um að hafna þessari kröfu sóknaraðila.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur að öðru leyti. 

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2008.

I

          Málið barst dóminum 2. júlí sl. og var þingfest 20. ágúst.  Það var tekið til úr­skurðar að loknum munnlegum flutningi 10. janúar sl.

          Sóknaraðili er M, [heimilisfang].

          Varnaraðili er K, [heimilisfang].

          Sóknaraðili krefst þess „1) –að staðfest verði með dómi, að aflaheimildir, sem nánar eru tilgreindar í kvöð dagsettri 7. mars 2007, sbr. dskj. 3, séu einkaeign mannsins og per­sónu­bundin atvinnuréttindi og eigi að falla utan skipta við búskipti á milli sóknaraðila og varnar­aðila – 2) –að úrskurðað verði, að fyrirliggjandi mat dómkvaddra matsmanna á einka­hlutafélaginu [A] ehf. verði ekki talið bindandi við skipti í búinu – 3) –að fallist verði á kröfu mannsins um að konunni verði gert að skila inn til skiptastjóra þeim fjár­munum og hún svipt vörslum á þeim fjármunum, sem hún heldur á bankareikningum, þannig að jafnræði verði með aðilum en maðurinn heldur því jafnframt fram, að hætt sé við að konan eyði þeim fjármunum, sem hún hefur vörslur á.“  Þá er krafist máls­kostnaðar.

          Varnaraðili krefst þess „1.  Að hafnað verði með úrskurði þeirri kröfu sóknaraðila að afla­heimildir vistaðar á [skipið B], eign [A] ehf., séu einkaeign sóknaraðila og falli utan skipta.  2.  Að hafnað verði þeirri kröfu sóknaraðila að mat dómkvadds matsmanns sé ekki bindandi og kveðið verði á um það í úrskurðarorði að matið skuli gilda við skipti á búi aðila máls þessa.  3.  Að kveðið verði á um það í úrskurðarorði að vilji sóknaraðili ekki útlagningu á félaginu [A] ehf. á matsverði, þá skuli selja félagið með atbeina skipta­stjóra.  4.  Að hafnað verði þeirri kröfu sóknaraðila að varn­ar­aðili verði svipt umráðum þeirra fjármuna sem hún hafði umráð yfir við upphaf skipta þann 14. mars 2005.“  Þá er krafist málskostnaðar.

II

          Aðilar gengu í hjónaband [...] 1992 og slitum samvistir í apríl 2005.  Bú þeirra var tekið til opinberra skipta 8. ágúst sama ár og skiptastjóri skipaður.  Áður en þau gengu í hjónaband gerðu þau með sér kaupmála en hann var felldur úr gildi með öðrum kaup­mála 16. október 2004.  Við upphaf skipta kom til ágreinings um gildi síðari kaup­málans auk þess sem aðilar deildu um hvort alfarið skyldi beitt helm­inga­skipta­reglu hjú­skap­arlaga við skiptin.  Þessum ágreiningi lauk með dómi Hæstaréttar 13. júní 2006 sem stað­festi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. maí sama ár um að við skiptin skyldi beitt helmingaskiptareglunni samkvæmt 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.  

          Ekki lauk deilum aðila með dómi Hæstaréttar og sendi skiptastjóri málið á ný til dóms­ins eins og rakið var.  Í bréfi skiptastjóra er gerð svofelld grein fyrir ágrein­ingnum: 

          „1.  Meðal þeirra eigna sem koma til skipta er einkahlutafélagið [A] ehf. [kt.].  Félagið á [skipið B], skipaskrárnúmer [...] sem vistar m.a. afla­heim­ildir sem nánar eru tilgreindar í kvöð dagsettri 07.03.2007.  Maðurinn heldur því fram að þessar afla­heimildir séu hans einkaeign og eigi að falla utan skipta.  Kröfunni er mótmælt af hálfu konunnar.  Nauðsynlegt er að vísa ágreiningi um þetta til úr­lausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.

          2.  Einkahlutafélagið [A] ehf. var metið m.v.t. 20.- 21. gr. skl. nr. 20/1991.  Ágrein­ingur er um gildi matsins.  Konan heldur því fram að matið sé bindandi.  Maðurinn verði að leysa til sín félagið á matsverði en vilji hann það ekki þá beri að selja félagið.  Mað­urinn mótmælir þessu og telur að afla beri tiltekinna gagna og upp­lýs­inga sem fram koma í bréfum hans dagsettum 24. apríl og 17. maí.  Afstaða skipta­stjóra er sú að matið sé bind­andi enda var ekki krafist yfirmats.  Nauðsynlegt er að vísa ágreiningi um þetta til úr­lausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.

          3.  Maðurinn krefst þess að konan verði svipt umráðum þeirra fjármuna sem voru á banka­reikningum á hennar nafni á viðmiðunardegi skipta 14. mars 2005.  Ástæða sé til að óttast að hún eyði peningunum eða rýri þá verulega.  Skiptastjóri hafnaði kröf­unni.  Ekkert liggur fyrir sem sýnir fram á að ástæða sé til að óttast að fjár­munirnir fari for­görðum en þó svo væri eru eignir búsins það miklar að unnt væri að jafna það við skiptin.  Nauðsynlegt er að vísa ágreiningi um þetta til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.“

III

          Sóknaraðili byggir á því að aflaheimildirnar sem um er deilt í málinu séu per­sónu­bundin réttindi sín og geti því ekki komið til skipta.  Vísar hann til ákvæða laga um stjórn fisk­veiða og til 72. gr. stjórnarskrárinnar máli sínu til stuðnings.

          Á því er og byggt að mat það sem fyrir liggur sé haldið ágöllum sem leiði til þess að það verði ekki lagt til grundvallar skiptum.  Sóknaraðili byggir á því að hann hafi ekki fengið að koma að nauðsynlegum upplýsingum og að matsmaður hafi ekki aflað þeirra þrátt fyrir ábendingar.  Sóknaraðili telur að hann eigi ekki að beiðast yfirmats heldur sé það skiptastjóra að gera það.  Loks er bent á að matið standist ekki lengur þar eð for­sendur þess hafi breyst með niðurskurði aflaheimilda.

          Loks byggir sóknaraðili á því að hætta sé á að varnaraðili eyði fjármunum sem eru á banka­reikningum og hún hafi yfirráð yfir.  Bendir hann á að ekki sé eðlilegt að hún hafi þessi yfirráð og geti farið með innstæður að vild, en hann hafi ekki yfirráð yfir fjár­munum á sama hátt.

 

          Varnaraðili byggir á því að aflaheimildir séu ekki persónubundin réttindi heldur fylgi þau skipum, sbr. ákvæði laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.  Hvergi séu þau skil­greind sem atvinnuréttindi einstaklinga.  Aflaheimildirnar séu því eign A ehf. og eigi að koma til skipta eins og aðrar eignir búsins.

          Varnaraðili byggir á því að matið skuli lagt til grundvallar skiptum, enda hafi ekki verið krafist yfirmats, sbr. 22. gr. skiptalaga nr. 20/1991.

          Varnaraðili krefst þess að hafnað skuli kröfu um að varnaraðili verði svipt um­ráðum yfir bankareikningum og byggir á því að ekkert hafi verið fært fram því til stuðn­ings að hætta sé á að húni misfari með fjármunina.

          Þess er krafist að úrskurðað verði að vilji sóknaraðili ekki útlagningu á A ehf. skuli félagið selt.  Þessi krafa er á því byggð að nauðsynlegt sé að ljúka skiptum og komi ekki fyrir­mæli um þessi atriði sé líklegt að sóknaraðili reyni að draga skiptin á langinn.

IV

          Samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða er aflaheimildum úthlutað til skipa en ekki einstaklinga.  Í þessu máli er ekki til úrlausnar hver eignarréttarleg staða afla­heim­ilda er, enda skiptir það ekki máli þar eð engin lagarök standa til þess að um sé að ræða per­sónubundin verðmæti á nokkurn hátt.  Aflaheimildum þeim sem um ræðir var út­hlutað skipi í eigu A ehf. og er því verðmæti þeirra innifalið í verðmæti félagsins.  Kröfu sókn­araðila um að aflaheimildirnar séu einkaeign hans er því hafnað.

          Skiptastjóri óskaði eftir því við sýslumann, með vísun til 17. gr. skiptalaga, að til­nefndur yrði matsmaður til að meta verðmæti A ehf.  Varð sýslumaður við þessari beiðni 22. febrúar 2007 og liggur matsgerðin fyrir.  Meðal gagna málsins eru fund­ar­gerðir tveggja matsfunda sem sóknaraðili sótti ásamt lögmanni sínum.  Ekki verður séð að fleiri fundir hafi verið haldnir.  Í 22. gr. skiptalaga segir að vilji aðili ekki una mati geti hann krafist þess við sýslumann að yfirmat fari fram.  Geri hann það ekki er matið bind­andi fyrir hann.  Sóknaraðili hefur ekki krafist yfirmats samkvæmt þessu ákvæði og verður því að leggja matið til grundvallar skiptum búsins.

          Krafa sóknaraðila um að svipta varnaraðila yfirráðum yfir bankareikningum er ekki studd lagarökum eða gögnum að öðru leyti.   Skiptastjóri hefur upplýst að jafnvel þótt varnar­aðili eyddi peningum af reikningunum væru nægir fjármunir til í búinu til að tryggja að sóknaraðili fengi sinn hlut óskertan.  Engin efni eru því til að verða við kröfu sóknar­aðila um þetta.

          Í 108. gr. skiptalaga segir að meðan opinber skipti standi yfir sé skiptastjóri einn bær um að ráðstafa þeim eignum sem koma til skipta samkvæmt 104. gr. og til að taka við þeim eða greiðslu andvirðis þeirra úr hendi þriðja manns, nema þær hafi þegar verið lagðar aðilum út.  Í 110. gr. laganna eru fyrirmæli um hvernig staðið skuli að út­lagn­ingu eigna bús og ráðstöfun þeirra og í 111. gr. eru ákvæði um ráðstöfun þeirra eigna sem ekki eru lagðar aðilum út.  Samkvæmt því sem fyrir er mælt í þessum ákvæðum eru ákvarðanir teknar á skiptafundum og sér síðan skiptastjóri um að fram­fylgja þeim.  Ekki eru því efni til þess fyrir dóminn á þessu stigi að taka afstöðu til þeirrar kröfu varnaraðila hvort A ehf. skuli lagt sóknaraðila út eða það selt.

          Samkvæmt öllu framanskráðu er kröfum sóknaraðila hafnað og skal hann greiða varnar­aðila 300.000 krónur í málskostnað.

          Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

          Hafnað er kröfu sóknaraðila, M, um að framangreindar afla­heim­ildir séu einkaeign hans. 

          Framangreint mat tilnefnds matsmanns skal lagt til grundvallar skiptum á búi sóknar­aðila og varnaraðila, K.

          Hafnað er kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði svipt umráðum yfir fram­an­greindum fjármunum.

          Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.